Hvað gera flokkarnir fyrir iðnaðarfólk?

Samiðn hefur spurt stjórnmálaflokka um stefnu þeirra í málum sem snúa að iðnaðarsamfélaginu. Kosið verður til Alþingis 25. september næstkomandi.

Þegar þetta er skrifað hafa svör borist frá Pírötum, Viðreisn, Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingunni og  Vinstri grænum.

Spurningarnar eru fimm talsins.

1. Hver er afstaða flokksins til löggildingar iðngreina?

2. Hvernig ætlar flokkurinn að bregðast við aukinni aðsókn í iðngreinar?

3. Telur flokkurinn æskilegt að framlengja úrræðið „allir vinna“?

4. Til hvaða aðgerða hyggst flokkurinn grípa til að tryggja atvinnustig iðnmenntaðra í nánustu framtíð?

5. Telur flokkurinn mikilvægt að framlengja möguleika fólks á að nýta séreignasparnað sinn til innágreiðslu húsnæðislána?

Hér má sjá svör flokkanna þegar kemur að spurningunni um aukna aðsókn í iðngreinar:

Píratar:
„Stefna Pírata hefur verið að nemendur hafi jafnan aðgang að bóknámi, verknámi og listnámi. Það þýðir að menntakerfið hafi svigrúm til þess að taka á móti nemendum sem vilja komast í nám. Í menntastefnu sinni leggja Píratar jafnframt mikið upp úr aukinni símenntun samhliða fyrirsjáanlegum tæknibreytingum, enda er áætlað að menntakerfi 21. aldarinnar muni hvíla á smærri og fjölbreyttari gráðum – eins og sjá má í skýrslu framtíðarnefndar Alþingis sem laut formennsku Pírata.“

Viðreisn:
„Það er til vansa að vísa þurfi jafnmörgum frá iðnnámi og raun ber vitni. Sömuleiðis að þeir sem eldri eru séu nánast útilokaðir frá iðnnámi. Það er hvergi gert annars staðar í framhalds- eða háskólum. Til þess að bregðast við þessum vanda þarf að fjölga nemendaígildum í þessum greinum, bæta húsnæðis- og tækjakost. Marka þarf skýra stefnu um að verk- og tækninám sé jafnsett öðru námi og að þeir sem það stundi séu að mennta sig til mikilvægra starfa sem samfélagið þarfnast.“

Sjálfstæðisflokkurinn:
„Aukin aðsókn í iðnnám er mikið fagnaðarefni, en hún er meðal annars afleiðing af öflugu samstilltu kynningarstarfi og ýmsum laga- og reglugerðarbreytingum sem marka tímamót í iðnnámi. Nýleg reglugerðarbreyting um vinnustaðanám er gott dæmi um hvernig hægt er að auðvelda iðnnemum aðgang að námi og þannig í reynd auka námsframboðið. Halda þarf áfram að leita slíkra lausna ásamt því að efla þá mörgu aðila sem sinna iðnmenntun.“

Samfylkingin:
„Það er mikilvægt og ánægjulegt fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf að aðsókn að starfsmenntun sé að aukast. Það þarf hins vegar að bæta aðstöðu til að taka á móti nemendum í verkmenntaskólum og gera þeim kleift að bjóða upp á fjölbreytt námsframboð. Það skýtur skökku við að fréttir berist af því að 700 áhugasömum nemum hafi verið vísað frá þegar ákall er eftir fólki inn í iðngreinar. Samfylkingin vill efla iðnnám, verkmenntun og starfsþjálfun í landinu.“

Vinstri grænir:
„VG telur að tryggja þurfi jöfn tækifæri til fjölbreyttrar menntunnar óháð búsetu og að þar þurfi sérstaklega að huga að aðgengi að iðn- og listnámi. Greina þarf möguleika á fleiri heimavistarrýmum í tengslum iðnnámsskóla og nýta möguleika til fjarnáms til hins ýtrasta. Fjölga þarf möguleikum á menntun og þróun í starfi til þess að launafólk hafi aukin tækifæri og betri kjör. Endurskoða þarf löggjöf um framhaldsfræðslu þannig að hún taki mið að áskorunum samtímans, ekki síst tæknibreytingum og grænni umbreytingu. Tryggja þarf að komandi breytingar í atvinnuháttum vegna tækniþróunar verði til hagsbóta fyrir almenning og verði ekki til þess að skerða kjör launafólks. Endurskoða þurfi fyrirkomulag iðnnáms með það að markmiði að fjölga útskrifuðum iðnnemum og taka þannig markviss skref í átt að aukinni samvinnu framhaldsskóla, vinnustaða, stéttarfélaga og annarra sem koma að skipulagi og framkvæmd starfsnáms.”

Hér má sjá svör við öllum spurningunum fimm.

Deila á