Svo skrifar Tómas Guðbjartsson læknir og náttúruunnandi í nýlegri grein og talar fyrir blómstrandi ferðaþjónustu sem skapi langmestar gjaldeyristekjur Íslendinga. Hann varar við stóriðju og að virkjunarframkvæmdum verði framhaldið á Íslandi. Hann gleymir hins vegar að bera saman launakjör í þessum tveimur atvinnugreinum sem eru miklu hærri í stóriðjunni. Annar þekktur Íslendingur, Skúli Mogensen eigandi WOW air tekur í sama streng og varar við stóriðju. Þess í stað sé mikilvægt að auka tíðni flugumferðar um Keflavíkurflugvöll, markmið flugfélagsins sé að fjölga farþegum um nokkrar milljónir á komandi árum.
Þessir menn og þeir sem tala niður stóriðju eru yfirlýsingaglaðir í nafni náttúruverndar, sem þeir gera út á með því að taka sérstaklega fram að þeir séu einmitt sérstakir náttúruunnendur. Skyldi Skúli hafa gleymt að reikna út hvað það mengar að fjölga flugferðum um Keflavíkurflugvöll? Veit Tómas af öllu hættulega svifrykinu í miðborg Reykjavíkur þar sem hann starfar svo ekki sé talað um mengandi skemmtiferðarskip í Sundahöfn. Manni er algjörlega misboðið.
Eðlilega skilur ritstjóri Skarps á Húsavík ekki neitt í neinu yfir umræðunni og skrifar í leiðara blaðsins; „Ýmsir hafa verið að sproksetja Húsvíkinga vegna verksmiðjunnar á Bakka og talið þá óalandi og óferjandi vegna þessa og jafnvel eiga skilið alla þá mengunarsjúkdóma sem séu óhjákvæmilegir fylgifiskar slíkrar starfsemi, ásamt og með ónæði af innfluttu vinnuafli“
Ritstjórinn heldur áfram og skrifar; „Hvað hafa til dæmis mörg þúsund Hafnfirðingar flutt þaðan vegna álversins? Hvað hafa margir tugir þúsunda túrista forðast Hafnarfjörð vegna álversins? Hvað hafa mörg hundruð Hafnfirðinga tapað heilsu og látist um aldur fram vegna mengunar frá Straumsvík? Ég meina dómsdagsspádómarnir vegna Bakka hljóta að byggja á staðreyndum og tölfræði úr Hafnarfirði þar sem áratuga reynsla af návígi við mengandi stóriðju er til staðar. Eða hvað?“
Í sömu andrá berast fréttir af því að eitt skemmtiferðaskip mengi jafnmikið á sólarhring og þrefaldur bílafloti landsmanna. Axel Friedreich, þýskur vísindamaður sem var hér á dögunum heldur þessu fram. Örsmáar agnir komi frá olíubrennslunni í skipunum og ýti undir líkur á hjartasjúkdómum og heilabilun. Svo ekki sé talað um viðkvæma náttúru og ferðamannastaði víða um land sem varnarlaus þurfa að þola verulegan ágang ferðamanna með tilheyrandi eyðileggingu og umhverfisáhrifum. Hvað með vegakerfið á Íslandi, halda menn virkilega að það sé undir þetta búið?
Fyrir mér eru umhverfismál ekki tískufyrirbæri hvað þá að menn eigi að láta sína eigin hagsmuni njóta vafans þegar kemur að mengandi atvinnustarfsemi. Hvernig er t.d. hægt að halda því fram að flugumferð, skipaumferð og bílaumferð hafi ekki áhrif á umhverfið og viðkvæm landssvæði? Fyrir mér hafa allir þessir þættir sem og stóriðja slæm áhrif á umhverfið sé ekki haldið rétt á málum og varúðar gætt. Fleira má nefna eins og frárennslismál víða um land sem eru í miklum ólestri, ekki síst hjá sveitarfélögum. Fleira mætti tilgreina en verður ekki gert hér í þessari stuttu hugleiðingu.
Þá er rétt að árétta að íbúar á Húsavík munu standa vaktina varðandi orkufrekan iðnað á Bakka er viðkemur umhverfismálum. Það verður enginn afsláttur gefinn hvað það varðar. Það sama á við um aðra starfsemi í héraðinu sem ástæða er til að vakta út frá umhverfissjónarmiðum.
Ég kalla eftir málefnalegri umræðu um umhverfismál þar sem okkur ber skylda til að standa vörð um náttúruna, annað er einfaldlega ekki í boði. Höfum í huga að mengun er mengun sama hvaðan hún kemur, hún er ekki bara tengt stóriðju eins og sumir sem kenna sig við náttúruvernd halda fram kinnroðalaust. Vandamálið er því miður miklu, miklu stærra.
Aðalsteinn Árni Baldursson