Atvinnuleysisbætur í sögulegu lágmarki

Framsýn, stéttarfélag tekur heilshugar undir með miðstjórn Alþýðusambands Íslands sem mótmælir harðlega þeirri ákvörðun stjórnvalda að láta atvinnuleysisbætur ekki fylgja þróun lægstu launa og krefst þess að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar til samræmis við lægstu laun. Eiginfjárstaða Atvinnuleysistryggingasjóðs stefnir í að verða jákvæð um 25 milljarða króna á þessu ári og er sjóðurinn því vel í stakk búinn að standa undir hækkun bóta.

Í kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ árið 2015 var samið um hækkanir á lægstu launum í landinu, þannig að þau myndu hækka í áföngum til ársloka 2018 í kr. 300.000 á mánuði. Í viðræðum við þáverandi ríkisstjórn var það krafa ASÍ að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur myndu haldast í hendur við lágmarkslaun en því var hafnað.

Alþingi ákvað síðar að hækka hámarksbætur almannatrygginga vegna ársins 2017 og tryggja að þær fylgi þróun lágmarkslauna. Engin sambærileg ákvörðun hefur verið tekin um hækkun atvinnuleysisbóta og eru þeir nú lægri sem hlutfall af lágmarkslaunum en nokkru sinni áður eða 78%.

Í sögulegu samhengi var lengst af skýr fylgni milli bóta atvinnuleysisbóta og lægstu launa í landinu. Þetta breyttist með stofnun Vinnumálastofnunar 1996 með þeim afleiðingum að upp úr aldamótum voru atvinnuleysisbætur orðnar 80% af lægstu launum. Sú skekkja var leiðrétt í kjarasamningunum 2005 en síðan þá hefur aftur sigið á ógæfuhliðina.

Í lögum er skýrt kveðið á um að atvinnuleysisbætur bæturnar eigi að fylgja þróun kaupgjalds í landinu. Ráðherra vinnumarkaðsmála og ríkisstjórnin fer því á svig við lög og heggur þar sem síst skyldi  í árferði sem hefur verið kallað lengsta góðærisskeið í manna minnum.

Miðstjórnin áréttar jafnframt að Alþýðusambandið hefur verið þeirrar skoðunar að aðlaga beri tryggingagjaldið að fjárhagsstöðu vinnumarkaðstengdu sjóðanna, þ.e. atvinnuleysistryggingasjóðs, fæðingarorlofssjóðs og ábyrgðasjóðs launa, að því gefnu að áður en til breytinga á iðgjaldi atvinnulífsins kemur verði að treysta réttindi sjóðsfélaganna. Því mun fyrrgreind lækkun bótaréttar m.v. lægstu laun eða áform stjórnvalda um styttingu bótatímabilsins úr 30 mánuðum í 24 ekki verða grunnur að neinni sátt.

 

Deila á