Samningsumboðið til SGS

Framsýn stéttarfélag hefur samþykkt að Starfsgreinasamband Íslands fari með samningsumboð félagsins í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins og aðra viðsemjendur er tengist þeim kjarasamningum sem félagið á aðild að í gegnum sambandið og renna almennt út 31. janúar 2024. Kjarasamningarnir eru:

  • Heildarkjarasamningur SGS og SA
  • Kjarasamningur SGS og SA vegna veitinga-, gisti-, þjónustu-, og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi.
  • Kjarasamningur SGS og Landssambands smábátaeigenda og Samtaka smærri útgerða
  • Kjarasamningur SGS og Bændasamtaka Íslands
  • Kjarasamningur SGS og Landsvirkjunar
  • Kjarasamningur SGS og NPA miðstöðvarinnar

Þá liggur fyrir að fulltrúar Framsýnar munu verða virkir í kjaraviðræðum Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins sem munu hefjast fyrir alvöru á allra næstu vikum.

Framúrskarandi nemendur á Laugum

Framhaldsskólinn á Laugum leitaði til Framsýnar með fyrirlestur um tilgang stéttarfélaga, staðgreiðslu skatta og lífeyrismál. Formaður félagsins, Aðalsteinn Árni, fór á staðinn í morgun og messaði yfir áhugasömum nemendum sem stunda nám við þennan frábæra skóla. Með í för var Kristján Ingi Jónsson starfsmaður stéttarfélaganna. Nemendur skólans sem koma víða að, enda heimavistarskóli, voru mjög áhugasamir um málefni fundarins en tæplega 40 nemendur hlustuðu á fyrirlesturinn. Eins og áður hefur komið fram eru stéttarfélögin ávallt reiðubúin að koma með fræðslu inn í skóla á félagssvæðinu og vinnustaði. Eitt símtal og við komum í heimsókn.

Gleði og hamingja á menningar- og hrútadögum á Raufarhöfn

Hinn árlegi Hrútadagur á Raufarhöfn var haldinn laugardaginn 7. október auk þess sem menningardagar á Raufarhöfn hafa staðið yfir síðustu daga.

Fyrir mörgum er Hrútadagurinn á Raufarhöfn ómissandi hluti af haustinu. Á það bæði við um íbúa svæðisins, en einnig eru dæmi um fólk, sem gerir sér gjarnan ferð landshorna á milli til að skoða hrútakostinn, sýna sig og sjá aðra.

Á Hrútadeginum var boðið upp á fjölbreytta skemmtidagskrá í reiðhöllinni. Um kvöldið voru síðan tónleikar með þekktum tónlistarmönnum. Um er að ræða framúrskarandi viðburð heimamanna.

Viltu skreppa í sumarbústað?

Sumarbústaður Framsýnar í Dranghólaskógi í Öxarfirði er laus til leigu fyrir félagsmenn í október, meðan veður leyfir. Hægt er að fá helgaleigu eða vikuleigu og jafnvel einstaka daga í miðri viku. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Skrifað undir samkomulag við Fjallalamb

Rétt í þessu skrifuðu fulltrúar frá Framsýn stéttarfélagi og Fjallalambi hf. undir sérkjarasamning um kjör starfsmanna við sauðfjárslátrun haustið 2023. Samningurinn byggir á samningi aðila sem gilti í fyrra. Um 60 starfsmenn starfa við slátrun á vegum fyrirtækisins í haust. Vel gekk að ráða starfsmenn til starfa yfir sláturtíðina. Áætlað er að slátra um 24 þúsund fjár þetta haustið.

Ályktað um flugsamgöngur um Húsavíkurflugvöll

Stjórn Framsýnar kom saman til fundar í gær. Á fundinum urðu miklar umræður um flugsamgöngur og mikilvægi þess að þær verði áfram greiðar milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Ákveðið var að álykta um málið:

„Um leið og Framsýn stéttarfélag fagnar því að samkomulag hafi náðst um áframhaldandi flug til Húsavíkur með aðkomu Vegagerðarinnar telur félagið afar mikilvægt að fundin verði varanleg leið til að tryggja flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur í framtíðinni.

Samkvæmt yfirlýsingum frá Vegagerðinni og Flugfélaginu Erni hafa aðilar komist að samkomulagi um að tryggja flug til Húsavíkur fram að næstu áramótum, sem dugar skammt.

Fljótlega eftir að Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur árið 2012 gerði Framsýn samkomulag við flugfélagið um sérstök afsláttarkjör fyrir félagsmenn sem þyrftu að fljúga í einkaerindum milli landshluta, ekki síst vegna veikinda. Samstarfið hefur verið afar farsælt og þýðingarmikið fyrir báða aðila. Þess vegna ekki síst hefur Framsýn lagt mikla vinnu í að tryggja áframhaldandi flugsamgöngur við Þingeyjarsýslur. Á þeirri vegferð hefur m.a. verið fundað með ráðherrum, þingmönnum, sveitarstjórnarmönnum, SSNE og ferðaþjónustuaðilum í Þingeyjarsýslum.

Framsýn mun hér eftir sem hingað til berjast fyrir flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll og þakkar  þeim fjölmörgu aðilum sem sett hafa sig í samband við félagið síðustu daga og þakkað fyrir framlag þess í gegnum tíðina við að tryggja öruggar flugsamgöngur um Húsavíkurflugvöll. Fyrir það ber að þakka, enda er samstaða heimamanna lykillinn að því að ná eyrum fjárveitingavaldsins til að festa í sessi nútímasamgöngur milli landshluta.“

Stefán S. Stefánsson fallinn frá

Stefán Sigurður Stefánsson fyrrverandi formaður Starfsmannafélags Húsavíkur er fallinn frá. Útför hans fer fram frá Lindakirkju í Kópavogi, föstudaginn 6. október klukkan 13:00.

Stefán var formaður Starfsmannafélags Húsavíkur í rúmlega tvo áratugi, hann var mjög virkur í starfi auk þess sem hann var áberandi í starfi BSRB er viðkom kjarabaráttu félagsmanna og annarri réttindabaráttu. Hafi hann miklar þakkir fyrir vel unninn störf í þágu félagsmanna.

Stjórn félagsins og starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík votta fjölskyldu Stefáns innilegrar samúðar. Blessuð sé minning hans.

Stjórnarfundur í Framsýn næstkomandi fimmtudag

Stjórnarfundur verður haldinn í Framsýn stéttarfélagi fimmtudaginn 5. október kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins.

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Flugsamgöngur Hús-Rvk

4. Fundur með fjármálaráðherra

5. Yfirlýsing Norðurþings um flugmál

6. Heimsókn frá stéttarfélagi innan SGS

7. Kjarasamningur SGS og SÍS/kynningarfundur-atkvæðagreiðsla

8. Starfsmannamál

9. Ályktun um samgöngumál

10. Heimsókn ríkissáttasemjara

11. Hrunabúð-framkvæmdir

12. LÍV-samningsumboð

13. Endurskoðun á stofnanasamningi HSN

14. Ritsafn- atvinnuhættir og menning

15. Þorrasalir-málningavinna

16. Formannafundur ASÍ

17. Staðan í kjaramálum SGS-SA

18. Önnur mál

Húsavíkurflugið á áætlun fram að áramótum

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Vegagerðin samþykkt að koma að áætlunarfluginu til Húsavíkur, reyndar tímabundið, meðan unnið verði að frekari leiðum til að tryggja flug milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Á vef Vegagerðarinnar má sjá eftirfarandi frétt.

„Flug til Húsvíkur verður styrkt næstu tvo mánuði á meðan að  framtíðarfyrirkomulag þeirra mála verður skoðað. Samkomulag hefur verið gert við flugfélagið Ernir að það fljúgi áfram til Húsavíkur fimm sinnum í viku. Flugfélagið hefur haldið uppi flugi til Húsavíkur sjö sinnum í viku án þess að það hafi verið styrkt. Nú hefur ríkið tekið ákvörðun um að styrkja fimm ferðir til Húsavíkur í október og nóvember meðan farið er yfir framtíðarfyrirkomulag flugsins.“

Fréttatilkynning.

Flugfélagið hefur bætt um betur og gefið út flugáætlun til Húsavíkur til áramóta enda klárist samningaviðræður við Vegagerðina á allra næstu dögum. Að sjálfsögðu fagnar Framsýn þessari niðurstöðu um leið og félagið mun gera allt til að vinna að því að flugsamgöngur við Húsavík verði tryggðar til frambúðar frá og með næstu áramótum. Framsýn hefur allt frá árinu 2012 komið að því með Flugfélaginu Erni að tryggja flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Sú barátta mun halda áfram næstu mánuðina og árin. Þá er kallað eftir því að þingmenn kjördæmisins komi að þessari vinnu með heimamönnum.   

Metþátttaka á fræðsludögum starfsfólks

Óhætt er að segja að aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands séu rík af mannauði og frábæru starfsfólki sem nýtir reynslu sína og hæfni til að liðsinna félagsmönnum og greiða þeirra leið. Það sást berlega þegar tæplega 40 starfsmenn aðildarfélaga SGS komu nýverið saman á fræðsludögum SGS. Þátttaka á fræðsludögunum fór fram úr björtustu vonum og aldrei hafa fleiri starfsmenn sótt fræðsludagana.

Þau málefni sem tekin voru fyrir á fræðsludögunum að þessu sinni voru einkar fjölbreytt. Hæst ber að nefna umræðu um kjaramál, vinnustaðaeftirlitið, afgreiðslu sjóða, orlofshúsin, tölvukerfi félaganna, krefjandi samskipti og einnig var rætt um möguleika á frekari samvinnu milli félaga. Anna Steinsen frá KVAN hristi svo upp í hópnum með líflegu erindi um liðsheild og jákvæð samskipti sem féll í góðan jarðveg.

Þetta var í sjöunda sinn sem SGS stendur fyrir fræðsludögum af þessu tagi og hefur almenn ánægja ríkt með þennan vettvang sem gerir starfsfólki aðildarfélaganna kleift til að hittast, mynda tengsl og læra hvert af öðru. Jónína Hermannsdóttir og Agniesza Szczodrowska foru fulltrúar stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum og voru þær mjög ánægðar með fræðsludagana sem fram fóru í Keflavík.

Samningur Framsýnar og sveitarfélaganna samþykktur

Atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands/Framsýnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga er lokið. Niðurstöður liggja nú fyrir og var samningurinn samþykktur með rúmlega 78% þeirra sem greiddu atkvæði.

Atkvæðagreiðslan var rafræn og sameiginleg hjá 18 aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins. Stóð hún yfir frá 14. til 26. september. Á kjörskrá voru 5.950 manns og var kjörsókn 14,62%. Já sögðu 684 eða 78,62%. Nei sögðu 144 eða 16,55%. 4,83% tóku ekki afstöðu. Niðurstöður atkvæðagreiðslu (PDF) 

Samningurinn gildir frá 1. október 2023 til 31. mars 2024 og tekur til allra félagsmanna aðildarfélaga SGS sem starfa hjá sveitarfélögum. Kjarasamninginn má nálgast hér.  

Eftirtalin félög eiga aðild að samningnum: AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðsfélagið Hlíf, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis og Verkalýðsfélag Þórshafnar.

Vinsamlegur fundur með fjármálaráðherra

Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar stéttarfélags gerði sér ferð til Reykjavíkur í gær til að funda með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra um stöðu áætlunarflugs milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Flugfélagið Ernir hefur boðað að óbreyttu, að hætta flugi milli þessara áfangastaða um næstu mánaðamót. Auk þess að funda með fjármálaráðherra tók formaður Framsýnar einnig fundi með stjórnendum flugfélagsins þar sem hann ítrekaði mikilvægi þess að fluginu verði viðhaldið enda töluverður uppgangur framundan í Þingeyjarsýslum auk þess sem fjölmargir einstaklingar nýta sér flugið sem þurfa á sérfræðiþjónustu og annarri þjónustu að halda á höfuðborgarsvæðinu sem og viðskiptaerindum. Áður hafði hann átt símafund með forsætisráðherra. Besta árið flugu um 20.000 farþegar milli Húsavíkur og Reykjavíkur, það var árið 2016. Að sögn Aðalsteins gengu fundirnir vel. Fundurinn með fjármálaráðherra í gær hefði bæði verið upplýsandi og gefandi fyrir báða aðila. Ráðherra hefði fullan skilning á mikilvægi þess að flugi verði viðhaldið til Húsavíkur enda mikilvæg samgönguæð. Reiknað er með að niðurstaða liggi fyrir í málinu í lok vikunnar, það er hvort stjórnvöld komi að því styðja við bakið á fluginu til Húsavíkur líkt og með aðra áfangastaði á Íslandi sem Vegargerðin hefur boðið út til minni áfangastaða á Íslandi. Óhætt er að segja að það verði mikið fundað um málið út vikuna og mörg símtöl tekin enda mikið áfall fyrir Þingeyinga og alla þá sem ferðast þurfa inn á svæðið, verði fluginu hætt um næstu mánaðamót. Það má einfaldlega ekki gerast.

Verður áætlunarfluginu til Húsavíkur bjargað?

Framsýn stéttarfélag hefur lagt mikið upp úr því að viðhalda fluginu milli Húsavíkur og Reykjavíkur áfram eftir 1. október en Flugfélagið Ernir hefur boðað að hætta fluginu frá þeim tíma á rekstrarforsendum. Öll önnur áætlunarflug á Íslandi eru eða hafa notið ríkisábyrgðar eða njóta ríkisstyrka í dag. Það vekur að sjálfsögðu furðu að það skuli ekki gilda fyrir flug til Húsavíkur líka. Forsvarsmenn Framsýnar hafa fundað út og suður undanfarnar vikur með ráðamönnum þjóðarinnar, sveitarstjórnarmönnum og forsvarsmönnum flugfélagsins með það að markmiði að viðhalda flugi áfram til Húsavíkur. Í gær fundaði formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, með framkvæmdastjóra og verðandi framkvæmdastjóra Ernis auk þess að funda með fjármálastjóra og stjórnarformanni Ernis um málið. Þá mun hann funda með fjármálaráðherra eftir helgina með það að markmiði að koma skoðunum heimamanna á framfæri, það er að stjórnvöld tryggi áframhaldandi flug til Húsavíkur. Í það minnsta ætlar Framsýn að leggja sitt að mörkum að tryggja áframhaldandi flug milli þessara landshluta enda miklir hagsmunir í húfi.  

Fundað með starfsmönnum sveitarfélaga um nýjan kjarasamning- mikilvægt að menn kjósi um samninginn

Nýlega var undirritaður nýr kjarasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögum. Öll aðildarfélög SGS, 18 talsins, eiga aðild að samningnum. Samningurinn gildir í 6 mánuði, frá 1. október 2023 til 31. mars 2024, en fyrri samningur milli aðila rennur út þann 30. september næstkomandi.

Nýr samningur veitir kjarabætur fyrir einstök starfsheiti á leikskólum og í heimaþjónustu frá 1. október ásamt því að samið var um sérstakar launauppbætur á lægstu launaflokka 117-130 sem verða greiddar afturvirkt frá 1. apríl. Ný launatafla með starfaröðun upp í launaflokk 200 mun taka gildi frá 1. október, en hækkanir til SGS-félaga eru þegar komnar inn í töfluna frá 1. janúar 2023.  Desemberuppbót hækkar og verður kr. 131.000. Í samninginn eru færðar ýmsar breytingar sem unnið hefur verið að í samstarfsnefnd á árinu og eru þegar komnar til framkvæmda. T.a.m. voru gerðar breytingar á vaktahvatanum sem ætlað er að tryggja jafnari vaktahvata til handa þeim hópi sem er með mestan fjölda og fjölbreytileika vakta á hverju launatímabili.

Á heimasíðu SGS má finna kynningarefni og frekari upplýsingar um samninginn og atkvæðagreiðslu um hann. Aðildarfélög SGS veita einnig upplýsingar um samninginn og sjá um að kynna hann fyrir félagsmönnum sínum.

Hér er hægt að komast beint inn á innskráningu á kosningavefinn.

Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning er rafræn og stendur frá kl. 12:00 fimmtudaginn 14. september til kl. 09:00 þann 26. september 2023.

Framsýn hefur undanfarið staðið fyrir kynningarfundum um samninginn, einn slíkur var haldinn á Húsavík í gær. Meðfylgjandi mynd er tekin á fundinum. Framsýn skorar á félagsmenn að kjósa um samninginn, verði hann ekki samþykktur stendur starfsmönnum sveitarfélaga ekki til launahækkanir að þessu sinni.

Munaðarlausir Þingeyingar

Það var flaggað í heila stöng þegar Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur vorið 2012 í góðu samstarfi við heimamenn, enda hafa Þingeyingar aldrei efast um mikilvægi góðra samgangna. Það varðar ekki síst íbúa í hinum dreifðu byggðum Þingeyjarsýslna allt til Þórshafnar á Langanesi, sem búa við það hlutskipti að þurfa að sækja verslun, almenna þjónustu, sem og heilbrigðisþjónustu um langan veg. 

Áður höfðu önnur flugfélög séð um áætlunarflug til Húsavíkur, með nokkrum hléum. Meðal þeirra var Flugfélag Íslands sem lagði Húsavíkurflugið af og beindi farþegum sem hugðust leggja leið sína til Reykjavíkur um Akureyrarflugvöll. Eðlilega voru Þingeyingar ekki ánægðir með þessa ákvörðun flugfélagsins á sínum tíma, enda um verulega þjónustuskerðingu að ræða fyrir íbúa á svæðinu, austan Vaðlaheiðar.

Allt frá fyrstu tíð hefur Framsýn stéttarfélag fylgst vel með framvindu mála varðandi flugið ásamt hagsmunaaðilum sem talað hafa fyrir mikilvægi flugsamgangna milli þessara landshluta, enda flugleiðin á milli Húsavíkur og Reykjavíkur mikilvægur hlekkur í framtíðar uppbyggingu svæðisins.

Framsýn steig mikilvægt skref vorið 2014 með því að gera samkomulag við Flugfélagið Erni um aðgengi félagsmanna að ódýrum flugfargjöldum enda kostnaðarsamur liður í heimilisbókhaldinu hjá mörgum. Frá þeim tíma hefur samningurinn verið uppfærður reglulega með hagsmuni félagsmanna og samfélagsins í Þingeyjarsýslum að leiðarljósi. Samningsaðilar eru sammála um að báðir aðilar hafi hagnast á samstarfinu.

Frá árinu 2012 hafa allt að 20.000 farþegar flogið um Húsavíkurflugvöll á ári með Flugfélaginu Erni. Farþegafjöldinn náði hámarki árið 2016. Á þeim tíma stóðu yfir miklar framkvæmdir á svæðinu í tengslum við uppbygginguna á Bakka og á Þeistareykjum. Eðlilega er farþegafjöldinn ekki sá sami í dag og hann var á þeim tíma. Verði fluginu viðhaldið er alveg ljóst að farþegum um Húsavíkurflugvöll á bara eftir að fjölga, enda fyrirsjáanlegur gríðarlegur uppgangur í atvinnulífinu í Þingeyjarsýslum á komandi árum.

Ljóst er að heimamenn hafa verulegar áhyggjur af stöðu áætlunarflugs til Húsavíkur svo vitnað sé í yfirlýsingar frá hagsmunaaðilum síðustu daga, ekki síst frá stéttarfélögum sem leitt hafa umræðuna, ferðaþjónustuaðilum, Húsavíkurstofu, SSNE, Þingeyjarsveit og Norðurþingi.

Með þessari grein vil ég skora á þingmenn Norðausturkjördæmis að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur með fjárhagslegum stuðningi frá ríkinu. Komi ekki til opinbers stuðnings, með sambærilegum hætti og til annarra flugvalla á Íslandi, mun áætlunarflug til Húsavíkur leggjast af um næstu mánaðamót.

Ætla þingmenn Norðausturkjördæmis virkilega að láta það gerast á sinni vakt að áætlunarflug og jafnvel sjúkraflug til Húsavíkur leggist af?

Hafa þingmenn engar áhyggjur af stöðu flugmála, nú þegar stefnir í algjöra einokun á áætlunarflugi á Íslandi, þar sem vísbendingar eru um að Flugfélagið Ernir geti ekki mætt þeim mikla mótbyr sem flugfélagið býr við um þessar mundir. Það er þrátt fyrir farsæla sögu frá stofnun þess árið 1970 er viðkemur leiguflugi, áætlunarflugi og sjúkraflugi?

Nánast allt áætlunarflug innanlands er ríkisstyrkt með beinum eða óbeinum hætti. Þá þekkja flestir söguna að því þegar Flugleiðir fengu fyrir fáeinum árum ríkisábyrgð upp á 16 milljarða. Á svipuðum tíma var ákveðið að samþætta rekst­ur Air Ice­land Conn­ect og Icelanda­ir. Sameinað félag er með eignarhlut í Norlandair sem hægt og bítandi hefur verið að ná flestum ríkisstyrktum áfangastöðum á landsbyggðinni, auk sjúkraflugsins sem Mýflug hefur séð um til fjölda ára með miklum ágætum. Vaknið þingmenn!

Framsýn hefur á fundum með stjórnvöldum talað fyrir því að flugsamgöngur við Húsavík verði tryggðar með sambærilegum hætti og gert er í dag til annarra áfangastaða á Íslandi. Stjórnvöld geta ekki komið sér hjá því að styðja við bakið á þeirri áætlunarleið líkt og gert er til flestra annarra áætlunarstaða innanlands. Það stenst einfaldlega hvorki skoðun né samkeppnissjónarmið.

Um er að ræða afar mikilvægt mál fyrir íbúa Þingeyjarsýslna og aðra þá sem velja að ferðast til og frá svæðinu, svo ekki sé talað um atvinnulífið sem treystir á öruggt áætlunarflug um Húsavíkurflugvöll.  Þá er ótalinn sá mikli fjöldi fólks sem neyðist til að ferðast landshorna á milli með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn til að leita sér sérfræðiþjónustu sem stendur þeim einungis til boða í Reykjavík. Heimamenn munu því sannarlega ekki skorast undan því að styðja vel við flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur, enda sparar flugið bæði tíma, fé og fyrirhöfn.

Hvað það varðar hafa forsvarsmenn Framsýnar fundað með forsætisráðherra, samgöngumálaráðherra og þingmönnum kjördæmisins varðandi áhyggjur félagsins, auk þess að gera Samkeppniseftirlitinu viðvart varðandi fákeppnina sem er að myndast í innanlandsfluginu á vakt núverandi stjórnvalda.

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvörp sem voru samþykkt á Alþingi haustið 2020 og varða ríkisaðstoð til handa Icelandair er skýrt tekið fram að á þeim mörkuðum sem félagið og dótturfélög þess starfa, hafi eftirlitið verulegar áhyggjur af áhrifum ríkisaðstoðarinnar á samkeppni á viðkomandi mörkuðum. Þar kemur einnig fram að Air Iceland Connect (nú Icelandair) njóti mikilla yfirburða í innanlandsflugi. Það er á stærstu flugleiðum innanlands frá Reykjavík til Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar. Flugfélagið hafi nánast haft einokunarstöðu á flugi innanlands allt frá árinu 2000 þegar Íslandsflug hætti samkeppnisflugi á leiðunum. Ljóst sé að ríkisaðstoð sem styddi við rekstur Air Iceland Connect/Icelandair myndi hafa skaðleg áhrif á fyrirtæki á borð við Flugfélagið Erni í innanlandsflugi segir jafnframt í umsögninni.

Spurt er, hvernig ætla þingmenn að bregðast við stöðunni sem endurspeglast í áliti Samkeppniseftirlitsins um að ríkisábyrgð gæti haft skaðleg áhrif á minni flugfélög á Íslandi, sem nú hefur gengið eftir?

Þá er spurt, ætlið þið að taka málið upp til umræðu á Alþingi, þar sem áhyggjur Samkeppniseftirlitsins eru að raungerast? 

Til viðbótar má geta þess að þegar talað er um að unnið hafi verið gegn starfsemi Flugfélagsins Ernis er við hæfi að vitna t.d. í nýlegt viðtal sem Viðskiptablaðið tók við Hörð Guðmundsson fyrrverandi eiganda  flugfélagsins sem segir í viðtalinu að heimsfaraldurinn hafi verið flugfélaginu mjög erfiður;

 „Hann var erfiðari fyrir okkur en sem dæmi Flugfélag Íslands, sem sameinaðist móðurfélaginu nokkrum dögum áður en lögin um hlutabótaleiðina voru samþykkt. Þar með gat Flugfélag Íslands sagt upp öllu sínu fólki og ríkið borgaði uppsagnarfrestinn ásamt öllum kostnaði. Þetta gátum við ekki gert. Ef við ætluðum að segja einhverjum upp þá urðum við að borga viðkomandi 100% laun. Þessi tími reyndist okkur mjög erfiður.“

Að lokum þetta. Ég kalla eftir því að þingmenn Norðausturkjördæmis gefi upp afstöðu sína til frekari ætlunarflugs milli Reykjavíkur og Húsavíkur.

Eruð þið í liði með Þingeyingum að tryggja öruggar flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur frá og með 1. október 2023 eða ekki?

Ég skal fúslega viðurkenna að ég reikna ekki með svörum við þessari grein frá ráðherra samgöngumála eða þingmönnum kjördæmisins. Því miður virðist áhugaleysið vera nánast algjört, það mun skýrast á næstu dögum hvort það reynist vera rétt eða ekki. Vonandi hef ég rangt fyrir mér um að Þingeyingar séu munaðarlausir.

Aðalsteinn Á. Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

Starfsmenn sveitarfélaga – kjósum um samninginn

Þann 12. september, var undirritaður nýr kjarasamningur milli SGS/Framsýnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samningurinn gildir í 6 mánuði, frá 1. október 2023 þegar núverandi samningur rennur út til 31. mars 2024. Með því að fara inn á heimasíðu stéttarfélaganna; framsyn.is er hægt að nálgast helstu upplýsingar um samninginn og þar er einnig hægt að kjósa um samninginn en atkvæðagreiðslan er rafræn. Atkvæðagreiðslunni lýkur kl. 09:00 þann 26. september næstkomandi.

Framsýn stendur fyrir kynningarfundi um kjarasamninginn í fundarsal stéttarfélaganna fimmtudaginn 21. september kl. 18:00. Í boði er að tengjast fundinum í gegnum teams fyrir þá sem komast ekki á fundinn. Þeim sem það vilja er bent á að senda ósk þess efnis á netfangið kuti@framsyn.is tímanlega fyrir fundinn. Afar mikilvægt er að félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu kynni sér samninginn vel og greiði atkvæði.

Framsýn stéttarfélag

Framsýn kallar eftir betri samgöngum í Þingeyjarsýslum

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar hefur samþykkt að senda frá sér svohljóðandi ályktun um samgöngumál í Þingeyjarsýslum. Þegar málið var til umræðu á fundi félagsins á dögum kom fram megn óánægja með stöðu mála á svæðinu:

„Á sama tíma og ákveðnir þingmenn Norðausturkjördæmis tala fyrir styttingu þjóðvegarins frá Akureyri til Reykjavíkur, fer lítið fyrir áhuga þeirra á að tryggja eðlilegar samgöngur austan Vaðlaheiðar til Akureyrar. Nú er svo komið að brúin yfir Skjálfandafljót við Ófeigsstaði í Kinn, sem verið hefur aðal samgönguæðin til Húsavíkur, Kópaskers, Raufarhafnar, Þórshafnar og nærsveita, þolir ekki frekari þungaumferð og hefur henni verið lokað fyrir umferð stærri ökutækja. Þess í stað hefur þungaflutningum verið beint á einbreiða brú á þjóðvegi 1. við Fosshól, sem einnig er löngu hætt að svara kröfum tímans. Umferð þar um er þung og myndast ítrekað langar raðir ökutækja beggja vegna brúarinnar með tilheyrandi slysahættu fyrir vegfarendur. Það bætir ekki úr skák að brúin við Ófeigsstaði hefur að mestu verið lokuð undanfarið fyrir almennri umferð, þar sem nú standa yfir á henni bráðabirgðaviðgerðir.

Framsýn bendir á að góðar samgöngur innan héraðs og til næstu markaðssvæða er lífæð  byggðanna austan Vaðlaheiðar og krefst þess að  hlutaðeigandi aðilar, stjórnvöld, vegagerðin og fjárveitingavaldið hysji upp um sig buxurnar og hefji þegar í stað framkvæmdir við byggingu nýrrar brúar yfir Skjálfandafljót við Ófeigsstaði, sem leysa muni núverandi brú af hólmi. Þá verði flýtt framkvæmdum við nýja brú yfir Skjálfandafljót við Fosshól og brúin færð framar á samgönguáætlun m.a. í ljósi áherslna um greiðar og öruggar samgöngur.

Markmið Framsýnar er að vegasamgöngur í Norðausturkjördæmi verði bættar með góðum tengingum við höfuðborgarsvæðið. Framsýn skorar á stjórnvöld og þingmenn kjördæmisins að ganga til liðs við félagið hvað þessa sýn varðar í samgöngumálum, með það að markmiði að efla byggð og atvinnulíf í fjórðungnum.“

Nýr kjarasamningur Framsýnar við sveitarfélögin – tökum þátt í atkvæðagreiðslu

Síðastliðinn þriðjudag, 12. september, var undirritaður nýr kjarasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem Framsýn á aðild að. Öll aðildarfélög SGS, 18 talsins, eiga aðild að samningnum. Samningurinn gildir í 6 mánuði, frá 1. október 2023 til 31. mars 2024, en fyrri samningur milli aðila rennur út þann 30. september næstkomandi.

Nýr samningur veitir kjarabætur fyrir einstök starfsheiti á leikskólum og í heimaþjónustu frá 1. október ásamt því að samið var um sérstakar launauppbætur á lægstu launaflokka 117-130 sem verða greiddar afturvirkt frá 1. apríl. Ný launatafla með starfaröðun upp í launaflokk 200 mun taka gildi frá 1. október, en hækkanir til SGS-félaga eru þegar komnar inn í töfluna frá 1. janúar 2023.  Desemberuppbót hækkar og verður kr. 131.000. Í samninginn eru færðar ýmsar breytingar sem unnið hefur verið að í samstarfsnefnd á árinu og eru þegar komnar til framkvæmda. T.a.m. voru gerðar breytingar á vaktahvatanum sem ætlað er að tryggja jafnari vaktahvata til handa þeim hópi sem er með mestan fjölda og fjölbreytileika vakta á hverju launatímabili.

Á heimasíðu SGS má finna kynningarefni og frekari upplýsingar um samninginn og atkvæðagreiðslu um hann. Aðildarfélög SGS veita einnig upplýsingar um samninginn og sjá um að kynna hann fyrir félagsmönnum sínum.

Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning er rafræn og stendur frá kl. 12:00 fimmtudaginn 14. september til kl. 09:00 þann 26. september 2023.

ÆRANDI ÞÖGN UM HÚSAVÍKURFLUGIÐ

Egill P. Egilsson blaðamaður á Vikublaðinu skrifar áhugaverða grein um framtíð flugsamgangna um Húsavíkurflugvöll á þann magnaða fréttavef, vikubladid.is sem full ástæða er til að lesa:

Mál málanna í allri umræðu á Norðurlandi um þessar mundir er boðuð sameining Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri.

Miðað við alla þessa umræðu þarf ekki mikið ímyndunarafl til að komast að þeirri niðurstöðu að sameiningarplön mennta- og barnamálaráðherra fái ekki jákvæðan hljómgrunn.

Nemendur skólanna hafa staðið í mótmælum, hagaðilar, bæjarfulltrúar og þingmenn hafa ruðst fram á ritvöllinn til að koma á framfæri áhyggjum sínum af málinu, já og hreinlega til að mótmæla þeim. Nú síðast þingflokksformaður Framsóknar, Ingibjörg Isaksen sem skorar á samflokksmann sinn, háttvirtan ráðherra menntamála um að endurskoða vinnuna og markmið sameiningarinnar.

Þögla mál landshlutans

Annað mál í landhlutanum hefur verið heldur fyrirferðarminna í opinberri umræðu, þó alvarleiki þessi sé talsverður fyrir íbúa austan Vaðlaheiðar.

Í Vikublaðinu sem kemur út í dag er rætt við Aðalstein Á. Baldursson formann Framsýnar, stéttarfélags um framtíð áætlunarflugs um Húsavíkurflugvöll. Komið hefur fram að flugfélagið Ernir muni hætta áætlunarflugi á milli Húsavíkur og Reykjavíkur um næstu mánaðamót ef ekki komi loforð um breyttar forsendur fyrir þann tíma.

Ég ætla ekki að fara rekja það í lögnu máli hvaða forsendur það séu, en í stuttu máli kallar flugfélagið eftir ríkisaðstoð líkt og á öðrum sambærilegum flugleiðum í innanlandsflugi.

Fundað fyrir luktum dyrum

Það sem mér þykir undarlegast við þetta mál er hvað það fær litla umræðu. Téður formaður Framsýnar, hefur vissulega haft hátt um framtíð Húsavíkurflugsins um árabil og barist fyrir tilvist þess. Eins og fram kemur í fréttinni sem ég vísaði til, kallaði hann á mánudag til fundar stjórnendur flugfélagsins og fulltrúa Norðurþings og Þingeyjarsveitar til að ræða stöðuna og leita leiða fluginu til bjargar. Síðar sama dag hann fundaði rafrænt ásamt sömu fulltrúum og nokkrum þingmönnum kjördæmisins. Þá hefur hann einnig vakið athygli forsætisráðherra á málinu.

Tíminn færist hættulega nálægt mánaðamótum en ekki ratar þetta mál inn í opinbera umræðu. Það er með ólíkindum að eini talsmaður þessara samgönguleiðar sé formaður stéttarfélags á svæðinu. Að minnsta kosti sá eini sem hefur hátt.

Hvar eru skoðanapistlarnir?

 Ég hef ekki dottið um aðsendar greinar frá sveitarstjórnarfulltrúum, þeir kannski kláruðu kvótann í aðdraganda kosninga, þá vantaði aldeilis ekki hugðarefnin. Þetta mál virðist heldur ekki vekja áhuga hjá þingmönnum kjördæmisins, þeir sjá kannski bara í hyllingum aukna umferð um Vaðlaheiðargöng?

Ég heimsótti vefsíðu Samtaka sveitarfélaga & atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), þar fann ég enga yfirlýsingu eða áskorun til stjórnvalda.  Ég fann þær heldur ekki á vef Markaðsstofu Norðurlands en eflaust hafa þær tapast í öllum færslunum um Akureyrarflugvöll. Á Fjasbókarsíðu Húsavíkurstofu er að vísu hlekkur á frétt um yfirvofandi endalok áætlunarflugsins. Aðrir hagaðilar í ferðaþjónustu, fyrirtækjaeigendur og stjórnendur hafa lítið ef nokkuð haft sig í frammi.

Hreyfiafl samfélagsins

Umræðan um sameiningardrauma mennta- og barnamálaráðherra hefur leitt mig á þann stað að það kæmi mér ekkert á óvart þó hann verði gerður afturreka með þessar hugmyndir sína. Svo sterk hefur andstaðan verið.

Og hvað kennir það okkur? Jú, einmitt það að opinber umræða um mikilvæg málefni er eitt öflugasta hreyfiafl nútímasamfélags sem við höfum.

Því skora ég á kjörna fulltrúa í sveitarfélögunum austan Vaðlaheiðar og þingmenn kjördæmisins að láta í sér heyra um hvað þeim finnst um endalok áætlunarflug frá Húsavík og framtíð Húsavíkurflugvallar; eða skiptir þessi samgönguleið íbúanna á svæðinu ykkur engu máli?

Það getur vel verið að þið hafið skrifað einhverja tölvupósta á bak við tjöldin en til að koma hreyfingu á hlutina þarf að setja þrýsting á ríkið fyrir opnum tjöldum og skapa umræðu; kveikja í íbúum sem mæta á á kjörstað. Og ef þið teljið þetta mál ekki vera nógu mikilvægt, þá er líka alveg sjálfsagt að þið segið kjósendum hug ykkar í málinu. Klukkan tifar.

Höfundur er áhugamaður um umræðu mikilvægra málefna

Framsýn skorar á Erni að viðhalda áætlunarflugi til Húsavíkur

Á dögunum fór þessi yfirlýsing frá Framsýn til stjórnenda Flugfélagsins Ernis:

„Framsýn hefur komið að því með Erni að byggja upp flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur með samkomulagi milli félagsins og flugfélagsins. Eins og kunnugt er hefur Framsýn fjárfest í flugkóðum með staðgreiðslu/magnkaupum gegn því að fá kóðana á sérkjörum. Samstarf aðila hefur verið með miklum ágætum og verið báðum til hagsbóta. Með þessum pósti vill Framsýn hvetja stjórnendur flugfélagsins til þess að viðhalda áfram flugi á flugleiðinni Reykjavík – Húsavík.  Að mati Framsýnar á farþegum bara eftir að fjölga, þar kemur til sterk ferðaþjónusta í Þingeyjarsýslum og verulegur uppgangur í atvinnulífinu sem ekki er séð fyrir endann á.  Þá er Framsýn reiðubúið til frekara samstarfs um kaup á flugkóðum verði það til að efla frekar flugsamgöngur milli Reykjavíkur og Húsavíkur.“

Til viðbótar má geta þess að fulltrúar Framsýnar hafa verið í stöðugu sambandi við eigendur flugfélagsins, sveitarstjórnarmenn og fjölda fólks á svæðinu frá Vaðlaheiði til Þórshafnar sem hafa miklar áhyggjur af stöðinni. Þá hefur verið fundað með þingmönnum og þeim boðið frekari kynning á málinu sem þeir hafa ekki þegið hjá Framsýn sem þekkir afar vel til málsins. Vissulega vekur athygli að þingmenn kjördæmisins telji ekki ástæðu til að tjá sig um málið sem er gríðarlegt atvinnu- og byggðamál á Norðurlandi eystra. Hugsanlega telja þeir mikilvægara að koma í veg fyrir samruna MA og VMA.