Takk fyrir okkur

Á hátíðarhöldunum 1. maí færðu stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum Hvammi, heimili aldraðra gjöf. Það er meðferðarstól og sjónvarp er tengist öryggismálum á heimilinu. Það var Hróðný Lund yfirhjúkrunarfræðingur á heimilinu sem veitti gjöfinni móttöku. Hún notaði tækifærið og þakkaði vel fyrir gjöfina sem kæmi að góðum notum um leið og hún gerði að umræðuefni hvað það skipti miklu máli fyrir að hafa öflug stéttarfélög á svæðinu. Félög sem væru tilbúin að leggja sitt að mörkum til góðra málefna eins og þessi gjöf staðfesti. Stéttarfélögin þakka Hróðnýju fyrir hléleg orð í garð félaganna.

Hér má lesa Gjafabréfið:

Gjafabréf

Til Hvamms, heimili aldraðra 

Stéttarfélögin, Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur hafa samþykkt að færa Hvammi, heimili aldraðra að gjöf sérstakan meðferðarstól sem staðsettur verður í skoðunar- og meðferðarstofunni á Hvammi. Stóllinn verður m.a. notaður við lyfjagjafir og umbúðaskipti. 

Þá hafa stéttarfélögin jafnframt ákveðið að færa heimilinu sjónvarpstæki sem staðsett verður í vaktherbergi starfsmanna. Sjónvarpið verður hluti af öryggiskerfi heimilisins en til stendur að koma upp eftirlitsmyndavélum í opnum rýmum til að auka öryggi heimilismanna og auðvelda um leið starfsmönnum að fylgjast með daglegri starfsemi heimilisins er viðkemur velferð heimilismanna. 

Það sem er sérstaklega ánægjulegt við gjöfina er að hún auðveldar starfsmönnum að vinna sín mikilvægu störf með betri vinnuaðstöðu jafnframt því sem hún eykur öryggi heimilismanna til muna. 

Virði gjafarinnar er kr. 300.000,-.  

Húsavík 1. maí 2017 

Virðingarfyllst! 

Fh. Stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum 

Aðalsteinn Á. Baldursson

 hatid0517 273

 

 

 

 

 

 

 

 

Það voru formenn stéttarfélaganna þriggja sem stóðu að hátíðinni sem afhendu Hvammi gjöfina, Aðalsteinn Árni fyrir Framsýn, Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar og Helga Þuríður Árnadóttir formaður Starfsmannafélags Húsavíkur.

„Fjármálaráðherra sagði hér á dögunum að hefði íslenskt launafólk sagt upp kjarasamningum 1. mars síðastliðinn hefðu getað orðið nýjar hamfarir á Íslandi, af mannavöldum.“

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar var með kröftuga hátíðarræðu á fjölmennum baráttufundi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum í gær. Hér má lesa ræðuna.

Góðir gestir.

Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér, á sjálfum baráttudegi verkalýðsins.

Ungur vinur minn spurði mig um daginn hvort við ætluðum ekki að fara að hætta þessu 1. maí kjaftæði, baráttufundir í þeirri mynd sem haldnir væru í dag væru tímaskekkja og löngu úrelt fyrirbæri. Hann færði rök fyrir máli sínu, þau að Íslendingar lifðu góðu lífi og því væri ekki lengur þörf á svona gamaldags baráttufundum.

Ég er þessum málflutningi algjörlega ósammála, tel að einmitt í neyslusamfélagi nútímans sé mjög mikilvægt að halda í þau gildi sem 1.maí hefur, rifja upp söguna og flagga fána verkalýðsins. Flagga fánanum rauða sem er sameiningarmerki verkalýðshreyfingarinnar og minnast um leið allra þeirra sem þennan dag hafa, undir  fánum réttlætisins, krafist þjóðfélags jöfnuðar og friðar. Hlusta á fótatak forfeðranna, varðveita sigra þeirra og sækja um leið fram til nýrra sigra.

Sagan er okkur mikilvæg og það er stundum er sagt að til þess að geta haft áhrif á framtíðina þurfi maður að skilja fortíðina. Ég held að í þeim orðum felist mikill sannleikur.

Og við megum ekki gleyma.

Hér á dögunum datt ég ofan í sögu Alþýðusambands Norðurlands, en það var stofnað á Akureyri árið 1947 af 17 verkalýðsfélugum á Norðurlandi. Og hvaða mál skyldu nú hafa verið tekin til umræðu og verið heitu málin á stofnfundi sambandsins, hjá norðlenskri verkalýðshreyfingu fyrir 70 árum?

Á þessum fyrsta fundi voru mörg mál á dagskrá. Það voru m.a. rædd atvinnumál, kaup – og kjaramál, það var rætt um erlent vinnuafl, sjávarútvegsmál, öryggismál sjómanna og menningar – og fræðslumál.

Þá var samþykkt tillaga þar sem varað var við því að hafa síldarverksmiðjurnar til sýnis hvaða útlendingi sem hafa vildi og einnig var samþykkt tillaga um lokun á útsölum áfengisverslanna á Siglufirði og Akureyri yfir síldveiðitímann.

Hljómar þetta ekki allt nokkuð kunnuglega ? Við getum mátað öll þessi mál við umræðu dagsins í dag, meira að segja brennivínið.

Á þessum árum var lagður grunnur að þeim réttindum sem við njótum í dag því þetta er kynslóðin sem tók fyrstu skóflustunguna að velferðarkerfinu, lagði hornstein að almannatryggingakerfinu og lífeyrissjóðunum okkar, kerfum sem aðrar þjóðir naga sig í handabökin fyrir að hafa ekki fundið upp. Þau bjuggu til samfélag mannréttinda þar sem fram undir þetta hefur þótt sjálfsagt að börn geti menntað sig óháð efnahag foreldranna.

En vinnuaðstaðan, aðbúnaður verkafólks, starfsöryggi, launamismunur kynja á þessum tíma…  myndum við vilja stíga aftur til baka? Ég held ekki.

Víða um heim eru mannréttindi fótum troðin og fyrir mörgum ekki annað en fjarlægur draumur. En við Íslendingar teljum okkur siðaða þjóð og fordæmum  hömlulausa græðgi og þá sem hagnast á neyð annara, hagnast á örbyrgð, mismunun og vonleysi.

Það eru talin grundvallarmannréttindi á Íslandi að hafa þak yfir höfuðið, eiga fyrir salti í grautinn, fyrir lyfjum og lækniskostnaði. En það helst líka í hendur að lágum launum á vinnumarkaði fylgja lágar lífeyrisgreiðslur og velferðarkerfið okkar ágæta er svo götótt að þeir verst settu þurfa að láta sér duga lífeyri sem er undir þeim framfærslumarkmiðum sem við þó setjum okkur. Fyrir þeim er þessi þrenna sem flestum hinum er heilög, saltið, lyfið og læknirinn ekki sjálfsagður hlutur og börnin þeirra njóta lítillra lífsgæða.

Fólk sem verður fyrir því óláni að veikjast og detta út af vinnumarkaði um lengri eða skemmri tíma er því voðinn vís og þrátt fyrir að hafa stritað alla sína hundstíð fellur það ofan í gil og skorninga kerfis sem ekki virkar og situr þar fast.

Það virðist einhvern vegin eins og inngróin nögl í íslenska samfélagsvitund að öryrkjar og eldri borgarar séu þiggjendur og eigi heima á jaðri velferðar samfélagsins okkar. Innan þeirra raða eru margir sem búa ekki einungis við kröpp kjör, heldur  einnig við meiðandi opinbera umræðu í fjölmiðlum og almenningsálit sem telur forkastanlegt ef öryrki á Íslandi getur búið við sæmilega góðar aðstæður.

Hver kannast ekki við myndina sem fylgir gjarnan  fréttaskýringum um málefni eldra fólks ? Mynd af gamalli konu á hjúkrunarheimili, tifandi æðaberum fótum eftir göngunum og meðfylgjandi fréttum um að þjóðin sé að eldast og hvað það kosti okkur mikið.

Að eldast er nokkuð sem enginn getur umflúið og við ættum frekar að fókusa á það að hærri aldri þjóðarinnar fylgir sem betur fer oftast betri heilsa, og við skyldum frekar fagna því að eldra fólk geti lengur verið virkir samfélagsþegnar.

Myndin af gömlu konunni finnst mér vera táknræn og ætti að segja okkur að eigandi þessara þreyttu fóta sé búinn að leggja að baki þrotlausa vinnu til samfélagsins og ávinna sér sjálfsagðan rétt á að njóta hvildarinnar síðasta spölinn í öruggu umhverfi. Þau skulda okkur ekki neitt – það erum við sem skuldum þeim. Og ég hafna þeirri hugmyndafræði að eldra fólk og öryrkjar sé baggi á samfélaginu okkar.

Eftir bankahrunið 2008 hófst íslenska þjóðin handa við að reisa upp langþráð samfélag sem að þessu sinni yrði byggt á réttlæti og jöfnuði. Við spýttum í sigggróna lófana, hertum sultarólina, við bættum á hana gati og hertum betur. Við trúðum því að allir myndu ganga jafnir til verks. Þeir sem minnst höfðu gengu að venju á undan með góðu fordæmi og flestir fylgdu. Þó voru all nokkrir aðilar sem töldu sínum hag betur borgið með því að fela peningna sína í aflandsfélögum. Brot þeirra manna var ekki einungis það að þeir stælu undan skatti, þeir stálu einnig vonum okkar og draumum, þeir brugðust trausti heillar þjóðar.

Og því megum við ekki gleyma.

Þjóðarskútan er aftur komin á kjöl og hefur sem stendur góðan byr í seglin,  gjaldeyristekjur flæða inn í landið, atvinnuleysi mælist hverfandi og því er ekki að neita að hópur þjóðarinnar hefur það býsna gott. Við siglum aftur þöndum seglum og áhöfnin í brúnni segir okkur aftur og enn að hér ríki hagsæld og jöfnuður, góðærið hafi sjaldan eða aldrei verið meira.

Fjármálaráðherra sagði hér á dögunum að hefði íslenskt launafólk sagt upp kjarasamningum 1.mars síðastliðinn  hefðu getað orðið nýjar hamfarir á Íslandi, af mannavöldum. Hann talaði einnig um að taka samtalið og þá ábyrgð sem við bærum öll saman og við ættum að nýta okkur þetta besta góðæri.

Útbelgdur af áðurnefndri ábyrgð nýtti kjaradómur þettta besta góðæri nú fyrir síðustu áramót og útdeildi veglegum launahækkunum til handa æðstu embættismönnum þjóðarinnar.

Við getum víst öll verið sammála um eitt, hvar sem við höfum munstrast á skútuna. Það er að eyði maður um efni fram kemur að skuldadögum. Ef að það er jöfnuður sem felst í því að þeir sem eiga mikið fái meira, en þeir sem minnst eigi fái ennþá minna þá hefur eitthvað misfarist í mínu uppeldi, því að það reikningsdæmi fæ ég á engan hátt skilið.

Já, nú verða sagðar fréttir … en í þetta sinn eru þær af ofurlaunum, af erfiðri stöðu láglaunafólks, öryrkja og eldri borgara, af brostnu heilbrigðis- og menntakerfi, af misnotuðum þjóðarauðæfum, af fótum troðinni náttúru. Af langveiku fullorðnu fólki geymdu á göngum og í geymslum á hátæknideildum Landspítalans. Fréttir af ungu fólki sem getur hvorki leigt eða eignast þak yfir höfuðið og kýs af þeim sökum að flýja land. Áfram skal hoggið í innviðina í nafni niðurskurðar, hagræðingar og einkavæðingar og þær raddir verða æ háværari að þeir sem geti borgað fyrir sig eigi að njóta þess.

Það eru fréttir að þessu tagi sem vekja mér óhug og að mér læðist sá grunur að auðvaldspúkinn á fjósbitanum sé aftur farinn að bæta á sig. Það ætti öllum að vera orðið ljóst að brotni bitinn fellur hann í flórinn og það verðum við sem fáum aftur að verka af honum skítinn.

Nei, við megum engu gleyma – því við vitum manna best að sterkt velferðarkerfi er grundvöllur að lífsgæðum landsmanna og hvaða fórnir hafa þar verið færðar.  Og við skulum  halda því til haga að það kerfi spratt ekki frá misvitrum stjórnmálamönnum, heldur er tilvist þess fyrst og fremst að þakka baráttu kynslóðanna og uppbygging þess hefur kostað launafólk í þessu landi – og er  ætluð fyrir alla þegna þess.

Góðir félagar

 

Lifi  frelsi – lifi  jafnrétti – lifi bræðralag

 

 

 

 

 

 

 

 

 

„Hátíðin tileinkuð baráttu eftirlaunafólks og öryrkja fyrir bættum kjörum og réttlæti.“

Formaður Framsýnar flutti ávarp í upphafi hátíðarhaldanna á Húsavík í gær. Hér má lesa það.

Ágætu hátíðargestir,

Það var nokkuð táknrænt þegar ég settist niður til að semja þetta ávarp að heyra hamarshögg, hljóð frá borvélum, vélsögum og stórvirkum vinnuvélum fyrir utan gluggann. Ég heyrði ekki í sjálfum mér, slíkur var hávaðinn þegar ég sat við tölvuna við skriftir.

Inn á milli mátti heyra fuglasöng, svona til að minna á komu sumarsins og að framundan væri annarsamur tími við hreiðurgerð hjá smáfuglunum.

Já, það eru margir í framkvæmdahug um þessar mundir með bjartsýnina að leiðarljósi, það er bæði menn og dýr.

Reyndar finnst mér eins og 1. maí 2016 hafi verið í gær, svo fljót líður tíminn og endurspeglar öflugt starf stéttarfélaganna þar sem hver dagur ber með sér nýjar áskoranir í starfi félaganna.

Dagurinn í dag, 1.maí spilar stórt hlutverk í baráttu alþýðunnar víða um heim fyrir bættum kjörum, jöfnuði og réttlæti. Baráttudeginum er ætlað að þjappa fólki saman um réttlátar kröfur og sjónarmið. Oft finnst okkur að þessi barátta gangi alltof hægt en það góða er að okkur miðar áfram þrátt fyrir að brekkan framundan sé oft á tíðum snarbrött og nánast óklífanleg.

Málið er einfalt, við megum aldrei gefast upp. Rödd okkar verður að heyrast þrátt fyrir að hún virki stundum þannig á handhafa auðvaldsins að við séum að skemma fyrir markmiðum þeirra með óheppilegu uppistandi. Við séum boðflennur.

Enda var það tilgangurinn í upphafi þegar samþykkt var á þingi evrópskra verkalýðsfélaga í París 1889 að gera 1. maí að alþjóðlegum frídegi verkafólks. Það er að verkafólk léti í sér heyra og stæði fyrir baráttufundum í sumarbyrjun á hverju ári. Á Íslandi fóru menn í fyrstu kröfugönguna 1. maí 1923 undir lúðrablæstri og rauðum fánum. Dagurinn varð síðan lögskipaður frídagur á Íslandi 1972. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti. Nú sé nóg komið, auk þess sem hann táknar dagrenninguna.

Íslenska verkalýðshreyfingin hefur í gegnum tíðina tekið á mörgum mikilvægum málum undir rauðu flaggi.

Eitt af þeim málum sem gengur sem rauður þráður í gegnum sögu verkalýðsbaráttu á Íslandi í 100 ár er krafan um mannsæmandi húsnæði á sanngjörnum kjörum. Þetta verkefni hefur komið til okkar í verkalýðshreyfingunni af fullum þunga með reglulegu millibili í heila öld. Og það  hrópar enn í dag.

Það var af þessari ástæðu sem ASÍ og BSRB réðust í stofnun Bjargs – íbúðafélags í fyrra. Það þarf að lyfta grettistaki til að þjóðin komist út úr þeim ógöngum sem hún hefur ratað í í húsnæðismálum. Við Íslendingar viljum byggja upp réttlátt samfélag þar sem gott og öruggt húsnæði þykir sjálfsögð mannréttindi – ekki forréttindi.

Það þarf því ekki að koma mikið á óvart að Alþýðusamband Íslands hafi samþykkt að yfirskrift 1. maí í ár verði: „Húsnæðisöryggi – sjálfsögð mannréttindi.“

Félagar:

Eins og kunnugt er, er verulegur uppgangur víða í Þingeyjarsýslum. Þar kemur ekki síst til uppbygging í ferðaþjónustu og í byggingariðnaði er tengist ýmsum framkvæmdum í héraðinu.

Þá er loksins búið að slá í gegn um Vaðlaheiði eftir heldur erfiða meðgöngu og mikla og neikvæða fjölmiðlaumræðu. Þegar göngin verða klár síðla árs 2018 opna þau á betri samgöngur milli Eyjafjarðar og sveitarfélaganna austan Vaðlaheiðar. Atvinnusvæðið verður sterkara og stærra og öryggi varðandi heilbrigðisþjónustu eykst til muna enda Víkurskarðið oft verið erfiður farartálmi.  Með bættum samgöngum og öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi er Norðurlandið orðið mjög samkeppnishæft við höfuðborgarsvæðið varðandi búsetuskilyrði og þar með almenn lífsgæði.

Í smá gríni eða alvöru má einnig nefna að það verður ekki dónalegt fyrir Eyfirðinga að fá nú loksins almennilegt loft frá Þingeyingum í gegnum göngin í skurðinn sem ber nafnið Eyjafjörður. Það er full ástæða fyrir okkur að gleðjast  með þeim og megi þeir njóta þingeyska loftsins.

Miklar áskoranir fylgja því fyrir stéttarfélögin að fylgjast með atvinnulífinu á hverjum tíma, það er að allir þeir fjölmörgu verktakar sem koma að framkvæmdunum í Þingeyjarsýslum sem og aðrir fari eftir lögum og reglum sem gilda á vinnumarkaðinum á Íslandi.

Vissulega er þetta ekki auðvelt verk enda kemur hluti af verktökunum frá löndum þar sem réttindi verkafólks eru fyrir borð borin og aðild að stéttarfélögum er ekki almenn, reyndar mjög lítil. Okkur reiknast til að um 2000 starfsmenn hafi komið að framkvæmdunum á svæðinu, það er á öllu félagssvæðinu. Það er umfram þá sem eru hér við störf að staðaldri.

Strax í upphafi framkvæmdanna  gerðu stéttarfélögin sér fulla grein fyrir því að eftirlitið yrði að vera öflugt horfandi til framkvæmdanna á Kárahnjúkum og við byggingu álversins á Reyðarfirði á sínum tíma þar sem ýmislegt fór úr skorðum.

Meðan á framkvæmdunum stóð voru reglulega fluttar neikvæðar fréttir í fjölmiðlum af gangi mála og alltof mikið var um kjarasamningsbrot og vanefndir  varðandi aðbúnað og öryggi starfsmanna. Það var gúrkutíð hjá fjölmiðlum.

Með þessa vitneskju í farteskinu ákváðu stéttarfélögin að hafa frumkvæði að því að tryggja eins og hægt væri að þessi saga endurtæki sig ekki í Þingeyjarsýslum.

Frá upphafi hafa stéttarfélögin átt mjög gott samstarf við verkkaupa og verktaka á svæðinu. Reyndar á það ekki við um alla verktakanna, dæmi eru um að þeir hafi ætlað sér að sniðganga kjarasamninga og lög á Íslandi.

Stéttarfélögin hafa brugðist hart við slíkum undirboðum í góðu samstarfi við aðra eftirlitsaðila s.s. lögreglu, ASÍ, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun og Ríkisskattstjóra.

Dæmi eru um að fyrirtæki hafi hrökklast í burtu eftir afskipti stéttarfélaganna. Hér erum við að tala um fyrirtæki sem framið hafa mjög alvarleg brot gagnvart starfsmönnum og jafnvel verið grunuð um mansal. Við höfum að mestu sloppið við alvarlegar hótanir frá þessum erlendu verktökum en höfum þó fundið fyrir undirliggjandi hótunum. Þannig er að við vitum ekki alltaf við hverja við erum að eiga.

Fyrir liggur að starf okkar nýtur virðingar meðal þeirra starfsmanna sem hér hafa verið við störf. Þeir skynja að stéttarfélögin búa yfir mikilli þekkingu á málefnum vinnumarkaðarins og eru tilbúin að veita þeim upplýsingar og aðstoð eftir þörfum.

Ég vil nota tækifærð og þakka samstarfsfólki mínu á skrifstofunni fyrir einstaka fórnfýsi á undanförnum mánuðum og árum með það að markmiði að láta hlutina ganga upp og stuðla þar með að öflugu starfi stéttarfélaganna í þágu félagsmanna og nærsamfélagsins. Langir vinnudagar hjá starfsmönnum, helgarvinna og tilfærsla á sumarfríum milli orlofsára hefur verið sjálfsagt mál og hefur verið mætt með bros á vör.   Öðruvísi væri ekki hægt að halda uppi öflugu starfi sem ætti að vera öðrum stéttarfélögum góð fyrirmynd.

Til fróðleiks má einnig geta þess að stéttarfélögin hafa ekki bara kappkostað að verja hagsmunni vinnandi fólks sem hingað hefur komið til tímabundina starfa.

Félögin hafa einnig beitt sér fyrir því að erlendu verktakarnir nýti sér þjónustu fyrirtækja og  þjónustuaðila á svæðinu og skrái jafnframt starfsmennina með heimilisfestu í héraðinu, það er á framkvæmdasvæðum sveitarfélaganna.  Það hefur tryggt fólksfjölgun og auknar útsvarstekjur fyrir sveitarfélögin. Við teljum að þessi vinna hafi skilað tilætluðum árangri þegar við horfum á fjölgun íbúa og auknar tekjur sveitarfélaganna í héraðinu.

Þrátt fyrir að framkvæmdirnar séu nú í fullum gangi og ljúki að mestu innan árs koma stéttarfélögin til með að halda áfram sínu öfluga starfi.

Ég nefni sérstaklega mikilvægi þess að vel takist til með nýju verksmiðjuna á Bakka. Verksmiðju sem verður mikil lyftistöng fyrir Þingeyinga enda verði rétt haldið á málum. Við eigum ekki að gefa neinn afslátt af umhverfismálum, við eigum heldur ekki að veita neinn afslátt af launakjörum starfsmanna bara fyrir það eitt að fá verksmiðjuna til Húsavíkur.

Þegar áform um byggingu verksmiðjunnar voru kynnt í upphafi af eigendum hennar var skýrt tekið fram að allt yrði gert til að tryggja umhverfismálin og að launakjör starfsmanna yrðu með sambærilegum hætti og þekkist í sambærilegum verksmiðjum á Íslandi.

Framsýn og Þingiðn hafa átt í viðræðum við stjórnendur PCC á Íslandi um kjör starfsmanna. Krafan hefur verið skýr, það er að fyrirtækið standi við stóru orðin sem gefin voru í upphafi varðandi kjör og aðbúnað starfsmanna. Við förum ekki fram á annað.

Ég gef mér að PCC ætli sér að að starfa hér í sátt og samlyndi við samfélagið enda er það alltaf vænlegast til árangurs fyrir alla.  Það er ekki eftirspurn eftir umræðu eða umfjöllun fjölmiðla eins og verið hefur um  verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ þar sem nánast allt hefur farið úrskeiðis sem á annað borð getur farið úrskeiðis. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að vel  takist til með starfsemi PCC á Bakka. Það er leiðarljós stéttarfélaganna.

Að lokum þetta. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa ákveðið að tileinka þessa hátíð í dag baráttu eftirlaunafólks og öryrkja fyrir bættum kjörum og réttlæti. Staðreyndin er nefnilega sú að það hallar verulega á þessa hópa og allt of margir í þeirra röðum búa ekki við réttlæti eða viðunandi framfærslu.

Við hjá Framsýn höfum í vetur haldið nokkur velheppnuð málþing m.a. um stöðu eftirlaunafólks sem var sérstaklega vel sótt. Greinilegt var að fundarmönnum fannst á sig hallað og þörf væri á umræðu um stöðu ört stækkandi hóps eftirlaunafólks.

Framsýn hefur komið þeim skilaboðum á framfæri við Alþýðusambands Íslands að sambandið stigi fram og berjist við hlið eftirlaunafólks hvað varðar þeirra baráttumál til að tryggja þessum hópi áhyggjulaust ævikvöld sem og öryrkjum.

Þá hefur Framsýn hug á því að verða fyrirmyndarfélag er viðkemur því að félagsmenn sem láta af störfum á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku haldi sem mest af réttindum hjá félaginu meðan þeir þurfa á þeim að halda um leið og við hvetjum önnur stéttarfélög innan ASÍ og BSRB að stiga þessi skref með félaginu.

Við ætlum okkur að halda merkjum þessara hópa á lofti, teljum það reyndar vera skyldu okkar, þetta er jú hópurinn sem markaði sporin fyrir okkur hin. Við eigum ekki að láta fenna í þeirra spor eins og okkur komi ekki við hvað þau gerðu til að gera okkar lífsgæði að því sem þau eru í dag.

Ég þakka gott hljóð og sett hér með samkomuna.

 

 

 

 

 

 

Glæsileg hátíð í höllinni 1. maí 2017

Það verður mikið fjör í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí. Að venju bjóða stéttarfélögin upp á veglega dagskrá. Ræður dagsins verða á vegum heimamanna. Þá verður Söngfélagið Sálubót á svæðinu enda úr héraðinu. Lára Sóley og Hjalti koma brunandi frá Akureyri á heimaslóðir og taka lagið eins og enginn sé morgundagurinn. Þrír frábærir listamenn koma síðan fljúgandi úr Reykjavík til að skemmta gestum á Húsavík. Þetta eru þau Ari Eldjárn, einn okkar fremsti skemmtikraftur sem mun fara með gamanmál og söngdýfurnar Sigríður Beinteinsdóttir og Guðrún Gunnarsdóttir sem munu flytja atriði úr sýningunni um Ellý Vilhjálms sem notið hefur mikilla vinsælda. Að sjálfsögðu mun Steini Hall starta hátíðinni með lúðrablæstri. Hér má sjá dagskrána:

Hátíðardagskrá 1. maí 2017

Að venju standa stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum fyrir veglegri hátíðardagskrá í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2017 kl. 14:00.

Dagskrá:

Ávarp: Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags

Hátíðarræða: Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags

Sálubót: Söngfélagið Sálubót syngur nokkur lög. Stjórnandi Jaan Alavere

Undirleikur Jaan Alavere, Marika Alavere, Þórgnýr Valþórsson og Katla María Kristjánsdóttir

Söngur og grín: Hjalti Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir spila og syngja þekkt dægurlög

Grín: Ari Eldjárn, einn okkar fremsti skemmtikraftur, skemmtir gestum með gamanmáli

Söngur og grín: Guðrún Gunnarsdóttir og Sigríður Beinteinsdóttir heiðra minningu Ellýjar Vilhjálms með því að syngja lögin hennar ásamt því að segja sögur af þessari merku konu

Steingrímur Hallgrímsson spilar Internasjónalinn/alþjóðasöng verkalýðsins í upphafi samkomunnar.

Meðan á hátíðarhöldunum stendur verður gestum boðið upp á kaffi og meðlæti í boði stéttarfélaganna.

Þingeyingar og landsmenn allir, fjölmennum í höllina og drögum fána að hún á hátíðar- og baráttudegi verkafólks 1. maí 2017.

Framsýn, stéttarfélag – Starfsmannafélag Húsavíkur – Þingiðn, félag iðnaðarmanna 11188178_951779424872972_2206845628478065165_n AriEldjarn_ZP7A3367 DST_4017 söngkonur 5 söngkonur

Formaður Framsýnar tekur við formennsku í Húsfélagi Þorrasala

Aðalfundur Húsfélags Þorrasala 1-3 í Kópavogi fór fram í gær. Fundurinn var haldinn í fjölbýlishúsinu, íbúð 201 sem er í eigu Framsýnar. Rekstur félagsins hefur gengið vel og var samþykkt að ráðast í smá framkvæmdir við stigahús, það er að mála stigahúsið að innanverðu á þessu ári enda fáist iðnaðarmenn í verkið. Samþykkt var að hækka húsgjöld um 2% milli ára á íbúð. Þá var gengið frá kjöri á nýrri stjórn. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, sem setið hefur í stjórn og varastjórn Húsfélagsins frá upphafi, það er frá árinu 2012 var kjörinn formaður Húsfélagsins til eins árs. Góður andi var á fundinum og eru íbúðareigendur almennt ánægðir með starfsemi Húsfélagsins.

 

Lyklar óskast

Við viljum biðja þá sem hafa verið í íbúðum stéttarfélaganna og eiga eftir að skila lyklum að koma þeim á Skrifstofu stéttarfélaganna sem allra fyrst. Mikið rennerí hefur verið í íbúðunum undanfarið og mörg lyklasettanna úti sem stendur og útlit fyrir mögulegan skort ef ástandið skánar ekki fljótlega.

Málmiðnarmenn valta yfir félagssvæði Þingiðnar

Þingiðn, félag iðnaðarmanna hefur með bréfi til Laganefndar Alþýðusambands Íslands gert alvarlegar athugasemdir við samþykktar breytingar á félagslögum Félags málmiðnarmanna á Akureyri. Þannig er að ef stéttarfélög gera breytingar á sínum félagslögum þarf Laganefnd ASÍ að taka þær fyrir áður en þær taka gildi hjá viðkomandi stéttarfélögum enda samþykki laganefndin breytingarnar.

Félagssvæði Félags málmiðnarmanna á Akureyri náði áður yfir nokkur sveitarfélög við Eyjafjörð.  Með samþykktum breytingum á aðalfundi félagsins, væntanlega 2015, er félagssvæðið stækkað verulega. Það er að það nái yfir allt Norðurland frá og með Húnaþingi vestra til og með Langanesbyggð í austri. Það þýðir að félagssvæði Þingiðnar er undir sem eru sveitarfélögin, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur. Félagssvæði Verkalýðsfélags Þórshafnar er einnig undir en innan félagsins er iðnaðarmannadeild og er félagið því með aðild að Samiðn fyrir þennan hóp félagsmanna.

  1. gr. laga Félags málmiðnarmanna á Akureyri er svohljóðandi:
    Félagið heitir Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, skammstafað FMA.
    Félagssvæði þess er, Norðurland frá og með Húnaþingi vestra til og með Langanesbyggð.
    Félagið er aðili að Samiðn sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands.
    Heimili félagsins og varnarþing er á Akureyri. 

Þingiðn er kunnugt um að Samiðn hafi fengið málið til umsagnar á sínum tíma en ekki gert athugasemdir við þessar breytingar sem vekur reyndar furðu þar sem troðið er á tveimur aðildarfélögum  sambandsins.

Þingiðn var ekki kunnugt um þessar breytingar á lögum Félags málmiðnarmanna á Akureyri fyrr en á dögunum þegar auglýsingar birtust frá félaginu á Sjónvarpsstöðinni N4 þar sem auglýst er að félagsvæðið nái yfir allt Norðurland, þar á meðal yfir félagssvæði Þingiðnar.  Á sínum tíma var ekki leitað umsagnar Þingiðnar á þessum breytingum á lögum Félags málmiðnarmanna á Akureyri sem er athyglisvert í ljósi þess að um félagssvæði Þingiðnar er um að ræða.

Mikil reiði er meðal félagsmanna Þingiðnar með yfirgang Félags málmiðnarmanna á Akureyri og endurspeglast í breytingum á lögum félagsins. Ljóst er að Samiðn skuldar Þingiðn skýringar á afstöðu sambandsins til  málsins.

Með bréfi Þingiðnar til Laganefndar Alþýðusambands Íslands er þess vænst að nefndin taki erindi Þingiðnar fyrir og kveði á um hvort vinnubrögð sem þessi teljist eðlileg í ljósi þess að ákveðið félag yfirtekur félagssvæði annars félags með breytingum á félagslögum í skjóli ASÍ. Þá telur Þingiðn að þetta sé á skjön við þær starfsreglur sem gilt hafa um félagssvæði stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands og friður hefur verið um. Málið verður tekið fyrir á aðalfundi Þingiðnar síðar í þessum mánuði.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fjallað um alþjóðaviðskiptasamninga á opnum fundi Framsýnar

Síðastliðinn föstudag efndi Framsýn til umræðufundar í fundarsal félagsins um alþjóðlega viðskiptasamninga og þá sérstaklega hvaða þýðingu þeir hefðu fyrir Ísland og íslenskt launafólk. Á fundinum flutti Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og formaður BSRB, fyrirlestur um efnið en í kjölfarið urðu líflegar umræður. Ögmundur þekkir vel til þessara mála, tók virkan þátt í átökum um þjónustutilskipun Evrópusambandsins sem síðar tók gildi á Íslandi með ákveðnum fyrirvörum þó. Ögmundur hefur einnig komið að þessum málum í gegnum stjórnmálin og flutt fjölda þingmála sem lúta að þessum málum.

Fram kom í erindi hans að alþjóðlegir viðskiptasamningar snerust nú orðið um annað og meira en tolla og almenn verslunarviðskipti. Í seinni tíð teygðu slíkir samningar anga sína inn í samfélögin með kröfu um markaðsvæðingu þeirra. Í skilmálum þeirra alþjóðaviðskiptasamninga sem nú væru á teikniboðinu eins og GATS og TiSA  væri að finna margvísleg skilyrði um hvernig samfélagið skuli skipulagt, hvað sé leyfilegt og hvað stríði gegn skilmálum samninganna. Allt þetta snertir launafólk, bæði beint og óbeint, vinnuumhverfið og velferðarþjónustuna sem við vildum geta reitt okkur á að væri alltaf til staðar óháð efnahag. Markaðsvæðing slíkrar þjónustu geti skipt sköpum um aðgang að slíkri þjónustu.

Ögmundur rakti sögu alþjóðaviðskiptasamninga allar götur frá því fulltrúar ríkja hins kapítaliska heims komu saman til fundar í Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum árið 1944 eftir að seinna stríði lauk og lögðu grunninn að Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðunum, stofnunum sem ætlað var að halda utan um heimsviðskiptin. Í kjölfarið hafi verið hafist handa um víðtækt samningaferli til að örva heimsviðskipti með lækkun, og eftir atvikum, afnámi tolla. Umgjörðin um þetta ferli hafi verið GATT, General Agreement on Trade and Tariffs, Almennt samkomulag um verslun og tolla. Þegar þessu ferli lauk um miðjan tíunda áratug síðustu aldar hafi tekið við GATS, General Agreement on Trade in Servisces, (Almennt samkomulag um þjónustusamninga) og hafi utanumhaldið nú verið hjá nýrri stofnun, Alþjóðaviðskiptastofnuninni, World Trade Organization, WTO.

Um þetta leyti breytast áherslur í alþjóðavæðingu heimsviðskipta, í stað þess að snúast fyrst og fremst um lækkun og afnám tolla er nú farið að horfa inn í þjóðfélögin og markaðsvæða þau þannig að viðkiptaumhverfið verði alls staðar áþekkt. Nú var farið að takast á um hvaða “þjónustuviðskipti” skuli sett á markaðstorgið, hvort það til dæmis skyldi eiga við um heilbrigðisþjónustu og aðra velferðarþjónustu, vatnið raforkuna og svo framvegis.

Þessi átök færðust í vöxt innan Evrópusambandsins undir síðustu aldamót en árið 2006 var síðan þjónustutilskipun samþykkt á þingi Evrópusambandsins. Hún var mikið breytt frá upphaflegum drögum og lagði Ögmundur áherslu á að það væri vegna baráttu verkalýðshreyfingarinnar að svo hafi orðið. Þetta þyrftu menn að hafa í huga: “Barátta skilar árangri”, minnti hann á með áherslu!

Ögmundur rakti síðan hvernig alþjóðafjármagnið hefði reynt á undanförnum árum að umlykja þjónustusamningaviðræðurnar leyndarhjúpi. Þegar tekist hefði að rjúfa leyndina hefðu samningarnir jafnan siglt í strand svo mikil hefði andstaðan orðið. Sú hefði orðið raunin með GATS upp úr aldamótunum. Þá hafi 50 ríkustu þjóðir heimsins hins vegar, að áeggjan fjölþjóðlegra fjárfesta bundist samkomulagi um að ná saman um þjónustusamninga og stilla hinum snauðari hluta heimsins síðan upp við vegg og þröngva honum til að samþykkja. Þannig mætti fara bakdyramegin að því að ná markmiðum hinna strönduðu GATS samninga. Það hefðu einmitt verið fátæku ríkin sem hefðu verið afgerandi í því að stoppa GATS samningana með stuðningi róttækari hluta verkalýðshreyfingarinnar sem fannst GATS um of á forsendum fjölþjóðafjármagnsins.

Þessi nýja samningalota ríka heimsins væri kölluð TiSA , Trade in Services Agreement, (Samningar um þjónustuviðskipti). Íslendingar væru í þessum hópi og gagnrýndi Ögmundur að svo væri. Það væri ósiðlegt að þjóna alþjóðaauðvaldinu og ganga gegn hagsmunum hinna fátæku.

Hann sagði að eitt hið versta við TiSA samningsdrögin væru gerðardómar sem ætlað væri að leysa deilumál. Eðlilegra væri að dómstólar í þeim ríkjum sem deilur kæmu upp skæru úr um deilumál. Gerðardómarnir væru eins konar nýtt ólýðræðislegt dómsstig ótengdir lýðræðislegum ferlum réttarríkisins. Reynslan af slíku fyrirkomulagi væri afleit en gerðadómar væru ekki nýir af nálinni þótt nú stæði til að gera þá að hinni almennu reglu. Rakti Ögmundur nokkur dæmi um úrskurði gerðardóma fjárfestum í hag sem oft hefðu bitnað harkalega á skattgreiðendum. Þannig hefði gerðardómur til dæmis ákveðið að neyða Slóvakíu að greiða fyrirtæki sem fjárfest hefði í einkavæddri heilbrigðisþjónustu skaðabætur eftir að ný ríkisstjórn þar í landi hefði ákveðið að vinda ofan af einkavæðingunni. Þetta þótti óréttmætt gagnvart fjárfestum í heilbrigðisþjónustu en ekkert var gefið fyrir samfélagslega hagsmuni eða rétt skattgreiðenda sem urðu að borga skaðabætur.

Ögmundur Jónasson hvatti verkalýðshreyfinguna til að fylgjast vel með gangi þessara mála og láta stjórnvöld ekki komast upp með að skuldbinda okkur inn í framtíðina með samningum sem í reynd væru nánast óafturkræfir. Hann sagðist vera sammála því sem fram hefði komið í auglýsingu Framsýnar um fundinn að þessi mál kæmu okkur öllum við!

Að erindinu loknu urðu ágætar umræður þar sem fundarmenn spurðu nánar út í viðskiptasamningana og viðruðu eigin sjónarmið.  Framsýn þakkar Ögmundi fyrir fræðandi og skemmtilegan fund.

ogmundurkjot0417 012

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nokkrir fundarmanna á spjalli fyrir fundinn.

ogmundurkjot0417 017

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Líflegar umræður urðu um málefni fundarins og voru fundarmenn duglegir að blanda sér inn í umræðuna.

ogmundurkjot0417 031

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Erindi Ögmundar var mjög fræðandi og áhugavert enda Ögmundur vel inn í þessum málum sem fyrrverandi alþingismaður og formaður BSRB.

ogmundurkjot0417 002

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Félagarnir hittust á ný, þegar Ögmundur var formaður BSRB var Einar Jónassn formaður Starfsmannafélags Húsavíkur og því áttu þeir gott samstarf til fjölda ára. Það urðu því fagnaðarfundir þegar þeir sáust aftur eftir 20 ára fjarveru í fundarsal stéttarfélaganna.

 

Innflutningur á ferskum matvælum til umræðu á opnum fundi Framsýnar

Framsýn stóð fyrir opnum fundi á Fosshótel Húsavík síðasta laugardag þar sem fjallað var um hættuna sem stafar af innflutningi á ferskum matvælum til landsins. Erindi fluttu tveir helstu sérfræðingar landsins á þessu sviði, þeir Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í veirufræði á Keldum og Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans.
Eftir að formaður Framsýnar hafði boðið gesti velkomna og farið orðum um mikilvægi þessarar umræðu afhenti hann Ögmundi Jónassyni fundarstjórn en Ögmundur hefur haft forgöngu um að taka þessi mál upp.

ogmundurkjot0417 046

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ögmundur fór lofsamlegum orðum um Framsýn og sagði að í sínum huga sýndi félagið mikla framasýni með því að vilja lyfta þessu málefni. Sagði hann að margoft hefði hann fundið fyrir áhuga félagsins á málefnum sem tengdust matvælaframleiðslu og lýðheilsu. Færi vel á því að verkalýðshreyfingin gengi fram fyrir skjöldu með þessum hætti. Sagði Ögmundur að eftir að Framsýn tók að auglýsa fundinn hefðu sér borist fyrirspurnir annars staðar frá um að fá þessa fyrirlestra og umræðu þangað. Á sunnudeginum væri fyrirhugaður fundar á Akureyri og þegar farið að huga að fundum á Suðurlandi. Þetta væri hins vegar ekki í fyrsta skipti sem Þingeyingar sýndu frumkvæði þegar þjóðþrifamál væru annars vegar!

ogmundurkjot0417 067

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Erindi Vilhjálms fjallaði um smitsjúkdómastöðu íslensks búfjár og mögulegar smitleiðir nýrra smitefna til landsins. Í erindinu kom fram hve smitsjúkdómastaða íslenskra búfjárstofna er um margt óvenjuleg þegar hún er borin saman við það sem þekkist erlendis. Þannig eru mörg þeirra smitefna fátíð eða óþekkt í búfé hérlendis sem valda algengustu og alvarlegustu matarsýkingum í mönnum. Einkum á þetta við um hross, nautgripi, sauðfé og geitur.  Þessi sérstaða Íslands veldur því að mikill fjöldi þekktra og óþekktra smitefna getur valdið faröldrum í búfé hérlendis. Jafnframt eru mikil verðmæti fólgin í núverandi smitsjúkdómastöðu Íslands bæði með tilliti til affalla og afurðatjóns auk dýraverndar og verndar íslensku landnámskynjanna. Í góðri smitsjúkdómastöðu íslensku búfjárstofnanna eru og mikil verðmæti fólgin fyrir lýðheilsu.

Vilhjálmur gerði grein fyrir hverjar væru helstu smitleiðir nýrra smitefna hingað til lands s.s. með lifandi dýrum, mönnum, fóðri og matvælum. Í erindinu var sérstaklega fjallað um þá hættu sem fylgt getur innflutningi hrárra dýraafurða og hverjar gætu verið smitleiðir úr matvælum í dýr. Jafnframt var gerð grein fyrir þeim innflutningskröfum sem íslensk stjórnvöld gera við innflutning á hráum dýraafurðum sem geta borið smit. Nefnd voru dæmi fyrir einstök smitefni hverju núverandi innflutningskröfur skila til að draga úr áhættu.

Jafnframt kom fram í erindi Vilhjálms að ef slakað yrði á núgildandi heilbrigðiskröfum megi ætla að tíðni matarsýkinga í mönnum hérlendis myndi aukist. Jafnframt væri líklegt að smitburður í dýr af óæskilegum sjúkdómsvöldum myndi eiga sér stað fyrr en síðar, hvort sem það yrði með vörunum sjálfum eða með þeim sem neyta þeirra. Afleiðingar þessara sýkinga og kostnaður samfélagsins myndi  ráðast af smitefnunum sem bærust en gæti í verstu tilfellum orðið mikill og afleiðingarnar alvarlegar og óafturkræfar.

Athygli vakti þegar Vilhjálmur greindi frá því að nýlegar rannsóknir á Keldum á innfluttum ostum hefðu sýnt að þeir væru fullir af mæði-visnuveiru, sömu veiru og varð þess valdandi að 750 þúsund fjár féll eða var fellt vegna mæðiveikiveirunnar sem barst hingað til lands á fjórða áratug síðustu aldar með innflutningi á lifandi fé. Enda þótt veiran í innfluttu ostunum sem nú væru í búðarhillum okkar væru dauðar og því meinlausar minnti þetta á hve nærri við værum þessum veruleika. Ostarnir væru unnir úr afurðum dýra sem bæru þessa veiru.

ogmundurkjot0417 102

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í máli Karls G. Kristinssonar kom meðal annars fram að sýkingarhætta af völdum sýkla sem geta sýkt bæði menn og dýr (súnur) er meiri erlendis en á Íslandi og á sama hátt er meiri áhætta af því að sýkjast af slíkum sýklum við neyslu innfluttra matvæla en innlendra. Þetta á sérstaklega við um kampýlóbaktersýkingar sem eru mun sjaldgæfari á Íslandi en annars staðar. Það er vegna meira eftirlits og strangara regluumhverfis á Íslandi. Það byggir á því að kampýlobaktermengaðar kjúklingaafurðir fara ekki á markað ófrystar eða óhitameðhöndlaðar. Verði innflutningur gefinn frjáls má búast við stórauknum innflutningi á ódýrari kjúklingum sem eru mengaðri af kampýlóbakter. Einnig má búast við því að innflutningur á ferskri kjötvöru auki nýgengi Salmonellasýkinga og sýkinga af völdum E. coli baktería sem geta valdið blóðugum niðurgangi og jafnvel nýrnabilun.

Það sem veldur þó hvað mestum áhyggjum  er hættan á að með innflutningi á matvælum berist bakteríur sem eru nær al-ónæmar fyrir sýklalyfjum. Þótt við vitum ekki hversu mikil sú áhætta er, þá er ljóst að slíkar bakteríur geta borist með matvælum. Nær alónæmar bakteríur eru ekki landlægar á Íslandi og hafa hvorki fundist í íslenskum húsdýrum né íslenskum matvælum. Slíkar bakteríur eru hins vegar algengar í suður Evrópu, Asíu og víðar. Aukinn innflutningur matvæla eykur því áhættuna á því að slíkar bakteríur berist til landsins og verði hér landlægar. Því er mikilvægt að þekkja þá áhættu og bregðast við henni með auknu eftirliti og um leið sporna við óheftum innflutningi. Með því getum við vonandi lengt þann frest sem við höfum þangað til ný sýklalyf koma til sögunnar.

ogmundurkjot0417 106

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir erindin hófust umræður og kvöddu margir sér hljóðs. Ari Teitson, fyrrum formaður Bændasamtakanna vildi að fyrirlesarar væru gerðir út til Brüssel til uppfræða þá sem væru vankunnandi um þessi efni en hefðu engu að síður vald til ákvarðana. Var að þessu gerður góður en gamansamur rómur. Fjölmargir notuðu tækifærið til þess að þakka fyrir þessa umræðu sem allir voru sammála um að væri lífsnauðsynleg og hefði fundurinn tvímælalaust verið afar gagnlegur.

Hér að neðan eru síðan svipmyndir frá fundinum:

ogmundurkjot0417 129ogmundurkjot0417 134ogmundurkjot0417 138ogmundurkjot0417 143ogmundurkjot0417 159ogmundurkjot0417 071ogmundurkjot0417 186ogmundurkjot0417 170ogmundurkjot0417 072ogmundurkjot0417 080

 

 

 

ogmundurkjot0417 197 

Fosshótel Húsavík – takk fyrir

Framsýn, stéttarfélag hefur staðið fyrir nokkrum opnum fundum um áhugaverð málefni í vetur. Fundirnir hafa verið haldnir í húsnæði stéttarfélaganna fyrir utan tvo fjölmenna fundi, það er um málefni eftirlaunafólks og  innflutning á hráu kjöti sem haldinn var síðasta laugardag. Þessir tveir fundir voru haldnir á Fosshótel Húsavík. Hótelið er í alla staði mjög glæsilegt enda nýbúið að taka það allt í gegn. Þá er öll aðstaða til ráðstefnuhalds orðin eins og hún gerist best á Íslandi. Forsvarsmenn Framsýnar hafa átt mjög gott samstarf við hótelstjórann og aðra starfsmenn hótelsins varðandi skipulag fundana. Allt hefur verið gert til að gera umgjörðina sem glæsilegasta. Fyrir það ber að þakka enda hefur Framsýn fengið mikið lof úr samfélaginu fyrir að bjóða upp á þessa áhugaverðu fundi. Með þessari frétt birtast nokkrar myndir af starfsfólki hótelsins sem komið hefur að fundunum. Takk kærlega fyrir okkur:

ogmundurkjot0417 091

ogmundurkjot0417 092ogmundurkjot0417 156ogmundurkjot0417 191
ogmundurkjot0417 163
ogmundurkjot0417 165ogmundurkjot0417 077
2158

Kallar á frekari skoðun

Rannsókn Háskólans á Akureyri vegna stöðu útlendinga á Norðurlandi þar sem gerður var samanburður á ýmsum búsettu skilyrðum á Akureyri, Dalvík og Húsavík hefur vakið nokkra athygli og verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Meðal þess sem kemur fram og viðkemur kjörum innflytjenda er að kjörin séu lægst á Húsavík. Þessi niðurstaða kallar á skoðun hjá stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum sem telja reyndar að um villandi framsetningu sé um að ræða. Samkvæmt athugun Framsýnar eru heildarlaun verkafólks á félagssvæðinu hærri á Húsavík en á Eyjafjarðarsvæðinu og nýleg samantekt staðfestir.

Samkvæmt könnun Háskólans á Akureyri segist yfir helmingur innflytjenda á Húsavík vera með á bilinu 100 til 300 þúsund krónur í laun á mánuði fyrir skatt. Launin voru mun hærri á Dalvík og Akureyri. Þar sögðust flestir vera með á bilinu 300 til 500 þúsund. Tæp 20 prósent á Akureyri voru með hærri laun en það, en undir tíu prósent á Húsavík og Dalvík.

Starfsmenn Framsýnar munu setjast yfir samantekt Háskólans varðandi kjaramálin og óska eftir fundi með þeim sem stóðu að rannsókninni gerist þess þörf eftir skoðun félagsins.

Hér má lesa umfjöllun RÚV um málið.

Hér er umfjöllun á síðu Háskólans á Akureyri um málið ásamt umfjöllun um erindi sem voru flutt fyrr í dag á ráðstefnu um innflytjendamál í skólanum.

Innflutningur á ferskum matvælum – hver er hættan?

-Framsýn boðar til opins fundar um málefnið-

Til að anna eftirspurn og háværum kröfum um ódýrara kjöt hefur verksmiðjubúskapur tekið við hefðbundnum landbúnaði víða um heim. Til að auka framleiðni og hraða vexti dýra hafa þessi bú notað hormóna og sýklalyf í óhóflegu magni. Þetta er nú að koma í bakið á neytendum, m.a. með stóraukinni tíðni sýlalyfjaónæmra baktería og auknum dauðsföllum vegna þess að sýklalyf virka ekki í æ fleiri tilvikum.

Framsýn hefur ákveðið að boða til opins fundar um þetta mikilvæga málefni og fengið tvo af færustu sérfræðingum landsins á þessu sviði til að vera gestir á fundi félagsins sem haldinn verður á Fosshótel Húsavík laugardaginn 8. apríl kl. 11:00. Boðið verður upp á súpu, brauð og kaffi. Áætlað er að fundurinn standi yfir í tvo tíma. Sérfræðingarnir sem koma eru Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítala Íslands og Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og sérfræðingur á Tilraunastöð HÍ í meinafræðum.

Sjá auglýsinguna.

Þingeyjarsveit tekur upp keðjuábyrgð

Á fundi sínum í gær, 6. apríl tók sveitarstjórn Þingeyjarsveitar fyrir erindi Framsýnar um keðjuábyrgð. Erindi Framsýnar og afgreiðslu sveitarstjórnar má lesa hér að neðan eða smella hér til að fara beint í fundargerðina.

Framsýn – keðjuábyrgð verktaka

Lagt fram bréf frá Aðalsteini Á. Baldurssyni f.h. Framsýnar stéttarfélags þar sem skorað er á sveitarstjórnir á félagssvæðinu að samþykkja keðjuábyrgð verktaka. Keðjuábyrgð er eitt allra mikilvægasta verkfæri sem völ er á til að tryggja lögbundin réttindi og kjör.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkir að innleiða keðjuábyrgð hjá sveitarfélaginu. Þetta gildir um alla samninga um verklegar framkvæmdir og kaup á þjónustu á vegum sveitarfélagsins. Þannig verði sett inn í slíka samninga ákvæði um keðjuábyrgð þeirra seljenda sem sveitarfélagið semur við. Með þessu vill Þingeyjarsveit tryggja að allir starfsmenn, hvort sem það eru starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleiga, njóti launa, trygginga og annarra réttinda í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Aðalverktakinn verði þannig í verksamningi gerður ábyrgur fyrir að tryggja kjarasamnings- og lögbundin réttindi allra starfsmanna sem að verkinu koma. Þetta verður gert til að koma í veg fyrir undirboð og óeðlilega samkeppnishætti á vinnumarkaði.

Heimsókn í Stórutjarnaskóla

Í gær fimmtudaginn 7. apríl heimsótti Aðalsteinn J. Halldórsson, starfsmaður stéttarfélaganna Stórutjarnaskóla. Hann flutti erindi fyrir 9. og 10. bekk um tilgang stéttarfélaga og starfsemi þeirra. Að því loknu svaraði hann spurningum viðstaddra. Að lokum fengu krakkarnir gefins húfur með merki Þingiðnar sem kemur sér vel núna þegar veturinn er kominn aftur.

Erindi sem þetta eru mikilvæg fyrir þennan aldurshóp sem senn tekur sín fyrstu skref á atvinnumarkaði. Sum þeirra höfðu reyndar þegar fengið smjörþefinn af vinnumarkaðnum enda mikil þörf á vinnuafli um þessar mundir og ungir krakkar oft byrjuð að vinna á almennum vinnumarkaði fyrr en verið hefur.

Ósk Helgadóttir, varaformaður Framsýnar tók meðfylgjandi myndir.IMG_2322 IMG_2324 IMG_2325 IMG_2328 IMG_2330 IMG_2333 IMG_2334

Fyrirlestur á föstudaginn

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra mun halda fyrirlestur í samstarfi við Framsýn stéttarfélag, föstudaginn 7. apríl klukkan 17:30 í fundarsal stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26 á Húsavík.
Yfirskrift erindisins er „Togstreita fjármagns og lýðræðis. Nánar má lesa um erindið í auglýsingunni hér að ofan.

Allir eru velkomnir og það verður heitt á könnunni.

Byggðastofnun bókar um úthlutun viðbótaraflamarks á Raufarhöfn

Stjórn Byggðastofnunar fjallaði um úthlutun viðbótaraflamarks á Raufarhöfn og undirskriftalista sem borist hafa vegna hennar á fundi sínum föstudaginn 31. mars.  Eftirfarandi bókun var samþykkt á fundi stjórnarinnar. Fjallað er um afgreiðsluna á heimasíðu stofnunarinnar:

„Stjórn Byggðastofnunar hefur móttekið undirskriftalista vegna úthlutunar sérstaks viðbótar aflamarks á Raufarhöfn með ákvörðun stjórnar stofnunarinnar þann 24. febrúar síðast liðinn.  Þrjár umsóknir bárust um aflamarkið og var ákveðið að ganga til samninga við GPG seafood og samstarfsaðila á Raufarhöfn. Umsóknum Önundar ehf. og Hólmsteins Helgasonar ehf. var hafnað.

Við afgreiðslu umsókna um aflamark Byggðastofnunar á Raufarhöfn hefur stofnunin í hvívetna leitast við að hafa bestu hagsmuni byggðarlagsins í huga og vinnur úr umsóknum í samræmi við skýrar verklagsreglur og viðmið sem birt eru á heimasíðu stofnunarinnar.  Við ráðstöfun aflamarks Byggðastofnunar hefur verið leitast við að ná samstarfi aðila á viðkomandi stöðum um veiðar og vinnslu þess afla sem samningur kveður á um.  Reynt var, í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, að ná samstarfi aðila um þessar viðbótaraflaheimildir.  Ekki reyndist vera grundvöllur fyrir samstarfi umsækjenda og því varð að velja á milli umsókna. 

GPG seafood hefur um árabil rekið bolfiskvinnslu á Raufarhöfn.  Vinna var þó ekki stöðug allt árið, en frá því að fyrst var samið við fyrirtækið um vinnslu 400 þorskígilda aflamarks Byggðastofnunar um áramótin 2013/2014 hefur vinna verið stöðug allt árið um kring auk þess sem starfsmönnum hefur fjölgað og nú eru þar um 30 ársverk í landvinnslu, mun fleiri störf en aðrar umsóknir bera með sér.  Fyrirtækið hefur í einu og öllu staðið við samning sinn við Byggðastofnun um aukna byggðafestu á Raufarhöfn.  Það var mat stofnunarinnar að fengnum framangreindum umsóknum um 100 tonn til viðbótar á Raufarhöfn að mestum byggðaáhrifum með þeirri úthlutun yrði náð með því að treysta enn frekar grundvöll vinnslu GPG á Raufarhöfn.  Þar skiptir ennfremur máli að rekstrarhorfur aðila í bolfiskvinnslu eru erfiðar nú um stundir vegna sterks gengis íslensku krónunnar.

Byggðastofnun er hér eftir sem hingað til reiðubúin að hitta umsækjendur til að gera nánari grein fyrir ákvörðun þessari.“

Samherji svarar kalli Framsýnar -fiskvinnslufólki bætt upp tekjutap í verkfalli-

 

Eftir ábendingar frá starfsmönnum í landvinnslum Samherja gerði Framsýn alvarlegar athugasemdir við fullyrðingar fyrirtækisins þess efnis að starfsmenn kæmu mun betur út með því að vera á atvinnuleysisbótum í verkfalli sjómanna í stað þess að vera á kauptryggingu hjá fyrirtækinu. Þessi fullyrðing var sett fram í bréfi til starfsmanna Samherja  í desember 2016 þegar verkfall sjómanna hófst og fyrirtækið tók ákvörðun um að taka starfsmenn út af launaskrá vegna verkfallsins og vísa þeim á atvinnuleysisbætur.

Framsýn mótmælti þessari ákvörðun og skoraði á Samherja að halda starfsmönnum sínum á kauptryggingu. Þá lagði félagið fram útreikninga sem sýndu fram á verulegt tekjutap og réttindamissi stæði fyrirtækið við sína ákvörðun. Meðal þess sem var bent var á var að sumarorlofið skertist sem og  orlofs- og desemberuppbæturnar. Þá ættu ekki allir rétt á atvinnuleysisbótum með tilheyrandi tekjumissi.

Á þeim tíma átti formaður Framsýnar í viðræðum við forsvarsmenn Samherja vegna málsins og gerðu þeir ekki athugasemdir við launaútreikninga félagsins eða aðrar athugasemdir er snéru að fullyrðingum Framsýnar um réttindamissi starfsmanna. Þeir fullvissuðu hann um að allt yrði gert til að tryggja að starfsmenn kæmu ekki ver út með því að fara þá leið sem fyrirtækið valdi að fara, í stað þess að halda starfsmönnum á kauptryggingu hjá fyrirtækinu. Burt séð frá þessu, þá eiga fyrirtæki almennt að hafa starfsfólk á launaskrá í stað þess að senda það á atvinnuleysisbætur við aðstæður sem þessar.

Þrátt fyrir það er afar gleðilegt að sjá fréttir af því  í fjölmiðlum að Samherji hafi ákveðið að fara að kröfum Framsýnar og bæta starfsmönnum upp tekjutapið í verkfalli sjómanna með því að bæta þeim upp tapaða daga í sumarfríi, þannig að þeir fái  fullan orlofsrétt og viðbót á orlofsuppbótina kr. 103.500.  Áður fengu starfsmenn auka greiðslu í desember í formi hærri desemberuppbótar. Með þessu er viðurkennt að starfsmenn fóru ekki vel út úr því að vera á atvinnuleysisbótum.

Já, það borgar sig svo sannarlega að berjast fyrir réttindum verkafólks. Þetta dæmi sýnir að það skilar árangri, enda séu fyrirtæki tilbúin að hlusta á réttmætar kröfur stéttarfélaga og starfsmanna. Reyndar sá Samherji ekki ástæðu til að hafa samband við  forsvarsmenn Framsýnar og skýra frá ákvörðun fyrirtækisins, hvað þá að gera „samkomulag“ við félagið. Það skiptir reyndar engu máli í þessu sambandi, aðalatriðið er að starfsmönnum hefur verið bætt upp tekjutapið að hluta að minnsta kosti í anda krafna frá Framsýn. Aðalsmerki Framsýnar er að standa vörð um hagsmuni félagsmanna á hverjum tíma.

 

Vilja aukinn byggðakvóta á Raufarhöfn

Málefni Raufarhafnar hafa verið til umræðu innan stjórnar Framsýnar. Fulltrúar félagsins höfðu áður fundað með starfsmönnum og eiganda Fiskvinnslu Hólmsteins Helgasonar ehf. á Raufarhöfn vegna óánægju þeirra með að Byggðastofnun skyldi ekki sjá ástæðu til að úthluta fyrirtækinu hlutdeild í sérstökum byggðakvóta. Starfsmenn hafa fengið uppsagnarbréf og munu láta af störfum að öllu óbreyttu í vor. Framsýn tekur undir bókun sveitarstjórnar Norðurþings frá 21. mars 2017 þar sem málefni Raufarhafnar voru til umræðu, sérstaklega hvað varðar þennan hluta bókunarinnar:

„Sveitarstjórn Norðurþings skorar á Byggðastofnun að auka þegar í stað við sértækan byggðakvóta ársins 2017 á Raufarhöfn. Fyrir því eru sterk málefnaleg byggðarök. Jafnframt er með þeim hætti mögulegt að bregðast við þeim athugasemdum sem fyrir liggja, m.a. um uppbyggingu heilbrigðrar samkeppni á vinnumarkaði á Raufarhöfn, án þess að rýra hlut annarra burðarása í atvinnulífi staðarins.“

Þá telur félagið skipta máli í þessu sambandi að eigendur Fiskvinnslu Hólmsteins Helgasonar ehf. hafa komið að öðrum verkefnum á Raufarhöfn s.s. með kaupum á fjölbýlishúsi á staðnum sem gera þarf upp til að gera íbúðarhæft auk þess að kaupa Hótel Norðurljós með samstarfsaðilum. Allt þetta skiptir verulega miklu máli fyrir lítið samfélag eins og Raufarhöfn og er ætlað að styrkja búsetuskilyrði á svæðinu. Þessum skoðunum Framsýnar hefur þegar verið komið á framfæri við Byggðastofnun með bréfi.