Athugasemdir við fréttaflutning  RÚV af starfskjörum innflytjenda

Vegna sjónvarpsfréttar RÚV þann 16. ágúst síðastliðinn um stöðu innflytjenda í Norðurþingi vill Framsýn stéttarfélag koma eftirfarandi á framfæri. Í fréttinni var vitnað í könnun Háskólans á Akureyri á stöðu innflytjenda á Húsavík, Akureyri og Dalvík:

„Ríkissjónvarpið gerði að umræðuefni stöðu innflytjenda  í sveitarfélaginu Norðurþingi í síðustu viku þar sem uppbyggingin á Bakka við Húsavík var til umfjöllunar.  Þar var m.a. fullyrt að launakjör innflytjenda væru mun lægri en í nágrannasveitarfélögum við Eyjafjörð. Byggt var á könnun sem Háskólinn á Akureyri gerði á sínum tíma.

Ríkissjónvarpið gerir því skóna að meint slæm kjör innflytjenda í Norðurþingi tengist uppbyggingunni á Bakka. Þar er skautað framhjá þeirri staðreynd að könnunin sem vitnað er í var unnin á haustmánuðum 2015. Á þeim tíma voru framkvæmdir á Bakka í mýflugumynd og fáir ef nokkrir innflytjendur að störfum þar. Þar með er vandséð hvernig könnunin getur tengst því erlenda vinnuafli sem hefur starfað á Bakka síðustu misseri.

Framsýn hefur þegar fundað með fulltrúum Háskólans á Akureyri þar sem alvarlegar athugasemdir voru gerðar við könnunina hvað starfskjör innflytjenda varðar.  Upplýst var af hálfu Háskólans að úrtakið væri ófullkomið og gæfi því ekki rétta mynd af stöðunni varðandi launakjörin sem staðfestir gagnrýni  Framsýnar.

Framsýn vísar því alfarið á bug að starfskjör innflytjenda í Norðurþingi fyrir sambærileg störf séu verulega lægri en í nágrannasveitarfélögunum. Slíkar fullyrðingar standast ekki skoðun og eiga því ekki við rök að styðjast.

Starfskjör innflytjenda í Norðurþingi eru sambærileg eða betri en almennt gerist á landsbyggðinni. Þar kemur ekki síst til sú mikla þensla sem hefur átt sér stað á svæðinu og tengist uppbyggingu orkufreks  iðnaðar, byggingu Vaðlaheiðargangna, uppbyggingu í ferðaþjónustu sem og öflugu vinnustaðaeftirliti stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.“

 

Deila á