Guðrún fagnar 100 ára afmæli á aldarafmæli Vonar

Heiðurskonan Guðrún Glúmsdóttir húsfreyja á Hólum í Reykjadal varð 100 ára þann 25. apríl síðastliðinn og fagnaði þeim merka áfanga heima hjá syni sínum  og tengdadóttur á Hólum 2 í faðmi fjölskyldunnar. Guðrún fæddist í Vallakoti í Reykjadal 25. apríl fullveldisárið 1918. Eiginmaður Guðrúnar var Haraldur Jakobsson bóndi í Hólum, en hann lést árið 1996. Þau eignuðust þrjá syni og eina dóttur, sem lést barnung.

Guðrún er enn að, býr heima að Hólum ásamt tveimur sonum sínum og sinnir léttari heimilisstörfum. Hún er við ágæta heilsu, en hefur farið nokkrum sinnum í hvíldarinnlagnir á sjúkahúsið á Húsavík. Guðrún sem  ávallt hefur verið mjög félagslynd starfaði lengi í Kvenfélagi Reykdæla og söng í kórum. Hún hafði sérlega gaman af að ferðast.

Guðný Grímsdóttir nágrannakona Guðnýjar starfar í trúnaðarráði Framsýnar. Hún færði afmælisbarninu ljóðabók á dögunum fyrir hönd félagsins, en bókin hefur að geyma valin ljóð eftir baráttukonuna og skáldið Björgu Pétursdóttur sem var ein þeirra kvenna sem hafði frumkvæði að því að stofna verkakvennafélagið Von á Húsavik, en það var stofnað á fæðingarári Guðrúnar, þann 28. apríl 1918. Framsýn gefur ljóðabókina út í tilefni þeirra tímamóta.

 

Deila á