Bullandi óánægja með sameiningu atvinnuþróunarfélaga

Sameining Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga(AÞ), Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Eyþings í eitt félag voru til umræðu á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar í gær. Stjórn og trúnaðarráð samanstendur af félagsmönnum Framsýnar í Þingeyjarsýslum. Innan Framsýnar eru hátt í 4.000 félagsmenn.

Fram kom megn óánægja með  sameiningu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Eyþings. Reyndar urðu mjög heitar umræður undir þessum lið. Menn voru sammála um að þetta væru mikil mistök að hálfu þeirra sem hefðu keyrt þetta mál í gegn, ekki síst sveitarstjórnarmanna í Þingeyjarsýslum. Sameinað félag nefnist; Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE).

Fram að þessu hefur stjórn AÞ verið skipuð fulltrúum sveitarfélaga, atvinnurekanda og stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum. Samstarf þessara aðila að atvinnumálum í héraðinu hefur verið til mikils sóma svo eftir hefur verið tekið. Nú ber svo við að tekin hefur verið ákvörðun um að sameina þessar þrjár stofnanir í SSNE. Ný stjórn verður skipuð fjórum sveitarstjórnarnarmönnum úr Eyjafirði og þremur úr Þingeyjarsýslum. Akureyringar kröfðust þess að fá stjórnarformanninn auk þess sem Eyfirðingar verða í meirihluta í stjórn og þá verður framkvæmdastjórinn með aðsetur á Akureyri. Ekki er gert ráð fyrir aðkomu stéttarfélaga eða atvinnurekanda að nýrri stjórn SSNE.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, sem situr í stjórn AÞ fyrir stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum sagðist hafa lagt fram yfirlýsingu á stjórnarfundi AÞ í gær þar sem honum væri verulega misboðið, sameiningin væri ekki skref fram á við til að efla atvinnulíf, mannlíf eða búsetuskilyrði í Þingeyjarsýslum. Þar hefði hann gert grein fyrir andstöðu sinni og Framsýnar út í sameininguna. Þá sagði hann að ýmsir sveitarstjórnarmenn í Þingeyjarsýslum væru búnir að átta sig á því að sameiningin hefði þróast í aðra átt en þeir hefðu ætlað í upphafi. Þeir væru verlega ósáttir við það og komið því vel á framfæri við hann. Í upphafi hafi verið talað um að aðalstöðvarnar yrðu á Húsavík. Nú væri ekki lengur talað um það og allir starfsmenn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hefðu fengið uppsagnarbréf. Framtíð þeirra hjá AÞ væri því óljós.

Yfirlýsing

Lögð fram á stjórnarfundi í Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga 29. janúar 2020.

Undirritaður, stjórnarmaður í Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, gerir alvarlegar athugasemdir við sameiningu félagsins við Eyþing og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar undir nafninu; Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Aðvörunarorð sem undirritaður hefur viðhaft í aðdraganda sameiningar hafa því miður flest ef ekki öll gengið eftir. Til viðbótar hefur verið illa haldið á málinu frá upphafi.

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hefur í gegnum tíðina gengt mikilvægu hlutverki í Þingeyjarsýslum. Tilgangur félagsins hefur verið að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á starfssvæðinu og veita samræmda og þverfaglega ráðgjöf og þjónustu tengda atvinnulífi, samfélags- og byggðaþróun. Markmið félagsins hefur auk þess verið að stuðla að jákvæðri þróun atvinnumála, bæta almenn búsetuskilyrði á starfssvæðinu og auka nýsköpun og arðsemi í atvinnulífinu.

Þá hefur félagið komið að margvíslegum verkefnum s.s. verkefninu „Brothættar byggðir“ sem hófst árið 2014 á vegum Byggðastofnunar. Markmiðið með verkefninu hefur verið að styðja við byggð og stöðva fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og sveitum á Íslandi s.s. í Öxarfirði, Raufarhöfn og Bakkafirði. Hvað verkefnið varðar hefur Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga verið í forystuhlutverki í héraðinu og unnið náið með Byggðastofnun, íbúum og hagsmunaaðilum á viðkomandi svæðum.

Frá fyrstu tíð hefur verið kappkostað að stjórn Atvinnuþróunarfélagsins á hverjum tíma endurspegli skoðanir og hagsmunni sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins í Þingeyjarsýslum. Stjórnin hefur verið skipuð fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að félaginu auk fulltrúa frá atvinnurekendum (SANA) og stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum. Í gegnum tíðina hefur samstarf þessara aðila verið til mikillar fyrirmyndar er viðkemur hagsmunum fyrirtækja, stofnana og íbúa á svæðinu, það er verið á jafnréttisgrundvelli. Reyndar verið ákveðin fyrirmynd þar sem fulltrúar atvinnulífsins hafa auk sveitarstjórnarmanna átt fast sæti í stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Þrátt fyrir stærð Norðurþings hefur sveitarfélagið ekki gert kröfu um stjórnarformennsku í félaginu.

Nú ber svo við að pólitíkin hefur ákveðið að rústa þessu samstarfi með því að leggja af starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og sameina það Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og Eyþingi. Allir starfsmenn Atvinnuþróunarfélagsins hafa fengið uppsagnarbréf og vita því lítið um sína framtíð.

Kjörin hefur verið sjö manna stjórn skipuð sveitarstjórnarmönnum, það er fjórum fulltrúum frá sveitarfélögum við Eyjafjörð og þremur frá sveitarfélögum úr Þingeyjarsýslum. Til að tryggja vægi Akureyrar gerði sveitarfélagið kröfu um að stjórnarformaðurinn komi ávallt frá Akureyri auk þess sem sveitarfélagið verði með tvo stjórnarmenn til að tryggja stöðu sína enn frekar. Í nýrri stjórn er ekki gert ráð fyrir aðkomu fulltrúa frá atvinnulífinu. Þannig flyst valdið sem var til staðar hjá sveitarstjórnarmönnum og aðilum vinnumarkaðarins í Þingeyjarsýslum í atvinnumálum vestur um til Akureyrar.

Þrátt fyrir að ákveðið hafi verið á aukaaðalfundi Eyþings 9. apríl 2019 að starfsstöðin á Húsavík yrði jafnframt aðalskrifstofa félagsins fyrir sameinað félag virðist sem það ætli ekki að ganga eftir þar sem í endanlegum samþykktum félagsins er talað um að varnarþing félagsins verði á Húsavík. Ekki er lengur talað um að aðalskrifstofa félagsins verði á Húsavík, hvað þá að framkvæmdastjórinn hafi fasta viðveru þar.

Þá vekur athygli að Capacent sem var falið að koma að ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra taldi ekki ástæðu til að auglýsa á starfsvæði Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga eftir framkvæmdastjóra fyrir nýtt sameinað félag á Norðurlandi. Þess í stað var auglýst í miðlum á Akureyri. Eftir að undirritaður gerði athugasemd við auglýsinguna var honum þakkað fyrir ábendinguna s.br. eftirfarandi svar; „Takk fyrir ábendinguna, mjög góður punktur. Auglýsingin mun á næstunni birtast í Skránni.“

 Fyrir liggur að búið er að ráða framkvæmdastjóra fyrir sameinað félag og vil ég nota tækifærið og óska honum velfarnaðar í starfi um leið og ég gagnrýni stjórn Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra harðlega fyrir að sniðganga Reinhard Reynisson framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga sem var meðal umsækjanda.

Reinhard hefur langa og viðtæka reynslu á sviði atvinnuþróunar og starfsemi sveitarfélaga enda fyrrverandi sveitarstjóri og sveitarstjórnarmaður. Þá hefur hann gengt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir ýmsa aðila og samtök er viðkoma málefnum sem koma til með að falla undir frekari atvinnuþróun og starfsemi sveitarfélaga á Norðurlandi eysta.

Stjórn SSNE skuldar stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga rökstuðning fyrir þessari ákvörðun að horfa fram hjá ráðningu Reinhards Reynisonar í starf framkvæmdastjóra.

Að lokum vill undirritaður lýsa yfir fullum stuðningi við störf  Reinhards Reynisonar í þágu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga um leið og honum eru þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins sem framkvæmdastjóri og fyrir ánægjulegt samstarf að málefnum félagsins í gegnum tíðina.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
fulltrúi stéttarfélaganna í stjórn AÞ

 

 

Auglýsing um kjör í stjórnir, ráð og nefndir á vegum Framsýnar kjörtímabilið 2020-2022  

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í gær, fimmtudaginn 30. janúar, og gekk frá tillögum um félagsmenn í stjórnir, ráð og nefndir á vegum félagsins fyrir næsta kjörtímabil sem eru tvö ár. Áður hafði kjörnefnd félagsins komið með tillögu um félagsmenn í þessar stöður sem kynntar voru á fundinum. Eftir umræður um tillögur kjörnefndar var samþykkt að leggja þær fram óbreyttar og auglýsa þær á heimasíðu félagsins og Fréttabréfi stéttarfélaganna sem kemur út á næstunni.

AÐALSTJÓRN:                                                      Vinnustaður:
Aðalsteinn Árni Baldursson    Formaður                   Skrifstofa stéttarfélaganna
Ósk Helgadóttir                    Varaformaður             Þingeyjarsveit – Stórutjarnaskóli
Elva Héðinsdóttir                  Ritari                         PwC- Húsavík
Jakob G. Hjaltalín                 Gjaldkeri                   ÚA – Þurkun Laugum
Sigurveig Arnardóttir            Meðstjórnandi            Hvammur, heimili aldraðra
Svava Árnadóttir                  Meðstjórnandi            Norðurþing – Raufarhöfn
Torfi Aðalsteinsson               Meðstjórnandi            Jarðboranir hf.

VARASTJÓRN:
Aðalsteinn Gíslason                                              Fiskeldið Haukamýri ehf.
Agnes Einarsdóttir                                               Hótel Laxá ehf.
María Jónsdóttir                                                  Fatahreinsun Húsavíkur sf.
Þórir Stefánsson                                                  Vegagerðin
Gunnþórunn Þórgrímsdóttir                                  Norðurþing – Leiksk.Grænuvellir
Börkur Kjartansson                                              Brim hf.

TRÚNAÐARRÁÐ:
Þráinn Þráinsson                                                     Víkurraf ehf.
Guðmunda Steina Jósefsdóttir                                  Þingeyjarsveit-Þingeyjarskóli
Ölver Þráinsson                                                       Norðlenska ehf.
Valgeir Páll Guðmundsson                                        Sjóvá Almennar hf.
Hermann Aðalsteinsson                                            PCC BakkiSilicon hf.
Guðlaug Anna Ívarsdóttir                                         Norðurþing – Öxarfjarðarskóli
Sverrir Einarsson                                                     Heimavinnandi
Guðný Ingibjörg Grímsdóttir                                     ÚA – Þurkun hf. Laugum
Þórdís Jónsdóttir                                                      Þingeyjarsveit – Þingeyjarskóli
Sigrún Hildur Tryggvadóttir                                       PCC BakkiSilicon hf.
Sigurður Jón Kristmundsson                                      Íslandsbleikja ehf.
Kristján Marinó Önundarson                                      Vegagerðin
Guðrún St. Steingrímsdóttir                                      Menningarmiðstöð Þingeyinga
Garðar Finnsson                                                      Icelandair – Hótel Reynihlíð
Unnur Kjartansdóttir                                                Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Stjórn fræðslusjóðs:
Sigurveig Arnardóttir
Gunnþórunn Þórgrímsdóttir
María Jónsdóttir
Varamenn:
Aðalsteinn Gíslason
Aðalsteinn Halldórsson

Stjórn sjúkrasjóðs:
Aðalsteinn Á. Baldursson
Dómhildur Antonsdóttir
Ingibjörg Benediktsdóttir
Varamenn:
Ósk Helgadóttir
Jónína Hermannsdóttir
Linda Margrét Baldursdóttir

Stjórn orlofssjóðs:
Ósk Helgadóttir
Kristján M. Önundarson
Ásbjörn Kristinsson
Varamenn:
Linda Baldursdóttir
Sunna Torfadóttir

Stjórn vinnudeilusjóðs:
Huld Aðalbjarnardóttir
Jakob Gunnar Hjaltalín
Svava Árnadóttir
Varamenn:
Þórir Stefánsson
Agnes Einarsdóttir

Laganefnd:
Hallgrímur Jónasson
Torfi Aðalsteinsson
Sigurveig Arnardóttir
Varamenn:
Ölver Þráinsson
Heiða Elín Aðalsteinsdóttir

Kjörstjórn:
Svala Björgvinsdóttir
Þórður Adamsson
Varamenn:
Jónína Hermannsdóttir
Kristján Marinó Önundarson           

Skoðunarmenn reikninga:
Hallgrímur Jónasson
Pétur H. Pétursson
Varamaður:
Rúnar Þórarinsson

Siðanefnd:
Ari Páll Pálsson, formaður
Þóra Kristín Jónasdóttir
Fanney Óskarsdóttir
Varamenn:
Friðrika Illugadóttir
Friðrik Steingrímsson

Fulltrúar í 1. maí nefnd stéttarfélaganna:
Sigurveig Arnardóttir
Aðalsteinn Árni Baldursson
Varamenn:
Guðný Ingibjörg Grímsdóttir
Þráinn Þráinsson

Heimilt er hverjum fullgildum félaga að koma með breytingartillögur um félaga í einstakar trúnaðarstöður eða koma fram með nýja heildartillögu um skipan félaga í trúnaðarstöður fyrir næstu starfsár. Breytingartillögu skal fylgja skriflega heimild frá þeim, sem stungið er upp á og meðmæli a.m.k. 40 fullgildra félagsmanna. Nýjum heildartillögum þurfa að fylgja skrifleg meðmæli a.m.k. 80 fullgildra félagsmanna. Skylt er að koma breytingartillögum til Skrifstofu stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26, Húsavík fyrir 1. mars 2020. Kosningar fara fram í samræmi við reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur.

Rétt er að taka fram að auglýsing þessi á ekki við um kjör í stjórnir deilda innan félagsins þar sem kosið er í stjórnir deilda á aðalfundum deildanna, það er Sjómannadeildar og Deildar verslunar- og skrifstofufólks. Það sama á við um  stjórn Framsýnar-ung. Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar skipar í stjórnina á hverjum tíma samkvæmt ákvæðum félagslaga.

Húsavík 31. janúar 2020

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar

 

Kynningarfundur í Öxarfirði um kjarasamning Framsýnar og SNS – varðar starfsmenn Norðurþings

Framsýn verður með kynningarfund um kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem nær til starfsmanna Norðurþings í Öxarfirði. Fundurinn verður í Grunnskólanum í Lundi mánudaginn 3. febrúar kl. 15:50 og er ætlaður félagsmönnum Framsýnar.

Atkvæðagreiðsla um samninginn verður rafræn og stendur til 9. febrúar. Í næstu viku munu starfsmenn sveitarfélaga innan Framsýnar, samtals 272 félagsmenn, fá kjörgögn og upplýsingar um kjarasamninginn heim til sín í pósti. Starfsmenn sem ekki fá kjörgögn í hendur og starfa eftir kjarasamningi Framsýnar og sveitarfélaganna geta kært sig inn á kjörskrá.

Framsýn stéttarfélag

Starfsfólk Skútustaðahrepps athugið – kynningarfundir um kjarasamning

Framsýn verður með kynningarfundi um kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem nær til starfsmanna Skútustaðahrepps. Boðið verður upp á tvo fundi í Reykjahlíðarskóla þriðjudaginn 4. febrúar, annars vegar kl. 15:00 og hins vegar í leikskólanum á sama stað kl. 16:30.

Atkvæðagreiðsla um samninginn verður rafræn og stendur til 9. febrúar. Í næstu viku munu starfsmenn sveitarfélaga innan Framsýnar, samtals 272 félagsmenn, fá kjörgögn og upplýsingar um kjarasamninginn heim til sín í pósti. Starfsmenn sem ekki fá kjörgögn í hendur og starfa eftir kjarasamningi Framsýnar og sveitarfélaganna geta kært sig inn á kjörskrá.

Framsýn stéttarfélag

 

Undirskriftir og kynningar

Það tekur á að taka þátt í kjaraviðræðum og kynningum á samningum. Á undanförnum vikum hefur Framsýn gengið frá kjarasamningum sem ná til um 300 félagsmanna, það er fyrir starfsmenn sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum og nú fyrir félagsmenn sem starfa hjá Landsvirkjun á svæðinu í fjórum aflstöðvum. Frá þeim samningi var gengið í gær. Eftir oft langar og strangar viðræður klárast vinnan með undirskrift kjarasamninga. Í kjölfarið taka við kynningar og síðan atkvæðagreiðslur um samninganna. Þessari vinnu fylgja oft löng og ströng ferðalög. Sem dæmi má nefna að formaður Framsýnar kom að því að klára samning á vegum Starfsgreinasambands Íslands við Landsvirkjun síðdegis í gær, fundað var í Reykjavík. Hann var síðan mættur með flugi til Húsavíkur í morgun til að undirbúa sig fyrir kynningarfund með starfsmönnum Norðurþings á Raufarhöfn sem fram fer síðdegis í dag. Sá samningur var undirritaður á dögunum og er nú í kynningu og atkvæðagreiðslu. Áður en hann heldur til Raufarhafnar verður hann þó að taka tveggja tíma símafund á vegum Starfsgreinasambandsins um nýjar útfærslur á vaktavinnu hjá hinu opinbera og styttingu vinnuvikunnar hjá þeim hópi. Ósamið er við ríkið vegna félagsmanna Framsýnar og annarra stéttarfélaga sem starfa á opinberum stofnunum og er fundurinn á eftir liður í því ferli að klára kjarasamning við ríkið, sem reyndar er ekki séð fyrir endann á.

 

Starfsmenn sveitarfélaga athugið- atkvæðagreiðsla um kjarasamning

Ný upplýsingasíða um kjarasamning SGS/Framsýnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga er nú komin í loftið. Slóð á upplýsingasíðuna: http://www.sgs.is/kjaramal/kjarasamningar/kjarasamningur-vid-sveitarfelogin-2020/. Á henni má finna upplýsingar um kjarasamninginn og atkvæðagreiðsluna. Ýtarlegri upplýsingar um atkvæðagreiðsluna verða settar inn um leið og þær liggja fyrir en hún verður rafræn. Á næstu dögum verður hægt að kjósa með því að fara inn á heimasíðu Framsýnar. Kjörgögn og upplýsingar eru á leiðinni til starfsmanna sveitarfélaga og Hvamms sem eru á kjörskrá, samtals 272 starfsmenn fyrir utan starfsmenn Tjörneshrepps.

 

Gengið frá kjarasamningi við Landsvirkjun

Starfsgreinasamband Íslands gekk frá nýjum kjarasamningi við Landsvirkjun í gær sem tekur við af fyrri samningi sem rann út 31. desember 2018. Samningurinn gildir til 1. nóvember 2022. Samningurinn byggir að mestu á Lífskjarasamningnum. Til viðbótar þeim samningi kemur til vinnutímastytting hjá starfsmönnum og launaflokkar vegna reynslu og menntunar. Kjarasamningurinn fer nú í kynningu og atkvæðagreiðslu. Þeir starfsmenn sem starfa eftir kjarasamningnum munu greiða sameiginlega um samninginn. Atkvæðagreiðslunni skal lokið fyrir 14. febrúar. Verði samningurinn samþykktur tekur hann þar með gildi. Kjarasamningurinn nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa við Kröflu- Laxár- Bjarnaflags- og Þeistareykjavirkjun. Formaður Framsýnar tók þátt í viðræðunum sem staðið hafa yfir undanfarna mánuði með hléum. Meðfylgjandi mynd er tekinn síðdegis í gær við undirritun samningsins.

 

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fundar

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kemur saman til fundar í fundarsal félagsins, fimmtudaginn 30. janúar kl. 17:00. Dagskrá fundarins er eftirfarandi.

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Tillaga kjörnefndar lögð fram til afgreiðslu
  4. Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks
  5. Kjarasamningur sveitarfélaga
    • Kjör á formanni kjörstjórnar
    • Atkvæðagreiðsla
    • Kynningarfundir
  6. Kjaramál
    • Landsvirkjun
    • Ríkið
  7. Orlofsmál 2020
  8. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga
  9. Kjaramál sjómanna-verðmyndunarmál
  10. Önnur mál

 

Elva nýr formaður deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar var haldinn í gær í fundarsal félagsins. Elva Héðinsdóttir var kjörin formaður deildarinnar. Elva er 28 ára gömul og starfar hjá endurskoðunarfyrirtækinu PwC á Húsavík. Elva er boðin velkomin til starfa en markmið Framsýnar hefur verið að bjóða ungu og efnilegu fólki að taka að sér krefjandi störf fyrir félagið enda framtíðin þeirra. Aðrir í stjórn verða Trausti Aðalsteinsson varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og í varastjórn Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir. Fyrir var Jónína Hermannsdóttir formaður en hún tók við tímabundið eftir að kjörin formaður, Jóna Matthíasdóttir, hætti sem formaður þar sem hún starfaði ekki lengur undir samningssviði deildarinnar. Á fundinum voru Jónínu og Jónu þökkuð vel unnin störf í þágu deildarinnar.

Á fundinum urðu góðar umræður um kjaramál og lélega þátttöku almennt hjá fólki að taka þátt í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga. Fundarmenn voru sammála um að það væri mikið áhyggjuefni, það er þátttökuleysið. Opnunartími verslana var ræddur, vinnutímastyttingar samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og íbúðakaup Framsýnar á Akureyri fyrir félagsmenn sem almenn ánægja er með.

Jónína Hermannsdóttir fráfarandi formaður deildarinnar gerði grein fyrir skýslur stjórnar:

Skýrsla stjórnar:
Fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags býð ég ykkur öll velkomin til aðalfundar deildarinnar. Innan Framsýnar tvær sjálfstæðar deildir, Sjómannadeild og Deild verslunar- og skrifstofufólks. Á síðasta starfsári var stjórn deildarinnar þannig skipuð; Jónína Hermannsdóttir formaður, Trausti Aðalsteinsson varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og í varastjórn sátu Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir. Varðandi starfsemina þá var lítið um formleg fundarhöld hjá stjórn deildarinnar á síðasta starfsári. Einn stjórnarfundur var skráður. Samkvæmt félagslögum er formaður deildarinnar einnig tilnefndur í aðalstjórn Framsýnar á hverjum tíma til tveggja ára í senn. Núverandi kjörtímabil er 2018-2020. Aðalstjórn fundar reglulega eða að jafnaði einu sinni í mánuði. Um þessar mundir er verið að stilla upp í trúnaðarstöður á vegum Framsýnar stéttarfélags fyrir næsta kjörtímabil, það er 2020-2022. Tillaga kjörnefndar verður auglýst í febrúar. Jónína Hermannsdóttir fór á 31. þing LIV sem haldið var á Akureyri dagana 18 – 19 október 2019. Hún var kjörin í varastjórn og kjörnefnd LÍV. Þá hefur hún verið virk, hvað varðar, að sækja fundi á vegum LÍV á starfsárinu. Ástæða er til að þakka aðalstjórn, trúnaðarráði og starfsmönnum félagsins fyrir gott og árangursríkt samstarf auk veittrar þjónustu til stjórnar deildarinnar og félagsmanna. Eðli málsins samkvæmt leita félagsmenn í flestum tilfellum beint til Skrifstofu stéttarfélaganna með sín mál.

Félagatal:
Á árinu 2019 greiddu 386 manns til deildarinnar, þar af voru konur 247 á móti 139 körlum. Félagsmönnum fjölgaði milli ára, það er úr 344 í 386 greiðendur. Árið 2018 var skiptingin eftirfarandi, konur 179 á móti 165 körlum samtals 344.

Fjármál:
Skrifstofa stéttarfélaganna er rekin sameiginlega af stéttarfélögunum; Framsýn, Þingiðn og STH. Rekstur skrifstofunnar hefur gengið vel.  Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Með auknum fjölda vinnandi fólks á svæðinu hefur fjöldi félagsmanna og greiðenda aukist með auknum tekjum til félagsins. Endurskoðaður ársreikningur Framsýnar verður lagður fram á aðalfundi félagsins sem væntanlega verður haldinn með vorinu. Stjórn Framsýnar og starfsmenn kappkosta að gæta hagsmuna félagsins og þar með félagsmanna með því að standa vörð um fjármuni þess hér eftir sem hingað til.

Kjara og samningamál:
Eins og kunnugt er var gengið frá nýjum kjarasamningum vorið 2019 sem nefndir hafa verið Lífskjarasamningarnir. Í kjölfarið stóð Framsýn fyrir félagsfundi 12. apríl um nýgerðan kjarasamning félagsins/LÍV og Samtaka atvinnulífsins. Fundurinn var haldinn í fundarsal félagsins. Alls mætu 9 félagsmenn á fundinn. Á kjörskrá Framsýnar vegna kjarasamningsins LÍV og Samtaka atvinnulífsins voru 189 félagsmenn. Alls greiddu 20 félagsmenn atkvæði eða 10,58%. Já sögðu 19 eða 95%. Nei sagði 1 félagsmaður eða 5%. Auðir og ógildir 0. Kjarasamningurinn var því samþykktur meðal félagsmanna Framsýnar. Því miður var þátttakan í atkvæðagreiðslunni mjög léleg þrátt fyrir að hún hafi verið rafræn. Almennt áhugaleysi fólks að taka þátt í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga er mikið áhyggjuefni sem þyrfti að skoða sérstaklega, það er hvað veldur þessu mikla áhugaleysi. Þess ber að geta að kjarasamningarnir eru um margt mjög merkilegir. Samningurinn byggir ekki síst á launahækkunum til félagsmanna, útspili stjórnvalda í skatta- og velferðarmálum og aðhaldi varðandi almennar hækkanir á gjaldskrám opinberra aðila. Nýmæli er í samningunum varðandi vinnutímabreytingar. Það er, nú eiga allir þeir sem falla undir kjarasamning LÍV og Samtaka atvinnulífsins rétt á 9 mín, styttingu á vinnutíma á dag m.v. fullt starf. Þessar 9 mínútur jafngilda 45 mínútum á viku eða 3. klst og 15 mínútum á mánuði, án skerðingar launa. Markmiðið er að gera vinnumarkaðinn fjölskylduvænni. Framkvæmd styttingarinnar er samkomulag félagsmanna og atvinnurekenda á hverjum vinnustað fyrir sig. Samkvæmt ákvæðum kjarasamningsins áttu atvinnurekendur og starfsfólk að hafa komist að samkomulagi um hvernig styttingunni verði háttað fyrir 1. desember 2019. Komist atvinnurekendur og starfsmenn ekki að niðurstöðu verður hver vinnudagur sjálfkrafa 9 mínútum styttri frá og með 1. janúar 2020. Ekki er annað að heyra en að vinnutímabreytingarnar hafi gengið eftir á félagssvæði Framsýnar, í það minnsta hefur skrifstofunni ekki borist kvartanir frá félagsmönnum um að svo hafi ekki verið.

Orlofsmál:
Líkt og fyrri ár hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna með sér gott samstarf í orlofsmálum sem eru sem fyrr mikilvægur þáttur í starfi félagsins. Boðið er upp á fjölmarga kosti; m.a. orlofshús, gistiávísanir á hótelum og farfuglaheimilum auk endurgreiðslu á gistikostnaði á tjaldsvæðum og vegna kaupa á útilegukortum. Jöfn og góð nýting er á íbúðum stéttarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og er það vel. Leitast er við að sem flestir félagsmenn sem sækja um orlofshús fái úthlutun. Ekkert punktakerfi er við lýði hjá stéttarfélögunum sem aðild eiga að skrifstofu stéttarfélaganna. Framsýn bætti við sig sjúkra- og orlofsíbúð á Akureyri á árinu 2019. Íbúðin sem er í raðhúsi að Furulundi 11 á örugglega eftir að nýttast félagsmönnum vel á komandi árum. Þá undirritaði félagið á dögunum nýjan samning við Flugfélagið Erni sem tryggir félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör á flugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur á árinu 2020. Fargjaldið verður áfram kr. 10.300 fram eftir ári. Síðar á árinu eða í haust hækkar verðið í kr. 10.900,-. Þannig tryggir Framsýn félagsmönnum áfram fargjald sem er aðeins hluti af fullu flugfargjaldi á flugleiðinni, Húsavík – Reykjavík. Óhætt er að segja að með samningi þessum séu Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslu að styrkja við og stuðla að frekari flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll. Reiknað er með að stéttarfélögin selji félagsmönnum á hverju ári um fjögur til fimm þúsund flugmiða. Samningurinn um flumiðakaupin sem var undirritaður í lok síðasta árs hljóðar upp á kaup á 4.800 flugmiðum sem ætlað er að endast út árið 2020.

Fræðslumál:
Félagið er aðili að Starfsmenntunarsjóði verslunar og skrifstofufólks. Umsækjendum um styrki fækkaði aðeins milli ára. Á árinu 2019 fengu 33 félagsmenn starfsmenntastyrki, alls að upphæð kr. 2.027.445,-. Árið áður fengu 38 félagsmenn styrki samtals kr. 2.680.362.–.

Kynningarmál, fréttabréf og heimasíða:
S
töðugt birtast fréttir á vefsíðu Framsýnar www.framsyn.is úr starfi félagsins og aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélagana auk þess sem fréttir um málefni líðandi stundar í samfélaginu slæðist stundum með. Á um tveggja mánaða fresti er gefið út Fréttabréf stéttarfélaganna sem dreift er frítt til allra heimila á félagssvæðinu.  Fréttabréfið tekur á helstu málefnum úr starfi stéttarfélaganna. Þar koma m.a. fram upplýsingar til félagsmanna varðandi kjör og starfsemi stéttarfélaganna auk úrdráttur helstu frétta sem birtast á heimasíðunni. Þá hefur félagið staðið fyrir heimsóknum í skóla með fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og staðið reglulega fyrir trúnaðarmannanámskeiðum.

Starfsemi og málefni skrifstofunnar:
Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Þar starfa 5 starfsmenn í fullu starfi með starfsmanni Virk starfsendurhæfingarsjóðs, einn starfsmaður er í 50% starfi við vinnustaðaeftirlit og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru 5 starfsmenn í hlutastörfum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Á undanförnum árum hefur mikið verið lagt upp úr því að efla trúnaðarmannakerfið með góðum árangri. Í dag eru víða starfandi öflugir trúnaðarmenn á vinnustöðum. Reglulega eru haldinn trúnaðarmannanámskeið fyrir starfandi trúnaðarmenn á vinnustöðum. Sömuleiðis er starfandi ungliðaráð sem skipað er ungu og kraftmiklu fólki sem vonandi kemur til með að taka við keflingu og leiða verkalýðsbaráttuna áfram um ókomna tíð.

Viðburðir á árinu:
Framsýn kom að nokkrum stórum sem smáum viðburðum á árinu. Hátíðarhöldin 1. maí voru haldinn í Íþróttahúsinu á Húsavík og fóru vel fram enda mikið fjölmenni samankomið í höllinni. Föstudaginn fyrir sjómannadag stóð félagið fyrir kaffiboði á Raufarhöfn fyrir gesti og gangandi. Þá kom Sjómannadeild félagsins að því að heiðra sjómenn á sjómannadaginn á Húsavík. Heiðraðir voru tveir sjómenn fyrir vel unninn störf. Í desember stóðu svo stéttarfélögin fyrir aðventukaffi í fundarsal stéttarfélaganna.

Lokaorð:
Með þessari stuttu samantekt hefur verið gert grein fyrir því helsta úr starfsemi deildarinnar frá síðasta aðalfundi. Starf deildarinnar sem slíkt, er ekki kraftmikið eða viðburðaríkt en við erum ómissandi í starfi félagsins.  Ég vil hvetja ykkur öll til þess að taka þátt í starfsemi félagsins, láta ykkur umræðu um kjaramál og velferð í starfi máli skipta og koma tillögum og hugmyndum um úrbætur eða fræðslu á framfæri við félagið.  Stjórn deildarinnar vill þakka öllum þeim félagsmönnum sem hafa gengt trúnaðarstörfum fyrir félagið, félagsmönnum okkar og starfsmönnum skrifstofu fyrir vel unnin störf og gott samstarf á árinu.

Setið yfir skýrslu stjórnar á fundinum.

Mjög góðar umræður urðu á fundinum um málefni deildarinnar og Framsýnar. Almenn ánægja kom fram með starfsemi félagsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kynningarfundur um kjarasamning SGS og SNS á Raufarhöfn

Framsýn verður með kynningarfund um kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem nær til starfsmanna Norðurþings á Raufarhöfn. Fundurinn verður á Hótel Norðurljósum þriðjudaginn 28. janúar kl. 16:30. Boðið verður upp á veitingar.

Atkvæðagreiðsla um samninginn verður rafræn og stendur til 9. febrúar. Í næstu viku munu starfsmenn sveitarfélaga innan Framsýnar, samtals 272 félagsmenn, fá kjörgögn og upplýsingar um kjarasamninginn heim til sín í pósti. Starfsmenn sem ekki fá kjörgögn í hendur og starfa eftir kjarasamningi Framsýnar og sveitarfélaganna geta kært sig inn á kjörskrá.

Framsýn stéttarfélag

 

Ríkið á villigötum – samningsvilji ekki til staðar

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands vegna kjarasamninga við Fjármálaráðherra f.h. Ríkissjóðs samþykkti á fundi í dag fyrir hönd 18 aðildarfélaga, þar á meðal Framsýnar, að vísa kjaradeilunni til Ríkissáttasemjara.

Þessi ákvörðun var tekin í framhaldi af samningafundi í gær og ganginum í viðræðum undanfarna mánuði, en kjarasamingurinn rann út 31. mars 2019.

Jafnframt var farið fram á það við sáttasemjara að hann boði til fundar eins skjótt og auðið er, enda algerlega óástættanlegt að launafólk bíði mánuðum saman eftir því að sest sé að samningaborðinu af alvöru.

Verslunarmenn, munið fundinn í kvöld

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar verður haldinn í kvöld, fimmtudag kl. 20:00, í fundarsal félagsins. Skorað er á félagsmenn að mæta á fundinn og taka þátt í áhugaverðum fundarstörfum. Að sjálfsögðu verða góðar veitingar í boði.

Afsláttarkjör í boði fyrir félagsmenn

Um þessar mundir er Leikfélag Húsavíkur að hefja sýningar á Litlu Hryllingsbúðinni í Samkomuhúsinu á Húsavík. Félagsmönnum stéttarfélaganna bjóðast afsláttarkjör á sýninguna.

Forsendan er að félagsmenn komi við á Skrifstofu stéttarfélaganna áður en þeir fara í leikhúsið og fái afsláttarmiða hjá félögunum. Afslátturinn er ekki í boði komi menn eftir leiksýninguna.  Verð til félagsmanna er kr. 2.000,-. Einn miði er í boði fyrir hvern félagsmann sem fer á sýninguna.

 

Framsýn

Þingiðn

STH

„Glataðir milljarðar?

Samninganefnd Sjómannasambands Íslands sem Framsýn á aðild að kom saman til fundar 20. janúar til að ræða kröfugerð sambandsins og önnur málefni sjómanna, þar á meðal verðmyndunarmál. Eftir góðar umræður var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:

„Samninganefnd Sjómannasambands Íslands skorar á íslensk stjórnvöld að láta fara fram óháða rannsókn á söluvirði afurða í íslenskum sjávarútvegi.

Miðað við fréttir undanfarinna mánaða má ætla að milliverðlagning á sjávarfangi sé mjög algeng. Ætla má að íslenskt þjóðfélag verði af gríðarlegum fjármunum ef rétt reynist. Það er því skýlaus krafa samninganefndar Sjómannasambands Íslands að fram fari vönduð, óháð opinber rannsókn á endanlegu söluvirði útflutnings sjávarafurða og hvað af raunverulegum verðmætum skilar sér til Íslands.

Einnig áréttar samninganefnd Sjómannasambands Íslands áhyggjur sínar af endurvigtunarleyfum fiskvinnsluhafa á Íslandi. Ítrekað hefur verið sýnt fram á mismun á ísprósentu. Mjög mikill munur hefur verið staðfestur eftir því hvort Fiskistofa stendur yfir vigtun eða ekki.

Í þessum málum báðum eru gífurlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir bæði sjómenn og þjóðfélagið í heild sinni.“

 

 

Félagsmenn Framsýnar athugið – Kynningarfundur um kjarasamning SGS og SNS  

Framsýn boðar til kynningarfundar um kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem félagið á aðild að. Fundurinn verður haldinn laugardaginn 25. janúar kl. 11:00 í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík.

Atkvæðagreiðsla um samninginn verður rafræn og stendur til 9. febrúar. Í næstu viku munu starfsmenn sveitarfélaga innan Framsýnar, samtals 272 félagsmenn, fá kjörgögn og upplýsingar um kjarasamninginn heim til sín í pósti. Starfsmenn sem ekki fá kjörgögn í hendur og starfa eftir kjarasamningi Framsýnar og sveitarfélaganna geta kært sig inn á kjörskrá.

Starfsmenn sveitarfélaga sem búa utan Húsavíkur geta fengið kynningu á samningnum á sínum vinnustað/svæðum leggi þeir fram ósk þess efnis við Skrifstofu stéttarfélaganna.

Framsýn stéttarfélag

Samið við Tjörneshrepp

Eins og fram hefur komið gekk Starfsgreinasamband Íslands, sem Framsýn á aðild að, frá kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir helgina. Í kjölfarið settust fulltrúar frá Framsýn og Tjörneshreppi við samningaborðið og kláruðu gerð kjarasamnins fyrir starfsmenn hreppsins. Viðræður höfðu þá staðið yfir með hléum í nokkrar vikur. Samningurinn er á svipuðum nótum og kjarasamningur SGS og sveitarfélganna. Þó eru að finna ákvæði varðandi launaröðun starfsmanna samkvæmt starfsmati sem kemur til með að koma vel út fyrir starfsmenn Tjörneshrepps. Tjörneshreppur var ekki með samningsumboðið hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og því varð sveitarfélagið að semja sérstaklega við Framsýn um kjör starfsmanna. Báðir kjarasamningarnir fara í atkvæðagreiðslu á næstu dögum meðal starfsmanna. Þá mun Framsýn einnig boða til kynningarfunda um samningana.  Meðfylgjandi mynd var tekin síðdegis á föstudaginn af fulltrúum Framsýnar og oddvita Tjörneshrepps þegar kjarasamningur aðila var undirritaður.

Minnum á áður auglýstan fund verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags verður haldinn fimmtudaginn 23. janúar kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
    1. Skýrsla stjórnar
    2. Kjör formanns og stjórnar
  2. Önnur mál

Skorað er á félagsmenn sem starfa eftir kjarasamningi verslunar- og skrifstofufólks að fjölmenna á fundinn. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti á fundinum.

Atvinnuleysi vaxandi á Íslandi

Um það bil átta þúsund voru án atvinnu í síðasta mánuði og jafngildir það 4,2 prósenta atvinnuleysi. Til samanburðar var skráð atvinnuleysi 2,2 prósent í desember árið 2017. Atvinnuleysi hefur ekki verið meira frá því í mars 2013 þegar 4,5 prósent voru án atvinnu.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn á Íslandi sem birt var í vikunni. Karlar eru í meirihluta þeirra sem eru atvinnulausir, rúmlega 4.600 á móti 3.400 konum. Hlutfallslega munar þó litlu á atvinnuleysi kynjanna, það er 4,4 prósent meðal karla en 4,2 prósent meðal kvenna. Um 40 prósent allra atvinnulausra eru erlendir ríkisborgarar.

Atvinnuleysi minnkaði lítillega milli mánaða á Vestfjörðum en jókst alls staðar annars staðar á landinu. Langmest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 8,7 prósent. Minnsta atvinnuleysið er á Norðurlandi vestra, 1,8 prósent.

Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi aukist í janúar, verði allt að 4,7 prósent.

Rúmlega 1.600 höfðu í síðasta mánuði verið án vinnu í meira en tólf mánuði, það er umtalsverð aukning milli ára því í lok desember 2018 höfðu rétt tæplega þúsund verið án vinnu í meira en tólf mánuði.

(Þessi frétt er tekin af ruv.is)

Framsýn gengur frá samningi við samninganefnd sveitarfélaga

Starfsgreinasamband Íslands sem Framsýn á aðild að gekk frá nýjum kjarasamningi í gær við Samband íslenskra sveitarfélaga með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2020 til 30. september 2023. Samningurinn nær til 17 aðildarfélaga sambandsins.

Helstu atriði samningsins eru sem hér segir:

  • Laun hækka um 90.000 kr. á tímabilinu 1. janúar 2020 til 1. janúar 2022. Þann 1. janúar 2023 hækka laun í samræmi við hækkanir á almennum vinnumarkaði.
  • Lágmarksorlof hjá öllum starfsmönnum verður 30 dagar.
  • Markviss skref til styttingar vinnuvikunnar. Frá 1. janúar 2021 styttist vinnuvikan um samtals 65 mínútur fyrir fólk í fullu starfi.
  • Vegna þess hversu lengi það hefur dregist að gera kjarasamning fá félagsmenn greidda eingreiðslu, upp á samtals 195.000 kr., miðað við fullt starf tímabilið 1. apríl til 31. desember 2019. Til frádráttar kemur 125.000 kr. innágreiðsla frá því í október 2019.
  • Persónuuppbót sem greiðist 1. maí ár hvert og nemur 50.450 kr. fyrir fullt starf árið 2020. Desemberuppbót hækkar úr 115.850 kr. árið 2019 í 124.750 kr. árið 2022. SGS mun áfram taka fullan þátt í starfshópi aðila opinbera vinnumarkaðarins sem fjallar um fyrirkomulag vaktavinnu og starfskjör vaktavinnufólks. Nái starfshópurinn niðurstöðu um frekari breytingar munu samningsaðilar taka upp viðræður um með hvaða hætti þær verða innleiddar.
  • Tekið er upp nýtt ákvæði um að starfsmenn sem starfað hafa samfellt í 3 ár geta fengið launað leyfi í samtals í þrjá mánuði til að stunda viðurkennt starfsnám.
  • Á næstu mánuðum verður lögð vinna í að leiðrétta og endurskoða fyrirkomulag ráðninga tímavinnufólks. Þá verður stofnaður sérstakur Félagsmannasjóður með það markmið að stíga skref til jöfnunar lífeyrisréttinda milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna og er úthlutað úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum verður nú í ár og fá allir félagsmenn í fullu starfi greiddar 61.000 kr. Starfsmenn sem eru ekki í fullu starfi fá greiðslu miðað við starfstíma og starfshlutfall.
  • Þá verður réttur starfsmanna sveitarfélaga til desemberuppbótar aukinn.
  • Nú geta starfsmenn sveitarfélaga sótt um að starfa til 72 ára aldurs. Í dag geta menn starfað til 70 ára aldurs.
  • Réttur vegna veikinda barna er aukin úr 13 ára í 16 ára aldur enda sé um alvarleg veikinda að stríða.
  • Réttur barnshafandi kvenna er aukin varðandi nauðsynlegar fjarvistir frá vinnu vegna mæðraskoðunar, án frádráttar á föstum launum, þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum Framsýnar á næstu dögum og vikum en gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslu um hann ljúki 10. febrúar. Stjórn Framsýnar hefur verið kölluð saman til fundar í dag kl. 17:00 þar sem formaður félagsins mun gera grein fyrir helstu atriðum samningsins.

Rétt er að taka fram að Framsýn hefur ekki ákveðið hvort atkvæðagreiðslan um samninginn verður rafræn eða ekki. Ákvörðun þess efnis verður tekin á stjórnarfundinum í dag. Reiknað er með að félagsmenn fái helstu upplýsingar um kjarasamninginn til sín í pósti, málið er í skoðun. Alls eru 272 félagsmenn Framsýnar á kjörskrá um þennan kjarasamning.

Litla Hryllingsbúðin – félagsmönnum bjóðast leikhúsmiðar á afsláttarkjörum

Laugardaginn 25. janúar mun Leikfélag Húsavíkur frumsýna leikritið Litla Hryllingsbúðin eftir Howard Ashman og Alan Menken í leikstjórn Völu Fannell í Samkomuhúsinu á Húsavík.

Litla Hryllingsbúðin er sígildur rokksöngleikur, fyrir alla fjölskylduna, fullur af húmor, kraftmikilli tónlist, heillandi persónum og krassandi söguþræði.

Verkið fjallar um erkilúðan Baldur sem lifir frekar óspennandi lífi. Hann eyðir fábrotnum dögum sínum við vinnu í blómabúðinni hans Markúsar. Hann lætur sig dreyma um ástir Auðar sem vinnur með honum í búðinni. Dag einn uppgötvar Baldur undarlega plöntu sem hann nefnir Auði II í höfuðið á sinni heittelskuðu. Plantan vekur óskipta athygli og viðskiptin blómstra sem aldrei fyrr og Baldur verður stöðugt vinsælli. Kvöld eitt kemur í ljós að plantan getur talað og hún lofar Baldri frægð og frama, gulli og grænum skógum. En sá galli er á gjöf Njarðar að plantan nærist á mannablóði og vill helst fá ferskt mannakjöt að borða. Inn í söguna blandast svo kærasti Auðar, tannlæknir með kvalarlosta og atburðarrásin tekur óvænta stefnu.

Leikfélag Húsavíkur fagnar í ár 120 ára afmæli og besta afmælisgjöfin væri sú að allir þeir sem vettlingi geta valdið komi í Gamla Samkomuhúsið, skemmti sér yfir Litlu Hryllingsbúðinni og fagni um leið 120 ára afmæli Leikfélags Húsavíkur.

Þess má geta að stéttarfélögin, Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur taka þátt í gleðinni með því að bjóða félagsmönnum sérkjör í samstarfi við Leikfélag Húsavíkur. Forsendan er að félagsmenn komi við hjá stéttarfélögunum áður en þeir fara í leikhúsið og fái afsláttarmiða hjá félögunum. Ekki þýðir að koma eftir á, það er eftir leiksýninguna.  Verð til félagsmanna er kr. 2.000,-. Fullt verð er kr. 3.000,-.