Úthlutun orlofshúsa lokið – nokkrar vikur í boði

Nú hefur verið lokið við að úthluta sumarhúsum til félagsmanna stéttarfélaganna sumarið 2020 en umsóknarfrestur rann út í lok apríl. Allir sem fengið hafa bústað ættu að hafa fengið sendar upplýsingar í tölvupósti um úthlutunina. Þrátt fyrir mikla aðsókn eru nokkrar vikur lausar á eftirfarandi stöðum:

Eftirfarandi vikur eru lausar:

Eiðar:

29-05-05.06

05.06-12.06

12.06-19.06

07.08-14.08

14.08-21.08

21.08-28.08

Illugastaðir:

14.08-21.08

21.08-28.08

Flúðir:

21.08-28.08

Ef einhverjar spurningar vakna þá endilega hafið samband við okkur á skrifstofunni.

 

Veiðikortið 2020

Eins og verið hefur mun félagsmönnum verða boðið Veiðikortið nú í ár á sérstöku vildarverði, eða 5.000 krónur. Kortin er þegar komin í hús og því geta veiðimenn þegar fest kaup á þessum athyglisverða veiðimöguleika. Helstu upplýsingar um veiðikortið má nálgast hér.

 

Ný fánastöng komin á sinn stað

Eins og öllum ætti að vera í mjög svo fersku minni þá var langt frá því að vera skemmtilegt veður hér um slóðir lengst af vetrar. Í einum veðurofsanum brotnaði fánastöng Skrifstofu stéttarfélaganna. Nú þegar vorið er komið var því farið af stað og fengin ný stöng. Það voru svo vaskir starfsmenn Garðvíkur sem sáu um að setja upp nýju stöngina á einum blíðviðrisdeginum. Á myndinni hér að ofan má einmitt sjá þá nýbúna að ljúka verkinu og vera að flagga fána Framsýnar.

Sjómennt – rýmkaðar reglur og full fjármögnun fyrir sjómenn innan Framsýnar

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hefur stjórn Sjómenntar ákveðið að rýmka úthlutunarreglur vegna styrkveitinga og bjóða einstaklingum og fyrirtækjum uppá þann valkost að sækja námskeið á netinu eða í fjarkennslu þeim að kostnaðarlausu. Rétturinn nær til sjómanna innan Framsýnar og útgerðarfyrirtækja á Íslandi sem aðild eiga að sjóðnum.

Átakið gildir frá 15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma.

Nánari útfærsla á átaksverkefninu: Gerðir verða samningar við fræðsluaðila sem bjóða upp á vefnám/fjarnám þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er boðin þátttaka í námi/námskeiðum þeim að kostnaðarlausu. Þak á þáttökugjaldi pr. einstakling pr. námskeið er kr. 30.000,- samkvæmt þessum samningum.

Breytingar á úthlutunarreglum eru eftirfarandi:

  • Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, miðað við núverandi reglur, verði hækkaðar úr 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði.
  • Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu verði hins vegar breytt og verði 90% í stað 75% af kostnaði við námið.
  • Tómstundstyrkir sem nú eru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári verði í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið.

Um leið og Sjómennt hvetur stjórnendur fyrirtækja til þess að sinna sí-og endurmenntun starfsmanna sinna, vill stjórnin koma því á framfæri að tekið verði á móti öllum góðum hugmyndum að fræðslu sem kynnu að nýtast og falla vel að úthlutunarreglum sjóðsins.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Njálsdóttir í síma 863 6480 eða á tölvupósti, sjomennt@sjomennt.is

 

Áhrif Covid-19 á stöðu heimilanna

Samfélög heimsins takast nú á við fordæmalausa heilbrigðisvá og þau gríðarlegu efnahagsáhrif sem henni fylgja. Efnahagsleg og samfélagsleg áhrif Covid-19 eru um margt ólík fyrri samdráttarskeiðum. Viðspyrna í efnahagslífinu er háð getu til að ná böndum á útbreiðslu Covid-19 og þar með tryggja að atvinnulíf og daglegt líf geti færst í eðlilegar skorður.

Hagdeild ASÍ setti fram slíkar sviðsmyndir fyrir miðstjórn sambandsins í síðasta mánuði. Grunnsviðsmynd byggði á uppfærðri haustspá sambandsins og voru í kjölfarið skoðuð áhrif af nýjum forsendum um þróun ólíkra hagvísa t.d. fjölda ferðamanna, þróun ráðstöfunartekna, gengisþróun, olíuverð, vexti og atvinnuleysi. Sviðsmyndir bentu til þess að samdráttur í vergri landsframleiðslu gæti numið 5-8% á þessu ári.

Mestu og víðtækustu áhrifin á heimilin birtast í áður óþekktri aukningu atvinnuleysis og miklum fjölda fólks sem þurft hefur að taka á sig lækkun starfshlutfalls með tilheyrandi tekjufalli og afkomuvanda. Atvinnuleysi eykst og ekki ólíklegt að það geti numið á bilinu 7-9% að jafnaði á þessu ári en það merkir að líkur eru á að atvinnuleysi á ársgrundvelli verði hærra en þegar mest var í hruninu. Sviðsmyndir benda ekki til þess að mikil hætta sé á verðbólguskoti. Verðhækkanir á neysluvörum eru ekki ólíklegar, eins og t.d. innfluttri matvöru, en stórir liðir í útgjöldum heimilanna eins og húsnæði og eldsneyti halda aftur af verðbólguþrýstingi.

Greiðsluvandi vegna tekjumissis er mesta hættan sem steðjar að fjárhag heimilanna við núverandi aðstæður þegar fjöldi fólks er án atvinnu að fullu eða hluta og tekjur margra dragast saman. Húsnæðiseigendur standa almennt vel að vígi eftir tímabil hóflegrar verðbólgu, vaxtalækkana og hækkana á húsnæðisverði. Húsnæðiseigendur sem verða fyrir tekjutapi geta frestað greiðslum í 3-12 mánuði. Leigjendur eru margir í viðkvæmri stöðu og hafa mun síður notið hagstæðari kjara á húsnæðismarkaði á undanförnum árum óg bjóðast síður úrræði til að fresta leigugreiðslum. Tekjulág heimili eru auk þess líklegri til að vera á leigumarkaði og leigjendur hafa að jafnaði mun þyngri húsnæðiskostnað en þeir sem búa í eigin húsnæði.

Brýn nauðsyn er á að hækka húsaleigubætur til að styðja við leigjendur í lág- og millitekjuhópum og tryggja þarf að greiðsluvandi vegna tímabundins tekjumissis ógni ekki húsnæðisöryggi fólks. Nauðsynlegt er að lántakendur og leigusalar sýni sveigjanleika m.a. með frystingum, skilmálabreytingum og greiðsludreifingu til að aðstoða heimili í greiðsluerfiðleikum. Fylgjast þarf náið með stöðu heimilanna og útfæra leiðir til að styðja við þá hópa sem glíma við afkomuvanda og íþyngjandi húsnæðiskostnað. Til að draga úr líkum á fjárhagserfiðleikum þeirra heimila sem verða fyrir atvinnumissi er aðkallandi að hækka atvinnuleysisbætur og lengja tímabil tekjutengingar. Aðgerðir stjórnvalda nú eiga að miða að því að tryggja afkomu og húsnæðisöryggi fólks, en hvoru tveggja styður við skjóta endurreisn íslensks efnahagslífs.

Sjá samantekt Hagdeildar á áhrifum Covid-19 á heimilin

Félagar, til hamingju með daginn!

Ágætu félagar

Til hamingju með daginn, alþjóðlegan baráttudag verkafólks!

Þegar ég flutti eina af mínum fyrstu ræðum á hátíðarhöldunum 1. maí á Húsavík, þá ný orðin formaður í verkalýðsfélagi, byrjaði ég ræðuna með þessum orðum:

Í dag, á hátíðar- og baráttudegi verkafólks 1. maí, safnast fólk saman víða um heim í skrúðgöngum og/eða á samkomum til að minna á kröfur sínar um jafnrétti, velferð og réttlát kjör til handa öllum. Þetta er dagur hins vinnandi manns.

Nú ber svo við að það verða engar skrúðgöngur eða baráttusamkomur víða um heim sem rekja má til ástandsins í heiminum er tengist Covid- 19 veirunni. Veira sem á sér engin landamæri og herjar á alla burt séð frá kyni, litarhætti eða stöðu þeirra í samfélaginu.

Í fyrsta skipti síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar vegna takmarkana sem heilbrigðisyfirvöld á Íslandi fyrirskipuðu og tengjast Covid- 19 veirunni. Það ár fóru menn í fyrstu kröfugönguna 1. maí undir lúðrablæstri og rauðum fánum. Dagurinn varð síðan lögskipaður frídagur á Íslandi 1972.

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti. Hann þýðir að nú sé nóg komið, auk þess sem hann táknar dagrenninguna. Íslenska verkalýðshreyfingin hefur í gegnum tíðina tekið á mörgum mikilvægum málum undir rauðu flaggi, það er sameinað verkafólk undir rauðu flaggi til góðra sigra.

Því miður ber svo við um þessar mundir að verkafólk getur ekki sameinast undir rauðu flaggi til að minna á sínar sjálfsögðu og réttlátu kröfur um betri heim til handa öllum, ekki bara fáum útvöldum. Þess í stað verða menn að beita sér með skrifum og með rafrænum útsendingum þar sem öllum ýtrustu reglum er fylgt eftir samkvæmt tilmælum heilbrigðisyfirvalda til  að verjast Covid- 19 veirunni.

Heildarsamtök launafólks á Íslandi munu standa fyrir sameiginlegri dagskrá í kvöld, 1. maí. Hátíðarhöldin verða í Hörpu og sjónvarpað út til landsmanna í gegnum Ríkissjónvarpið.  Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum eiga aðild að samkomunni í gegnum sín heildarsamtök, ASÍ og BSRB.

Vissulega eru þetta mikil viðbrigði, ekki síst fyrir stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum sem  alla tíð hafa lagt mikið upp úr þessum degi. Eða eins og fyrrverandi formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur, Helgi Bjarnason, sagði á sínum tíma. „Þetta er dagurinn okkar sem okkur ber að viðhalda og virða til framtíðar, ekki síst í minningu forfeðrana sem mörkuðu sporin okkur til heilla.“

Á samkomum stéttarfélaganna hefur boðskapi dagsins verið komið vel á framfæri við hátíðargesti í Íþróttahöllinni á Húsavík í gegnum ræðuhöld og þá hefur jafnframt verið lögð áhersla á að bjóða upp á vandaða tónlistar- og skemmtidagskrá í anda hátíðarhaldanna.

Forystufólk innan stéttarfélaganna hefur lagt á sig mikla sjálfboðavinnu til að láta hlutina ganga upp með starfsmönnum félaganna. Það að taka á móti 600 til 900 manns krefst vinnuframlags frá mörgum höndum. Fyrir þetta góða starf ber að þakka í gegnum tíðina.

Kjörorð dagsins er „Byggjum réttlátt þjóðfélag“. Stéttarfélögin í þingeyjarsýslum munu standa vaktina áfram sem hingað til með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.

Eins og fram kemur í þessu stutta ávarpi til félagsmanna verður ekki hefðbundin dagskrá á vegum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum í ár, það er því við hæfi að menn spili Framsýnarlagið í tilefni dagsins http://www.framsyn.is/framsynarlagid/ og skoði síðan svipmyndir hér á síðunni frá hátíðarhöldum stéttarfélaganna frá síðustu árum.

Góðar stundir og gleðilegt sumar

 Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

Breytingar á kjörum iðnaðarmanna 1. apríl

Samkvæmt kjarasamningum sem gerðir voru við Samtök atvinnulífsins í fyrravor verður tekinn upp virkur vinnutími 1. apríl næstkomandi. Starfsmaður í fullu starfi fær greiddar 37 vinnustundir á viku fyrir fullt starf. Deilitala dagvinnutímakaups verður 160 í stað 173,33 tímar. Jafnframt er í samningum heimild til að semja um 36 stunda vinnuviku. Hér fyrir neðan er texti úr dreifibréfi frá iðnfélögunum í Húsi fagfélaganna, sem fer til um fjögur þúsund launagreiðenda á næstu dögum vegna þeirra breytinga sem framundan eru.

Við upptöku virks vinnutíma eru 37 klst. greiddar að jafnaði á viku m.v. fullt starf í stað 40 klst. og deilitala dagvinnutímakaups verður 160 í stað 173,33. Tímakaup í dagvinnu  hækkar því um 8,33% eða sem nemur greiðslu fyrir kaffitíma sem færist yfir í tímakaup fyrir virkan vinnutíma, kaffitímar verða áfram teknir með sama fyrirkomulagi og áður, 35 mínútur á hverjum virkum degi. Ef færri tímar eru greiddir á viku / mánuði m.v. fullt starf skal reikna hækkun þannig að dagvinnulaun fyrir 37 klst. á viku / 160 klst. á mánuði verði þau sömu og áður var greitt fyrir fleiri tíma. Þar sem starfsmaður nýtur aukagreiðslna m.v. 40 klst. á viku (t.d. verkfæra- eða fatagjalds) taka þær hækkun 8,33% til samræmis.

Engar breytingar eru gerðar á fyrirkomulagi kaffihléa í yfirvinnu, þau verða áfram greiddur tími og sé unnið í þeim greiðist tilsvarandi lengri tími sem unninn er.

Dæmi til 31.03.2020

Mánaðarlaun Deilitala Tímakaup
500.000 173,33 2.885 kr.

Dæmi frá 01.04.2020 með kr.18.000 hækkun sem koma á öll laun 01.04. 2020.

Mánaðarlaun Deilitala Tímakaup
518.000 kr.* 160 3.238 kr.
  • Öll dagvinnulaun hækka um a.m.k.kr. 18.000,- eða 112,50 pr. tíma frá 1. apríl 2020.

Breyting á yfirvinnuálagi

Yfirvinna 1

Yfirvinna 1 er greidd fyrir fyrstu fyrstu 4 klst á viku að jafnaði eða 17,33 klst á mánuði. Álag á yfirvinnu 1 verður 1,02% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Yfirvinna 2 er greidd umfram það.

Yfirvinna 2

Yfirvinna 2 greiðist fyrir alla tíma umfram 17,33 yfirvinnutíma á mánuði og á nóttunni á milli                         kl. 00:00-06:00. Álag á yfirvinnu 2 verður 1,10% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Mánaðarlaun Álag Tímakaup
518.000 kr. 1,02% 5.284 kr.
518.000 kr. 1,10% 5.698 kr.

Stytting vinnuvikunnar

Starfsmenn eiga rétt á að fram fari viðræður um vinnutímastyttingu í 36 virkar vinnustundir á viku að jafnaði samhliða niðurfellingu kaffitíma skv. gr. 3.1.2 í kjarasamningi. Stjórnendur fyrirtækja geta einnig óskað eftir viðræðum.

Ef samkomulag verður á milli aðila vegna bættrar nýtingar vinnutíma og aukinnar framleiðni skiptist ávinningur milli starfsmanna og atvinnurekanda, hlutdeild starfsmanna felst í viðbótarstyttingu virks vinnutíma um 13 mín á dag eða 65 mín á viku.

Viðbótarstytting virks vinnutíma

Náist samkomulag um styttingu vinnuvikunnar verður virkur vinnutími 36 klst. á viku, án skerðingar mánaðarlauna (deilitala dagvinnutímakaups 156 í stað 160 með 2,56% hækkun dagvinnutímakaups).

Yfirvinna 1 greiðist áfram af fyrstu 4 klst á viku að jafnaði umfram 36 klst í dagvinnu eða 17,33 klst á mánuði.

Stéttarfélögin sem standa að þessum kjarasamningum eru tilbúin að veita aðstoð við útfærslu og vera félagsmönnum sínum innan handar við styttingu vinnuvikunnar.

>> Sjá nánar glærukynningu       >> Sjá spurt og svarað

Launahækkanir til félagsmanna 1. apríl 2020

Laun félagsmanna Framsýnar á almennum vinnumarkaði sem starfa á taxtalaunum samkvæmt kjarasamningum félagsins við Samtök atvinnulífsins hækkuðu um kr. 24.000 þann 1. apríl 2020. Almenn launahækkun til þeirra sem ekki eru á taxtalunum samkvæmt launatöflu hækka um kr. 18.000 frá sama tíma. Aðrir launaliðir sem kveðið er á um í kjarasamningi, svo sem bónusar í fiskvinnslu, hækkuðu um 2,5%. Sömu hækkanir eiga við um iðnaðarmenn.

Launataxtar verkafólk – almenni markaðurinn ( SGS )

Launataxtar ferðaþjónusta og veitingar – almenni markaðurinn ( SGS )

Launataxtar verslunar og skrifstofufólks ( LÍV/VR )

Launataxtar iðnaðarmanna ( Samiðn )

Ríkistjórnin samþykkir að koma til móts við fyrirtæki og starfsmenn þeirra

Í vikunni  samþykkti ríkisstjórn Íslands og kynnti þrjár tillögur um stuðning við launafólk og fyrirtæki. Markmið þeirra er að draga úr þeim skaða sem umfangsmiklar uppsagnir og fjöldagjaldþrot valda. Standa á vörð um réttindi launafólks á sama tíma og stuðlað verður að kröftugri viðspyrnu efnahagslífsins.

1. Framhald hlutabótaleiðarinnar.

Hlutastarfaleiðin verður framlengd með óbreyttu 25% lágmarkshlutfalli út júní en það hækki í 50% í júlí. Leiðin verður í boði til 31. ágúst. Sækja þarf um framlengingu leiðarinnar og sett verða skilyrði til að koma í veg fyrir misnotkun.

2. Greiðsla launa á uppsagnarfresti.

Fyrirtækjum verður gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Stuðningurinn verður að hámarki 633 þús. kr. á mánuði í allt að þrjá mánuði auk orlofs og einskorðast við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir að lágmarki 75% tekjufalli og sjá fram á áframhaldandi tekjufall að minnsta kosti út þetta ár. Aðstoðin miðast við allt að 85% af launum í uppsögn.

3. Fjárhagsleg endurskipulagning.

Settar verða einfaldar reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, tímabundið til að byrja með. Byggt verður á núgildandi grunnreglum en breytingar miða að því að fyrirtæki geti komist í skjól á einfaldan hátt á meðan verið er að meta stöðu þeirra og framtíðarhorfur. Breytingar lúta m.a. að skilyrðum fjárhagslegrar endurskipulagningar, beiðni og umfjöllun um hana, tímafrestum, heimildum til ráðstafana og riftunar- og vanefndaheimildum viðsemjenda. Gert er ráð fyrir að krafa verði gerð um að fyrirtæki muni þurfa að tilnefnda tilsjónarmann sem aðstoðar fyrirtækið á endurskipulagningar tímabilinu.

Góð tíðindi fyrir félagsliða sem ber að fagna

Ákveðið hefur verið að breyta námslokum félagsliða til að koma til móts við þær auknu kröfur sem gerðar eru til félagsliða að veita félagslegan stuðning innan velferðar- og heilbrigðisþjónustu, á öldrunarheimilum og við endurhæfingu í heimahúsum. Nám félagsliða verður því fært af 2. þrepi íslensks hæfniramma um menntun yfir á 3. þrep.

„Með nýju námi er stefnt að því að félagsliðar axli meiri ábyrgð á stjórnun, framkvæmd og eftirliti með félagslegri umönnun og geti miðlað flóknari upplýsingum til fjölbreyttari hópa. Ávinningur þessa er aukin fagmennska og hæfni stéttarinnar til að veita félagslegan stuðning til ólíkra hópa um leið og skýrleiki námsleiðarinnar er aukinn með tilliti til tengsla við önnur skólastig, gæði og stíganda í námi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Undirbúningur málsins á sér aðdraganda en starfsgreinaráð félags- og heilbrigðisgreina hefur endurmetið kröfur sem gera má til starfa félagsliða á 3. hæfniþrep. Þá hefur Menntamálastofnun farið yfir tillögurnar með hagsmunaaðilum og lagt til að námslokin verði færð upp um þrep. Mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnti áformin í samráðsgátt stjórnvalda í vetur og bárust um það 24 umsagnir.

Ráðuneytið hefur svarað umsögnunum í samráðsgátt og leggur til það sólarlagsákvæði að nemendur sem voru virkir í námi á vorönn 2020 gefist kostur á að ljúka því skv. eldri staðfestri námskrá. Hvatt verður þó til þess að eldri nemendur velji að ljúka námi af 3. hæfniþrepi til að geta mætt auknum kröfum í starfi. Jafnframt verður atvinnulíf hvatt til þess að meta námslok af báðum þrepum jafngild.

Stefnt er að því að kennsla hefjist skv. nýrri námskrá haustið 2020 en ný námskrá er í staðfestingarferli. Þá er verið að endurskrifa starfstengda námskrá innan framhaldsfræðslukerfisins m.t.t. samfellu í námi og mati á hæfni. Það nám verður að fullu metið til nýrra námsloka í framhaldsskóla. Fullorðnir námsmenn munu því áfram geta valið sér námsfyrirkomulag samhliða starfi eða sem lið í starfsþróun.

Frétt á vef: 28. apríl 2020 /Mennta- og menningarmálaráðuneytið

 

 

Góð kjör í boði fyrir félagsmenn gisti þeir hjá Íslandshótelum í sumar

Stéttarfélögin í þingeyjarsýslum hafa tryggt félagsmönnum gistingu á hagstæðu verði í sumar hjá Íslandshótelum. Verð á gistimiða til félagsmanna Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur verður kr. 11.500 út árið 2020.

Gistimiði gildir fyrir standard tveggja manna herbergi með morgunverði í eina nótt. Uppfærsla á fjögurra stjörnu Grand Hótel Reykjavík og Fosshótel Glacier Lagoon verður 5.000 kr. fyrir hverja nótt. www.islandshotel.is

Með fyrirvara um breytingar verða eftirtalin hótel opin í sumar:

Grand Hótel Reykjavík

Fosshótel Glacier Lagoon

Fosshótel Austfirðir

Fosshótel Húsavík

Fosshótel Vestfirðir

Fosshótel Stykkishólmur

Fosshótel Reykholt

Félagsmenn geta verslað sér gistimiða inn á orlofsvef stéttarfélaganna eða með því að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og kaupa miðana. Félagsmenn sjá sjálfir um að panta sér gistingu á viðkomandi hóteli á vegum Íslandshótela. www.framsyn.is

Ef eitthvað er óljóst, endilega hafið þá samband við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

Tækninám í boði fyrir félagsmenn Framsýnar

Tækninám hefur gert samning við Landsmennt um fulla fjármögnun á ársáskrift að Tækninám.is. Félagsmenn Framsýnar sem starfa á almenna vinnumarkaðinum, það er eftir kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins stendur þetta til boða.

Til þess að geta nýtt sér þennan styrk þarf að sækja um hér: https://taekninam.teachable.com/p/menntastyrkir

Inni á umsóknarsíðunni eru jafnframt nauðsynlegar upplýsingar fyrir umsækjandann. Í umsóknarferlinu velur hann hvaða stéttarfélagi hann er í.

Innifalið í ársáskrift að Tækninám er eftirfarandi:

  • Aðgangur að öllum okkar námskeiðum, sem telja nú um 27, sjá hér núverandi framboð: https://taekninam.teachable.com/courses
  • Öll ný námskeið, nýjungar og viðbætur á núverandi námskeiðum, við setjum inn ný námskeið á 4-8 vikna fresti að jafnaði
  • Aðgengi að leiðbeinendum
  • Reglulegar vefstundir þar sem farið er yfir ýmis áhugaverð atriði og nýjungar
  • Aðgangur að sértækum námskeiðum með blönduðu kennslufyrirkomulagi, sjálfsnám, vefstund, æfingar
  • Tækifæri til að taka þátt í að móta áherslur og forgangsröðun í framleiðslu nýrra námskeiða

Ef það eru einhverjar spurningar eða ef ykkur vantar frekari upplýsingar til að koma þessu á framfæri ekki hika við að hafa samband og við finnum sameiginlega lausn.

Um Tækninám.is
Tækninám.is er stafrænt fræðsluumhverfi sem bíður upp fjölda námskeiða fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Námskeiðin okkar eru fyrst og fremst hugsuð fyrir algjöra byrjendur sem þurfa eða hafa áhuga á að ná tökum á tækninni. Við erum í sífellu að bæta við nýjum námskeiðum og viljum heyra frá ykkur og okkar notendum hvað þið teljið mikilvægast að ná tökum á.

 

Kalla eftir víðtæku samstarfi hagsmunaaðila um bætt lífskjör fólks

Á stjórnarfundi Framsýnar í gær, mánudaginn 27. apríl, urðu töluverðar umræður almennt um lífskjör fólks á Íslandi og stöðu þess í þjóðfélaginu, það er á breiðum grundvelli.

Fólk á vinnumarkaði, atvinnuleitendur, fólk á eftirlaunum, fólk með skerta starfsorku og öryrkjar eiga margt sameiginlegt, flestir þeirra hafa verið á vinnumarkaði um  lengri eða skemmri tíma og þar með þátttakendur í starfi stéttarfélaga. Um að ræða mjög fjölmennan hóp sem mikið afl býr í. Að mati Framsýnar er brýnt að virkja þessi öfl saman til góðra verka með það að markmiði að bæta hag allra, ekki síst þeirra sem hvað verst eru settir í íslensku samfélagi.

Stéttarfélög og hagsmunasamtök þeirra, eins og Alþýðusamband Íslands gegna mikilvægu hlutverki hvað þetta varðar, en það gera einnig samtök eins og Félagasamtök eldri borgara og Öryrkjabandalagið. Að mati Framsýnar ættu einnig að koma að þessu sameiginlega borði samtök eins og Neytendasamtökin, Leigjendasamtökin og Hagsmunasamtök heimilanna þar sem eru ekki síður mikilvæg í baráttunni fyrir auknum jöfnuði í þjóðfélaginu. Án efa væri fengur í því að fá fleiri félagasamtök að þessu borði velferðar og réttlætis.

Stjórn Framsýnar samþykkti að hvetja Alþýðusamband Íslands til að hafa frumkvæði að því að mynda formlegt bandalag með öðrum hagsmunasamtökum launafólks og öðrum þeim hagsmunaaðilum sem vinna að sama markmiði. Tilgangurinn verði að mynda breiðfylkingu með þeim félagasamtökum sem hafa það að markmiði að vinna að velferð sinna umbjóðenda og vera málsvari þeirra í sameiginlegum málum er tengist meðal annars samskiptum við stjórnvöld, sveitarfélög og fjármálakerfið í landinu. Eins og oft áður eiga orðin, „Sterkari saman“, vel við um þessar mundir.

 

Við opnum aftur fyrir heimsóknir

Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík opnar aftur fyrir heimsóknir á skrifstofuna mánudaginn 4. maí. Um leið og við viljum þakka félagsmönnum fyrir góðan skilning á stöðunni, það er á ákvörðun stéttarfélaganna að loka skrifstofunni tímabundið af öryggisástæðum vegna Covid- 19. Flestum erindum hefur á sama tíma verið sinnt í gegnum síma og með netpóstum. Þrátt fyrir að lokað hafi verið fyrir heimsóknir á skrifstofuna hefur mikið álag verið á starfsmönnum enda fjölmörg mál komið upp undanfarnar vikur er varðar réttindi félagsmanna á Covid tímum. Starfsmenn stéttarfélaganna hafa staðið vaktina og svarað öllum þeim fjölmörgu erindum sem borist hafa skrifstofunni.

Þrátt fyrir að opnað verði fyrir heimsóknir á skrifstofuna viljum við biðla til félagsmanna og þeirra sem þurfa á þjónustu stéttarfélaganna að halda að virða tveggja metra regluna og skilaboð heilbrigðisyfirvalda á hverjum tíma. Sjáumst hress og gleðilegt sumar ágætu félagsmenn og fjölskyldur þeirra.  Framtíðin er björt.

Skiptaverð hækkar þann 1. maí 2020

Meðalverð á skráðu gasolíuverði á Rotterdammarkaði hefur lækkað verulega að undanförnu vegna covid-19 faraldursins. Þetta olíuverð er notað sem viðmiðun í kjarasamningi sjómanna til að ákvarða skiptaverð til sjómanna.

Fyrir tímabilið frá og með 21. mars til og með 20. apríl síðastliðinn var meðalverð á olíunni sem notað er til viðmiðunar 262,20 $/tonn og hafði þá lækkað úr 379,96 $/tonn frá síðasta viðmiðunartímabili.

Þetta þýðir að skiptaverð, þegar ísaður afli er seldur skyldum aðila, hækkar úr 70,5% í 75,5% af aflaverðmæti skipsins. Þegar ísaður afli er seldur óskyldum aðila eða á fiskmarkaði hækkar skiptaverðið úr 70% í 75% af aflaverðmætinu (uppboðskostnaður á fiskmörkuðunum dreginn frá áður en skiptaverð er reiknað).

Á frystitogurunum sem selja með fob söluskilmálun hækkar skiptaverðið úr 72% í 74,5% af fob verðmætinu og ef aflinn er seldur með cif söluskilmálum hækkar skiptaverðið úr 66,5% í 69% af cif verðmætinu.

Á skipum sem frysta rækju um borð hækkar skiptaverðið úr 69% í 71,5% af fob verðmætinu  og úr 63,5% í 66% af cif verðmætinu.

Skiptaverð þegar siglt er með uppsjávarfisk á erlendan markað er óbreytt 70% af söluvirði aflans. Þegar siglt er með ferkan fisk á erlendan markað er skiptaverðið einnig óbreytt eða 66% af heildarsöluverðmæti aflans.

Framangreindar breytingar taka gildi frá og með 1. maí næstkomandi. Sjá nánar í töflu hér á heimasíðunni um skiptaverð í einstökum mánuðum.

Hátíðarhöldum vegna 1. maí sjónvarpað

Í fyrsta skipti síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar. Við þessu er brugðist með útsendingu frá sérstakri skemmti-og baráttusamkomu sem flutt verður í Hörpu að kvöldi 1. maí og sjónvarpað verður í gegnum Ríkissjónvarpið kl. 19:40.

Landsþekktir tónlistarmenn, skemmtiatriði og hvatningarorð frá forystu verkalýðshreyfingarinnar einkenna þennan viðburð sem verður að teljast sögulegur. Meðal listamanna sem koma fram eru Ragnheiður Gröndal, Bubbi Morthens, Amabadama, Jói P og Króli, Ellen Kristjáns og Auður, Jakob Birgisson uppistandari, KK og Lúðrasveit verkalýðsins.

Við hvetjum til þátttöku í baráttudeginum á Facebook og svo til áhorfs á Rúv um kvöldið. Þá er afar mikilvægt að allir sem hafa tök á því að flagga, að þeir geri það og sínni þannig samstöðu í verki.

Að dagskránni í sjónvarpinu og viðburðum á samfélagsmiðlum standa eftirfarandi heildarsamtök launafólks: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum eru aðilar að þessum viðburði í gegnum aðild að ASÍ og BSRB.

 

 

 

Kallað eftir upplýsingum um starfsemi SSNE

Framsýn hefur ákveðið að kalla eftir frekari upplýsingum frá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE. Þrátt fyrir loforð um að aðalstöðvar samtakanna yrðu á Húsavík virðist sem tekin hafi verið ákvörðun um að þær verði á Akureyri, ekki er vitað hvar sú ákvörðun var tekin sem er auk þess á skjön við yfirlýsingar sveitarstjórnarmanna í Þingeyjarsýslum og samþykktir Eyþings sem staðfestar eru í fundargerðum. Þá hefur fyrrverandi framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga sagt upp störfum, ekki er vitað til þess að auglýst hafi verið eftir nýjum starfsmanni sem komi til með að starfa á Húsavík. Við þessa sameiningu leggst starf framkvæmdastjóra af hjá AÞ og færist til Akureyrar þar sem nýr framkvæmdastjóri verður með aðsetur hjá nýrri sameiginlegri stofnun.  Bréfið er svohljóðandi: 

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE
Bt. Hilda Jana Gísladóttir stjórnarformaður
Hafnarstræti 91
600 Akureyri 

Húsavík 22. apríl 2020

 Varðar starfsemi SSNE
Fyrir liggur að búið er að sameina þrjú félög/stofnanir á Norðurlandi  í ein samtök undir merkjum Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE. Þar á meðal Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.

Framsýn stéttarfélag hefur frá upphafi verið hluthafi í Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og tekið virkan þátt í starfsemi félagsins m.a. með stjórnarsetu. Að mati Framsýnar hefur starfsemi Atvinnuþróunarfélagsins í gegnum tíðina skilað góðum árangri. Tilgangur AÞ hefur verið að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga og fyrirtækja á starfssvæðinu. Með það að markmiði að stuðla að jákvæðri þróun atvinnulífs og bæta almenn búsetuskilyrði í Þingeyjarsýsum.

Síðan þekkja menn söguna, Framsýn hefur komið óánægju sinni vel á framfæri varðandi sameiningu þessara stofnana við sveitarstjórnarmenn og hugmyndafræðinganna að baki sameiningunni. Reyndar er afar lítill hljómgrunnur fyrir þessari sameiningu meðal Þingeyinga.

Í sameiningarferlinu hafa margar spurningar vaknað sem sumum hefur verið svarað meðan öðrum viðkvæmum spurningum hefur ekki verið svarað þrátt fyrir ítrekanir þess efnis.

Tilgangurinn með þessu bréfi er ekki síst að kalla eftir svörum varðandi aðalstöðvar SSNE og hvort búið sé að auglýsa starf Reinhards Reynissonar laust til umsóknar.

Í fundargerðum Eyþings má sjá að samþykki liggur fyrir því að aðalstöðvar nýju samtakanna verði á Húsavík. Síðar er farið að tala um á fundum innan Eyþings að lögheimili og varnarþing samtakanna verði á Húsavík. Þarna er strax byrjað að gefa eftir fyrri samþykkt Eyþings og áfram er haldið á þessari braut, því samkvæmt upplýsingum sem fram koma á vef Ríkisskattstjóra er starfsemi samtakanna skráð til heimilis á Akureyri.

Því er spurt, er endanlega búið að ákveða að aðalstöðvar SSNE verði á Akureyri?

Voru sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum höfð með í ráðum þegar þetta var samþykkt?

  • Þess ber að geta að talsmenn sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum töluðu fyrir því að aðalstöðvarnar yrðu á Húsavík. Sögðu reyndar við formann Framsýnar, að hann þyrfti ekki að óttast neitt, það væri búið að ganga frá því að aðalstöðvarnar yrðu á Húsavík og vísuðu í fundargerðir Eyþings máli sínu til stuðnings.

Nú liggur fyrir að Reinhard Reynisson fyrrverandi framkvæmdastjóri AÞ er að láta af störfum hjá SSNE/Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga. Er búið að auglýsa starf hans laust til umsóknar?

Er búið að skilgreina hvar starfstöðvarnar verða á þjónustusvæði SSNE?

  • Talað hefur verið um að þær verði fjórar ef eitthvað er að marka fyrri ákvarðanir.

Er búið að ákveða fjölda starfa hjá hverri starfstöð?

  • Framsýn hefur talað fyrir því að ákveðin starfsmannafjöldi verði á bak við hverja starfsstöð. Verði það ekki gert er ekki ólíklegt að störfin færist á eina starfsstöð, það er til Akureyrar.

Þess er vænst að stjórnendur SSNE svari þessum spurningum við fyrsta tækifæri.

Virðingarfyllst

 Fh. Framsýnar stéttarfélags

____________________________
Aðalsteinn Árni Baldursson

 

 

 

 

 

 

 

 

Stjórnarfundur á mánudaginn

Stjórn Framsýnar mun koma saman til fundar á mánudaginn kl. 16:00. Fundað verður í gegnum netforrit. Á fundinum verða nokkur málefni til umræðu, s.s. málefni Skrifstofu stéttarfélaganna, samstarfið við sveitarfélög og önnur stéttarfélög vegna Covid 19, málefni ASÍ, formannafundur SGS í haust og uppgjörsmál vegna sjómanna um borð í frystitogurum.

Orlofsuppbót/persónuuppbót til félagsmanna 2020

Framsýn stéttarfélag vill minna félagsmenn á rétt sinn á að fá greidda orlofsuppbót/persónuuppbót, en það er föst fjárhæð sem atvinnurekendum er skylt að greiða starfsfólki sínu í maí ár hvert. Uppbótin miðast við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu, inniheldur orlof og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Áunna orlofsuppbót skal gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar.

Almennur vinnumarkaður
Orlofsuppbót er 51.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. júní.

Starfsfólk hjá ríkinu
Orlofsuppbót er 51.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1.júní.

Starfsfólk sveitarfélaga
Persónuuppbót er 50.450 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. maí.

Töflur sem sýna upphæð orlofsgreiðslu miðað við starfshlutfall og starfstíma