SGS vísar kjaradeilu við ríkið til ríkissáttasemjara

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) telur einsýnt að ekki verði komist lengra í viðræðum við samninganefnd ríkisins vegna endurnýjunar kjarasamnings SGS og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs sem rann út 31. mars 2023. Samningsaðilar hafa á undanförnum vikum átt fjölmarga fundi þar sem SGS hefur komið kröfum sínum málefnalega á framfæri við samninganefnd ríkisins, en án árangurs.

Í ljósi þess hversu langt er á milli aðila lítur SGS svo á að ekkert annað sé í stöðunni en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Jafnframt var farið fram á það við ríkissáttasemjara að hann boði til fundar eins fljótt og auðið er, enda óásættanlegt að launafólk bíði mánuðum saman eftir sanngjörnum kjarabótum. Þess ber að geta að Framsýn á aðild að þessum kjarasamningi fyrir sína félagsmenn.

Aðalfundur Framsýnar samþykkti að gefa Félagi eldri Mývetninga bekk

Framsýn hefur í gegnum tíðina stutt við íþrótta- og menningarstarf á félagssvæðinu með því að leggja fjármagn í ýmis áhugaverð  verkefni sem koma samfélaginu til góða á einn eða annan hátt. Eitt þeirra verkefna er í gangi þessa dagana og tengist Mývatnssveitinni fögru. Félag eldri Mývetninga hefur undanfarið unnið að því að koma upp bekkjum við hjólreiða- og göngustíg sem verið er að leggja umhverfis Mývatn. Verkefnið er unnið í samvinnu við Þingeyjarsveit og Vegagerðina. Eru bekkirnir frá Steinsmiðju Akureyrar, þeir eru algjörlega viðhaldsfríir, úr granít og í náttúrulitum sem falla vel að umhverfinu. Kveikjan að hugmyndinni er sú að gestir og gangandi sem leið eiga um stíginn hafi möguleika á að tylla sér niður og hvíla lúin bein og njóta þeirrar einstöku náttúruperlu sem Mývatnssveitin sannarlega er. Félagið hefur þegar keypt tvo bekki og hefur óskað eftir stuðningi við verkefnið og höfðar þar sérstaklega til fyrirtækja með starfsemi í Mývatnssveit; en einnig félagasamtaka og einstaklinga.

Á aðalfundi Framsýnar fyrir helgina var samþykkt samhljóða að leggja þessu verðuga verkefni lið með því að fjárfesta í einum bekk um leið og Framsýn óskar Félagi eldri Mývetninga góðs gengis með þetta frábæra verkefni sem mun án efa koma flestum til góða, það er heimamönnum og öllum þeim fjölda ferðamanna sem leggja leið sína í eina fallegustu sveit landsins ef ekki fallegustu sveit landsins.

Sumarkaffi á Raufarhöfn í boði Framsýnar

Framsýn stendur fyrir árlegu kaffiboði á Raufarhöfn föstudaginn 2. júní kl. 15:00-17:00 í Félagsheimilinu Hnitbjörgum.

 Boðið verður upp á heimsins bestu tertur frá Kvenfélagi Raufarhafnar.

Allir velkomnir.

Framsýn stéttarfélag

Meðfylgjandi myndir eru frá sumarkaffinu 2022 þegar fjölmenni lagði leið sína í kaffið og áttu notalega stund með forsvarsmönnum Framsýnar.

Unnið að lagfæringum í Kröflu

Um þessar mundir er unnið að lagfæringum á Kröflustöð sem er 60MW jarðgufuvirkjun á háhitasvæðinu við Mývatn. Krafla er jafnframt fyrsta stórvirkjun jarðgufu til rafmagnsframleiðslu á Íslandi en áður var byggð 2,5 MW jarðgufustöð í Bjarnaflagi. Kröflustöð er rekin af Landsvirkjun. Félagsmenn Framsýnar starfa m.a. hjá Landsvirkjun, þar á meðal Stefán Stefánsson sem jafnframt er öflugur trúnaðarmaður starfsmanna. Meðfylgjandi myndir tengjast framkvæmdunum í Kröflu sem nú standa yfir.

Framsýn þakkar fyrir sig með gjöf til tónlistardeildar Stórutjarnaskóla

Á baráttudegi verkalýðsins, þann 1. maí er hefð fyrir því að stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum standi fyrir veglegri hátíð í tilefni dagsins og bjóði til veislu. Hátíðin í ár var haldin á Fosshótel Húsavík í fyrsta en vonandi ekki síðasta sinn og var einstaklega vel heppnuð. Boðið var til tónlistarveislu þar sem fram kom úrval frábærra tónlistarmanna úr ýmsum áttum. Meðal þeirra sem stigu þar á stokk var strengjahljómsveitin Tjarnastrengir úr Stórutjarnaskóla undir stjórn Mariku Alavere deildarstjóra tónlistardeildarinnar. Hljómsveitin samanstendur af fimm fiðlunemendum og einum píanónemenda og varð til vegna þátttöku nemenda á Nótunni 2023, Uppskeruhátíð tónlistarskólanna, sem haldin var í Hörpunni síðastliðinn vetur. Góður rómur var gerður að flutningi stelpnanna, sem stóðu sig auðvitað með mikilli prýði. Á vortónleikum nemenda í tónlistardeild Stórutjarnaskóla nýverið afhenti Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar tónlistardeildinni kr. 100.000 styrk fyrir hönd Framsýnar til kaupa á fiðlu, en þannig vildi félagið þakka Tjarnastrengjum og Mariku fyrir þeirra tillag til baráttudags verkalýðsins.  Á meðfylgjandi myndum má annars vegar sjá Tjarnastrengi spila á hátíðarhöldunum á Húsavík og hins vegar þegar Ósk Helgadóttir afhendi tónlistardeildinni gjöfina frá Framsýn. Marika Alavere tók við gjöfinni og þakkaði Framsýn kærlega fyrir þessa veglegu gjöf. Mynd: Jónas Reynir.

Vinnustaðaheimsóknir mikilvægar

Fulltrúar frá Framsýn fara reglulega í vinnustaðaheimsóknir um félagssvæðið. Á dögunum fóru þeir í heimsókn til starfsmanna sem starfa hjá Fosshótel Mývatn. Carlos Jané Echazarreta og Júlia Nadzamová sem starfa í móttökunni tóku á móti gestum frá Framsýn með bros á vör.

Velheppnað starfslokanámskeið

Framsýn, í samvinnu við Þekkingarnet Þingeyinga stóð fyrir starfslokanámskeiði á  Breiðumýri í vikunni. Var það seinna námskeiðið af tveimur sem auglýst voru á félagssvæðinu, en það fyrra  var haldið á Húsavík í lok mars.

Námskeiðið á Breiðumýri var vel sótt af fólki víðs vegar að úr Þingeyjarsveit, en 15 þátttakendur voru skráðir til leiks. Starfslok þarf að undirbúa vel, enda margt sem breytist þegar vinnan sem svo lengi hefur skapað rammann um daglegt líf fólks er ekki lengur til staðar. Það eru eðlilega margar spurningar sem brenna á einstaklingum þegar fer að líða að því að þeir hætti á vinnumarkaði.  Sumir hlakka þess að hætta að vinna og geta sökkt sér á kaf í áhugamálin, meðan aðrir kvíða því að hitta ekki lengur vinnufélagana og eiga jafnvel ekki önnur áhugamál en vinnuna. En starfslok snúast ekki eingöngu um það að hætta að vinna. Það eru margir aðrir þættir sem skipta einnig máli og á námskeiðinu var boðið var upp á fróðleg erindi og fræðslu í tengslum við þessi stóru tímamót í lífi einstaklinga.

Fyrirlesarar komu víða að. Dögg Stefánsdóttir lífsþjálfi flutti erindi sem hún nefndi: Kúnstin að hætta vinna og kom þar inn á andlega vellíðan og lífið eftir vinnu. Hrefna Regína Gunnarsdóttir sjúkraþjálfari flutti einnig erindi um heilsu eldra fólks og tók þar fyrir líkamlega heilsu þessa aldurshóps. Ræddi hún m.a. um mikilvægi  hreyfingar og heilsusamlegs mataræðis. Erindi Hrefnu nefndist: Heilsa á efri árum. Þá var kynning á starfi félaga eldri borgara í Þingeyjarsveit, en þau félög eru tvö í sveitarfélaginu. Ingvar Vagnsson formaður Félags eldri borgara í Þingeyjarsveit sagði frá starfi félagsins og Ásdís Illugadóttir formaður Félags eldri Mývetninga greindi frá því helsta sem er á döfinni hjá þeim. Einnig fór Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar yfir það skipulagða félagsstarf sem verið hefur á vegum Þingeyjarsveitar í vetur, en það fer fram á þremur stöðum í þessu víðfeðma sveitarfélagi, í Reykjahlíð,  Stórutjarnaskóla og Þingeyjarskóla. Síðastar á mælendaskrá voru svo fulltrúar Lsj. Sapa, þær Jóna Finndís Jónsdóttir og Kristín Hilmarsdóttir sem fluttu mjög fróðlegt erindi um lífeyrisréttindi. 

Þátttakendur voru mjög ánægðir með námskeiðið og töldu það gagnlegt. Þess má geta að námskeiðin voru öllum opin og þeim að kostnaðarlausu.

Aðalfundur Þingiðnar – í fréttum er þetta helst!

Aðalfundur Þingiðnar fór fram í gærkvöldi. Að venju var farið yfir skýrslu stjórnar og þá var samþykkt að auka greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði þar sem reksturinn hefur gengið vel. Þá var einnig samþykkt að gera smávægilegar breytingar á lögum félagsins, það er að útvíka félagssvæðið. Meðfylgjandi þessari frétt eru nokkrir punktar úr skýrslu stjórnar. Í boði er fyrir félagsmenn, sem ekki komust á fundinn, að nálgast skýrslu stjórnar og ársreikninga á Skrifstofu stéttarfélaganna.

  • Félagsmenn í Þingiðn voru samtals 124 þann 31. desember 2022, það er greiðandi félagar, öryrkjar og aldraðir sem áður greiddu til félagsins.  Greiðandi fullgildir félagsmenn voru 104. Þess ber að geta að nú er aftur komið jafnvægi á fjölda félagsmanna eftir stórframkvæmdirnar á liðnum árum sem tengdust uppbyggingunni á Bakka. Töluvert hefur verið um nýbyggingar á félagssvæðinu sem tryggt hefur gott atvinnuástand meðal iðnaðarmanna. Reyndar er vöntun á iðnaðarmönnum til starfa.
  • Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2022 námu kr. 17.601.653,- sem er 17,5% hækkun frá fyrra ári. Heildartekjur námu kr. 20.730.939,- og hækkuðu um sömu prósentu. Rekstrargjöld voru kr. 20.977.605,- og lækkuðu um 11,8% frá síðasta ári. Þar ræður mestu bætur og styrkir sem lækkuðu umtalsvert á milli ára. Á árinu 2022 námu þær kr. 8.169.819,- þar af úr sjúkrasjóði kr. 6.620.793,- sem er um 34,6% lækkun frá 2021 og skýrist fyrst og fremst af lægri greiðslum sjúkradagpeninga til félagsmanna. Árið 2022 voru alls greiddir úr sjúkrasjóði 69 styrkir eða sjúkradagpeningar til félagsmanna. Árið áður voru greiddir 72 styrkir. Fjármagnstekjur hækkuðu úr kr. 7.223.637,- árið 2021 í kr. 14.287.573,- árið 2022 sem gerir um 98% hækkun. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 14.040.907,- en hann var kr. 1.092.593,- árið áður. Heildareignir í árslok voru kr. 276.125.376,- og eigið fé nam kr. 265.558.024,- og hefur það aukist um 5,6% frá fyrra ári.
  • Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 3.405.978,-.
  • Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eiga mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum stéttarfélaganna. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 45.000,- fyrir viku dvöl. Þá fengu 14 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 302.300,-. Ekki var boðið upp á sumarferð 2022 þar sem ekki náðist þátttaka í sögu- og gönguferð í Bárðardal, það er niður með Skjálfandafljóti. Unnið er að því að skipuleggja ferð í sumar. Ferðin verður auglýst frekar þegar nær líður sumri. Til viðbótar gafst félagsmönnum kostur á að kaupa gistimiða og ódýr flugfargjöld með Flugfélaginu Erni á flugleiðinni Húsavík – Reykjavík. Verðið hefur undanfarið verið kr. 15.000,- per flugmiða. Ekki er ólíklegt að forsendan fyrir áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur sé ekki síst samningur stéttarfélaganna við flugfélagið. Kæmi ekki til þessa samkomulags væri farþegafjöldinn ekki sá sami og hann hefur verið allt frá því að gengið var frá samkomulaginu á sínum tíma. Þá gengu stéttarfélögin frá samningum við Icelandair og Niceair um afsláttarkjör fyrir félagsmenn. Samningarnir fela í sér að flugfélögin veita stéttarfélaginu 10 til 20% afslátt frá fullu verði. Á móti niðurgreiðir stéttarfélagið flugmiðana til félagsmanna. Það er, félagsmenn geta verslað gjafabréf í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna sem gefur þeim góð afsláttarkjör upp í fullt fargjald hjá flugfélögunum. Reyndar hefur Niceair nú óskað eftir gjaldþrotaskiptum sem eru mikil vonbrigði, það er, að ekki sé hægt að halda úti millilandaflugi frá Norðurlandi með góðu móti. 
  • Þingiðn á eina íbúð í Þorrasölum 1-3 í Kópavogi og gengur rekstur hennar mjög vel. Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Komið hefur verið upp hleðslustöð fyrir gesti íbúðar félagsins í Þorrasölum. Þá eru einnig til staðar tvær stöðvar á bílaplaninu sem eru í eigu húsfélagsins. Til stendur að mála fjölbýlishúsið í sumar. Framkvæmdin er á vegum húsfélagsins. Þá er til skoðunar að mála íbúð félagsins síðar á árinu, eða næsta vetur ásamt íbúðum Framsýnar í Þorrasölum.
  • Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn í gegnum nýja fræðslusjóðinn sem félagið stofnaði til 2018. 
  • Á síðasta ári fengu 12 félagsmenn styrki úr Fræðslusjóði Þingiðnar til náms/námskeiða samtals kr. 1.146.726,-.
  • Eins og fram kemur í ársreikningum félagins voru greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins samtals kr. 6.620.793,- á árinu 2022. Árið 2021 voru greiddar kr. 11.396.896,- í styrki til félagsmanna. Greiðslur til félagsmanna lækkuðu því töluvert milli ára. Alls fengu 69 félagsmenn greiðslur úr sjóðnum á árinu 2022.
  • Eins og kunnugt er var skrifað undir nýjan skammtíma kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar 12. desember 2022 með gildistíma til 31. janúar 2024. Í kjölfarið boðaði félagið til kynningarfundar um samninginn. Atkvæðagreiðslan um samninginn var rafræn. Samningurinn var samþykktur. Í heildina voru 89 félagsmenn á kjörskrá, alls greiddu 14 atkvæði eða 15,7% félagsmanna. 71,43% félagsmanna samþykktu kjarasamninginn. Þá kom félagið að sérkjarasamningi við PCC á Bakka, ásamt Framsýn stéttarfélagi. Sá samningur var sömuleiðis samþykktur í atkvæðagreiðslu enda hluti af aðalkjarasamningi félaganna við Samtök atvinnulífsins og því með sama gildistíma, það er til 31. janúar 2024.
  • Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum ef ekki öllum iðnaðarmönnum enda hafa töluverðar framkvæmdir verið  í gangi á svæðinu.
  • Stéttarfélögin, Þingiðn og Framsýn, hafa frá árinu 2016 rekið öflugt vinnustaðaeftirlit á félagssvæðinu. Um tíma voru félögin með sérstakan mann í eftirlitinu. Í heimsfaraldrinum var starfið lagt niður tímabundið. Félögin hafa nú endurráðið í starfið. Hugmyndin er að tveir starfsmenn sinni starfinu í hlutastörfum með öðrum störfum á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þannig vilja stéttarfélögin halda úti öflugu vinnustaðaeftirliti í fullu samráði við Alþýðusamband Íslands og helstu eftirlitsaðila í Þingeyjarsýslum. Mikið hefur verið lagt upp úr góðu samstarfi við aðrar eftirlitsstofnanir. Í því sambandi hafa stéttarfélögin átt gott samstarf við Vinnueftirlitið. Félagið hefur hins vegar kallað eftir því að aðrar eftirlitsstofnanir verði virkari í vinnustaðaeftirliti s.s. Vinnumálastofnun og ríkisskattstjóri.
  • Stéttarfélögin stóðu að þessu sinni fyrir hátíðarhöldum á Fosshótel Húsavík 1. maí 2023. Eftir hátíðarhöldin í höllinni í fyrra var ákveðið að breyta til og færa hátíðina á Fosshótel Húsavík til prufu. Ástæðan er að fólki hefur frekar fækkað sem sækir viðburði sem þennan auk þess sem samfélagsgerðin hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Þeir sem eldri eru hafa verið mjög duglegir við að sækja hátíðarhöldin meðan þeir sem yngri eru búa ekki yfir sama áhuga sem og erlendir félagsmenn. Þess vegna var ákveðið að færa hátíðarhöldin á hótelið þar sem góð þjónusta er í boði til að halda samkomu sem þessa. Boðið var upp á veglega hátíð þar sem heimamenn voru í aðalhlutverki ásamt góðum gestum. Ræðumaður dagsins var Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar auk þess sem þekktir og óþekktir tónlistarmenn tendruðu fram áhugaverða tónlist og söng. Þá var boðið upp á veglegt kaffihlaðborð. Óhætt er að segja að breytingarnar hafi tekist vel og voru hátíðarhöldin á Fosshótel Húsavík vel sótt og öllum til mikils sóma. Salurinn á Fosshótel Húsavík hefur þegar verið tekinn frá fyrir hátíðarhöldin á næsta ári.
  • Rekstur Hrunabúðar sf. hefur gengið vel. Um þessar mundir eru öll skrifstofurými í notkun og rúmlega það þar sem fundarsalurinn er einnig í útleigu. Hrunabúð sf. er félag í eigu Framsýnar og Þingiðnar. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16%. Félagið var stofnað á árinu 2017 utan um sameiginlegt eignarhald og sameiginlegan rekstur á efri hæð Garðarsbrautar 26. Árið 2021 fjárfesti Hrunabúð í íbúð á efri hæð Garðarsbrautar 26, kr. 48 milljónir. Heildarvelta félagsins árið 2022 var kr. 10,1 milljónir samanborið við kr. 7,6 milljóna veltu árið 2021. Tekjuafgangur ársins nam kr. 1,6 samanborið við kr. 0,3 milljón árið 2021.
  • Til viðbótar eiga Framsýn og Þingiðn orlofsíbúð að Garðarsbraut 26, efri hæð sem fellur undir rekstur Hrunabúðar. Íbúðin sem um ræðir er alls 232,2 fm. Búið er að innrétta um 180 fm. af íbúðinni. Íbúðin er í mjög góðu standi og meðfylgjandi er ófrágengið rými upp á um 50 fm. sem stendur til að innrétta á árinu 2023. Íbúðin er í útleigu.
  • Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Með samvinnu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin þjónustu- og ráðgjafaskrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009.  Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu.
  • Á síðasta ári samþykktu stéttarfélögin sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna sameiginlega innkaupastefnu fyrir félögin, en þar er um að ræða ákveðið frumkvæði þar sem ekki er vitað til þess að önnur stéttarfélög hafi komið sér upp slíkri stefnu. Lögfræðingar stéttarfélaganna og ASÍ komu að því að móta stefnuna með forsvarsmönnum og starfsmönnum stéttarfélaganna. Fram kom ánægja hjá þeim með frumkvæði stéttarfélaganna að móta sér reglur varðandi það að tryggja hagkvæmni í kaupum á vörum og þjónustu fyrir stéttarfélögin, en ekki síður að stuðla með þessu að góðu viðskiptasiðferði.
  • Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Starfsmannafélagi Húsavíkur og Framsýn. Þar starfa 6 starfsmenn í 5,4 stöðugildum. Að auki starfa 5 starfsmenn í hlutastörfum hjá Framsýn/Þingiðn við að þjónusta orlofsíbúðir í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri og í Öxarfirði. Starfshlutfall þeirra er um 30% að meðaltali. Þá er einn starfsmaður í 5% starfi á Raufarhöfn. Þess ber að geta að Linda M. Baldursdóttir hætti störfum hjá stéttarfélögunum í lok síðasta árs. Í hennar stað var Kristján Ingi Jónsson ráðinn. Hann var valinn úr hópi 21 umsækjenda um starfið. Þá var jafnframt ákveðið að ráða Agnieszku Szczodrowska í hlutastarf við almenn skrifstofustörf, þýðingar og vinnustaðaeftirlit frá og með 1. febrúar 2023. Agnieszka verður í 50% starfi. Hugmyndin með hennar ráðningu er ekki síst að bæta þjónustu við erlenda félagsmenn sem fjölgar ár frá ári á félagssvæðinu. Full ástæða er til að þakka Lindu fyrir vel unnin störf í þágu stéttarfélaganna, Linda var góður liðsmaður.
  • Félagið heldur úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta s.s. kjaramál.
  • Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar. Auk þess er stórum hluta starfsins sinnt í gegnum síma, tölvur og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar.
  • Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra:
  • Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn.
  • Félagið hefur komið að kynningum á starfsemi stéttarfélaga í grunnskólum á félagssvæðinu með Framsýn stéttarfélagi.
  • Félagið kom að því að halda tveggja daga trúnaðarmannanámskeið í mars 2023, það er með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna.

Þingiðn hækkar styrki til félagsmanna

Tillaga stjórnar Þingiðnar um að hækka greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins var samþykkt samhljóða á aðalfundi félagsins í gær. Þá komi jafnframt til hækkun á útfararstyrk til aðstandenda félagsmanna sem falla frá eftir fimm ár frá því að þeir hættu að greiða félagsgjald til félagsins. Fram að þeim tíma gilda sömu reglur um útfararstyrk og fyrir aðstandendur þeirra félagsmanna sem voru á vinnumarkaði fyrir fráfallið.  Rekstur félagsins hefur gengið vel og því var ákveðið að gera vel við félagsmenn með hækkun á styrkjum til félagsmanna. Núverandi úthlutunareglur verði þær sömu en hlutfall endurgreiðslna úr sjúkrasjóði taki svohljóðandi breytingum:

  • Við andlát félagsmanns, sem ekki er á vinnumarkaði en var félagi við starfslok eiga aðstandendur hans rétt á endurgreiðslu allt að kr. 150.000,- vegna útfararkostnaðar í stað kr. 130.000,-. Með starfslokum er átt við að félagsmaður hafi látið af stöfum vegna aldurs eftir 60 ára aldur eða viðkomandi félagsmaður hafi látið af störfum vegna örorku.
  • Endurgreiðslur til félagsmanna vegna heilsueflingar verði kr. 40.000,- í stað kr. 35.000,-.
  • Fæðingarstyrkur hækki og verði kr. 160.000,-. Var áður kr. 150.000,-.
  • Niðurgreiðslur til félagsmanna sem fara í glasafrjóvgun verði kr. 160.000,-. Var áður kr.  150.000,-.
  • Styrkir til félagsmanna vegna aðgerða á augum verði kr. 70.000,-. Var áður kr. 60.000,-.
  • Gleraugnastyrkur til félagsmanna verði kr. 70.000,-. Sama regla gildi fyrir þá sem kaupa sér linsur. Var áður kr. 60.000,-.
  • Styrkur til félagsmanna vegna kaupa á heyrnartækjum verði kr. 100.000,-. Var áður kr. 80.000,-. Upphæðin getur samtals orðið kr. 200.000,- vegna kaupa á tveimur tækjum. Var áður kr. 160.000,-.

Við minnum á aðalfundi stéttarfélaganna

Aðalfundir stéttarfélaganna fara fram í næstu viku. Sjá frekari tímasetningar:

Aðalfundur Þingiðnar 23. maí 2023:

Aðalfundar Þingiðnar verður haldinn þriðjudaginn 23. maí 2023. Fundurinn hefst kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Fundurinn er opinn félagsmönnum Þingiðnar. Sjá má fyrirliggjandi dagskrá og tillögur sem liggja fyrir fundinum inn á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is.

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur 24. maí 2023:

Aðalfundar Starfsmannafélags Húsavíkur verður haldinn miðvikudaginn 24. maí 2023. Fundurinn hefst kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Fundurinn er opinn félagsmönnum Starfsmannafélags Húsavíkur. Sjá má fyrirliggjandi dagskrá og tillögur sem liggja fyrir fundinum inn á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is.

Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags 25. maí 2023:

Aðalfundar Framsýnar verður haldinn fimmtudaginn 25. maí 2023. Fundurinn hefst kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Fundurinn er opinn félagsmönnum Framsýnar. Sjá má fyrirliggjandi dagskrá og tillögur sem liggja fyrir fundinum inn á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is.

Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundina og taka þátt í mótun stéttarfélaganna til framtíðar. Að sjálfsögðu verður boðið upp á veitingar og smá glaðning til fundargesta.

Framsýn stéttarfélag

Þingiðn, félag iðnaðarmanna

Starfsmannafélag Húsavíkur

Enn frekari verkföll BSRB samþykkt um land allt

Kl 11 í dag lauk atkvæðagreiðslu um frekari verkfallsaðgerðir BSRB félaga um allt land* vegna kjaradeilu BSRB við sveitarfélög landsins.

Verkfallsboðun um frekari aðgerðir var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í 29 sveitarfélögum, þar á meðal hjá starfsmönnum Norðurþings.

Um er að ræða starfsfólk leikskóla, sundlauga- og íþróttamannvirkja, bæjarskrifstofa, hafna, þjónustumiðstöðva og áhaldahúsa svo eitthvað sé nefnt en mismunandi er eftir sveitarfélögum hvaða hópar leggja niður störf á hverjum tíma. Um er að ræða ótímabundið verkfall hjá sundlaugum og íþróttamannvirkjum um allt land.

„Niðurstaðan endurspeglar þá ríku samstöðu félagsfólks um að láta ekki bjóða sér þetta misrétti. Það er mikil ólga í hópnum sem skilur ekki sinnuleysi bæjar- og sveitarstjórnarfulltrúa sinna og upplifir það sem virðingarleysi gagnvart störfum þeirra. Það stefnir því í mjög umfangsmiklar verkfallsaðgerðir sem munu hafa víðtæk áhrif á starfsemi sveitarfélaga.“– sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, um atkvæðagreiðsluna.

Á mánudaginn hófust verkföll í Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi og á mánudag bætast við sex sveitarfélög til viðbótar og koll af kolli. Aukinn þungi færist því í aðgerðir eftir sem líður ef ekki næst að semja.

*Atkvæðagreiðsla stendur enn yfir í Garðabæ en henni lýkur á hádegi á morgun, laugardag.

Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags 25. maí

Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags verður haldinn fimmtudaginn 25. maí kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26, Húsavík.

Dagskrá:

1.   Venjuleg aðalfundarstörf

  1. Félagaskrá
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Ársreikningar
  4. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga
  5. Kjör í stjórnir, nefndir og ráð
  6. Kosning löggilts endurskoðanda/endurskoðunarskrifstofu
  7. Lagabreytingar
  8. Ákvörðun árgjalda
  9. Laun aðalstjórnar, trúnaðarráðs, nefnda og stjórna innan félagsins

2. Breytingar á samþykktum sjúkrasjóðs

3. Önnur mál

Tillögur stjórnar og trúnaðarráðs sem liggja fyrir aðalfundinum eru aðgengilegar félagsmönnum á Skrifstofu stéttarfélaganna skv. 32. gr. félagslaga.

Athygli er vakin á 32. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
„Tillögur stjórnar, trúnaðarráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.“ Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn. Kaffiveitingar verða í boði sem og smá glaðningur til fundargesta frá félaginu, ekki missa af því kæri félagi!

Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn. Kaffiveitingar verða í boði sem og smá glaðningur til fundargesta frá félaginu, ekki missa af því kæri félagi!

Stjórn Framsýnar

Aðalfundur STH miðvikudaginn 24. maí kl. 20:00

Aðalfundar Starfsmannafélags Húsavíkur verður haldinn miðvikudaginn 24. maí 2023. Fundurinn hefst kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Undanfarið hefur verið unnið að því að endurskoða félagslög STH. Sérstakur félagsfundur var haldinn um boðaðar breytingar. Lögin verða endanlega tekin til afgreiðslu á aðalfundinum. Hægt er að nálgast lögin á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Aðalfundur er æðsta vald félagsins og skal hann haldinn ár hvert. Sérstök verkefni aðalfundar eru þessi:

1. Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár
2. Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár
3. Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna
4. Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund
5. Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein
6. Kosning endurskoðenda samkvæmt 6. grein
7. Kosning fulltrúa í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar
8. Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
9. Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd
10. Önnur mál, sem fram koma á fundinum

Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn og taka þátt í umræðum um starfsemi félagsins og væntanlega afmælisferð í tilefni af 60 ára afmæli félagsins. Þá geta félagsmenn nálgast afmælistösku á fundinum eða á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Stjórn STH

Aðalfundur Þingiðnar 23. maí kl. 20:00

Aðalfundur Þingiðnar verður haldinn þriðjudaginn 23. maí kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn og taka þátt í umræðu um starfsemi félagsins, lagabreytingar og hækkanir á styrkjum til félagsmanna.

Dagskrá:

1.Venjuleg aðalfundarstörf

  1. Kjör á starfsmönnum fundarins
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Ársreikningar
  4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
  5. Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
  6. Lagabreytingar
  7. Ákvörðun árgjalda
  8. Laun stjórnar, annara stjórna og nefnda
  9. Kosning löggilts endurskoðanda

2. Hækkanir á styrkjum til félagsmanna

3. Önnur mál

Athygli er vakin á 24. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Við bjóðum upp á Starfslokanámskeið – öllum opið

Þekkingarnet Þingeyinga í samstarfi við Framsýn hefur skipulagt áhugavert Starfslokanámskeið. Búið er að halda eitt slíkt námskeið sem haldið var á Húsavík og vakti mikla athygli. Annað sambærilegt námskeið verður haldið þriðjudaginn 23. maí á Breiðumýri kl. 16:30-19:30. Námskeiðið er öllum að kostnaðarlausu. Þekkingarnet Þingeyinga sér um skráninguna, hac.is. Sjá frekari upplýsingar um námskeiðið í meðfylgjandi auglýsingu.

Myndir frá fjölmennum hátíðarhöldum

Eins og fram hefur komið í helstu fjölmiðlum landsins, 640.is, framsyn.is og Vikublaðinu var mikið fjölmenni á hátíðarhöldunum á Húsavík sem að þessu sinni fóru fram á Fosshótel Húsavík. Um 300 gestir lögðu leið sína á hótelið. Hér koma nokkrar myndir sem fanga stemninguna sem var á hátíðarhöldunum.

„Við skulum heldur aldrei gleyma því fornkveðna að sameinaðir stöndum vér, en sundraðir föllum vér. Það á vel við í dag.“ Mælti ræðumaður dagsins, Ósk Helgadóttir

Mikið fjölmenni er samankomið á hátíðarhöldum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem að þessu sinni fara fram á Fosshótel Húsavík. Hátíðarhöldin hófust kl. 14:00 með því að Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar flutti barátturæðu dagsins sem var kraftmikil að venju. Áður hafði Steingrímur Hallgrímsson spilað Internasjónalinn/alþjóðasöng verkalýðsins. Hér má lesa ræðuna:

Ágætu gestir.

Mig langar að byrja á því að bjóða ykkur hjartanlega velkomin á 1. maí hátíðarhöld stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Það er virkilega ánægjulegt að sjá ykkur hér í dag. Kjörorð dagsins er að þessu sinni réttlæti, jöfnuður og velferð, sem er í raun leiðarstefið í allri verkalýðsbaráttu. Dagurinn er ekki bara minningarhátíð um horfna daga, hann er einnig baráttudagur og alþýða manna um heim allan kemur saman til að minna á nauðsyn samstöðu. 

Fyrir 100 árum sýndi íslenskt verkafólk fyrst samstöðu sína á baráttudegi verkalýðsins með kröfugöngu í Reykjavík. Aðstæður íslenskra launamanna voru ekki upp á marga fiska árið 1923. Verkafólk var almennt fátækt, eignalaust og réttlítið og fæstir höfðu fasta vinnu eða tryggt húsnæði til lengri tíma. Margir lifðu undir fátæktarmörkum við erfiði og  sárustu örbirgð og bjuggu við ömurlegar aðstæður. Það var misskipting auðs og valds og auðvaldskreppan læsti krumlum sínum inn á heimili fátæks fólks, sundraði fjölskyldum og hungur og sjúkdómar lögðu fólk að velli.

Sjálfsagt finnst einhverjum hér inni ekki ástæða til skemma daginn með því að rifja upp svo löngu liðinn og heldur dapurlegan tíma í sögu þjóðarinnar, en ég leyfi mér hér að vitna í orð föður míns heitins, sem sagði svo gjarnan að það væri hverjum manni nauðsynlegt að þekkja rætur sínar. Ef við sem þjóð glötuðum sambandinu við sögu okkar og menningu forfeðranna ættum við enga framtíð fyrir okkur. Ég get heimfært þau orð föður míns upp á íslenska verkalýðsbaráttu og sagt að það er launafólki á hverjum tíma þarft að gera sér grein fyrir því að öll þau réttindi sem það nýtur komu ekki svífandi af himnum ofan, heldur eru þau tilkomin vegna baráttu liðinna kynslóða fyrir mannsæmandi lífi.

Kröfur fólksins sem þrammaði með fyrstu kröfuspjöldin niður Hverfisgötuna fyrir 100 árum voru knúnar áfram af neyð. Þar fóru einstaklingar sem upplifðu óréttláta stéttaskiptingu í landinu og kröfðust sanngjarnar skiptingu þjóðartekna. Kröfur þeirra beindust þá einkum að því að verkafólk fengi greitt fyrir vinnu sína í peningum, um hvíldartíma og mannsæmandi húsnæði.Við skulum muna að það var ekki gefið á þeim tíma að fólk fengist til að leggja nafn sitt við verkalýðsfélög, því atvinnurekendur töldu þann félagsskap til óþurftar og hikuðu ekki við að refsa mönnum með því að útiloka þá frá vinnu yrðu þeir uppvísir að slíku athæfi. 

Það er óhætt að segja að saga íslensku þjóðarinnar síðustu 100 árin sé í raun ein samfelld ævintýra- og framfarasaga. Hún braust á ótrúlega skömmum tíma úr því að vera þjóð örbirgðar í það verða þjóð allsnægta og mikilla tækifæra. Því samhliða hefur launþegahreyfingunni vaxið fiskur um hrygg og auðnast að byggja upp öfluga fjöldahreyfingu launafólks á landinu undir hatti Alþýðusambands Íslands. Tveir þriðju hlutar launafólks í skipulögðum samtökum á Íslandi eru innan vébanda samtakanna, en meginhlutverk þess er nú sem fyrr að gera kjarasamninga um kaup og kjör og standa með öðrum hætti vörð um stöðu launafólks á vinnumarkaði.

Verkalýðshreyfingin er stærsta umbótaafl á Íslandi og hefur í gegnum tíðina barist fyrir flestum þeim framfaramálum sem við búum við í dag. Með ASÍ í fararbroddi hefur náðst mikill árangur í baráttunni fyrir bættum kjörum alþýðufólks síðustu öldina. Við getum nefnt þar baráttu fyrir mannsæmandi húsnæði fyrir launafólk, fyrir menntun á vinnumarkaði og uppbyggingu starfsendurhæfingar, lífeyrisrétt, almannatryggingar, fæðingarorlof, atvinnuleysis – og örorkubætur, sem og veikindarétt. Verkalýðshreyfingin hefur einnig beitt sér fyrir hugarfarsbreytingu í þágu jafnréttis og svo fyrir ótal mörgu öðru sem snýr að velferð almennings og breyttu viðhorfi samfélagsins.

Sigrar hreyfingarinnar í gegnum árin eru gott dæmi um það hversu miklu öflugur samtakamáttur getur komið til leiðar. Með öflugum samtakamætti voru heilu fjöllin færð úr stað og stærstu sigrarnir unnust. Þeir sigrar urðu fyrir samstöðu fólks sem trúði á réttlátt samfélag og bar sigurvissu háleitrar hugsjónar í hjartanu. Það er gulleggið okkar. Og hamingjan hjálpi okkur ef við glutrum því út úr höndunum á okkur.

Undanfarna mánuði og ár hafa illvígar deilur sett mark sitt á störf íslenskrar verkalýðshreyfingu. Það er reyndar ekkert nýtt að þar á bæ sé tekist á um stefnur og strauma innbyrgðist. Ágreiningurinn nú virðist hins vegar fyrst og fremst stafa af baráttu um völd innan hreyfingarinnar og það hefur étið hana upp innan frá. Fari málin á versta veg er hætt við að verkalýðshreyfingin missi trúverðugleika sinn og lendi hreyfingin í öngstæti bitnar það mest á hinum almennu félagsmönnum. Hinn almenni félagsmaður er ekki að kalla eftir átökum og fámennur hópur forystumanna á ekki að komast upp með að sundra verkalýðshreyfingunni. Ég hvet hlutaðeigandi aðila, forystumenn og stjórnarmenn í stéttarfélögum því, til að hætta að tala verkalýðshreyfinguna niður. Beinum slagkrafti okkar í rétta átt

Við þurfum að hafa í huga að upplausn innan verkalýðshreyfingarinnar færir þeim öflum vopn í hendur sem hafa í gegnum tíðina barist gegn bættum hag almennings. Enn hefur varðhundum íhaldsins ekki tekist ætlunarverk sitt sem hefur verið og er enn að knésetja verkalýðshreyfinguna. Þeir bregðast aldrei sínum herrum ránfuglarnir sem voka yfir dyrum Valhallar og sífellt bíða tækifæris til að höggva, til að grafa undan og standa gegn hvers kyns kjarabótum til handa almenningi í landinu. Til að gera hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari. 

Nýlegt frumvarp hægri manna á Alþingi um frjálsa félagaaðild að stéttarfélögum og lagt er fram í nafni frelsis og mannréttinda er gott dæmi þar um. Frumvarpið sem lagt er fram af meintri umhyggju fyrir vinnuaflinu,virðist helst hafa þann tilgang að grafa undan því kerfi sem við höfum nú þegar byggt upp. Það nýja frumvarp hefur beina vísun í það sem gerst hefur á Norðurlöndunum undanfarin ár. Þar hefur handbendum auðvaldsins, hægri stjórnum, tekist að veikja verkalýðshreyfinguna. Það er því miður daglegt brauð að brotið sé á erlendum starfsmönnum sem komið hafa til starfa í Skandinavíu. Þeim hefur markvisst verið haldið utan stéttarfélaga til að koma í veg fyrir að þeir geti sótt rétt sinn sé brotið á þeim. Aðbúnaður þessara starfsmanna er oft skelfilegur og launakjörin langt fyrir neðan skráð lágmarkslaun. Þessi leikur er þegar þekktur hér á landi og jafnvel eru dæmi þess að fyrirtæki hafi tekið yfir stéttarfélög eða stofnað sín eigin. Einnig eru dæmi þess að fólki sé beint eða óbeint bannað að vera í stéttarfélögum eða það sannfært um að stéttarfélög séu ekki til hagsbóta fyrir það.

Handbendar auðvaldsins sækjast eftir að rústa því kerfi sem erlendar verkalýðshreyfingar um allan heim öfunda okkur af, sem er að yfir 92% íslenskra launamanna eigi aðild að stéttarfélögum, en það er það hæsta sem þekkist innan OECD ríkjanna.

Góðir félagar. Við Íslendingar erum rík þjóð. Auðlindir okkar eru gjöfular og hafa verið nýttar til að byggja upp það nútímasamfélag sem við búum í í dag. Okkur hefur tekist að móta samfélagið þannig að í samanburði við aðrar þjóðir höfum við komið vel út. Hér hefur jafnrétti mælst með því besta sem þekkist í heiminum. Ennþá getum við státað af því að hlutfall ungs fólks sem hvorki stundar nám né vinnu er með því lægsta sem þekkist, að laun séu hér með því hæsta sem þekkist, sem og almenn lífsgæði og í samanburði við aðrar þjóðir er ójöfnuður ennþá til þess að gera lítill. Viljum við halda þessum árangri? Þá er ekki tilefni til að taka upp árar og láta reka því enn er það gamalkunn misskipting auðs og valds sem heldur hluta samfélags föstum í gömlu hjólförunum með sínum skítugu krumlum.

Það er ekki nóg að skora hæst í jafnrétti þegar fullu jafnrétti hefur ekki verið náð. Það er ekki nóg að byggja hlý og góð húsakynni þegar það er fólk á okkar landi sem býr í saggafullum kolakompum og kjallaraholum við heilsuspillandi aðstæður og það er ekki ásættanlegt að hafa náð árangri í að bæta kjör fólks þegar sístækkandi hópur fólks á ekki fyrir húsaleigu, mat, lyfjum eða öðrum nauðsynjum og verður því að leita til hjálparsamtaka til að draga fram lífið.

Við skulum spyrja okkur í fullri hreinskilni hvort það sé jöfnuður að eigendur örfárra fyrirtækja nýti sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og greiði sér stórkostlegan arð á meðan minnst 10.000 börn á Íslandi búa við fátækt. Það væri hins vegar jöfnuður ef þær atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar greiddu fyrir það sanngjörn auðlindagjöld. Þá fengi þjóðin notið afraksturs auðlinda sinna.

Við erum að upplifa það að hugsjónir jafnaðar, félagshyggju og samhjálpar séu á undanhaldi, en ójöfnuður og einstaklingshyggja taki æ meira yfir. Er því ekki orðið tímabært að við spyrjum okkur sem þjóð hvernig samfélag það sé sem við viljum við byggja upp á Íslandi? Viljum við kannski áfram snúa blinda auganu að hinum sívaxandi ójöfnuði, sem setur mark sitt á hið nýríka borgríki markaðshyggjunnar? Ætlum við, almenningur á Íslandi að hlaupa áfram eins og hamstrar á hjóli og herða sultarólina um eitt gatið enn af því að okkur hefur verið sagt að við berum ábyrgð á verðbólgunni með óhóflegri eyðslu? Eigum við ekki frekar að vera minnug þess að það er rúmur áratugur síðan þúsundir fjölskyldna á Íslandi afhentu fjármálafyrirtækjum heimili sín á silfurfati og samfélagið var rústir einar. Hvað bull er þetta eiginlega? Verkalýðshreyfingin hefur hér mikilvægu hlutverki að gegna, það er í varðstöðu um velferð fyrir alla, ekki fáa útvalda. Gleymum því ekki að ójöfnuður er mannanna verk.

Góðir félagar. Við höfum svo sannarlega verk að vinna við að verja þann mikilvæga árangur sem náðst hefur um leið og við sækjum fram til nýrra sigra. Hreyfingin verður að vera reiðubúin til að takast á við áskoranir framtíðarinnar og þær krefjandi aðstæður sem fylgja því að standa í stafni þjóðarskútunnar. Að bæta kjör fólks hefur ætíð krafist baráttu og samstöðu og við getum treyst því að svo verður áfram. Vinnum því áfram saman að því að byggja upp réttlátt samfélag. Samfélag jöfnuðar, þar sem komið er fram við alla af sanngirni og virðingu. Þar sem launafólk, jafnt erlent sem íslenskt, nýtur ávaxtanna af erfiði sínu. Þar sem öllum hópum samfélagsins er gert fært að búa við fjárhagslegt öryggi og lifa með reisn. Í þeirri baráttu er mikilvægt að við stöndum saman sem órofa heild.

Við skulum heldur aldrei gleyma því fornkveðna að sameinaðir stöndum vér, en sundraðir föllum vér. Það á vel við í dag.

Takk fyrir

Glæsileg hátíð á Fosshótel Húsavík 1. maí 2023

Stéttarfélögin hafa ákveðið að færa hátíðarhöldin á Fosshótel Húsavík en þau hafa síðustu árin verið í Íþróttahúsinu á Húsavík. Hátíðarhöldin verða með breyttu sniði í ár og hefjast kl. 14:00. Boðið verður upp á kaffihlaðborð af bestu gerð frá hótelinu, hátíðarræðu dagsins, auk þess sem heimamenn í bland við góða gesti munu sjá um að skemmta gestum með mögnuðum tónlistaratriðum.

Dagskrá:

  • Steingrímur Hallgrímsson spilar Internasjónalinn/alþjóðasöng verkalýðsins
  • Hátíðarræða: Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags
  • Hljómsveitin Ford Cortina: Flytjendur Unnsteinn Ingi Júlíusson, Daníel Borgþórsson og Edda Björg Sverrisdóttir
  • Hljómsveitin Tjarnastrengir úr Stórutjarnaskóla flytur nokkur lög undir stjórn Mariku Alavere
  • Sunnanvindur – eftirlætislög Íslendinga: Flytjendur Ásta Soffía Þorgeirsdóttir, Ragnheiður Gröndal og  Grétar Örvarsson

Meðan á hátíðarhöldunum stendur verður gestum boðið upp á veglegt kaffihlaðboð í boði stéttarfélaganna.

Þingeyingar og landsmenn allir, tökum þátt í hátíðarhöldunum og drögum fána að hún á hátíðar- og baráttudegi verkafólks 1. maí 2023.

Framsýn, stéttarfélag – Starfsmannafélag Húsavíkur – Þingiðn, félag iðnaðarmanna