Formanni Framsýnar var boðið í heimsókn til starfsmanna Eimskips á Húsavík í morgun en fyrirtækið rekur öfluga þjónustustarfsemi í flutningum fyrir atvinnulífið og einstaklinga á svæðinu. Auk þess að vera með skrifstofur og vöruskemmu á hafnarsvæðinu rekur fyrirtækið bílaverkstæði sem sér um viðhald á bílaflota fyrirtækisins er viðkemur starfsstöðinni en sex flutningabílar eru staðsettir á Húsavík auk sendibíla og lyftara. Þá þarf öflugan tækjakost fyrir hafnarstarfsemina. Á álagstímum sjá undirverktakar um ákveðna flutninga fyrir Eimskip þegar þess þarf með. Í heildina starfa um 20 starfsmenn í starfsstöðinni á Húsavík.
Starfsemi Eimskips á Húsavík skiptir verulega miklu máli enda umsvifin mikil í kringum fyrirtækið. Fyrirtækið hefur m.a. séð um að þjónusta PCC á Bakka sem er stór inn- og útflytjandi á íslenskan mælikvarða. Ekki var annað að heyra en að starfsmenn væru almennt mjög ánægðir með lífið og tilveruna enda mikið lagt upp úr góðum starfsanda. Áhugavert er að skoða starfsmannahaldið, þar má sjá að hluti stafsmanna hefur starfað hjá fyrirtækinu í áratugi sem segir mikið um vinnustaðinn. Eða eins og einn starfsmaðurinn orðaði það, þetta er „Flottasti vinnustaðurinn.“ Væntanlega verður hann enn þá flottari þegar búið verður að taka starfsmannaaðstöðuna í gegn en stefnt er að því að ráðast í breytingar á aðstöðunni á komandi vetri gangi áætlanir eftir.
Það var Vilhjálmur Sigmundsson svæðisstjóri Eimskips á Norðausturlandi sem leiddi formann Framsýnar um vinnustaðinn. Þess má til gaman geta að þeir störfuðu saman hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur á árum áður og þá var nú ýmislegt brallað. Formaður Framsýnar þakkar fyrir frábærar móttökur og góða kynningu á starfsemi Eimskips á Húsavík.
Hér má sjá Pétur Helga Pétursson og Hallgrím Jónsson skoðunarmenn reikninga hjá Framsýn fara yfir drög að ársreikningum vegna ársins 2020. Skoðunarmennirnir gerðu ekki athugasemdir við drögin þar sem þau gæfu góða yfirsýn yfir rekstur félagsins sem væri til mikillar fyrirmyndar. Þeir leggja að sjálfsögðu til að ársreikningarnir verði samþykktir á aðalfundi félagsins sem haldinn verður í næstu viku. Með þeim á myndinni er Elísabet Gunnarsdóttir fjármálastjóri stéttarfélaganna.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands harmar sleggjudóma í opinberri umræðu um málefni atvinnuleitenda. Sú umræða er ekki studd gögnum og er úr hófi fram neikvæð og einhliða. Miðstjórn varar við því að ýtt sé undir fordóma í umfjöllun um vanda þeirra sem glíma við atvinnuleysi.
Miðstjórn ASÍ vísar til fullyrðinga nokkurra atvinnurekenda sem birst hafa í tilteknum fjölmiðlum síðustu daga og rætt um meint áhugaleysi atvinnuleitenda um að þiggja boð um vinnu. Látið er að því liggja að atvinnuleysisbætur séu nú svo háar að þær letji fólk til að taka þau störf sem í boði eru.
Miðstjórnin minnir á að atvinnuleysi er í sögulegu hámarki. Þau dæmi sem hafa verið nefnd og fjölmiðlar hafa gert að fréttaefni heyra til undantekninga og ekki hafa komið fram fullnægjandi skýringar á þeim, hvorki af hálfu atvinnurekenda né Vinnumálastofnunar. Átakið Hefjum störf hefur nú þegar skilað miklum árangri og fjöldi fólks þegið vinnu á þeim grundvelli. Tal um að atvinnuleysisbætur séu úr hófi fram háar í landinu stenst enga skoðun. Grunnbætur nema 88% af lágmarkstekjutryggingu en á árunum 2006–2010 var það hlutfall á bilinu 90–100%. Tekjufall atvinnulausra í COVID-kreppunni er að jafnaði 37% og því augljós að fólk gerir það ekki að gamni sínu að hafna vinnu.
Miðstjórn ASÍ vekur athygli á því að aðflutt verkafólk er í meirihluta þeirra sem nú eru án atvinnu og varar við fordómum í garð þessa hóps sem auðveldlega má lesa úr orðum þeirra atvinnurekenda sem fram hafa komið í fjölmiðlum. Forkastanlegt er að veitast með þessum hætti að fólki í sérlega erfiðri og viðkvæmri stöðu.
Miðstjórn ASÍ vekur athygli á skýrum merkjum þess að einstaka atvinnurekendur hyggist hefja rekstur á ný með því að þrýsta niður launum starfsfólks. Miðstjórnin krefst þess að ferðaþjónusta verði ekki endurreist á grundvelli lakari kjara og starfsumhverfis en áður.
Miðstjórn ASÍ minnir á að þeir atvinnurekendur sem nú veitast að atvinnuleitendum hafa um margra mánaða skeið notið margvíslegra opinberra styrkja. Þeir hinir sömu geta nú að auki ráðið starfsfólk með beinum stuðningi. Með öðrum orðum er það almenningur á Íslandi sem haldið hefur fyrirtækjum atvinnurekenda á lífi.
Miðstjórn ASÍ hvetur atvinnurekendur og fjölmiðla til að láta af neikvæðri og beinlínis fordómafullri umfjöllun um atvinnuleitendur. Góðar og gildar ástæður geta verið fyrir því að atvinnuleitandi geti ekki þegið tiltekið starf. Með því að einblína á undantekningar sem kunna að eiga við færri en 2% atvinnuleitenda er dregin upp röng og meiðandi mynd af þeim þúsundum manna sem leita vinnu á Íslandi og hafa loks fengið von um að brátt taki við betri tíð.
Framsýn stéttarfélag er svo lánsamt ásamt íbúum svæðisins að eiga innan sinna raða landsins bestu hefilmenn sem starfa hjá Vegagerðinni. Mikið hefur verið að gera hjá þeim félögum undanfarnar vikur enda malarvegir komið misgóðir undan vetri eins og gengur og gerist. Þeir Þórir Stefánsson og Sigurður Skúlason stilltu sér upp fyrir framan vélakost Vegagerðarinnar á Húsavík þar sem að vinnufélagi þeirra, Kristján Önundarson, tók af þeim meðfylgjandi mynd.
Forsvarsmenn Hvamms, heimili aldraðra og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík leggja mikið upp úr því á hverjum tíma að nýliðar fái góða kynningu á réttindum sínum og skyldum er snýr að kjarasamningum. Framsýn hefur séð um þessa kynningu og fór ein slík kynning fram í gær. Að mati Framsýnar er full ástæða til að hæla atvinnurekendum sem bjóða nýliðum upp á kynningu sem þessa. Ekki þarf að taka fram að aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eru ávallt reiðubúin til að koma með kynningar inn á vinnustaði um kjaramál og helstu ákvæði kjarasamninga.
Það var áhugasamur hópur sem tók þátt í nýliðafræðslunni á vegum Hvamms og HSN.
Sú ágæta þingkona, Anna Kolbrún Árnadóttir, sem situr á þingi fyrir Miðflokkinn hefur óskað eftir skriflegu svari frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra varðandi innanlandsflugið. Fyrirspurnin kemur í kjölfar þess að Framsýn hefur gert alvarlegar athugasemdir við stöðu mála. Hvað það varðar, hafa fulltrúar félagsins fundað með forsætisráðherra, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra auk þess að eiga símafund með forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Þá var þingmönnum kjördæmisins skrifað bréf um málið varðandi áhyggjur Framsýnar um að áætlunarflug til Húsavíkur væri í mikilli hættu þar sem verulega vantaði upp á eðlilega samkeppni í innanlandsfluginu. Því miður eigum við Norðlendingar heldur dapra þingmenn, þar sem þeir virðast ekki hafa neinn áhuga fyrir því að flugi verði fram haldið til Húsavíkur þar sem flestir þeirra hafa ekki orðið við beiðni Framsýnar um fund eða samtal um málið. Reyndar verður það ekki sagt um Önnu Kolbrúnu sem hefur ákveðið að taka málið upp á Alþingi, fyrr það ber að þakka sérstaklega. Greinilegt er að Anna Kolbrún er að vinna vinnuna sína. Meðfylgjandi er fyrirspurn hennar til ráðherra.
Fyrirspurn
til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um innanlandsflug.
Frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur.
1. Til hvaða áfangastaða innan lands er áætlunarflug rekið á markaðslegum forsendum? Hver er lágmarksfjöldi farþega, á ársgrundvelli, til að flugleið falli ekki undir áætlunarflug á markaðsforsendum? 2. Hvaða áfangastaðir falla undir skilgreiningu á áætlunarflugi innan lands og hvaða flugfélög fljúga til viðkomandi áfangastaða, sundurliðað eftir áfangastað og flugfélagi? 3. Hvaða áfangastaðir innan lands hafa notið ríkisstyrkja á árunum 2010–2020, sundurliðað eftir árum og flugleiðum og fjárhæð styrks? Hver er fjöldi farþega á þessum flugleiðum á árunum 2010–2020, sundurliðað eftir árum og flugleiðum? 4. Hvaða tæknilegu kröfur eru gerðar um flugvélar sem fljúga til þeirra áfangastaða sem njóta ríkisstyrkja, svo sem hvað varðar farþegafjölda, flutningsgetu fyrir frakt og jafnþrýstibúnað? 5. Ef áætlunarflug til Húsavíkur leggst af er þá ætlunin að Þingeyingar og aðrir þeir sem notast við Húsavíkurflugvöll fari um Akureyrarflugvöll? Hverjar eru forsendurnar fyrir því að áætlunarflug milli Reykjavíkur og Húsavíkur er ekki ríkisstyrkt með sambærilegum hætti og þekkist um flesta aðra áfangastaði?
Formaður Framsýnar leit aðeins við hjá áhafnarmeðlimum á Jökli ÞH þegar þeir voru að skipta yfir á grálúðu í Húsavíkurhöfn í gær. Jökull hefur verð að veiða með þoskanetum en nú stendur til að fara á grálúðu og var áhöfnin að koma fyrir grálúðunetum um borð þegar formaður átti leið um bryggjuna um leið og þoskanetin voru tekin í land.
Á fund stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar í gærkvöldi mættu tvær fyrrverandi stjórnarkonur úr stjórn Framsýnar til að heiðra sitjandi formann félagsins, Aðalstein Árna, sem nýlega átti stórafmæli. Þetta voru þær Kristbjörg Sigurðardóttir fyrrverandi varaformaður og Kristrún Sigtryggsdóttir. Eftir stuttar tækifærisræður og myndband þar sem sjá mátti verkalýðsforingja víða um land og rúmlega það færa formanni Framsýnar afmæliskveðjur færðu þær honum afmælisgjafir. Að sjálfsögðu þakkaði formaður stjórnarkonunum fyrir veglegar gjafir og falleg orð í hans garð.
Þessi þrjú störfuðu lengi saman að verkalýðsmálum. Þær Kristbjörg og Kristrún færðu formanni Framsýnar ýmsar gjafir á fundinum í gær.
Fulltrúi Framsýnar gerði sér ferð í Fosshól um helgina. Á Fosshóli við Goðafoss er rekið gisti-og veitingahús. Einnig er hægt að leigja tjaldstæði á staðnum. Það er í fallegu umhverfi enda Goðafoss einn fallegasti foss landsins og reyndar svæðið allt. Benedikt og Salbjörg Ragnarsdóttir voru að vinna. Að þeirra sögn er ferðamönnum farið að fjölga sem heimsækja staðinn.
Það lætur ekki mikið yfir sér litla vinalega timburhúsið sem stendur við hliðina á Umhverfisstofnun og Kjörbúðinni í Reykjahlíð. Húsið hefur þó að geyma margt forvitnilegt og er sannarlega þess virði að staldra þar við til að sjá og skoða. Í húsinu rekur handverkshópur sem kallar sig Dyngjuna sameiginlega söluaðstöðu, en hópurinn er samsettur af Mývesku handverksfólki ásamt fleiri aðilum sem flestir hafa einhverja tengingu í sveitina. Tíðindamaður heimasíðunnar var á ferðinni í Mývatnssveitinni á dögunum og leit við í Dyngjunni. Þar voru fyrir hressar og kátar handverkskonur sem voru í óða önn að taka á móti og ganga frá vörum fyrir sumarið, en greinilegt var að meðlimir hópsins hafa nýtt tímann vel í vetur og verið duglegir að framleiða handverk af ýmsu tagi. Konurnar voru bjartsýnar á sumarið og létu alls ekki illa af síðasta sumri, þó að erlendir ferðamenn hafi verið fyrirferðarlitlir í sumartraffíkinni sökum heimsfaraldursins. Sérstaða Dyngjunnar er gott framboð á íslenskum lopapeysum og nú í upphafi vertíðar prýða stórir staflar af lopapeysum af öllum stærðum og gerðum hillur verslunarinnar og munu eflaust hlýja mörgum ferðamanninum í framtíðinni. En það er margt fleira sem er til sölu í Dyngjunni og vöruúrvalið reyndar afar margbreytilegt í þessu litla rými. Má þar nefna ullarvörur ýmis konar, trévörur, bútasaum, vörur úr horni og beini að ótöldum Mýveskum kræsingum eins og nýreyktum Mývatnssilungi og nýbökuðu Hverabrauði.
Aðalbjörg Gunnlaugsdóttir, Kolbrún Ívarsdóttir, Sólveig Pétursóttir og Bergþóra Eysteinsdóttir stóðu vaktina þegar tíðindamaður heimasíðunnar leit við á dögunum hjá handverkshópi sem kallar sig Dyngjuna.
Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags, verður haldinn miðvikudaginn 9. júní 2021. Fundurinn verður haldinn í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 og hefst kl. 20:00. Fundurinn er opin fullgildum félagsmönnum.
i) Laun aðalstjórnar, trúnaðarmannaráðs, nefnda og stjórna innan félagsins
2. Önnur mál
Athygli er vakin á 32. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins: Tillögur stjórnar, trúnaðarráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.
Tillögur sem liggja fyrir aðalfundinum:
Tillaga 1 Ráðstöfun á tekjuafgangi
Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári.
Tillaga 2 Löggiltur endurskoðandi félagsins
Lagt er til að endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers ehf. sjái um endurskoðun á bókhaldi félagsins fyrir starfsárið 2021.
Tillaga 3 Um árgjald
Tillaga er um að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 1% af launum félagsmanna.
Tillaga 4 Lágmarksfélagsgjald 2021
Til að öðlast full félagsréttindi þarf að greiða mánaðarlegt félagsgjald samkvæmt ákvörðun aðalfundar á hverjum tíma, nú 1% af heildarlaunum.
Lágmarksfélagsgjaldið skal ekki vera lægra en sem svarar til 0,3% byrjunarlaunum 18 ára afgreiðslufólks, samkvæmt launataxta LÍV-SA sem Framsýn á aðild að á hverjum tíma.
Félagsgjaldið tekur breytingum í samræmi við umsamdar breytingar á launataxta LÍV-SA. Þegar rætt er um lágmarksfélagsgjald er miðað við gjald samtals í eitt ár, eða undangengna 12 mánuði.
Félagsmenn sem ekki hafa náð lágmarksfélagsgjaldi eiga rétt á aðstoð við kjaramál og réttindi í sjóðum félagsins í hlutfalli við greiðslur. Til þess að viðhalda fullgildum félagsrétti í Framsýn þurfa félagsgjaldsgreiðslur að berast reglulega. Ef ekkert félagsgjald er greitt í sex mánuði samfellt fellur viðkomandi af félagsskrá. Hægt er að ná aftur fullgildingu frá þeim mánuði sem næsta félagsgjaldsgreiðsla berst, ef lágmarksfélagsgjaldi er náð undangengna 12 mánuði.
Tillaga 5 Laun aðalstjórnar, trúnaðarráðs, nefnda og stjórna innan félagsins
Tillaga er um að laun aðalstjórnar, trúnaðarráðs og stjórna deilda innan félagsins verði óbreytt milli ára.
Laun stjórnar og annarra félagsmanna í trúnaðarstörfum fyrir félagið starfsárið 2020-21
Stjórn og varastjórn Framsýnar:
Þrír tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks
Formaður + varaformaður 1,5 tími í undirbúning og frágang funda til viðbótar
Trúnaðarráð Framsýnar:
Þrír tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks
Stjórnir deilda Framsýnar, það er Sjómannadeildar og Deildar verslunar- og skrifstofufólks:
Tveir tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks
Formaður 1,5 tími í undirbúning og frágang funda til viðbótar
Aðrar fastar stjórnir og nefndir kjörnar á aðalfundi fyrir Kjörstjórn, Kjörnefnd, Sjúkrasjóð, Vinnudeilusjóð, Orlofssjóð, Fræðslusjóð, Ungliðaráð, Siðanefnd, Laganefnd, 1. maí nefnd og skoðunarmenn reikninga:
Tveir tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks
Akstursgreiðslur:
Varðandi akstur á fundi á vegum félagsins eða aðildar samtaka sem félagsmenn eru sérstaklega boðaðir á greiðist kílómetragjald Ferðakostnaðarnefndar ríkisins eins og það er á hverjum tíma. Félagsmenn sem þetta á við um, skulu leitast við að ferðast saman á fundi.
Tillaga 6 Framlag til björgunarsveita í Þingeyjarsýslum
Framsýn stéttarfélag gefi björgunarsveitum á félagssvæðinu 1,5 milljónir sem skiptist jafnt milli starfandi sveita á svæðinu. Björgunarsveitir í Þingeyjarsýslum gegna veigamiklu hlutverki við björgun og aðra aðstoð við íbúa og aðra vegfarendur sem og sjófarendur. Að mati Framsýnar er starfsemi björgunarsveita ómetanleg fyrir samfélagið sem ber að þakka fyrir.
Tillaga 7 Ritun á sögu félagsins
Aðalfundurinn felur stjórn félagsins að gera kostnaðaráætlun um ritun á sögu félagsins frá árinu 1986 til 2021. Fyrir liggur skráning á sögu verkalýðshreyfingar í Þingeyjarsýslum frá árinu 1885 til 1985. Kostnaðaráætlunin skal lögð fyrir stjórn og trúnaðarráð til afgreiðslu. Ekki skal ráðist í skráningu á sögu félagsins nema tillaga þess efnis hafi verið formlega tekin fyrir og samþykkt á löglega boðuðum félagsfundi eða á aðalfundi í félaginu.
Lagabreytingar:
Laganefnd Framsýnar leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á félagslögum í takt við nútímann og breytingar á starfsemi stéttarfélaga. Félagsmenn geta nálgast breytingarnar á skrifstofu félagsins að Garðarsbraut 26 á Húsavík.
Um næstu helgi fara orlofshús og íbúðir á vegum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum í útleigu en gríðarleg ásókn er í húsin/íbúðirnar í sumar. Í morgun voru fulltrúar stéttarfélaganna að gera orlofshús Framsýnar í Dranghólaskógi klárt fyrir útleigu á föstudaginn. Guðni Már Kjatansson hjá Fatahreinsun Húsavíkur var að setja upp filmur í nokkra glugga. Þess má geta að Fatahreinsun Húsavíkur sérhæfir sig í þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki sem þurfa á filmum að halda fyrir glugga auk þess að bjóða upp á merkingar s.s. á bíla og fatnað.
Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar ásamt stjórn Framsýnar ung mun koma saman til fundar fimmtudaginn 27. maí kl. 17:00. Markmið fundarins er að fara yfir lagabreytingar sem leggja þarf fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður miðvikudaginn 9. júní kl. 20:00 í fundarsal félagsins. Þá verður einnig farið yfir ársreikninga félagsins vegna síðasta starfsárs.
Í dag og á morgun heldur Starfsgreinasamband Íslands formannafund sem að þessu sinni fram á Sel-Hótel á Mývatnssveit. Um er að ræða útvíkkaðan fund, þ.e.a.s. til fundarins eru boðaðir formenn aðildarfélaga SGS auk eins fulltrúa til viðbótar frá hverju félagi. Það má með sanni segja að um langþráðan fund sé að ræða, en sökum samkomutakmarkana hefur SGS þurft að fresta fundinum í tvígang, en hann átti upphaflega að fara fram fyrir um ári síðan.
Á fundinum verða ýmis mál tekin fyrir. Þar má nefna umræður um styttingu vinnutímans, kynningu frá Vörðu um stöðu félagsmanna SGS og erindi frá Þekkingarneti Þingeyinga og ríkissáttasemjara. Þá verða ársreikningar og önnur rekstrarmál SGS til umfjöllunar á fundinum.
Til viðbótar má geta þess að Framsýn mun bjóða upp á kynningu á mannlífinu og atvinnulífinu í Mývatnssveit með ferð um sveitina síðar í dag, fimmtudag. Nánar um það síðar hér á heimasíðunni.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands krefst þess að íslensk stjórnvöld bregðist af fullum þunga við linnulausum árásum Ísraelshers á Palestínu. Miðstjórn tekur undir með félaginu Ísland-Palestína og fer fram á að íslensk stjórnvöld beiti hnitmiðuðum viðskiptaþvingunum gegn Ísrael þar til árásir á Palestínu hafa verið stöðvaðar og þjóðernishreinsunum hætt.
Íslensk stjórnvöld hafa viðurkennt sjálfstæði Palestínu og aðgerðir verða að fylgja slíkri viðurkenningu. Miðstjórn ASÍ lýsir yfir fullum stuðningi við sjálfstæði Palestínu og telur að viðskiptaþvinganir eigi að vera í gildi þar til hernámi er lokið og tilvist Palestínu að fullu viðurkennd. Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir ályktun ASÍ.
Miklar breytingar hafa orðið á verslun og þjónustu á undanförnum árum, það er, verslunum og þjónustuaðilum í hinum dreifðu byggðum hefur fækkað verulega. Á móti hefur verslunarstarfsemi í stærri byggðakjörnum s.s. á Akureyri og í Reykjavík verið að eflast. Til viðbótar má geta þess að almenn verslun hefur í auknum mæli verið að færast yfir á netið.
Þrátt fyrir þessa þróun er ánægjulegt að vita af þeim mikla metnaði sem er hjá verslunareigendum á Húsavík að svara samkeppninni með því að spýta í lófana. Sem dæmi má nefna verslunina Garðarshólma á Húsavík en eigendur búðarinnar réðust í miklar breytingar í vetur á búðinni og er hún nú orðin öll hin glæsilegasta. Við litum við í Garðarshólma á dögunum. Birgitta Bjarney Svavarsdóttir tók vel á móti formanni Framsýnar og sagðist ánægð með breytingarnar og viðtökurnar sem hefðu verið með miklum ágætum. Við skorum á fólk að líta við hjá Birgittu og skoða vöruúrvalið enda tekur hún vel á móti öllum sem leggja leið sína í Garðarshólma, það er með bros á vör.
Í Garðarshólma er gott vöruúrval og hægt að gera góð kaup.
Sá mikli höfðingi, Gísli Sigurðsson, sem starfaði og bjó á Húsavík um tíma lagði leið sína að gosstöðvunum á Reykjanesinu á dögunum. Gísli var verslunarstjóri hjá Samkaup hf. þegar hann starfaði hér norðan heiða. Að sjálfsögðu tók hann Framsýnar húfu með sér enda bestu og hlýjustu húfur sem sögur fara af og rúmlega það.
Fulltrúar Framsýnar voru beðnir um að vera með kynningu fyrir nemendur Stórutjarnaskóla í gær, það er kynningu á starfsemi stéttarfélaga og helstu réttindum ungs fólks sem er að hefja sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Kynningin náði til nemenda í níunda og tíunda bekk skólans. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni og formaður Framsýnar-ung, Guðmunda Steina sáu um kynninguna sem gekk afar vel enda nemendurnir afar fróðleiksfúsir. Nemendurnir fengu smá gjöf frá Þingiðn, það er handklæði eins og þau gerast best. Með þessari frétt eru nokkrar myndir sem teknar voru í heimsókninni.
Drottningarnar þrjár, Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar, Herðubreið og Guðmunda Steina Jósefsdóttir formaður Framsýnar- ung. Ósk er starfsmaður Stórutjarnaskóla en hún aðstoðaði Aðalstein Árna og Guðmundu Steinu við kyningunna.
Framsýn hefur í gegnum tíðina átt mjög gott samstarf við skólastjóra Stórutjarnaskóla, Ólaf Arngrímsson, varðandi fræðslumál er viðkemur nemendum skólands og snýr að réttindum ungs fólks á vinnumarkaði. Sama á við um starfsmannamálin enda flestir almennir starfsmenn skólans í Framsýn, það er fyrir utan kennara og þeirra sem ráðnir eru til skólans á forsendum menntunar. Ólafur hefur tilkynnt að hann muni hætta sem skólastjóri Stórutjarnaskóla í sumar. Hann hefur verið starfandi kennari og skólastjóri í samtals 40 ár og þar af 38 ár sem skólastjóri. Hann er með lengstan starfsaldur allra skólastjóra grunnskóla á Íslandi, sem nú eru við störf. Ólafur byrjaði sem kennari við Skútustaðaskóla í Mývatnssveit 1978. Framsýn vill nota tækifærið og þakka Ólafi fyrir samstarfið í gegnum tíðina sem hefur verið með miklum ágætum.
Þekkingarnet Þingeyinga útskrifaði nýlega 12 nemendur úr Félagsliðabrú við hátíðlega athöfn á Fosshótel Húsavík. Athöfnin var aðeins minni í sniðum en upphaflega var áætlað til að tryggja að farið yrði eftir fjöldatakmörkunum. Hver nemandi mátti því aðeins bjóða einum gesti með sér. Úr varð mjög skemmtileg og þægileg stund þar sem nemendur, fjölskyldumeðlimir, starfsfólk Þekkingarnetsins og nokkrir af kennurum komu saman og fögnuðu þessum flotta áfanga. Flestir sem luku náminu eru félagsmenn í Framsýn og Starfsmannafélagi Húsavíkur.
Félagsliðabrúar námið er sniðið að þörfum fólks sem starfar við umönnun aldraðra, sjúkra, fatlaðra og/eða við heimaþjónustu. Það er einingabært og kennt samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Námið skiptist niður á fjórar annir og stendur því yfir í tvö ár.
Stéttarfélögin óska útskriftarnemendum innilega til hamingju með áfangann um leið og þau hvetja félagsmenn til að kynna sér námsframboðið sem er í boði hjá Þekkingarneti Þingeyinga á hverjum tíma. Þá minna stéttarfélögin félagsmenn á námsstyrki sem eru í boði hjá stéttarfélögunum. Um er að ræða veglega styrki. Frétt þessi byggir á heimildum sem fram koma á heimasíðu Þekkingarnets Þingeyinga sem jafnframt lánaði okkur meðfylgjandi mynd af útskriftarhópnum.
Völsungur varð á dögunum Íslandsmeistari í 1. deild kvenna í blaki eftir öruggan sigur á BF. Framsýn stéttarfélag er einn af stoltum styrktaraðilum Blakdeildar Völsungs.
(Hafþór Hreiðarsson lánaði okkur myndirnar sem fylgja með þessari frétt)