Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar flutti áhvarp á afmælisfagnaði Vonar á laugardaginn.

Úti er hríðarhraglandi. Ungur drengur hleypur eftir þorpsgötunni, fer hús úr húsi með lítinn bréfmiða sem hann skýlir undir peysunni sinni  til að verja hann bleytu. Bréfið atarna geymir fundarboð, en móðir hans ásamt nokkrum öðrum konum í þorpinu ætla að hafa framgöngu í því að stofna baráttusamtök fyrir kynsystur sínar úr verkalýðsstétt. Það er kalt, drengurinn er fátækur og illa búinn og honum er ekki allsstaðar vel tekið. Sumsstaðar er skellt á hann hurðum, nokkuð harkalega, annarsstaðar er honum boðið inn í hlýjuna.

Við erum stödd á Húsavík vorið 1918.

Stofnendur Vonar komu úr lægri stéttum samfélagsins, flestar fátækar verkakonur sem  höfðu einungis aflað sér menntunar í lífsins skóla. Það var einmitt sá skóli, ásamt nýjum straumum utan úr heimi er boðuðu frelsi, jafnrétti og bræðralag, sem grófu undan fastmótuðum hugmyndum gamla bændasamfélagsins um það hvernig konur ættu að haga hugsun sinni og gjörðum. Það kom enda í ljós strax á  stofnfundinum hvað þörfin fyrir slíkan félagsskap var mikil, konum brann margt í sinni og hvert málið rak annað. Það lá eitthvað í loftinu eins og nafn félagsins gefur til kynna, Von, örlítill vonarneisti um að konur gætu hugsanlega bætt stöðu sína og vinna þeirra og þær sjálfar yrðu metnar að verðleikum. En þær óttuðust einnig mannorðsmissi settu þær sig upp á móti atvinnurekandanum. Gerðu þær það, hvað yrði þá um vistina í himnaríki? Atvinnurekandinn var á stalli með Guði. Þær óttuðust atvinnuleysið, hugurvofuna, því brygðist lífsbjörgin gat það þýtt upplausn fjölskyldunnar. En þær skynjuðu einnig rétt sinn og mátt.

Litli drengurinn sem ég gat hér um í upphafi hét Ásgeir Kristjánsson og var sonur Þuríðar Björnsdóttur fyrsta formanns verkakvennafélagsins. Ásgeir hafði þar sín fyrstu, en ekki síðustu afskipti af verkalýðsmálum og átti síðar á ævinni eftir að verða formaður Verkamannafélags Húsavíkur.

Nánast þriðjungur kvennanna á stofnfundi Vonar voru einnig félagar í Kvenfélagi Húsavíkur. Kvenfélagskonurnar völdust til starfa í fyrstu stjórnir og flestar aðrar trúnaðarstöður innan félagsins fyrsta starfsárið, því þær höfðu reynslu af félagsmálum og voru fundavanar.

Stofnar Vonar voru  því vaxnir upp af tveimur rótum, annarsvegar rót verkalýðshreyfingarinnr og hinsvegar rót kvenfélagahreyfingarinnar.

Það segir kannski einhverja sögu um tíðarandann og stéttaskiptinguna á þessum tíma að þær kvenfélagskonur sem völdust til trúnaðarstarfa í hinu nýja félagi verkakvenna voru ekki í framvarðasveit kvenfélagsins. Þar réðu „frúrnar“, þ.e. eiginkonur kaupmanna og helstu embættismanna í þorpinu.

Hugmyndafræðin sem spratt upp af rótum félaganna tveggja fléttaðist einkar vel saman. Kröftugur verkalýðsarmurinn barðist gegn kúgun og óréttlæti, en kvenfélagsarmurinn tók á  „mýkri málum“ sem að öllu jafnaði töldust kvenfélagsmál. Bæði félögin voru aðilar að Kvenfélagasambandi S -Þing og Von var einnig aðili að Kvenréttindafélagi Íslands. Þegar félagið var stofnað höfðu einungis fjögur önnur verkakvennafélög verið stofnuð á landinu og ekkert sem sagði til um  hvernig slíkt félag skyldi starfa. Kannski voru þær „amatörar“ í hagsmunabaráttu verkakvenna til að byrja með en þær lærðu hver af annari og fyrstu árin tók starfið því mið af þeim veruleika sem þær þekktu og bjuggu við.  Því mótaðist starf félagsins fyrsta kastið ekki einungis af baráttu um krónur og aura, heldur var félagið allt í senn verkalýðsfélag, kvenfélag, bindindsfélag og  líknarfélag.

Á þessum tíma voru störf verkakvenna gjarnan tengd fiskveiðum og oftast voru þau árstíðabundin. Margar kvennanna störfuðu við saltfiskverkun, bæði við fiskbreiðslu og fiskþvott. Aðbúnaður við fiskvaskið var hörmulegur og margar konur biðu þar varanlegt heilsutjón sökum kulda og vosbúðar. Ef frost var úti var  aðkoman  í fiskhúsum oft sú að til að geta hafið vinnu á morgnanna þurftu þær að byrja á því að brjóta klaka sem sest hafði í þvottakörin um nætur. Vinnufatnaðurinn var strigapils og sumar bjuggu svo vel að eiga olíusvuntur, en gúmmístígvélin voru þá rétt að nema land á Íslandi.

Vonarkonur gátu verið ansi harðar í horn að taka, enda þurftu þær að hafa fyrir sínu. Laun kvenna voru 60% af launum karla, jafnvel minna. Karlarnir litu á konur sem skjólstæðinga verkalýðshreyfingarinnar fremur en þær ættu þar einhvern þegnrétt og því áttu þær ekki stuðning Verkamannafélagsins vísan í deilunum við atvinnurekendur. Fyrir kom að konurnar þyrftu að grípa til verkfallsvopnsins til að hafa sitt fram og varð þá víst stundum mikill hávaði í herbúðum atvinnurekanda, mátti þá sjá kaupmannsfrúrnar sjálfar bograndi yfir fiskinum á stakkstæðinu.

Við lestur fundargerðabóka Vonar frá fyrstu starfsárum félagsins fær maður  innsýn í heim sem virðist víðs fjarri og verkalýðsbaráttan var í raun sjálf lífsbaráttan. Skynjar heim þar sem skortur og fátækt var ekki hugtak heldur blákaldur veruleiki, en fátækt virðist hafa verið mjög mikil í þorpinu á fyrstu starfsárum félagsins.

Auður félagsins fólst ekki í digrum sjóðum þess, heldur í samstöðu kvennanna og hluttekningu sem liggur eins og rauður þráður gegnum færslur bókanna. Þegar veikindi voru á heimilum skiptust konur á að létta undir  bagga, þvoðu þvotta, hreingerðu og fóru í sendiferðir. Oft var efnt til samskota á fundum til að greiða fyrir hjúkrun, eða kaupa mjólk handa bjargarlausu heimili. Félagskonur létu sig varða erfiðleika sérhvers sem lítils mátti sín og voru ætíð trúar þeim gildum sem setja mannkærleikann í efsta sæti.

Sjúkrasjóður félagsins var jafnan elfdur með ýmiskonar fjáröflun. Haldnar voru  hlutaveltur, selt kaffi á skemmtunum og konur héldu happdrætti svo eitthvað sé nefnt. Félagið fékk landsspildu leigða hjá hreppnum og þær stunduðu kartöflurækt. Kartöflurnar keyptu konurnar sjálfar, en peningarnir runnu í sjúkrasjóðinn.

Skortur var á öllum nauðsynjavörum fyrstu áratugina sem verkakvennafélagið  starfaði, svo að við tölum nú ekki um skort á munaðarvörurum, eins og t.d. kaffi. Þegar Von hafði starfað í fjögur ár, er þess getið í fundargerð að konur hafi  leyft sér þann munað í fyrsta sinn að drekka kaffi í boði félagsins á slíkri samkomu. Þá var mikið við haft og nokkrum gömlum konum í þorpinu boðið að koma og þiggja kaffitár og meðlæti. Það er hægt að gera sér í hugarlund hvað sú samkoma hefur verið fátækum, vinnulúnum verkakonum mikil hátíð. Fundaritari, sem var Björg Pétursdóttir, skrifar orðrétt:“ Þá var fundarhlé og voru þá boðsgestir farnir að koma og kaffinefnd tekin til starfa. Voru þá borð framreidd og bornar inn veitingar. … síðan var sest að kaffidrykkju og var innileg glaðværð um hönd höfð“.

Er verkakvennafélögum á landinu fjölgaði urðu starfshættir Vonar fastmótaðri og hugmyndafræðin féll þá meir að hinni eiginlegu verkalýðsbaráttu. Félagið lá að vísu í öldudal í nokkur ár hvað kjaramálin snerti, en sinnti kvenfélagsþættinum hinsvegar af miklum krafti. Sérstök kvenréttindanefnd var starfandi innan félagsins um tíma, hannyrða- og heimilisfræðinámskeið  voru haldin og félagið studdi auk þess ötullega við byggingu Húsmæðraskólans á Laugum.

Þegar hafin var síldarsöltun á Húsavík upp úr 1935 vaknaði verkalýðsarmurinn af dvalanum og við lok fjórða áratugarins hafði félagið tekið algjörum stakkaskiptum. Vöxtur verkakvennafélagsins stóð fram eftir fimmta áratugnum  og hélst það í hendur við  aukna fjölbreytni í atvinnulífinu, en félagskonum fjölgaði úr 70 í 150 á árum milli 1940 og 1950. Helst var það  hafnargerðin og þær framkvæmdir er tengdust henni sem var mikil lyftistöng fyrir atvinnu kvenna og tilkoma hraðfrystihússins hafði þar einnig mikið að segja.

Frá því fyrsta var Vonarkonum afar hugleikið að þróa einhverskonar samband við verkamannafélagið. Þær vildu samvinnu við karlana um ýmis mál er tengdust verkalýðsbaráttu, en strax í lok fyrsta starfsársins sendu þær stjórn verkamannafélagsins erindi þar sem þær létu í  ljós óskir um samstarf félaganna „ í öllum opinberum málum er tilheyra þorpinu“. Þær áttuðu sig á mikilvægi þess að félögin sameinuðust um að koma manni að í hreppsnefnd. Tóku þær oftar en ekki af skarið, fundu heppilega kandidata í framboð og hvöttu karlana síðan óspart til dáða.

Um 1960 fór ASÍ að beita áhrifum sínum til þess að sameina verkalýðsfélög karla og kvenna hverjum stað. Verkakvennafélagið Von var gagnrýnið á þessi viðhorf og kom jafnvel til tals að Von yrði deild innan verkamannafélagsins. Eftir miklar  vangaveltur  var tekin sú ákvörðun að verkakvennafélgið Von yrði lagt niður og gengið yrði til samstarfs við Verkamannafélag Húsavíkur. Það var árið 1964 og voru það um 120 konur sem gengu inn í hin nýju samtök sem hlutu heitið: Verkalýðsfélag Húsavíkur. Þá voru taxtar verkakvenna á Húsavík með þeim hæstu á landinu, eða um 90% af launum karla. Og áfram fléttaði sagan þingeyska verkalýðsbaráttu er fleiri félög í sýslunni, Verkalýðsfélag Öxarfjarðar, Verkalýðsfélag Raufarhafnar og Veslunarmannafélag Húsavíkur bættust í hópinn. Í dag spannar hún baráttu verkafólks vítt og breitt um Þingeyjarsýslur og félagið ber nafnið Framsýn stéttarfélag.

Saga húsvískra verkakvenna er saga um lífsbaráttu hins liðna, hún er saga íslenskra alþýðukvenna fram yfir miðja síðustu öld. Saga um djörfung og dug, hún er saga stéttvísi, mannúðar og samstöðu. Saga Vonar.

 

 

Deila á