Það er ljóst að æðstu stjórnendur viðskiptalífsins telja sig svo mikilvæga að þeir verðskuldi laun sem jafngilda tugum stöðugilda á almennum vinnumarkaði. Siðlaust launaskrið og sjálftaka í gegnum kaupauka og bónuskerfi áttu að heyra sögunni til eftir hrunið 2008 en annað hefur komið á daginn. Það er ljóst að launafólk á almennum og opinberum markaði mun ekki lengur sætta sig við að bera ábyrgð á stöðugleika í samfélaginu á meðan stjórnvöld og aðrir embættismenn ásamt toppunum í íslensku viðskiptalífi stíga trylltan sjálftökudans. Sem dæmi um firringu þeirra sem stjórna fyrirtækjum á Íslandi má nefna launagreiðslur til forstjóra Eimskips sem námu 102,6 milljónum á síðasta ári. Á einu ári fær hann tekjur sem láglaunafólk er stóran hluta starfsævinnar að vinna sér inn fyrir.
Launagreiðslur til Forstjóra Eimskipa á einu ári jafngilda byrjunarlaunum 19 ljósmæðra eftir 6 ára háskólanám og milljóna námslán. Þarf forstjóri Eimskipa að vera þess ávallt viðbúinn að mæta til vinnu, vegna þess að líf og heilsa fólks er að veði? Það er ólíklegt að þjóðin tæki eftir því ef topparnir í viðskiptalífinu myndu leggja niður störf í nokkra daga eða vikur, í það minnsta þarf ekki að loka fyrirtækjunum ef það gerist. Stjórnendur eru engu að síður dekraðir af stjórnum fyrirtækja sem mörg hver eru að stórum eða í meirihluta eigu eftirlaunasjóða almennings. Ástandið er svo galið að ekki verður lengur við unað!
Nú eru ljósmæður í mikilli og erfiðri kjarabaráttu og ber okkur öllum að styðja, virða og sýna í verki stuðning okkar við baráttu þeirra fyrir bættum kjörum. Við undirrituð styðjum ljósmæður heilshugar og skorum á samninganefnd ríkisins að nálgast kjaraviðræður þeirra af virðingu og sanngirni í stað hroka og yfirlætis.
Aðalsteinn Baldursson
Ragnar Þór Ingólfsson
Sólveig Anna Jónsdóttir
Vilhjálmur Birgisson