Skipting greiðandi félagsmanna eftir póstnúmerum

Hér má sjá skiptingu greiðandi félagsfólks Framsýnar á árinu 2016 eftir póstnúmerum. Ekki kemur á óvart að tæpur helmingur eða 44% kemur úr póstnúmerinu 640. Sveitirnar í Þingeyjarsýslum og minni þéttbýlisstaðir eiga samtals 34% greiðandi félaga. Alls 22% greiðandi félagar eru úr öðrum póstnúmerum, þar af 4% sem búa erlendis. Líkast til er að mestu leyti þar um að ræða tímabundið starfsfólk við meðal annars ferðaþjónustu og sauðfjárslátrun.

Samþykkt að tryggja stöðu þeirra sem fara milli félaga innan ASÍ

Á aðalfundi Framsýnar var samþykkt að tryggja stöðu þeirra sem ganga í félagið eftir að hafa greitt í önnur stéttarfélög innan Alþýðusambands Íslands. Ekki er óalgengt að starfsfólk sem fer milli landshluta og skiptir um stéttarfélag missi við það réttindi sem það hafði áður áunnið sér inn hjá viðkomandi stéttarfélagi sem það greiddi til á þeim tíma. Umræða hefur verið innan verkalýðshreyfingarinnar um að taka á þessu með því að starfsfólk færi í auknum mæli réttindi milli stéttarfélaga. Framsýn hefur nú ákveðið að ganga þetta skref endanlega með samþykkt aðalfundarins sem er töluvert réttlætismál. Félagið hafði reyndar áður sveigt reglur félagsins að þessu markmiði en nú með samþykkt aðalfundarins hefur það verið fest endanlega í sessi. Þá má geta þess að aðalfundurinn samþykkti einnig formlega að tryggja stöðu öryrkja og eftirlaunaþega sem greiddu til félagsins við orkutap eða þegar þeir fóru á eftirlaun áframhaldandi réttindi hjá félaginu.

Hér má lesa samþykktir aðalfundarins:

Réttindi þeirra sem fara milli stéttarfélaga innan ASÍ og greiða til Framsýnar
Tillaga stjórnar Framsýnar til aðalfundarins er að þeir félagsmenn sem ganga formlega í Framsýn og greiddu áður í stéttarfélög innan Alþýðusambands Íslands flytji að fullu með sér áunninn réttindi frá þeim félögum sem þeir áður greiddu til sem taki mið af reglugerðum sjóða og félagslögum Framsýnar á hverjum tíma. Það er eftir að viðkomandi aðilar hafa greitt í einn mánuð eða lengur til félagsins.

Réttarstaða öryrkja og eftirlaunafólks innan Framsýnar
Tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar, stéttarfélags til aðalfundar varðandi réttindi öryrkja- og eftirlaunaþega sem greiddu til félagsins við starfslok. Aðalfundur Framsýnar samþykkir að öryrkjar og eftirlaunafólk sem greiddu til Framsýnar við starfslok viðhaldi sínum réttindum að fullu m.v. greitt félagsgjald samkvæmt lögum og reglugerðum félagsins á hverjum tíma og ákvæðum kjarasamninga. Þá er við það miðað að réttindi þessa hóps falli undir skuldbindingar félagsins gagnvart lögum og reglugerðum Alþýðusambands Íslands og þeirra aðildarsambanda sem Framsýn á aðild að á hverjum tíma.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fundarmenn samþykktu tillögurnar samhljóða.
 

 

Meðallaun félagsfólks Framsýnar

Í nýrri ársskýrslu Framsýnar fyrir árið 2016 er súlurit sem sýnir tekjur félagsfólks á árunum 2012 – 2016. Hægt er að sjá hvernig tekjur dreifast á milli mánaða á þessu árabili.

Tölurnar gefa vísbendingu um heildar meðaltekjur félagsfólks. Eins og sjá má á myndinni eru heildar meðaltekjur fólks í kringum 400.000 á mánuði Taka skal fram að inn í þessum tölum er fólk sem vinnur hlutastörf og sömuleiðis tímabundnir starfsmenn sem eru einungis hluta árs starfandi hér á svæðinu. Ætla má því að heildartekjur þeirra sem eru í fullu starfi séu talsvert hærri en kemur fram í súluritinu.

Ljóst er af þessu súluriti að tekjur eru að hækka. Stórt stökk er á milli áranna 2014 og 2015 og annað svipað stökk varð svo á milli 2015 og 2016. Tekjur fólkst eru því greinilega að hækka sem er vitaskuld mikið gleðiefni.

Þjóðerni greiðandi Framsýnarfélaga

Í ársskýrslu Framsýnar fyrir árið 2016 sem kom út í gær má sjá skemmtilega tölfræði sem athyglisvert er að velta fyrir sér. Til dæmis er kökurit yfir þjóðerni greiðandi félaga í Framsýn.

Greiðandi félagsmenn voru 2.920 árið 2016. Íslendingar voru 72% af þeim eða 2.102. Það er því rúmlega fjórðungur greiðandi félagsmanna erlendur. Þar af eru Pólverjar áberandi flestir. 14% greiðandi félaga eru pólskir eða 409 einstaklingar.

Félagsmenn eru af mörgum öðrum þjóðernum en þó engin þjóð nærri jafn fjölmenn og pólverjar. Tékklenskir félagar eru 3% eða 88 sem er þriðja fjölmennasta þóðin en Tékkar hafa verið fjölmennir í ferðaþjónustu á svæðinu undanfarin ár.

 

 

Ánægja með rekstur og starfsemi Framsýnar

Aðalfundur Framsýnar var haldinn í gær. Fundurinn fór mjög vel fram og voru fundarmenn ánægðir með starfsemi félagsins og rekstur sem skilar félagsmönnum góðri þjónustu og almennt hærri styrkjum úr sjúkrasjóði og starfsmenntasjóðum en almennt gerist meðal sambærilegra stéttarfélaga. Þá eru margir góðir orlofskostir í boði sem og flug milli Húsavíkur og Reykjavíkur á mjög góum kjörum. Á næstu dögum munum birtast fréttir af fundinum sem margar hverjar eru áhugaverðar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nokkrar tillögur voru teknar fyrir á fundinum og samþykktar samhljóða.

 

Vel heppnaður fundur ungliða

Starfgreinasamband Íslands stóð fyrir fundi fyrir ungt fólk á Hótel Laugarbakka í Miðfirði dagana 29. og 30. maí. Alls mættu 18 ungliðar á aldrinum 18 til 33 ára til fundarins, en öll eru þau félagsmenn aðildarfélaga SGS.

Framsýn-UNG átti tvo fulltrúa á fundinum en það voru Eva Sól Pétursdóttir og Sigurbjörg Arna Stefánsdóttir.

Nánar má lesa um fundinn á heimasíðu Starfsgreinasambandsins.

Sumarkaffi á Raufarhöfn

Framsýn stendur fyrir árlegu kaffiboði á Raufarhöfn föstudaginn 9. júní kl. 16:00 á Kaffi Ljósfangi á Raufarhöfn. Boðið verður upp á heimsins bestu tertur frá Kvenfélagi Raufarhafnar. Allir velkomnir.

Framsýn stéttarfélag

Laun í vinnuskólum

Stéttarfélögin tóku saman hvaða laun er boðið upp á í vinnuskólum svæðisins.

Í Norðurþingi verður boðið upp á vinnuskóla fyrir sjöunda til níunda bekk. Launin verða með þessu móti:
7.bekkur – 445 kr klst
8.bekkur – 506 kr klst
9.bekkur – 628 kr klst

Í Þingeyjarsveit verður boðið upp á vinnuskóla fyrir áttunda til tíunda bekk. Launin verða með þessu móti:
8. bekkur – 637 kr.
9. bekkur – 747 kr.
10. bekkur – 849 kr.

Ekki verður boðið upp á vinnuskóla í Skútustaðahreppi þetta árið.

 

 

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur, 8. júní kl. 20:00

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur verður haldinn fimmtudaginn 8. júní 2017 kl. 20:00 í fundarsal Starfsmannafélags Húsavíkur, Garðarsbraut 26 Húsavík.

Dagskrá samkvæmt lögum félagsins.

  1. Skýrsla stjórnar um starfsemi s.l. ár.
  2. Ársreikningar 2016, kynning og afgreiðsla.
  3. Ákvörðun um félagsgjöld.
  4. Breytingar á lögum og reglugerðum félagsins.
    1. Stjórn félagsins hefur lagt fram tillögu um hækkun styrkja hjá Starfsmenntunarsjóði félagsins, sbr. 5. grein Reglugerðar um Starfsmenntunarsjóð Starfsmannafélags Húsavíkur.
  5. Kosning stjórnar, endurskoðenda og fulltrúa í nefndum félagsins, skv. 6. grein Laga STH.
  6. Önnur mál.

Ársreikningar félagsins fyrir árið 2016 liggja frammi á skrifstofu félagsins fyrir félagsmenn.

Vonumst til að sjá sem flesta félagsmenn!

Stjórn Starfsmannafélags Húsavíkur

Aðalfundur Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum verður haldinn þriðjudaginn 6. júní kl. 20:00

Aðalfundur Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum verður haldinn þriðjudaginn 6. júní kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Til fundarins er boðað samkvæmt lögum félagsins.

Dagskrá: 

1. Venjuleg aðalfundarstörf
Félagaskrá
Skýrsla stjórnar
Ársreikningar
Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga
Kjör í stjórnir, nefndir og ráð
Kosning löggilts endurskoðana/endurskoðunarskrifstofu
Lagabreytingar
Ákvörðun árgjalda
Laun aðalstjórnar, trúnaðarmannaráðs, nefnda og stjórna innan félagsins

  1. Önnur mál

Í lok fundar verður boðið upp á kaffiveitingar. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn og taka þátt í umræðu um starfsemi félagsins og komandi verkefni á næstu árum.

Athygli er vakin á 24. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum

 

Tillögur sem liggja fyrir aðalfundinum frá stjórn félagsins:

Tillaga 1
Ráðstöfun á tekjuafgangi
Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári.

Tillaga 2
Löggiltur endurskoðandi félagsins
Lagt er til að endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers ehf. sjá um endurskoðun á bókhaldi félagsins fyrir starfsárið 2017.

Tillaga 3
Um félagsgjald
Tillaga er um að félagsgjaldið verði áfram óbreytt, það er 0,7% af launum félagsmanna.

Tillaga 4
Laun aðalstjórnar
Tillaga er um að laun aðalstjórnar verði óbreytt milli ára.

Tillaga 5
Breytingar á félagslögum
Stjórn Þingiðnar hefur samþykkt að leggja til við aðalfund félagsins að félagssvæði Þingiðnar verði landið allt. Í dag er nær starfssvæði félagsins yfir sveitarfélög er tilheyra Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu.

 

 

Vorboðarnir ljúfu í heimsókn

Það er ekki dónalegt fyrir sveitarfélag eins og Norðurþing að eiga sveit í bæ. Börn og starfsfólk Leikskólans Grænuvalla nýttu sér þetta í morgun og fóru í heimsókn í Grobbholt sem er á Skógargerðismelnum á Húsavík. Um 100 börn og starfsmenn fengu sér göngutúr og skoðuðu lömb og búfénað auk þess myndaðist biðröð við gamla dráttarvél á svæðinu sem ungviðið var afar spennt fyrir. Eins og öllum góðum göngutúrum sæmir fengu gestirnir sér Trópí og kex í nesti eftir velheppnaða skoðunarferð í Grobbholt. Reyndar voru ærnar nokkuð ágengar og vildu fá að smakka kexið góða enda vanar því að fá brauð og kex hjá ábúendum í Félagsbúinu Grobbholti. Hér má sjá myndir úr heimsókninni:

Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags verður haldinn fimmtudaginn 1. júní kl. 20:00

Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags verður haldinn fimmtudaginn 1. júní kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Til fundarins er boðað samkvæmt lögum félagsins.

Dagskrá: 

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
    Félagaskrá
    Skýrsla stjórnar
    Ársreikningar
    Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga
    Kjör í stjórnir, nefndir og ráð
    Kosning löggilts endurskoðana/endurskoðunarskrifstofu
    Lagabreytingar
    Ákvörðun árgjalda
    Laun aðalstjórnar, trúnaðarmannaráðs, nefnda og stjórna innan félagsins
  1. 100 ára afmæli Verkakvennafélagsins Vonar 28. apríl 2018
    Tilnefning í afmælisnefnd
  1. Önnur mál

Í lok fundar verður boðið upp á kaffiveitingar. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn og taka þátt í umræðu um starfsemi félagsins og komandi verkefni á næstu árum.

Athygli er vakin á 32. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Framsýn, stéttarfélag

Tillögur sem liggja fyrir aðalfundinum frá stjórn félagsins:

Tillaga 1
Ráðstöfun á tekjuafgangi
Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári.

Tillaga 2
Löggiltur endurskoðandi félagsins
Lagt er til að endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers ehf. sjá um endurskoðun á bókhaldi félagsins fyrir starfsárið 2017.

Tillaga 3
Um félagsgjald
Tillaga er um að félagsgjaldið verði áfram óbreytt, það er 1% af launum félagsmanna.

Tillaga 4
Laun aðalstjórnar, trúnaðarmannaráðs, nefnda og stjórna innan félagsins
Tillaga er um að laun aðalstjórnar, trúnaðarmannaráðs, nefnda og stjórna innan félagsins verði óbreytt milli ára.

Tillaga 5
Afmælisnefnd
Tillaga er um að Ósk Helgadóttir, Dómhildur Antonsdóttir og Sigurveig Arnardóttir skipi sérstaka afmælisnefnd félagsins í tilefni af því að 100 ár verða liðin frá stofnun Verkakvennafélagsins Vonar 28. apríl 2018.

 

Kynningarfundir á vegum LSR

LSR stendur fyrir kynningarfundum núna í Maí á breytingum á sinni A-deild. Nánari upplýsingar eru í meðfylgjandi auglýsingum. Einnig verða haldnir almennir kynningarfundir um lífeyrismál.

Gistimiðar Fosshótela

Athygli er vakin á því að sumartímabil Fosshótel hefur verið breytt. Nú hefst það 1. maí og líkur 30. september. Áður var það mánuði styttra í hvorn enda. Þetta þýðir að þeir sem nýta sér gistimiða keypta á Skrifstofu stéttarfélaganna þurfa að greiða með tveimur miðum í maí og september sem er breyting frá því sem var þegar þurfti einn miða á þessum tíma.

Ársrit VIRK komið út

Ársrit VIRK 2017 er komið út sneisafullt af upplýsingum um starfsemi VIRK og greinum og viðtölum tengdum starfsendurhæfingu.
Meðal efnis í ársritinu er grein Vigdísar Jónsdóttur framkvæmdastjóra VIRK um leiðir til þess að auka vinnugetu og þátttöku á vinnumarkaði, Jónína Waagfjörð sviðsstjóri þróunar atvinnutengingar reifar ávinning atvinnulífsins af stigvaxandi endurkomu til vinnu, Hans Jakob Beck sviðsstjóri þróunar starfsgetumats og greiningar fer yfir tilgang starfsgetumats og Guðrún R. Jónsdóttir sérfræðingur hjá VIRK fjallar um fjölda einstaklinga á örorku- og endurhæfingarlífeyri og virkni ungs fólks.
Þá fjallar Dr. Ingibjörg Jónsdóttir, forstöðumaður Institutet för Stressmedicin og prófessor við Háskólann í Gautaborg, um vinnutengda streitu í grein sinni í ársritinu og Dr. Tom Burns um IPS Lite- árangursríka leið inn á vinnumarkaðinn fyrir einstaklinga með geðræn vandamál.
Auk þessa þá er í ársritinu að finna greinargóðar upplýsingar um starfsemi VIRK, viðtöl við ráðgjafa VIRK og einstaklinga sem lokið hafa starfsendurhæfingu sem og samstarfsaðila VIRK.
Hægt er að nálgast rafrænt eintak af ársritinu 2017 hér. Ársritið liggur einnig frammi á Skrifstofu stéttarfélaganna og Virk á Húsavík, Garðarsbraut 26 Húsavík.

 

Huld og Valdi í stjórn Lsj. Stapa

Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit, miðvikudaginn 3. maí sl. Mæting á fundinn var góð og fór hann vel fram. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf.

Ágúst Torfi Hauksson, formaður stjórnar, fór yfir skýrslu stjórnar um starfsemi sjóðsins á árinu 2016. Þá fór Ingi Björnsson, framkvæmdastjóri yfir ársreiknings sjóðsins og áritanir og gerði grein fyrir tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins. Var ársreikningur sjóðsins samþykktur samhljóða að yfirferð lokinni. Einnig kynntu Arne Vagn Olsen, fjárfestingarstjóri, og Jóna Finndís Jónsdóttir, áhættustjóri, fjárfestingar- og áhættustefnu sjóðsins.

Á fundinum voru lagðar fram breytingar sem stjórn gerði á árinu á samþykktum sjóðsins samkvæmt beiðni fjármálaráðuneytisins til að samræma þær lögum.

Á fundinum voru svo lagðar fram tillögur að breytingum á einstökum greinum samþykkta sjóðsins og gerði Jóna Finndís Jónsdóttir, áhættustjóri, grein fyrir þeim. Allar breytingar voru samþykktar.

Gert var grein fyrir starfskjarastefnu sjóðsins en hún er óbreytt frá síðasta ári og var samþykkt.

Stjórn Stapa lífeyrissjóðs skipa í dag:

Frá launamönnum:

Huld Aðalbjarnardóttir (formaður), Sverrir Mar Albertsson, Tryggvi Jóhannsson og Þórarinn Sverrisson. Varamenn: Erla Björg Guðmundsdóttir, Heimir Kristinsson og Sigríður Dóra Sverrisdóttir,

Frá launagreiðendum:

Erla Jónsdóttir (varaformaður), Ágúst Torfi Hauksson, Kristín Halldórsdóttir og Valdimar Halldórsson. Varamenn: Auður Anna Ingólfsdóttir, Guðrún Ingólfsdóttir.

Þá var samhljóða samþykkt tillaga að Deloitte ehf. sem löggiltum endurskoðanda sjóðsins og einnig tillaga að hækkun stjórnarlauna frá síðasta ári, í samræmi við hækkun launavísitölu.

Undir liðnum önnur mál fór Jóna Finndís yfir ýmsa þætti tengda tryggingavernd.

Eins og sjá má hér að ofan tók Huld Aðalbjarnardóttir starfsmaður Skrifstofu stéttarfélaganna við stjórnarformennsku í sjóðnum auk þess sem Valdimar Halldórsson kom nýr inn frá Samtökum atvinnulífsins. Valdi er forstöðumaður Hvalasafnsins á Húsavík.

Gögn frá ársfundinum:

Verkalýðsmál til umræðu á Akureyri

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar og Arna Jakobína Björnsdóttir formaður Kjalar voru gestir á fundi VG á Akureyri á mánudagskvöldið 1. maí. Umræðuefnið var staða verkalýðshreyfingarinnar og samskipti sveitarfélaga og stéttarfélaga. Að sögn Aðalsteins var fundurinn mjög áhugaverður og miklar umræður sköpuðust um fundarefnið.

hatid0517 082

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Formaður Framsýnar lét sig ekki muna um að bruna til Akureyrar eftir hátíðarhöldin á Húsavík á baráttu- og hátíðardegi verkafólks til að taka þátt í fundinum sem hófst kl. 20:00 og stóð vel fram eftir kvöldi. Hér er hann í viðtali við Rás 1 rétt fyrir upphaf hátíðarhaldanna á Húsavík fyrr um daginn.

Nýju endurbættu húsnæði fagnað

Stéttarfélögin tóku í notkun nýtt endurbætt húsnæði á föstudaginn að Garðarsbraut 26, efri hæð, sem er allt hið glæsilegasta. Við það tækifæri var því fagnað með viðeigandi hætti. Verktakar sem komið hafa að framkvæmdunum og stjórnir stéttarfélaganna gerðu sér glaðan dag enda full ástæða til þess. Verktakinn H-3 var aðalverktakinn.  Stofnað hefur verið sameignarfélag um reksturinn, Hrunabúð sf. Til stendur að leggja út rýmin til lengri eða skemmri tíma á vegum leigufélagsins. Um er að ræða 8 skrifstofur. Eftir að Sparisjóður Vestmannaeyja eignaðist húsnæðið á sínum tíma hefur húsnæðið ekki selst, ekki síst þar sem það var komið á mikið viðhald. Þar sem viðhaldsleysið var farið að valda stéttarfélögunum vandræðum og skemmdum á neðri hæðinni sem er í eigu stéttarfélaganna var ákveðið að ráðast í kaup á húsnæðinu þrátt fyrir að það hafi ekki verið á stefnuskrá  félaganna.   Í stuttu ávarpi við vígsluna fór formaður Framsýnar nokkrum orðum um framkvæmdina og tilurð þess að stéttarfélögin eignuðust eignina og réðust í breytingarnar.

Ágætu gestir!

Það er ekki bara að menn fagni gegnumslagi í gegnum  Vaðlaheiði í dag heldur erum við hér saman komin til að halda upp á verklok á nýju skrifstofuhúsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Það verða Framsýn og Þingiðn sem koma til með að eiga þennan hluta af húsnæðinu, Félögin eiga einnig og reka neðri hæðina í sameiningu ásamt Starfsmannafélagi Húsavíkur. Þar verður skrifstofa stéttarfélaganna rekin áfram eins og verið hefur til fjölda ára.

Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16% og hafa félögin stofnað með sér sameignarfélag um reksturinn, Hrunabúð sf. Nafnið er í höfuðið á verslun sem rekin var í húsnæðinu á vegum Kaupfélags Þingeyinga hér á árum áður, það er á neðri hæðinni.

Til stóð að nota nafnið Prýði en það fékkst ekki leyfi fyrir því þar sem það var þegar  í notkun, en saumastofan Prýði var lengi starfrækt á hæðinni sem nú hefur fengið nýtt hlutverk.

Það var árið 2013 sem stéttarfélögin ákváðu að kaupa efri hæðina að Garðarsbraut 26 af Sparisjóði Vestmannaeyja. Eignin var keypt á 13.376.500.

Áður hafði hæðin verið auglýst til sölu á almennum markaði í nokkur ár án þess að hún seldist. Lítill áhugi reyndist vera hjá fjárfestum að kaupa eignina undir atvinnustarfsemi og gera hana upp, en tími var komin á mikið og kostnaðarsamt  viðhald.

Við þessar aðstæður, það er að eignin seldist ekki og að viðhald eignarhlutans var í algjöru lágmarki sáu stéttarfélögin sig tilneydd til að kaupa efri hæðina. Langvarandi viðhaldsskortur var farinn að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir eign stéttarfélaganna, það er neðri hæðina.

Efri hæðin var ekki kynnt almennilega, raki var farinn að myndast í veggjum og meðfram gluggum. Í miklum rigningum streymdi vatnið af norðurhliðinni í gegnum vegginn niður á neðri hæðina með tilheyrandi hættu á eignatjóni. Við þessar aðstæður var hreinlega ekki hægt að búa við lengur. Þrátt fyrir að það væri ekki á stefnuskrá félaganna og ekki bein þörf fyrir stærra húsnæði var ákveðið að slá til og kaupa efri hæðina.

Fljótlega var ráðist í að lagfæra húsið að utan með múrviðgerðum og málningu, gera það vatnshelt og bæta við kyndinguna. Beðið var með frekari framkvæmdir að innanverðu ef ske kynni að fjárfestar kæmu og vildu kaupa hæðina af stéttarfélögunum til að gera hana frekar upp. Það gerðist ekki, þannig að ákveðið var að ganga til samninga við Arnhildi Pálmadóttur arkitekt um að útfæra skrifstofur og lítinn fundarsal á hæðinni og koma  húsnæðinu í notkun.

Eins og sjá má, tókst Arnhildi afar vel til við hönnunina, sem er henni til mikils sóma. Það má Arnhildur einnig eiga að hún hefur verið tilbúin að hlusta á mis gáfulegar breytingatillögur sem komið hafa frá stéttarfélögunum og verktökum. Samstarfið um breytingarnar hefur verið til mikillar fyrirmyndar.

Þrátt fyrir, eins og ég sagði áðan að ekki hafi verið markmiðið að kaupa eignina, þá skiptir verulega miklu máli hvers konar starfsemi velst í húsnæði þar sem fyrir er skrifstofuhald.

Það var t.d. töluverð truflun fyrir starfsemina þegar rekin var líkamsræktarstöð á efri hæðinni, það er fyrir ofan fundarsal stéttarfélaganna. Þessi starfsemi fór engan vegin saman vegna hljóðmengunar og þá voru bílastæðin við húsnæðið oft teppt. Með þessari framkvæmd er tryggt að hér verður skrifstofuhald í húsinu næstu misserin.

Varðandi framkvæmdina sjálfa, þá buðu stéttarfélögin hana út, það er í febrúar á árinu 2016. Ekki var reiknað með mörgum tilboðum í ljósi þeirra miklu þenslu sem er í byggingariðnaði hér á svæðinu . Enda fór það svo að aðeins eitt tilboð barst í verkið, frá fyrirtækinu H-3 á Húsavík þrátt fyrir að nokkur önnur fyrirtæki næðu sér í útboðsgögn. Eftir smá fínstillingar reyndist tilboðið vera upp á 30,4 milljónir. Tilboðinu var tekið og hófust framkvæmdir í lok desember 2016, þær framkvæmdir sem við erum að fagna hér í dag.

Þess ber að geta að ekki var fyrirséð hvað þyrfti að endurbæta varðandi frárennslislagnir, hita- og kaldavatnskerfið í húsinu sem var fyrir fyrir löngu komið á tíma. Ákveðið var að bjóða þann hluta ekki út. Fyrirtækið Lagnatak var ráðið í verkið og sáu þeir um að leggja nýtt kerfi í hæðina sem og frárennsli.

Þá er ekki hægt að ráðast í breytingar nema vita símanúmerið hjá Kristjáni Halldórssyni. Hann   var að sjálfsögðu kallaður til þegar tölvu- og símasamband datt út hjá góðum nágrönnum okkar í suðurendanum að Garðarsbraut 26, það er eftir að  lagnir í vegg höfðu verið sagaðar í sundur til að koma fyrir eldvarnarstiga/rýmingarleið frá efri hæðinni. Að sjálfsögðu var málinu reddað í hvelli og sambandi við umheiminn komið á aftur.

Ég vil nota tækifærið og þakka arkitektinum, aðalverktakanum H-3 og undirverktökum hans sem og Lagnataki og Kidda Halldórs og samstarfsmanni hans fyrir gott verk og samstarf. Ég tel að samstarfið hafi gengið afar vel, auðvitað hafa verið smá pústrar af og til , en svo litlir að ekki hefur þurft að setja plástra á sár eða að menn hafi þurft að nota bólgueyðandi krem eftir samskipti aðila.

Eins og ég hef komið inn á, þá hafa margir komið að þessu verkefni. Ég tel mig knúinn til að nefna fjóra aðila sérstaklega enda hefur mikið mætt á þeim varðandi breytingarnar á húsnæðinu. Þetta eru þau Arnhildur Pálmadóttir, Hermann Benediktsson, Þórólfur Aðalsteinsson og Vigfús Leifsson, en hann hefur haldið utan um verkefnið fyrir hönd aðalverktakans. Fulltrúar stéttarfélaganna hafa átt mjög gott samstarf við þau öll um lausn þeirra fjölmörgu mála sem hafa komið upp á framkvæmdatímanum.

Hvað tekur við ? Hluti af húsnæðinu hefur verið leigður út og munu nýir legendur taka við þremur skrifstofum af þeim sjö til átta sem verða í útleigu. Þar sem skrifstofurnar eru rúmgóðar og af ýmsum stærðum eru möguleikar á að hafa nokkra starfsmenn í hverri þeirra. Sem dæmi má nefna að 5 til 6 starfsmenn verða með starfstöðvar í þeim þremur skrifstofum sem þegar hafa verið leigðar út. Stéttarfélögin verða áfram að mestu á neðri hæðinni  en munu nota nýja fundarsalinn á efri hæðinni fyrir ört vaxandi starfsemi félaganna.

Eins og fram kom í upphafi hefur verið stofnað sérstakt leigufélag um reksturinn, sem mun sjá um að reka eignina sem fellur undir Hrunabúð sf. Áhugasömum býðst að fá þær skrifstofur sem enn eru á lausu leigðar. Um er að ræða mjög glæsilegar skrifstofur og þá verður öll aðstaða fyrir starfsfólk eins og hún gerist best. Í boði er að leigja skrifstofupláss til lengri tíma, og eins til skemmri tíma þurfi menn á aðstöðu að halda vegna tímabundina verkefna í Þingeyjarsýslum.

Með þessum orðum ætla ég ljúka máli máli mínu og bjóða ykkur að skoða húsnæðið og njóta þeirra veitinga sem hér eru í boði stéttarfélaganna.

hatid0517 028hatid0517 025hatid0517 026hatid0517 060hatid0517 022hatid0517 052hatid0517 009hatid0517 003hatid0517 018hatid0517 012hatid0517 013hatid0517 070hatid0517 040

 

 

Mikil þátttaka í hátíðarhöldunum á Húsavík

Mjög góð þátttaka var í hátíðarhöldunum sem Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur stóðu fyrir í Íþróttahöllinni á Húsavík í gær á 1. maí en um 600 manns tóku þátt í hátíðarhöldunum. Aðalsteinn Árni Baldursson flutti ávarp dagsins og Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar flutti kröftuga hátíðarræðu. Boðið var upp á einstaklega áhugaverð skemmtiatriði. Ari Eldjárn skemmtikraftur fór á kostum og þá voru söngatriði sem Söngfélagið Sálubót, Hjalta Jóns, Lára Sóley, Guðrún Gunnars og Sigga Beinteins sáu um. Steini Hall spilaði alþjóðasöng verkalýðsins í upphafi samkomunnar. Miðað við viðbrögð fundarmanna þá er gríðarlega mikil ánægja með hátíðina og fyrir það ber að þakka. Hér má sjá myndir frá samkomunni.

hatid0517 087hatid0517 113hatid0517 152hatid0517 172hatid0517 160hatid0517 168hatid0517 178hatid0517 176hatid0517 196hatid0517 201hatid0517 241hatid0517 304hatid0517 252hatid0517 328hatid0517 323hatid0517 427hatid0517 453hatid0517 502hatid0517 510hatid0517 512hatid0517 514hatid0517 519hatid0517 522hatid0517 525hatid0517 526hatid0517 541hatid0517 546hatid0517 556hatid0517 564hatid0517 590hatid0517 606hatid0517 609hatid0517 614hatid0517 671hatid0517 717hatid0517 719hatid0517 648