30 ára afmæli Framhaldsskólans á Húsavík

Föstudaginn 15. september varð Framhaldsskólinn á Húsavík 30 ára. Í tilefni af því var blásið til afmælishátíðar þar sem skólinn var opnaður almenningi. Nemendur sýndu hvað þeir væru að bauka í skólanum um þessar mundir, boðið var upp á myndasýningar frá starfi skólans síðustu 30 ár og gestum boðið upp á veitingar. Einnig var stutt formleg dagskrá með erindum forsvarsmanna skólans og annarra velunnara. Einnig var boðið upp á tónlistaratriði.

Eftirfarandi myndir voru teknar á meðan hátíðarhöldunum stóð.

Barnabætur í mýflugumynd

Í nýlegri rannsókn Hagdeildar ASÍ um þróun og skattbyrði launafólks 1998-2016 kemur fram að bótafjárhæðir hafa ekki haldið í við þróun launa eða verðlags og barnabætur í dag eru lítið meira en fátækrastyrkur. Á meðan fá allir foreldrar á Norðurlöndunum barnabætur óháð tekjum. Nánar má lesa um þetta mál á heimasíðu ASÍ. 

Spekingar spjalla

Ef þessir tveir heiðursmenn væru fengnir til að leysa heimsmálin væri staðan miklu, miklu betri en hún er í dag. Þetta eru félagarnir Reynir Jónasson og Bjarni Sigurjónsson sem tóku tal saman yfir kaffibolla á dögunum í Skóbúð Húsavíkur sem er ein ef ekki besta skóbúð landsins.

Hvað er að frétta?

Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri Skútustaðahrepps leit við á Skrifstofu stéttarfélaganna í morgun. Að sjálfsögðu voru málefni héraðsins tekin til umræðu s.s. staða sveitarfélaga, umhverfismál og uppgangurinn í atvinnulífinu svo ekki sé talað um framkvæmdirnar sem tengjast uppbyggingu PCC á Bakka.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er alltaf ánægjulegt að fá góða gesti í heimsókn, hér er sveitarstjóri Skútustaðahrepps á tali við starfsmenn stéttarfélaganna og Magnús Þorvaldsson sem starfar hjá VÍS á Húsavík.

Sparisjóður Suður Þingeyinga – Breið og góð þátttaka í stofnfjáraukningu

Á vormánuðum 2016 var ákveðið að auka stofnfé Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og skyldi stofnfjáraukningunni ljúka í ágúst 2017. Bæði var horft til núverandi stofnfjáreigenda en einnig annarra viðskiptamanna og velunnara sparisjóðsins. Viðtökur hafa verið góðar innan héraðs og einnig hafa allmargir aðilar víðsvegar af landinu tekið þátt. Stofnfé hefur aukist úr 67,5 milljónum í 157 milljónir og stofnfjáreigendur eru nú um 370. Stofnfjáraukningin hefur styrkt félagslega stöðu Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og gerir sjóðnum kleift að auka útlán sín og mæta kröfum eftirlitsaðila. Nýir stofnfjáraðilar eru boðnir velkomnir í hópinn og öllum sem lagt hafa sparisjóðnum lið með stofnfjárframlögum er þakkað traustið. Lokið er uppgjöri rekstrar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga vegna fyrri árshelmings 2017. Reksturinn var í góðu jafnvægi, bæði innlán og útlán jukust verulega og rekstrarhagnaður
eftir skatta var 14,7 milljónir. Heildareignir í lok tímabilsins voru um 7,9 milljarðar, bókfært eigið fé 618 milljónir og CAD eiginfjárhlutfall sjóðsins 16,4%. (Fréttin byggir á umfjöllun á 641.is)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Einstaklingar, fjárfestingasjóðir, sveitarfélög og stéttarfélög í Þingeyjarsýslum hafa komið að því kaupa stofnfé í Sparisjóði Suður- Þingeyinga til að efla sjóðinn í heimabyggð. Ekki þarf að taka fram að sjóðurinn er afar mikilvæg fjármálastofnun í héraðinu. Stéttarfélögin Framsýn og Þingiðn hafa nú gerst aðilar að sjóðnum með kaupum á stofnfé.

 

Fræðslumyndbönd ASÍ – launaseðlar

Fyrir fáum misserum voru gerð á vegum ASÍ nokkur fjöldi fræðslumyndbanda um sum grunnatriði vinnumarkaðarins. Þessi myndbönd eru sérstaklega heppileg fyrir ungt fólk sem er ekki búið að vera lengi á vinnumarkaði. Einnig er án vafa hollt fyrir þá sem eldri eru að skauta yfir myndböndin og rifja upp helstu leikreglur vinnumarkaðarins.

Hér að neðan má sjá myndband sem fjallar um launaseðla og hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla. Hin myndböndin má nálgast á youtube síðu ASÍ.

https://www.youtube.com/watch?v=1etgrzv-c18&list=PLSKCjKKu9LwLee0RTW3amiBk-zXANMx9-&index=4

 

Stóriðju- og virkjanaárátta – stríð á hendur ósnortnum víðernum

 Svo skrifar Tómas Guðbjartsson læknir og náttúruunnandi í nýlegri grein og talar fyrir blómstrandi ferðaþjónustu sem skapi langmestar gjaldeyristekjur Íslendinga. Hann varar við stóriðju og að virkjunarframkvæmdum verði framhaldið á Íslandi. Hann gleymir hins vegar að bera saman launakjör í þessum tveimur atvinnugreinum sem eru miklu hærri í stóriðjunni. Annar þekktur Íslendingur, Skúli Mogensen eigandi WOW air tekur í sama streng og varar við stóriðju. Þess í stað sé mikilvægt að auka tíðni flugumferðar um Keflavíkurflugvöll, markmið flugfélagsins sé að fjölga farþegum um nokkrar milljónir á komandi árum.

Þessir menn og þeir sem tala niður stóriðju eru yfirlýsingaglaðir í nafni náttúruverndar, sem þeir gera út á með því að taka sérstaklega fram að þeir séu einmitt sérstakir náttúruunnendur. Skyldi Skúli hafa gleymt að reikna út hvað það mengar að fjölga flugferðum um Keflavíkurflugvöll? Veit Tómas af öllu hættulega svifrykinu í miðborg Reykjavíkur þar sem hann starfar svo ekki sé talað um mengandi skemmtiferðarskip í Sundahöfn. Manni er algjörlega misboðið.

Eðlilega skilur ritstjóri Skarps á Húsavík ekki neitt í neinu yfir umræðunni og skrifar í leiðara blaðsins; „Ýmsir hafa verið að sproksetja Húsvíkinga vegna verksmiðjunnar á Bakka og talið þá óalandi og óferjandi vegna þessa og jafnvel eiga skilið alla þá mengunarsjúkdóma sem séu óhjákvæmilegir fylgifiskar slíkrar starfsemi, ásamt og með ónæði af innfluttu vinnuafli“

Ritstjórinn heldur áfram og skrifar; „Hvað hafa til dæmis mörg þúsund Hafnfirðingar flutt þaðan vegna álversins? Hvað hafa margir tugir þúsunda túrista forðast Hafnarfjörð vegna álversins? Hvað hafa mörg hundruð Hafnfirðinga tapað heilsu og látist um aldur fram vegna mengunar frá Straumsvík? Ég meina dómsdagsspádómarnir vegna Bakka hljóta að byggja á staðreyndum og tölfræði úr Hafnarfirði þar sem áratuga reynsla af návígi við mengandi stóriðju er til staðar. Eða hvað?“

Í sömu andrá berast fréttir af því að eitt skemmtiferðaskip mengi jafnmikið á sólarhring og þrefaldur bílafloti landsmanna. Axel Friedreich, þýskur vísindamaður sem var hér á dögunum heldur þessu fram. Örsmáar agnir komi frá olíubrennslunni í skipunum og ýti undir líkur á hjartasjúkdómum og heilabilun. Svo ekki sé talað um viðkvæma náttúru og ferðamannastaði víða um land sem varnarlaus þurfa að þola verulegan ágang ferðamanna með tilheyrandi eyðileggingu og umhverfisáhrifum. Hvað með vegakerfið á Íslandi, halda menn virkilega að það sé undir þetta búið?

Fyrir mér eru umhverfismál ekki tískufyrirbæri hvað þá að menn eigi að láta sína eigin hagsmuni njóta vafans þegar kemur að mengandi atvinnustarfsemi. Hvernig er t.d. hægt að halda því fram að flugumferð, skipaumferð og bílaumferð hafi ekki áhrif á umhverfið og viðkvæm landssvæði?  Fyrir mér hafa allir þessir þættir sem og stóriðja slæm áhrif á umhverfið sé ekki haldið rétt á málum og varúðar gætt. Fleira má nefna eins og frárennslismál víða um land sem eru í miklum ólestri, ekki síst hjá sveitarfélögum. Fleira mætti tilgreina en verður ekki gert hér í þessari stuttu hugleiðingu.

Þá er rétt að árétta að íbúar á Húsavík munu standa vaktina varðandi orkufrekan iðnað á Bakka er viðkemur umhverfismálum.  Það verður enginn afsláttur gefinn hvað það varðar. Það sama á við um aðra starfsemi í héraðinu sem ástæða er til að vakta út frá umhverfissjónarmiðum.

Ég kalla eftir málefnalegri umræðu um umhverfismál þar sem okkur ber skylda til að standa vörð um náttúruna, annað er einfaldlega ekki í boði. Höfum í huga að mengun er mengun sama hvaðan hún kemur, hún er ekki bara tengt stóriðju eins og sumir sem kenna sig við náttúruvernd halda fram kinnroðalaust. Vandamálið er því miður miklu, miklu stærra.

Aðalsteinn Árni Baldursson

 

Kynningarfundur á Húsavík vegna kísilverksmiðju Bakka

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að nýju starfsleyfi fyrir kísilverksmiðju á Bakka í Norðurþingi. Opinn kynningarfundur verður af því tilefni haldinn í sal Framsýnar, Skrifstofu stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26, Húsavík, fimmtudaginn 7. september næstkomandi. Fundurinn hefst kl. 16:30 og verður fjallað um starfsleyfisveitingar Umhverfisstofnunar, eftirlit með framkvæmd starfsleyfa, umhverfisvöktun sem tengist starfseminni og tillagan kynnt. Einnig verður opnað fyrir fyrirspurnir og umræður.

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 15. september 2017.

 

Hafa miklar áhyggjur af stöðu sauðfjárbænda

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar samþykkti í morgun að senda frá sér svohljóðandi ályktun um stöðu sauðfjárbænda sem félagið hefur verulegar áhyggjur af takist ekki að bæta starfsumhverfi greinarinnar.

„Framsýn stéttarfélag, lýsir yfir þungum áhyggjum af þeim mikla vanda sem steðjar að sauðfjárrækt á Íslandi, enda ljóst að mikil lækkun afurðaverðs til sauðfjárbænda kemur sér afar illa við greinina og ýtir undir frekari byggðaröskun en orðið er.

Mikil tekjuskerðing til bænda síðustu árin gerir það að verkum að ekkert stendur eftir til að greiða launakostnað eftir að framleiðslukostnaður hefur verið greiddur. Verði boðaðar verðlækkanir á afurðaverði og hækkandi sláturkostnaður til sauðfjárbænda að veruleika í haust er rekstrargrundvöllur margra sauðfjárbúa brostinn.

Sauðfjárrækt er ein af grunnstoðum byggðar í Þingeyjarsýslum líkt og í flestum öðrum dreifbýlissveitarfélögum landsins, margir byggja afkomu sína á sauðfjárrækt, bæði sem bændur og/eða við önnur afleidd störf tengd landbúnaði.

Hverfi sauðfjárrækt úr sveitum landsins munu fleiri störf fylgja með þar sem margir hafa afkomu sína af vinnu við afurðarstöðvar og ýmis konar þjónustu við bændur, þau störf munu einnig hverfa. Hrun í greininni snýst því ekki eingöngu um tekjulækkun til bænda heldur er fjöldi starfa í hættu, samfélagið allt er undir.

Framsýn skorar á forystumenn sauðfjárbænda, sláturleyfishafa og ráðamenn þjóðarinnar að vinna markvisst að lausn mála með það að markmiði að leysa þennan grafalvarlega vanda sem blasir við þjóðinni allri.“

 

Grunur um falsaða ráðningarsamninga

Framsýn, stéttarfélag hefur óskað  eftir upplýsingum frá undirverktakanum Korman sem starfaði um tíma við framkvæmdirnar á Þeistareykjum við klæðningu á stöðvarhúsinu. Grunur leikur á að fyrirtækið hafið ekki verið að greiða eftir íslenskum kjarasamningum og að ráðningarsamningar starfsmanna hafi verið falsaðir. Um er að ræða erlend fyrirtæki frá Póllandi sem hefur ekki  verið með starfsstöð á Íslandi. Þrátt fyrir að félagið hafi krafist þess að fyrirtækið legði fram launaseðla, vinnuskýrslur, ráðningarsamninga og gögn um millifærslur á launum starfsmanna í banka hefur fyrirtækið ekki orðið við þeirri ósk. Þá hefur félagið gert hlutaðeigandi aðilum, það er verktakanum Munck sem hafði Korman í vinnu sem og verkkaupanum Landsvirkjun, Vinnumálastofnun og ASÍ grein fyrir málinu. Reynist það rétt að ráðningarsamningarnir séu falsaðir er um alvarlegt brot að ræða hjá fyrirtækinu.

Vinnustaðafundur á Þeistareykjum

Starfsmenn á Þeistareykjum óskuðu eftir vinnustaðafundi í vikunni og að sjálfsögðu var orðið við þeirri beiðni. Fundir sem þessir eru algengir þessi misserin enda mikill fjöldi vinnandi fólks á svæðinu. Margt var rætt á fundinum, allt frá barnabótum til gleraugnastyrkja.

Eftirfarandi myndir voru teknar á meðan á fundi stóð.

Myndir frá Þeistareykjavirkjun

Fulltrúar Framsýnar voru á ferðinni á Þeistareykjum á dögunum. Meðfylgjandi myndir eru innan úr stöðvarhúsinu þar sem uppsetning á vélum virkjunarninnar eru í fullum gangi.

Meðfylgjandi myndir eru innan úr stöðvarhúsinu.

Úthlutað um 3,5 milljónum

Stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar kom saman til fundar í dag til að úthluta félagsmönnum s.s. sjúkrastyrkjum, fæðingarstyrkjum og öðrum styrkjum samkvæmt ákvæðum í reglugerð sjóðsins. Stjórnin kemur saman mánaðarlega og fer yfir umsóknir félagsmanna fyrir þann mánuð. Að þessu sinni var úthlutað um 3,5 milljónum í styrki  til félagsmanna  fyrir ágústmánuð. Á síðasta ári voru í heildina greiddar 46 milljónir til félagsmanna úr sjúkrasjóði. Stjórn sjóðsins skipa, Aðalsteinn Árni, Dómhildur og Einar Friðbergs. Þá er Jónína Hermanns umsjónarmaður með sjóðnum auk þess að sitja í varastjórn sjóðsins.

Skattbyrði þeirra tekjulægstu eykst mest

Hagdeild ASÍ setti saman skýrslu nýlega sem sýnir að skattbyrgði hefur aukist í öllum tekjuhópum. Hún hefur þó áberandi mest aukist hjá þeim tekjulægstu.
Helstu ástæður fyrir þessari þróun er að persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun, vaxtabótakerfið veitir ekki sama stuðning og áður, barnabótakerfið er veikt og veitir frekar lítin stuðning og loks er húsaleigubótakerfið orðið máttminna í tímans rás.

Nánar má lesa um málið á heimasíðu ASÍ.

Stjórn og trúnarráð Framsýnar fundar á miðvikudaginn

Stjórn og trúnarráð Framsýnar kemur saman til fundar á miðvikudaginn. Fyrir fundinum liggja mörg mál sem tekin verða fyrir til umræðu og afgreiðslu.

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Málefni Sparisjóðs Suður- Þingeyinga
  4. Kjör fulltrúa á þing SGS/11-12.okt.
  5. Kjör fulltrúa á þing LÍV/13-14.okt
  6. Kjör fulltrúa á þing AN/ 29-30. sept.
  7. Formannafundur SSÍ/19-22. okt.
  8. Fréttaflutningur Ríkissjónvarpsins/innflytjendur
  9. Málefni PCC
  10. Sumarferð stéttarfélaganna
  11. Korman- málefni starfsmanna
  12. Jarðboranir- endurskoðun á samningi
  13. Trúnaðarmannanámskeið
  14. Stofnanasamningur við FSH
  15. Stofnanasamningur við Framhaldsskólann á Laugum
  16. Húsnæðismál/Búfesti
  17. Önnur mál

Formaður á fundi með Öryrkjabandalaginu

Formanni Framsýnar, Aðalsteini Árna Baldurssyni, var boðið að vera gestur á fundi nefndar á vegum Öryrkjabandalagsins um kjör og velferð öryrkja. Fundurinn fór fram í Reykjavík fyrir helgina. Auk Aðalsteins tóku Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR þátt í fundinum. Fundurinn var mjög vinsamlegur og fór vel fram og skiptust fulltrúar Öryrkjabandalagsins á skoðunum með formennina þrjá. Töluvert er um að þremenningarnir séu beðnir um að vera á fundum með ýmsum hópum um velferðarmál og skyld málefni. Ljóst er að málflutningur þeirra höfðar til margra í samfélaginu.

Atvinnuleysisbætur í sögulegu lágmarki

Framsýn, stéttarfélag tekur heilshugar undir með miðstjórn Alþýðusambands Íslands sem mótmælir harðlega þeirri ákvörðun stjórnvalda að láta atvinnuleysisbætur ekki fylgja þróun lægstu launa og krefst þess að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar til samræmis við lægstu laun. Eiginfjárstaða Atvinnuleysistryggingasjóðs stefnir í að verða jákvæð um 25 milljarða króna á þessu ári og er sjóðurinn því vel í stakk búinn að standa undir hækkun bóta.

Í kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ árið 2015 var samið um hækkanir á lægstu launum í landinu, þannig að þau myndu hækka í áföngum til ársloka 2018 í kr. 300.000 á mánuði. Í viðræðum við þáverandi ríkisstjórn var það krafa ASÍ að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur myndu haldast í hendur við lágmarkslaun en því var hafnað.

Alþingi ákvað síðar að hækka hámarksbætur almannatrygginga vegna ársins 2017 og tryggja að þær fylgi þróun lágmarkslauna. Engin sambærileg ákvörðun hefur verið tekin um hækkun atvinnuleysisbóta og eru þeir nú lægri sem hlutfall af lágmarkslaunum en nokkru sinni áður eða 78%.

Í sögulegu samhengi var lengst af skýr fylgni milli bóta atvinnuleysisbóta og lægstu launa í landinu. Þetta breyttist með stofnun Vinnumálastofnunar 1996 með þeim afleiðingum að upp úr aldamótum voru atvinnuleysisbætur orðnar 80% af lægstu launum. Sú skekkja var leiðrétt í kjarasamningunum 2005 en síðan þá hefur aftur sigið á ógæfuhliðina.

Í lögum er skýrt kveðið á um að atvinnuleysisbætur bæturnar eigi að fylgja þróun kaupgjalds í landinu. Ráðherra vinnumarkaðsmála og ríkisstjórnin fer því á svig við lög og heggur þar sem síst skyldi  í árferði sem hefur verið kallað lengsta góðærisskeið í manna minnum.

Miðstjórnin áréttar jafnframt að Alþýðusambandið hefur verið þeirrar skoðunar að aðlaga beri tryggingagjaldið að fjárhagsstöðu vinnumarkaðstengdu sjóðanna, þ.e. atvinnuleysistryggingasjóðs, fæðingarorlofssjóðs og ábyrgðasjóðs launa, að því gefnu að áður en til breytinga á iðgjaldi atvinnulífsins kemur verði að treysta réttindi sjóðsfélaganna. Því mun fyrrgreind lækkun bótaréttar m.v. lægstu laun eða áform stjórnvalda um styttingu bótatímabilsins úr 30 mánuðum í 24 ekki verða grunnur að neinni sátt.

 

Nýr stofnanasamningur undirritaður

Rétt í þessu gekk Framsýn, stéttarfélag frá nýjum stofnanasamningi við Framhaldsskólann á Húsavík. Samningurinn er gerður á forsendum kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra fh. ríkisjóðs, 11. kafla. Skrifstofa stéttarfélaganna vinnur jafnframt að því að ganga frá stofnanasamningi við Framhaldsskólann vegna starfsmanna sem eru félagsmenn í Starfsmannafélagi Húsavíkur. Væntanlega klárast sú vinna eftir helgina.

Athugasemdir við fréttaflutning  RÚV af starfskjörum innflytjenda

Vegna sjónvarpsfréttar RÚV þann 16. ágúst síðastliðinn um stöðu innflytjenda í Norðurþingi vill Framsýn stéttarfélag koma eftirfarandi á framfæri. Í fréttinni var vitnað í könnun Háskólans á Akureyri á stöðu innflytjenda á Húsavík, Akureyri og Dalvík:

„Ríkissjónvarpið gerði að umræðuefni stöðu innflytjenda  í sveitarfélaginu Norðurþingi í síðustu viku þar sem uppbyggingin á Bakka við Húsavík var til umfjöllunar.  Þar var m.a. fullyrt að launakjör innflytjenda væru mun lægri en í nágrannasveitarfélögum við Eyjafjörð. Byggt var á könnun sem Háskólinn á Akureyri gerði á sínum tíma.

Ríkissjónvarpið gerir því skóna að meint slæm kjör innflytjenda í Norðurþingi tengist uppbyggingunni á Bakka. Þar er skautað framhjá þeirri staðreynd að könnunin sem vitnað er í var unnin á haustmánuðum 2015. Á þeim tíma voru framkvæmdir á Bakka í mýflugumynd og fáir ef nokkrir innflytjendur að störfum þar. Þar með er vandséð hvernig könnunin getur tengst því erlenda vinnuafli sem hefur starfað á Bakka síðustu misseri.

Framsýn hefur þegar fundað með fulltrúum Háskólans á Akureyri þar sem alvarlegar athugasemdir voru gerðar við könnunina hvað starfskjör innflytjenda varðar.  Upplýst var af hálfu Háskólans að úrtakið væri ófullkomið og gæfi því ekki rétta mynd af stöðunni varðandi launakjörin sem staðfestir gagnrýni  Framsýnar.

Framsýn vísar því alfarið á bug að starfskjör innflytjenda í Norðurþingi fyrir sambærileg störf séu verulega lægri en í nágrannasveitarfélögunum. Slíkar fullyrðingar standast ekki skoðun og eiga því ekki við rök að styðjast.

Starfskjör innflytjenda í Norðurþingi eru sambærileg eða betri en almennt gerist á landsbyggðinni. Þar kemur ekki síst til sú mikla þensla sem hefur átt sér stað á svæðinu og tengist uppbyggingu orkufreks  iðnaðar, byggingu Vaðlaheiðargangna, uppbyggingu í ferðaþjónustu sem og öflugu vinnustaðaeftirliti stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.“

 

Frábær sumarferð á Borgarfjörð eystra

Um síðustu helgi fóru tæplega tuttugu félagsmenn stéttarfélaganna í sumarferð á Borgarfjörð eystra. Á leiðinni austur var litið við í Möðrudal þar sem menn fengur sér hressingu, kaffi og ástarpunga af bestu gerð. Síðar um daginn var komið við í Húsey  sem er  náttúruparadís milli fljóta við Héraðsflóa. Þar hittum við fyrir Örn Þorleifsson ferðaþjónustu – og hlunnindabónda sem er um margt einstakur maður og hafsjór af fróðleik ekki síst um lífið við Héraðsflóann. Síðan var ekið Borgarfjarðarveg um Hróarstungu og Hjaltastaðaþinghá. (Útmannasveit). Þegar þangað var komið komu menn sér fyrir á hóteli í bænum er nefnist Álfheimar og er staðsett úti á Bökkum sem kallað er. Síðan var farið um bæinn og ýmsir forvitnilegir staðir skoðaðir. Hópurinn safnaðist síðan saman um kvöldið og grillaði og að sjálfsögðu var sungið fram eftir kvöldi eftir langan, en ánægjulegan og fræðandi dag. Morguninn eftir voru allir komnir snemma á fætur til  gleypa í sig frekari fróðleik um sögu Borgarfjarðar sem er stórbrotin. Síðar um daginn, var síðan haldið heim á leið. Þegar komið var til Húsavíkur um kl. 17:00 á sunnudeginum var endað á því að renna út í Bakka þar sem var opinn dagur á vegum PCC sem bauð áhugasömum að skoða framkvæmdirnar sem tengjast uppbyggingu á kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík. Fararstjóri ferðarinnar var Ósk Helgadóttir sem stóð sig að venju mjög vel.