Egill Páll blaðamaður á Vikublaðinu hefur skrifað leiðara sem vakið hafa töluverða athygli og umræður. Við birtum hér leiðara sem kemur inn á starf Framsýnar og því við hæfi að birta hann. Annar leiðari eftir Egil Pál mun svo birtast á morgun er nefnist „Martröðin sem ekki er talað um“ og fjallar um framkomu ferðamanna í garð starfsfólks í ferðaþjónustu. Hvað það varðar hefur Framsýn orðið að skipta sér að slíkum málum á félagssvæðinu þar sem starfsmenn í ferðaþjónustu hafa sett sig í samband við félagið vegna slíkra mála.
Hvað er að gerast í Norðurþingi?
Sagt er að góðir hlutir gerist hægt en svo raungerast aðrir hlutir alls ekki neitt. Hvort hið fyrrnefnda eða síðarnefnda eigi við um stjórnsýsluna í Norðurþingi er ekki gott að fullyrða nokkuð um.
Ég hef um nokkurt skeið fylgst vel með fundargerðum frá fastanefndum sveitarstjórnar Norðurþings. Ekki er óalgengt að inn á borð nefndanna og sveitarstjórnar berist mál sem kannski er ekki beint á könnu sveitarfélaga yfir höfuð. Slík mál geta engu síður verið gríðarleg hagsmunamál fyrir íbúa og þar af leiðandi æskilegt að sveitarfélagið beiti sér af fullum þunga fyrir því að slík mál komist í jákvæðan farveg. Oft sér maður að þessi mál eru afgreidd í bókun eitthvað á þann veg að fylgst verði með gangi mála.
Þar má nefna mál eins og brýna viðhaldsþörf Húsavíkurkirkju. Sveitarstjórn tók málið til umræðu og kallaði í kjölfarið fulltrúa frá sóknarnefnd á fund byggðarráðs. Þar var bókað að aðkoma Norðurþings yrði reifuð. Síðan hefur ekkert heyrst frá kjörnum fulltrúum.
Nú er raunveruleg hætta á því að Húsasmiðjan hverfi frá Húsavík og þar með myndi þjónustustig lækka í bænum, bæði fyrir íbúa en ekki síður iðnaðarmenn. Hefur sveitarstjórn gert eitthvað til að reyna liðka fyrir því að þessi þjónusta haldist innan bæjarmarkanna?
Hvernig er með stöðu áætlunarflugs til Húsavíkur. Nú er ekkert launungamál að flugfélagið Ernir sem haldið hefur úti þessari flugleið berst í bökkum og hafa margir áhyggjur af því að það sé einungis tímaspursmál hvenær áætlunarflug til Húsavíkur leggst af. Þetta er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál, fyrir íbúa og ferðaþjónustuaðila. Hvað er sveitarstjórn að gera í málinu?
Hefur sveitarstjóri átt fund með ráðherra samgöngumála? Hefur einhver úr sveitarstjórn bent ráðherra á bjagað samkeppnisumhverfi í innanlandsflugi og að flugleiðin Húsavík-Reykjavík er eina flugleiðin í áætlunarflugi án ríkisábyrgðar. Hefur einhver innan Norðurþings haldið því á lofti við ráðherra að samkeppniseftirlitið lýsti áhyggjum af áhrifum ríkisaðstoðar Icelandair á flugfélagið Erni?
Þetta hefur hinsvegar stéttarfélagið Framsýn gert. Fyrir utan það að styðja við flugfélagið sem sinnir Húsavíkurfluginu með því að niðurgreiða fargjöldin fyrir félagsmenn sína; þá er félagið að vinna að því hörðum höndum að þrýsta á rétt stjórnvöld að tryggja það áætlunarflug til Húsavíkur leggist ekki af.
Það hefur verið, og má í sjálfu sér gagnrýna það að stéttarfélag sé að eyða púðri í það að hugsa um áætlunarflug; en ekki er sveitarstjórn að gera neitt í málinu. Þetta telst kannski ekki til mikilvægra hagsmuna fyrir íbúa, eða hvað?
Egill P. Egilsson
(Leiðarinn er birtur með leyfi blaðamannsins)