Sólveig Anna Jónsdóttir verður næsti formaður Eflingar-stéttarfélags og mun hún taka við af Sigurði Bessasyni, fráfarandi formanni, á aðalfundi félagsins þann 26. apríl nk. B listi Sólveigar Önnu fékk 2099 atkvæði en A listi stjórnar og trúnaðarráðs fékk 519 atkvæði. Þeir sem voru með Sólveigu Önnu á lista og taka sæti í stjórn Eflingar eru Magdalena Kwiatkowska hjá Café Paris, Aðalgeir Björnsson, tækjastjóri hjá Eimskip, Anna Marta Marjankowska hjá Náttúru þrif, Daníel Örn Arnarsson hjá Kerfi fyrirtækjaþjónustu, Guðmundur Jónatan Baldursson, bílstjóri hjá Snæland Grímsson, Jamie Mcquilkin hjá Resource International ehf. og Kolbrún Valversdóttir, starfsmaður búsetuþjónustu Reykjavíkurborgar.
Úrslit kosninganna eru þannig:
Á kjörskrá voru 16.578 félagsmenn og af þeim greiddu 2.618 atkvæði.
B listi Sólveigar Önnu Jónsdóttur fékk 2099 atkvæði.
A listi stjórnar og trúnaðarráðs fékk 519 atkvæði.
Auðir seðlar voru 6 og ógildir voru 4.
Þessar breytingar eru nokkuð áhugaverðar og eiga líklega eftir að leiða af sér kröftugri verkalýðsbaráttu standi frambjóðendur B-listans við yfirlýsingar sem þeir hafa látið hafa eftir sér í aðdraganda kosninganna. Töluverð vakning hefur orðið meðal félagsmanna stéttarfélaga að bjóða sig fram eins og þetta dæmi sýnir. Þá má geta þess að tveir formenn sem hafa verið áberandi í íslenskri verkalýðsbaráttu hafa fengið mótframboð, það eru þeir Guðmundur Ragnarsson hjá VM og Guðbrandur Einarsson formaður verslunarmannafélagsins á Suðurnesjum. Guðbrandur er auk þess formaður Landssambands ísl. verslunarmanna. Að sjálfsögðu eiga menn að gleðjast yfir því að nýtt og kraftmikið fólk sé tilbúið að takast á við krefjandi störf í verkalýðshreyfingunni. Hugsanlega hafa menn sofnað á verðinum hvað það varðar þar sem ákveðin stöðnun hefur orðið í hreyfingunni. Rétt er að óska Sólveigu Örnu til hamingju með kjörið með von um að ný stjórn Eflingar komi af krafti inn í baráttuna sem framundan er en kjarasamningar eru almennt lausir um næstu áramót. Það eru vissulega áhugaverðir tímar framundan, mun Starfsgreinasamband Íslands og Flóabandlagið starfa nánar saman í næstu kjarasamningum? Mun starfsemi Starfsgreinasambandsins eflast við þetta s.s. með nýju fólki í framkvæmdastjórn? Hvað með ASÍ, stefnir í breytingar á forystusveit sambandsins á þingi þess í haust? Eitt er víst að það á ýmislegt eftir að gerast á næstu mánuðum, talað er um að ákveðið uppgjör þurfi að fara fram. Sumir gleðjast meðan aðrir hræðast breytingar innan verkalýðshreyfingarinnar.
Myndin af Sólveigu er af efling.is.