Nýr framkvæmdastjóri Stapa

Jóhann Steinar Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs. Hann tekur við starfinu af Inga Björnssyni sem hefur látið af störfum fyrir sjóðinn.

Jóhann Steinar hefur víðtæka reynslu af innlendum fjármálamarkaði og þekkir vel til starfsemi Stapa því á árunum 2012-2016 starfaði hann við eignastýringu hjá sjóðnum.

Frá árinu 2016 hefur Jóhann Steinar verið framkvæmdastjóri ÍV sjóða hf. Á árunum 2008 til 2011 starfaði hann við fjárfestingar og viðskiptaþróun hjá Tryggingamiðstöðinni en þar áður í markaðsviðskiptum, áhættu- og fjárstýringu hjá Stoðum og Straumi fjárfestingabanka.

Jóhann Steinar er með MSc gráðu í viðskiptafræði frá Lunds Universitet og BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Einar Ingimundarson, lögfræðingur Stapa, mun gegna starfi framkvæmdastjóra þar til Jóhann Steinar kemur til starfa.

Deila á