Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir og aðrir gestir, verið velkomin á þessa afmælishátíð sem haldin er til heiðurs þeim konum sem stofnuðu Verkakvennafélagið Von, 28. apríl 1918. Dagurinn markar ákveðin tímamót í sögu verkalýðsbaráttu í Þingeyjarsýslum. Þennan dag fyrir 100 árum komu 46 konur saman til að stofna verkalýðsfélag fyrir konur sem flestar áttu það sameiginlegt að vera fátækar, með litla formlega menntun og reynslulitlar til félagslegra átaka. Félagsleg staða kvenna var nokkuð önnur þá en í dag, enda mættu konur þess tíma víða skilningsleysi og hleypidómum hjá samtíðafólki sínu. Áður höfðu karlar á Húsavík stofnað með sér verkamannafélag. Framsýn stéttarfélag ætlar að minnast þessara tímamóta með útgáfu á afmælisblaði, ljóðabók og opnun á ljósmyndasýningu af konum við störf. Það er ánægjulegt til þess að vita að þrátt fyrir miklar annir er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mætt til Húsavíkur til að gleðjast með okkur. Í tilefni af því mun hún flytja ávarp, ásamt varaformanni Framsýnar, Ósk Helgadóttur sem jafnframt er formaður afmælisnefndar félagsins. Þá mun ung stúlka, Klara Hrund Baldursdóttir, flytja ljóð eftir formóður sína Björgu Pétursdóttur. Að sjálfsögðu munum við brjóta upp samkomuna með tónlistaratriðum m.a. með kvennakór, sem er vel við hæfi enda starfræktu konur innan Vonar kvennakór á sínum tíma, sem var hluti af þeirra göfuga starfi. Eins og fram hefur komið töldum við hjá Framsýn við hæfi að minnast þessara merku tímamóta með samkomu, opnun á ljósmyndasýningu og útgáfu á ljóðabók með ljóðum eftir kvenskörunginn Björgu Pétursdóttur sem fór fyrir stofnun Verkakvennafélagsins á sínum tíma. Það gerði hún þrátt fyrir að heimilisaðstæður hennar væru þannig að þær heimtuðu hana óskipta. Hún fann þó að slíku málefni var ekki sæmandi að stinga undir stól, þörfin var brýn og markmiðið göfugt. Viðhorfið til framkvæmda var hins vegar ískyggilega fast sveipað vanavéum afturhaldsins. Það þurfti kjarkaða einstaklinga til að stíga fram á þessum tíma með það að markmiði að hvetja kynsystur sínar til að rísa upp gegn óréttlæti og misskiptingu. Virðing fyrir störfum kvenna var lítil á þessum tíma, enda kjörorðin „frelsi, jafnrétti og bræðralag“ enn bundin kjarabaráttu karla. Björg var fædd á Birningsstöðum í Laxárdal 1875, dóttir hjónanna Péturs Kristjánssonar frá Stóru-Reykjum í Reykjahreppi og Friðbjargar Þorsteindóttur frá Hafralækjargerði í Nessókn. Björg fluttist ásamt foreldrum sínum 11 ára gömul til Húsavíkur og bjó þar til æfiloka. Þegar hún var 24 ára gömul giftist hún Þórði Markússyni. Snemma varð ljóst að hugur Bjargar hneigðist til kveðskapar. Ljóð hennar lýsa sterkri ættjarðarást, virðingu fyrir náttúrunni og því sem lifir. Erfið lífsreynsla markaði Björgu til lífstíðar, hún orti um látna ástvini þar sem sorgin flæðir í gegnum ljóðin. Þess má geta að Björg lifði sex af níu börnum sínum. Sorgin var fylgikona Bjargar. fundargerðarbókum Vonar má sjá að Björg var fengin til að flytja eigin ljóð á fundum í félaginu. Ljóðum sem hefur verið safnað saman og prýða ljóðabókina „Tvennir tímar“ með tilvísun í eitt ljóða hennar. Framsýn stendur að útgáfunni ásamt afkomendum Bjargar sem söfnuðu saman ljóðum til birtingar eftir formóður sína. Samstarfið við afkomendur hefur gengið afar vel og fyrir það ber að þakka. Sérstaklega þeim Birgi Þór Þórðarsyni og Björgu Ragúels. Einnig ber að þakka starfsmönnum Ásprents á Akureyri sem sáu um setningu og prentun á bókinni fyrir þeirra framlag, sem og Jóhannesi Sigurjónssyni fyrir yfirlestur og ráðgjöf. Bókin er öll hin glæsilegasta og verður afhent hér formlega á eftir. Það er von okkar að lesendur bókarinnar eigi eftir að virða þetta sameiginlega framtak Framsýnar og afkomenda Bjargar Pétursdóttur og njóti kveðskapar þeirrar framsýnu konu sem markaði brautina í réttindabaráttu kvenna í héraðinu á erfiðum tímum. Ég skal fúslega viðurkenna að eftir að hafa kynnt mér sögu þessarar merkilegu konu er ég þeirrar skoðunar að hún sé með merkilegri konum, ef ekki sú merkilegasta sem hér hefur búið. Hún átti sér draum og steig fram líkt og Martin Luther King Jr. sem barðist fyrir réttindum blökkumanna. Draumur Bjargar miðaðist við að gera samfélag kvenna sterkara og sanngjarnara til jafns við stöðu karlmanna. Hún var hugsjónamanneskja líkt og Martin Luther King Jr, um það verður ekki deilt og verðskuldar að hennar sé minnst með viðeigandi hætti. Þegar samið var um lífeyrissjóðakerfið um 1970 þótti við hæfi að skýra lífeyrissjóð verkafólks í Þingeyjarsýslum í höfuðið á Björgu, það er Lsj, Björg. Þá hefur verið ákveðið að nefna nýjan fundarsal í húsi stéttarfélaganna á efri hæð Garðarsbrautar 26 í höfuðið á heimili Bjargar, en hún bjó um tíma í Þröskuldi á Húsavík. Afmælisnefnd Framsýnar sem skipuð er þeim Ósk Helgadóttur, Dómhildi Antonsdóttur og Sigurveigu Arnardóttur hafa ekki „bara“ komið að því að gefa út ljóðabók heldur hefur nefndin átt gott samstarf við starfsmenn Safnahússins á Húsavík, þau Sif Jóhannesdóttir og Snorra G. Sigurðsson um að taka saman gamlar ljósmyndir úr eigu Ljósmyndasafns Þingeyinga af konum við störf á starfstíma verkakvennafélagsins. Hinn eini sanni, Pétur Jónasson ljósmyndari á Húsavík, var fenginn til að vinna myndirnar sem sjá má hér á veggjum til hliðar ásamt ljósmyndum að formönnum Vonar á starfstíma félagsins. Myndirnar verða til sýnis hér í safnahúsinu næstu vikurnar áður en þeim verður komið endanlega fyrir í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26, efri hæð. Myndunum er ætlað segja sögu af starfsháttum og aðbúnaði verkakvenna fram yfir miðja 20. öld og falla flestar innan þess tíma er félagið starfaði. Smá texti er meðfylgjandi myndunum, það er hverjir eru á þeim eftir því sem best er vitað og áhugaverðar tilvitnanir úr sögu félagsins. Á gleðistundum sem þessum ber að þakka fyrir vel unnin störf. Sif, Snorri, Pétur og Ósk Helgadóttir hafið kærar þakkir fyrir ykkar framlag til verksins, það er að koma upp þessari ljósmyndasýningu sem mikill sómi er af. Það er ómetanlegt að hafa aðgengi að fólki eins og ykkur og gerir alla svona vinnu bæði áhugaverða og skemmtilega. Egill Páll Egilsson sem þessa dagana er að leggja lokahönd á afmælisblað sem tileinkað verður þessum tímamótum fær einnig kærar þakkir fyrir samstarfið þrátt fyrir að hafa ekki formlega lokið verkefninu. Blaðið kemur út í næsta mánuði. Að lokum vil ég svo þakka stjórn og trúnaðarráði Framsýnar fyrir ákvörðunina um að ráðast í þessi verkefni, það er að gefa út afmælisblað, ljóðabók og prentun á völdum ljósmyndum frá starfstíma Verkakvennafélagsins Vonar. Hafið kærar þakkir fyrir sem og afmælisnefnd félagsins sem er að skila góðu verki af sér hér í dag. Takk fyrir.