„Mætingin hér í dag á baráttudegi verkalýðsins sýnir okkur aftur og enn að Þingeyingar eru stéttvíst fólk og baráttuanda launafólks í sýslunni hvergi við brugðið.“

Varaformaður Framsýnar, Ósk Helgadóttir flutti ávarp á samkomu stéttarfélaganna á Húsavík í dag. Hér má lesa það.

Ágæta samkoma.

Mig langar að byrja á því að bjóða ykkur hjartanlega velkomin á 1. maí hátíðarhöld stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Dagurinn í dag er ekki bara minningarhátíð um horfna daga, hann er einnig bar­áttu­dagur og alþýða manna um heim allan kemur saman til að minna á nauðsyn samstöðu.

Ávarpið mitt er í söguformi og er tileinkað þeim skeleggu verkakonum  sem höfðu frumkvæði að því að stofna með sér baráttusamtök, hér á Húsavík fyrir 100 árum. Sagan bregður meðal annars ljósi á það tvöfalda hlutverk sem konur voru jafnan í á þeim tíma og svo langt fram eftir árum. Starf kvenna var annars vegar að hugsa um þarfir fjölskyldunnar, börnin og húshaldið og margar konur voru þar að auki í illa launaðri vinnu utan heimilis, sem oftast var erfiðisvinna. Konur voru þá með tæplega 60% af launum karla og  verkalýðshreyfingin var enn „karlaklúbbur“. Innan hennar var gjarnan litið á konur sem skjólstæðinga fremur en þegna hreyfingarinnar, karlar voru jú taldir fyrirvinnur heimilanna.

Við hefjum söguna hér á Húsavík, fullveldisvorið 1918. Nokkrar konur hafa  boðað til fundar í fundarsal þorpsins og tilefni hans er að stofna verkakvennafélag. Konurnar eru Björg Pétursdóttir, Helga Þorgrímsdóttir, Helga Þórarinsdóttir, Herdís Friðfinnsdóttir og þrjár aðrar konur sem ekki hafa verið nafngreindar.

Það er góð mæting á stofnfund verkakvennafélagsins sem haldinn er þann 28. apríl og ganga 46 konur í félagið á þessum fyrsta fundi. Þær eiga það sameiginlegt að vera flestar fátækar verkakonur og fæstar þeirra eru með reynslu af félagsstörfum. Það kemur strax í ljós á þessum fyrsta fundi  hvað þörfin fyrir félagsskap af þessu tagi er mikil og  hvert málið rekur annað. Miklar umræður verða um kauptaxtamál og kjörin er nefnd til að ganga til viðræðna við atvinnurekendur.

Þuríður Björnsdóttir er kjörin fyrsti formaður Vonar og með henni í stjórn eru kjörnar Guðrún Eggertsdóttir og Helga Þorgrímsdóttir.  Það er hugur í konum og   eitthvað liggur í loftinu eins og nafn félagsins gefur til kynna, en þær nefna félagið sitt „Von“.

Á upphafsárum Vonar virðist kaup verkakvenna á Húsavík hafa verið með því lægsta sem gerðist á landinu. Þær höfðu 30 aura fyrir unna klst., vinnudagur þeirra var 10 tímar,  matarhlé ein klst. og kaffið var svolgrað þar sem þær stóðu, þegar og ef það barst á vinnustað.

Starfsmenn á plani höfðu lítið um sín launakjör að segja fyrir 100 árum, launakröfur kvennanna hugnuðust heldur ekki atvinnurekendum og það gekk hægt að ná upp laununum. Það var svo árið 1922 að konunum ofbauð stjórnsemi atvinnurekenda og yfirgangur. Þeir lækkuðu þá kaupið án þess að tala við kóng eða prest og vinnunótur fengust ekki leiðréttar. Hitnaði þá konum í hamsi, þær brýndu – og beittu sínu beittasta vopni, verkfallsvopninu . En atvinnurekendur sem ekki höfðu talið stafa mikla stafa ógn af „nokkrum fiskkerlingum“  eins og þeir orðuðu það sjálfir, máttu éta það ofan í sig og draga kauplækkunina til baka og hafa kannski lært þar að vanmeta ekki þessa andstæðinga sína.

En áfram með söguna. Nokkrar kvennanna sem gengu í Von á stofnfundinum voru einnig félagar í Kvenfélagi Húsavíkur og völdust þær til starfa í fyrstu stjórnir og flestar aðrar trúnaðarstöður innan félagsins í byrjun, þar sem þær  höfðu nokkra reynslu af félagsmálum. Tíðarandi þess tíma  gerði það hins vegar að verkum það þær hinar sömu konur voru ekki í forystusveit kvenfélagsins. Það svæði var frátekið fyrir „frúrnar “, en það voru eiginkonur heldri manna þorpsins.

Verkakvennafélög á landinu höfðu ekki mótað sérstakar starfshefðir þegar Von hóf starfsemi, enda þá aðeins fjögur slík félög starfandi. Bæði verkakvennafélagið og kvenfélagið voru aðilar að Kvenfélagasambandi S -Þing og Von var einnig aðili að Kvenréttindafélagi Íslands og studdu félögin bæði ötullega við byggingu Húsmæðraskólans á Laugum. Hugmyndafræði kvennanna féll einkar vel saman og úr spunnust þræðir öflugrar kvennasamtaka, þar sem sögusviðið var  byggt á hugsjónum verkalýðshreyfingarinnar gegn kúgun og óréttlæti og „mýkri málum“ sem kvenfélagshreyfingin byggði starf sitt á. Starf félagsins fyrstu árin tók því einfaldlega mið af þeim veruleika sem konurnar þekktu og bjuggu við.

Þetta má sjá þegar flett er í gegnum fundargerðarbækur Vonar og ykkur til fróðleiks vitna ég hér i nokkrar færslur úr fundargerðum félagsins. Í fundargerð frá árinu 1919 segir að formaður félagsins hafi borið upp tillögu þess efnis að krafist yrði sérstaks kauptaxta fyrir fullorðnar konur, að yrði annar kauptaxti  gilti fyrir unglinga niður að fermingaraldri og að síðustu taxti fyrir börn allt niður að 10 ára aldri. Þó aðeins samþykkt að mál þetta væri unnið í sæmilegi sátt við atvinnurekendur sögðu konur, sem enn voru hikandi að styggja yfirvaldið sem hafði lífsafkomu þeirra í höndum sér.

Vonarkonur vildu samvinnu við karlana um ýmis mál er tengdust verkalýðsbaráttu. Taktur félaganna varð fljótt stiginn í hreppsnefndarsmálum, en óvænt tækifæri til að ná hreinum meirihluta gafst vorið 1921, er sæti losnaði í hreppsnefnd. Konurnar tóku af skarið og hvöttu karlana til dáða. Í fundargerð 22. maí það ár segir svo: Þuríður Björnsdóttir benti félaginu á að nú lægi fyrir að kjósa mann í hreppsnefnd í stað Steingríms sýslumanns. Málið tekið til umræðu og niðurstaðan varð sú að senda verkamannafélaginu svohljóðandi tillögu:         „ Háttvirtu verkamenn ! Nú liggur fyrir okkur í verkafélögunum Húsavíkur nauðsynjamál sem er að kjósa mann í hreppsnefnd í staðinn fyrir Steingrím sýslumann. Hafið þið hugsað ykkur nokkurn, eða finnst ykkur ekki eins og okkur að áríðandi sjé að félögin séu samtaka í þessu efni svo ekki verði dregin tögl og hagldir úr höndum þeirra.“

Verkamannafélagið tók vel í erindið, þetta varð úr og skemmst er frá því að segja að verkalýðshreyfingin á Húsavík náði í fyrsta sinn meirihluta fulltrúa í hreppsnefnd þorpsins árið 1921.

Í fundargerð frá árinu 1935 ræða konurnar hvort ekki væri ástæða til að þorpið kæmi upp barnagarði, nokkurs konar dagheimili fyrir börn á sumrin, þar sem þau væru í öruggri geymslu undir eftirliti vel valdra leiðsögumanna.

Á fundi sem haldinn er í janúar 1943 rætt um og krafist skýringa hjá skólanefnd barnaskólans á því hvaða rök liggi fyrir því að lýsisgjöfum hefur verið hætt í skólanum og á þeim fundi var einnig rætt um nauðsyn þess að stofnaður yrði slysatryggingasjóður fyrir kýr.

Fundur haldinn 1948  beinir því  til kvennadeildar Slysavarnarfélagsins hvort það sjái sér ekki fært að hlutast til um það að í Naustavík verði útbúið hæli fyrir sjófarendur. Þá var skýrt frá því hver ágóðinn af fjáröflunarsamkomu sem haldinn hafði verið þá um veturinn hefði verið og þakkir voru fluttar frá tveimur konum sem höfðu fengið gjöf úr styrktarsjóð félagsins.

Vonarkonur hafa sannarlega verið með puttann á púlsinum og starfslýsing félagsins hefur verið mjög fjölbreytt flóra og fallið undir starfshætti ýmissa félaga.

Lífsbarátta íslenskrar alþýðu á fyrstu áratugum 20. aldar var hörð og vægðarlaus og fundargerðabækur verkakvennafélagsins frá þeim tíma bera þess einnig vitni.Tilveran var fallvölt og lítið mátti út af bera svo allt færi á versta veg. Var heimur þar sem börn voru farin að takast á við mikla ábyrgð strax þegar þau gátu staðið í fæturnar og þau lærðu að takast á við sorgir og önnur bágindi lífsins með reisn og lífsspeki á borð við æðruleysi.

Vonarkonur stofnuðu styrktarsjóð strax á fyrsta fundi, en hann var byggður  á árstillaginu í félagið sem þá var 1. Kr. Sjóðurinn var síðan efldur með ýmiskonar fjáröflun og þegar hann hafði náð 1000 kr. mátti greiða úr honum þar sem þörfin var brýn, en aðeins mátti aðeins veita úr sjóðnum til félagskvenna. Annan sjóð áttu konurnar og ekki síðri, en sá fólst í samhygð, samstöðu og mannkærleik, þær bjuggu til eigið samtryggingakerfi sem mildaði höggin ef atvinnumissir eða aðrir erfiðleikar steðjuðu að.

Það er til marks um hvað skorturinn á upphafsárum félagsins hefur verið mikill að þess er getið sérstaklega í fundargerð að þegar verkakvennafélagið hafði starfað í fjögur ár leyfðu konur  sér þann munað í fyrsta sinn að drekka kaffi í boði félagsins á slíkri samkomu.

Er kom fram á seinnihluta þriðja áratugarins fóru verkalýðsfélögin á Húsavík að  starfa meira saman og féll þá starf Vonar meira að hinni eiginlegu verkalýðsbaráttu. Verkakvennafélagið viðist þó hafa legið í dvala í nokkur ár hvað kjaramálin snerti, en er síldarsöltun hófst upp úr 1935 lifnaði það við og við lok fjórða áratugarins starfaði það að krafti.  Atvinnutækifærum kvenna fjölgaði og að sama skapi fjölgaði félagskonum í Von úr 70 í 150 á árum milli 1940 og 1950. Hafnargerðin og þær framkvæmdir er tengdust henni var innspýting fyrir atvinnu kvenna og tilkoma hraðfrystihússins breytti þar einnig miklu.

Um 1960 hóf ASÍ  að beita áhrifum sínum til þess að sameina verkalýðsfélög karla og kvenna hverjum stað. Þær hugmyndir féllu í grýttan jarðveg hjá hluta Vonarkvenna til að byrja með og kom jafnvel til tals að Von yrði deild innan verkamannafélagsins. Eftir miklar vangaveltur var tekin sú ákvörðun að verkakvennafélgið Von yrði lagt niður og gengið yrði til samstarfs við Verkamannafélag Húsavíkur. Það var árið 1964 og gengu þá um 120 konur inn í hin nýju samtök, en þau hlutu heitið: Verkalýðsfélag Húsavíkur. Og áfram fléttaði sagan verkalýðsbaráttu svæðisins, er fleiri félög í sýslunni, Verkalýðsfélag Öxarfjarðar, Verkalýðsfélag Raufarhafnar og Veslunarmannafélag Húsavíkur bættust í hópinn.

Ágætu Þingeyingar.

Sagan heldur áfram og í dag spannar sögusviðið baráttu verkafólks vítt og breitt um Þingeyjarsýslur og félagið ber nafnið Framsýn stéttarfélag.

Við megum öll vera þakklát þeim húsvísku baráttukonum sem stigu fram og stofnuðu Verkakvennafélagið Von, ásamt og þeim sem á eftir komu og drógu Vonarvagninn eftir þeirra tíð. Auður Vonarkvenna lá í mannúð sem veitt var án nokkurs afsláttar, í þeirri mannlegu samkennd sem við skulum aldrei vanmeta og skiptir mestu máli. Konurnar uppskáru ekki sjálfar það sem barátta verkalýðsins hefur skilað launafólki í landinu í gegnum árin, en þær áttu baráttuanda í ómældu magni og kenndu okkur sem á eftir komum að við eigum að berjast fyrir því sem við trúum á.

Mætingin hér í dag á baráttudegi verkalýðsins sýnir okkur aftur og enn að Þingeyingar eru stéttvíst fólk og baráttuanda launafólks í sýslunni hvergi við brugðið. Baráttan heldur áfram þótt hún sé á öðrum vígstöðvum  en fyrr, en nú eru það okkar raddir sem heyrast, við sem spinnum söguþráð nútíðar inn til framtíðarlandsins og fléttum reipi sögunnar áfram í átt til  frelsis, jafnréttis og bræðralags.

Nú þegar ég hef lokið ávarpi mínu vil ég geta þess að Huld Aðalbjarnardóttir kemur til með að stjórna samkomunni hér í dag.

Ég segi hátíðarhöldin á Húsavík 1. maí, í tilefni af baráttudegi verkafólks, hér með sett.

Takk fyrir mig

 

 

 

 

 

Deila á