Fosshótel Húsavík – takk fyrir

Framsýn, stéttarfélag hefur staðið fyrir nokkrum opnum fundum um áhugaverð málefni í vetur. Fundirnir hafa verið haldnir í húsnæði stéttarfélaganna fyrir utan tvo fjölmenna fundi, það er um málefni eftirlaunafólks og  innflutning á hráu kjöti sem haldinn var síðasta laugardag. Þessir tveir fundir voru haldnir á Fosshótel Húsavík. Hótelið er í alla staði mjög glæsilegt enda nýbúið að taka það allt í gegn. Þá er öll aðstaða til ráðstefnuhalds orðin eins og hún gerist best á Íslandi. Forsvarsmenn Framsýnar hafa átt mjög gott samstarf við hótelstjórann og aðra starfsmenn hótelsins varðandi skipulag fundana. Allt hefur verið gert til að gera umgjörðina sem glæsilegasta. Fyrir það ber að þakka enda hefur Framsýn fengið mikið lof úr samfélaginu fyrir að bjóða upp á þessa áhugaverðu fundi. Með þessari frétt birtast nokkrar myndir af starfsfólki hótelsins sem komið hefur að fundunum. Takk kærlega fyrir okkur:

ogmundurkjot0417 091

ogmundurkjot0417 092ogmundurkjot0417 156ogmundurkjot0417 191
ogmundurkjot0417 163
ogmundurkjot0417 165ogmundurkjot0417 077
2158

Kallar á frekari skoðun

Rannsókn Háskólans á Akureyri vegna stöðu útlendinga á Norðurlandi þar sem gerður var samanburður á ýmsum búsettu skilyrðum á Akureyri, Dalvík og Húsavík hefur vakið nokkra athygli og verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Meðal þess sem kemur fram og viðkemur kjörum innflytjenda er að kjörin séu lægst á Húsavík. Þessi niðurstaða kallar á skoðun hjá stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum sem telja reyndar að um villandi framsetningu sé um að ræða. Samkvæmt athugun Framsýnar eru heildarlaun verkafólks á félagssvæðinu hærri á Húsavík en á Eyjafjarðarsvæðinu og nýleg samantekt staðfestir.

Samkvæmt könnun Háskólans á Akureyri segist yfir helmingur innflytjenda á Húsavík vera með á bilinu 100 til 300 þúsund krónur í laun á mánuði fyrir skatt. Launin voru mun hærri á Dalvík og Akureyri. Þar sögðust flestir vera með á bilinu 300 til 500 þúsund. Tæp 20 prósent á Akureyri voru með hærri laun en það, en undir tíu prósent á Húsavík og Dalvík.

Starfsmenn Framsýnar munu setjast yfir samantekt Háskólans varðandi kjaramálin og óska eftir fundi með þeim sem stóðu að rannsókninni gerist þess þörf eftir skoðun félagsins.

Hér má lesa umfjöllun RÚV um málið.

Hér er umfjöllun á síðu Háskólans á Akureyri um málið ásamt umfjöllun um erindi sem voru flutt fyrr í dag á ráðstefnu um innflytjendamál í skólanum.

Innflutningur á ferskum matvælum – hver er hættan?

-Framsýn boðar til opins fundar um málefnið-

Til að anna eftirspurn og háværum kröfum um ódýrara kjöt hefur verksmiðjubúskapur tekið við hefðbundnum landbúnaði víða um heim. Til að auka framleiðni og hraða vexti dýra hafa þessi bú notað hormóna og sýklalyf í óhóflegu magni. Þetta er nú að koma í bakið á neytendum, m.a. með stóraukinni tíðni sýlalyfjaónæmra baktería og auknum dauðsföllum vegna þess að sýklalyf virka ekki í æ fleiri tilvikum.

Framsýn hefur ákveðið að boða til opins fundar um þetta mikilvæga málefni og fengið tvo af færustu sérfræðingum landsins á þessu sviði til að vera gestir á fundi félagsins sem haldinn verður á Fosshótel Húsavík laugardaginn 8. apríl kl. 11:00. Boðið verður upp á súpu, brauð og kaffi. Áætlað er að fundurinn standi yfir í tvo tíma. Sérfræðingarnir sem koma eru Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítala Íslands og Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og sérfræðingur á Tilraunastöð HÍ í meinafræðum.

Sjá auglýsinguna.

Þingeyjarsveit tekur upp keðjuábyrgð

Á fundi sínum í gær, 6. apríl tók sveitarstjórn Þingeyjarsveitar fyrir erindi Framsýnar um keðjuábyrgð. Erindi Framsýnar og afgreiðslu sveitarstjórnar má lesa hér að neðan eða smella hér til að fara beint í fundargerðina.

Framsýn – keðjuábyrgð verktaka

Lagt fram bréf frá Aðalsteini Á. Baldurssyni f.h. Framsýnar stéttarfélags þar sem skorað er á sveitarstjórnir á félagssvæðinu að samþykkja keðjuábyrgð verktaka. Keðjuábyrgð er eitt allra mikilvægasta verkfæri sem völ er á til að tryggja lögbundin réttindi og kjör.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkir að innleiða keðjuábyrgð hjá sveitarfélaginu. Þetta gildir um alla samninga um verklegar framkvæmdir og kaup á þjónustu á vegum sveitarfélagsins. Þannig verði sett inn í slíka samninga ákvæði um keðjuábyrgð þeirra seljenda sem sveitarfélagið semur við. Með þessu vill Þingeyjarsveit tryggja að allir starfsmenn, hvort sem það eru starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleiga, njóti launa, trygginga og annarra réttinda í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Aðalverktakinn verði þannig í verksamningi gerður ábyrgur fyrir að tryggja kjarasamnings- og lögbundin réttindi allra starfsmanna sem að verkinu koma. Þetta verður gert til að koma í veg fyrir undirboð og óeðlilega samkeppnishætti á vinnumarkaði.

Heimsókn í Stórutjarnaskóla

Í gær fimmtudaginn 7. apríl heimsótti Aðalsteinn J. Halldórsson, starfsmaður stéttarfélaganna Stórutjarnaskóla. Hann flutti erindi fyrir 9. og 10. bekk um tilgang stéttarfélaga og starfsemi þeirra. Að því loknu svaraði hann spurningum viðstaddra. Að lokum fengu krakkarnir gefins húfur með merki Þingiðnar sem kemur sér vel núna þegar veturinn er kominn aftur.

Erindi sem þetta eru mikilvæg fyrir þennan aldurshóp sem senn tekur sín fyrstu skref á atvinnumarkaði. Sum þeirra höfðu reyndar þegar fengið smjörþefinn af vinnumarkaðnum enda mikil þörf á vinnuafli um þessar mundir og ungir krakkar oft byrjuð að vinna á almennum vinnumarkaði fyrr en verið hefur.

Ósk Helgadóttir, varaformaður Framsýnar tók meðfylgjandi myndir.IMG_2322 IMG_2324 IMG_2325 IMG_2328 IMG_2330 IMG_2333 IMG_2334

Fyrirlestur á föstudaginn

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra mun halda fyrirlestur í samstarfi við Framsýn stéttarfélag, föstudaginn 7. apríl klukkan 17:30 í fundarsal stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26 á Húsavík.
Yfirskrift erindisins er „Togstreita fjármagns og lýðræðis. Nánar má lesa um erindið í auglýsingunni hér að ofan.

Allir eru velkomnir og það verður heitt á könnunni.

Byggðastofnun bókar um úthlutun viðbótaraflamarks á Raufarhöfn

Stjórn Byggðastofnunar fjallaði um úthlutun viðbótaraflamarks á Raufarhöfn og undirskriftalista sem borist hafa vegna hennar á fundi sínum föstudaginn 31. mars.  Eftirfarandi bókun var samþykkt á fundi stjórnarinnar. Fjallað er um afgreiðsluna á heimasíðu stofnunarinnar:

„Stjórn Byggðastofnunar hefur móttekið undirskriftalista vegna úthlutunar sérstaks viðbótar aflamarks á Raufarhöfn með ákvörðun stjórnar stofnunarinnar þann 24. febrúar síðast liðinn.  Þrjár umsóknir bárust um aflamarkið og var ákveðið að ganga til samninga við GPG seafood og samstarfsaðila á Raufarhöfn. Umsóknum Önundar ehf. og Hólmsteins Helgasonar ehf. var hafnað.

Við afgreiðslu umsókna um aflamark Byggðastofnunar á Raufarhöfn hefur stofnunin í hvívetna leitast við að hafa bestu hagsmuni byggðarlagsins í huga og vinnur úr umsóknum í samræmi við skýrar verklagsreglur og viðmið sem birt eru á heimasíðu stofnunarinnar.  Við ráðstöfun aflamarks Byggðastofnunar hefur verið leitast við að ná samstarfi aðila á viðkomandi stöðum um veiðar og vinnslu þess afla sem samningur kveður á um.  Reynt var, í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, að ná samstarfi aðila um þessar viðbótaraflaheimildir.  Ekki reyndist vera grundvöllur fyrir samstarfi umsækjenda og því varð að velja á milli umsókna. 

GPG seafood hefur um árabil rekið bolfiskvinnslu á Raufarhöfn.  Vinna var þó ekki stöðug allt árið, en frá því að fyrst var samið við fyrirtækið um vinnslu 400 þorskígilda aflamarks Byggðastofnunar um áramótin 2013/2014 hefur vinna verið stöðug allt árið um kring auk þess sem starfsmönnum hefur fjölgað og nú eru þar um 30 ársverk í landvinnslu, mun fleiri störf en aðrar umsóknir bera með sér.  Fyrirtækið hefur í einu og öllu staðið við samning sinn við Byggðastofnun um aukna byggðafestu á Raufarhöfn.  Það var mat stofnunarinnar að fengnum framangreindum umsóknum um 100 tonn til viðbótar á Raufarhöfn að mestum byggðaáhrifum með þeirri úthlutun yrði náð með því að treysta enn frekar grundvöll vinnslu GPG á Raufarhöfn.  Þar skiptir ennfremur máli að rekstrarhorfur aðila í bolfiskvinnslu eru erfiðar nú um stundir vegna sterks gengis íslensku krónunnar.

Byggðastofnun er hér eftir sem hingað til reiðubúin að hitta umsækjendur til að gera nánari grein fyrir ákvörðun þessari.“

Samherji svarar kalli Framsýnar -fiskvinnslufólki bætt upp tekjutap í verkfalli-

 

Eftir ábendingar frá starfsmönnum í landvinnslum Samherja gerði Framsýn alvarlegar athugasemdir við fullyrðingar fyrirtækisins þess efnis að starfsmenn kæmu mun betur út með því að vera á atvinnuleysisbótum í verkfalli sjómanna í stað þess að vera á kauptryggingu hjá fyrirtækinu. Þessi fullyrðing var sett fram í bréfi til starfsmanna Samherja  í desember 2016 þegar verkfall sjómanna hófst og fyrirtækið tók ákvörðun um að taka starfsmenn út af launaskrá vegna verkfallsins og vísa þeim á atvinnuleysisbætur.

Framsýn mótmælti þessari ákvörðun og skoraði á Samherja að halda starfsmönnum sínum á kauptryggingu. Þá lagði félagið fram útreikninga sem sýndu fram á verulegt tekjutap og réttindamissi stæði fyrirtækið við sína ákvörðun. Meðal þess sem var bent var á var að sumarorlofið skertist sem og  orlofs- og desemberuppbæturnar. Þá ættu ekki allir rétt á atvinnuleysisbótum með tilheyrandi tekjumissi.

Á þeim tíma átti formaður Framsýnar í viðræðum við forsvarsmenn Samherja vegna málsins og gerðu þeir ekki athugasemdir við launaútreikninga félagsins eða aðrar athugasemdir er snéru að fullyrðingum Framsýnar um réttindamissi starfsmanna. Þeir fullvissuðu hann um að allt yrði gert til að tryggja að starfsmenn kæmu ekki ver út með því að fara þá leið sem fyrirtækið valdi að fara, í stað þess að halda starfsmönnum á kauptryggingu hjá fyrirtækinu. Burt séð frá þessu, þá eiga fyrirtæki almennt að hafa starfsfólk á launaskrá í stað þess að senda það á atvinnuleysisbætur við aðstæður sem þessar.

Þrátt fyrir það er afar gleðilegt að sjá fréttir af því  í fjölmiðlum að Samherji hafi ákveðið að fara að kröfum Framsýnar og bæta starfsmönnum upp tekjutapið í verkfalli sjómanna með því að bæta þeim upp tapaða daga í sumarfríi, þannig að þeir fái  fullan orlofsrétt og viðbót á orlofsuppbótina kr. 103.500.  Áður fengu starfsmenn auka greiðslu í desember í formi hærri desemberuppbótar. Með þessu er viðurkennt að starfsmenn fóru ekki vel út úr því að vera á atvinnuleysisbótum.

Já, það borgar sig svo sannarlega að berjast fyrir réttindum verkafólks. Þetta dæmi sýnir að það skilar árangri, enda séu fyrirtæki tilbúin að hlusta á réttmætar kröfur stéttarfélaga og starfsmanna. Reyndar sá Samherji ekki ástæðu til að hafa samband við  forsvarsmenn Framsýnar og skýra frá ákvörðun fyrirtækisins, hvað þá að gera „samkomulag“ við félagið. Það skiptir reyndar engu máli í þessu sambandi, aðalatriðið er að starfsmönnum hefur verið bætt upp tekjutapið að hluta að minnsta kosti í anda krafna frá Framsýn. Aðalsmerki Framsýnar er að standa vörð um hagsmuni félagsmanna á hverjum tíma.

 

Vilja aukinn byggðakvóta á Raufarhöfn

Málefni Raufarhafnar hafa verið til umræðu innan stjórnar Framsýnar. Fulltrúar félagsins höfðu áður fundað með starfsmönnum og eiganda Fiskvinnslu Hólmsteins Helgasonar ehf. á Raufarhöfn vegna óánægju þeirra með að Byggðastofnun skyldi ekki sjá ástæðu til að úthluta fyrirtækinu hlutdeild í sérstökum byggðakvóta. Starfsmenn hafa fengið uppsagnarbréf og munu láta af störfum að öllu óbreyttu í vor. Framsýn tekur undir bókun sveitarstjórnar Norðurþings frá 21. mars 2017 þar sem málefni Raufarhafnar voru til umræðu, sérstaklega hvað varðar þennan hluta bókunarinnar:

„Sveitarstjórn Norðurþings skorar á Byggðastofnun að auka þegar í stað við sértækan byggðakvóta ársins 2017 á Raufarhöfn. Fyrir því eru sterk málefnaleg byggðarök. Jafnframt er með þeim hætti mögulegt að bregðast við þeim athugasemdum sem fyrir liggja, m.a. um uppbyggingu heilbrigðrar samkeppni á vinnumarkaði á Raufarhöfn, án þess að rýra hlut annarra burðarása í atvinnulífi staðarins.“

Þá telur félagið skipta máli í þessu sambandi að eigendur Fiskvinnslu Hólmsteins Helgasonar ehf. hafa komið að öðrum verkefnum á Raufarhöfn s.s. með kaupum á fjölbýlishúsi á staðnum sem gera þarf upp til að gera íbúðarhæft auk þess að kaupa Hótel Norðurljós með samstarfsaðilum. Allt þetta skiptir verulega miklu máli fyrir lítið samfélag eins og Raufarhöfn og er ætlað að styrkja búsetuskilyrði á svæðinu. Þessum skoðunum Framsýnar hefur þegar verið komið á framfæri við Byggðastofnun með bréfi.

 

Vilji til að ná samkomulagi

Eins og kunnugt er hefur Framsýn og Þingiðn krafist þess að gerður verði kjarasamningur um störf félagsmanna sem koma til með að starfa í verksmiðju PCC á Bakka. Forsvarsmenn PCC hafa ekki verið sammála því að gera samning og kom ágreiningurinn upp á fjölmennum íbúafundi á Húsavík í vikunni sem haldinn var til að fara yfir stöðu framkvæmda við Húsavíkurhöfn, Bakka, á Þeistareykjum og varðandi línulögnina frá Kröflu að verksmiðju PCC á Bakka.

Fulltrúar stéttarfélaganna og PCC hittust daginn eftir og fóru yfir ágreining aðila. Niðurstaðan var að aðilar ætla að vinna áfram í málinu með það að markmiði að báðir aðilar geti vonandi sæst á niðurstöðuna.

Ályktað um starfsöryggi fiskvinnslufólks

Stjórn Framsýnar kom saman til fundar í gærkvöldi, fjölmörg mál voru á dagskrá fundarins. Meðal annars urðu miklar umræður um yfirlýsingar forsvarsmanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem hótaði því í fjölmiðlum að til greina kæmi að flytja vinnslu á fiski úr landi. Eftir umræður um málið var stjórn Framsýnar sammála um að senda frá sér ályktun um málið sem er svohljóðandi:

„Framsýn stéttarfélag harmar málflutning Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem með hótunum hafa boðað að fyrirtæki í fiskvinnslu séu með til skoðunar að flytja starfsemina úr landi. Það er forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa í mörgum tilfellum greitt sér himin háar arðgreiðslur á undanförnum árum. Nú þegar árar ekki eins vel er stefnan tekin á útlönd með auðlindina sem er sameiginleg eign íslensku þjóðarinnar.

Þessar glórulausu yfirlýsingar koma í kjölfar verkfalls sjómanna sem kostaði fiskvinnslufólk víða um land atvinnumissi og verulegt tekjutap.

 Fiskvinnslufyrirtækin halda áfram að ögra byggðarlögunum í landinu með því að boða frekari flutning á störfum milli landshluta og/eða byggðalaga.

Alþingi getur ekki lengur setið aðgerðarlaust hjá við þessar aðstæður. Yfirlýsingar sem þessar kalla á tafalausar aðgerðir og  endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni með það að markmiði að tryggja að handhafar kvótans geti ekki komist upp með svona vinnubrögð.“

 

 

 

Breytingar á greiðslum í lífeyrissjóði

Rétt er að vekja athygli á því að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum hækkar úr 8,5% í 10% þann 1. júlí 2017. Framlag starfsmanna verður áfram það sama eða 4%. Frekari upplýsingar um þessar breytingar er hægt að fá á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Samheldni starfsmanna í baráttu um byggðakvóta

Formaður Framsýnar gerði sér ferð til Raufarhafnar fyrir helgina til að eiga fund með forsvarsmönnum og starfsmönnum fiskvinnslu Hólmsteins Helgasonar ehf. á Raufarhöfn. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er óánægja með að fyrirtækið hafi ekki fengið hlutdeild í sérstökum byggðakvóta sem fór til Raufarhafnar. Í heildina komu 500 tonn af byggðakvóta til Raufarhafnar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Þrátt fyrir alvarleika málsins var að sögn formanns Framsýnar ánægjulegt að koma í heimsókn á vinnustaðinn. Greinilegt væri að mikil samheldni væri meðal starfsmanna sem stæðu heilshugar að baki eigendum fyrirtækisins sem telja að gengið hafi verið fram hjá þeim við úthlutun kvótans. Þá liggur fyrir að fiskvinnslunni verður lokað í vor þar sem ekki fékkst byggðakvóti til vinnslu með þeim heimildum sem fyrirtækið á sem er um 500 tonn. Starfsmenn koma því til með að missa vinnuna í vor en um 10 starfsmenn hafa verið við störf í vetur. Málið verður til umræðu á fundi stjórnar Framsýnar síðar í vikunni auk þess sem formaður Framsýnar hefur óskað eftir að málið verði tekið upp á fundi stjórnar Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga sem haldinn verður síðar í dag.

sjomenn0217 030

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Formaður Framsýnar fundaði með forsvarsmönnum fiskvinnslu Hólmsteins Helgasonar á Raufarhöfn fyrir helgina. Mikil óánægja er meðal starfsmanna og forsvarsmanna fyrirtækisins að fyrirtækis skyldi ekki fá hlutdeild í byggðakvóta sem var úthlutað til Raufarhafnar. Starfsmönnum hefur verið sagt upp og láta þeir af störfum í vor.

 

ÉG VEIT ÞÚ KEMUR

Karlakórinn Hreimur stóð fyrir vorfagnaði á Ýdölum síðasta laugardagskvöld og var fullt út úr dyrum. Að venju var um að ræða frábæra skemmtun og hefur kórinn sjaldan eða aldrei verið betri en um þessar mundir. Stjórnandi kórsins er Steinþór Þráinsson og undirleikari Steinunn Halldórsdóttir. Tveir stórsöngvarar komu fljúgandi norður til að krydda upp á kvöldið. Það voru þau Gissur Páll Gissurarson og Margrét Eir. Fagnaðarstjóri kvöldsins klikkaði ekki, Viðar Guðmundsson bóndi á Ströndum. Ekki má gleyma stórbrotnu veislukaffi en styrkja þurfti veisluborðin sérstaklega svo þau gæfu sig ekki undan þungum hnallþórum og öðrum kræsingum. Eftir frábæra kvöldstund tóku félagarnir Frímann og Hafliði við og spiluðu eins og enginn væri morgundagurinn fram eftir nóttu. Ekki fer sögum að því hvenær dansleiknum lauk um nóttina. Takk fyrir frábæra skemmtun.

20170325_20583520170325_22304020170325_22320220170325_21003520170325_23495020170325_231744_001

Málþing um stöðuna á vinnumarkaði heppnaðist vel

Í gær var fundur um stöðuna á vinnumarkaði hér á svæðinu haldinn í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík. Tæplega 40 manns sóttu fundinn sem tókst með miklum ágætum.

Nokkur erindi voru flutt á fundinum. Í framhaldi af þeim voru pallborðsumræður. Aðalsteinn Árni Baldursson setti fundinn. Flytjendur erinda voru Aðalsteinn J. Halldórsson frá stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslu, Einar Erlingsson frá Landsvirkjun, Unnsteinn Ingason frá Narfastöðum, Guðrún Tryggvadóttir frá Búnaðarsambandi Suður-Þingeyinga og Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings. Í pallborði tóku þátt Aðalsteinn Á. Baldursson, Kristján Þór Magnússon, Guðrún Tryggvadóttir, Unnsteinn Ingason og Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdarstjóri ASÍ. Fundarstjóri var Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Viðbrögð gesta hafa verið góð eftir og sumir hafa haft á orði að ýmislegt hafi komið sér á óvart í máli þeirra sem töluðu á fundinum og pallborðinu þar á eftir.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á meðan fundi stóð.

IMG_2273 IMG_2270 IMG_2260 IMG_2250 IMG_2249 IMG_2226 IMG_2227 IMG_2229 IMG_2235 IMG_2239 IMG_2242 IMG_2215 IMG_2213 IMG_2209 IMG_2291 IMG_2289 IMG_2287IMG_2245 IMG_2247 IMG_2258IMG_2223 IMG_2228 IMG_2231IMG_2301 IMG_2204

Þingeyingum fjölgar

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga birtir athyglisverða greiningu á mannfjöldaþróun á sínu starfssvæði. Greiningin byggir á nýútkomnum tölum Hagstofu Íslands.
Ánægjulegt er að lesa að Þingeyingum hefur fjölgað talsvert og raunar umfram landsmeðaltal. Langt er síðan slíkt gerðist. Hinsvegar virðist vera sem svo að þorri fjölgunarinnar sé til kominn vegna framkvæmdanna á Bakka þar sem dreifbýli í Norðurþingi er sá hluti svæðisins sem á stærstan hluta fjölgunarinnar, en framkvæmdasvæðið á Bakka telst til dreifbýlis. Ennfremur má sjá óvenjulega mikla fjölgun á Húsavík ef miðað er við síðustu ár.
Hér eru á ferðinni ánægjulegar fréttir sem vonandi er vísir að því sem koma skal.

Sumarferðin – fyrstir koma, fyrstir fá

Sumarferð stéttarfélaganna verður að þessu sinni helgarferð og nú við höldum austur á land, nánar tiltekið á Borgarfjörð eystri. Farið verður frá Húsavík snemma morguns þann 19. ágúst og komið til baka seinnipart sunnudagsins 20. ágúst. Við munum gista í uppbúnum rúmum hóteli og þar er morgunmatur innifalinn. Grillað verður í boði Framsýnar á laugardagskvöldið, en að öðru leiti nestar fólk sig sjálft.

Borgarfjörður eystri er nyrstur hinna eiginlegu Austfjarða. Þangað er tæplega 70 km. akstur frá Egilsstöðum, um Vatnsskarð og Njarðvíkurskriður. Borgarfjörður er rómaður fyrir náttúrufegurð og þá sérstaklega fyrir sérstæðan fjallahring. Sunnan fjarðar er ljóst líparít allsráðandi eins og í Staðarfjalli, en fyrir botni fjarðarins og norðan hans er blágrýti (basalt) mest áberandi og þá einkum í Dyrfjöllum. Inn af firðinum gengur um 10 km langur dalur, vel gróinn og nokkuð breiður. Eftir honum rennur Fjarðará. Þorpið Bakkagerði stendur við fjarðarbotninn.

Það er margt að skoða á þessum fallega stað og við munum njóta leiðsagnar staðkunnugra um svæðið. Fararstjóri verður Ósk Helgadóttir. Ferðakostnaður pr. mann í sumarferðina er aðeins 20.000-. Takmarkaður fjöldi verður í þessa ferð þannig að við biðjum áhugasama að skrá sig sem allra fyrst, eða fyrir 30. apríl. Höfum í huga, fyrstir koma, fyrstir fá.

Hvetja ASÍ til að taka upp til umræðu málefni eftirlaunafólks og öryrkja

 

Framsýn sendi um helgina frá sér bréf til forseta ASÍ þar sem félagið beinir þeim tilmælum til Alþýðusambands Íslands að málefni eftirlaunafólks og öryrkja verði tekin upp til umræðu á vegum sambandsins. Málefni þessara hópa hafa verið töluvert í umræðunni undanfarið. Fram hefur komið að þeir telja sig ekki búa við réttlæti og virðingu eins og þeim ber í íslensku þjóðfélagi. Bæði hvað varðar almenna stöðu í þjóðfélaginu og eins gagnvart aðild þeirra að stéttarfélögum eftir starfslok á vinnumarkaði. Eins og sjá má á meðfylgjandi bréfi kallar Framsýn eftir umræðu um stöðu þessara hópa. Sjá bréfið:

 

Alþýðusamband Íslands
Hr. Gylfi Arnbjörnsson
Guðrúnartúni 1
105 Reykjavík 

Húsavík 19. mars 2017

Varðar stöðu aldraðra og öryrkja

Framsýn, stéttarfélag vill beina þeim tilmælum til Alþýðusambands Íslands að málefni eftirlaunafólks og öryrkja verði tekin upp á vegum sambandsins. Málefni þessara hópa hafa verið töluvert í umræðunni undanfarið. Fram hefur komið að þeir telja sig ekki búa við réttlæti og virðingu eins og þeim ber í íslensku þjóðfélagi. Fyrir liggur að stór hluti þessa fólks var eða er greiðandi í stéttarfélög innan Alþýðusambands Íslands.  Mikilvægt er að Alþýðusambandið standi vörð um réttindi og réttindabaráttu þessa fjölmenna hóps og berjist fyrir þeirra baráttumálum í samráði við þeirra hagsmunasamtök.

Það segir töluvert um stöðu þessara hópa að fjölmennasti fundur sem Framsýn hefur staðið fyrir á síðustu árum var laugardaginn 4. mars 2017 þegar félagið stóð fyrir baráttufundi um málefni eftirlaunafólks á Fosshótel Húsavík. Um 130 gestir komu á fundinn og baráttuandinn sveif þar yfir vötnum.

Jafnframt telur Framsýn mikilvægt að Alþýðusambandið stuðli að því að aðildarfélög sambandsins samræmi reglur varðandi réttindi þessara  hópa innan stéttarfélaganna, það er öryrkja og eftirlaunafólks. Í dag er það þannig að réttindin eru mjög mismunandi milli félaganna. Sé ekki vilji til þess að samræma reglurnar milli félaganna er ekki síður mikilvægt að taka þessi mál upp til umræðu og kalla eftir viðhorfi stéttarfélaganna varðandi stöðu þeirra félagsmanna sem lokið hafa störfum á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku.

Framsýn óskar eftir skriflegu svari frá Alþýðusambandi Íslands við þessu erindi þar sem félagið hefur ákveðið að taka málefni þessara hópa upp á næsta aðalfundi félagsins með það að markmiði að tryggja sem best stöðu þessara hópa innan félagsins. Standi ekki til að taka þessi mál almennt upp á vegum Alþýðusambandsins mun félagið klára þessa vinnu í heimahéraði með hagsmuni eftirlaunafólks og öryrkja að leiðarljósi.

Virðingarfyllst

Fh. Framsýnar stéttarfélags

_____________________
Aðalsteinn Árni Baldursson

 

Mikael Torfason í Silfrinu

Rithöfundurinn og fjölmiðlamaðurinn Mikael Torfason var gestur í Silfrinu í gær, 19. mars. Tilefni viðtalsins við Mikael eru útvarpsþættir sem hann er að gera um þessar mundir sem fjalla um fátækt á Íslandi. Mikael fór mikinn í máli sínu og sagði meðal annars að lágmarkslaun og örorkubætur væru skammarlega lág á Íslandi. Viðtalið má nálgast með því að smella hér.