„Algjört rugl þegar menn halda því fram að það sé hvergi meiri jöfnuður en á Íslandi“

Nýr kjarasamningur SGS og SA hefur verið undirritaður. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson stóð vaktina við samningaborðið og tók Víkurblaðið viðtal við hann að því tilefni.

Aðalsteinn segir að samningarnir séu ágætir í samhengi við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem lagðar voru fram við undirritun samninganna. „Samningarnir koma best út fyrir láglaunafólk þar sem samið er um krónutöluhækkanir, fyrir barnafólk og fyrir þá sem eru með skuldbindingar t.d. vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Þá koma skattalækkanir sér vel fyrir þennan hóp og reyndar aðra sem eru í svipaðri stöðu, eins og til að mynda aldraðir og öryrkjar. Líkt og með áramótaskaupið verða örugglega skiptar skoðanir með samningana meðal félagsmanna sem er afar eðlilegt“.

Hann segist aðspurður hafa viljað ná fram betri kjörum fyrir sína skjólstæðinga, styttri vinnuviku og auknum veikindarétti vegna veikinda barna. „Ég er talsmaður jöfnuðar og mun halda áfram að berjast fyrir honum meðan ég gegni þessu starfi. Það er algjört rugl þegar menn halda því fram að það sé hvergi meiri jöfnuður en á Íslandi.“

Þegar Aðalsteinn er spurður út í þær sérstöku aðstæður sem uppi hafa veri í íslenska hagkerfinu segir hann að á hverjum tíma þegar samið er taki menn mið af aðstæðum. „Ekki bara efnahagsástandinu heldur einnig stöðu heimilanna í landinu. Sá þáttur virðist því miður stundum gleymast í umræðunni. Vissulega hefur staðan í efnahagslífinu ekki verið góð síðustu mánuðina, en í þessum samningum er að finna nýmæli sem er svokölluð hagvaxtartrygging. Það þýðir að ef hagvöxtur eykst í þjóðfélaginu miðað við núverandi ástand á samningstímanum mun það skila sér í auka launahækkunum til launafólks sem starfar eftir þeim kjarasamningum sem voru undirritaðir í síðustu viku. Slík tenging hefur ekki komið áður til, tenging sem ég bind miklar vonir við og veit að á eftir að skila sér aukalega í vasa launafólks á næstu árum en ekki bara í vasa hluthafa og eigenda fyrirtækja,“ segir hann.

Aðalsteinn hefur tekið margsinnis áður tekið þátt í samningaviðræðum í Karphúsinu en segir að andrúmsloftið hafi verið betra nú en oft áður þrátt fyrir hallarbyltingar í stéttarfélögunum þar sem nýtt fólk hefur komið til starfa. „Það var verulega gott að vinna með þessu nýja fólki. Framsýn átti mjög gott samstarf við forystumenn Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur. Þessi félög mótuðu kjarasamninginn sem var undirritaður 3. apríl. Hann mun færa verkafólki mun meiri launahækkanir en áður hafa þekkst í sambærilegum kjarasamningum á Íslandi,“ segir hann og fullyrðir að samstaða þessara félaga hafi verið lykilatriði. „Það var lengi vel ákveðinn ótti hjá forystumönnum SA út í þetta nýja afl, Vor í verkó með Sólveigu Önnu og Ragnari Þór í forystu. Ég skynja núna að Samtök atvinnulífsins meta samstöðuna sem myndaðist hjá þessum stéttarfélögum og virða baráttu okkar fyrir bættum kjörum til handa okkar fólki sem við vorum valin til að vinna fyrir.“

Meðganga þessara kjarasamninga hefur verið löng eða frá því í október á síðasta ári og því er ekki úr vegi að spyrja hvort formaðurinn hugsi aldrei um að nú sé komið nóg?. „Það eru ekki margar helgar frá þeim tíma sem ég hef átt frí. Þegar samningaviðræður eru í gangi gilda engin vökulög, vinnudagarnir eru langir og strangir. Síðustu vikurnar fyrir undirskriftina var lítið sofið. Haldi ég heilsu og njóti trausts félagsmanna Framsýnar sé ég fyrir mér að næstu kjarasamningar árið 2022 verði mínir síðustu kjarasamningar. Þá sé komið nóg og aðrir taki við keflinu, enda lít ég svo á að það sé eftirsóknarvert að taka við einu öflugasta stéttarfélagi landsins, enda séu menn tilbúnir að gefa allt í starfið og láta gott af sér leiða.“

Að sjálfsögðu rífast menn, steyta hnefana og skella hurðum. Þá eiga sumir það til að vera ansi orðljótir, en sem betur fer eru menn ekki með upptökutæki í Karphúsinu líkt og gerðist á ákveðnum bar í miðborg Reykjavíkur í vetur, þegar nokkrir þingmenn tóku tal saman og skáluðu. Samherjar innan verkalýðshreyfingarinnar eiga það líka til að rífast enda menn ekki alltaf sammála um bestu leiðirnar til lausnar. En þetta jafnast allt að lokum og flestir faðmast eftir undirskriftina, þó ekki allir.

 

 

 

Deila á