Áríðandi skilaboð til starfsmanna sveitarfélaga

Í síðustu kjarasamningum var samið um Félagsmannasjóð. Þetta ákvæði nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum.

Sveitarfélögin greiða mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna Framsýnar.

Við þetta öðlast starfsmenn rétt á eingreiðslu sem tekur mið af launum þeirra og starfstíma frá 1. febrúar til 31. desember ár hvert. Greiðslan fyrir árið 2020 á að berast starfsmönnum þann 1. febrúar næstkomandi.

Forsendan fyrir því að hægt verði að greiða út úr sjóðnum er að Framsýn hafi kennitölur, bankaupplýsingar og netföng starfsmanna.

Þess vegna er afar mikilvægt að starfsmenn sveitarfélaga sendi þessar upplýsingar sem fyrst á netfangið linda@framsyn.is  svo hægt verði að greiða starfsmönnum. Þá er einnig hægt að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og ganga frá þessum málum þar.

Frekari upplýsingar um Félagsmannasjóðinn er hægt að fá á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Framsýn stéttarfélag

Launahækkanir um áramót

Þann 1. janúar 2021 hækkuðu laun og launatengdir liðir skv. núgildandi kjarasamningum sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn. Það sama á við um félagsmenn Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur.

Starfsfólk á almennum vinnumarkaði:
1. janúar 2021 hækkuðu kauptaxtar hjá verslunarmönnum og almennu starfsfólki á vinnumarkaði um kr. 24.000 á mánuði m.v. fullt starf. Frá sama tíma tekur ný launatafla gildi hjá iðnaðarmönnum. Almenn hækkun (laun þeirra sem eru með umsamin laun umfram lágmarktaxta) hækkuðu um kr. 15.750 á mánuði.

Aðrir kjaratengdir liðir kjarasamningsins hækkuðu um 2,5% á sömu dagsetningu.

Lágmarkstekjutrygging fyrir fullt starf er nú 351.000 krónur á mánuði.

Almenni kjarasamningurinn og starfsfólk í ferðaþjónustu:

https://www.sgs.is/media/1852/taxtar_sa_1-jan-31-des-2021.pdf

Starfsfólk sveitarfélaga:
1. janúar 2021 hækkuðu kauptaxtar hjá sveitarfélögunum um kr. 24.000. 

Starfsfólk sveitarfélaga:

https://www.sgs.is/media/1850/taxtar_sveitarfelog_1-jan-31-des-2021.pdf

Starfsfólk ríkisins:
Ný launatafla tók gildi hjá ríkinu 1. janúar 2021 sem byggir á álags- og launaflokkum í stað bara launaflokka. Unnið er að því að endurnýja stofnanasamninga við stofnanir ríkisins og varpa starfsmönnum inn í nýja töflu.

Starfsfólk ríkisstofnana:

https://www.sgs.is/media/1851/taxtar_riki_1-jan-31-des-2021.pdf

Starfsmenn PCC:

Starfsmenn PCC, það er almennir starfsmenn, skrifstofufólk og iðnaðarmenn fá sambærilegar launahækkanir og starfsfólk á almenna vinnumarkaðinum og aðrir iðnarmenn innan Samiðnar sem Þingiðn á aðild að.

Aðrir hópar:

Hjá þeim hópum félagsmanna sem ósamið er fyrir koma launahækkanir ekki til framkvæmda, það á sérstaklega við um sjómenn.

Trúnaðarmannanámskeið í apríl

Því miður hefur ekki tekist að halda trúnaðarmannanámskeið á vegum stéttarfélaganna undanfarna mánuði sem tengist Covid 19. Nú ætlum við að blása veiruna í burtu og blása námskeiðið á dagana 19. – 20. apríl nk. enda hafi okkur tekist að berja niður veiruna og heilbrigðisyfirvöld hafi heimilað að menn geti staðið fyrir námskeiðum sem þessum. Skorað er á trúnaðarmenn að skrá sig sem fyrst. Það gera menn með því að fara inn á heimasíðu MFA eins og áður. Nánar um það síðar. Koma svo!

Stofnanasamningur klár við FSH

Undanfarnar vikur hafa staðið yfir viðræður milli Framsýnar og Framhaldsskólans á Húsavík um endurnýjun á stofnanasamningi sem er hluti af aðalkjarasamningi aðila. Viðræður hafa gengið vel og var samningurinn klár í lok desember. Vegna jólafría starfsmanna var gengið frá honum formlega í gær með undirskrift. Á meðfylgjandi mynd má sjá Valgerði Gunnars skólameistara og fulltrúa Framsýnar, þær Guðrúnu, Önnu og Alexíu, sem gengu endanlega frá samningnum í gær. Á myndina vantar formann Framsýnar, Aðalstein Árna, sem kom að samningagerðinni með starfsmönnum skólans innan Framsýnar og skólameistara. Eftir fráganginn á samningnum í gær fékk formaður Framsýnar kynnisferð um skólahúsnæðið en töluverðar framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarið við lagfæringar á skólanum bæði  innan- og utanhúss. Afar ánægjulegt er að sjá hvað búið er að gera mikið varðandi endurbætur á húsnæðinu. Öll aðstaða kennara og annarra starfsmanna skólans sem og nemenda er orðin til mikillar fyrirmyndar. Vonandi tekst að fjölga nemendum enn frekar á komandi skólaárum, ekki síst þar sem skólaumhverfið er orðið til mikillar fyrirmyndar og því ætti að vera eftirsóknarvert að stunda nám við FSH.

Um 68 milljónir úr sjúkrasjóði til félagsmanna á árinu 2020

Stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar kom saman til fundar fyrir áramótin til að úthluta úr sjóðnum til félagsmanna vegna umsókna um styrkveitingar fyrir desember.  Samtals fengu félagsmenn greiddar um 7,7 milljónir í styrki fyrir síðasta mánuð ársins. Stjórnin kemur saman mánaðarlega og tekur fyrir umsóknir félagsmanna um sjúkaradagpeninga vegna veikinda og annarra styrkja s.s. vegna sálfræðikostnaðar, líkamsræktar og sjúkraþjálfunar. Í heildina fengu félagsmenn Framsýnar greiddar um 68 milljónir í styrki á árinu 2020 sem er í hærra lagi sé tekið mið af meðaltals styrkveitingum síðustu ára. Sem betur fer er Framsýn fjárhagslega sterkt stéttarfélag og hefur því burði til að styðja vel við bakið á félagsmönnum í þeirra veikindum og heilsurækt.  

Stjórn Framsýnar í stuði – kom færandi hendi með staðgengil

Innan Framsýnar er mikið lagt upp úr líflegu og skemmtilegu félgsstarfi, en fjöldi félagsmanna gegnir trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélagið. En þrátt fyrir alvöruna sem gjarnan fylgir daglegum störfum stéttarfélaga, er nauðsynlegt að missa ekki sjónar á spaugilegu þáttunum  í tilverunni.

Það er reyndar sagt er að öllu gamni fylgi nokkur alvara. Í aðdraganda jóla kom varaformaður Framsýnar, Ósk Helgadóttir færandi hendi á Skrifstofu stéttarfélaganna með sendingu frá stjórn og trúnaðarráði félagsins. Hún hafði meðferðis eftirlíkingu af formanninum og lét þau orð falla að nú væri komið að því að hann tæki sér frí. Staðgengill formanns hefur fengið nafnið Frímann, en þrátt fyrir grínið sem tilurð hans fylgir, er hann fyrst og fremst ætlaður sem ábending til Aðalsteins Árna, um að honum sem öðrum launþegum sé ætlað að taka sitt lögbundna sumarfrí.  Mikið álag hefur verið á starfsfólki skrifstofunnar undanfarna mánuði og því lítið um frí hjá formanninum.

Athygli vekur hvað þeir eru líkir, Aðalsteinn Árni og Frímann sem ætlað er að leysa formanninn af hólmi meðan hann tekur ótekið sumarleyfi.

Heilsað upp á starfsmenn Ernis

Á dögunum færðu stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum starfsmönnum Flugfélagsins Ernis smá glaðning, það er konfekt eins og það gerist best. Stéttarfélögin hafa í gegnum tíðina átt mjög gott samstarf við stjórnendur flugfélagsins varðandi flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Samkomulagið hefur gert það að verkum að stéttarfélögin hafa getað boðið félagsmönnum upp á ódýr flugfargjöld á flugleiðinni Reykjavík-Húsavík. Vonandi verður svo áfram á komandi árum enda afar mikilvægt að öruggar flugsamgöngur séu milli Húsavíkur og Reykjavíkur.

Gunna og Lilja klikka ekki enda báðar öflugar konur sem taka ávallt vel á móti farþegum á vegum Flugfélagsins Ernis á Reykjavíkurflugvelli.

Framsýn greiddi rétt um 19 milljónir í námsstyrki á árinu sem er að líða

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fengu félagsmenn Framsýnar rétt um 19 milljónir í námsstyrki á árinu 2020 sem er svipuð upphæð milli ára þar sem greiðslurnar námu um 18 milljónum árið á undan. Aðgengi félagsmanna að fræðslusjóðum sem Framsýn á aðild að í gegnum kjarasamninga veitir félagsmönnum þessa góðu styrki. Fullgildir félagsmenn eiga rétt á 130.000 króna styrk á hverju ári. Geymdur þriggja ára réttur getur numið allt að 390.000 krónum. Stundi félagsmenn kostnaðarsamt nám og klári sinn kjarasamningsbundna námsstyrk kemur Fræðslusjóður Framsýnar til aðstoðar með allt að 100.000 króna auka framlagi. Það er ekki bara gott að búa í Kópavogi, það er líka gott að vera félagsmaður í Framsýn stéttarfélagi.

Skemmtiferðaskip streyma til Húsavíkur – stefnir í met

Ef marka má boðaðar komur skemmtiferðaskipa til Húsavíkur næsta sumar er að lifna verulega yfir ferðaþjónustunni eftir erfiða tíma á árinu sem er að líða. Samkvæmt heimildum heimasíðu stéttarfélaganna hafa aldrei fleiri komur skemmtiferðaskipa verið bókaðar til Húsavíkur eins og sumarið 2021 eða 54 komur skemmtiferðaskipa. Til samanburðar má geta þess að 46 komur skemmtiferðaskipa voru skráðar til Húsavíkur sumarið 2020. Ekkert varð hins vegar úr því að þau kæmu vegna heimsfaraldursins. Eins og fram kemur í fréttinni eru 54 komur skemmtiferðaskipa bókaðar til Húsavíkur í sumar og þegar hafa verið bókaðar 33 komur skipa til Húsavíkur sumarið 2022 sem án efa á eftir að fjölga umtalsvert þegar fram líða stundir. Að sjálfsögðu eru heimsóknir skemmtiferðaskipa háðar því að takist að vinna á kórónuveikinni og menn geti farið að ferðast aftur frjálsir um heiminn eins og var fyrir heimsfaraldurinn. Vissulega eru þetta góðar fréttir enda gangi þessar áætlanir eftir og mönnum takist að vinna á kórónuveikinni öllum til hagsbóta með aðgæslu og nýja bóluefninu við veirunni sem þegar er komið í umferð, þar á meðal á Íslandi. Í það minnsta skulum við vera jákvæð fyrir því að þetta raungerist.

Þórir Örn Gunnarsson hafnarvörður á Húsavík er klár að taka á móti skemmtiferðaskipum næsta sumar enda verði ástandið í heiminum orðið eins og það var fyrir Covid-19.

Gunnar leit við hjá formanni Framsýnar

Gunn­ar Gísla­son fram­kvæmd­ar­stjóri sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­is­ins GPG Seafood á Húsa­vík, heilsaði upp á formann Framsýnar fyrir jólahátíðina. Hann tók við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins 1. sept­em­ber af Páli Kristjánssyni.

Gunn­ar starfaði áður á fjár­mála­markaði við fjár­mögn­un sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja bæði á Íslandi og er­lend­is. Þá hef­ur hann einnig starfað fyr­ir Sam­skip í Bremen og Sölu­miðstöð hraðfrystihús­anna, einnig þekkt sem Icelandic Group, við sölu sjáv­ar­af­urða.

Gunn­ar er með MBA gráðu frá Há­skóla Reykja­vík­ur, BSc í út­flutn­ings­markaðsfræði frá Tækni­skóla Íslands og er lög­gilt­ur verðbréfamiðlari.

GPG Sea­food hef­ur höfuðstöðvar á Húsa­vík en jafn­framt starf­semi á Raufar­höfn og Bakkafirði. Fé­lagið ger­ir út fjóra báta og eru áhersl­un­ar í fram­leiðslunni salt­fisk­vinnsla, fiskþurrk­un, hrogna­vinnsla og fryst­ing upp­sjáv­ar­fisks. Fé­lagið er í eigu Gunn­laugs Karls Hreins­son­ar sem jafn­framt er stjórn­ar­formaður fé­lags­ins.

GPG Seafood/GPG-Fiskverkun er með öflugri fyrirtækjum á félagssvæði Framsýnar. Eins og áður hefur komið fram hefur fyrirtækið nýlega fjárfest í tveimur nýjum og öflugum fiskiskipum sem eru væntanleg norður til Húsavíkur/Raufarhafnar á nýju ári. Gunnar lagði áherslu á að fyrirtækið vildi eiga gott samstarf við Framsýn auk þess sem hann fór yfir helstu áherslur fyrirtækisins í rekstri og starfsmannamálum. Þess má geta að Framsýn hefur í gegnum tíðina átt gott samstarf við stjórnendur GPG á hverjum tíma.  

Minnisbókin 2021 klár

Minnisbókin er komin í hús og tilbúin fyrir félagsmenn sem geta nálgast hana á Skrifstofu stéttarfélaganna. Einnig eru í boði dagatöl fyrir félagsmenn og aðra þá sem vantar dagatöl. Í boði er að fá dagatölin og minnisbækurnar heim til sín með pósti, það er þeir sem búa utan Húsavíkur.

Aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar frestað

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar stéttarfélags sem vera átti þriðjudaginn  29. desember 2020 í fundarsal félagsins kl. 17:00 er hér með frestað vegna sóttvarnarreglna. Það er von Framsýnar að hægt verði að halda aðalfundinn í janúar enda verði það heimilt samkvæmt ákvörðun heilbrigðisyfirvalda.

Fréttatilkynning frá formannafundi SGS

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af því hvernig gengur að innleiða og skipuleggja styttri vinnuviku hjá starfsmönnum sveitarfélaga.

Í kjarasamningum sem undirritaðir voru síðasta vor var samið um styttingu vinnuvikunnar. Í samningum er lögð áhersla á að það fari fram alvöru samtal milli starfsmanna og stjórnenda um fyrirkomulag og innleiðingu á hverri stofnun/starfsstöð  fyrir sig.

Nú er ljóst að innleiðingin gengur mun hægar en vonir stóðu til hjá sveitarfélögunum og mörg þeirra hafa annað hvort ekki sinnt samningsbundnu samráði við sína starfsmenn eða tekið sér það vald að ákveða fyrirkomulagið án aðkomu okkar fólks.

Fundurinn krefst þess að Samband íslenskra sveitarfélaga, sem fer með samningsumboð sveitarfélaganna, tryggi að sveitarfélögin í landinu standi við kjarasamninga og tryggi sínum starfsmönnum betri vinnutíma eins og um var samið.

15. desember 2020

Nánari upplýsingar:

Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, 894 0729

Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, 8978888

Þýðingar á ensku og pólsku á ferðaþjónustusamningnum

Rétt er að vekja athygli félagsmanna á því að ensk og pólsk þýðing á greiðasölusamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem Framsýn á aðild að er komin á vefinn hjá Starfsgreinasambandinu. Meðan ekki er búið að setja hana formlega inn á heimasíðu Framsýnar verður hægt að nálgast þýðinguna með því að smella á meðfylgjandi slóðir. Áður hefur verið hægt að nálgast þessar þýðingar á almenna samningnum inn á heimasíðu Framsýnar.

Enska: http://www.sgs.is/english/agreements/

Pólska: http://www.sgs.is/polish/federacj%c4%85-pracownikow-sgs/

Kaffistofan – jólaþáttur

Fram kemur á vefnum samstadan.is að í jólaþátt kaffistofunnar að þessu sinni, mæti fulltrúar úr landsliði verkalýðshreyfingarinnar. Þátturinn var í gærkvöldi. Þeir eru spurðir út í málefni verkalýðshreyfingarinnar og komandi baráttu á næsta ári. Miklir hagsmunir séu í húfi fyrir verkafólk. Einn af þeim sem voru beðnir að taka þátt í þættinum er formaður Framsýnar stéttarfélags. Hlutsa á þáttinn: https://samstodin.is/show/kaffistofan-jolathattur/

Samið við Framhaldsskólann á Laugum

Verulegur tími fer í það um þessar mundir hjá starfsmönnum stéttarfélaganna að funda með forsvarsmönnum og starfsmönnum stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga hvað varðar vinnutímabreytingar og endurnýjun á stofnanasamningum. Þannig er að vinnutímabreytingar koma til framkvæmda um næstu áramót hjá starfsmönnum sveitarfélaga og hjá stofnunum ríkisins. Þó ekki hjá vaktavinnufólki, þar taka breytingarnar gildi 1. maí 2001.Vegna breytinga á launatöflu ríkisins þarf að taka upp alla stofnanasamninga sem gilda fyrir félagsmenn Framsýnar. Markmið Framsýnar er að þessi vinna klárist fyrir áramót með sveitarfélögunum og stofnunum ríkisins en rúmlega 500 félagsmenn starfa á vegum ríkis og sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum. Helstu breytingarnar eru að frá og með 1. janúar kemur til 13 mín stytting á dag m.v. við fullt starf. Taki menn ákvörðun um að fella niður neysluhlé getur styttingin orðið allt að 4 tímar á viku hjá starfsmönnum í fullu starfi og hlutfallslega miðað við starfshlutfall viðkomandi. Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir starfsmenn. Afar mikilvægt er að þeir kynni sér vel væntanlegar breytingar og hvernig þær eiga að virka. Félagsmönnum er ávallt velkomið að hafa samband við starfsmenn stéttarfélaganna vilji þeir fræðast betur um breytingarnar.

Þess má geta að Framsýn skrifaði undir nýjan stofnanasamning við Framhaldsskólann á Laugum í vikunni. Á myndinni eru Sigurbjörn Árni skólameistari og Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar ásamt tveimur starfsmönnum skólans við undirskriftina, það er þeim Evu Björg og Kristjönu.

Dagatölin komin í hús – dagbækurnar á leiðinni

Félagsmenn stéttarfélaganna geta nálgast dagbækur og dagatöl fyrir árið 2021 á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þeir sem búa utan Húsavíkur geta hringt á skrifstofuna og fengið dagbækurnar og dagatölin send til sín í pósti. Dagbókunum og dagatölunum er að venju dreift ókeypis til félagsmanna. Að þessu sinni eru myndirnar á dagatölunum teknar af Hafþóri Hreiðarssyni, Ósk Helgadóttir og starfsmönnum stéttarfélaganna. Stéttarfélögin vilja nota tækifærið og þakka Ósk og Haffa kærlega fyrir lánið á myndunum, þið eruð bæði frábær.