Húsavíkurstofa sem er samráðsvettvangur fyrirtækja og þjónustuaðila á Húsavík og nágrenni og hefur það markmið að stuðla að eflingu atvinnulífs með aukinni samvinnu hagsmunaaðila í ferðaþjónustu tekur heilshugar undir með Framsýn varðandi mikilvægi þess að flugsamgöngur haldist milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Stjórn Húsavíkurstofu lítur málið alvarlegum augum og bendir á að gríðarlega mikilvægt sé að halda í þessar góðu flugsamgöngur, þær séu mikil þjónustubót og skipti Húsavík miklu máli. Áhugi er innan stjórnar Húsavíkurstofu að fylgja málinu eftir og funda með formanni Framsýnar og Flugfélagsins Ernis um málið. Þegar þetta er skrifað hafa fulltrúar stjórnar Húsavíkurstofu þegar fundað með formanni Framsýnar um málið, en félagið hefur eins og fram hefur komið í fjölmiðum og greinarskrifum um málið, komið sínum áhyggjum skýrt á framfæri enda eina áætlunarflugið til áfangastaða sem ekki er ríkisstyrkt á Íslandi. Það er flugið með Flugfélaginu Erni til Húsavíkur.