Vinnumálastofnun efli þjónustu í Þingeyjarsýslum

Framsýn telur afar mikilvægt að Vinnumálastofnun efli þjónustu sína í Þingeyjarsýslum. Með bréfi kallar Framsýn eftir aukinni þjónustu stofnunarinnar á svæðinu er varðar almenna þjónustu við atvinnuleitendur, vinnumiðlun og vinnustaðaeftirlit. Bréfið er meðfylgjandi:

Vinnumálastofnun
Unnur Sverrisdóttir
Kringlunni 1
103 Reykjavík

 Húsavík 5. september 2020

 Varðar starfsemi Vinnumálastofnunnar

Þann 1. desember 2014 tók Vinnumálastofnun ákvörðun um að loka skrifstofu stofnunnarinnar á Húsavík í sparnaðarskyni og þar sem atvinnuleysi hafði dregist saman í Þingeyjarsýslum. Þessari ákvörðun Vinnumálastofnunar var mótmælt af sveitarfélögum og stéttarfélögum í héraðinu, en stofnunin sá ekki ástæðu til að endurskoða ákvörðun sína.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum stórlega aukist og því miður virðist ekki bjart yfir komandi mánuðum, svo vitnað sé í fjölda uppsagna á svæðinu og skýrslur Vinnumálastofnunar, sem enn gera ráð fyrir vaxandi atvinnuleysi.

Segja má að síðustu ár hafi hlutverk Vinnumálastofnunnar í Þingeyjarsýslum færst að hluta inn á borð starfsmanna Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík, sem daglega veita upplýsingar um stöðu og réttindi fólks sem misst hefur  atvinnu sína. Upplýsingar og þjónustu sem þeir eiga að hafa greiðan aðgang að hjá Vinnumálastofnun. Er þar einkum um að ræða erlenda starfsmenn, sem vita takmarkað um réttindi sín til atvinnuleysisbóta og þjónustu Vinnumálastofnunar s.s.  starfsmenn PCC og ferðaþjónustufyrirtækja. Forsvarsmenn fyrirtækja hafa einnig leitað töluvert til  stéttarfélaganna eftir upplýsingum er tengist uppsögnum, hlutabótum og atvinnuleysisbótum starfsmanna á tímum Covid-19.

Framsýn stéttarfélag bendir á að stjórnvöldum ber skylda til þess á hverjum tíma að tryggja Vinnumálastofnun nægjanlegt  fjármagn svo hún geti staðið undir sínum skyldum. Telur félagið löngu tímabært  að efla starfsemi stofnunarinnar á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Verulega hafi skort á að svo hafi verið, sérstaklega er varðar vinnumiðlun, almenna þjónustu og vinnustaðaeftirlit á svæðinu. Ekki er kveðið fast að orði þó sagt sé að ástand þessara mála sé orðið algjörlega óviðunandi.

Það sem af er ári hefur atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum stóraukist. Til að bregðast við þeirri stöðu setti Framsýn á laggirnar vinnumiðlun á félagssvæðinu, með það markmið að reyna  að miðla atvinnuleitendum í aðra vinnu. Sem betur fer hefur framtakið skilað þó nokkrum árangri en vissulega eru það vonbrigði að ekki hafi tekist betur til. Allt  of margir hafa hafnað vinnu sem þeim hefur staðið til boða. Þörf er á aðhaldi frá Vinnumálastofnun, því að sjálfsögðu á engum að líðast að vera á atvinnuleysisbótum standi þeim vinna til boða sem samræmist getu, menntun og fyrri reynslu viðkomandi.  Þá er mikilvægt að Vinnumálastofnun taki upp virkt samstarf við Þekkingarnet Þingeyinga um námskeiðahald fyrir þá sem þegar eru komnir inn á atvinnuleysisbætur og/eða eiga því miður eftir að bætast í þann hóp á komandi mánuðum. Virk fræðsla er mjög mikilvæg á tímum sem þessum.

Þá hefur lítið sem ekkert verið um vinnustaðaeftirlit í Þingeyjarsýslum á vegum Vinnumálastofnunar. Enn og aftur hefur það aðallega verið í höndum Framsýnar, sem réði á sínum tíma sérstakan mann í vinnustaðaeftirlit. Eftirlitið hefur skilað góðum árangri en skort hefur á að opinberir aðilar taki þátt í því með stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum.

Með bréfi þessu kallar Framsýn eftir viðræðum við Vinnumálastofnun um að stofnunin auki þjónustu við atvinnuleitendur í  Þingeyjarsýslum og aðra þá sem sækja þurfa þjónustu sem fellur almennt undir starfsemi stofnunarinnar. Til greina kemur að Framsýn komi til móts við Vinnumálastofnun með því að leggja til aðstöðu undir starfsemina á Húsavík til reynslu. Í það minnsta færi félagið með opnum huga í slíkar viðræður við Vinnumálastofnun.

Frekari upplýsingar gefur undirritaður.

Virðingarfyllst
Fh. Framsýnar stéttarfélags

Aðalsteinn Árni Baldursson

 

Afrit:
Ásmundur Einar Daðason,
Félags- og barnamálaráðherra 

Soffía Gísladóttir,
Forstöðumaður VMST á Norðurlandi eystra

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila á