Aðventuræða í Þóroddstaðakirkju

Það er margt sem rekur á fjörur manns á lífsins leið, sumt fyrirsjáanlegt en annað ekki og það flokkast sannarlega undir það ófyrirséða að mér skuli hlotnast sá heiður að ávarpa ykkur hér í dag.

Jólin eru hátíð ljóss­ins, kær­leik­ans og von­ar­inn­ar og frá örófi alda hefur fólk fagnað þessum tíma. Eftir myrka vetr­ar­mán­uði og kulda fer sólin aftur að hækka á lofti og dag­inn að tekur að lengja. Við þurfum á ljósinu að halda hverju sem við trúum og sennilega taka flestir Íslendingar þátt í jólahaldinu með einum eða öðrum hætti. Jólin koma og þau eru í mínum huga hafin yfir öll trúarbrögð.

Á þessum árstíma leitar hugur minn gjarnan til bernskunnar. Því finnst mér fara vel á því að ég reyni að draga upp svipmynd af bernskujólum fjölskyldu austur á Bakkagerði fyrir um það bil hálfri öld. Við vorum þrjú systkinin sem þá voru fædd og einungis þrjú ár skildu að það elsta og yngsta. Það var því oft „kátt í kotinu“ og mér er sagt að við höfum verið ansi lífleg, svo ekki sé meira sagt. Við áttum nokkrar kindur, eina kú og hundinn Gutta, sem var okkur mjög kær og nánast eins og einn úr fjölskyldunni. „Hann pabbi er samt ekki pabbi hans“ útskýrði eldri bróðir fyrir litlu systur, sem vissi ekkert um lífið, „það er einhver allt annar hundur“.

Á þessum tíma voru menn ekki búnir að finna upp orðið „neyslusamfélag“. Ég efast líka um að nokkur maður í minni sveit hafi þekkt til stórmarkaða eða verslunarmiðstöðva og hugtakið netverslun hefði sennilega verið sett í samband við girðingarefni bænda. Allt sem fólk  þarfnaðist fékkst í Kaupfélaginu og  væri það ekki til þar, var það ekki talið nauðsynlegt. Reyndar voru örlitlar  undantekningar þar á, því fyrir kom að framsýnar húsmæður pöntuðu úr Hagkaupslistanum, þá oftast sloppa til að nota við eldhússtörfin eða nærföt handa börnunum. Þjóðin var almennt ekki þurftarfrek á þessum tíma, því flest allt var endurnýtt. Föt okkar systkinanna voru oft af öðrum börnum og gengu síðan áfram til einhverra annara barna eftir að við uxum upp úr þeim. Þetta heitir víst í dag endurnýting og það þykir mörgum fínt að versla í svokölluðum „second hand“ búðum.

Á áliðnu sumri var frystihúsinu breytt í sláturhús, bátar voru settir og bændur smöluðu fé sínu til réttar. Fuglasöngurinn hljóðnaði, hrímfölið settist að í fjallatoppunum og færðist neðar með degi hverjum. Fullorðna fólkið, aðallega þó karlarnir unnu við sláturhúsið, en samhliða þeirri vinnu voru byggðar litlar fjárréttir af minna fólki heima við bæi. Þeim var skipt skipulega niður í almenning og dilka með snærisspottum, sem festir voru niður með hælum. Þannig yfirfærðum við börnin streð bændasamfélagsins yfir á leik bernskunnar, endurspegluðum veröld fullorðna fólksins og æfðumst smám saman í því að verða samfélagslega virkir einstaklingar. Við rákum til Víkna, rúðum, smöluðum, settum á, keyptum og seldum gimbrar og hrúta. Upplifðum jafnvel óttann við heyleysið. Þegar leið á haustið og sláturtíð lauk, lognaðist búskapurinn okkar einnig út af og doði færðist yfir samfélagið. Það var  eins og allt hægði á sér, líka tíminn. Og það var ekki einu sinni komið sjónvarp í svarthvítu.

Flestar mæður og ömmur voru heimavinnandi á þessum tíma, krakkar léku sér þegar ekki var skóli. Það var ekki mikið til af tilbúnum leikföngum, við vorum mest úti og leiksvæði var á milli fjalls og fjöru. Við urðum þess sjaldan vör að fylgst væri með okkur, en mæður okkar hafa eflaust gripið inn í ef við gengum of langt í vitleysunni. Enda segir einhvers staðar að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn.

Biðin eftir jólunum var litlum börnum löng. Í byrjun desember var dreginn fram  gamli jólasveininn, sprellikarl með gluggum sem opnaðir voru samviskusamlega síðustu 24 dagana fyrir jól. Síðan var þeim lokað aftur, en fyrir næstu jól var sveinki aftur dreginn fram og þannig gekk það ár frá ári. Meðan sveinki entist. Það fylgdi því alltaf gleði að opna gluggana þó það væru sömu myndirnar sem birtust ár eftir ár, jólabjöllur, dádýr, jólasveinar og grenitré. Það var líka sérstakur heiður sem féll í skaut þess sem fékk að opna á aðfangadag, stærsta gluggann og flottustu myndina, af litlu fjölskyldunni í fjárhúsunum og barninu í jötunni. Einum jólum fylgdi þó sérstök gleði, þegar einn morguninn í byrjun aðventu, alveg óumtalað, var komið ofurlítið barn í vöggu inni í stofu. Okkar jólabarn.

Þegar leið á jólamánuðinn fór heldur að lifna í kotinu og skyndilega voru ótal verk sem þurfti að vinna. Hreingera skyldi hvern einasta blett í húsinu, ekki upp úr einu vatni heldur tveimur, fyrst með sápuvatni, svo með hreinu vatni. Það þurfti að mála, sauma föt á börnin og auðvitað þurfti mamma að baka ótal sortir af smákökum, sem geymdar voru í baukum í búrinu og lokin límd tryggilega aftur. Síðustu dagana fyrir jólin lagði hún nótt við dag til að ná því að gera allt sem þurfti og þá var stundum handagangur í öskjunni.

Farnar voru aðdráttarferðir í Kaupfélagið, hillurnar í búrinu fylltust af góðgæti og það var hangikjötsilmur í lofti. Það var meira segja keypt malt, appelsín og kók, ein flaska á mann… og eplakassi. Pabbi þurfti  að sinna fjárhúsunum, setja hrútinn í ærnar og dytta þar að ýmsu smálegu. Í minningunni voru það bestu stundirnar, þegar við feðginin sátum saman á garðabandinu eftir að hafa gefið fénu jólagjöfina. Nutum þess að hlusta á jórtrið í ánum og skrjáfið í ilmandi töðunni.

Hápunktur jólaundirbúningsins náðist á Þorláksmessu. Jólakveðjur til allra landsmanna voru lesnar á Rás 1, einu útvarpsstöðinni sem í boði var. Síðasta aðdráttarferðin var farin í Kaupfélagið, hlaupið með síðastu kortin og pakkana til vina og vandamanna og þegar búið var að kveikja á úti jólaseríunum tveimur sem til voru í þorpinu var jólastemmingin komin í hús. Öfugt við það sem er í dag þegar fólk nýtur upplifunarinnar af því að slökkva ljósin til að geta notið myrkursins, glöddumst við yfir ljósunum sem lýstu upp biksvart myrkrið.

Húsið okkar stóð ögn ofan við þorpið og önnur serían blasti við að heiman, úti á Bökkum þar sem þrír skólabræður okkar áttu heima, fæddir eins og við á sitthvoru árinu og áttu einnig rétt eins og við lítið systkini. Ég öfundaði þá bræður af ríkidæminu þegar marglit ljósin lýstu upp kolsvart skammdegismyrkrið, gul, rauð, græn og blá, naut þess að sitja við gluggann uppi á loftinu og virða þau fyrir mér áður en síðasta athöfn Þorláksmessukvölds var framkvæmd, sjálft jólabaðið.

Jólabaðið fór þannig fram að hitað var vatn í stórum þvottapotti, gamli járnbalinn fékk sitt pláss á eldhúsgólfinu og vorum við týnd ofan í, eitt af öðru, ég fyrst, svo strákarnir. Líklega hef ég notið smæðar minnar þá, því ég man eftir að hafa látið foreldra mína halda á mér upp í rúm eftir baðið, til að þurfa ekki snerta gólfið og óhreinka litlu hreinu tásurnar. Það var gott að skríða undir hrein sængurfötin, í splunkunýjum náttfötum, minning sem kallar einhver notalegheit fram í hugann.

Á aðfangadagsmorgun var ævinlega búið að læsa inn í stofu, foreldrar okkar höfðu vakað fram eftir við að skreyta og ganga frá jólagjöfunum. Þegar jólin hringdu inn var borðaður hátíðarmatur, hangikjöt, rjúpur, eða lambalæri, með meðlæti. Það sem toppaði máltíðina var auðvitað gosið, munaðarvara sem var ekki á borðum á öðrum tímum ársins. Það voru ekki jólagjafir á þessum tíma í líkingu við þær sem gefnar eru í dag, hvorki tölvuleikir, snjallúr, né annað slíkt, en mögulega bók eða spil. En ég tel næsta víst að gleðin og þakklætið yfir gjöfunum hafi ekki verið síðra en það sem gerist í dag, þegar helsta vandamálið við að velja jólagjafirnar er að velja eitthvað sem menn eiga ekki þegar.

Þetta voru jólaminningar bernsku minnar. Þær hljóma kannski einfaldar og klisjukenndar fyrir ykkur sem yngri eruð og þið hugsið eflaust um hvað við hljótum að hafa verið fátæk. Það vorum við sannarlega, en samt vorum við rík. Áttum bæði föður og móður, en það voru ekki allir jafnaldrar okkar svo heppnir.

Tveimur árum eftir að litla jólabarnið bættist hópinn og fyllti húsið okkar gæfu og gleði gerðist það, einnig í byrjun aðventu að faðir skólabræðra okkar á Bökkunum hvarf í hafið. Eftir stóð ekkja með fjóra unga syni. Aðventan var myrk það árið og sorgin lamaði heilt samfélag. Jólin voru óþægileg og kannski komu þau ekki. Jafnvel jólaserían á Bökkunum glataði sjarma sínum. Öfund var fjærst allra hugsana lítillar stelpu sem á Þorláksmessukvöldi virti fyrir sér marglit ljós seríunnar, en þau náðu ekki að vinna þunga myrkursins úr hjartanu.  Þegar sorgin knýr dyra í litlu samfélagi eru samkennd og kærleikur aldrei langt undan, við erum öll hvert öðru tengd og allir finna til.

Tíminn sniglaðist áfram og samfélagið allt hjálpaðist að við að rífa sig upp úr doðanum, til að lífið gæti gengið fyrir sig eins eðlilega og hægt var við þessar aðstæður. Allir tóku þar þátt. Líka við börnin. Þá tíðkaðist ekki að tala um hlutina, en einhvern vegin hélt lífið áfram og smám saman hækkaði sólin aftur á lofti.

Ég hef trúað ykkur hér fyrir því sem ég kalla aðventuheilkennið mitt. Það eru meðal annars minningar bernskujólanna sem hjálpa mér að skynja lífið, sjá í gegnum skrum og markaðshyggju og vinsa úr það sem skiptir máli. Hvað sem líður trúarbrögðum njótum við flest hátíðarinnar sem jólin eru, þau hafa einhvern ytri ramma og inn i hann stillum við því sem okkur finnst skipta mestu máli. Við þurfum öll á ljósinu að halda á dimmasta tímanum hvernig sem við skilgreinum lífið og tilgang þess, en fyrir mér felst gleði jólanna í samveru við þá sem mér þykir vænst um og því að vita að þeim líður öllum vel. Ég óska ykkur öllum kærleiksríkra jóla og farsældar á komandi ári.

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila á