Verum bjartsýn og opnum hugann fyrir öllu því fegursta sem náttúran hefur að bjóða

Nú er blessuð sólin farin að hækka á lofti og gerir það að verkum að skammdegisdrunginn hopar og geislar sólarinnar finna sér leið inn í hrímguð sálartetur landans, eftir erfiðan vetur. Síðan í desemberbyrjun hefur Vetur konungur engan slaka gefið, en vonandi fara nú fréttir af fannfergi, ófærð og appelsínugulum viðvörunum að heyra sögunni til. Ef grannt er hlustað leynast nefnilega inn á milli hörmungafrétta heimsbyggðarinnar, nokkrar jákvæðar fréttir. Á dögunum var greint frá því að vorboðinn ljúfi, blessuð lóan væri komin og byrjuð að kveða burt snjóinn á Suðurlandinu og við vitum að þegar svo er komið byrja aðrir vorboðar að tínast til landsins einn af öðrum.  Fréttir af þessu tagi lyfta dagsins amstri einhvern vegin upp á hærra plan og vekja þá von í brjósti um að vorið sé kannski bara á næsta leiti.

Inn á milli stórhríðarkaflanna í vetur hafa laumað sér nokkrir góðviðrisdagar og þá kunna margir vel að meta, enda vel hægt að njóta fegurðar landsins þó það klæðist tímabundið hvítum hjúpi. Það gerir öllum gott að taka sér smá stund frá amstri hversdagsins, ná upp púlsinum með því að skreppa í  góðan göngutúr, eða leika við börnin úti í snjónum. Við skulum ekki gleyma að hreyfa okkur á þessum skrýtnu tímum sem við erum að upplifa, sem eru langt frá því að vera eins og við höfum óskað eftir.  Höfum í huga að reglubundin hreyfing er sterkasta meðalið sem við eigum við streitu og kvíða – og kostar ekkert. Drífum okkur út og njótum, verum bjartsýn og opnum hugann fyrir öllu því fegursta sem náttúran hefur að bjóða. (ÓH)

 

Deila á