Stjórn Framsýnar fundar á miðvikudaginn

Stjórn Framsýnar auk stjórnar Framsýnar-ung kemur saman til reglulegs fundar miðvikudaginn 16. nóvember kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Nokkur mál eru á dagskrá fundarins.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Starfsmannamál
  4. Kjaramál
  5. Stofnanasamningar
  6. Jólafundur félagsins
  7. Ljósmyndasýning
  8. Félag bókhaldsstofa- erindi
  9. Fundur- vinnutímastyttingar
  10. Erindi frá Félagi heyrnalausra
  11. Önnur mál

 

Sungu fyrir afmælisbarnið

Félag bókhaldsstofa á Íslandi hélt fjölmenna haustráðstefnu á Hótel Örk í dag en ráðstefnan stendur yfir í tvo daga.  Nokkur áhugaverð erindi voru flutt á ráðstefnunni, s.s. um málefni starfsmannaleigna, peningaþvætti og félagafrelsi á Íslandi. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, var beðinn um að flytja erindi um verkalýðsfélög, kjarasamninga og félagafrelsi á ráðstefnunni. Formaðurinn fékk góðar viðtökur hjá fundarmönnum sem sáu ástæðu til að syngja fyrir hann afmælissönginn enda átti hann afmæli í dag, 11. nóvember um leið og honum var þakkað fyrir að eyða afmælisdeginum í það að ferðast landshorna á milli til að flytja erindi í Hverragerði.

Félagsliðar hittast á fundi

Þann 23. nóvember næstkomandi verður hinn árlegi fræðsludagur félagsliða haldinn á Fosshótel í Reykjavík, en þetta er í sjöunda skipti sem fræðsludagurinn er haldinn. Hann var fyrst haldinn á Akureyri haustið 2014 og svo árlega fram til ársins 2019, en hefur hins vegar ekki farið fram síðastliðinn tvö ár vegna Covid.

SGS og Félag íslenskra félagsliða halda daginn í sameiningu og er fræðslan opin félagsliðum um allt land óháð stéttarfélagi. Nauðsynlegt er að skrá mætingu fyrir 20. nóvember næstkomandi. Félagsliðar um allt land eru hvattir til að nýta þetta tækifæri til að fræðast og ekki síst hitta aðra félagsliða. Dagskrána má nálgast hér.

Mikill áhugi fyrir starfi á Skrifstofu stéttarfélaganna

Í gær lauk umsóknarfresti til að sækja um starf þjónustufulltrúa hjá Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Greinilegt er að gríðarlegur áhugi er fyrir starfinu þar sem tuttugu og ein umsókn hefur borist um starfið sem er virkilega ánægjulegt og sýnir áhuga fólks á því að starfa fyrir ein öflugustu stéttarfélög landsins. Aðilar að skrifstofunni eru; Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur.  Um er að ræða mjög góðar umsóknir sem erfitt verður að velja á milli. Farið verður frekar yfir umsóknirnar í vikunni. Reiknað er með að ganga frá ráðningu á nýjum starfsmanni í næstu viku. Starfsmaðurinn mun koma í stað Lindu M. Baldursdóttur sem lætur af störfum hjá stéttarfélögunum á komandi vikum.

Samið um nýtt og áhugavert bónuskerfi

Fyrir helgina gengu stéttarfélögin Framsýn og Þingiðn formlega frá sérstöku Hæfniálagi 2 og bónussamningi við PCC BakkiSilicon. Áður var búið að semja um Hæfniálag 1 fyrir starfmenn fyrirtækisins sem falla undir sérkjarasamning aðila frá árinu 2019. Á meðfylgjandi mynd eru fulltrúar frá PCC og Framsýn. Með þeim eru trúnaðarmenn starfsmanna, þau Sigrún og Ingimar.

Samkvæmt samkomulaginu greiðist Hæfniálag 2 fyrir verk sem að krefjast aukinnar þjálfunar og kunnáttu. Hæfniálagið færir almennum starfsmönnum allt að 7,5% launahækkun og í ákveðnum tilvikum getur álagið farið upp í 15% á grunnlaun.

Þá er ljóst að nýja bónuskerfið sem stuðst hefur verið við síðustu mánuði til reynslu hefur verið að koma vel út.  Því er ætlað að færa starfsmönnum töluverðar launahækkanir til viðbótar föstum mánaðarlaunum. Áfram verður unnið að því að þróa kerfið til hagsbóta fyrir fyrirtækið og starfsfólk. Þrátt fyrir að bónuskerfið taki mið af ákveðnum þáttum s.s. orkunotkun, framleiðslumagni og fínefnahlutfalli er áhugavert til þess að vita að bónuskerfið er einnig tengt EBITDU fyrirtækisins á hverjum tíma. Það er, gangi rekstur fyrirtækisins vel munu starfsmenn fá sérstaka greiðslu einu sinni á ári, það er eftir að endurskoðaðir ársreikningar fyrirtækisins liggja fyrir á hverjum tíma.

Til viðbótar má geta þess að viðræður aðila um endurskoðun á gildandi sérkjarasamningi  aðila munu væntanlega hefjast á næstu vikum en núverandi samningur rann út um síðustu mánaðamót líkt og aðrir kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum.

Skrifað undir stofnanasamning við þjóðgarðana

Eftir langar og strangar samningaviðræður milli Starfsgreinasambands Íslands og þjóðgarðana var skrifað undir sameiginlegan stofnanasamning fyrir helgina sem nær yfir alla starfsmenn þessara stofnana sem eru innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands; Það er innan Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs, þjóðgarðsins á Þingvöllum. Áður voru í gildi tveir stofnanasamningar sem voru sameinaðir í einn. Einn af þeim sem tók þátt í viðræðunum var formaður Framsýnar enda með félagsmenn sem starfa í Vatnajökulsþjóðgarði og hjá Umhverfisstofnun í Mývatnssveit.  Að hans sögn er afar ánægjulegt að samningar skyldu takast að lokum. Eftir atvikum væru menn ánægðir með niðurstöðuna. Samningurinn fer nú í kynningu hjá landvörðum og öðrum starfsmönnum þjóðgarðana. Þar sem um stofnanasamning er um að ræða þarf ekki að greiða atkvæði um hann.

Skrifað undir stofnanasamninginn í húsnæði Umhverfisstofnunar. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar skrifaði undir fyrir hönd félagsins.

Okkar fremstu konur tóku þátt í málstofu um betri vinnutíma

Þann 2. nóvember var haldin vinnustofa með þjóðfundarsniði í Reykjavík með hagsmunaaðilum sem komu að innleiðingu og eftirfylgni betri vinnutíma í vaktavinnu sem samið var um í síðustu kjarasamningum. Í fylgiskjali með samningnum er gert grein fyrir því að fyrir lok samningstímans sem rennur út á næsta ári skuli aðilar leggja sameiginlegt mat á áhrif breytinganna og hvort núverandi framsetning falli best að framtíðarskipulagi og starfsumhverfi stofnana ríkis og sveitarfélaga. Fyrir lok samningstímans skulu aðilar jafnframt leggja sameiginlegt mat á áhrif breytinganna og hvort núverandi framsetning á neðangreindum ákvæðum í kjarasamningi falli best að framtíðar skipulagi og starfsumhverfi stofnana ríkis og sveitarfélaga. Innleiðingarhópar og matshópur hafa verið virkir á tíma innleiðinga og eftirfylgni og er framlag þeirra afar mikilvægt sem og annarra hagsmunahafa.

Markmið vinnustofunnar var að fara yfir nokkra þætti er varðaði innleiðinguna: • Draga fram kosti verkefnisins. • Finna helstu áskoranir og tækifæri til breytinga. • Efla samvinnu og samstarf hagsmunahafa. • Efla sameiginlega sýn á verkefnið. • Draga lærdóm af verkefninu í heild og einstökum þáttum þess.

Sigurveig Arnardóttir og Guðný Reykjalín Magnúsdóttir voru fulltrúar Framsýnar á fundinum. Í samtali við þær eftir fundinn sögðu þær að fundurinn hefði gengið ágætlega. Þær hefðu hins vegar viljað sjá fleiri sem störfuðu eftir samningnum. Meira hefði verið um stjórnendur og mannauðsstjóra. Þá væri greinilegt að stjórnendur hefðu fengið mun betri fræðslu um breytingarnar á sínum tíma en fólkið á gólfinu.  Kannski mætti kenna covid um að einhverju leiti að upplýsingaflæðið hefði ekki verið betra.  Helstu vankantarnir tengdust  vaktahvatanum að mati fundarmanna. Hann hefði þvælist fyrir fólki og flestir sammála að hann væri ekki nægjanlega vel útfærður.  Þær voru einnig á því að mörgum spurningum væri enn ósvarað eftir þessar breytingar. Vonandi tækist að laga ýmsa þætti í komandi kjaraviðræðum við ríkið og sveitarfélögin.

 

Samningur endurnýjaður við Flugfélagð Erni

Framsýn hefur endurnýjað samning við Flugfélagið Erni um kaup á flugmiðum fyrir félagsmenn. Flugmiðaviðskiptin hljóða upp á kr. 9.000.000,- sem gera 600 flugmiða. Vegna mikilla kostnaðar- og eldsneytishækkana í heiminum síðustu mánuði hækka miðarnir frá flugfélaginu úr kr. 12.000,- í kr. 15.000,- og hefur nýja verðið þegar tekið gildi. Miðarnir verða áfram seldir til félagsmanna á kostnaðarverði.

 

Hvað gengur mönnum til?

Það er stundum erfitt að átta sig á því hvað mönnum gengur til. Hér er ég að vitna til þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja það vera forgangsmál á Alþingi að brjóta niður íslenska verkalýðshreyfingu, sama hvað það kostar. Það er grátbroslegt að hugsa til þess að þingmennirnir telja að með því að skerða aðgengi launafólks að stéttarfélögum efli það félögin og vitna þeir til Norðurlandanna hvað það varðar.

Nú vill svo til að ég þekki ágætlega til þessara mála í okkar nágrannalöndum, þar sem ég sat í stjórn Nordisk Union um tíma, en það eru samtök verkalýðsfélaga í matvælaframleiðslu á Norðurlöndunum. Þar hafa hægri stjórnir lengi lagt sig fram um að veikja verkalýðshreyfinguna, enda gerðar út af auðvaldinu í viðkomandi löndum líkt og á Íslandi. Því miður hefur þessum aðilum tekist það ætlunarverk sitt. Erlendum starfsmönnum sem komið hafa til starfa í Skandinavíu hefur markvisst verið haldið utan stéttarfélaga svo þeir geti ekki sótt kjarasamningsbundinn rétt sinn sé brotið á þeim sem er daglegt brauð. Aðbúnaður þessara starfsmanna hefur verið skelfilegur auk þess sem launakjörin hafa verið langt fyrir neðan skráð lágmarkslaun. Þá eru dæmi um að vegabréfum erlendra starfsmanna hafi verið haldið eftir hjá eigendum fyrirtækjanna til að koma í veg fyrir að þeir yfirgæfu vinnustaðinn án samþykkis yfirmanna. Því til viðbótar hefur mafían í austantjaldsríkjunum verið að gera út verkamenn til starfa í Skandinavíu. Verkalýðshreyfingin hefur átt erfitt með að mæta þessum veruleika vegna skorts á valdheimildum. Þetta er umhverfið sem blasir við okkur takist þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að brjóta niður öfluga verkalýðshreyfingu á Íslandi. Verkalýðshreyfingu sem flestar þjóðir heims öfunda okkar af enda hefur hreyfingin komið að mörgum framfaramálum fyrir íslenska alþýðu, sem við getum verið stolt af og rúmlega það.

Hlutverk stéttarfélaga

Á Íslandi hefur okkur tekist að byggja upp öflug stéttarfélög, félagsmönnum til góða. Launamönnum er almennt heimilt að ganga í stéttarfélög eða standa utan þeirra. Gegn vægu félagsgjaldi sem byggir á jöfnuði hafa félögin myndað öryggisnet til handa félagsmönnum. Félögin hafa ávallt verið reiðubúin að grípa inn í, hafi þess þurft með. Það er hvort heldur um er að ræða almenna aðstoð á vinnumarkaði, veikindi félagsmanna, aðbúnaðarmál, orlofsmál og/eða lífeyrissjóðsmál. Svo ekki sé talað um aðkomu félaganna að velferðarmálum og atvinnumálum. Óhætt er að segja að starfsfólk stéttarfélaga sé ávallt til staðar þegar grípa þarf inn í aðstæður. Nærtækast er að taka dæmi úr því félagi sem ég leiði sem er Framsýn stéttarfélag. Innan raða þess er um þrjú þúsund félagsmenn í Þingeyjarsýslum. Á síðasta ári greiddi félagið um 1200 félagsmönnum sjúkrastyrki sem tengdust sérstaklega erfiðum veikindum og/eða fyrirbyggjandi aðgerðum til betri heilsu. Þessar greiðslur námu um 60 milljónum. Þar sem félagsmenn þurfa í auknum mæli að sækja heilbrigðisþjónustu til Akureyrar og/eða Reykjavíkur hefur félagið komið sér upp sjúkraíbúðum á Akureyri og Reykjavík til að mæta þörfum félagsmanna. Þá aðstoðaði félagið þá félagsmenn sem fóru í nám eða sóttu námskeið til að auka hæfni sína á vinnumarkaði um 22 milljónir. Rúmlega 300 félagsmenn tóku við þessum styrkjum sem gerði þeim flestum kleift að stunda námið með vinnu. Svona mæti lengi telja og væri efni í aðra grein. Það er því alveg ljóst að stuðningur Framsýnar til handa félagsmönnum skiptir verulega miklu máli. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins átta sig ekki á þessu hlutverki stéttarfélaganna, enda ekki í þeirra heimi að þurfa að hugsa um hverja krónu áður en stofnað er til kostnaðar. Hvað þá að þurfa að leita eftir stuðningi frá stéttarfélagi til að greiða niður kostnað s.s. vegna sálfræðiþjónustu, þar sem heimilisbókhaldið leyfir það ekki nema í boði sé styrkur frá viðkomandi stéttarfélagi. Að öðrum kosti þyrftu þeir í allt of mörgum tilfellum að neita sér um þessa lífsnauðsynlegu meðferð. Þetta er heimur lágtekjufólks í dag. Það væri óskandi að þingmennirnir umræddu opnuðu augun og mátuðu sig við venjulegt fólk sem býr við þessar aðstæður í stað þess að eyða sínum tíma, í að finna leiðir til að brjóta niður réttindi láglaunafólks, sem er hryggjarstykkið í íslensku þjóðfélagi. Þeir hinir sömu eru duglegir að pósta myndum af sér frá fundum og ráðstefnum sem þeir sækja um víða veröld á kostnað ríkissjóðs á háum dagpeningum, ferðir sem skipulagðar eru af ferðaskrifstofu Alþingis.

Ráfandi þingmenn

Það er alveg ljóst að styrkur stéttarfélaga mun hrynja takist villuráfandi þingmönnum að keyra frumvarpið í gegn um Alþingi. Upp í hugann kemur eitt af mörgum dæmum sem ástæða er til að nefna um mikilvægi stéttarfélaga. Það er bygging orkuvers Landsvirkjunar og kísilverksmiðju PCC á Bakka fyrir nokkrum árum. Þá kom til landsins fjöldinn allur af verkamönnum sem taldi vel á annað þúsund manns. Erlendu fyrirtækin ætluðu þessum mönnum að vera utan stéttarfélaga sem og nokkur íslensk fyrirtæki sem einnig sóttu erlenda starfsmenn. Framsýn kom í veg fyrir það og náði því fram að starfsmennirnir yrðu á íslenskum kjörum og greiddu til félagsins eins og lög og ákvæði kjarasamninga kveða á um. Vissulega voru dæmi um að erlendu starfsmennirnir væru hræddir og bæðu félagið um að skipta sér ekki af þeirra málum þar sem þeir óttuðust um fjölskyldur sínar heima fyrir. Þeir höfðu áhyggjur af því að atvinnurekendurnir eða starfsmannaleigurnar gerðu þeim illt kæmust þeir að því að þeir hefðu leitað til stéttarfélags vegna kjarasamningsbrota. Auk þess höfðu þeir áhyggjur af þeim sem þetta skrifar og spurðu „Hvað telur þú að þú haldir höfðinu lengi?“ Því miður var það þannig og er enn að við sem tökum fast á kjarasamningsbrotum sitjum reglulega undir hótunum og það jafnvel líflátshótunum. Þess vegna ekki síst höfum við kallað eftir hertari löggjöf er varðar starfsemi fyrirtækja sem ástunda launaþjófnað. Á uppbyggingartímanum á Þeistareykjum og Bakka tryggði Framsýn líka að fyrirtækin færðu lögheimili/búsetu starfsmanna til sveitarfélaganna á áhrifasvæði framkvæmdanna svo útsvarstekjurnar yrðu þar eftir, í stað þess að þeir væru skráðir til heimilis hjá þeim fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu sem fluttu þá inn til landsins. Þannig tryggði Framsýn sveitarfélögunum væntanlega milljónatugi í útsvarstekjur. Við fengum þakklæti frá sveitarfélögunum fyrir aðkomu okkar að málinu. Við fengum líka þakkir frá fyrirtækjum á svæðinu fyrir að koma í veg fyrir undirboð, þar sem allt of mörg fyrirtæki sem komu að verkinu ætluðu sér ekki að fara eftir settum reglum.  Já, öflug stéttarfélög eru gríðarlega mikilvæg. Stéttarfélög líkt og Framsýn hafa auk þess barist fyrir mörgum framfaramálum í gegnum tíðina er varðar byggða- og atvinnumál. Þá hefur sú barátta Framsýnar að viðhalda flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll vakið töluverða athygli enda íbúum, félagsmönnum og atvinnulífinu í Þingeyjarsýslum til hagsbóta. Ég skal fúslega viðurkenna að ég skil núna af hverju oddviti sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi hefur ekki haft fyrir því að svara erindum Framsýnar um mikilvægi þess að þingmenn kjördæmisins komi að því með heimamönnum að efla flugsamgöngur til Húsavíkur, eða komi að því að bæta vegasamgöngur á svæðinu s.s. í Bárðardal, svo ekki sé talað um fleiri framfaramál í Þingeyjarsýslum. Greinilegt er að allur hans tími hefur farið í að setja saman frumvarp með félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum, sem ætlað er að ganga frá íslenskri verkalýðshreyfingu, sem segir okkur að forgangsröðunin er skýr hjá þingmanninum. Við skulum hafa þetta í huga kjósendur góðir, þetta er ekki boðlegt, reyndar til háborinnar skammar.

 Ríkisstjórnin í hættu

Hvað frumvarp Sjálfstæðismanna varðar tel ég að það fari aldrei í gegn um þingið. Reyndar gæti það kostað að ríkisstjórnin myndi springa. VG og Framsókn geta án efa ekki samþykkt að frumvarpið fari í gegn um þingið, enda byggja þeir flokkar á allt öðrum gildum en Sjálfstæðisflokkurinn sem með þessu frumvarpi minnir okkur ónotalega á fyrir hvað þeir standa og fyrir hverja þeir eru málpípur á þingi. Þá hafa þingmenn Samfylkingarinnar talað gegn frumvarpinu sem ber að þakka fyrir. Það er nefnilega þannig að við sem förum fyrir stéttarfélögum og flestir þeir félagsmenn sem eru innan ASÍ, BSRB og annara samtaka launafólks hlusta af athygli þegar þingmenn tjá sig um eitt vitlausasta þingmál sem komið hefur fram á Alþingi á síðari tímum. Síðan geri ég þá kröfu að þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem standa að frumvarpinu íhugi afsögn nái þeir ekki frumvarpinu í gegn um Alþingi. Það er ekki í boði að greiða slíkum niðurrifsöflum laun með skattpeningum verkafólks, þingmanna sem vinna gegn hagsmunum megin þorra landsmanna enda yfir 90% af fólki á vinnumarkaði í öflugum stéttarfélögum. Þeim væri nær að vinna að þarfari málum á þingi s.s. að jafna búsetuskilyrði í landinu þar sem hallar verulega á landsbyggðina ekki síst hvað varðar heilbrigðis- og menntamál.

Aðalsteinn Árni Baldursson

 

 

 

Framsýn styrkir TaeKwonDodeild Völsungs

Framsýn stéttarfélag og TaeKwonDodeild Völsungs hafa gengið frá samkomulagi um stuðning stéttarfélagsins við deildina sem hefur verið að eflast mjög á síðustu árum.

Mikil ánægja er innan raða deildarinnar með stuðninginn en fjármagnið verður notað til að kaupa búnað sem nýttur verður á æfingum og í keppnum. Við afhendingu gjafarinnar í gær kom fram hjá Marcin Florczyk þjálfara hjá Taekwondodeild Völsungs að með betri búnaði yrði hægt að efla deildina með betri æfingum og þá yrði hægt að undirbúa iðkendur betur til að taka þátt í keppnum á vegum deildarinnar. Fyrir hönd allra iðkenda deildarinnar þakkaði hann Framsýn fyrir stuðninginn.

Þess má geta að TaeKwonDo hefur verið stundað innan Völsungs í um 10 ár. Á æfingum er lagt mikið upp úr því að styrkja iðkendur bæði líkamlega og andlega. Iðkendur eru á öllum aldri og eru eru allir velkomnir að koma og prófa. Æfingar fara fram reglulega í litla salnum í íþróttahöllinni í tveimur aldurshópum.

Áhugavert er að sjá ungafólki sem stundar þessa skemmtilegu íþrótt.

Formanni Framsýnar var gert að prufa, sem betur fer fyrir hann, tókst honum að klára þrautina sem unga fólkið kláraði með stæl.

Samfylkingin fordæmir atlögu að samtökum og sjóðum launafólks

Það er vissulega ánægjulegt að upplifa kraftmikla Stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar gegn árásum þingmanna sjálfstæðisflokksins í garð vinnandi fólks og lífeyrisréttinda.

“Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands fordæmir atlögu ráðherra og stjórnarþingmanna að samtökum og sjóðum launafólks.

Atlagan birtist nú í lagafrumvarpi til höfuðs stéttarfélögum og í stefnu um að seilast í lífeyrissparnað launafólks til að borga skuldir ÍL-sjóðs. Það er óábyrg stefna.

Ríkissjóður á að jafna byrðar fólks. Það er ekki gert með því að taka 200 milljarða króna af sparnaði tiltekinna hópa launafólks til að borga fyrir afglöp óreiðustjórnmálamanna úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.

Samfylkingin kallar eftir því að ríkisstjórnin sýni ábyrgð í málinu og leiði það til lykta með samstöðu og jafnaðarmennsku að leiðarljósi.

Samfylkingin hafnar lagafrumvarpi um bann við forgangsréttarákvæðum í kjarasamningum og afnám greiðsluskyldu til stéttarfélaga. Í því felst hótun um að kippa fótunum undan sterkri verkalýðshreyfingu á Íslandi. Þannig er vegið að viðkvæmri sátt sem ríkt hefur á íslenskum vinnumarkaði um árabil. Samfylkingin kallar eftir víðtækri samstöðu um að viðhalda sterkri verkalýðshreyfingu í landinu.

Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands vill setja réttlæti í öndvegi og að almannahagsmunir ráði för. Sérhagsmunagæsla og klíkustjórnmál eiga að vera arfleifð fortíðar.”

 

Hittust til að ræða bónusmál

Fulltrúar frá Framsýn/Þingiðn funduðu með forsvarsmönnum PCC á Bakka fyrir helgina. Unnið er að því að klára gerð bónussamnings fyrir almenna starfsmenn. Viðræður munu halda áfram eftir helgina. Vonir eru bundnar við að viðræður aðila klárist með samningi.

Ályktun miðstjórnar ASÍ um félagafrelsisfrumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir mikilli furðu á framkomnu frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði.

Á Íslandi ríkir  félagafrelsi. Tengsl kjarasamninga og stéttarfélagsaðildar hafa reynst mikilvægur þáttur í linnulausri baráttu íslensks launafólks fyrir mannsæmandi kjörum, samtryggingu og velferð og tryggt meiri jöfnuð hér á landi en víðast annars staðar. Verkalýðshreyfingin hefur engan hug á að láta sérvisku jaðarhóps stjórnmálamanna hafa áhrif á þá kjarnastarfsemi sína.

Tímasetning umfjöllunar Alþingis um frumvarpið er mjög sérstök, nú þegar nokkrir dagar eru í að allir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losna og viðræður þegar hafnar. Við þau tímamót er frumvarpinu hleypt á dagskrá þingsins og umsagna krafist frá verkalýðshreyfingunni innan tveggja vikna. Ljóst er þessari aðför verður svarað af samhentri og sameinaðri verkalýðshreyfingu enda ráðist að tilverurétti sterkra stéttarfélaga. Augljóst virðist að stjórnvöld ætla að leiða hjá sér vaxandi og alvarlegan afkomuvanda launafólks og þekkja þá lausn eina að hækka álögur á heimilin í landinu og ráðast gegn verkalýðshreyfingunni.

Frumvarpið ber öll þess merki að horft sé til breskrar nýfrjálshyggju. Skipuleg aðför nýfrjálshyggjunnar að velferðarkerfum Breta og niðurbrot á skipulagðri verkalýðshreyfingu á síðustu áratugum veldur því að margir óttast að orkukreppa og kaupmáttarhrun muni kalla raunverulegar hörmungar yfir þjóðina á næstu misserum.

Betur færi að þingmenn axli þá ábyrgð sem starfi þeirra fylgir og leitist við að létta byrðar almennings í ríkjandi afkomukreppu. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hvetur því þingflokk sjálfstæðismanna til að beina kröftum sínum að uppbyggilegri verkefnum í stað þess að fylkja sér undir grunnfána lúinna baráttumála.“

Sofandi í bílskrjóðum við Alþingi

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með málflutningi Sjálfstæðismanna á Alþingi, en þeir berjast nú sem aldrei fyrr í nafni frelsis og mannréttinda gegn félagslegum réttindum verkafólks. Aðferðir þeirra þurfa reyndar ekkert að koma á óvart, enda hefur  flokkurinn löngum gengið erinda auðvaldsins. Einn fremsti skósveinn íhaldsins á Alþingi, Óli Björn Kárason, fylgdi nýverið úr hlaði frumvarpi Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á íslenskum vinnumarkaði.

Megininntak frumvarpsins hjá illa upplýstum framsögumanni og samflokksmönnum hans er að koma á framfæri sterkum vilja flokksmanna frjálshyggjunnar um að brjóta niður samtakamátt verkafólks. Þeir ríku þurfi að græða meira til að viðhalda velferð á Íslandi, þeirra sé að skammta smælingjunum skítalaun og réttindi í þágu frjálshyggjunnar og smána íslensk stéttarfélög eins og mögulegt er. Að veikja stöðu þeirra sem barist hafa gegn ójöfnuði, óréttlæti og misskiptingu í samfélaginu, allt frá stofnun fyrstu stéttarfélaganna á Íslandi. Það sem fer fyrir brjóstið á varðhundum auðvaldsins er nákvæmlega það sem erlendar verkalýðshreyfingar öfunda okkur af. Það er að yfir 92% íslenskra launamanna skuli eiga aðild að stéttarfélögum, en það er það hæsta sem þekkist innan OECD ríkjanna.

Eitt af margþættum hlutverkum íslenskra stéttarfélaga er að fara með kynningu í grunnskóla og framhaldsskóla fyrir unga nemendur um vinnumarkaðinn, skattkerfið og tilgang stéttarfélaga, enda bíður unga fólksins í framtíðinni að taka þátt í krefjandi störfum á vinnumarkaði.

Að sjálfsögðu eru það eðlileg mannréttindi í lýðræðisríki að geta verið í öflugum og frjálsum stéttarfélögum sem í gegnum tíðina hafa byggt upp öryggisnet sem ætlað er að fanga sem flesta og veita fólki mannsæmandi afkomu og tryggingarvernd. Í dag er það þannig að menn geta gengið í stéttarfélag á Íslandi eða valið að standa utan þeirra. Velji menn að standa  utan stéttarfélaga greiða þeir samt sem áður iðgjald til viðkomandi stéttarfélags. Það tryggir þeim öfluga og endurgjaldslausa þjónustu lendi þeir í ágreiningi við atvinnurekanda hvort sem það er vegna kjarasamningsbrota, slysa, veikinda o.fl., ásamt því að tryggja lágmarkskjör og aðkomu að réttindum í gegnum kjarasamninga og samninga við stjórnvöld.  Þetta er einnig sérstaklega mikilvægt þegar í hlut á erlent verkafólk sem hingað flyst eða kemur hér tímabundið. Það er sá hópur sem veikast stendur á vinnumarkaði, en á rétt til og nýtir sér alla þjónustu stéttarfélaganna. Á hinum Norðurlöndunum er aðild þeirra að stéttarfélögum mjög lítil, staða þeirra veik og brotin gegn þeim hrikaleg.

Þegar sagan er skoðuð má sjá að verkalýðshreyfingin hefur í gegnum tíðina barist fyrir flestum þeim framfaramálum sem við búum við í dag, s.s. lífeyrissjóðakerfinu, almannatryggingarkerfinu, atvinnuleysisbótakerfinu, verkamannabústaðakerfinu, Bjargi-Íbúðafélagi, VIRK-starfsendurhæfingu, öflugu verðlagseftirliti og réttlátu skattkerfi. Það er að þeir tekjulægri beri lægri skatta en þeir tekjuhærri, sem hafa borð fyrir báru.

Í gegnum kjarasamninga hefur síðan náðst að tryggja fólki lágmarkskjör, veikindarétt, orlofsrétt, slysarétt og aðkomu að mikilvægum sjúkra- og starfsmenntasjóðum. Allur þessi ávinningur og meira til hefur náðst í gegnum öflug stéttarfélög á Íslandi til handa félagsmönnum, sem við megum vera stolt af.

Þá er hlutverk stéttarfélaga að standa vörð um hagsmuni félagsmanna og styðja við bakið á þeim sé brotið á þeirra kjarasamningsbundnu réttindum. Jafnframt því að tryggja að félagsmenn hafi ávallt aðgengi að lögfræðingum í gegnum félögin, gerist þess þörf. Það má heldur ekki gleyma öflugu vinnustaðaeftirliti stéttarfélaganna sem ætlað er stuðla að heilbrigðum vinnumarkaði, minni skattsvikum og þar með samkeppnishæfara atvinnulífi.

Það væri hollt fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að fá sambærilega kynningu á mikilvægi stéttarfélaga og unga fólkið fær í skólum landsins, því svo virðist sem fáfræðin sé algjör hjá flutningsmönnum frumvarpsins.

Athygli vakti á dögunum að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins tók ekki einvörðungu undir tilgang frumvarps um frjálsa stéttarfélagaaðild, heldur lagði hann sérstaka áherslu á mikilvægi þess að lækka lægstu laun á íslenskum vinnumarkaði, það er í ferðaþjónustu. Laun sem slefa rétt yfir 300.000,- kr. á mánuði fyrir fullt starf. Hafi maður einhvern tíma borið virðingu fyrir formanni Sjálfstæðisflokksins, er sú virðing öll. Fjármálaráðherra er greinilega í einhverjum öðrum víddum, umgengst ekki almennt verkafólk og hefur því engan skilning á stöðu þess fólks sem ekki getur skammtað sér arð og ofurlaun á diskinn eftir þörfum, eins og þekkt er úr hans nærumhverfi. Sú staðreynd er vægast sagt óhugguleg að formaður Sjálfstæðisflokksins og hans auðsveipu skósveinar séu ætíð reiðubúnir að vaða eld og brennistein fyrir hina auðugu á kostnað vinnandi fólks, neytenda og heimilanna í landinu. Þetta er ekki sá Sjálfstæðisflokkur sem nafni hans og margir forverar fóru fyrir.

Á sama tíma og þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggjast á árarnar með að kippa grundvellinum undan sterkri verkalýðshreyfingu á Íslandi gjamma Samtök atvinnulífsins á hliðarlínunni og krefjast þess að Vinnulöggjöfin verði endurskoðuð til að veikja stöðu launafólks enn frekar. Markmiðið samtakanna er að fjölga félagslegum undirboðum og kjarasamningsbrotum á íslenskum vinnumarkaði með veikari verkalýðshreyfingu. Það er á skjön við stefnu þeirra alvöru fyrirtækja sem vilja viðhalda samkeppnishæfum vinnumarkaði og hræðast samkeppnisstöðuna nái tillögur þeirra eigin samtaka fram að ganga. Þess vegna þarf ekki að koma á óvart að samtökin séu klofin í dag og eigi hugsanlega eftir að liðast frekar í sundur.

Framsögumanni Sjálfstæðisflokksins sem talaði fyrir niðurrifi íslenskrar verkalýðshreyfingar í ræðustól Alþingis var mjög tíðrætt um vinnumarkaðsmódelið á Norðurlöndunum. Taldi hann það fremra því íslenska og þangað ættu menn að horfa, því þannig væri hægt að efla starfsemi stéttarfélaga á Íslandi. Er ekki allt í lagi?

Að sjálfsögðu er þetta mjög athyglisvert í ljósi þess sem ég nefndi hér að framan, að erlend verkalýðssamtök horfa til Íslands sem fyrirmyndarsamfélags hvað varðar vinnumarkaðsmál. Framsögumaðurinn hafði greinilega ekki gefið sér tíma til að kynna sér málið í þaula og er því út á túni í sínum málflutningi.

Sjálfur sat ég í stjórn Nordisk Union til margra ára, en það eru samtök þeirra stéttarfélaga á Norðurlöndum sem hafa starfsfólk í matvælaframleiðslu innan sinna vébanda. Breytingar á vinnulöggjöfinni í viðkomandi löndum hafa orðið til þess að félögum í hefðbundnum stéttarfélögum hefur fækkað verulega á undanförnum áratugum. Nærtækast er eða líta til Svíþjóðar þar sem hægrimenn hafa lagt sig fram um að veikja verkalýðshreyfinguna. Félagsmönnum í Gulu verkalýðsfélögunum, sem eru undir hælnum á atvinnurekendum, hefur hins vegar fjölgað verulega. Atvinnurekendur hafa verið að beina starfsmönnum, sérstaklega erlendum, í slík verkalýðsfélög til að losna undan eftirliti hefðbundnu stéttarfélaganna. Mörg dæmi eru um að atvinnurekendur hafi tekið vegabréf af erlendum starfsmönnum svo þeir geti ekki yfirgefið vinnustaðinn og landið þrátt fyrir alvarleg kjarasamningsbrot. Það á við um félagsmenn sem standa utan hefðbundinna stéttarfélaga, svokallaða teikara, sem eru ótryggðir og án aðildar að öryggisneti stéttarfélaga.

Mér var boðið á vinnustað þar sem ófélagsbundnir verkamenn voru við störf á byggingastað. Þar var ekki í boði að sofa í venjulegum rúmum í löglegri starfsmannaaðstöðu með salerni eins og kröfur eru gerðar um í almennum kjarasamningum og við þekkjum á Íslandi heldur var þeim gert að sofa í bílskrjóðum við verkstað án salernisaðstöðu. Sjá mátti verkamennina fara í skjól til að gera þarfir sínar á víðavangi. Þeir gátu ekkert leitað varðandi aðbúnaðarmál enda haldið frá því að vera í stéttarfélagi. Þeim var tryggð vinna gegn því að vera í Gulu verkalýðsfélagi.

Þetta er vinnumarkaðsmódelið sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins sjá fyrir sér á Íslandi, það er að almennir starfsmenn s.s. á Alþingi, sem standa utan stéttarfélaga, skreppi út fyrir húsvegginn og geri þarfir sínar við styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli. Það er í anda þess sem hefur verið að gerast á Norðurlöndunum með tilkomu Gulu verkalýðsfélaganna. Í nafni lýðræðis og mannréttinda! Hver voru aftur slagorð og stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins? Var það stétt með stétt, eða auðstétt með auðstétt?  Ég er reyndar löngu hættur að átta mig á stefnu flokksins.

Þeir halda kannski að opinberar stofnanir geti  tekið að sér að framfylgja kjarasamningum, reglum um aðbúnað og öryggi og tryggja réttarstöðu þeirra sem höllustum fæti standa. Það væri þá í anda flokksins að þenja út eftirlitskerfi ríkisins og stofnanir þess eða hvað? Eða vilja þeir einfaldlega minnka sjálfsprottið og frjálst eftirlit stéttarfélaganna, draga eftirlit ríkisins saman og draga þannig úr mannréttindum vinnandi fólks? Í málflutningi þeirra stangast allt hvað á annars horn.

Með þessum skrifum vil ég skora á Sjálfstæðisflokkinn að draga frumvarpið þegar í stað til baka, enda er um alvarlega aðför að íslenskum vinnumarkaði að ræða. Gerist það ekki skora ég á þingmenn annara flokka að mótmæla þessum málflutningi auðvaldsins. Þingmenn, það verður hlustað eftir ykkar viðbrögðum, þið getið ekki setið hjá meðan Róm brennur í boði þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

                                                                                                                        Aðalsteinn Árni Baldursson

 

 

 

SGS og LÍV saman í kjaraviðræður

Stærstu landssambönd launafólks á vinnumarkaði, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna og Starfsgreinsamband Íslands, hafa ákveðið að taka höndum saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning. Samstarfið nær til hátt í 90 þúsund einstaklinga sem starfa á almennum vinnumarkaði innan tuttugu stéttarfélaga.

Mjög ríkur vilji er innan beggja sambanda að gera sameiginlega atlögu að nýjum kjarasamningi þar sem áherslan verður á að auka kaupmátt og tryggja stöðugleika í efnahagslífinu. Það er ljóst að samstarf LÍV og SGS mun skila auknum slagkrafti í kjarasamningaviðræðurnar.

 

Við leitum að öflugum liðsmanni – frábært starf í boði

Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík óskar eftir að ráða öflugan einstakling í almenn skrifstofustörf. Um er að ræða afar fjölbreytt og krefjandi starf í góðum starfsmannahóp. Kjör taka mið af menntun, reynslu og kjarasamningi Landssambands ísl. verslunarmanna og Samtaka atvinnulífsins. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.

Starfssvið:

  • Móttaka viðskiptavina
  • Umsjón með orlofsíbúðum og orlofskostum á vegum stéttarfélaganna
  • Umsjón með sölu á flugmiðum
  • Túlkun kjarasamninga með öðrum starfsmönnum
  • Upplýsingagjöf varðandi réttindi félagsmanna úr sjóðum félagsins
  • Aðstoð við skráningu iðgjalda og annara styrkja
  • Innkaup á vörum fyrir Skrifstofu stéttarfélaganna

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Menntun og reynsla á vinnumarkaði sem nýtist í starfi
  • Áhugi fyrir verkalýðsmálum
  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum og leiðtogahæfileikar
  • Hæfni til að miðla upplýsingum
  • Góð kunnátta í íslensku og ensku
  • Góð tölvukunnátta

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur eru með öflugri stéttarfélögum landsins.

Umsóknarfrestur er til og með 7. nóvember n.k.

Umsækjendur eru vinsamlegast beðnir að sækja um starfið með því að senda umsókn á netfangið kuti@framsyn.is eða með því að koma upplýsingum á Skrifstofu stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26, Húsavík. Forstöðumaður, Aðalsteinn Árni Baldursson, gefur frekari upplýsingar um starfið.  Umsókninni þarf að fylgja upplýsingar fyrir ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi til að sinna starfinu. Um er að ræða fullt starf.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir en það er í höndum Fulltrúaráðs stéttarfélaganna.

Skrifstofa stéttarfélaganna

 

 

 

 

 

Kröfugerð Þingiðnar gagnvart SA

Á fundi með Samtökum atvinnulífsins í síðustu viku var kröfugerð Samiðnar lögð fram vegna endurnýjunar kjarasamnings aðila. Þingiðn á aðild að kröfugerðinni fyrir sína félagsmenn. Tveir formlegir fundir hafa verið haldnir en samningurinn er laus frá og með 1. nóvember nk. Í viðræðunum fara iðnaðarmannafélögin í Húsi fagfélaganna saman sem ein heild. Í kröfugerðinni er m.a. gerð krafa um eftirfarandi:

  • Aukinn kaupmátt launa
  • Hlutfallshækkanir launa (prósentuhækkanir)
  • Leiðrétting á launum iðnaðarfólks
  • Færa taxta að greiddum launum
  • Aukinn orlofsréttur
  • Frekari stytting vinnuvikunnar
  • Verk- og tækninámi sé tryggt nægjanlegt fjármagn til að mæta aukinni aðsókn
  • Vinnustaðaeftirlit verði markvissara og skilvirkara

Kröfugerð Samiðnar gagnvart SA

 

Breið og góð samstaða á formannafundi SGS

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands sem hafa ákveðið að fara saman í komandi kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins funduðu í morgun um stöðuna og viðræðurnar sem hafnar eru við SA. Þá var frumvarp þingmanna sjálfstæðismanna um frjálsa félagaaðild einnig til umræðu. Ekki þarf að taka fram að veruleg óánægja er með framkomið frumvarp enda markmið þingmannanna að lama íslenska verkalýðshreyfingu. Mikil og góður baráttuandi var á fundinum og voru formenn einhuga um að standa saman í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins en núverandi kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum renna út um næstu mánaðamót. Innan Starfsgreinasambandsins eru 19 aðildarfélög, sautján af þeim hafa ákveðið að fara saman í viðræðurnar. Hin stéttarfélögin tvö eru með samningsumboðið hjá sér en munu væntanlega vinna mjög náið með félögum sínum innan SGS.