Tillögur stjórnvalda – Nýtt starfshlutfall ber að virða

Að gefnu tilefni vilja stéttarfélögin árétta að atvinnurekendur, sem nýta sér úrræði stjórnvalda um að lækka stafshlutfall starfsmanna tímabundið vegna slæmrar stöðu sem tengist Covid-19,  er óheimild með öllu að krefjast vinnuframlags umfram hið nýja starfshlutfall nema greiða fyrir það sérstaklega. Umræða um þetta hefur verið að skjóta upp kollinum síðustu daga og hafa félagsmenn stéttarfélaganna komið sínum athugasemdum á framfæri við Skrifstofu stéttarfélaganna.

Tilgangur þeirra lagabreytinga sem samþykktar voru nýlega var að auðvelda atvinnurekendum að halda starfsfólki og koma í veg fyrir fjölda uppsagnir. Þannig hafa atvinnurekendur nú möguleika á að lækka starfshlutafall starfsmanna niður í allt að 25% með samþykki starfsmanna. Á móti eiga starfsmenn rétt á atvinnuleysisbótum sem nemur skerðingunni enda sé bótaréttur til staðar hjá Vinnumálastofnun.

Rétt er að taka fram að það er óheimilt með öllu að fara fram á það við starfsmenn fyrirtækja að þeir skili hærra starfshlutfalli/vinnuframlagi en þeir eru ráðnir til samkvæmt heimild stjórnvalda um skert starfshlutfall vegna aðstæðna í þjóðfélaginu nema fyrirtækin greiði þeim laun fyrir þá vinnu. Á móti skerðast síðan atvinnuleysisbæturnar.

Að auki er starfsfólki skylt að leita sér að starfi á móti skertu starfshlutfalli hjá viðkomandi atvinnurekanda sé það í boði.

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum skora á fyrirtæki og stofnanir að framfylgja alfarið lögum og reglum sem gilda um tímabundnar hlutabætur til fyrirtækja í vanda vegna Covid 19.

 

 

Deila á