Framsýn hvetur lífeyrissjóði til að halda sínu striki

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti nýlega að hvetja lífeyrissjóði á samningssviði ASÍ og Samtaka atvinnulífsins að draga tímabundið til baka valkvæði sjóðsfélaga um að ráðstafa auknu framlagi í tilgreinda séreign.

Stjórn Framsýnar er alfarið á móti því að stíga þetta skref til baka. Lífeyrissjóðirnir hafa þegar haldið auka ársfundi til að breyta samþykktum sjóðanna svo þeir geti tekið við auknum framlögum sjóðfélaga í viðkomandi lífeyrissjóði.  Þessi hringlandaháttur ASÍ er með ólíkindum og ekki til þess fallinn að auka tiltrú fólks á lífeyrissjóðakerfinu. Þess vegna hafnar stjórn Framsýnar tilmælum miðstjórnar Alþýðusambands Íslands og hvetur stjórnir lífeyrissjóða  til að fylgja eftir áður samþykktum breytingum á regluverki sjóðanna sem gerir þeim kleift að taka á móti tilgreindri séreign. Þá telur Framsýn mikilvægt að Alþingi afgreiði ný lög um lífeyrissjóði, lög sem voru í undirbúningi áður er ríkistjórnin féll frá.

Fleiri stéttarfélög og sambönd hafa einnig tekið málið fyrir og ályktað, þar á meðal Rafiðnarsamband Íslands. Í ályktun sambandsins kemur fram:

„Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands harmar þá ákvörðun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands að hvetja lífeyrissjóði sem starfa á samningssviði ASÍ og SA að draga tímabundið til baka valkvæði um greiðslur sjóðfélaga í tilgreinda séreign. Félagsmenn hafa samþykkt þann kjarasamning sem tilgreinda séreignin er byggð á og því verður valkvæðið að standa. 

Miðstjórn RSÍ áréttar að mikilvægt er að Alþingi breyti lögum um lífeyrissjóði þar sem félagsmönnum er gert heimilt að ráðstafa iðgjaldi í tilgreinda séreign eins og samið var um á sínum tíma. Þá er lykilatriði að lagabreyting verði í samræmi við ákvæði kjarasamningsins enda starfa lífeyrissjóðir í samræmi við kjarasamning ASÍ og SA.“

 

Deila á