Þingiðn: Framlag félagsmanna í fræðslusjóð verður 0,3% frá 1. janúar 2019

Á síðasta aðalfundi Þingiðnar var samþykkt að stofna fræðslusjóð Þingiðnar m.a. með því að félagsmenn greiddu 0,3% af launum sínum til sjóðsins sem innheimt verður með félagsgjaldinu. Þetta þýðir að framlag félagsmannsins til félagssjóðs með fræðslusjóðsgjaldinu verður frá 1.janúar 2019 1% í stað 0,7%.

Hér að neðan er bókun samþykktarinnar frá aðalfundi Þingiðnar 2018.

2. Fræðslusjóður Þingiðnar
Í máli formanns, Jónas Kristjánssonar, kom fram að stjórn Þingiðnar hefur unnið að því að stofna fræðslusjóð innan félagsins til hagsbóta fyrir félagsmenn. Dæmi eru um að félagsmenn hafi hótað úrsögn úr félaginu þar sem þeir hafi ekki aðgengi að fræðslustyrkjum líkt og félagar í Framsýn hafa í gegnum fræðslusjóði Framsýnar. Ekki síst í ljósi þess leggur stjórnin til við aðalfund félagsins að stofnaður verði fræðslusjóður fyrir félagsmenn sem fjármagnaður verði með framlagi frá félagsmönnum upp á 0,3% frá og með næstu áramótum. Það er meðan ekki næst samstaða um það innan Samiðnar að semja um sérstakan fræðslusjóð fyrir félagsmenn aðildarfélaga Samiðnar. Þá er lagt til að aðalfundurinn samþykki að leggja fræðslusjóðnum til tvær milljónir þegar í stað þannig að hægt verði að úthluta úr sjóðnum eftir aðalfundinn. Aðalsteinn Árni gerði síðan grein fyrir drögum að reglugerð sjóðsins og starfsreglum. Eftir góðar umræður var samþykkt að stofna sjóðinn og leggja honum til tvær milljónir sem stofnframlag. Síðan greiði félagsmenn 0,3 til sjóðsins frá og með næstu áramótum sem innheimt verði með félagsgjaldinu. Reglugerð og starfsreglur sjóðsins voru einnig samþykktar samhljóða. Fundarmenn lýstu yfir ánægju sinni með stofnun Fræðslusjóðs Þingiðnar.

Fjármálaráðherra ekki alveg í takt við fólkið í landinu

Fjármálaráðherra hefur haldið því fram í gagnrýni sinni á tillögur ASÍ um breytingar á skattkerfinu að þær muni leiða til þess að skattbyrði hækki á meðaltekjur og jaðarskattar aukist. Þessi ummæli ráðherrans benda til þess að hann hafi ekki kynnt sér tillögurnar nægilega vel og því full ástæða til að leiðrétta þennan misskilning. Það er rangt hjá fjármálaráðherra að tillögur ASÍ leiði til hækkunar á skattbyrði meðaltekjufólks. Þvert á móti gera tillögur ASÍ ráð fyrir að skattbyrði 95% vinnandi fólks lækki eða haldist óbreytt en tekjuhæstu 5% munu hins vegar greiða hærri skatta en nú er enda skattbyrði þeirra tekjuhæstu sú lægsta á Íslandi af Norðurlöndunum.

Alþýðusambandið hefur á undanförnum árum ítrekað gagnrýnt þróun skatt- og tilfærslukerfanna. Ástæðan er einföld, þær breytingar sem gerðar hafa verið hafa ekki miðað að því að bæta stöðu hinna tekjulægri. Í skýrslu Hagdeildar sem gefin var út haustið 2017 var skattbyrði launafólks rakin frá árinu 1998. Niðurstaða skýrslunnar var aukin skattbyrði launafólks á síðustu áratugum og hefur þróunin komið verst niður á tekjulægri hópum[1] sökum þróunar skattkerfis og veikingar tilfærslukerfanna.
Skatta og tilfærslukerfi gegna lykilhlutverki í að draga úr ójöfnuði en líkt og OECD hefur bent á, „Tax and transfer systems play a key role in lowering overall income inequality. Three quarters of the average reduction in inequality they achieve across the OECD is due to transfers“. Veiking tilfærslukerfanna eykur því að óbreyttu auka ójöfnuð tekna.

Tillögur ASÍ í skattamálum miða að því að leiðrétta þessa þróun með einföldum aðgerðum.

Jöfnunarhlutverk tekjuskattkerfisins verði styrkt.
Með fjölgun þrepa verður hægt að hækka skattleysismörk og draga úr jaðarsköttum hinna tekjulægri.
Hátekjuþrep væri miðað við ~5% tekjuhæstu (~Yfir 1,1 milljón á mánuði).
Breytingarnar myndu auka ráðstöfunartekjur mest hjá einstaklingum sem hafa laun undir 500 þúsund á mánuði og halda skattbyrði óbreyttri á efri millitekjur.
Breytingar hefðu jákvæð eða hlutlaus áhrif á 95% einstaklinga á vinnumarkaði.

Barnabótakerfið verði eflt til muna þannig að það styðji við meginþorra barnafólks en ekki einungis hinum allra tekjulægstu.
Dregið verði verulega úr tekjuskerðingum og tekjuskerðingamörk fylgi launaþróun.
Stuðningur nýtist fleirum en hinum allra tekjulægstu enda glíma ungar barnafjölskyldur í auknum mæli við háa kostnað við daggæslu, leiksskólagjöld og frístund.

Endurreisa þarf húsnæðisstuðningskerfin.
Húsnæðiskostnaður og þá sérstaklega kostnaður leigjenda hefur dregið úr kjarabótum tekjulágra á undanförnum árum.

Fjármálaráðherra hefur haldið því fram í gagnrýni sinni á tillögur ASÍ um breytingar á skattkerfinu að þær muni leiða til þess að skattbyrði hækki á meðaltekjur og jaðarskattar aukist. Þessi ummæli ráðherrans benda til þess að hann hafi ekki kynnt sér tillögurnar nægilega vel og því full ástæða til að leiðrétta þennan misskilning. Það er rangt hjá fjármálaráðherra að tillögur ASÍ leiði til hækkunar á skattbyrði meðaltekjufólks. Þvert á móti gera tillögur ASÍ ráð fyrir að skattbyrði 95% vinnandi fólks lækki eða haldist óbreytt en tekjuhæstu 5% munu hins vegar greiða hærri skatta en nú er enda skattbyrði þeirra tekjuhæstu sú lægsta á Íslandi af Norðurlöndunum.
Þannig munu tillögurnar auka mest ráðstöfunartekjur þeirra sem hafa laun undir 500.000 krónum á mánuði, skattbyrði í efri millitekjum verður óbreytt en eykst hjá þeim allra tekjuhæstu. Þetta köllum við að nýta tekjuskattskerfið sem raunverulegt jöfnunartæki. Áhyggjur fjármálaráðherrans af auknum jaðarsköttum eru einnig óþarfar því tillögurnar gera beinlínis ráð fyrir því að jaðarskattar hinna tekjulægri lækki.

[1] Sjá nánar skýrslu Hagdeildar ASÍ, “Skattbyrði launafólks 1998-2016”, https://www.asi.is/media/313630/skattbyrdi-launafolks-1998-2016.pdf

Skatturinn – helstu tölur 2019

Hér má nálgast lista yfir helstu prósentur og upphæðir sem við koma skattinum á árinu 2019.

Fyrir almenning er stærsta breytingin að mörk neðra skattþrepsins hækka og eru nú 927.087 krónur. Persónuafsláttur hækkar líka og er nú 56.447 krónur eða 677.358 á ári. Skatthlutfall skattþrepanna beggja er óbreytt á milli ára.

Fleiri athyglisverðar breytingar urðu um áramótin eins og til dæmis að tryggingargjald lækkaði um 0.25% og er nú 6,6%.

En sjón er sögu ríkari og allar upplýsingar má nálgast um þessar breytingar á heimasíðu ríkisskattsstjóra.

Nýir umsjónarmenn íbúðanna í Þorrasölum

Nýir umsjónarmenn orlofsíbúðanna í Þorrasölum eru Sjöfn Ólafsdóttir og Helga Rúna Pétursdóttir en stéttarfélögin auglýstu á dögunum eftir nýjum umsjónarmönnum eftir að Tómas Guðmundsson sagði starfi sínu lausu eftir áralangt og farsælt starf.
Sjöfn og Helga Rúna hafa að jafnaði viðveru í íbúðum milli kl. 14:00 og 16:00 virka daga og því skiptir máli að virða brottfarar- og komutíma. Utan þess tíma er heimilt í undantekningatilfellum að hafa samband við þær þurfi leigjendur nauðsynlega á því að halda. Þeim er ætlað taka íbúðirnar út eftir notkun félagsmanna og fylgjast með því að vel sé gengið um íbúðirnar. Þær búa í íbúðum 103 (Helga) og 104 (Sjöfn) í Þorrasölum 1-3.

 

Orlofskostir sumarið 2019 til umræðu

Sameiginleg orlofsnefnd stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum kom saman til fundar í síðustu viku. Tilgangurinn var að fara yfir orlofskosti sem til stendur að bjóða félagsmönnum upp á sumarið 2019 og fara yfir nýtinguna síðasta sumar á orlofshúsum á vegum stéttarfélaganna. Nýtingin var mjög góð síðasta sumar og ákveðið var að bjóða upp á sambærilega orlofskosti sumarið 2019 og var sumarið 2018. Þá er áhugi fyrir því að standa fyrir sumarferð, ferð í einn til tvo daga. Hafi félagsmenn tillögur hvað það varðar eru þeir beðnir um aðkoma tillögunum á framfæri við starfsmenn stéttarfélaganna. Það eru Framsýn, Þingiðn, Starfsmannafélag Húsavíkur og Verkalýðsfélag Þórshafnar sem standa að orlofsnefnd stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.

 

Brotastarfsemi -Starfshópur aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda algjörlega einróma í sínum tillögum

Brotastarfsemi á borð við kennitöluflakk og mansal er óásættanleg meinsemd á íslenskum vinnumarkaði. Slík háttsemi hefur alvarleg og víðtæk áhrif fyrir launafólk, atvinnulífið og samfélagið allt og veldur bæði persónulegu og samfélagslegu tjóni. ASÍ hefur á undanförnum árum opinberað margar ljótar sögur af glæpastarfsemi á vinnumarkaði en á sama tíma gagnrýnt andvaraleysi og ótrúlegt langlundargeð stjórnvalda gagnvart slíkum brotum.
Alþýðusamband Íslands fagnar því sérstaklega niðurstöðu starfshóps aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda sem var algjörlega einróma í sínum tillögum. Í þeirri vinnu hlutu tillögur ASÍ um úrbætur mikinn hljómgrunn. Áralöng barátta ASÍ gegn athæfi svindlarana virðist því hafa skilað árangri.
Lagt er til að löggjöf og regluramminn verði treystur og bætt úr núverandi göllum. Þá er lagt til að samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins gegn svikastarfseminni verði formbundið til framtíðar.
Helstu tillögur starfshópsins eru:
• Sett verði lög sem hafa að markmiði að stöðva kennitöluflakk og misnotkun félögum með takmarkaða ábyrgð (hlutafélög og einkahlutafélög). Þar verði horft til sameiginlegra tillagna ASÍ og SA.
• Heimild til að setja forsvarsmenn fyrirtækja í tímabundið bann við þátttöku í stjórnun félaga með takmarkaða ábyrgð við tilteknar aðstæður (atvinnurekstrarbann).
• Tryggð verði viðeigandi aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb vinnumansals og nauðungarvinnu.
• Sett verði skylda til keðjuábyrgðar í lög um opinber innkaup.
• Komið verði í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði undir formerkjum starfsnáms eða sjálfboðaliðastarfsemi.
• Þau stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði (Lögreglan, Ríkisskattstjóri, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun) og aðilar vinnumarkaðarins geri með sér formlegt samkomulag um skipulegt samstarf gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.
• Refsiábyrgð lögaðila og fyrirsvarsmanna vegna ítrekðra brota gegn starfsmönnum verði útvíkkuð.
• Bætt verði verulega upplýsingagjöf til erlendra starfsmanna, t.a.m. með stofnun ráðgjafarstofu og aukinni upplýsingagjöf á vefnum.
Alþýðusamband Íslands gerir kröfur til þess að tillögunum verði fylgt fast eftir. Mörgum þeirra má þegar hrinda í framkvæmd á meðan aðrar kalla á frekari vinnu og útfærslur. Til að svo megi verða þarf pólitískan vilja og skuldbindingu stjórnvalda.
ASÍ mun í viðræðum við stjórnvöld, í tengslum við gerð kjarasamninga, leggja ríka áherslu að allt verði gert til að sporna við félagslegum undirboðum, mansali og annari brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Eingreiðsla til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga 1. febrúar 2019

Minnum félagsmenn Framsýnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum á sérstaka eingreiðslu sem á að greiðast þann 1. febrúar næstkomandi.

Starfsmenn sveitarfélaga kr. 42.500
Um er að ræða kjarasamningsbundna eingreiðslu sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem var við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember 2018.

Starfsmenn ríkisins kr. 45.000
Um er að ræða kjarasamningsbundna eingreiðslu sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við þá sem eru í fullu starfi í janúar 2019. Þeir sem eru í hlutastarfi og/eða hafa starfað hluta úr mánuði skulu fá hlutfallslega greiðslu.

Björgunarsveitin þakkar fyrir sig

Framsýn barst nýlega bréf frá Björgunarsveitinni Garðari á Húsavík sem þakkar félaginu fyrir velvild og stuðning í garð sveitarinnar og samfélagsins. Framsýn vill nota tækifærið og þakka sömuleiðis þessari mikilvægu björgunarsveit fyrir að vera ávallt reiðubúin að aðstoða þegar á því þarf að halda.

 

Niðurgreiða ekki ferðir í Vaðlaheiðargöng

Nokkuð hefur verið um fyrirspurnir frá félagsmönnum stéttarfélaganna varðandi veggjöld í gegnum Vaðlaheiðargöng, það er hvort stéttarfélögin ætli að niðurgreiða veggjöld fyrir félagsmenn. Því er til að svara að svo verður ekki þar sem það er einfaldlega óframkvæmanlegt.

Kjaraviðræður í fullum gangi – launaliðurinn í hægagangi

Undanfarnar vikur og mánuði hafa verið haldnir fjölmargir samningafundir á vegum Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Fyrir hönd Framsýnar hefur formaður félagsins, Aðalsteinn Árni Baldursson, tekið þátt í viðræðunum. Að hans sögn hafa viðræðurnar gengið nokkuð vel en langt sé land varðandi launaliðinn, þar beri mikið á milli. Milli funda liggi menn svo yfir hugmyndum og tillögum að lausn mála sem fylgi alltaf samningaviðræðum. Þess vegna séu vinnudagarnir oft mjög langir auk ferðalaga milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem bætist við og taki einnig á. En þetta hefst vonandi að lokum sagði Aðalsteinn sem enn og aftur er á leiðinni suður með flugi á samningafund.

Það eru langir vinnudagar hjá samninganefnd SGS um þessar mundir enda unnið að því að klára gerð kjarasamnings við Samtök atvinnuífsins. Formenn aðildarfélaga SGS skipa samninganefnd sambandsins, þar á meðal formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson.

 

Annar fundur boðaður í þessari viku

Fulltrúar frá Framsýn og Þingiðn sátu á fundi með fulltrúum frá PCC og Samtökum atvinnulífsins á föstudaginn. Fundurinn fór fram í fundaraðstöðu stéttarfélaganna á Húsavík. Á fundinum var farið yfir uppbyggingu á nýrri launatöflu og kaupaukakerfi fyrir starfsmenn fyrirtækisins á Bakka. Viðræðum miðar áfram og næsti fundur er áætlaður í lok þessarar viku. Þá er þess vænst að PCC svari kröfugerð stéttarfélaganna varðandi almennar kröfur.

 

Megn óánægja með tillögur SA um niðurfellingu neysluhléa

Um þessar mundir standa yfir kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Þar er meðal annars til umræðu að gera umtalsverðar breytingar á vinnutíma starfsfólks sem fellur undir þá kjarasamninga sem eru undir í þessum kjaraviðræðum. Tillögur Samtaka atvinnulífsins ganga út á að lengja dagvinnutímabilið, að það verði frá kl. 06:00 til 19:00, að heimilt verði að fleyta yfirvinnustundum eins mánaðar inn í dagvinnutíma næsta mánaðar og gera yfirvinnu upp á ársgrundvelli. Þá er lagt til að neysluhlé verði felld niður og með því móti verði hægt að stytta vinnuvikuna. Með öðrum orðum: „að starfsmaðurinn komist fyrr heim úr vinnu með því að taka sér ekki kaffitíma/neysluhlé.“

Innan verkalýðshreyfingarinnar eru mjög skiptar skoðanir um þessar tillögur og hvernig bregðast eigi við þeim. Því miður eru til stéttarfélög sem vilja skoða þessar tillögur frekar. Vitað er að Efling stéttarfélag hefur hafnað alfarið þessum hugmyndum sem og nokkur önnur stéttarfélög, þar á meðal Framsýn. Félagið stóð fyrir fundi í síðustu viku þar sem kom fram hörð gagnrýni frá félagsmönnum á þessar hugmyndir Samtaka atvinnulífsins.

Framsýn ákvað í kjölfarið að vekja athygli á þessum tillögum SA og hefur með bréfi skorað á Virk starfsendurhæfingarsjóð að kynna sér áðurnefndar tillögur Samtaka Atvinnulífsins. Félagið telur þær ógn við heilsufar félagsmanna sinna, sem margir hverjir vinna krefjandi störf, jafnvel við varhugaverðar aðstæður og mun ekki láta það líðast þegjandi og hljóðalaust að vegið sé með slíkum hætti að félagsmönnum.

Undanfarið hefur Virk staðið fyrir auglýsingaherferð um líðan fólks á vinnustöðum og mikilvægi þess að menn hlúi að heilsunni. Auglýsingar þessar hafa vakið verðskuldaða athygli og fengið fólk til að staldra við og hugsa um þessi mál. Allir ættu að vera meðvitaðir um það í upplýstu samfélagi að þættir eins og langvarandi álag á vinnustað geta orsakað streitu og haft alvarlegar afleiðingar á líðan fólks, bæði í starfi og einkalífi. Eins og fram kemur á vef sjóðsins er um að ræða verkefnið;

„Vitundarvakning VIRK, sem er hluti af stærra forvarnarverkefni. Þar kemur fram að við lifum í samfélagi þar sem sífellt fleiri virðast heltast úr lestinni vegna tímabundinna eða langvarandi veikinda. Svo virðist sem hluti af þessum veikindum sé til kominn vegna langvarandi álags bæði í starfi og einkalífi. Velvirk síðunni er ætlað að halda utan um upplýsingar og gagnleg ráð í forvarnarskyni. Meginþema síðunnar er hvernig okkur geti liðið sem best á vinnustaðnum og náð að halda jafnvægi í lífinu almennt. Markmiðið með forvarnarverkefninu er að styðja við starfsmenn og stjórnendur til að sporna við brotthvarfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Auk vitundarvakningarinnar og vefsíðunnar er einnig verið að undirbúa rannsókn á vegum VIRK. Rannsóknin miðar að því að einangra breytur sem hafa áhrif á endurkomu til vinnu eftir veikindafjarveru með það að leiðarljósi að hægt væri að nýta niðurstöðurnar til að fyrirbyggja brotthvarf af vinnumarkaði.“

Það er alveg ljóst að hugmyndir Samtaka atvinnulífsins um að stytta vinnuvikuna með því að fella niður neysluhlé eru í hrópandi andstöðu við þann boðskap sem auglýsingar Virk starfsendurhæfingarsjóðs fela í sér og miða að því að bæta vinnuumhverfi fólks og stuðla þannig að bættu heilsufari starfsfólks á vinnumarkaði.

Það skýtur verulega skökku við að aðilar sem standa að Virk starfsendurhæfingarsjóði skuli ljá máls á því í kjaraviðræðum að ganga gegn hlutverki sjóðsins með því að leggja til aukið álag á starfsfólk með afnámi samningsbundinna neysluhléa. Því verður seint trúað eða hvað?

Það er von Framsýnar stéttarfélags að Virk starfsendurhæfingarsjóður kynni sér vel það sem er í gangi við samningaborð Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og komi sínum skoðunum á framfæri hvað þessi mál varðar.

Meðfylgjandi þessari frétt er grein sem Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar stéttarfélags skrifaði í Fréttablaðið um tillögur Samtaka atvinnulífsins um breytingar á vinnutímanum.

Um 60 félagsmenn sitja í samninganefnd Framsýnar þegar trúnaðarmenn á vinnustöðum eru taldir með. Hópurinn kemur reglulega saman til að fara yfir stöðuna í kjaraviðræðunum, hér má sjá nokkra samninganefndarmenn fara yfir tillögur SA um breytingar á neysluhléum sem var algjörlega hafnað.

Og þessi tvö skyldu ekkert í því hvað menn væru að hugsa með því að vilja fella niður neysluhlé enda bæði í krefjandi störfum á vinnumarkaði.

Grein: Viðar Þorsteinsson

„Hug­myndir Sam­taka at­vinnu­lífsins um vinnu­tíma­breytingar hafa verið helsta inn­legg sam­takanna til kjara­við­ræðna síðustu mánaða. Þrír megin­þættir eru í þessum hug­myndum: Að víkka dag­vinnu­tíma­bilið, selja út kaffi­tíma og lengja upp­gjörs­tíma yfir­vinnu. Því hefur verið haldið fram að þessar hug­myndir séu fjöl­skyldu­vænar og fram­sæknar. En út á hvað ganga hug­myndirnar?

Í fyrsta lagi vilja SA út­víkka mörk dag­vinnu­tíma­bilsins úr 10 tímum (klukkan 7:00 til 17:00 í nú­gildandi samningum aðildar­fé­laga SGS) yfir í 13 tíma (klukkan 6:00 til 19:00 sam­kvæmt til­lögum SA). Þannig fengi at­vinnu­rek­endandi veru­lega út­víkkaða heimild til að á­kveða á hvaða tíma dagsins ein­stak­lingur í dag­vinnu vinnur. Starfs­maður gæti ekki neitað að vinna á því tíma­bili og ætti ekki rétt á yfir­vinnu­á­lagi á tíma­bilinu. Þannig gæti at­vinnu­rekandi fyrir­skipað verka­manni að vinna sinn 8 klukku­tíma vinnu­dag, svo dæmi sé nefnt, frá klukkan 11:00-19:00 eða frá klukkan 06:00 til 14:00 án nokkurrar auka­greiðslu.

Þetta væri gjörbreyting á þeim ramma dag­vinnu sem nú er við lýði. Nú­verandi tak­markanir á ramma dag­vinnu­tímans eru hugsaðar til að skapa sam­hljóm við aðrar stofnanir í sam­fé­laginu, svo sem al­mennings­sam­göngur og opnunar­tíma skóla. Með þessum breytingum yrði mun erfiðara fyrir verka­fólk að sam­stilla þessi at­riði dag­legrar til­veru, en án þess að bera nokkuð úr býtum í staðinn.

Að kaupa kjara­bætur af sjálfum sér 

Í öðru lagi hafa SA lagt til að kaffi­tímar verði felldir út úr út­reikningi dag­vinnu­tímans, og að þannig náist í orði kveðnu fram stytting á vinnu­tíma. Hug­myndin er sú að starfs­maðurinn komist fyrr heim úr vinnu með því að taka sér ekki kaffi­tíma. Þessi til­laga er hreinar sjón­hverfingar. Auð­vitað mun starfs­fólk eftir sem áður þurfa að taka sér hlé, enda voru kaffi­tímar felldir inn í kjara­samninga á sínum tíma af þeirri á­stæðu. Í líkam­lega og and­lega krefjandi störfum, líkt og þeim sem unnin eru af fé­lags­fólki Eflingar og aðildar­fé­laga SGS, þarf fólk að taka sér pásu. Að setja starfs­fólki þann afar­kost að þurfa annað­hvort að taka sér hlé á eigin kostnað eða vinna ör­þreytt í strik­lotu yfir daginn er engin kjara­bót heldur ó­á­byrgur blekkingar­leikur. 

Ráðskast með vinnu­tímann 

Í þriðja lagi hafa Sam­tök at­vinnu­lífsins sett fram rót­tækar til­lögur um út­víkkað upp­gjör á yfir­vinnu, þannig að vinna um­fram 8 tíma á stökum degi teljist ekki sjálf­krafa sem yfir­vinna. Sam­kvæmt til­lögunum yrði at­vinnu­rek­endum jafn­vel heimilt að færa yfir­vinnu­stundir eins mánaðar inn í dag­vinnu­tíma næsta mánaðar og gera yfir­vinnu upp á árs­grund­velli. Enn fremur er lagt til að at­vinnu­rekandi geti skyldað starfs­mann til að taka frí á móti yfir­vinnu­stundum fremur en að fá þær greiddar. Verka­fólk þyrfti sí­fellt að vera til­búið að vinna lengur þegar at­vinnu­rekanda hentar, með al­gjörri ó­vissu um hvort um­fram­vinnu­stundir teljist á endanum yfir­vinna eða ekki. Með þessu fá at­vinnu­rek­endur heimild sem ekki hefur sést á vinnu­markaði ára­tugum saman til að ráðskast með tíma launa­fólks.

Með inn­leiðingu þessara breytinga gæti farið svo að 12 tíma vinnu­dagur án nokkurra yfir­vinnu­greiðslna eða tryggra kaffi­hléa yrði raunin. Með þessu yrði hjólum sögunnar snúið aftur til 19. aldar, tíma ó­boð­legra vinnu­að­stæðna, vondra lífs­gæða al­mennings og of­ríkis at­vinnu­rek­enda. „Sveigjan­leiki“ er orð sem oft heyrist notað í á­róðrinum, en þá gleymist að á ís­lenskum vinnu­markaði er engum bannað að vinna langan vinnu­dag – enda gera það flestir fé­lags­menn al­mennra verka­lýðs­fé­laga. En nú­verandi rammi tryggir að fyrir langa eða ó­reglu­lega vinnu­daga komi sann­gjarnar greiðslur. 

Mínúturnar okkar – verð­tryggð kjara­bót 

Í stuttu máli eru allar til­lögur Sam­taka at­vinnu­lífsins um vinnu­tíma­breytingar hreinar kjara­skerðingar. SA hafa ekki fengist til að ræða um al­mennar launa­hækkanir í yfir­standandi kjara­við­ræðum nema sem nokkurs konar mót­fram­lag gegn þess konar skerðingum. Að fallast á slík skipti er al­gjört glap­ræði. Ó­líkt krónum eru mínútur eru ekki háðar hag­sveiflum og eru í raun hryggjar­stykki kjara­samningsins. Ein­mitt þess vegna hefur verka­lýðs­hreyfingin í yfir 100 ár sett kröfur um vinnu­tíma­skil­greiningar á oddinn. Þær kjara­bætur sem þannig fást eru ekki mældar í af­stæðum krónum heldur ó­breytan­legum mínútum, og eru þannig „verð­tryggðar“ ef svo má segja.

Mark­mið verka­lýðs­hreyfingarinnar í yfir­standandi samninga­við­ræðum er að bæta kjör verka­fólks, ekki rýra þau. Þetta á ekki síst við um vinnu­tímann og skil­greiningar hans. Stéttar­fé­lög al­menns verka­fólks, verslunar­fólks og opin­berra starfs­manna hafa öll lagt til styttingu vinnu­tímans, og mikill með­byr er nú með slíkum hug­myndum eins og sást vel á glæsi­legri ráð­stefnu Lýð­ræðis­fé­lagsins Öldu um síðustu helgi. Stéttar­fé­lögin studdu við þá ráð­stefnu, á meðan SA þáðu ekki boð um þátt­töku. Það er vægast sagt sorg­legt að fram­lag SA til þeirrar um­ræðu sé lenging vinnu­tímans, sjón­hverfingar og skert stjórn verka­fólks yfir tíma sínum.“

 

 

Úrbætur í húsnæðismálum varða alla landsmenn

Í meðfylgjandi bréfi Framsýnar stéttarfélags til forsætisráðherra er lögð áhersla á að horft verði til landsins alls er viðkemur úrbótum í húsnæðismálum sem nú eru til umræðu. Nýlega skilaði átakshópur tillögum um aukið framboð á íbúðum og aðgerðum til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Að mati Framsýnar hefði starfshópurinn þurft að horfa sérstakalega á vanda landsbyggðarinnar þar sem húsnæðiskortur er víða alvarlegt vandamál. Því miður fer lítið fyrir sértækum aðgerðum hvað landsbyggðina varðar. Hins vegar er horft sérstaklega á höfuðborgarsvæðið. Meira jafnvægi hefði þurft að vera í tillögum starfshópsins varðandi úrbætur í húsnæðismálum milli höfðuðborgasvæðisins og landsbyggðarinnar. Því verður ekki á móti mælt að vandinn er mikill á höfuðborgarsvæðinu en hann er einnig til staðar á landsbyggðinni, því mega menn ekki gleyma í umræðunni. Hér má lesa bréf Framsýnar til forsætisráðherra: 

Forsætisráðuneytið
Katrín Jakobsdóttir forsætisráherra
Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg
101 Reykjavík 

Vegna tillagna átakshóps um húsnæðismál

Framsýn stéttarfélag hefur lengi barist fyrir því að almenningur í landinu, ekki síst verkafólk, hafi möguleika á því að eignast þak yfir höfuðið eða standi til boða leiguhúsnæði á sanngjörnu leiguverði í stað okurleigu sem tröllríður leigumarkaðinum.

Til viðbótar hefur Framsýn stéttarfélag ítrekað bent á mikilvægi þess að tillögur sem væru lagðar fram af stjórnvöldum, sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins til lausnar þessum mikla vanda tækju mið af þörfum allra landsmanna, ekki eingöngu þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og/eða í stærstu þéttbýliskjörnum landsins.

Niðurstöður átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðgerðum til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði eru að mörgu leiti áhugaverðar enda gangi þeir eftir. Átakshópurinn hefði hins vegar þurft að horfa til sértækra aðgerða á svokölluðum köldum svæðum á landsbyggðinni enda fyrirliggjandi vandi sem þarf að leysa. Því miður er ekki að finna slíkar tillögur í niðurstöðum starfshópsins.

Það er von Framsýnar stéttarfélags að í frekari umfjöllun um niðurstöður átakshópsins verði landsbyggðinni gefið aukið vægi og vill félagið koma eftirfarandi ábendingum á framfæri;

  1. Telja verður jákvætt að viðurkennt er að markaðsbrestur sé á húsnæðismarkaði og inngrip stjórnvalda í samstarfi við stéttarfélög og sveitarfélög sé óhjákvæmilegt við þessar aðstæður.
  2. Ísland er svæðaskipt með tilliti til húsnæðismarkaða;
    1. Höfuðborgarsvæðið þar sem markaðsbrestur lýsir sér með því að takmarkað framboð húsnæðis hefur leitt til mjög mikillar verðbólu og leiguokurs.   Nýjar íbúðir eru úr takti við þarfir þess almennings sem hvorki getur né vill kaupa íbúð á yfirverði. Leigumarkaður hefur lent í algeru brask-umhverfi þar sem okur og óöryggi er raunveruleikinn sem snýr að almenningi.
    2. Stórir hlutar landsbyggðarinnar líða fyrir það að húsnæðisverð og lánakjör standa ekki undir nýbyggingarverði.   Almenningur leggur því ekki í slíkar fjárfestingar og lánastofnanir gera veðkröfur sem þrengja enn frekar að möguleikum fólks. Takmarkaður leigumarkaður er til staðar á landsbyggðinni almennt og í vöxt færist að fjarbúandi einstaklingar taki íbúðir út úr rekstri sem lögheimilisíbúðir.
  3. Því er sérstaklega fagnað að samstaða sé um að setja leigumarkaði og leiguverðlagningu skýrari ramma. Hvatt er til þess að sérstaklega sé horft til Þýskalands (Mietbremse-leigubremsa) og Svíþjóðar í því samhengi.
  4. Um leið og tekið er undir mikilvægi þess að leysa húsnæðismál þeirra sem allra verst standa – teljast til “lágtekjuhópanna” – þá er afar háskalegt að fjalla um húsnæðismálin út frá slíkri flokkun.   Með því að beita almennum lausnum og efla stöðu neytenda gagnvart verðlagningu og sem kaupendur á markaði gagnvart fjármögnun – þá mun sá hópur sem telst til “hinna verst settu” dragast saman nokkuð hratt. Þörfin fyrir sértækar og lausnir mun þannig minnka og útgjöld hins opinbera af slíkum úrræðum lágmarkast.   Með þannig útfærslu mun einnig verða til betra samfélag þar sem lakar settir og betur settir búa hlið við hlið og leggja saman fremur en að vera aðgreindir vegna þvingaðrar flokkunar húsnæðisstuðnings.
  5. Tillögur átakshópsins eru því miður afar einhæfar og miðast við höfuðborgarsvæðið og sértækar aðstæður í kring um “almenningssamgöngukerfi” framtíðarinnar.   Sáralítð er tekist á við þann raunveruleika sem blasir við almenningi á landsbyggðinni, sveitarfélögum og þeim fyrirtækjum sem virkilega vilja leggja sitt að mörkum til að tryggja sér aðgang að öruggu starfsfólki og betra samfélagi.
  6. Liður í því að finna lausnir fyrir þá lakast settu í húsnæðismálum er að auðvelda staðbundnum íbúðafélögum/húsnæðissamvinnufélögum að breikka framboð sitt og taka að sér byggingar íbúða með stofnstyrkjum undir lögum um svokallaðar almennar íbúðir nr. 52/2016 – samhliða almennum búseturéttaríbúðum.
  7. Mikilvægt getur verið að útvíkka almennar heimildir Íbúðalánasjóðs/Lánasjóðs sveitarfélaga til 90% lánsfjármögnunar húsnæðis óhagnaðardrifinna félaga og á “köldum svæðum” allt að 100% ef sveitarfélög eru þátttakendur í slíkri uppbyggingu með beinum og óbeinum framlögum/ívilnunum.   Slíkt þarf að útfæra með stofnun sérstakra og nýrra lánaflokka með lægri vöxtum en sértækum forgangi eða “samningsbundnum/þvinguðum” kaupum lífeyrissjóða á tilteknum fjárhæðum.
  8. Til að byggja upp leigumarkað fyrir almenning (á landsbyggðinni) þarf að breyta lögum um húsnæðissamvinnufélög nr. 66/2003 þannig að þar verði beinlínis opnað á sameiginlegan rekstur leigu- og búsetuíbúða – í einu félagi og með virkri þátttöku sveitarfélaga og velvildarfjárfesta (fyrirtækja).   Með því verður almennur rekstrargrunnur húsnæðissamvinnufélaga sterkari og neytendum auðveldara að eiga aðgang að öryggi án hættu á uppsögnum eða fjárhagslegum ofurbyrðum.
  9. Til þess að auðvelda hagkvæma raðsmíði og magninnkaup íbúða með innflutning og/eða bættri tækni innanlands er nauðsynlegt að veita íbúðafélögum neytenda – í samstarfi við sveitarfélög og stéttarfélög – hvatningu og beinan fjárstuðning til að þróa og halda utan um stærri verkefni á sviði húsnæðismála í þágu almennings.     Örlítill vottur að slíku verkefni er kominn af stað hjá Íbúðalánasjóði en hefur ekki náð neinu flugi enn sem komið er.
  10. Leiguvernd; Eins og mál hafa þróast á íslenskum leigumarkaði er afar mikilvægt að stjórnvöld grípi inn í með embætti/þjónustu við leigjendur. Hugsanlega með „Embætti umboðsmanns leigjenda“. Slíkt þekkist innan stjórnsýslunnar sem skilað hefur góðum árangri s.s. Embætti umboðsmanns skuldara og Umboðsmanns Alþingis. Í dag eiga leigjendur ekki auðvelt með að leita aðstoðar opinberra fagaðila komi upp ágreiningur milli þeirra og leigusala sem er daglegt brauð.

Þessum hugmyndum og skoðunum Framsýnar stéttarfélags er hér með komið á framfæri við ríkisstjórn Íslands með von um að unnið verði áfram með niðurstöðu átakshópsins og hlustað verði á rödd landsbyggðarinnar sem kallar eftir lausn á fyrirliggjandi vanda í húsnæðismálum víða um land.

 

Trésmiðjan Rein heimsótt

Starfsmaður stéttarfélaganna heimsótti á dögunum Trésmiðjuna Rein í fjölbýlishúsi sem trésmiðjan er að byggja við Höfðaveg á Húsavík. Þetta er annað af stærri verkefnum sem trésmiðjan er að vinna í núna en fyrir utan húsið á Höfðaveginum er í byggingu íbúðarhús á Húsavík sem nokkrir starfsmenn sinna þessa dagana.

Hér má sjá Þórð Aðalsteinsson og Gunnar Jóhannesson klæða loftið í einni íbúðinni.
Kátt á hjalla.

Það var að heyra á starfmönnum að það væri þokkaleg bjartsýni á verkefnastöðuna á næstu misserum og ýmislegt í farvatninu þar. Verkefnið á Höfðaveginum er langt komið en stefnt er á að nýir íbúar flytji inn um mitt sumar.

Alexander Jónasson, starfsmaður E.G. Jónasson.

Umboðið til SGS

Kjarasamningur fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Starfsgreinasambands Íslands rennur út 31. mars 2019. Það sama á við um kjarasamning Sambands Íslenskra sveitarfélaga og SGS. Samninganefnd Framsýnar stéttarfélags hefur samþykkt að veita Starfsgreinasambandi Íslands samningsumboð fh. félagsins vegna þessara kjarasamninga. Þetta var samþykkt á fundi samninganefndarinnar í vikunni.

Staðan tekin í kjaramálum tekin til umræðu

Góðir gestir komu í heimsókn til Framsýnar í gær. Þetta voru þær Albertína Friðbjörg Elíasdóttir þingmaður og Silja Jóhannesdóttir sveitarstjórnarfulltrúi á Húsavík. Þær gegna þessum störfum fyrir Samfylkinguna. Heilsuðu þær upp á formann Framsýnar til að fræðast um stöðuna í kjaraviðræðum verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins. Aðalsteinn greindi þeim frá því enda þátttakandi í viðræðunum fyrir hönd Framsýnar. Byggða- og atvinnumál komu einnig til umræðu og tillögur um skattamál og húsnæðismál sem lagðar hafa verið fram. Fundurinn var gagnlegur fyrir gestina og formann Framsýnar.

 

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir þingmaður og Silja Jóhannesdóttir sveitarstjórnarfulltrúi eru hér ásamt formanni Framsýnar, Aðalsteini Árni Baldurssyni.

 

Framsýn leitar að húsverði fyrir orlofsíbúðir stéttarfélaganna í Þorrasölum

Stéttarfélögin Framsýn og Þingiðn eiga 5 íbúðir í Þorrasölum 1-3 í Kópavogi. Frá og með næstu mánaðamótum vantar stéttarfélögunum húsvörð þar sem núverandi húsvörður er að láta af störfum eftir farsælt starf. Starfsmaðurinn hefur það hlutverk að fara inn í íbúðirnar virka daga á tímabilinu milli kl. 13:00 og 15:00. Starfið felst aðalega í eftirliti með íbúðunum og samskiptum við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Um er að ræða áhugavert og þægilegt starf sem greitt er fyrir samkvæmt samkomulagi aðila. Áhugasömum og þeim sem vilja fræðast betur um starfið er bent á að hafa samband við Aðalstein Árna á Skrifstofu stéttarfélaganna, netfangið er kuti@framsyn.is

Alþýðusambandið vill róttækar breytingar á skattkerfinu

Á fundi miðstjórnar ASÍ í dag voru lagðar fram og samþykktar tillögur Efnahags-, skatta- og atvinnumálanefndar sambandsins um breytingar á skattkerfinu. Markmið breytinganna er að létta byrðum af fólki með lágar- og millitekjur, auka jafnrétti og koma á sanngjarnri skattheimtu.

Rannsókn hagdeildar ASÍ frá 2017 sýnir að skattbyrði hinna tekjulægstu hefur hækkað mest á undanförnum árum og dregið hefur úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins. Munar þar mestu að skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun og vaxta- og barnbótakerfin hafa markvisst verið veikt og eru nú í skötulíki miðað við það sem áður var.

Húsnæðisstuðningur hins opinbera hefur þannig rýrnað á sama tíma fasteigna- og leiguverð hefur rokið upp. Á síðustu árum hefur barnafjölskyldum sem fá stuðning í gegnum barnabótakerfið fækkað mikið og bæturnar sem hlutfall af launum lækkað verulega. Stuðningskerfin nýtast nú aðeins fámennum hópi mjög tekjulágra einstaklinga. Þau eru ekki lengur það tekjujöfnunartæki sem lagt var upp með vegna vaxandi tekjuskerðinga. Þessu vill Alþýðusambandið breyta og leggur því fram hugmyndir um breytingar á skattkerfinu sem auka jöfnuð og ráðstöfunartekjur megin þorra launafólks.

Skattkerfið:

  • Þrepaskipt skattkerfi með 4 skattþrepum
  • Fjórða þrepið verði hátekjuþrep
  • Skattleysismörk hækki og fylgi launaþróun
  • Breytingin auki ráðstöfunartekjur mest hjá þeim sem hafa laun undir 500.000 kr. á mánuði

Húsnæðisstuðningur:

  • Endurreisa þarf húsnæðisstuðningskerfin
  • Koma þarf í veg fyrir að sveiflur á markaði hafi áhrif á stuðninginn og þar með afkomu launafólks

Barnabætur:

  • Barnabætur nái til þorra barnafjölskyldna
  • Dregið verulega úr tekjuskerðingum
  • Tekjuskerðingarmörk hækki og fylgi launaþróun

Til að mæta tillögunum getur hið opinbera horft til nokkurra mögulegra tekjuöflunarleiða ss. hækkunar fjármagnstekjuskatts sem eykur samræmi í skattlagningu launa og fjármagns, upptöku auðlegðarskatts og aukins skattaeftirlits.

Breytingar á skattleysismörkum og per­sónu­afslætti

Per­sónu­afslátt­ur ein­stak­linga verður 677.358 kr. fyr­ir árið 2019, eða 56.447 kr. á mánuði. Árleg­ur per­sónu­afslátt­ur hækk­ar sam­kvæmt því um 30.619 kr. milli ár­anna 2018 og 2019, eða um 2.552 kr. á mánuði. Hækk­un per­sónu­afslátt­ar nem­ur 4,7%. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­inu. Þar kemur einnig fram að skatt­leys­is­mörk tekju­skatts og út­svars verða 159.174 kr. á mánuði að teknu til­liti til 4% lög­bund­inn­ar iðgjalds­greiðslu launþega í líf­eyr­is­sjóð sam­an­borið við 151.978 kr. á mánuði árið 2018. Hækk­un skatt­leys­is­marka milli ára nem­ur 4,7%. Þegar tekj­ur ná skatt­leys­is­mörk­um byrj­ar launþegi að greiða út­svar til sveit­ar­fé­lags síns. Launþeg­inn byrj­ar hins veg­ar ekki að greiða tekju­skatt til rík­is­ins fyrr en tekj­ur ná 261.329 kr. á mánuði árið 2019, sam­an­borið við 249.514 kr. á mánuði árið 2018.

Í ný­samþykkt­um lög­um um breyt­ing­ar á tekju­skatti ein­stak­linga skulu þrepa­mörk tekju­skatts á ár­inu 2019 nú upp­reiknuð í réttu hlut­falli við hækk­un á vísi­tölu neyslu­verðs næstliðna tólf mánuði í staðinn fyr­ir breyt­ing­ar á launa­vísi­tölu. Þrepa­mörk tekju­skatts verða sam­kvæmt því við 11.125.045 kr. árs­tekj­ur, eða 927.087 kr. á mánuði fyr­ir næsta ár, að því er seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Þar er einnig bent á að trygg­inga­gjald lækk­aði um 0,25 pró­sentu­stig um ára­mót­in.

Hægt er að lesa sig til um skatthlutföll einstaklinga vegna ársins 2019, persónuafsláttur á vef ríkisskattstjóra 

Samningafundur boðaður á fimmtudaginn

Samninganefndir Framsýnar/Þingiðnar og PCC/Samtaka atvinnulífsins munu koma saman næstkomandi fimmtudag og halda kjaraviðræðum áfram. Unnið er að því að setja upp sérkjarasamning og þróa nýtt kaupaukakerfi. Eins og fram hefur komið samþykkti fyrirtækið að hækka laun starfsmanna um síðustu áramót þrátt fyrir að ekki væri búið að semja. Ljóst er að samninganefnd stéttarfélaganna leggur mikið upp úr því að aukinn kraftur verði settur í kjaraviðræðurnar með það að markmiði að ljúka gerð samningsins í janúar.