Ríkið bótaskylt vegna lausnarlauna

Viðskiptablaðið fjallar um áhugaverða niðurstöðu er varðar svokölluð lausnarlaun sem hafa verið túlkuð svo af hinu opinbera að fólk afsali sér rétti til starfs til frambúðar.

Íslenska ríkið og eitt sveitarfélaga landsins þurftu að þola viðurkenningu á óskiptri skaðabótaskyldu sökum þess að hafa hafnað því að ráða einstakling sem kennara við grunnskóla í sveitarfélaginu haustið 2017. Dóminum var ekki áfrýjað og segir lögmaður kennarans að dómurinn geti haft talsverð áhrif til bóta á réttarstöðu launþega, sér í lagi hjá hinu opinbera.

Umræddur kennari hefur áratugareynslu af kennslu í grunnskóla. Á vormánuðum ársins 2015 kom í ljós að hann var með kransæðasjúkdóm sem þarfnaðist meðhöndlunar og var hann óvinnufær sökum þess um nokkurra mánaða skeið. Þá um haustið gekkst hann undir aðgerð vegna þess.

Á þeim tíma átti kennarinn 360 daga veikindarétt samkvæmt kjarasamningi sínum en hann átti að renna sitt skeið um miðjan janúar 2016. Skömmu áður en hann rann sitt skeið var undirritaður samningur um að honum skyldu greidd lausnarlaun en sá var gerður á þeim grunni að maðurinn ætti ekki afturkvæmt til starfa sinna. Hljóðaði samningurinn upp á greiðslu fullra mánaðarlauna í þrjá mánuði eftir að látið er af störfum.

Í ágúst 2017 sótti kennarinn um starf hjá öðrum skóla í sama sveitarfélagi en þá hafði hann náð kröftum sínum á nýjan leik. Svar skólastjóra þess skóla var á þá leið að nítján mánuðum fyrr hefði kennarinn undirritað samkomulag um greiðslu lausnarlauna á þeim grunni að hann væri varanlega ófær um að sinna starfi sínu vegna vanheilsu. Af þeim sökum kæmi umsókn hans ekki til álita við ráðningu í starfið þrátt fyrir að kennarinn hefði verið eini umsækjandinn sem hefði leyfisbréf til starfans. Þess í stað var sótt um undanþágu til ráðherra til þess að ráða leyfislausan starfsmann tímabundið við skólann.

„Það hefur tíðkast, að minnsta kosti hjá kennurum, að litið sé svo á að langveikir einstaklingar megi ekki snúa aftur til starfa, nái þeir bata, hafi þeir tekið við lausnarlaunum vegna varanlegrar óvinnufærni. Lausnarlaunaþegum var þó almennt ekki tilkynnt um þennan galla á gjöf Njarðar, það er að með móttöku lausnarlaunanna fyrirgerði viðkomandi rétti sínum til að starfa í faginu til frambúðar,“ segir Ingvar Smári Birgisson, lögmaður mannsins, við Viðskiptablaðið.

Því vildi kennarinn ekki una heldur sinna starfi sínu á nýjan leik. Ótækt væri að skólar gætu túlkað slíkt tvíhliða samkomulag með slíkum hætti. Það gæti ekki staðist skoðun að um óafturkræfa yfirlýsingu, um óvinnufærni allt þar til yfir lýkur, væri að ræða.

Sveitarfélagið taldi á móti að ekki hefði verið brotið gegn rétti kennarans þar sem fyrir hefði legið yfirlýsing trúnaðarlæknis skólans þess efnis að hann væri óvinnufær ævina á enda. Ríkið krafðist síðan sýknu á þeim grunni að það gæti ekki borið ábyrgð á einstökum aðgerðum sveitarfélaga. Á þau rök féllst héraðsdómur ekki og taldi hvorki lög né kjarasamninga geyma heimild til að sniðganga kennarann með þessum hætti.

Að sögn Ingvars áfrýjuðu hvorki ríki né sveitarfélag niðurstöðu héraðsdóms og því stendur hann óhaggaður. Spurður að því hvort dómurinn geti haft áhrif út fyrir þetta tiltekna mál segir lögmaðurinn að svo kunni að vera. „Í dóminum er staðfest að skerðing á atvinnufrelsi í kjarasamningum er háð sömu skýrleikakröfum og sambærilegar skerðingar í lögum. Þannig er ljóst að atvinnufrelsi einstaklinga verður ekki skert með ótvíræðu orðalagi í kjarasamningum, enda um grundvallarréttindi einstaklinga að ræða,“ segir Ingvar Smári. „Fordæmisgildi dómsins kann að vera umtalsvert, sérstaklega fyrir launþega hjá hinu opinbera.“

Sannað þótti að maðurinn hefði orðið fyrir fjártjóni vegna þessa og skaðabótaskylda ríkisins og sveitarfélagsins því viðurkennd. Gjafsóknarkostnaður mannsins, 1,8 milljónir króna án virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.

Frétt: Viðskiptablaðið 3. september 2020

Til fróðleiks má geta þess að Framsýn stéttarfélag aðstoðar reglulega félagsmenn sem átt hafa í langvarandi veikindum og starfað hafa hjá ríkinu eða sveitarfélögum að ná fram kjarasamningsbundum rétti til lausnarlauna. Ekki síst í ljósi þess er dómurinn mjög áhugaverður.

 

Deila á