Framsýn skorar á ráðamenn að bæta stöðu sjúklinga

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar samþykkti í morgun að senda frá sér meðfylgjandi áskorun til ráðamanna þjóðarinnar sem þessa dagana vinna að því að koma saman stjórnarsáttmála fyrir verðandi ríkistjórn, verði hún að veruleika. Áskorunin varðar stöðu fólks á landsbyggðinni þar sem heilbrigðisþjónusta hefur verið skorin niður eða hún skert í skjóli hagræðingar.

Gríðarlegur kostnaður er því fylgjandi fyrir þá fjölmörgu aðila sem þurfa að sækja sér heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð. Á sama tíma og borið er við hagræðingu og sparnaði fyrir ríkið er kostnaðinum varpað beint í fangið á sjúklingum og veiku fólki sem þarf á þessari þjónustu að halda búandi fjarri Reykjavík.

Framsýn telur stöðu þessa fólks  óviðunandi með öllu og við hana verði ekki unað lengur.

Ríkistjórn sem vill kenna sig við velferð, getur ekki lokað augunum fyrir þessum mikla vanda fólks á landsbyggðinni.

 

Áskorun

Til nýkjörinna ráðamanna þjóðarinnar

Framsýn stéttarfélag skorar á nýkjörna ráðamenn þjóðarinnar að bregðast við þeim vanda sem fólk í hinum dreifðu byggðum landsins býr við vegna langvarandi niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu.

Það er lýðum ljóst að einn lykilþátturinn í því að tryggja búsetu um landið allt er góður aðgangur að heilbrigðisþjónustu.  Þrátt fyrir marg yfirlýstan vilja stjórnvalda um að tryggt verði að heilbrigðisstofnanir landsins haldi lögbundnum hlutverkum sínum og landsmenn njóti jafnra möguleika til heilbrigðisþjónustu er það ekki svo í reynd.

Mörg undanfarin ár hafa íbúar landsbyggðarinnar þurft að láta yfir sig ganga skerðingar á heilbrigðisþjónustu, þar sem hurðum er lokað á hverri sjúkrastofnuninni eftir annarri –  lokað í nafni hagræðingar, og fólki gert að sækja læknisþjónustu um langan veg, oftast til Reykjavíkur. Því fylgir gríðarlega mikill kostnaður, vinnutap og óöryggi, jafnvel fjarvistir frá fjölskyldu um lengri eða skemmri tíma.

Húsnæðisúrræði á vegum ríkisins fyrir þá sem þurfa að dvelja langdvölum fjarri heimili sínu eru af skornum skammti og niðurgreiðslur Tryggingastofnunar Ríkisins vegna ferðakostnaðar sjúklinga og aðstandenda þeirra duga skammt þegar um langvinn veikindi eða um bið barnshafandi kvenna eftir fæðingu er að ræða. Efnaminna fólk ræður einfaldlega ekki við þennan mikla viðbótarkostnað, enda á það ekki að flokkast undir lúxus þeirra efnameiri að geta leitað eftir heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Krafa Framsýnar sem byggir á heilbrigðri skynsemi, er að það komi skýrt fram í stjórnarsáttmála verðandi ríkisstjórnar að sérstaklega verði tekið á vanda þess  fólks sem þarf að sækja læknisþjónustu um langan veg með auknum framlögum er tengist ekki síst ferða- og dvalarkostnaði sjúklinga. Þá verði tekið á húsnæðisúrræðum fyrir þá aðila sem þurfa að dvelja frá heimili tímabundið vegna heilbrigðisþjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð.

 

Deila á