Varaformaður Framsýnar Ósk Helgadóttir tók daginn snemma i dag, á baráttudegi verkalýðsins, en hún var ræðumaður á 1. maí baráttufundi hjá Stefnu félagi vinstri manna á Akureyri í morgun. Fundurinn var 20. fundur félagsins og á hann mættu rúmlega 50 manns, sem er mjög góð þátttaka. Auk Óskar flutti Ólafur Þ. Jónsson ávarp og dagskráin samanstóð auk þess af tónlistaratriðum og ljóðalestri.
Ósk mætti til fundarins íklædd islenskum peysufötum til heiðurs húsvískum verkakonum sem stofnuðu með sér baráttusamtök fyrir 100 árum og nefndu það verkakvennafélagið Von. Ósk fjallaði í upphafi ræðunnar um þá von kvennanna um að byggja upp betra samfélag þar sem störf þeirra yrðu metin að verðleikum og börn þeirra ættu sér annað hlutskipti en fjötra fátæktar. Innihald ræðu Óskar var í raun verkalýðsbarátta í fortíð og nútíð, þar sem sami grautur í sömu skál virðist ætlað hlutskipi stórs hóps verkamanna og láglaunafólks í landinu, þó á öðrum vígstöðvum sé en fyrir 100 árum.
Eftir ræðu Óskar risu fundargestir risu úr sætum og klöppuðu fyrir samstilltu átaki þeirra fjögurra verkalýðsfelaga, Framsýn, VLFA, Eflingu og VR, sem hafa myndað með sér bandalag og kalla nú eftir öflugri verkalýðsbaráttu. Sendi fundurinn félögunum fjórum hugheilar baráttukveðjur og þakkir fyrir að vekja von í brjósti íslenskrar alþýðu.
Hér má lesa ræðu Óskar á fundi Stefnu:
Ágætu tilheyrendur.
Ég vil byrja á því að þakka fyrir ykkar góða boð um að fá að vera hér í dag. Ég ber ykkur kveðju félaga minna austan Vaðlaheiðar, sem í dag á baráttudegi verkalýðsins koma saman líkt og alþýða manna um heim allan til að minna á nauðsyn samstöðu og þátttöku í starfi stéttarfélaga, blása í lúðra og brýna vopn sín. Um þessar mundir minnist þingeyskt verkafólk þess einnig að 100 áru eru liðin síðan húsvískar alþýðukonur stofnuðu verkakvennafélag sem þær nefndu Von. Og fyrst af öllu langar mig að segja ykkur aðeins frá því.
Eins og þið vitið var staða kvenna nokkuð önnur þá en í dag og innan verkalýðshreyfingarinnar, sem þá var enn „karlaklúbbur“ var litið á konur sem skjólstæðinga fremur en þegna hreyfingarinnar. Það hafði lengi legið ljóst fyrir hvernig konur skyldu haga hugsun sinni og síst af öllu áttu þær að hafa sig í frammi. Því hafa þessar konur verið kjarkmiklar og í raun hafa þær boðið “heiminum byrginn“ með stofnun slíks félags. Laun kvenna á þessum tíma voru um 60% af launum karla sem voru þó sannarlega ekki ofhaldnir af sínum launum. Kannski voru það fyrstu „geislar maísólar“ alþýðufólks sem kváðu á um frelsi, jafnrétti og bræðralag, sem vöktu von í brjósti kvennanna, von um bætt kjör og virðingu fyrir störfum þeirra, sem atti þeim út í stofnun slíks félags. Og þær hafa jafnvel alið þá veiku von í brjósti að geta fætt börn sín og klætt, að þau ættu sér framtíð án fjötra fátæktar.
Þegar verkakonur á Húsavík stofnuðu sín baráttusamtök, voru einungis fjögur önnur slík félög starfandi á landinu og engar reglur mótaðar um hvernig slíkt félag skyldi starfa. Vonarkonur voru því hálfgerðir „amatörar“ í verkalýðsbaráttunni til að byrja með, en þær lærðu hver af annari og starf félagsins fyrstu árin mótaðist ósköp einfaldlega af þeim veruleika sem þær bjuggu við. Því snerist starf verkakvennafélagsins fyrstu árin ekki eingöngu um krónur og aura, heldur var félagið allt í senn, verkalýðsfélag, kvenfélag,bindindisfélag og líknarfélag. Velferðarþjónusta var enn í boði stórfjölskyldunnar og samfélagsins alls og þar gengdu konur lykilhlutverki.
Við erum að tala um tíma þar sem skortur var ekki hugtak, heldur bláköld staðreynd og verkalýðsbaráttan var í raun sjálf lífsbaráttan. Það blésu naprir vindar um fátækt fólk sem stritaði langan vinnudag til að eiga í sig og á. Kaupmaðurinn sem var í flestum tilfellum einnig atvinnurekandinn, hafði afkomu fjölskyldunnar í hendi sér. Hann ákvað hver launin skyldu vera, engir peningar voru hafðir um hönd, engar vinnunótur og launin gengu upp í reikning í versluninni, sem oftast stóð illa. Alþýðufólk stóð höllum fæti í þeim viðskiptum og var vel meðvitað um að því var ekki ætlað að hafa skoðanir á sínum launakjörum.
Auður verkakvennanna í Von fólst ekki í digrum sjóðum félagsins, heldur fólst hann í samhyggð og hluttekningu kvennanna sem í því voru. Fólst í samtakamætti, þær vissu að sá sem á undir högg að sækja verður sjálfur að sækja fram, því þar liggur slagkrafturinn í baráttunni. Vonarkonur voru stéttvísar og þóttu harðar í horn að taka. Fyrir kom að þær brýndu vopn sín, gat þá verkfallsvopnið bitið hressilega og á slíkum stundum mátti sjá fínar frúr kaupmannana bograndi kófsveittar yfir fiskinum á stakkstæðunum.
Helstu baráttumál Jóns og Gunnu – verkalýðsins fyrir 100 árum voru að hækka kaup, stytta vinnutíma og efla réttindastöðu hins vinnandi manns. Sú barátta, sókn og sigrar alþýðufólks fyrir bættum kjörum og vinnuaðstæðum, samstaða og eilíft atvinuþref elfdu réttindastöðu vinnandi fólks og hafa í gegnum árin minnkað launabilið milli kynja. Skilað þegnum þjóðfélagsins auknu öryggi og velferð, ekki aðeins hinum vinnandi stéttum.
Konurnar í Von og aðrir frumkvöðlar verkalýðshreyfingarinnar eru hluti af djúpri fortíð og lífi sem er í hugum yngri kynslóða löngu horfið. Almenn velferð og velmegun ásamt alþjóðavæðingu hefur höggvið stór skörð í samstöðu vinnuaflsins síðasta áratuginn og það orðið misleitara og sérhæfðara. Verðmætasköpun þekkingarþjóðfélagsins svokallaða byggir ekki lengur eingöngu á vinnuaflsfrekum frumframleiðslugreinum líkt og forðum, heldur á vel menntuðu og skapandi fólki. Við horfum til kynslóðar sem finnst verkalýðsbarátta ekki koma sér við, hefur aldrei heyrt talað um Gúttóslaginn, Vökulögin, Guðmund Jaka., eða Aðalheiði Bjarnfreðs. Það er því verk að vinna fyrir hreyfingu verkalýðsins, sem alltaf á að vera á tánum og sækja fram, hún verður nú einnig að vera meðvituð um að byltingin getur étið börnin sín. Við þurfum að rétta kyndilinn áfram, fá ungt fólk til að rugga með okkur bátnum, þurfum þeirra hjálp við að viðhalda ferskleika hreyfingarinnar og aðlaga okkur að breyttum heimi.
Sá breytti heimur gerir það að verkum að við þurfum að verjast, því æ sjaldnar snýst umræðan um öryggi verkalýðs – Jóns og Gunnu, um þeirra kjör eða réttindi, heldur snýst hún um niðurskurð, sparnað, hagræðingu og hámarksárangur fyrirtækja. Jón og Gunna eru aftur og enn föst í viðjum fátæktar, ofurseld atvinnurekandanum rétt eins og konurnar í stakkstæðunum forðum, eru jafnvel ekki lengur hluti af starfsmannahópnum, heldur tilheyrandi starfsmannaleigu. Líf þeirra snýst enn um að hafa í sig og á, borga af húsnæðinu sem þau munu aldrei ná eignast og reyna að jafna skuldina við Valitor um komandi mánaðarmót. Eina sem þau vita er að launahækkanir þeirra verða að mestu teknar til baka í gegnum skattahækkanir og skerðingu bóta.
En á sama tíma berast fréttir af launum sem greidd eru forstjórum sömu fyrirtækja, launum sem eru langt út úr korti við skynjun alls venjulegs fólks á eðlilegum launagreiðslum. Jafnvel eru það fyrirtæki sem eru í eigu lífeyrisjóða launafólks í landinu og hafa það eitt hlutverk að þjóna almenningi – Jóni og Gunnu. Finnst okkur það virkilega í lagi að forstjórar slíkra fyrirtækja fái greidda ofurbónusa sem byggðir eru upp á færri höndum sem vinna æ hraðar, starfsmanna á plani? Höndum Jóns og Gunnu sem áfram kyssa á vöndinn, útslitin um aldur fram. Þau eiga að vita rétt eins og feður þeirra og mæður, afar þeirra og ömmur að það eru hendurnar sem skapa auðinn, sem bera ábyrgð á vexti og viðgangi velferðarkerfisins, á velferð og stöðugleika. Hækki launin þeirra – mun þjóðarskútan sökkva – aftur.
Það blása hressandi vindar um íslenska verkalýðshreyfingu þetta vorið og nýtt fólk með ríka réttlætiskennd hefur stigið fram á sviðið. Alþýðufólk sem talar mál sem fólk skilur, það talar um auðvald, um arðrán og firringu. Nýjir formenn tveggja stærstu verkalýðsfélaga landsins VR og Efingar finna samhljóm innan hreyfingarinnar með formönnum Framsýnar og Verkalýðsfélags Akraness, sem áður höfðu 3% vægi innan ASÍ. Saman hafa þessi fjögur félög myndað með sér bandalag og hafa nú 53 % vægi innan sambandsins, það þýðir að félög sem hafa verið með aðrar áherslur í ýmsum málum hafa náð meirihluta innan ASÍ. Þau félög kalla eftir kerfisbreytingum, þau kalla eftir umræðu um málefni lífeyrissjóðanna, um verðtrygginguna, þau vilja harðari verkalýðsbaráttu og breytingar á forystusveit Alþýðusambands Íslands. Það liggur líka fyrir að aðkoma stjórnvalda að komandi kjarasamningum verður að vera umtalsverð eins og t.d. að létta skattbyrði á milli- og tekjulægstu hópunum í íslensku samfélagi.
Styrkur verkalýðshreyfingarinnar liggur sem fyrr, fyrst og fremst í hollustu félagsmanna og samstöðu þeirra, í öflugu baklandi grasrótarinnar sem krefst þess að verkalýðsfélögin standi í lappirnar. Það ætti að vera öllum ljóst að ábyrgðartal auðvaldsins um verðbólgu og stöðugleika fellur um sjálft sig þegar fólk þarf virkilega að ná endum saman á innan við 300. 000 kr. mánaðarlaunum. Fólk á lægstu laununum, aldraðir og öryrkjar upplifa áfram óstöðugleikann sem fylgir því að lifa á launum sem eru undir fátæktarmörkum. Eykur enn á þá tilfinningu þessara hópa að þeir hafi verið skildir eftir og þeir sem fleyttu rjómann fyrir hrun fái að gera það áfram.
Góðir félagar. Það býr ein þjóð í þessu landi.
Á fjöllum fer hópurinn aldrei hraðar en síðasti maður, við erum eining, erum öll hluti af hópnum. Hvetjum félaga okkar, hlúum að sárum, hjálpum hvert öðru og látum okkur varða hvernig aðrir hafa það. Ég vil leyfa mér að nota þá samlíkingu við íslenskt samfélag.Við erum öll hluti af samfélaginu og það getur aldrei orðið betur statt en sá sem hefur það verst. En á meðan við kóum öll með mun ekkert breytast. Við berum ábyrgð á okkur sjálfum sem einstaklingar, en berum einnig ábyrgð á öðru fólki og því að allir geti lifað í þessu landi á sómasamlegan máta.
Það er ljóst að almennt launafólk á Íslandi er ekki tilbúið að taka þátt í launastefnu sem byggir á ákvörðunum sem eru ekki í neinu samræmi við þær ákvarðanir sem síðan eru teknar fyrir lítinn, en sérvaldan hluta þjóðarinnar. Eftir síðasta útspil Kjararáðs á taktlausum launahækkunum til handa æðstu embættismönnum ríkisins korter eftir undirskrift síðustu kjarasamninga, getum við sagt með sanni að þar hafi Kjararáð „skitið upp á bak“. Sú aðgerð er ekkert annað en móðgun við fólkið í landinu og full ástæða fyrir okkur, fyrir verkalýðs – Jón og Gunnu að huga að vopnum okkar, það erum við sem getum slökkt á samfélaginu. Vopnið er okkar, samtakamáttur hins vinnandi manns.
Lifi frelsi, lifi jafnrétti, lifi bræðralag