Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar fór fram í gær í fundarsal félagsins. Góð mæting var á fundinn og að venju urðu fjörugar umræður um málefni sjómanna auk þess sem ályktun um raforkumál var samþykkt samhljóða. Gengið var frá kjöri á stjórn deildarinnar auk þess sem töluverðar umræður urðu um kjaramál á fundinum enda kjarasamningar lausir um þessar mundir. Undir þeim lið kom fram að sjómenn leggja mikla áherslu á að tekið verði á verðmyndunarmálum, veikindarétti sjómanna í skiptimannakerfum, framlög útgerða í lífeyrissjóði verði aukin, orlofsréttur sjómanna verði lagaður, bókunum sem gengið var frá í síðustu kjarasamningum verði fylgt eftir, fjarskiptakostnaður sjómanna verði tekinn til endurskoðunar og afnám sjómannaafsláttarins verði leiðréttur gagnvart kjörum sjómanna. Þá töldu fundarmenn að rödd Sjómannasambandsins út á við þyrfti að vera miklu sterkari.
Á aðalfundinum var gengið frá kjöri á nýrri stjórn deildarinnar, hana skipa:
Jakob Gunnar Hjaltalín formaður
Börkur Kjartansson varaformaður
Aðalgeir Sigurgeirsson ritari
Aðalsteinn Steinþórsson meðstjórnandi
Gunnar Sævarsson meðstjórnandi
Heiðar Valur og Björn Viðar gengu úr stjórn þar sem þeir eru ekki lengur kjörgengir þar sem þeir hafa ráðið sig á fiskiskip sem ekki eru skráð á Íslandi. Þeim voru þökkuð vel unnin störf í þágu deildarinnar. Í þeirra stað komu, Aðalsteinn Steinþórsson og Gunnar Sævarsson.
Meðfylgjandi þessari umfjöllun er skýrsla stjórnar sem formaður Sjómannadeildarinnar, Jakob Gunnar Hjaltalín flutti sem og ályktun fundarins um raforkumál.
Ágætu sjómenn!
Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári. Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi Sjómannadeildar Framsýnar á starfsárinu 2019, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á árinu sem er að líða.
Fjöldi sjómanna í deildinni:
Alls voru 95 sjómenn skráðir í deildina í árslok 2018, það eru starfandi sjómenn og þeir sjómenn sem hætt hafa sjómennsku vegna aldurs eða örorku. Af þessum 95 sjómönnum greiddu 87 sjómenn félagsgjald til félagsins á árinu 2018. Tölur fyrir 2019 liggja ekki fyrir en ljóst þykir að sjómönnum innan deildarinnar hefur fækkað umtalsvert á árinu sem er að líða.
Formannafundur og kjaramál:
Núgildandi kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og SFS rann út 1. Desember 2019. Sjómannasambandið kallaði í haust eftir kröfum aðildarfélaga sambandsins. Tillögurnar voru síðan teknar fyrir og kröfugerð mótuð á formannafundi sem haldinn var á Neskaupstað 7. Og 8. Nóvember 2019. Því miður komst formaður deildarinnar ekki á fundinn vegna veikinda. Sjómenn innan Sjómannadeildar Framsýnar svöruðu kalli deildarinnar og skiluðu inn tillögum að kröfum, þær eru helstar:
- Nýsmíðaálag verði tekið strax af.
- Ákvæði þar sem talað er um að áhöfn sjái um ísun og frágang á fiski sem fer í útflutning verði tekið út. Ákvæðið á ekki við í dag þar sem aflinn fer að mestu leyti til skyldra aðila í beinni sölu en ekki á uppboðsmarkað eins og þetta var hugsað áður fyrr.
- Verðmyndun á fiski verði endurskoðuð, það er þegar útgerðir landa fiski í eigin vinnslu, búið að vera gott verð í allt sumar á innlendum og erlendum mörkuðum í þorski en ekkert breyst hjá Verðlagsstofu.
- Þátttaka sjómanna í olíukostnaði endurskoðuð.
- Fáránlega hár fjarskiptakostnaður rukkaður hjá sumum útgerðum, 3000 kr per GB td hjá Samherja.
- Framlög útgerða í lífeyrissjóði sjómanna verði hækkuð til samræmis við aðra launamenn á Íslandi.
- Þá er óánægja meðal sjómanna með eftirfylgni samningsaðila með bókunum sem fylgdu síðustu kjarasamningum.
Kröfunum var komið á framfæri við Sjómannasambandið fyrir formannafundinn á Neskaupstað. Þær eru því að finna í kröfugerð sambandsins. Samninganefnd Sjómannasambandsins boðaði til fundar í Reykjavík 16. Desember um kjaramál og næstu skref í kjarabaráttunni. Jakob Gunnar Hjaltalín tók þátt í fundinum og fylgdi eftir kröfugerð sjómanna innan Framsýnar. Áður hafði stjórn Framsýnar skipað Jakob sem aðalmann í samninganefnd Sjómannasambandsins og Aðalstein Árna formann félagsins sem varamann fyrir Jakob. Frekari gögn sem hafa verið lögð fram og viðkoma kjaramálum eru meðfylgjandi þessari skýrslu.
Hvalaskoðun – kjarasamningar:
Sjómannadeild Framsýnar mun boða til fundar með starfsmönnum hvalaskoðunarfyrirtækja í byrjun næsta árs varðandi samning félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna hvalaskoðunarfyrirtækja á Húsavík. Samtök atvinnulífsins hafa fallist á að hefja viðræður við Framsýn á nýju ári um endurnýjun á gildandi samkomulagi sem er frá árinu 2016.
Stjórnarmenn og fundir:
Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Heiðar Valur Hafliðason varaformaður, Björn Viðar ritari og Börkur Kjartansson og Aðalgeir Sigurgeirsson meðstjórnendur. Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund á árinu auk þess sem stjórnarmenn voru í símasambandi þegar á þurfti að halda. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Þar hefur hann fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við stjórn og starfsmenn Framsýnar. Sjómannadeild Framsýnar og reyndar aðalstjórn félagsins kom jafnframt að ýmsum málum er varða sjómenn á starfsárinu. Formaður deildarinnar hefur einnig sótt fundi á vegum Sjómannasambandsins á hverjum tíma. Þá má geta þess að Sjómannadeild Framsýnar hefur boðið Sjómannasambandinu að halda fund á Húsavík. Það er stjórnarfund, fund vegna mótunar kröfugerðar eða næsta þing sambandsins. Boðið er til skoðunar hjá forsvarsmönnum sambandsins.
Heiðrun sjómanna og sjómannadagurinn:
Að venju stóð Sjómannadeildin fyrir heiðrun á sjómannadaginn. Að þessu sinni var ákveðið að heiðra Hermann Ragnarsson og Jakob Gunnar Hjaltalín fyrir sjómennsku til fjölda ára. Ekki þarf að taka fram að formaður Sjómannadeildarinnar kom ekki að valinu í ár. Sjómannadeildin kom að því að styrkja hátíðarhöld sjómannadagsins á Húsavík og á Raufarhöfn með fjárstuðningi auk þess að standa fyrir sumarkaffi á Raufarhöfn á föstudeginum fyrir sjómannadaginn. Deildin hefur gert það í nokkur ár, en kaffiboðið hefur notið mikilla vinsælda meðal sjómanna, bæjarbúa og gesta sem átt hafa leið um Raufarhöfn.
Fræðslumál:
Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess komið að því að styðja við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi.
Skrifstofa stéttarfélaganna:
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 7 starfsmenn á skrifstofunni. Þar af er einn í 50% starfi við vinnustaðaeftirlit og þá er einn starfsmaður í hlutastarfi við þrif og ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í 0,5% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim 7 starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði.
Öflugt starf og upplýsingamál:
Almennt hefur starfsemi Framsýnar gengið vel á árinu, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra- og starfsmenntasjóðum. Þá undirritaði félagið á dögunum nýjan samning við Flugfélagið Erni sem tryggir félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör á flugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur á árinu 2020. Fargjaldið verður áfram kr. 10.300 frá og með næstu áramótum. Síðar á árinu eða í haust hækkar verðið í kr. 10.900,-. Þannig tryggir Framsýn félagsmönnum áfram fargjald sem er aðeins hluti af fullu flugfargjaldi milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Framsýn bætti einnig við sig sjúkra- og orlofsíbúð á Akureyri á árinu 2019. Íbúðin er í raðhúsi að Furulundi 11 E. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma.
Í lokin vil ég þakka sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum. Þá vil ég þakka þeim sem falla úr stjórn deildarinnar sérstaklega fyrir vel unnin störf í þágu deildarinnar á umliðnu starfsári.
Ályktun
-Um óöryggi og brothætt raforkukerfi-
„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir megnri óánægju með aðgerðarleysi hins opinbera í raforkumálum. Í nýliðnu óveðri kom augljóslega í ljós að núverandi dreifikerfi raforku á Norðurlandi er ekki á vetur setjandi. Sú staðreynd hefur reyndar lengi legið fyrir enda skort verulega á að eðlilegu viðhaldi á dreifikerfinu væri sinnt.
Það er ólíðandi með öllu að fólk þurfi að búa við fjarskipta- og rafmagnsleysi sólarhringum saman árið 2019, svo ekki sé talað um atvinnulífið sem treysta þarf á örugga raforku.
Ljóst er að tjónið vegna rafmagnsleysisins er verulegt og hleypur á milljörðum króna. Án efa hefði verið hægt að draga verulega úr tjóni af völdum óveðursins hefði eðlilegri innviðauppbyggingu verið sinnt í gegnum tíðina í stað þess að láta það sitja á hakanum. Vissulega er það athyglisvert að rafmagnsstaurar hafi brotnað eins og tannstönglar í óveðrinu, það hlýtur að segja töluvert um ástand þeirra.
Stjórnvöld verða að bregðast við þessum alvarlega vanda í samráði við raforkufyrirtækin og íbúa þeirra sveitarfélaga sem búa við þessar óboðlegu aðstæður.
Framsýn krefst þess að ráðist verði í lagfæringar á dreifikerfinu þegar í stað svo aðstæður sem þessar endurtaki sig ekki. Nú þegar ákveðin efnahagslægð er í þjóðfélaginu er fátt betra en að ráðast í uppbyggingu á raforkukerfinu á landsbyggðinni, það er fjárfesting sem skilar sér beint aftur til þjóðarbúsins.
Þá er ekki annað hægt en að þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum raforkufyrirtækja og verktaka sem komu að því að koma rafmagninu í lag, fyrir þeirra ómetanlegu störf, oft við mjög hættulegar aðstæður. Það sama á við um þá björgunarsveitarmenn sem stóðu vaktina í óveðrinu. Þeim verður seint þakkað að fullu fyrir þeirra frábæra starf í þágu samfélagsins.“
Jakob Gunnar Hjaltalín var endurkjörinn sem formaður Sjómannadeildar Framsýnar. Hann var lengi til sjós og hefur í gegnum tíðina verið mikill baráttumaður fyrir bættum kjörum sjómanna.