Þegar stjórnarmyndunarviðræðurnar stóðu yfir milli Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og VG kom stjórn Framsýnar skoðunum félagsins á framfæri við formenn flokkanna með netpósti og bað þá að taka tillit til mikilvægra réttindamála verkafólks og stöðu þeirra á íslenskum vinnumarkaði. Einnig var komið inn á mikilvægi þess að halda landinu öllu í byggð ekki síst með öflugri heilbrigðisþjónustu og fjölbreyttu atvinnulífi.
Félagið fylgdi þessum áherslum eftir með ályktunum og auglýsingum í fjölmiðlum fyrir kosningarnar. Þar voru nokkur atriði áréttuð s.s. afnám verðtryggingar, mikilvægi keðjuábyrgðar, efling framhaldsskóla, umhverfismál, vegmál, ljósleiðaravæðing, lækkun tekjuskatts hjá þeim tekjulægstu, hækkun á frítekjumarki atvinnutekna aldraðra og síðast enn ekki síst að tekið yrði á þeim mikla dvalar- og ferðakostnaði sem fólk verður fyrir sem þarf að leita sér læknis- eða sérfræðiþjónustu fjarri heimabyggð.
Þegar stjórnarsáttmálinn er skoðaður er ekki annað að sjá en að stjórnarflokkarnir hafi tekið ábendingum Framsýnar vel og komið þeim fyrir í sáttmálanum sem er til fyrirmyndar.
Í sáttmálanum eru sett fram markmið um velferð, mannréttindi og loftslagsmál, eflingu Alþingis og aukið þverpólitískt samráð, stórsókn í uppbyggingu á innviðum um allt land og eflingu heilbrigðis- og menntakerfa. Um 100 aðgerðir og áherslumál er að finna í sáttmálanum í þágu þessara markmiða og annarra verkefna.
Framsýn mun að sjálfsögðu fylgja því eftir að ríkistjórnin standi við stjórnarsáttmálann er viðkemur ekki síst velferð og málefnum verkafólks í landinu.
Áherslur og aðgerðir í stjórnarsáttmálanum eru meðal annars þessar og snerta skoðanir Framsýnar:
• Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.
• Unnið verður með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgum vinnumarkaði. Innleidd verða ákvæði um keðjuábyrgð í ólíkum atvinnugreinum, unnið gegn kynbundnum launamun, félagslegum undirboðum, mansali og kennitöluflakki og vinnueftirlit eflt.
• Frítekjumark atvinnutekna aldraðra verður hækkað í hundrað þúsund krónur strax um næstu áramót. Gjaldskrá vegna tannlækninga aldraðra og örorkulífeyrisþega verður uppfærð til að lækka kostnað þessara hópa. Samráð verður haft við heildarsamtök örorkulífeyrisþega um umbætur á almannatryggingakerfinu í þeirra þágu.
• Markviss skref verða tekin á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum og samhliða hugað að mótvægisaðgerðum í þágu ungs fólks og tekjulágra.
• Lögð verður áhersla á ábyrg ríkisfjármál og efnahagslegan stöðugleika. Til að styðja við farsæla niðurstöðu kjarasamninga hyggst ríkisstjórnin leggja áherslu á lækkun tekjuskatts í neðra skattþrepi. Þá er það einnig forgangsmál á kjörtímabilinu að lækka tryggingagjald.
• Heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum og allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu. Átak verður gert í uppbyggingu hjúkrunarrýma, heilbrigðisstefna fyrir Ísland fullunnin, dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga og geðheilbrigðisáætlun hrint í framkvæmd.
• Hafin verður stórsókn í menntamálum. Stefnt verður að því að fjármögnun háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020. Iðnnám og verk- og starfsnám verður eflt. Framhaldsskólum verður tryggt fjármagn og frelsi til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaganna. Brugðist verður við yfirvofandi kennaraskorti í samstarfi við sveitarfélögin.
• Uppbyggingu í vegamálum verður hraðað, bæði nýframkvæmdum og viðhaldi. Ljósleiðaravæðingu landsins verður lokið 2020, afhendingaröryggi raforku aukið og átak gert í fráveitumálum í samstarfi við sveitarfélög. Sóknaráætlanir landshlutanna verða styrktar.
• Stuðlað verður að bættu aðgengi landsmanna að öruggu húsnæði með eflingu stuðningskerfa, samræmdri stefnumörkun í uppbyggingu félagslegs húsnæðis og auknu gagnsæi á leigumarkaði. Þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn verður lækkaður. Skoðaðir verða möguleikar á að nýta lífeyrissparnað til þessa.
• Ísland á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Lögð verður áhersla á nýsköpun og vöruþróun í landbúnaði til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem felast í áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Innleiddir verða sérstakir aðlögunarsamningar um nýja starfsemi til sveita.
• Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs, leggja þarf áfram áherslu á sjálfbæra auðlindanýtingu og efla hafrannsóknir. Veiðigjald á að tryggja þjóðinni réttlátan hlut í arðinum af auðlindinni ásamt því að endurspegla afkomu greinarinnar. Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna.
Smelltu hér til að lesa stjórnarsáttmálann í heild sinni