Ætlar þú með í Flateyjarferðina?

Stéttarfélögin standa fyrir félagsferð til Flateyjar á Skjálfanda í sumar. Farið verður laugardaginn 14. ágúst og er um að ræða dagsferð fyrir félagsmenn og gesti. Farið verður frá Húsavík kl. 13:00 og komið aftur heim um kvöldið.  Eins og kunnugt er þá er Flatey stærsta eyjan á Skjálfandaflóa við norðurstönd Íslands. Eyjan liggur aðeins um 2,5 kílómetra frá landi við Flateyjardal. Í Flatey er mikið fuglalíf og góð fiskimið eru allt í kringum eyjuna. Flatey er tilvalinn staður fyrir fuglaáhugafólk og ævintýri líkast að koma þangað á sumrin. Byggð er sunnan á eynni og auk íbúðarhúsa eru þar samkomuhús, skóli, viti og kirkja. Árið 1942 bjuggu 120 manns í Flatey en síðan 1967 hefur engin verið með fasta búsetu í eynni.

Félagsmönnum stéttarfélaganna stendur til boða að upplifa paradís Skjálfandaflóa í allri sinni dýrð, með einstakri náttúru og ríku fuglalífi.  Boðið verður upp á skoðunarferð um eyjuna undir leiðsögn auk þess sem grillað verður fyrir gestina í boði stéttarfélaganna.

Hægt verður að bóka sig í ferðina á Skrifstofu stéttarfélaganna til 28. júlí. Verðið er kr. 8.000,- per einstakling sem greiðist við skráningu eða í síðasta lagi 28. júlí. Innifalið er sjóferðin, grill og skoðunarferð um eyjuna. Lágmarksþátttaka í ferðina er 25 manns. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Langar þig vestur í sumarhús á morgun?

Rétt í þessu var að losna orlofshús á vegum stéttarfélaganna í Flókalundi. Húsið sem er 42 fm. stendur í Orlofsbyggðinni í Flókalundi sem er rómað svæði fyrir fegurð og stórbrotið landslag enda á Vestfjörðum. Húsið er með 2 svefnherbergjum, stofu og borðstofu með eldhúskrók. Svefnpláss og sængur eru fyrir 6 manns og hægt er að fá lánaða dýnu hjá umsjónarmanni. Húsið er númer 2 og er laust frá föstudeginum 16. júlí. Áhugasamir hafi samband við Lindu á Skrifstofu stéttarfélaganna, 4646600.

Hitafundur á Húsavík

Nýlega lagði Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra, þingmaður og formaður Framsóknarflokksins, svo eitthvað sé nefnt, leið sína til Húsavíkur. Tilgangurinn var að heimsækja formann Framsýnar og ræða við hann þjóðmálin og önnur aðkallandi mál. Eins og kunnugt er, er Guðni ekki síst áhugamaður um landbúnaðarmál, málefni eldri borgara og samgöngumál. Vel fór á með þeim félögum sem skiptust á skoðunum í blíðunni á Húsavík. Með Guðna í för voru feðgarnir Ágúst og Guðjón Ragnar Jónasson. Þrátt fyrir að fundurinn hafi farið vel fram má segja að hann hafi verið hitafundur enda um 20 gráður á mæli þegar gestirnir tóku hús á formanni Framsýnar sem bauð þeim upp á kaffi, vatn og meðlæti.  

Að sjálfsögðu var tekinn göngutúr um Húsavík. Þessir tveir snillingar eru ekki skoðanalausir, það er; Þráinn Gunnarsson og Hannes Höskuldsson sem tóku tal við Guðna sem sagði alla vera Framsóknarmenn inn við beinið. Væntanlega eru Þráinn og Hannes ekki alveg sammála því.

Guðni og félagar gáfu sér líka tíma til að líta við í Grobbholti þar sem forystuærin Elding tók vel á móti gestunum að sunnan.

Kolefnisjöfnun Framsýnar vekur athygli – Bændablaðið fjallar um málið

Í nýjasta Bændablaðinu er góð umfjöllun um ákvörðun Framsýnar að kolefnisjafna starf félagsins. Sagt er frá því að fundarmenn á aðalfundi félagsins hafi fengið að gjöf 50 plöntur til að gróðursetja sem samkvæmt útreikningum þurfti til að kolefnisjafna starf Framsýnar á síðasta ári, það er á móti akstri starfsmanna og annarra félagsmanna sem ferðuðust á vegum félagsins á síðasta ári, það er keyrandi. Þá er tekið fram að með þessum táknræna hætti kolefnisjafni Framsýn líklega fyrst stéttarfélaga hér á landi akstur sinn. Samkvæmt útreikningum hafi þurft 50 plöntur til að kolefnisjafna allan akstur starfsmanna og annarra félagsmanna sem ferðuðust akandi í þágu félagsins á síðasta ári.  Öll þurfum við að axla ábyrgð gagnvart því sem er að gerast í náttúrunni og við verðum að bregðast strax við, eigi komandi kynslóðir að geta átt sér framtíð og búið áfram á þessari jörð. Jafnframt því þurfum við sem verkalýðshreyfing, sem aldrei fyrr að standa fast í fætur og verja hag þeirra sem minnst mega sín segir í fréttinni. Ljóst er að þetta er góð viðurkenning fyrir starf Framsýnar sem enn og aftur sýnir ákveðið frumkvæði er snýr að verkalýðsmálum og velferð félagsmanna.

Heilt launatímabil til útborgunar 1. júlí – Betri vinnutími

Betri vinnutími í vaktavinnu tók gildi þann 1. maí síðastliðinn og þar með mesta kerfisbreyting á vinnufyrirkomulagi og launamyndunarkerfi í vaktavinnu í áratugi. Nú um mánaðarmótin er önnur útborgun samkvæmt nýju kerfi, en sú fyrsta sem nær yfir heilt launatímabil.  Þá verða reglubundin mánaðarlaun greidd fyrir tímabilið 1. – 31. júní en breytileg laun greidd fyrir tímabilið 16. maí – 15. júní  eða 11. maí – 10. júní sbr. fyrri útborganir launagreiðenda.   

Fræðsluefni 

Á www.betrivinnutimi.is má finna fræðslumyndband um launaseðilinn ásamt glærukynningu til þess að auðvelda starfsfólki og stjórnendum að átta sig á breytingunum. Einnig er vísað á spurt og svarað og leiðbeiningar um yfirferð á launaseðli. Því til viðbótar er bent á myndband sem Reykjavíkurborg hefur gert þar sem farið er yfir launaseðil skref fyrir skref. Forsíða (betrivinnutimi.is)

Stjórnendur og starfsfólk eru hvattir til þess að kynna sér þetta efni vel.  

Ferill ef starfsfólk telur sig ekki fá rétt laun

Gert er ráð fyrir því að starfsfólk leiti til síns stjórnanda, eins og áður, ef það telur sig ekki fá rétt laun í launaútborgun 1. júlí. Þarfnist stjórnandi frekari útskýringa er bent á að leita svara eins og við á og unnt er innan stofnunar/vinnustaðar, hvort heldur sem er hjá launafulltrúa eða lykilaðilum á vinnustað.

Komi upp sú staða að hópur sé talinn lækka í launum vegna kerfisbreytinganna þrátt fyrir að innleiðingin hafi verið í takt við leiðarljós og markmið verkefnisins er mikilvægt að greina hópinn nánar sbr. gátlista. Þegar hópur hefur verið greindur eru gögn send til viðkomandi launagreiðanda sbr. ferli einstakra mála.

Fagnaðarfundur

Mývetningurinn Þorlákur Páll Jónsson og formaður Eflingar stéttarfélags, Sólveig Anna Jónsdóttir, hittust í Sel hótel Mývatn þegar formannafundur Starfsgreinasambands Íslands fór þar fram lok maí. Láki fór strax í ættfræðina og sagði þau náskyld. Í það minnsta eru þau bæði þrælmögnuð og því þarf ekki að koma á óvart að þau séu skyld og rúmlega það.

PCC á toppnum

PCC BakkiSilicon hf. greiddi mest allra atvinnurekenda  í iðgjöld til Framsýnar árið 2020 eða samtals um kr. 17,3 milljónir. Árið áður greiddi PCC sömuleiðis mest eða um 23,7 milljónir. Innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna og lögbundin iðgjöld atvinnurekenda í sjóði Framsýnar. Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir ekki launatengd gjöld í sjóði félagsins s.s. í orlofs- og sjúkrasjóð af atvinnuleitendum sem greiða félagsgjald til Framsýnar af atvinnuleysisbótum. Atvinnuleysistryggingasjóður er í öðru sæti á listanum yfir þá aðila sem hafa skilað félagsgjöldum til Framsýnar en kæmist ekki á listann ef lögbundin iðgjöld atvinnurekenda væru talin með eins og er í tilvikum þeirra fyrirtækja/sveitarfélaga/ríkisins sem eru á listanum.

Stærstu greiðendur iðgjalda árið 2020 eftir röð:

PCC BakkiSilicon hf.

Atvinnuleysistryggingasjóður

Sveitarfélagið Norðurþing

GPG. Seafood ehf.

Norðlenska matarborðið ehf.

Ríkissjóður Íslands

Hvammur, heimili aldraðra

Þingeyjarsveit

Íslandshótel hf.

Samherji

Félagsmönnum fækkaði vegna Covid

Alls greiddu 2.644 félagsmenn til Framsýnar- stéttarfélags á árinu 2020 en greiðandi félagar voru 3.320 árið 2019. Greiðandi félagsmönnum Framsýnar fækkaði verulega milli ára sem á sínar skýringar og tengist heimsfaraldrinum, Covid-19. Fækkun félagsmanna átti sér sérstaklega stað í ferðaþjónustunni enda hrundi sú atvinnugrein á árinu 2020. Af þeim sem greiddu félagsgjald til Framsýnar á síðasta ári voru 1.514 karlar og 1.130 konur sem skiptast þannig, konur eru 43% og karlar 57% félagsmanna.  Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 264, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Félagsmenn Framsýnar stéttarfélags voru samtals 2.908 þann 31. desember 2020. Fjölmennustu hóparnir innan Framsýnar starfa við matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, almenn verslunarstörf, iðnað og hjá ríki og sveitarfélögum.

Tæpar 20 milljónir í fræðslustyrki til félagsmanna

Framsýn er mjög umhugað um starfsmenntun félagsmanna. Á árinu 2020 fengu 306 félagsmenn greiddar kr. 19.583.452,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum sem Framsýn á aðild að í gegnum kjarasamninga vegna náms eða námskeiða. Sambærileg tala fyrir árið 2019 var kr. 18.024.508,-. Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum sbr. ákvæði þar um í kjarasamningum. Það á þó ekki við um Fræðslusjóð Framsýnar sem hefur ekki fastan tekjustofn.

Aðhald í rekstri vatn á myllu félagsmanna

Fjárhagsleg afkoma Framsýnar var góð á árinu 2020 þrátt fyrir erfitt rekstrarár og fækkun félagsmanna milli ára úr 3.320 iðgjaldagreiðendum í 2.644. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins. Rekstrarafgangur var af öllum sjóðum félagsins nema Fræðslusjóði. Rekstrartekjur félagsins námu kr. 255 milljónum  sem er lækkun um 8,4% milli ára.  Þessi lækkun skýrist fyrst og fremst af lægri iðgjaldatekjum. Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 215 milljónum 2020 á móti kr. 233 milljónum á árinu 2019 sem er lækkun upp á um 7,8%. Rekstrargjöld lækka að sama skapi um 8% á milli ára en þau námu kr. 198 milljónum. Þessi lækkun er einkum tilkomin vegna greiðslna úr sjúkrasjóði og minni umsvifa við fundi, ráðstefnur og námskeið. Greiðslur úr sjúkrasjóði lækkuðu um 9 milljónir samanborið við 2019 en hlutfallslega minna en tekjur sjóðsins. Greiðslurnar eru enn töluvert hærri en árin þar á undan og eru stærsti einstaki útgjaldaliður Framsýnar fyrir utan laun og launatengd gjöld. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam  kr. 58 milljónir. Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur greiddu rúmar kr. 5 milljónir til rekstursins. Í árslok 2020 var tekjuafgangur félagsins kr. 111 milljónir en var kr. 114 milljónir árið 2019. Heildareignir félagsins námu kr. 2.269 milljónum í árslok 2020 samanborið við kr. 2.146 milljónir í árslok 2019. Í lok síðasta árs var samið við Motus um að sjá um innheimtu gagnvart þeim sem ekki standa í skilum við félagið. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að stéttarfélög sýni aðhald í rekstri til að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og gott aðgengi að styrkjum úr sjúkra,- orlofs- og starfsmenntasjóðum.

Aðalfundur STH

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur verður haldinn fimmtudaginn 26. ágúst 2021 kl. 20:00 í fundasal stéttarfélaganna.


Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf
a) Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár
b) Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár
c) Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna
d) Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund
e) Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein
f) Kosning endurskoðenda samkvæmt 6. grein
g) Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
h) Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd

2. Önnur mál

Skorað er á félagsmenn til að mæta á fundinn og taka þátt í störfum félagsins. Boðið verður upp á kaffi, meðlæti og skemmtiatriði. Koma svo!

Stjórn STH

Ort til nafna

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari var gestur á formannafundi Starfsgreinasambands Íslands sem haldinn var í Mývatnssveit í lok maí. Hann kastaði þessari vísu á nafna sinn, Aðalstein Árna Baldursson formann Framsýnar.

„Enginn tekur eftir þér

auðmjúki nafni minn

Hógvær, hlýðinn eins og smér

hófsami drengurinn“

Skrifstofuhaldið gekk vel

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Þar starfa 6 starfsmenn í 5,4 stöðugildum. Þá eru 5 starfsmenn í hlutastörfum hjá stéttarfélögunum við að þjónusta orlofsíbúðir í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri og í Öxarfirði auk þess sem einn starfsmaður er í hlutastarfi á Raufarhöfn. Huld Aðalbjarnardóttir hætti störfum hjá stéttarfélögunum á síðasta ári og eru henni þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins. Í hennar stað var Elísabet Gunnarsdóttir ráðin sem fjármálastjóri. Þá hætti Aðalsteinn J. Halldórsson störfum hjá stéttarfélögunum í lok síðasta ár og eru honum sömuleiðis þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins. Félagið heldur úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni.

Félagslögin endurskoðuð

Laganefnd Framsýnar lagði til töluverðar breytingar á félagslögum á aðalfundi félagsins. Að mati Laganefndarinnar var löngu tímabært að ráðast í breytingar á lögunum. Markmið breytinganna er að færa lögin nær nútímanum og þeim breytingum sem orðið hafa á starfsemi félagsins og stéttarfélaga á undangengnum árum auk þess að skýra betur einstakar greinar. Eftir góðar umræður á aðalfundinum voru lagabreytingarnar bornar upp í einu lagi og samþykktar samhljóða. Lagabreytingarnar taka ekki gildi fyrr en Alþýðusamband Íslands hefur fjallað um þær og tekið afstöðu til þeirra.

Geggjuð félagsferð í boði- Flatey á Skjálfanda

Stéttarfélögin standa fyrir félagsferð til Flateyjar á Skjálfanda í sumar. Farið verður laugardaginn 14. ágúst og er um að ræða dagsferð fyrir félagsmenn og gesti. Farið verður frá Húsavík kl. 13:00 og komið aftur heim um kvöldið.  Eins og kunnugt er þá er Flatey stærsta eyjan á Skjálfandaflóa við norðurstönd Íslands. Eyjan liggur aðeins um 2,5 kílómetra frá landi við Flateyjardal. Í Flatey er mikið fuglalíf og góð fiskimið eru allt í kringum eyjuna. Flatey er tilvalinn staður fyrir fuglaáhugafólk og ævintýri líkast að koma þangað á sumrin. Byggð er sunnan á eynni og auk íbúðarhúsa eru þar samkomuhús, skóli, viti og kirkja. Árið 1942 bjuggu 120 manns í Flatey en síðan 1967 hefur engin verið með fasta búsetu í eynni.

Félagsmönnum stéttarfélaganna stendur til boða að upplifa paradís Skjálfandaflóa í allri sinni dýrð, með einstakri náttúru og ríku fuglalífi.  Boðið verður upp á skoðunarferð um eyjuna undir leiðsögn auk þess sem grillað verður fyrir gestina í boði stéttarfélaganna.

Hægt verður að bóka sig í ferðina á Skrifstofu stéttarfélaganna til 28. júlí. Verðið er kr. 8.000,- per einstakling sem greiðist við skráningu eða í síðasta lagi 15. júlí. Innifalið er sjóferðin, grill og skoðunarferð um eyjuna. Lágmarksþátttaka í ferðina er 25 manns. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Vinnuskólinn kom í heimsókn

Nemendur í Vinnuskóla Húsavíkur komu í heimsókn í morgun til að fræðast um starfsemi stéttarfélaga og helstu réttindi og skyldur fólks á vinnumarkaði. Hópurinn var mjög fjörugur og líflegur.  Ekkert skorti á spurningar enda nemendur vinnuskólans fróðleiksfúsir.

Demantshringurinn kallar – sumarferð stéttarfélaganna

Stéttarfélögin bjóða félagsmönnum og gestum þeirra upp á  magnaða sumarferð 2021. Sumarferðir stéttarfélaganna hafa fram að þessu notið töluverðra vinsælda. Nú er komið að því að fara Demantshringinn með rútu frá Húsavík. Farið verður í ferðina laugardaginn 28. ágúst. Um er að ræða dagsferð þar sem náttúruperlur eins og Mývatn, Dettifoss, Selfoss, Hafragilsfoss, Hólmatungur, Vesturdalur/Hljóðaklettar og Ásbyrgi verða skoðaðar undir leiðsögn staðkunnugra. Jafnvel verður gengið á Eyjuna gefist tími til þess. Þá verður boðið upp á veitingar á leiðinni og grillað ef veður leyfir á einhverjum góðum áningarstað.  Hægt verður að bóka sig í ferðina á Skrifstofu stéttarfélaganna til 15. júlí. Verðið er kr. 5.000,- per félagsmann og gesti sem greiðist við skráningu eða í síðasta lagi 15. júlí. Innifalið er rútuferðin, grill og leiðsögn. Lágmarksþátttaka er 20 manns. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Laun stjórnar og lágmarksfélagsgjald

Á aðalfundi Framsýnar var samþykkt að félagsgjaldið verði óbreytt eins og verið hefur í nokkra áratugi eða 1% af launum félagsmanna. Þá var samþykkt að taka aftur upp lágmarksgjald. Til að öðlast full félagsréttindi þarf viðkomandi launamaður að greiða mánaðarlegt félagsgjald, nú 1% af heildarlaunum. Lágmarksfélagsgjaldið til að teljast félagsmaður  tekur mið af byrjunarlaunum 18 ára afgreiðslufólks, samkvæmt launataxta LÍV-SA sem Framsýn á aðild að á hverjum tíma. Skal það vera 0,3% af þessum launaflokki. Þegar rætt er um lágmarksfélagsgjald er miðað við gjald samtals í eitt ár, eða undangengna 12 mánuði. Félagsmenn sem ekki hafa náð lágmarksfélagsgjaldi eiga rétt á aðstoð við kjaramál og réttindi í sjóðum félagsins í hlutfalli við greiðslur. Til þess að viðhalda fullgildum félagsrétti í Framsýn þurfa félagsgjaldsgreiðslur að berast reglulega. Ef ekkert félagsgjald er greitt í sex mánuði samfellt fellur viðkomandi af félagsskrá. Hægt er að ná aftur fullgildingu frá þeim mánuði sem næsta félagsgjaldsgreiðsla berst, ef lágmarksfélagsgjaldi er náð undangengna 12 mánuði.

Laun fyrir trúnaðarstörf
Fyrir nokkrum árum var tekinn upp sú regla að þeir sem gegna trúnaðarstörfum fyrir Framsýn fái greiðslur fyrir fundarsetu, það er í stjórnum, ráðum og nefndum á vegum félagsins. Miðað er við tímakaup fiskvinnslufólks. Á aðalfundinum var samþykkt að viðhalda þessari reglu enda mikilvægt að almennir félagsmenn sem leggja á sig vinnu fyrir félagið fái smá umbun fyrir það.

Við hæfi að mæra ykkur í drasl

Mig langar að kalla til fólkið á bak við tjöldin og fá að þakka þeim sérstaklega, svo mælti varaformaður Framsýnar í lok aðalfundar Framsýnar sem haldinn var á dögunum:

Góða fólk. Það hefur mikið mætt á ykkur undanfarin ár. Fyrst í öllu brjálæðinu í kringum uppbygginguna á Þeistareykjum og Bakka og svo í öldurótinu vegna heimsfaraldursins. Ég hugsa að ykkar starfslýsing sé nokkuð víðfeðm og þið þurfið oft að hugsa út fyrir rammann. Störf ykkar krefjast sífellt meiri sérfræðiþekkingar og sérhæfingar og ég held að það sé rétt sem sagt var í mín eyru á dögunum, að til þess að geta svarað í símann á skrifstofu stéttarfélags í dag, þurfi fólk helst að vera löglært. Við erum heppin með starfsfólk. Þið eruð burðarásinn í allri okkar starfi,  látið hlutina ganga frá degi til dags og haldið utan um ótrúlega viðamikla starfsemi. Án ykkar værum við ekki á þeim stað sem við erum á í dag. Þó að það sé ekki fært sérstaklega inn í ársskýrsluna, þá getum við lesið það á milli línanna að mesti auður félagsins að eiga ykkur að. Án ykkar værum við ekkert. Mig langar að færa ykkur örlítinn þakklætisvott frá stjórn Framsýnar, trúnaðarráði og Framsýn – ung til að þakka ykkur fyrir ykkar framlag að öflugu starfi félagsins. Mér fannst ekki við hæfi að mæra ykkur í drasl og gefa ykkur svo afskorin blóm sem þegar hafa hafið rotnunarferli. Því fáið þið lifandi plöntur sem sinnið örugglega af bestu samvisku, rétt eins og störfum ykkar hér. Að sjálfsögðu þökkuðu starfsmenn vel fyrir sig og hlý orð í þeirra garð.

Kolefnisjafnað með táknrænum hætti – Framsýn sýnir frumkvæði

Ekki er vitað til þess að stéttarfélag hafi áður kolefnisjafnað starfið en aðalfundargestir fengu að gjöf 50 plöntur til að gróðursetja sem samkvæmt útreikningum þurfti til að kolefnisjafna starf Framsýnar á síðasta ári, það er á móti akstri starfsmanna og annarra félagsmanna sem ferðuðust á vegum félagsins á síðasta ári, það er keyrandi. Í tilefni af því flutti varaformaður Framsýnar, Ósk Helgadóttir, ávarp þar sem hún kom inn á ákvörðun félagsins að kolefnisjafna fundinn um leið og þess væri minnst að rúmlega öld er liðin frá því að Verkamannafélag Húsavíkur var stofnað, nú Framsýn stéttarfélag, við gefum Ósk orðið:

Húsvískir daglaunamenn réðust í að stofna með sér félag um stéttbundin hagsmunamál sín þann 14. apríl 1911, Verkamannafélag Húsavíkur.

Á þeim tíma var atvinnuöryggi verkafólks takmarkað og afkomuöryggi enn minna. Fólk var oftast ráðið frá degi til dags og tilfallandi atvinna í boði var líkamleg erfiðisvinna. Við nútímafólk eigum erfitt með að setja okkur í spor fólks sem byggði landið á þessum tíma. Við vitum þó að kjör alþýðufólks voru kröpp, það bjó við lélegan húsakost og aðbúnaður verkafólks á vinnustöðum var slæmur.   

Með tilkomu stéttarfélaga vinnandi fólks hófst skipulögð barátta verkafólks fyrir mannsæmandi lífi. Ætli Íslensk alþýða á þeim tíma hafi horft til framtíðar? Jú, það gerði hún með því að berjast fyrir bættum kjörum og verja síðan það sem áunnist hefur með kjafti og klóm. Hús reis upp aftur og aftur, náði fram mörgum sigrum og tryggði launafólki aukið starfsöryggi, bættar vinnuaðstæður og velferð. Sótti skref fyrir skref þau lögboðnu réttindi sem okkur þykja sjálfsögð í dag. 

Stærsta áskorun samtímans eru loftslagsmálin
Verkalýðshreyfingin er baráttuafl rétt eins og hún var fyrir 110 árum, þótt áskoranir sem koma inn á hennar borð í dag séu margar með öðrum hætti. Eitt af stóru málum hreyfingarinnar í dag og jafnframt stærsta áskorun samtímans eru loftslagsbreytingar sem komnar eru til af mannavöldum. Þær hafa þegar haft víðtæk áhrif á efnahags- og atvinnulíf þjóða og þar með lífskjör og afkomu almennings um allan heim. Við sjáum afleiðingar þessara breytinga á jörðinni. Jöklar bráðna, yfirborð sjávar hækkar, vistkerfi raskast og öfgar í veðurfari aukast. Auk þess verða breytingar á lífsskilyrðum í sjó vegna breytinga á straumum, sýrustigi og seltu.  

Alþjóðlega verkalýðshreyfingin hefur þróað ramma utan um samfélagsbreytingar næstu ára undir yfirskriftinni „réttlát umskipti“. Grunnstefið í réttlátum umskiptum er að breytingarnar þurfi að vera réttlátar gagnvart launafólki, ekki síst í þeim atvinnugreinum sem munu gjörbreytast eða jafnvel hverfa í tengslum við tækniþróun og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Samhliða því er tekist á við áhrif nýrrar tækni, gervigreindar og sjálfvirknivæðingar. 

Það væri óskandi að ráðamönnum þjóðarinnar muni auðnist að stíga fram í sama takti og verkalýðshreyfingin og að „réttlát umskipti“ komi til með að þýða það í raun. Þær aðgerðir sem stjórnvöld grípa til þegar ráðist er í aðgerðir gegn loftslagsbreytingum mega ekki verða til  þess að auka á hlut hinna fáu í verðmætum samfélagsins. Í því sambandi hefur ASÍ  bent á að grænir skattar eins og til að mynda kolefnisskattur bitni  helst á lágtekjuhópum sem hafa ekki möguleika á að skipta yfir í rafbíla, á meðan efri tekjuhópar nýta sér frekar skattaafslætti sem ívilnanir fyrir vistvæn ökutæki fela í sér. 

Þjóðin lifði á því sem landið gaf
En aftur að frumkvöðlunum. Þegar Verkamannafélag Húsavíkur var stofnað  áttu náttúra og samfélag ennþá í tiltölulega heilbrigðu sambandi og þjóðin lifði aðeins á því sem náttúran gaf. Í þann tíma ferðuðust Íslendingar almennt fótgangandi, fóru ríðandi eða jafnvel sjóleiðis á milli landshluta. Ekki var í boði að fara í vinnuna eða skreppa á milli bæja á einkabílnum, taka strætó, eða fljúga á milli áfangastaða innanlands sem utan eins og tíðkast í dag. Tengsl manns og náttúru voru sterk. Jörðin, samfélagið, fólkið og menning þess var samofin eining, mótuð í samspili við náttúruöflin. 

Við vitum svo sem ekkert um hvað skrafað var yfir yfir kaffibollanum á vinnustöðum verkafólks, væri slíkur munaður í boði. En nokkuð örugglega hafa hugtök eins og gróðurhúsalofttegundir, kolefnisbinding og hamfarahlýnun ekki verið þeirra kynslóð töm á tungu. 

Við greiðum skuldina við landið
Það fer vel á því að heiðra minningu stofnenda Verkamannafélags Húsavíkur með því að afhenda ykkur fundarmenn góðir, íslenska birkiplöntu sem við biðjum ykkur að gróðursetja og hlúa að svo hún vaxi og dafni. Með þessum táknræna hætti kolefnisjafnar Framsýn líklega fyrst stéttarfélaga hér á landi akstur sinn. Samkvæmt útreikningum þarf 50 plöntur til að kolefnisjafna allan akstur starfsmanna og annarra félagsmanna sem ferðuðust akandi í þágu félagsins á síðasta ári.  Við getum kallað það að greiða skuldina við landið. 

Öll þurfum við að axla ábyrgð gagnvart því sem er að gerast í náttúrunni og við verðum að bregðast strax við, eigi komandi kynslóðir að geta átt sér framtíð og búið áfram á þessari jörð. Jafnframt því þurfum við sem verkalýðshreyfing, sem aldrei fyrr að standa fast í fætur og verja hag þeirra sem minnst mega sín.