Á undanförnum áratugum hafa vinnustaðir tekið breytingum og vinna starfsmenn störf sín í meira mæli við tölvu og þá almennt í sitjandi stöðu. Þeir sem sinna slíkum störfum þekkja margir hverjir þær afleiðingar sem langvarandi seta getur haft á heilsu fólks án þess þó að bregðast sérstaklega við því. Algengustu einkennin eru verkir í fótleggjum eða mjóbaki, en einnig getur langverandi seta stuðlað að alvarlegri einkennum. Þó finna alls ekki allir fyrir líkamlegum einkennum.
Undanfarið hefur umræða um kyrrsetu náð eyrum fólks og fólk því orðið meðvitaðra um rétta líkamsbeitingu í sínum störfum. Hreyfing og virkni í frítíma hefur einnig mikil áhrif á það hvort langvarandi seta á vinnutíma bitni mikið eða lítið á viðkomandi.
Í nýlegri könnun sem tók til 45.000 vinnustaða í 33 Evrópuríkjum töldu 61 prósent svarenda langvarandi setu vera áhættuþátt í störfum starfsmanna sinna. Of mikil kyrrseta er talin vera sérstaklega mikið vandamál á vinnustöðum þar sem meirihluti starfsmanna vinnur skrifstofustörf og lítill hluti starfsins krefst líkamlegs erfiðis. Kyrrseta til lengri tíma er talin hafa slæm áhrif á stoðkerfi líkamans og talin geta leitt til vandamála eða verkja tengdum stoðkerfinu.
Athygli vekur að kyrrseta er talinn meiri áhættuþáttur samkvæmt sömu könnun heldur en störf sem felast í að lyfta eða hreyfa fólk og lyfta þungum hlutum. Þannig töldu 54 prósent svarenda það vera áhættuþátt í störfum starfsmanna sinna. Þar getur rétt líkamsbreyting skipt sköpum, rétt eins og þegar kemur að langvarandi kyrrsetu.
Aðbúnaður starfsmanna getur verið mismunandi góður en almennt er talið að góður skrifborðsstóll og skrifborð sem hægt er að hækka sé gulls í gildi. Þannig getur starfsfólk sinnt störfum sínum, sem unnið er við tölvu eða borð, standandi og komið í veg fyrir of mikla kyrrsetu í sínum störfum. (Heimild bsrb.is)