PCC á Bakka hefur óveruleg áhrif á umhverfið

Allar mælingar í umhverfisvöktun hjá PCC BakkiSilicon hf. eru langt undir viðmiðunarmörkum. Þrjú minniháttar frávik frá starfsleyfi hafa komið upp. Sérfræðingur segir áhrif verksmiðjunnar á umhverfið óveruleg.

Húsvíkingar fjölmenntu á fund umhverfisstofnunar í gær. Þar voru kynntar niðurstöður eftirlits Umhverfisstofnunar og umhverfisvöktunar hjá PCC á Bakka fyrir árið 2018.

Eva Yngvadóttir, efnaverkfræðingur hjá Eflu verkfræðistofu, kynnti niðurstöður umhverfisvöktunarinnar. Í skýrslunni segir að niðurstöður mælinga á loftgæðum séu í öllum tilvikum undir umhverfismörkum sem gefin eru í reglugerð. Niðurstöður efnamælinga í ám og vötnum séu í öllum tilvikum undir skilgreindum umhverfismörkum, þar sem mjög lítil eða engin hætta sé á áhrifum á viðkvæmt lífríki. Þá sé ástand gróðurs almennt nokkuð gott.

Eva segir bakgrunnsmælingar hafa verið gerðar áður en starfsemi var hafin í verksmiðjunni og allar mælingar séu sambærilegar við það sem þá var. Það sé því hægt að segja að áhrif verksmiðjunnar á umhverfið í dag séu óveruleg.

Spurð að því hvort hún telji líkur á að það breytist þegar verksmiðjan verði komin í fullan rekstur telur hún svo ekki vera, mælingarnar séu svo langt undir viðmiðunarmörkum að mikið þurfi að breytast svo það gerist. Það verði þó spennandi að sjá tölur fyrir árið 2019 sem verði fyrsta heila starfsárið.

Einar Halldórsson, verkfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir þrjú frávik frá starfsleyfi hafa komið upp. Úrbótaáætlun hafi borist svo þau mál séu í farvegi. Hann segir frávikin hafa verið minniháttar, vegna aðgengis að svæðinu, olíuúrgangs sem var ekki á geymslusvæði og vegna kísilryks sem borist hafði út fyrir verksmiðjuna með vatni. Þessi frávik hafi ekki áhrif á starfsleyfi PCC og það hafi ekki komið til umræðu að endurskoða það. Þessi þrjú frávik og nokkrar ábendingar sem hafi komið fram í skýrslum séu einu athugasemdir umhverfisstofnunar við starfsemi PCC á Bakka.

Erfiðlega hefur gengið að koma verksmiðjunni í full afköst vegna endurtekinna bilana meðal annars á rykhreinsibúnaði. Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC, segir jafnan og þéttan stíganda vera í framleiðslunni núna og að framleiðslumet hafi verið sett í ágúst. Nú sé framleiðslan um 80 tonn á dag en planið sé að vera komin í full afköst og stöðugan rekstur um áramót. „Ég er mjög bjartsýnn að eðlisfari og veit að þetta mun hafast,“ segir Rúnar.

Fjárhagsstaðan er þröng og leitar félagið nú að allt fimm milljarða króna fjármögnun til að styrkja reksturinn. Rúnar segir það vera í ferli, hann sé viss um að fjármögnun náist en það muni skýrast á næstu vikum.

Nú hafa mörg áföll dunið yfir, hvernig líður forstjóranum?

„Mér liður vel, það eru endalausar áskoranir en ég sofna alveg á kvöldin,“ segir Rúnar að lokum. (ruv.is)

Á fundinum í gær var komið inn á mikilvægi PCC BakkiSilicon hf. fyrir samfélagið hér norðan heiða en um 150 manns vinna hjá fyrirtækinu. Forstjóri PCC gerði grein fyrir málinu og m.a. greiðslum fyrirtækisins til sveitarfélagsins Norðurþings og stéttarfélaganna á svæðinu. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, tók undir með forstjóranum og sagði PCC vera orðinn einn mikilvægasti vinnustaðurinn á svæðinu með teknu tilliti til skatta og umfangs á svæðinu. Starfsemin kallaði auk þess á mikla umferð um Húsavíkurhöfn með tilheyrnandi tekjum fyrir höfnina. Jafnframt hefði tekist að hækka laun starfsmanna PCC umtalsvert í síðustu kjarasamningum og áfram yrði haldið áfram á þeirri braut auk þess að efla starfsmenntun innan fyrirtækisins.

Guðný í stjórn AN

Um síðustu helgi fór fram 36. þing Alþýðusambands Norðurlands að Illugastöðum í Fnjóskadal og voru þar samankomnir 74 fulltrúar af sambandssvæðinu, sem nær frá Þórshöfn í austri til Hrútafjarðar í vestri. Þingið tókst í alla staði mjög vel. Ein málefnanefnd var að störfum á þinginu, unnið var í hópavinnu undir stjórn Eyrúnar Valsdóttur frá ASÍ, þar sem vinnulag við kjarasamningagerð var krufið til mergjar. Einnig var ályktun um lífeyrismál samþykkt samhljóða.

Nokkrum góðum gestum var boðið til þings, en fimm fyrirlesarar fluttu þar erindi. Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, doktorsnemi við Háskólann á Akureyri fjallaði um jafnréttisviðhorf og samfélagsáhrif í minni byggðarlögum og beindi sjónum sérstaklega að búsetu ungra kvenna og búferlaflutninga þeirra í því samhengi. Óðinn Elísson frá Fulltingi lögfræðistofu, fjallaði um muninn á slysatrygginum, samkvæmt kjarasamningi eða skaðatryggingum. Valdimar Hermannsson sveitarstjóri á Blönduósi fjallaði um gagnaverið Borealis Data Center og þau áhrif sem það hefur á nærsamfélagið með tilkomu þess á Blönduósi. Finnur Birgisson, fulltrúi frá Gráa hernum ræddi stöðu eldra fólks í þjóðfélaginu og fjallaði um fyrirhugaða málsókn Gráa hersins gegn íslenska ríkinu vegna tekjutenginga/skerðinga í lífeyriskerfinu. Drífa Snædal, forseti ASÍ, fjallaði um verkalýðsmál og leiddi umræðuna inn í panel þar sem hún ásamt formönnum aðildafélaga AN sátu fyrir svörum um verkalýðsmál. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum áttu 13 fulltrúa á þinginu, það er Framsýn, Þingiðn og Verkalýðsfélag Þórshafnar.

Nýja stjórn AN skipa: Vigdís Edda Guðbrandsdóttir frá Samstöðu, Guðný Ingibjörg Grímsdóttir frá Framsýn – stéttarfélagi og Anna Júlíusdóttir frá Einingu – Iðju. Varamenn í stjórn AN eru: Bjarki Tryggvason frá Öldunni, Svala Sævardóttir frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar, og Trausti Jörundarson frá Sjómannafélagi Eyjafjarðar.

Ályktun um lífeyrismál
„36. þing Alþýðusambands Norðurlands krefst þess að samspil lífeyrissjóða launafólks og lífeyris almannatrygginga verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Liður í því gæti verið að hækka almenna frítekjumarkið. 

Núverandi fyrirkomulag almannatrygginga gengur allt of langt í að skerða greiðslur úr lífeyrissjóðum og afkoma margra eldri borgara er því enn óviðunandi þrátt fyrir áratuga söfnun lífeyrisréttinda. 

Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kveða á um að öllum beri að afla sér lífeyrisréttinda með því að greiða ákveðinn hluta launa í lífeyrissjóði. Þegar að lífeyristöku kemur, er sparnaður launafólks notaður til að skerða greiðslur almannatrygginga til lífeyrisþega um hátt í 45% af greiðslunni frá lífeyrissjóðum. Að teknu tilliti til skattgreiðslna, fær lífeyrisþegi með 100.000 kr. á mánuði frá lífeyrissjóðnum um 35% í sinn hlut. Fái viðkomandi 400.000 kr. á mánuði lækkar hlutfallið í 28%.1 Ávinningurinn af sparnaðinum, sem tryggja átti áhyggjulaust ævikvöld, rennur þess í stað að stærstum hluta í ríkissjóð. 

  1. þing AN lítur svo á að núverandi fyrirkomulag sé komið í ógöngur og krefst þess að dregið verði stórlega úr skerðingum lífeyris almannatrygginga vegna útgreiðslna úr lífeyrissjóðum. Vegna þessa efast launafólk um gagnsemi þess að greiða verulegan hluta launa sinna i lífeyrissjóð til að tryggja framfærslu sína á efri árum. 

Þingið telur brýnt að launafólk njóti ávöxtunar af sparnaði sínum í samræmi við upphafleg markmið lífeyrissjóðakerfisins.“

1 Skerðingarhlutföll eru fengin með því að bera saman tölur frá reiknivél TR. Miðað er við einstakling sem býr einn.

 

 

 

 

Sláturtíð Norðlenska í fullum gangi

„Sláturtíð í Norðlenska hófst 29. ágúst síðastliðinn. Sú breyting hefur orðið á miðað við undanfarin ár að nú mun Norðlenska einungis slátra sauðfé á starfstöð sinni á Húsavík en ekki á Höfn. Þetta hefur í för með sér að þessi sláturtíð verður sú stærsta í sögunni hér á Húsavík og gert er ráð fyrir að þetta haustið verði lógað um 103.000 kindum. Sömuleiðis er þetta lengsta sláturtíð síðustu ára en reiknað er með því að síðasti dagurinn verði 31. október.

Alls voru um 125 starfsmenn ráðnir við sláturtíðina þetta haustið og af 14 þjóðernum.

Samkvæmt Sigmundi Hreiðarssyni, vinnslustjóra Norðlenska á Húsavík, er meðalvigtin sem stendur nær alveg sú sama og á sama tíma í fyrra og því líklegt að niðurstaðan í lokin verði á svipuðum nótum. Meðalvigt hússins er núna 16,56.

Aðspurður um hvort að hann sjái aukningu í slátrun á fullorðnu fé segir hann að það sé á svipuðum nótum og í fyrra.

Á myndinni að ofan má sjá Benedikt Hrólf Jónsson, Auðnum og Patrek Guðjónsson, Bárðartjörn en þeir starfa í fjárrétt Norðlenska.

Kallað eftir kröfum sjómanna – ítrekun

Sjómannadeild Framsýnar hefur ákveðið að kalla eftir kröfum sjómanna sem komið verður á framfæri við Samninganefnd Sjómannasambands Íslands um leið og þær liggja fyrir. Frestur til að skila inn tillögum er til 24. október n.k. en kjarasamningurinn rennur út 31. desember 2019. Skorað er á sjómenn innan Framsýnar að skila inn tillögum á netfangið kuti@framsyn.is

 

Opinn kynningarfundur á Húsavík vegna Bakka

Umhverfisstofnun boðar til opins kynningarfundar um niðurstöður eftirlits Umhverfisstofnunar og umhverfisvöktunar hjá PCC BakkiSilicon hf, miðvikudaginn 2. október nk. kl. 16.30. Fundurinn verður haldinn í sal Framsýnar að Garðarsbraut 26, Húsavík

Dagskrá:

-Halla Einarsdóttir frá Umhverfisstofnun kynnir eftirlit Umhverfisstofnunar

-Einar Halldórsson frá Umhverfisstofnun kynnir niðurstöður úr eftirliti með PCC á Bakka

-Eva Yngvadóttir frá Eflu kynnir niðurstöður umhverfisvöktunar

-Rúnar Sigurpálsson forstjóri PCC BakkiSilicon mun fjalla um stöðu rekstrar á Bakka

Umræður verða að loknum framsöguerindum

Fundurinn er öllum opinn og eru íbúar og nærsveitamenn hvattir til að mæta

 

Miðstjórn ASÍ ályktar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 og áformaðar breytingar á tekjuskattskerfinu

Miðstjórn ASÍ fagnar því að loks liggi fyrir nýjar tillögur stjórnvalda að breytingum á tekjuskattskerfinu sem beðið hefur verið með mikilli eftirvæntingu. Breytingarnar skila sér hins vegar of seint í vasa launafólks og stjórnvöld bregðast hlutverki sínu við að láta þá sem eru aflögufærir greiða réttlátan hlut til samfélagsins til að tryggja viðunandi fjármögnun velferðar og samfélagsinnviða.

Lág- og millitekjufólki sem hefur á síðustu árum borið sífellt þyngri skattbyrðar var í kjölfar kjarasamninga síðastliðið vor lofað umbótum á skattkerfinu til að auka ráðstöfunartekjur og snúa þessari óheillaþróun við. Að ekki standi til að efna loforðið að fullu fyrr en um mitt samningstímabilið veldur þess vegna verulegum vonbrigðum. Launafólk, öryrkjar og aldraðir sem hafa lágar tekjur hafa ekki tíma til að bíða svo lengi – þau þurfa léttari skattbyrði strax.

Verkalýðshreyfingin áréttar mikilvægi samspils tekjujöfnunar- og tekjuöflunarhlutverks skattkerfisins og ítrekar afstöðu sína um nauðsyn þess að breytingu á tekjuskattskerfinu fylgi áform um að styrkja aðra tekjustofna s.s. með upptöku hátekjuskatts á ofurlaun, hækkun fjármagnstekjuskatts og sanngjörnu afgjaldi fyrir auðlindanýtingu. Vandi ríkisfjármálastefnunnar sem byggt hefur á því að treysta á auknar tekjur í uppsveiflu og veikja tekjustofna hefur nú raungerst. Til að halda afkomu ríkissjóðs í jafnvægi reynist nauðsynlegt að beita aðhaldi og svigrúm til nauðsynlegra samfélags- og velferðarumbóta verður takmarkað. Þetta birtist m.a. í fjárlagafrumvarpinu í ófullnægjandi fjármögnun sjúkrahúsþjónustunnar sem stöðugt glímir við rekstrarvanda og niðurskurðarkröfu sem bitnar á þjónustu við sjúklinga og veldur óhóflegu álagi á starfsfólk ár eftir ár. Lífeyrisþegar og atvinnuleitendur sitja eftir og fá langt um minni kjarabætur en lágtekjufólk á vinnumarkaði. Engum fjármunum er varið í marglofaðar umbætur á greiðslukerfi almannatrygginga og þjónustu við einstaklinga með skerta starfsgetu. Þrátt fyrir vaxandi atvinnuleysi og brýna þörf fyrir stuðning við atvinnuleitendur af erlendum uppruna eru engin áform um auknar vinnumarkaðsaðgerðir og þjónustu við atvinnuleitendur. Framlög til framhaldsfræðslukerfisins sem þjónustar þá hópa á vinnumarkaði sem hafa minnsta menntun lækka umtalsvert á sama tíma og við blasir að umbreytingar sem nú eiga sér stað á vinnumarkaði munu koma verst niður á þessum hópum. Við þetta bætast fréttir af fyrirhuguðum vegtollum vegna samgönguumbóta sem munu leggjast þyngst á tekjulægstu hópanna.

Við sættum okkur aldrei við skattkerfisbreytingu sem lág- og millitekjufólk greiðir sjálft með veikara velferðarkerfi, verri innviðum, notendagjöldum og auknum nefsköttum. Við viljum sanngjarnt skattkerfi sem eykur jöfnuð og fjármagnar velferð.

Sanngjarnt skattkerfi sem eykur jöfnuð og fjármagnar velferð

 

 

 

 

Framsýn-UNG kallar eftir aðgerðum í loftlagsmálum

Framsýn-UNG tekur heilshugar undir með ASÍ-UNG sem kallar eftir aðgerðum í loftlagsmálum.

Áskorun frá ASÍ-UNG og Evrópusambandi verkalýðsfélaga/ETUC

ASÍ-UNG hvetur aðildarfélög ASÍ til að grípa til aðgerða vegna hamfarahlýnunar í tengslum við alþjóðlegu viku loftslagsaðgerða frá 20. – 27. september. Heimsátakið er skipulagt vegna umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldinn verður í New York þann 23. september.

Á þingi ETUC fyrr á þessu ári í Vín var samþykkt ályktun um mikilvægi þess að virkja stéttarfélög og félagsmenn til aðgerða næstu fjögur árin vegna hamfarahlýnunar af mannavöldum. Í aðgerðaáætlun ETUC 2019-2023 skuldbinda samtökin sig til að vinna markvisst að róttækum loftslagsaðgerðum.

Á undanförnum misserum höfum við meðal annars upplifað fordæmalausa skógarelda í Amazon og Síberíu, bráðnun jökla á norðurslóðum, banvæna monsúnvinda á Indlandi og hitabylgjur um alla Evrópu. Þetta hefur allt haft mikil áhrif á líf og störf fólks. 

Allt síðasta ár hefur ungt fólk vakið athygli á þeirri vá sem hamfarahlýnun af mannavöldum er með vikulegum loftlagsverkföllum þar sem krafist er aukinna aðgerða stjórnvalda í loftlagsmálum.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna svarar ákalli unga fólksins og hefur boðað leiðtoga heims til loftlagsráðstefnu í New York. Af því tilefni hvetur unglingahreyfingin til loftlagsverkfalla og vitundarvakningar vikuna 20. – 27. september (sjá: https://globalclimatestrike.net/).

Við hvetjum aðildarfélög til þess að vera virk í baráttunni gegn hamfarahlýnun og standa vörð um félagslegt réttlæti (e. Just Transition) í þeim breytingum sem fram undan eru á vinnumarkaði.

ASÍ-UNG hvetur öll aðildarfélög ASÍ til þess að taka virkan þátt í aðgerðavikunni 20.-27. september. Loftslagsverkfall – Ísland hefur meðal annars boðað til loftlagsverkfalls á föstudaginn kemur, 20. september. Á Facebook síðu þeirra má svo einnig sjá lista fyrir fjölda annarra viðburða sem skipulagðir hafa verið í tengslum við aðgerðavikuna.  

Hægt er að leggja málefninu lið með því að vekja athygli á vefsíðum og samfélagsmiðlum auk þess að taka þátt í skipulögðum viðburðum.

Sýnum samstöðu gegn hamfarahlýnun af mannavöldum!  

Stjórn ASÍ-UNG

 

 

Afhending Furulundar 11E fór fram í gær

Framsýn stéttarfélag fékk sjúkra- og orlofsíbúð félagsins á Akureyri afhenda í gær. Íbúðin er í Furulundi 11 E og er 106 m2. Á næstu dögum munu málarar, smiðir og rafvirkjar gera smá lagfæringar á íbúðinni áður en hún fer í útleigu. Ekki er alveg vitað hvenær það verður en íbúðin verður í síðasta lagi komin í útleigu til félagsmanna í byrjun nóvember, hugsanlega um miðjan október.

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar tók við lyklunum af fyrrum eiganda Hermanni Haraldssyni.

 

Velheppnuð sumarferð stéttarfélaganna

Sunnudaginn 15. september stóðu Framsýn, Þingiðn og STH fyrir skemmtiferð á Flateyjardal. Ferðin var í upphafi skipulögð sem sumarferð um miðjan ágúst, en vegna óhagsstæðra veðurskilyrða og vatnavaxta á Flateyjardalnum var ákveðið að bíða til haustsins. Félagsmenn stéttarfélaganna voru strax áhugasamir um að komast í ferðina, en í bæði skiptin sem hún var auglýst var hún fullbókuð.

Haldið var af stað frá Húsavík snemma um morguninn, með rútu frá Fjallasýn, þar sem sjálfur kapteinninn, Rúnar Óskarsson sat við stýrið. Dagurinn, sem heilsaði bjartur og fagur skyldi nýttur vel, haldið var að stað frá Húsavík klukkan 9. að morgni og farþegar tíndir upp í rútuna jafnt og þétt á leiðinni í Fnjóskadalinn, þar sem fararstjórinn, Ósk Helgadóttir í Merki slóst í hópinn. Það hitti vel á þegar komið var niður í Dalsmynni, en Fnjóskdælir á norðurafrétt réttuðu þá um morguninn í Lokastaðarétt, eftir þriggja daga göngur á Flateyjardal. Var vel við hæfi að staldra þar aðeins við, virða fyrir sér fólk og fénað og anda að sér haustilminum af sauðfénu áður en haldið var út „Heiðina“. Stansað var á Réttarhólnum utan við Þverá, sagði Ósk frá virkjunarframkvæmdum á Hólsdal,en vinna við 5.5 MW virkjun hefur staðið þar yfir síðan í maí. Það er hreinn unaður að aka út Heiðina á haustin og fá að njóta allrar litadýrðarinnar sem náttúran býr yfir, sannkallað ævintýraland.

Það er margt að sjá og skoða á þessu fallega landsvæði og Ósk sagði frá lífinu á Heiðinni og Dalnum og lífsbaráttu fólkins sem þar bjó. Söguslóðir Finnboga ramma voru skoðaðar, sagan hans sögð í örstuttri útgáfu og því næst litið inn í Véskvíar, þar sem menn töldu forðum að væri helgur staður. Leiðin út að sjó er hálfnuð við Heiðarhús, þar sem var stansað var um stund, tekin nestispása og teygt aðeins úr útlimunum, því næst haldið sem leið lá út á „Dalinn“að sjó, framhjá fjárhúsum Brettingsstaðamanna á Nausteyri og áfram upp á Víkurhöfðann. Ekki leist nú öllum á blikuna þegar Rúnar bílstjóri hóf að klifra á fjallarútunni áleiðis upp Höfðann, en fljótlega varð þeim efahyggjumönnum ljóst að Rúnar hefði ekki fengið ökuleyfið deginum áður, enda leysti hann verkefnið vel af hendi og hikaði ekki andartak við að bakka niður Höfðann aftur. Næst lá leiðin að Brettingsstöðum. Kirkjugarðinum er vel við haldið af „Brettingum“ og Jökulsárfólki, afkomendum fólksins sem síðast byggði Dalinn. Það var stoppað um stund í garðurinum, hann skoðaður og tekin örstutt sögustund, farið yfir sögu kirkjunnar , en hún var flutt upp á land úr Flatey, en síðan aftur til baka út í eyju nokkrum áratugum síðar. Að endingu var slegið upp grillveislu í boði stéttarfélaganna, í skála Ferðafélags Húsavíkur að Hofi, þar sem öll aðstaða er hreint til fyrirmyndar. Eftir að hafa gert vel við sig í mat og drykk hélt hópurinn síðan heimleiðis. Komið var vel fram á kvöldið þegar síðustu ferðalangarnir skiluðu sér heim, vonandi allir þokkalega sáttir við daginn. Umsjónarmenn ferðarinnar, þau Ósk Helgdóttir varaformaður Framsýnar og Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar og yfirgrillmeistari kunna Rúnari Óskarssyni og einstaklega skemmtilegum þátttakendum í „sumarferðinni sem varð að haustlitaferð“ bestu þakkir fyrir ánægjulega samfylgd.

Þau stóðu vaktina og hafa fengið mikið lof fyrir fararstjórnina, þetta eru þau Ósk Helgadóttir og Jónas Kristjánsson. Stéttarfélögin þakka þeim fyrir vel unninn störf í þágu félaganna. Þá ber að geta þess að Hörður Jónasson tók forsíðumyndina.

 

Velferðasjóður Þingeyinga leitar eftir fjárstuðningi úr samfélaginu

Lífið er margslungið og best þegar allt leikur í lyndi, sólin skín og allir eru frískir. Ekki er þó alltaf svo og þá þarf að bregðast við. Hjálpa meðbræðrum okkar og systrum, sem eru í vandræðum. Í desember 2008 var Velferðasjóður Þingeyinga stofnaður til að styðja við bakið á fjölskyldum og einstaklingum, sem átti um sárt að binda á starfsvæði Félagsþjónustu Norðurþings. Þar voru Þingeyjarsýslurnar báðar undir. Öll störf fyrir sjóðinn eru unnin launalaust. Velferðasjóðurinn er líknarsjóður og getur hver sem er stutt sjóðinn með framlögum. Sjóðurinn er alfarið fjármagnaður með frjálsum framlögum. Núna er farið að grynnka í sjóðnum og því leitum við til ykkar áður en allt verður uppurið. Það fer svona um milljón á ári til styrkveitinga svo við sem höfum með sjóðinn að gera þurfum að vera vakandi til að halda honum lifandi svo að hann geti áfram rækt hlutverk sitt. Við biðjum ykkur að bregðast vel við og láta rakna fé til sjóðsins. 

Sjóðurinn er með bankareikning nr. 1110-05-402610 og kennitalan er 600410-0670 

Með fyrirfram þökk og við í stjórn sjóðsins þökkum fyrir stuðninginn!

sr. Örnólfur á Skútustöðum í Mývatnssveit (formaður sjóðsins.)

 

Lágmarkstekjur fyrir full starf

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf, fullar 173,33 unnar stundir á mánuði (40 stundir á viku), skulu vera sem hér segir fyrir þá starfsmenn sem eftir að 18 ára aldri er náð hafa starfað a.m.k sex mánuði hjá sama fyrirtæki (þó að lágmarki 900 stundir):

  1. apríl 2019 317.000 kr. á mánuði.
  2. apríl 2020 335.000 kr. á mánuði.
  3. janúar 2021 351.000 kr. á mánuði.
  4. janúar 2022 368.000 kr. á mánuði.

Mánaðarlega skal greiða uppbót á laun viðkomandi starfsmanna sem ekki ná framangreindum tekjum, en til tekna í þessu sambandi teljast allar greiðslur, þ.m.t. hverskonar bónus-, álags- og aukagreiðslur, sem falla til innan ofangreinds vinnutíma. Launauppbót vegna lágmarkstekjutryggingar skerðist ekki vegna samningsbundinnar launahækkunar vegna aukinnar menntunar sem samningsaðilar standa sameiginlega að.

Laun fyrir vinnu umfram 173,33 stundir á mánuði og endurgjald á útlögðum kostnaði reiknast ekki með í þessu sambandi.

 

Minning – Jóna Ingvars Jónsdóttir frá Daðastöðum

Jóna Ingvars Jónsdóttir húsfreyja á Daðastöðum í Reykjadal lést þann 7. september síðastliðinn. Útför Jónu fer fram frá Einarsstaðakirkju í Reykjadal í dag kl. 14:00, laugardaginn 14. september.

Hjá Framsýn stéttarfélagi minnumst við látinnar vinkonu úr verkalýðsstarfinu með virðingu og þakklæti, en Jóna starfaði lengi sem trúnaðarmaður starfsmanna í Framhaldsskólanum á Laugum. Við sem vinnum að félagsstörfum hjá stéttarfélögum vitum að góðir trúnaðarmenn eru gulls ígildi og ákaflega mikilvægir hlekkir í starfi stéttarfélaga, en Jóna sinnti starfi trúnaðarmanns að heilindum og fann sig vel í því hlutverki. Hún var ein af þessum þöglu hetjum hversdagslífsins, var ekki þeirrar gerðar að trana sér fram eða láta á sér bera, en hafði sannarlega skoðanir og var ófeimin að láta þær í ljósi, ef svo bar undir. Að leiðarlokum þakka félagar í Framsýn stéttarfélagi fyrir samfylgd góðs félaga og votta fjölskyldu Jónu dýpstu samúð.

 

 

 

Allt klárt fyrir sumarferðina á sunnudaginn

Haustlita- og berjaferð stéttarfélaganna í Flateyjardal verður farin sunnudaginn 15. september.

Lagt verður af stað frá Skrifstofu stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26, klukkan 09:00. Reiknað er með að menn nesti sig sjálfir í ferðina, en boðið verður upp á grillmat og drykki í boði stéttarfélaganna síðdegis. Heimkoma til Húsavíkur er áætluð um kvöldmatarleitið. Þátttökugjaldið er kr. 5.000 fyrir félagsmenn og gesti þeirra. Fararstjórn er í höndum Óskar Helgadóttur og henni til aðstoðar verður Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar. Skráning í ferðina er hjá skrifstofu stéttarfélaganna linda@framsyn.is eða 4646600.

Það er víða fallegt í dalnum fagra. Ekki missa af því.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

 

 

Skattalækkunin reiknuð út

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti nýtt fjárlagafrumvarp á mánudaginn síðastliðinn. Í frumvarpinu má sjá að nýtt skattþrep verður kynnt til sögunnar á næsta ári. Skattþrepið er lágtekjuskattþrep fyrir tekjur undir 325.000 krónur. Skattbreytingin verður gerð í tveimur þrepum, árin 2020 og 2021.

Það getur verið flókið að átta sig á því hvað þetta hefur að segja fyrir hvern og einn. Þess vegna viljum við benda á sniðuga reiknivél þar sem hver og einn getur séð hvaða áhrif þessar lækkanir hafa á sína afkomu.

Reiknivélina má nálgast hér.

Framsýn styrkir verkefnið „Þingeyska snjallkistan“

Þekkingarnet Þingeyinga og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga vinna nú saman að verkefninu Tæknimennt sem byggðaaðgerð sem hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra. Megin markmið verkefnisins er að ýta undir tæknimennt og stafræna færni í grunnskólum á svæðinu enda alveg óhætt að segja að aukin færni á þeim sviðum sé til framtíðar mikilvægt byggðamál.

Hluti af verkefninu er að setja saman spennandi „dótakassa“, sem ber heitið Þingeyska snjallkistan. Þar kennir ýmissa grasa af kennslugögnum sem ætluð eru til að kenna og auka færni nemenda í forritun, kóðun, rafmagnsfræði, rýmisgreind, rökhugsun o.fl. Allt byggir þetta undir tækniþekkingu og -færni barna, viðheldur eðlislægri forvitni þeirra og frumkvöðlahæfileikum. Í kistunni er einnig er að finna vínylskera og hitapressu sem hægt er að nota til að búa til vegglímmiða, stensla, fatamerkingar o.fl. Tæknin við slíka vinnu er til að mynda sú sama og notuð er hjá trésmíðafyrirtækjum við fræsara.

Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra styrkti verkefnið og skilyrði fyrir styrkveitingunni er að aflað yrði fjár á móti frá vinnustöðum á svæðinu til að kosta kaup á búnaði í kistuna. Því hefur verið ákveðið að leita til fyrirtækja og félagasamtaka á svæðinu um að taka þátt í verkefinu. Markmiðið er að safna kr. 500.000 þúsund og margt smátt gerir eitt stórt.

Þingeyska snjallkistan stendur öllum grunnskólum á starfssvæði ÞÞ og AÞ til boða og hún mun ganga á milli skólanna í vetur og næsta vetur þar sem verkefnið er hugsað til tveggja ára. Kennarar fá því gott tækifæri til að kynnast þessum kennslugögnum, sem vonandi örvar áhuga þeirra og gerir þeim auðveldara að velja góð tæki til kennslu þegar kemur að tæknimenntun. Snjallkistan hefur þegar verið kynnt skólunum á svæðinu og framundan eru að auki „dótadagar“ fyrir kennara sem er frekari kynning á snjallkistunni og tækifæri fyrir kennara til að prófa gögnin sem í þeim eru áður en kisturnar fara á flakk. Að loknu verkefninu verður skólunum á svæðinu gefið dótið.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar telur að um sé að ræða mjög áhugavert verkefni og hefur samþykkt að leggja því til kr. 100.000,-. Ákvörðun þess efnis var tekin á fundi í vikunni.

 

 

Félagsmenn Framsýnar fá hækkun kr. 125.000 – á við um starfsmenn sveitarfélaga

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefndir Starfsgreinasambands Íslands og Eflingar – stéttarfélags hafa undirritað samkomulag um endurskoðun viðræðuáætlunar aðila þar sem stefnt er að gerð nýs kjarasamnings fyrir 20. október næstkomandi. Jafnframt drógu SGS og Efling – stéttarfélag til baka vísun kjaradeilu aðila til ríkissáttasemjara. Rétt er að taka fram að Framsýn á aðild að þessum samningi.

Þann 1. október 2019 verður hverjum starfsmanni greidd innágreiðsla á væntanlegan kjarasamning að upphæð 125.000 kr. miðað við fullt starf hjá sveitarfélagi. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. september 2019.  Starfsmenn í fæðingarorlofi og tímavinnufólk fær innágreiðsluna.

Það er sameiginlegur skilningur aðila að ofangreind fjárhæð sé hluti fyrirhugaðra launabreytinga á gildistíma hinna endurnýjuðu kjarasamninga aðila og verði metinn sem hluti af kostnaðaráhrifum þeirra.