Þennan dag, 28. apríl árið 1918 var Verkakvennafélagið Von stofnað á Húsavík og er því orðið 100 ára. Framsýn, stéttarfélag stóð af þessu tilefni fyrir glæsilegum afmælisfagnaði í dag í Menningarmiðstöð Þingeyinga klukkan 14:00.
Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar opnaði hátíðina með stuttu ávarpi og stýrði síðan dagskránni eins og honum einum er lagið.
Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar, flutti magnað ávarp þar sem hún fór yfir aðdragandann að stofnun Vonar og rakti sögu félagsins. Björg Pétursdóttir var ein af stofnendum Vonar og það var því vel til fundið að í dag kom út bók með ljóðum eftir hana. Sérstakur gestur hátíðarinnar, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fékk afhent fyrsta eintakið og flutti hún stutt ávarp við það tækifæri.
Langa langa langömmubarn Bjargar, hún Klara Hrund Baldursdóttir steig í pontu og flutti ljóð eftir formóður sína af miklu listfengi. Afi Klöru, Birgir Þór Þórðarsson ávarpaði samkomuna fyrir hönd afkomenda Bjargar sem stóðu að útgáfu bókarinnar.
Kvennakór Húsavíkur undir stjórn Hólmfríðar Benediktssdóttur bauð upp á tónlistaratriði við undirleik Steinunnar Halldórsdóttur. Hjónakornin Lára Sóley Jóhannsdóttir og Hjalti Jónsson luku dagskránni með nokkrum hressandi lögum. Að dagskrá lokinni var opnuð ljósmyndasýning með myndum af konum við störf á tímum Verkakvennafélagsins Vonar. Og að sjálfsögðu var boðið upp á kaffi og með því.
Framsýn notaði tilefnið til að gefa nokkrar góðar gjafir eins og venja er í afmælum. Stéttarfélagið færði Kvennfélagasambandi S-Þingeyinga 150 eintök af ljóðabók Bjargar og afkomendum hennar fengur 100 eintök að gjöf. Þá gaf Framsýn, Menningarmiðstöð Þingeyinga hljóðkerfi að verðmæti 200 þúsund og nokkur eintök af bókinni fyrir bókasöfnin í sýslunni. Það var Sif Jóhannesdóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvarinnar sem veitti gjöfinni viðtöku.
Þá gafst gestum sem voru á á þriðja hundrað einng færi á því að eignast bók en fólk hafði fólk orð á því að vel hafi tekist til og þessum tímamótum hafi verið minnst á fallegan og viðeigandi hátt. /epe