Í tilefni dagsins

Ég er morgunhani. Finnst gott að taka daginn snemma og skella mér í sund áður en ég tekst á við vinnudaginn. Það er enn árla morguns þegar ég smeygi mér ofan í ylvolga laugina, næðisstundin er mín og ég hlakka til að teygja úr mér í  flauelsmjúku vatninu. Það ekkert sem truflar hugsanir mínar og þegar ég spyrni mér frá bakkanum set ég niður verkefni dagsins í huganum, brýt heilann um málefni líðandi stundar, eða bara um lífið og tilveruna.

Í dag er 24. október, daginn þann árið 1975 lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mik­il­vægi vinnu­fram­lags kvenna fyr­ir þjóðfé­lagið. Mér verður hugsað til baka, man eftir svart hvítum fréttamyndum sjónvarps frá þeim degi,  og man að hjarta 12 ára stelpu sló með skeleggum konum, sem þúsundum saman hópuðust á Austurvöll  og mótmæltu kúgun og óréttlæti.

Það var eitthvað sem kom því inn hjá mér strax í bernsku að þegar ég yrði fullorðin langaði mig umfram allt að verða sjálfstæð og hafa yfir mínu lifi að segja. Að vera þriðja í systkinaröð, á eftir tveimur kraftmiklum strákum hefur líkast til jafnað út hin mjúku (kvenlegu) gildi og gert það að ég mátti berjast fyrir mínum stað í tilverunni. Viðurkenni fúslega að eiga erfitt með að vera sett skör neðar en aðrir menn, er enda haldin þeirri bjargföstu trú að konur séu líka menn. Og mér hefur stundum verið legið á hálsi að ég sé kvenremba, hvað sem það nú þýðir.

Þar sem ég svamla áfram í lauginni velti ég því staðfastlega fyrir mér hvort að ég sé kannski haldin einhverri staðreyndastíflu. Ég hitti nefnilega einn ágætan vin minn hér dögunum, mann sem vissi að ég hefði verið í göngum og eftirleitum á Flateyjardal og hann spurði frétta. Ég reyndi að uppfræða manninn sem ég best vissi, sem var talsvert þar sem ég þóttist hafa lagt „drjúgan fót“ að því verki. Hann spurði hvort þeir hefðu fundið einhverjar kindur, hvort þeir hefðu náð þeim og hvort þeir teldu að eitthvað væri eftir. Ég fann að þessar spurningar pirruðu mína meintu kvenrembu, kannski af því að mér fannst þessi vinur minn gera frekar lítið úr mér. Því svaraði ég spurningum hans fremur háðslega: „Já, við náðuð kindunum, nei, við erum ekki búin að ná öllu, en sannaðu til, við náum þeim sem eftir eru – við strákarnir gerum það … á endanum“. „ Þú breytist ekkert“ segir hann, „alltaf sama andskotans kvenremban í þér“, svo strunsar karl leiðar sinnar og það verður lítið úr kveðjum.

Hugur minn dvelur áfram í fortíð og ég sé fyrir mér næðisstund konu sem ég þekkti eitt sinn og þótti afar vænt um. Sé hana fyrir mér sitja framan við olíukynnta Sóló eldavél snemma morguns, sé sárin á þrútnum fótunum, hún hreinsar þau varlega upp og vefur fætur sína með sárabindum. 10 meðgöngur og endalaust stikl við þjónustu og heimilisstörf  hafa tekið sinn toll, en það er enginn afsláttur gefinn. Í fjósinu bíður kýrin sem þarf að mjólka: Eftir litla stund klæðir hún sig í útifötin, seilist í mjaltafötuna og staulast fram í fjós, til að sinna sínum verkum. Á meðan sefur húsbóndinn vært.

Mynd af bláleitum fótunum situr fast í huga mér og veldur mér áframhaldandi pirringi, því mér fannst/finnst að þessi morgunverk hefðu alveg eins átt að vera verkið hans eins og hennar. Geri mér samt grein fyrir því að það voru aðrir tímar og veit einnig hve djúpstæðar rætur hlutverk kynja hafa mótast frá örófi alda í samfélagsgerð okkar. En mér finnst ég skulda henni ömmu minni það að skrefin mín verði fram á við, en ég vil einnig trúa því að ef þau hjónin væru að hefja búskap í dag þætti jafnsjálfsagt að hann sæi um þessi verk og hún. En ætli það sé þannig ?

Mér finnst erfitt að festa hendur á jafnréttisumræðunni, hún er flókin, en það er þessi niðurnjörvaða túlkun kynhlutverka sem er svo djúpstæð í menningu okkar og sögu sem mér finnst að við ættum öll að leiða hugann að og vera meðvituð um alla daga.

Meðan við höldum áfram að slá um okkur með setningum eins og : „Ég spyr bara eins og fávís kona“ til að undirstrika hugleysi og heimsku kvenna, eða „Hann tók þessu eins og sannur karlmaður“ til að hrósa fyrir dugnað og áræðni, þá miðar okkur lítið áfram, en með fræðslu og áframhaldandi baráttu færumst við mögulega nær jafnrétti. Ég gleðst í hvert sinn er ég heyri af konu sem ögrar staðalímyndum, gerist flugmaður, vélstjóri eða verkfræðingur, og að karli sem gerir slíkt hið sama og ræðst til hefðbundinna kvennastarfa.

Við krefjumst viðhorfsbreytinga, við krefjumst reglugerðabreytinga, við krefjumst jafnréttisstefna og það næst í gegn í orði, en það er kannski ekki endilega á borði. Og af einhverjum ástæðum er það að við Íslendingar, sem státum okkur af vel upplýstu nútímasamfélagi erum enn að bjóða konum landsins uppá lægri laun en körlum. Við erum enn föst í hefðbundnum kynjahlutverkum og meðan svo er náum við ekki fram jafnrétti.

Og það má enginn skilja mig þannig að ég sé að agnúast út í karlmenn, að þeir séu vísvitandi að kúga okkur konur. Málið er ekki svo einfalt, heldur höfum við, karlar og konur þróað samfélagið okkar í gegnum aldirnar og gert það að því  sem það er í dag. En við getum breytt því – ef við viljum.

Það er farið að birta og tími til kominn að fara að hafa sig til vinnu, verkin vinna sig víst ekki sjálf. Ég segi gott af sundinu þennan morguninn og held inn í daginn með þá von í brjósti að við munum öll taka þátt í að varða veginn áfram til jafnréttis, fyrir karla og konur framtíðar.

Til hamingju með daginn

Ósk Helgadóttir, varaformaður Framsýnar, stéttarfélags

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila á