Gallup- Góð þekking á starfsemi Framsýnar

Gallup gerði könnun fyrir Framsýn í október og nóvember. Markmiðið var að kanna vitund almennings á Íslandi um Framsýn, stéttarfélag. Könnunin náði til 1413 einstaklinga af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.  Þátttökuhlutfallið var 59,8%.

Í mjög stuttu máli kom könnunin almennt mjög vel út fyrir félagið þar sem stór hluti þjóðarinnar er kunnugt um starfsemi félagsins, það er þekkir mjög vel til félagsins, frekar vel eða hefur heyrt talað um Framsýn.

Aldraðir vita mest um starfsemina og ungt fólk minnst. Svo dæmi tekið vissu 79% þeirra sem eru eldri en 65 ára um starfsemina meðan aðeins 12% ungs fólks innan við 24 ára aldur vissi af starfseminni.

Almennt þekkja þeir sem eru á vinnumarkaði og eru á aldrinum  45 ára upp í 64 ára aldur ágætlega til starfseminnar eða um 72% svarenda. Þegar neðar dregur í aldri þeirra sem eru á vinnumarkaði dregur aðeins úr vitneskju þeirra um starfsemi Framsýnar.

Þá vita karlar töluvert meira um starfsemina en konur. Félagsmenn sem vilja fræðast betur um könnunina er velkomið að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna þar sem könnunin liggur frammi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Upplýsingar um desemberuppbót

Félagsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum eiga rétt á að fá greidda desemberuppbót samkvæmt kjarasamningum. Upphæðin er mismunandi eftir samningum og við hvaða tímabil er miðað varðandi skilgreiningu á fullu starfi. Uppbótina skal greiða í einu lagi og ofan á hana reiknast ekki orlof.

Full desemberuppbót árið 2017 er kr. 86.000 hjá þeim sem vinna á almennum vinnumarkaði. Greiða skal uppbótina fyrir 15. desember ár hvert.

Full desemberuppbót árið 2017 er kr. 86.000 hjá þeim sem vinna hjá ríkisstofnunum.  Greiða skal uppbótina 1. desember ár hvert.

Full desemberuppbót árið 2017 hjá þeim sem vinna hjá sveitarfélögum er kr. 110.750. Greiða skal uppbótina 1. desember ár hvert.

Rétt er að taka fram að desemberuppbótin getur í ákveðnum tilvikum verið hærri en hér kemur fram. Það á við um þá starfsmenn Framsýnar og Starfsmannafélags Húsavíkur sem hafa langa starfsreynslu hjá sveitarfélögum. Í tilfelli Framsýnar nær ákvæðið til starfsmanna sem voru við störf hjá sveitarfélögum  fyrir 29. apríl 1997. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

 

Stjórnarfundar á morgun, þriðjudagur

Stjórn Framsýnar kemur saman til fundar á morgun, þriðjudaginn 14. nóvember kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Bókhaldskerfi stéttarfélaganna
  4. Gallup-könnun
  5. Jarðboranir-samningur
  6. Aðalfundir deilda
  7. Jólafundur félagsins
  8. Tilgreind séreign
  9. Þing og ráðstefnur
  10. Umsókn um styrk vegna ljósmyndasýningu
  11. Kjaraþing SGS
  12. Tilnefning í kjörnefnd/ 6.7.des
  13. Samtarf við ÞÞ um námskeiðahald
  14. Aðgerðaráætlun Framsýnar gagnvart eineldi og kynbundu ofbeldi
  15. Minnisblað SGS: Kynferðisleg áreitni
  16. Starfsmannamál
  17. Önnur mál
    a) Skipunarbréf formanns í Félagsmálaskóla alþýðu

 

Næsti fundur stjórnar verður svo útvíkaður, auk stjórnar verður trúnaðarráði, Framsýn-ung, trúnaðarmönnum félagsins á vinnustöðum og starfsmönnum stéttarfélaganna boðið að taka þátt í fundinum sem haldinn verður 8. desember í fundarsal stéttarfélaganna.

VM í kynnisferð á Húsavík

Fyrir helgina komu góðir gestir í heimsókn frá Félagi vélstjóra- og málmtæknimanna til að kynna sér uppbygginguna á Bakka og á Þeistareykjum.  Félagið er landsfélag með aðsetur í Reykjavík. Gestirnir sem komu í heimsókn voru Guðni Gunnarsson, Elzbieta Sajkowska og Benóný Harðarson. Eftir kynningu á framkvæmdunum hjá stéttarfélögunum var farið í heimsókn til forsvarsmanna PCC á Bakka sem tóku vel á móti fulltrúum VM og stéttarfélaganna á Húsavík. Þaðan var síðan haldið á Þeistareyki þar sem fulltrúi á vegum Landsvirkjunar opnaði sína arma og fræddi gestina um stöðvarhúsið og orkuöflun Landsvirkjunar á svæðinu. Meðfylgjandi þessari frétt eru myndir sem teknar voru úr ferð fulltrúa VM norður í Þingeyjarsýslu. Ástæða er til að þakka fullrúum PCC og Landsvirkjunar fyrir góðar móttökur.

Framsýnarmótið um helgina

Framsýnarmótið í skák 2017 verður haldið í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík um næstu helgi, það er 3.-5. nóvember.

Tefldar verða 7 umferðir alls. Fyrstu fjórar með atksákartímamörkum (25 mín á mann) en þrjár síðustu skákirnar með 90 mín + 30 sek/leik.

Mótið verður reiknað til Fide-skákstiga, Fide-atskákstiga og Íslenskra skákstiga.

Skákstjóri verður Ingibjörg Edda Birgisdóttir.

Yfirseta

Keppendum verður heimilt að taka bye (sjálfvalda yfirsetu) í tveimur umferðum og fá fyrir það hálfan vinning. Það verður þó hvorki heimilt í fyrstu umferð né þeirri síðustu.

Tilkynna verður skákstjóra um yfirsetu áður en parað er í viðkomandi umferð.

Þátttökugjald

2000 kr. en 1000 kr. fyrir 16 ára og yngri.

Dagskrá.

  • Föstudagur 3. nóvember kl 20:00 1. umferð
  • Föstudagur 3. nóvember kl 21:00 2. umferð
  • Föstudagur 3. nóvember kl 22:00 3. umferð
  • Föstudagur 3. nóvember kl 23:00 4. umferð
  • Laugardagur 4. nóvember kl 11:00 5. umferð
  • Laugardagur 4. nóvember kl 17:00 6. umferð
  • Sunnudagur 5. nóvember kl  11:00 7. umferð

Verðlaun.

Veittir verða eignarbikarar í verðlaun handa þremur efstu af félagsmönnum Hugins og einnig fyrir þrjá efstu utanfélagsmenn. Einnig verða sérstök verðlaun veitt fyrir þrjá efstu í flokki 16 ára og yngri.

Það er stéttarfélagið Framsýn í Þingeyjarsýslu sem gefur verðlaun á mótinu. Veitingar á mótsstað verða jafnframt í boði Framsýnar stéttarfélags.

Fyrirtækið Eflir almannatengsl, hefur ákveðið að veita sérstök verðlaun á Framsýnarmótinu 2017 fyrir mestu stigabætinguna.

Skráning.

Væntanlegir keppendur geta skráð sig til leiks á þar til gerðu skráningarformi sem er hér og einnig á skák.is Hægt verður að skrá sig til keppni fram til kl 19:30 á föstudag, eða 30 mín áður en mótið hefst. Hægt verður einnig að skrá sig í mótið á mótsstað til kl 19:55 föstudaginn 3. nóvember.

 

Við gerum enn betur við félagsmenn- lögfræðiþjónusta í boði

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa gert samkomulag við PACTA lögmenn um almenna þjónustu við félagsmenn sem þurfa á lögfræðiþjónustu að halda er varðar þeirra einkamál.

Samkomulag stéttarfélaganna við PACTA lögmenn byggir á því að félagsmenn geta leitað til þeirra með þjónustu. Ekki þarf að greiða fyrir fyrsta tímann sem er gjaldfrjáls. Komi til þess að lögmenn PACTA þurfi að vinna frekar í málum fyrir félagsmenn fá þeir 15% afslátt frá fullu gjaldi.

Til fróðleiks má geta þess að PACTA býður upp á alla almenna lögfræðiþjónustu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir. Um er að ræða persónulega þjónustu á fimmtán starfsstöðvum víðs vegar um land, m.a. að Garðarsbraut 26 á Húsavík, efri hæð. Þar starfar Hallgrímur Jónsson lögfræðingur. Síminn á skrifstofunni er 440-7900. Opnunartími skrifstofu er 8-16 alla virka daga.

Félagsmenn sem vilja nýta sér þessa þjónustu er bent á að hafa samband við Hallgrím Jónsson, hallgrimur@pacta.is eða við Ásgeir Örn Blöndal lögmann asgeirorn@pacta.is.

Heimasíða PACTA, lögmanna er pacta.is og símanúmerið er 4407900.

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum 

Þingiðn svarar fyrir sig

Veruleg óánægja er meðal félagsmanna Þingiðnar um ákvörðun Félags málmiðnarmanna á Akureyri að valta yfir félagssvæði Þingiðnar með því að stækka félagssæðið yfir félagssvæði Þingiðnar. Að sjálfsögðu eru þetta stór undarleg vinnubrögð svo ekki sé meira sagt. Þingiðn hefur nú ákveðið að gera breytingar á félagssvæðinu með að að markmiði að útvíka það í takt við önnur félög innan Samiðnar sem farið hafa þá leið og stækka sín félagssvæði, jafnvel yfir önnur félagssvæði stéttarfélaga innan Samiðnar. Félagið taldi því rétt að svara þessu með því að gera Ísland allt að félagssvæði Þingiðnar. Erindi þess efnis hefur verið komið til Alþýðusambands Íslands.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vegna yfirgangs annarra félaga innan Samiðnar hefur Þingiðn ákveðið að stækka félagssvæðið og gera Ísland allt að félagssvæði félagsins. Formaður og varaformaður Þingiðnar hafa fundað stíft með stjórn félagsins um skipulagsmál undanfarið. Niðurstaðan liggur fyrir, það er að gera breytingar á félagssvæðnu í takt við önnur iðnaðarmannafélög innan Samiðnar.

 

 


 

MINNINGAR

Ég geri mér oft á tíðum ekki grein fyrir því að ég er eldri en ég var áður og á það til að undrast það oft á tíðum.  Það var eins og skilningarvit mín vöknuðu við auglýsingu í sjónvarpinu vegna afmælis Olís áður B.P.  Þar voru menn að velta 200 lítra tunnum uppí stæðu til geymslu og notuðu til þess sliskju. Þá rann allt í einu upp fyrir mér að það eru nú ekki mörg ár síðan að sjómenn þurftu að höndla slíkar tunnur hér á Húsavík og koma þeim um borð í skip með handaflinu einu saman. Ekki sá ég þegar að Trausti Jónsson kendur við Voga tók einn um borð í skip slíka tunnu fullri af olíu en Trausti var tröllsterkur og hraustmenni mikið þegar hann var og hét. Þetta fékk ég staðfest hjá manni sem horfði á Trausta gera þetta og sagði „Trausti var heljarmenni“og sterkur sem naut.

Ég hefi kynnst nokkrum mönnum sem vissu ekki afl sitt og töldu krafta sína ekkert merkilega hluti. Sveinbjörn Magnússon múrari og félagi minn er einn af þeim -ég minnist þess að við vorum á leiðinni til Kópaskers að vetri til,þá voru gilin á Tjörnesinu oft erfiður farartálmi, í Hallbjarnarstaðagilinu festi ég bílinn,afturhjóladrifna Cortinu ,ég hefi aldrei verið góður bílstjóri í snjó, félagi minn habbði engin orð um það, heldur dreif hann sig út til að ýta bílnum upp og hann bókstaflega lyfti bílnum upp að aftan og ýtti honum upp úr festunni og kom svo inn og sagði „helvíti er bíllinn þungur“ þegar við komum austur á Kópasker byrjuðum við auðvitað að vinna við múrverkið en fljótlega sagði Sveinbjörn að það væri einhver lumbra í sér og hann treysti sér ekki til að vinna. Félagi minn habbði tekið svo hraustlega á við bílinn í gilinu að hann var þrotinn kröftum -ansi er ég hræddur um að þetta hafi ekki verið í eina skiptið sem hann tók svona á. Ég reyndar veit það að þetta var ekki eina skiptið,við unnum saman í 20 ár í múrverki og oftar en ekki beitti hann afli sínu þegar á þurfti að halda að hans áliti.

Félagi okkar beggja „Texarinn“ Hallgrímur Aðalsteinsson ,var einnig heljarmenni oftar en ekki var hann til í átökin og hló þá gjarnan við. Vetur einn við byggingu „Varðablokkarinnar“ vorum við að hífa upp steypu á rafmagnsspili sem var góður gripur og léttI mörg sporin.

Aðstæður voru þannig að híft var upp á svalir ,spilið var þannig fest að það var þar ti gerð  járnuppistaða sem það var fest á,þannig að það var stíft uppí svalargólfið ofan við. Texarinn stjórnaði hífingum og var þetta á þriðju hæð,þegar hann er að hífa upp fór járnuppistaðan að halla fram á við ,nú var illt í efni ,Texarinn að hífa upp fullt steypusílóið og allt draslið að steypast fram af svölunum,Texarinn hélt nú ekki,heldur þreif í uppístöðuna og ætlaði sko að sjá til þess að sílóið með steypunni skildi sko komast upp,fullt sílóið hlítur að hafa vegið ein 300 kg.  Texarinn sleppti ekki ,sílóið skyldi upp,fullt af steypu ,en þarna dugði ekki kraftarmennið ,spilið ásamt Texaranum steyptust fram af þriðju hæðinni 7-8 metra fall. Á einhvern óskiljanlegan hátt skildu leiðir í fallinu, spilið fór til suðurs ,en Texarinn til norðurs  og ekki bara það ,heldur fékk minn maður mjúka lendingu að sögn Mána og lenti í sandhrúgu sem Bjössi í Bröttuhlíð var nýbúinn að sturta þarna. Texarinn stóð upp tók útúr sér sígrettuna ,hló við og sagði „,Þessu trúir Beysi ekki „-verst að missa heilt síló af steypu. Síðan gekk minn maður að spilinu skellti því á bakið og gekk með það uppá þriðju hæð ,gékk þar frá því og sagði „Við getum haldið áfram að steypa félagi.“

Örn Byström Einarsstöðum

   Í tilefni dagsins

Ég er morgunhani. Finnst gott að taka daginn snemma og skella mér í sund áður en ég tekst á við vinnudaginn. Það er enn árla morguns þegar ég smeygi mér ofan í ylvolga laugina, næðisstundin er mín og ég hlakka til að teygja úr mér í  flauelsmjúku vatninu. Það ekkert sem truflar hugsanir mínar og þegar ég spyrni mér frá bakkanum set ég niður verkefni dagsins í huganum, brýt heilann um málefni líðandi stundar, eða bara um lífið og tilveruna.

Í dag er 24. október, daginn þann árið 1975 lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mik­il­vægi vinnu­fram­lags kvenna fyr­ir þjóðfé­lagið. Mér verður hugsað til baka, man eftir svart hvítum fréttamyndum sjónvarps frá þeim degi,  og man að hjarta 12 ára stelpu sló með skeleggum konum, sem þúsundum saman hópuðust á Austurvöll  og mótmæltu kúgun og óréttlæti.

Það var eitthvað sem kom því inn hjá mér strax í bernsku að þegar ég yrði fullorðin langaði mig umfram allt að verða sjálfstæð og hafa yfir mínu lifi að segja. Að vera þriðja í systkinaröð, á eftir tveimur kraftmiklum strákum hefur líkast til jafnað út hin mjúku (kvenlegu) gildi og gert það að ég mátti berjast fyrir mínum stað í tilverunni. Viðurkenni fúslega að eiga erfitt með að vera sett skör neðar en aðrir menn, er enda haldin þeirri bjargföstu trú að konur séu líka menn. Og mér hefur stundum verið legið á hálsi að ég sé kvenremba, hvað sem það nú þýðir.

Þar sem ég svamla áfram í lauginni velti ég því staðfastlega fyrir mér hvort að ég sé kannski haldin einhverri staðreyndastíflu. Ég hitti nefnilega einn ágætan vin minn hér dögunum, mann sem vissi að ég hefði verið í göngum og eftirleitum á Flateyjardal og hann spurði frétta. Ég reyndi að uppfræða manninn sem ég best vissi, sem var talsvert þar sem ég þóttist hafa lagt „drjúgan fót“ að því verki. Hann spurði hvort þeir hefðu fundið einhverjar kindur, hvort þeir hefðu náð þeim og hvort þeir teldu að eitthvað væri eftir. Ég fann að þessar spurningar pirruðu mína meintu kvenrembu, kannski af því að mér fannst þessi vinur minn gera frekar lítið úr mér. Því svaraði ég spurningum hans fremur háðslega: „Já, við náðuð kindunum, nei, við erum ekki búin að ná öllu, en sannaðu til, við náum þeim sem eftir eru – við strákarnir gerum það … á endanum“. „ Þú breytist ekkert“ segir hann, „alltaf sama andskotans kvenremban í þér“, svo strunsar karl leiðar sinnar og það verður lítið úr kveðjum.

Hugur minn dvelur áfram í fortíð og ég sé fyrir mér næðisstund konu sem ég þekkti eitt sinn og þótti afar vænt um. Sé hana fyrir mér sitja framan við olíukynnta Sóló eldavél snemma morguns, sé sárin á þrútnum fótunum, hún hreinsar þau varlega upp og vefur fætur sína með sárabindum. 10 meðgöngur og endalaust stikl við þjónustu og heimilisstörf  hafa tekið sinn toll, en það er enginn afsláttur gefinn. Í fjósinu bíður kýrin sem þarf að mjólka: Eftir litla stund klæðir hún sig í útifötin, seilist í mjaltafötuna og staulast fram í fjós, til að sinna sínum verkum. Á meðan sefur húsbóndinn vært.

Mynd af bláleitum fótunum situr fast í huga mér og veldur mér áframhaldandi pirringi, því mér fannst/finnst að þessi morgunverk hefðu alveg eins átt að vera verkið hans eins og hennar. Geri mér samt grein fyrir því að það voru aðrir tímar og veit einnig hve djúpstæðar rætur hlutverk kynja hafa mótast frá örófi alda í samfélagsgerð okkar. En mér finnst ég skulda henni ömmu minni það að skrefin mín verði fram á við, en ég vil einnig trúa því að ef þau hjónin væru að hefja búskap í dag þætti jafnsjálfsagt að hann sæi um þessi verk og hún. En ætli það sé þannig ?

Mér finnst erfitt að festa hendur á jafnréttisumræðunni, hún er flókin, en það er þessi niðurnjörvaða túlkun kynhlutverka sem er svo djúpstæð í menningu okkar og sögu sem mér finnst að við ættum öll að leiða hugann að og vera meðvituð um alla daga.

Meðan við höldum áfram að slá um okkur með setningum eins og : „Ég spyr bara eins og fávís kona“ til að undirstrika hugleysi og heimsku kvenna, eða „Hann tók þessu eins og sannur karlmaður“ til að hrósa fyrir dugnað og áræðni, þá miðar okkur lítið áfram, en með fræðslu og áframhaldandi baráttu færumst við mögulega nær jafnrétti. Ég gleðst í hvert sinn er ég heyri af konu sem ögrar staðalímyndum, gerist flugmaður, vélstjóri eða verkfræðingur, og að karli sem gerir slíkt hið sama og ræðst til hefðbundinna kvennastarfa.

Við krefjumst viðhorfsbreytinga, við krefjumst reglugerðabreytinga, við krefjumst jafnréttisstefna og það næst í gegn í orði, en það er kannski ekki endilega á borði. Og af einhverjum ástæðum er það að við Íslendingar, sem státum okkur af vel upplýstu nútímasamfélagi erum enn að bjóða konum landsins uppá lægri laun en körlum. Við erum enn föst í hefðbundnum kynjahlutverkum og meðan svo er náum við ekki fram jafnrétti.

Og það má enginn skilja mig þannig að ég sé að agnúast út í karlmenn, að þeir séu vísvitandi að kúga okkur konur. Málið er ekki svo einfalt, heldur höfum við, karlar og konur þróað samfélagið okkar í gegnum aldirnar og gert það að því  sem það er í dag. En við getum breytt því – ef við viljum.

Það er farið að birta og tími til kominn að fara að hafa sig til vinnu, verkin vinna sig víst ekki sjálf. Ég segi gott af sundinu þennan morguninn og held inn í daginn með þá von í brjósti að við munum öll taka þátt í að varða veginn áfram til jafnréttis, fyrir karla og konur framtíðar.

Til hamingju með daginn

Ósk Helgadóttir, varaformaður Framsýnar, stéttarfélags

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athyglisverðar yfirlýsingar hjá frambjóðendum

Einstaka stjórnmálaflokkar hafa gert mikið úr stöðu mála í þjóðfélaginu, það er að verðlag hafi farið niður á sama tíma og laun hafi hækkað. Þá hefur einnig verið komið inn á að atvinnuleysið hafi minkað á undanförnum árum, það er frá hruni. Allt er þetta rétt en er verið að segja alla söguna? Vita menn að atvinnuleysisbætur eru í sögulegu lágmarki á Íslandi eða um kr. 217.000  á mánuði m.v. fullar atvinnuleysisbætur. Vita menn að þáverandi ríkistjórn skar niður bótarétt fólks um 6 mánuði. Vita menn að laun hafa vissulega hækkað, ekki síst laun alþingismanna sem hafa hækkað um 68,4% frá árinu 2013 til ársins 2016. Á sama tíma hækkuðu laun launþega innan ASÍ um 25,4%. Innan raða aðildarfélaga ASÍ er meðal annars verkafólk á lágmarkslaunum. Af hverju segja menn ekki frá þessu líka þegar verið er að tala um hækkun launa og minnkandi atvinnuleysi á síðustu árum?

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Miklar umræður urðu á þingi Starfsgreinasambands Íslands í síðustu viku um ójöfnuð í þjóðfélaginu sem endurspeglast ekki síst í mismunandi launahækkunum til fólks á undanförnum árum og þá hafa atvinnuleysisbætur setið eftir auk þess sem bótarétturinn var skertur.

Starfsmenn Fuji í heimsókn

Undanfarin misseri hefur verið mikið um heimsóknir á Skrifstofu stéttarfélaganna frá hinum ýmissu aðilum sem tengjast framkvæmdunum á Bakka og Þeistareykjum. Í dag komu nokkrir starfsmenn Fuji Electric við á skrifstofunni. Fyrirtækið hefur verið við störf á Þeistareykjum undanfarið tæpt ár og mun verða fram á mitt næsta ár.

Starsmenn fyrirtækisins létu vel af sér, enda vanir því að vinna víða um veröld. Þeim þótti þó frekar kalt á Íslandi og veturinn nokkuð lengri en þeir eiga að venjast. Þeir fóru yfir sviðið á Þeistareykjum, hvað sé mikið eftir af þeirra verki og fleira í þeim dúr.

Eftir því sem best er vitað er þetta í fyrsta skipti sem Skrifstofa stéttarfélaganna er heimsótt af fólki frá Japan.

Aðalsteinn endurkjörinn í stjórn SGS

Sjötta reglulega þingi Starfsgreinasambands Íslands lauk á hádegi 12. október. Á þinginu voru samþykktar starfs- og fjárhagsáætlanir, nokkrar ályktanir um kjara- og velferðarmál og forysta  kjörin fyrir sambandið til næstu tveggja ára.

Björn Snæbjörnsson frá Einingu Iðju var endurkjörinn formaður og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir frá AFLi starfsgreinafélagi var endurkjörin varaformaður.

Aðalmenn í framkvæmdastjórn SGS er eftir kjörið svo skipuð: Aðalsteinn Á. Baldursson frá Framsýn stéttarfélagi, Guðrún Elín Pálsdóttir frá Verkalýðsfélagi Suðurlands, Halldóra S. Sveinsdóttir frá Bárunni stéttarfélagi, Kolbeinn Gunnarsson frá Verkalýðsfélaginu Hlíf og Ragnar Ólason frá Eflingu stéttarfélagi.

Til vara voru kjörnir fimm, Vilhjálmur Birgisson frá Verkalýðsfélagi Akraness er fyrsti varamaður, Anna Júlíusdóttir frá Einingu Iðju er annar varamaður, þriðji varamaður er Þórarinn Sverrisson frá Aldan stéttarfélag, fjórði varamaður er Linda Baldursdóttir frá Verkalýðsfélaginu Hlíf og fimmti varamaður er Guðmundur Finnbogason frá Samstöðu stéttarfélagi.

Skoðunarmenn reikninga eru þau Fanney Friðriksdóttir og Tryggvi Marteinsson, bæði frá Eflingu stéttarfélagi og til vara Magnús S. Magnússon frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis.

Sjálfkjörið var í öll embætti.

Þing SGS fór vel fram

Á nýloknu þingi Starfsgreinasambands Íslands voru samþykktar nokkrar ályktanir en 135 fulltrúar þeirra 19 aðildarfélaga sem eiga aðild að SGS sátu fundinn. Þar af voru fjórir fulltrúar frá Framsýn og einn frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar. Unnið var í nokkrum nefndum inni á þinginu en málefnanefndirnar voru tvær: Kjara- og atvinnumálanefnd og Húsnæðis- og velferðarnefnd. Samþykkt var fjárhagsáætlun fyrir næstu tvö árin og sömuleiðis starfsáætlun en í ljósi góðrar stöðu sambandsins var skatthlutfall aðildarfélaganna lækkað. Þá var sérstaklega fjallað um reglur varðandi félagsaðild og hugsanlega samræmingu reglna á milli sjúkrasjóða.

Þingið samþykkti svohljóðandi málefnaályktanir:

Ályktun um húsnæðis- og velferðarmál

Ályktun um fjölskylduvænna samfélag

Ályktun um kjara- og atvinnumál

Ályktun um lífeyrismál

Jóna kjörin í varastjórn LÍV

30. þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna var haldið á Akureyri 13. – 14. október sl. Rúmlega 80 fulltrúar aðildarfélaga LÍV hvaðanæva af landing sátu þingið sem haldið er annað hvert ár.

LÍV var stofnað 2. Júní 1957 og er því um sannkallað afmælisár að ræða. Þingið bar keim af afmælisári, brugðið var út af hefðbundinni dagskrá og þingfulltrúum boðið í menningarferð til Siglufjarðar þar sem þeir hlýddu á fyrirlestur um þá uppbyggingu sem orðið hefur á Siglufirði síðustu ár, heimsóttu Bátasafnið og höfðu síðan stutta viðdvöl í Kalda á Ársskógsströnd.

Á dagskrá þingsins voru m.a. húsnæðismál og kjaramál. Þar fluttu erindi BjörnTraustason framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags og Henný Hinz deildarstjóri hagdeildar ASÍ en hún fór yfir horfur í efnahags- og kjaramálum.

Til kosninga kom við kjör formanns. Endurkjörinn formaður er Guðbrandur Einarsson, Verslunarmannafélagi Suðurnesja. Með honum í stjórn eru;  Ragnar Þór Ingólfsson VR, Kristín María Björnsdóttir VR, Eiður Stefánsson, FVSA, Guðmundur Gils Einarsson VR, Svanhildur Þórsteinsdóttir VR og Hjörtur Geirmundsson Vfm. Skagafjarðar.

Fyrstu fjórir  varamenn eru: Ólafur Gunnarsson VR, Jóna Matthíasdóttir Framsýn, Bryndís Kjartansdóttir VS og  Bjarni Þór Sigurðsson VR

Þingfulltrúi Framsýnar var Jóna Matthíasdóttir formaður deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar.

Hún var kjörin sem 2. varamaður í stjórn LÍV og situr áfram í kjörnefnd til næstu 2ja ára. Einnig starfaði hún sem annar þingritari á þinginu.

Barist við vindmyllur

N4 Landsbyggðir er blað sem gefið er út einu sinni í mánuði og dreift inn á öll heimili utan höfuðborgarsvæðisins og til allra fyrirtækja landsins, að auki er blaðinu dreift í verslunum Samkaupa á höfðuborgarsvæðinu. Blaðið er prentað hjá Ísafoldarprentsmiðju. Ristjóri er Herdís Helgadóttir (herdis@n4.is). Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, skrifar í nýjasta blaðið sem kom út í vikunni. Hér má lesa greinina:

Flest okkar þekkja söguna af riddaranum hugumprúða Don Kíkóta sem barðist við vindmyllur, sem risar væru, og sá í kindahópum stórhættulega óvinaheri á hverju strái.

Sagan af þessari merku skáldsagnapersónu kemur oft upp í hugann í mínum störfum sem formaður í stéttarfélagi, ekki síst síðustu ár þegar mikill uppgangur hefur verið á Íslandi. Þingeyingar hafa ekki farið varhluta af þenslunni  þar sem töluverð uppbygging hefur átt sér stað vegna framkvæmda er tengjast væntanlegri starfsemi PCC á Bakka. Þá hefur ferðaþjónustan blásið út eins og enginn sé morgundagurinn. Fyrirtæki og verktakar hafa brugðist við ástandinu með því að flytja inn erlent vinnuafl í stórum stíl til að svara þörfum markaðarins.

Þrátt fyrir að því hafi verið haldið fram, ekki síst af stjórnmálamönnum, að við Íslendingar séum reynslunni ríkari eftir hrunið mikla 2007 er alveg ljóst að svo er ekki. Staðan í dag er því miður  í takt við stjórnmálaástandið, það ríkir ófremdarástand og stjórnleysi svo ekki sé talað um spillinguna sem viðgengst víða í stjórnkerfinu. Þá dettur ákveðnum þingmönnum frekar í hug í stjórnarkreppunni að tala um lögleiðingu kannabisefna en byggða- og atvinnumál, hvað þá stöðu bænda um þessar mundir.

Umgjörðin um vinnumarkaðinn sem verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir frá hruni hefur ekki gengið eftir þrátt fyrir fögur fyrirheit  stjórnmálamanna. Því miður hefur þeim ekki borið gæfa til þess að taka á þessum málum með það að markmiði að tryggja heilbrigt  samkeppnishæft atvinnulíf.

Verkalýðshreyfingin situr uppi með vandann en gerir sitt besta til að bregðast við krefjandi aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði. Það er eins og engum komi þessi mál við nema verkalýðshreyfingunni. Mörg stéttarfélög hafa ráðist i kostnaðarsamar aðgerðir s.s. með ráðningum á eftirlitsfulltrúum til að fylgjast með þeim mikla fjölda starfsmanna sem komið hefur til landsins í gegnum starfsmannaleigur og verktaka.

Markmiðið hefur ekki síst verið að tryggja kjör og aðbúnað starfsmanna. Því miður virðist sem stjórnvöldum og stofnunum ríkisins komi þetta ástand ekkert sérstaklega við. Ég nefni sérstaklega embætti Ríkisskattstjóra. Það er alveg ljóst að embættið þarf að vera miklu sýnilegra í vinnustaðaeftirliti aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og almenn úrræði þurfa að vera til staðar til að takast á við alvarleg brot á vinnumarkaði.

Framsýn, stéttarfélag fær reglulega hvatningu frá fyrirtækjum sem starfa eftir lögum og reglum um að taka á þeim aðilum sem sýna sig í að virða ekki settar reglur þar sem slíkt skekkir verulega samkeppnisstöðu fyrirtækja.  Á sama tíma og þetta gerist heyrist ekkert frá Samtökum atvinnulífsins í Borgartúni, þar er dregið fyrir alla glugga enda lítill sem enginn áhugi fyrir því að taka þátt í vinnustaðaeftirliti stéttarfélaganna og stuðla þannig að eðlilegu atvinnulífi.

Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessari stöðu, það eru alvarlegar brotalamir í kerfinu. Erlendir verktakar og starfsmannaleigur komast upp með að starfrækja starfsemi á Íslandi í ákveðinn tíma án þess að greiða skatta í ríkisjóð.  Þrátt fyrir að þessum aðilum beri   að greiða laun eftir íslenskum kjarasamningum er ekki gerð krafa um að þeir greiði laun starfsmanna inn á íslenska bankareikninga. Þetta gefur þeim færi á að svindla á starfsmönnum, það er að leggja fram löglega ráðningarsamninga á Íslandi og greiða svo ekki eftir þeim þar sem ekki er gerð krafa um að hægt sé að bera saman ráðningarsamninga og greiðslu launa inn á bankareikninga.

Þrátt fyrir að verkalýðshreyfingin hafi barist fyrir því að keðjuábyrgð verði lögleidd á Íslandi hafa þingmenn ekki sýnt sterkan vilja til að klára málið öllum til heilla nema þeim sem stunda óheiðarlega atvinnustarfsemi.  Reyndar hafði núverandi Félags- og jafnréttismálaráðherra boðað að hann ætlaði að taka þessi mál upp á Alþingi í vetur en þá skall á stjórnarkreppa, svo óvissan heldur áfram um ókomna tíð.

Já, mér líður eins og Don Kíkóta, baráttan við vindmyllurnar heldur áfram.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
Formaður Framsýnar, stéttarfélags

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skipulagsmál til umræðu hjá Þingiðn

Þingiðn stóð fyrir félagsfundi í gær um skipulagsmál. Mikil óánægja er með ákvörðun Félags málmiðnarmanna á Akureyri að gera félagssvæði Þingiðnar að sínu. Einn fundarmanna talaði um stríðsyfirlýsingu félagsins á Akureyri. Gestir fundarins voru Hilmar Harðarson formaður Samiðnar og Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdastjóri Samiðnar. Þrátt fyrir að boðað væri til fundarins á sama tíma og landsleikur Íslands og Kósóvó gáfu nokkrir sér tíma til að mæta á félagsfundinn um skipulagsmál. Eftir fjörugan fund var samþykkt að stjórn Þingiðnar fundi í næstu viku og ákveði framhald málsins og hvað félagið gerir í stöðunni varðandi félagssvæðið.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Veruleg óánægja er meðal félagsmanna Þingiðnar um ákvörðun Félags málmiðnarmanna á Akureyri að valta yfir félagssvæði Þingiðnar en félagið á Akureyri hefur stækkað félagssæðið yfir félagssvæði Þingiðnar. Að sjálfsögðu eru þetta stór undarleg vinnubrögð svo ekki sé meira sagt.

Jarmað á Raufarhöfn

Hrútadagurinn fór fram á Raufarhöfn á laugardaginn. Fjölmenni lagði leið sína á staðin til að taka þátt í Hrútadeginum og/eða til að taka þátt í annarri metnaðarfullri dagskrá sem staðið hefur yfir á Raufarhöfn undanfarna daga. Gestkvæmt var á Hótel Norðurljósum og á veitingastaðnum Kaupfélaginu sem er einnig gallerí. Báðir þessir staðir bjóða upp á gistingu og veitingar. Full ástæða er til að mæla með þessum stöðum enda metnaðarfullir eigendur sem reka þessa staði. Hér má sjá myndir sem teknar voru á Hrútadeginum:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Formaður Framsýnar var fenginn til að stjórna uppboðinu. Hér er hann ásamt Gunnari Björnssyni frá Sandfelli í Öxarfirði sem átti þann hrút sem vakti mestu athyglina. Hrúturinn fór á kr. 67.000 eftir að nokkrir bændur höfðu slegist um hann með yfirboðum en almennt er verið að selja hrúta á um kr. 30.000,-.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það var mikið þuklað og skoðað á Raufarhöfn á laugardaginn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Framsýn kom að því að styrkja hátíðina á Raufarhöfn sem fór vel fram í alla staði.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á síðasta ári opnaði nýr og áhugaverður veitingastaður á Raufarhöfn sem einnig er Gallerí. Þetta heiðursfólk ræður þar ríkjum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Einar fór fyrir sínu liði á Hótel Norðurljósum og bauð upp á hlaðborð á laugardagskvöldið. Uppselt var í hlaðborðið.

Velheppnaður vinnufundur Framsýnar á Raufarhöfn

Framsýn stóð fyrir vinnufundi á Raufarhöfn síðasta laugardag. Auk venjulegra fundarstarfa tóku fundarmenn þátt í Hrútadeginum, borðuðu á Hótel Norðurljósum auk þess að enda velheppnaðan vinnudag með skemmtun í Félagsheimilinu Hnitbjörgum þar sem Þórhallur Sigurðsson (Laddi fór á kostum). Gestir fundarins voru Silja Jóhannesdóttir starfsmaður Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og formenn Starfsmannafélags Húsavíkur og Þingiðnar, þau Helga Þuríður Árnadóttir og Jónas Kristjánsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Silja Jóhannesdóttir sagði frá verkefninu Raufarhöfn og framtíðin sem er eitt verkefna Brothætta byggða sem Byggðastofnun styrkir. Verkefnið fór af stað til fjögurra ára með ársviðbót en því líkur um áramótin.  Silja fór víða, frá fyrstu dögum m.a. tilurð þess og tilgang sem og samstarfi við íbúa sem, á íbúafundum sem haldnir voru í upphafi verkefnisins,  voru samþykkt 26 markmið til að vinna að. Tólf þeirra hafa náð sínu, ellefu eru enn í gangi og þrjú eru ekki hafin. Einnig sagði hún frá nokkrum verkefnum, þessum helstum; Rannsóknarstöðinni á Rifi, sem stóð m.a. að 50 manna ráðstefnu sumarið 2016. Markaðsstofa Norðurlands er að koma með áhrifavalda í samfélagsmiðlum á svæðið og hefur aukið komur sínar töluvert á síðustu tveimur árum miðað við áður. Blokkin  ( íbúðablokkin á Raufarhöfn) var seld á árinu og þegar er búið að gera upp 5 -6 íbúðir og nú á að klæða hana að utan. Hótel Norðurljós er  komið í hendur nýrra eigenda með góðum árangri.  Heimskautsgerðið er enn í vinnslu og kröftug stjórn þess heldur því í gangi og nú er verið að vinna að gerð bílastæðis og göngubrúar að svæðinu. Verkefnið fékk fjármagn til að útdeila styrkjum og m.a.  hafa þessi verkefni fengið styrk; Uppsetning sýningar í Stoð- og lýsishúsi. Skiltaverkefni , upplýsingaskilti um þorpið, og atriði eins og færa ruslagámana frá kirkjunni að síldarsvæðinu. Gönguleiðaappið wapp er að merkja gönguleiðir á svæðinu. Urðarbrunnur á Laugum er í samstarfi varðandi merkingu örnefna á svæðinu sem nýtist ferðaþjónustu og gestum svæðisins í náttúruskoðun.  Raufarhöfn sem valkostur í komu skemmtiferðaskipa og komu 2 skip hingað í sumar. Ásdís Thoroddsen týnir sveppalubba á sléttunni og hefur sett upp þurrkun og selur m.a. til veitingahúsa. Þá fögnuðu íbúar Raufarhafnar 50 ára afmæli félagsheimilisins Hnitbjargar í vikunni. Hún sagði einnig frá Öxarfjarðarverkefninu sem er sambærilegt, þar voru lögð fram 36 markmið, átta þeirra hefur verið náð, ellefu eru í vinnslu og hin ekki farin af stað. Enn eru tvö ár eftir af því verkefni. Áherslur framundan eru m.a. Dettifossvegur, ljósleiðari á árinu 2018 og hitaveita í Kelduhverfi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Formenn Starfsmannafélags Húsavíkur og Þingiðnar tóku þátt í vinnufundi Framsýnar á Raufarhöfn. Mjög gott samstarf hefur verið meðal félaganna um samstarf í gegnum tíðina, meðal annar reka þau saman skrifstofu á Húsavík.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir fundinn tóku fundarmenn þátt í hrútadeginum. Hér er Guðný Gríms sem situr í trúnaðarráði Framsýnar að skoða fallega hrúta með bændum á svæðinu.