Iðnaðarmenn skilja ekkert í sameiningu atvinnuþróunarfélaga

Stjórn Þingiðnar fundaði síðasta fimmtudag. Mörg mál voru á dagskrá fundarins. Meðal annars urðu umræður um sameiningu atvinnuþróunarfélaganna í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði við Eyþing sem er samstarfsvettvangur sveitarfélaga á Norðurlandi. Stjórnarmönnum leist afar illa á sameiningu þessara þriggja félaga/stofnanna og töldu hana ekki vera til hagsbóta fyrir atvinnu- og byggðamál í Þingeyjarsýslum. Veruleg hætta væri á því að sameiningin leiddi til þess að ákveðið frumkvæði fyrir þróun og atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum legðist af. Fyrir liggur að meirihluti stjórnar verður í höndum sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu og ekki er ólíklegt að megin starfsemi félagsins verði á Akureyri. Til viðbótar má geta þess að Akureyringar kröfðust þess að fá stjórnarformennskuna í nýja félaginu. Á næstu vikum verður ráðinn framkvæmdastjóri fyrir sameinað félag sem gengur undir starfsheitinu Norðurbrú.

Þess má geta að stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hefur verið skipuð fulltrúum frá sveitarfélögum, atvinnurekendum og stéttarfélögum í Þingeyjarsýslum. Það er góður samstarfsvettvangur fyrir atvinnu- og byggðamál í héraðinu. Ekki er reiknað með aðkomu aðila vinnumarkaðarins í stjórn nýja félagsins auk þess sem þrír sveitastjórnarmenn í Þingeyjarsýslum verða í stjórn af sjö manna stjórn, það er í minnihluta stjórnar Norðurbrúar.

Deila á