Verkalýðsfélag Þórshafnar heldur uppi öflugu starfi. Í byrjun júní það er 1-2.júní sl. stóð félagið fyrir trúnaðarmannanámskeiði og starfslokanámskeiði sem tókust í alla staði mjög vel. Leiðbeinandi var Guðmundur Hilmarsson.
Verkalýðsfélag Þórshafnar heldur uppi öflugu starfi. Í byrjun júní það er 1-2.júní sl. stóð félagið fyrir trúnaðarmannanámskeiði og starfslokanámskeiði sem tókust í alla staði mjög vel. Leiðbeinandi var Guðmundur Hilmarsson.
Aðalfundur Framsýnar fór fram í kvöld. Fundurinn fór vel fram og var auk þess fjölsóttur. Nánar verður fjallað um fundinn á heimasíðunni á morgun.
Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur var haldinn 1. júní s.l. í fundarsal félagsins á Húsavík. Helstu verkefni fundarins voru að gera grein fyrir starfi félagsins s.l. ár, kynna og afgreiða ársreikning 2015, málefni orlofsíbúðar í Reykjavík og önnur hefðbundin aðalfundarstörf.
Nýja stjórn skipa Helga Þ. Árnadóttir formaður, Jóhanna Björnsdóttir ritari og Helga Eyrún Sveinsdóttir gjaldkeri. Varastjórn skipa Guðrún Brynjarsdóttir og Berglind Erlingsdóttir.
Skoðunarmenn reikninga eru Tryggvi Jóhannsson, Guðmundur Guðjónsson og Anna Ragnars til vara.
Orlofsnefnd félagsins skipa Karl Halldórsson, Sveinn Hreinsson og Anna María Þórðardóttir. Ferðanefnd skipa Guðrún Kr. Jóhannsdóttir, Fanney Hreinsdóttir og Díana Jónsdóttir.
Fulltrúar félagsins í Stafsmenntunarsjóði eru Helga Þuríður Árnadóttir og Guðrún Guðbjartsdóttir.
Á fundinum var ákveðið að hafa þjónustustig í orlofsíbúð félagsins í Sólheimum í Reykjavík óbreytt. Ákveðið var að breyta framkvæmd útleigu á íbúðinni þannig að Skrifstofa stéttarfélaganna taki við henni.
Ásu Gísladóttur, Guðfinnu Baldvinsdóttur og samstarfsfólki á skrifstofu Norðurþings voru þökkuð góð störf við útleigu og umsjón íbúðarinnar s.l. ár.
Búið er að vinna úr umsóknum orlofshúsa sem bárust til Skrifstofu stéttarfélaganna. Eftir stendur að eftirfarandi vikur í neðantöldum orlofshúsum eru enn á lausu og getur félagsfólk sótt um þær:
Orlofshús í Bláskógum Svínadal
10.06.2016 – 17.06.2016
12.08.2016 – 19.08.2016
19.08.2016 – 26.08.2016
Orlofshús í Mörk í Grímsnesi
17.06.2016 – 24.06.2016
24.06.2016 – 01.07.2016
19.08.2016 – 26.08.2016
Olofshús á Eiðum
10.06.2016 – 17.06.2016
17.06.2016 – 24.06.2016
19.08.2016 – 26.08.2016
Sumarhús á Einarsstöðum
10.06.2016 – 17.06.2016
17.06.2016 – 24.06.2016
24.06.2016 – 01.07.2016
12.08.2016 – 19.08.2016
19.08.2016 – 26.08.2016
Orlofshús á Ölfusborgum
10.06.2016 – 17.06.2016
19.08.2016 – 26.08.2016
Orlofshús í Flókalundi
24.06.2016 – 01.07.2016
15.07.2016 – 22.07.2016
22.07.2016 – 29.07.2016
Bjarkasel á Flúðum
10.06.2016 – 17.06.2016
01.07.2016 – 08.07.2016
05.08.2016 – 12.08.2016
Aðalfundur Framsýnar, stéttarfélags verður haldinn miðvikudaginn 8. júní kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26, Húsavík.
Dagskrá:
1. Venjuleg aðalfundarstörf
a) Félagaskrá
b) Skýrsla stjórnar
c) Ársreikningar
d) Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga
e) Kjör í stjórnir, nefndir og ráð
f) Kosning löggilts endurskoðanda/endurskoðunarskrifstofu
g) Lagabreytingar
h) Ákvörðun árgjalda
i) Laun aðalstjórnar, trúnaðarmannaráðs, nefnda og stjórna innan félagsins
2. Atvinnu- og húsnæðismál
Framsögumaður: Aðalsteinn Árni Baldursson
3. Önnur mál
Tillögur til aðalfundarins:
Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar hefur ákveðið að leggja til breytingar á lögum félagsins er varðar trúnaðarmannaráð auk tillagna um að greitt verði fyrir setu í stjórnum og ráðum innan félagsins. Þá verði ákveðnar greiðslur úr sjúkrasjóði hækkaðar til félagsmanna. Tillögurnar liggja fyrir á Skrifstofu stéttarfélaganna.
Athygli er vakin á 32. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.
Félagsmenn, látið ykkur ekki vanta á aðalfundinn. Boðið verður upp á hefðbundnar veitingar og þá fá allir fundarmenn veglega gjöf frá félaginu.
Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar
Starfsgreinasambandið boðaði til fundar ungs fólks í tengslum við útvíkkaðan formannafund sambandsins í Grindavík í júní. Aðildarfélögum bauðst að senda tvo fulltrúa undir þrítugu og voru félögin hvött til þess að hafa fulltrúana af sitt hvoru kyni. Framsýn tók að sjálfsögðu þátt í fundinum og sendi fulltrúa suður.
Fundurinn var vel skipulagður af starfsmönnum SGS en tilgangur hans var annarsvegar uppfræðsla og þjálfun ungs fólks innan sambandsins og svo hinsvegar að útbúa vettvang fyrir ungt fólk að koma saman og bera saman bækur sínar þegar kemur að þeirra áherslum í kjaramálum.
Fræðsluhluti fundarins var, svo vitnað sé í þátttakendur, “snilld”. Mikill metnaður var innan SGS að fá hæfa og virta fyrirlesara innan síns sviðs og stóðu þeir svo sannarlega fyrir sínu. Ungliðarnir, sem voru á aldrinum 21-30 ára og allir virkir félagar í sínum stéttafélögum, fengu á fundinum þjálfun og fræðslu í samningatækni og menningarvitund, fjölmiðlafærni og almannatengslum, fundarsköpum og fundarsiðfræði og síðast en ekki síst mættu stjórnarmeðlimir ASÍ-ung til þess að vekja athygli á tækifærum og áhrifum ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar.
Ungliðarnir létu ekki á sér standa þegar kom að umræðu um kjaramál og stöðu ungs fólks innan hreyfingarinnar. Mátti greina mikla ólgu og reiði yfir þeim mistökum sem gerð voru við samþykkt síðustu kjarasamninga þegar jafnt vinnuframlag ungs fólks var gjaldfellt og kjör yngstu meðlima hreyfingarinnar versnuðu í samanburði við þá sem eldri eru. Samhljómur var um að sú þróun væri með öllu óskiljanleg og algjörlega taktlaust að hreyfing sem berst fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna skyldi samþykkja að fórna réttindum og virðingu sinna yngstu skjólstæðinga fyrir flottar fyrirsagnir og slagorð um “þrjúhundruðþúsundkallinn” sem þannig var byggður á brotnum grunni. Það þótti til marks um stöðu ungs fólks innan hreyfingarinnar hvernig vinnuframlag ungmenna var lítils metið og allir sammála um gríðarlegt mikilvægi þess að efla og styrkja starf og þátttöku ungs fólks í hreyfingunni.
Ungt fólk er þó framsýnt og þegar kom að því í lok dagskrár að kynna starf og umræður fundarins fyrir formönnum og varaformönnum aðildarfélaga þá var lítið um upphrópanir heldur var fundargestum gert ljóst að ungt fólk sætti sig ekki við slíka þróun heldur treysti forystu hreyfingarinnar til þess að setja það í forgang að leiðrétta þessi mistök í samvinnu við ungt félagsfólk. Forysta hreyfingarinnar var hvött til þess að innleiða ungt fólk frekar í starfið, breyta nýjum og öflugri aðferðum við að virkja og fræða ungt fólk auk þess að leggja meiri áherslu á félagsstörf og hópefli innan sinna félaga. Mikill en vannýttur mannauður ungs fólks leynist innan verkalýðshreyfingarinnar og geta einstök aðildarfélög verið óhrædd við að virkja hann.
Öllu fylgdi þessu síðan heljarinnar hópefli, góður félagsskapur og einstök gestrisni verkalýðsfélags Grindavíkur. Mikil ánægja var með fundinn og allir sammála um mikilvægi þess að halda árlega fundi ungs fólks innan SGS til þess að efla þátttöku og vægi ungs fólks, hreyfingunni til heilla.

Stjórnarmennirnir, Jóna Matt og Ósk Helgadóttir tóku sig til og löguðu til í garðinum við orlofshús Framsýnar í Dranghólaskógi í Öxarfirði sem fór í útleigu síðasta föstudag. Þegar þær komu frá Raufarhöfn á föstudaginn eftir velheppnað sumarkaffi á vegum Framsýnar á staðnum gáfu þær sér tíma til að líta á bústaðinn og laga til í umhvefinu. Sjá skemmtilegar myndir:
Mikið líf og fjör hefur verið á Húsavík um helgina enda hátíðarhöld í gangi vegna Sjómannadagsins. Tveir sjómenn voru heiðraðir á Húsavík í dag. Heiðrunin fór fram í Húsavíkurkirkju. Að þessu sinni voru Jónas Jónsson og Hermann Ragnarsson heiðraðir. Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sagði nokkur orð og rakti sjómannsferil þeirra félaga sem lengi störfuðu til sjós.
Ágætu tilheyrendur!
Ég vil í upphafi óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra um land allt til hamingju með daginn.
Reyndar okkur öllum enda hefur sjávarútvegur í gegnum tíðina verið einn okkar mikilvægasti atvinnuvegur og fært okkur gjaldeyri og tekjur til að byggja upp grunnstoðir þjóðfélagsins eins og mennta- og heilbrigðiskerfið.
Þrátt fyrir að útgerð á svæðinu hafi dregist töluvert saman á undanförum áratugum skipar dagurinn sem áður ákveðinn sess í lífi okkar Þingeyinga enda tengjumst við sjómennskunni á einn eða annan hátt.
Sjórinn gefur en hann hefur líka tekið sinn toll, því miður.
Þeirri merkilegu hefð er viðhaldið víða um land að heiðra sjómenn á Sjómannadaginn, sjómenn sem þótt hafa skarað fram úr og skilað góðu og fengsælu starfi, fjölskyldum þeirra og þjóðinni allri til heilla.
Fyrir nokkrum árum var leitað til Sjómannadeildar Framsýnar um að taka að sér heiðrunina á Sjómannadaginn og þótti sjálfsagt að verða við því.
Í dag ætlum við að heiðra tvo sjómenn sem báðir eru miklir heiðursmenn og þóttu góðir samherjar til sjós svo vitnað sé í ummæli sjómanna sem voru með þeim um borð í fiskiskipum á sínum tíma.
Þetta eru þeir Hermann Ragnarsson frá Húsavík og Jónas Jónsson úr Aðaldal.
Jónas Jónsson:
Jónas Jónsson er fæddur á Knútsstöðum 29. desember 1944. Hann er sonur Jóns Einarssonar og Guðfinnu Karlsdóttur.
Jónas ólst upp á Knútsstöðum með móðir sinni, afa og ömmu þar sem stundaður var hefðbundinn búskapur. Jónas er því ekki kominn úr hefðbundinni sjómannafjölskyldu við Skjálfanda heldur er hann komin af bændum úr Aðaldal.
Jónas var giftur Guðnýju Káradóttur og eignuðust þau þrjú börn, fyrir átti Guðný tvö börn en hún lést árið 2014, blessuð sé minning hennar.
Þrátt fyrir að alast upp á bökkum einnar fegurstu laxveiðiár landsins, Laxár í Aðaldal, leitaði hugur Jónasar frekar út á sjó með troll en að bökkum Laxár með veiðistöng.
Enda fór það svo að hann réð sig sem háseta á bát frá Grindavík árið 1963, þá 19 ára gamall. Báturinn bar nafnið Gullfari GK sem var um 30 tonna eikarbátur.
Jónas fylgdi straumnum, ungir menn úr Þingeyjarsýslum leituðu suður á vertíð á þessum tíma. Jónas stóð ekki hjá, heldur reimaði á sig skóna, pakkaði niður og hélt suður með sjó á vit nýrra ævintýra.
Eftir vertíðina skilaði Jónas sér aftur heim í Knútsstaði, enda stóð hann fyrir búskap á bænum með sínu fólki. Nokkrum árum síðar, það er árið 1974, ákveða Jónas og Guðný að bregða búi.
Í kjölfarið ræður hann sig á Hörpu GK sem gerð var út á net og loðnutroll auk þess að starfa við það sem féll til í landi hér norðan heiða. Á þessum árum kynntist hann einnig handfæra- og grásleppuveiðum á smábátum frá Húsavík.
Árið 1978 ákvæður Jónas að gera sjómennskuna að aðalstarfi og ræður sig á togarann Júlíus Havsteen ÞH frá Húsavík.
Eftir góð ár á Júlíusi fór Jónas yfir á togarann Kolbeinsey ÞH þar sem hann var í nokkur ár til viðbótar hjá útgerðinni Höfða hf. Frá þeim tíma hefur Jónas komið víða við sem háseti, kokkur, vélavörður, netamaður og bátsmaður.
Hann var á bátum og togurum sem gerðir voru út frá Húsavík eins og Aroni ÞH, Geira Péturs ÞH og Þórunni Havsteen ÞH.
Líkt og er með góða og eftirsótta sjómenn eins og Jónas átti hann auðvelt með að fá góð pláss á bátum og togurum frá helstu verstöðum landsins.
Hann var á Helgu RE, Hafnarröstinni ÁR, Gnúp GK, Heiðrúnu GK, Eyborginni EA og Mánatind GK. Á þessum skipum kynntist Jónas flestum veiðum og veiðafærum.
Jónas var með góðum skipstjórum í gegnum sinn farsæla sjómannsferil eins og hann segir sjálfur. Hann nefnir sérstaklega Benóný Antonsson, Jóhann Gunnarsson, Hermann Ragnarsson, Bjarni Eyjólfsson, Hinrik Þórarinsson, Jónas Sigmarsson og Eirík Sigurðsson.
Jónas hætti til sjós árið 2004 og hefur síðan starfað í landi við ýmislegt s.s. vélavinnu, vörubíla- og rútubílaakstur.
Þegar stjórn Sjómannadeildar Framsýnar fundaði á dögunum til að velja tvo sjómenn sem skyldu heiðraðir á sjómannadaginn, kom nafn Jónasar strax upp.
Þá varð einum stjórnarmanni að orði sem starfaði lengi með Jónasi til sjós; „Hann hefur alltaf verið mikill snillingur Knútsstaðabóndinn, hann er vel að því kominn að vera heiðraður fyrir sín störf“.
Já svona lýsa samherjar Jónasi fyrir hans störf og samveru um borð í fiskiskipum þar sem miklu máli skiptir að góður andi ríki enda starfa menn oft við krefjandi og erfiðar aðstæður sem kallar á samheldni áhafnarinnar.
Jónas Jónsson hafðu kærar þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina.
Hermann Ragnarsson:
Hermann Ragnarsson er fæddur á Húsavík 6. september 1940. Hann er sonur Ragnars Jakobssonar og Jónínu Hermannsdóttur.
Hermann var giftur Svanlaugu Björnsdóttur. Þau eignuðust þrjú börn. Svanlaug lést árið 1996, blessuð sé minning hennar.
Þegar saga sjómennsku á Húsavík er skoðuð er aðdragandinn oftast sá sami. Fjaran togar unga drengi niður að sjávarsíðunni, þar var allt að gerast, þar var lífæð þorpsins. Samfélagið við Skjálfanda stóð og féll með því sem sjórinn gaf.
Hermann var ekki gamall eða hár í loftinu þegar hann fór að þvælast með félögum sínum niður í fjöru, það er niður fyrir bakkann á Húsavík. Þar fylgdust þeir með sér eldri mönnum að störfum, við beitningu og uppstokkun á línu og fylgdust með bátunum koma fulllestaða að landi eftir fengsælar veiðiferðir. Þetta heillaði unga drengi sem þá gerðu sér ekki grein fyrir því að sjómennskan ætti eftir að verða þeirra ævistarf.
Einn af þeim sem stóð í sjósókn á þessum tíma var Ásgeir Kristjánsson, eða Blöndi, eins og hann var kallaður. Hann tók að kenna Hermanni að beita þegar hann var innan við fermingaraldur. Það hjálpaði honum síðar til að fá vinnu við beitningu hjá Jóhanni frænda sínum Hermannssyni sem gerði út trilluna Brand ÞH. Hermann beitti hjá frænda sínum í tvö sumur með skóla, þá 13 til 14 ára gamall.
Við 18 ára aldur útvegaði Kristján Ásgeirsson á Húsavík Hermanni plássi á Stefáni Árnasyni SU sem var 60 tonna eikarbátur frá Fáskrúðsfirði. Báturinn var gerður út frá Keflavík, þar var Hermann um veturinn og beitti í landi.
Hugurinn leitaði heim og réð Hermann sig á Smára ÞH á síldarnót sumarið 1958 en Smári var 65 tonna eikarbátur. Þegar síldarvertíðinni lauk um haustið beitti Hermann fyrir útgerð Smárans um veturinn, bæði á Húsavík og í Sandgerði, en algengt var á þessum tíma að bátar frá Húsavík færu suður og gerðu út frá Suðurnesjunum yfir vetrarvertíðina enda mikil fiskigengd á miðum við Suðurlandið og því von um góða afkomu.
Eftir veruna á Smára ÞH réð Hermann sig á Helgu ÞH sem var um 50 tonna eikarbátur. Líkt og var með Smára ÞH var Helga ÞH gerð út frá Húsavík hluta úr ári og svo hluta úr ári frá Sandgerði á vetrarvertíð.
Árið 1961 ræður Hermann sig á Héðinn ÞH sem var 150 tonna stálbátur og gerður var út á neta og línuveiðar. Héðinn ÞH þótti mikið aflaskip enda fór það svo að skipið var aflahæst það árið yfir landið á vetrarvertíðinni.
Hermann átti eftir að vera á fleiri bátum eins og Dagfara ÞH og Andvara ÞH áður en hann kaupir hlut í útgerð á Húsavík.
Hermann réði sig á Glað ÞH um áramótin 1969 sem var 36 tonna eikarbátur, ári síðar kaupir hann sig inn í útgerðina ásamt Jóhanni Kr. Jónssyni og verður skipstjóri um tíma. Á þessum tíma hafði Hermann orðið sér út um svokallað „pungapróf“ sem veitti honum leyfi til að stjórna bátum upp að ákveðinni stærð.
Ákvörðun var tekin um að selja Glað ÞH til Þórshafnar 1973 og kaupa þess í stað öflugri bát sem fékk nafnið Jón Sör ÞH en það var um 60 tonna eikarbátur. Báturinn kom til heimahafnar um áramótin 1973-74.
Að útgerðinni stóðu auk Hermanns, Pétur Olgeirsson og Jóhann Kr. Jónsson. Nokkrum árum síðar, það er árið 1977, skiptir útgerðin Jóni Sör ÞH út og kaupir þess í stað Arneyju KE öflugan trébát af Óskari Karlssyni útgerðamanni ættuðum frá Húsavík. Um ári síðar var ákveðið að hætta útgerðinni og var Arney KE seld árið 1978.
Við söluna á skipinu urðu tímamót í lífi Hermanns sem þá var fertugur að aldri en þá settist hann á skólabekk. Það er í Iðnskólann á Húsavík. Þaðan útskrifaðist hann sem vélvirki. Í kjölfarið hóf hann störf á Vélaverkstæðinu Foss síðar Vélaverkstæðinu Grím áður en hann settist í svokallaðan helgan stein árið 2008.
Þær eru ófáar ferðirnar sem Hermann hefur farið niður í vélarúm báta og skipa þau ár sem hann starfaði sem vélvirki á vélaverkstæðum á Húsavík, enda var Hermann á heimavelli þegar kom að því að gera við vélbúnað um borð og þótti auk þess afar vandvirkur. Ég leyfi mér hér að vitna í Pétur Olgeirsson skipstjóra en hann sagði um Hermann að hann hafi ætið haldið vélarrúminu gangandi af mikilli fagmennsku.
Þegar saga Hermanns er skoðuð kemur í ljós að hann var mjög fjölhæfur, hann var háseti, kokkur, vélavörður, stýrimaður og skipstjóri á sínum gæfusama sjómannsferli.
Hermann tók þátt í miklu björgunarafreki við Flatey á Skjálfanda þegar flutningaskipið Hvassafellið strandaði við eyjuna þann 7. mars árið 1975 í brjáluðu veðri. Hermann var í áhöfn Jóns Sör ÞH sem lagði sig í töluverða lífshættu við björgunina. Fyrir það verður seint þakkað.
Sjómannsferill Hermanns hefur alla tíð verið farsæll og honum hefur auðnast að vera með góðum skipstjórnum til sjós; Ég nefni Þórhall Karlsson, Sigurð Sigurðsson, Maríus Héðinsson, Björn Sörensson, Aðalstein Árna Baldursson, Birgi Erlendsson og Pétur Olgeirsson.
Hermann Ragnarsson hafðu líkt og Jónas kærar þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina.
Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar flutti ávarp í Húsavíkurkirkju og fór yfir feril Hermanns og Jónasar til sjós.
Þessir heiðursmenn voru heiðraðir við hátíðlega athöfn, Jónas Jónsson og Hermann Ragnarsson.
Eftir guðþjónustuna, þar sem heiðrun sjómanna fór fram, var lagður blómsveigur að minnismerki látina sjómanna.
Athöfnin í dag var tilkomumikil.
Kirkjukórinn söng að venju fallega í góða veðrinu á Húsavík í dag.
Fjölmenni sá ástæðu til þess að koma í sjómannadagskaffi Slysavarnardeildar kvenna eftir athöfnina í kirkjunni.
Boðið var upp á skemmtiatriði í sjómannadagskaffinu. Lára Sóley og Halti tóku lagið og sungu fyrir gesti.
Bjarni Eyjólfsson var ásamt fleirum á svæðinu en hann var um árabil skipstjóri á togurum frá Húsavík. Með honum á myndinni er Kristján Þorvarðarson varaformaður Sjómannadeildar Framsýnar.
Pétur Helgi og Hörður komu í kaffi en þeir ásamt Bjarna Eyjólfs störfuðu lengi við sjómennsku hér á árum áður.
Framsýn stóð fyrir kaffiboði á Raufarhöfn á föstudaginn eftir hádegið. Félagið hefur gert þetta í nokkur ár, það er föstudaginn fyrir Sjómannadaginn. Um 130 manns komu og þáðu veitingar í frábæru veðri. Reyndar eru heimamenn farnir að tala um að Framsýn stjórni veðrinu enda alltaf gott veður þegar félagið heldur sitt árlega kaffiboð. Formaður og varaformaður Framsýnar voru á staðnum auk Svövu Árna og Jónu Matt sem báðar eru í stjórn félagsins. Þau ásamt aðstoðarfólki á Raufarhöfn sáu til þess að allt færi vel fram. Sjá myndir sem teknar voru úr boðinu:
Tveggja daga útvíkkaður formannafundur Starfsgreinasambandsins var haldinn í Grindavík fyrir helgina og lauk fundinum um hádegið á föstudaginn. Formaður og varaformaður Framsýnar tóku þátt í fundinum. Eftir að fundi lauk á föstudeginum flugu fulltrúar Framsýnar til Húsavíkur og tóku bíl til Raufarhafnar þar sem sumarkaffi félagsins hófst kl. 16:00. Allt gekk upp þrátt fyrir nauman tíma en allt er hægt ef viljinn er til staðar.
Hér má lesa þær ályktanir sem samþykktar voru á formannafundinum í Grindavík:
Fundurinn ályktaði um þrjú mál; um keðjuábyrgð og hrakvinnu, um ungt fólk innan SGS og um samningsrétt. Ályktanirnar í heild má lesa hér að neðan.
Ályktun um keðjuábyrgð og hrakvinnu
Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn í Grindavík dagana 2. og 3. júní 2016 fagnar breytingum Reykjavíkurborgar á útboðsskilmálum og verksamningum borgarinnar þar sem keðjuábyrgð yfirverktaka gagnvart undirverktökum er staðfest. Fundurinn hvetur önnur sveitarfélög, opinber fyrirtæki og opinberar stofnanir til að fara að fordæmi Reykjavíkurborgar og eins löggjafann til að innleiða keðjuábyrgð í lög.
Vinnumarkaðurinn á Íslandi er í örum vexti og mikil hætta á að hrakvinna ýmis konar þrífist við slíkar aðstæður. Aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands hafa stóreflt vinnustaðaeftirlit á sínum vegum og því ber einnig að fagna að aðrar eftirlitsstofnanir hafa gert slíkt hið sama: Ríkisskattstjóri, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun og lögreglan. Samstarf á milli stofnana og verkalýðshreyfingarinnar hefur borið sýnilegan árangur. Betur má þó ef duga skal og kallar formannafundur eftir áhuga Samtaka atvinnulífsins og átaki stjórnvalda til að stemma stigu við hrakvinnu. Í því þarf að felast nægjanlegt fjármagn til viðeigandi eftirlitsstofnana, lagabreytingar varðandi keðjuábyrgð, skýr lög varðandi vistráðningar (AU-pair), uppræting ólöglegrar sjálfboðastarfsemi, stórefling úrræða vegna mansalsmála og bætt upplýsingamiðlun til erlends starfsfólks um réttindi sín og skyldur.
Ályktun um ungt fólk innan SGS
Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn í Grindavík dagana 2. og 3. júní 2016 fagnar þátttöku ungs fólks af öllu landinu í starfi hreyfingarinnar. Raddir þeirra fulltrúa sem sátu ungliðafund SGS í Grindavík í byrjun júní eru mikilvægar og nauðsynlegt að gera enn betur til að virkja ungt fólk til starfa til að tryggja endurnýjun og fræða ungt fólk um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Starfsgreinasambandið mun búa til vettvang árlega fyrir ungt fólk innan hreyfingarinnar til að hittast og vinna að því að bæta stöðu ungs fólks á vinnumarkaði.
Ályktun um samningsrétt
Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn í Grindavík dagana 2. og 3. júní vill taka það skýrt fram að SGS mun ekki verða aðili að nýju vinnumarkaðsmódeli sem nú er unnið að, ef það leiðir til þess að frjáls samningsréttur stéttarfélaganna verður skertur eða takmarkaður á nokkurn hátt.
Formannafundurinn vill einnig taka það sérstaklega fram að ef það kemur til þess að breyta þurfi lögum um stéttarfélög og vinnudeilur vegna nýs vinnumarkaðsmódels þá verði það tryggt að slíkar breytingar leiði alls ekki til skerðingar eða takmörkunar á frjálsum samningsrétti stéttarfélaganna.
Formannafundur SGS er sannfærður um að forræði hvers stéttarfélags til kjarasamningsgerðar og frjáls samningsréttur sé hornsteinn stéttarfélagsbaráttu á Íslandi og það frjálsræði og þann samningsrétt megi ekki skerða eða takmarka á nokkurn hátt.
Þessa dagana eru stjórnarmenn í Félagi íslenskra félagsliða á fundaherferð um landið. Markmið kynningarfundanna er m.a.að kanna frekari vilja félagsliða til þess að stofna stéttarfélag auk þess að kynna félagið, bæði fyrir félagsmönnum og öðrum félagsliðum.
Fimmtudaginn 9. júní er röðin komin að Húsavík og blása félagsliðar til fundar kl. 12 í sal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Mikilvægt er að sem flestir mæti. Sýnum samstöðu og látum okkur mikilvæg störf og hagsmuni félagsliða varða.
N1 opnaði nýtt verslunarrými á Héðinsbraut 2, Húsavík. Nýja verslunin selur ýmiskonar olíur, hlífðarfatnað og ýmsar rekstrarvörur. Starfsfólki stéttarfélaganna var boðið að mæta á opnun verslunarinnar. Boðið var þáð og var Erlu Torfadóttur, yfirmanni N1 á Húsavík, færður blómvöndur í tilefni dagsins.
Hér að neðan má sjá myndir frá opnuninni.

Ár 2016, þriðjudaginn 31. maí var aðalfundur Þingiðnar haldinn í fundarsal stéttarfélaganna. Fundurinn hófst kl. 20:00. Mættir voru 12 félagar auk þriggja starfsmanna félagsins.
Dagskrá:
1. Venjuleg aðalfundarstörf
Skýrsla stjórnar
Ársreikningar
Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
Lagabreytingar
Ákvörðun árgjalda
Laun stjórnar
Kosning löggilts endurskoðanda
2. Atvinnumál
Frummælandi: Aðalsteinn Árni Baldursson
3. Önnur mál
Hækkun á starfsmennastyrkjum til félagsmanna
Niðurstöður fundarins:
Formaður bauð fundarmenn velkomna, hann gerði tillögu um Aðalstein Árna sem fundarstjóra og Aðalstein J. sem fundarritara. Hann gat þess einnig að á borðum fundarmanna væri gjöf frá félaginu, um væri að ræða kjötvörur frá Viðbót á Húsavík. Því næst gaf hann boltann yfir á fundarstjórann. Aðalsteinn Árni þakkaði traustið og spurði fundarmenn hvort þeir gerðu athugasemdir við boðun fundarins, svo reyndist ekki vera og var því fundurinn úrskurðaður löglegur.
1. Venjuleg aðalfundarstörf
a) Skýrsla stjórnar
Jónas Kristjánsson gerði grein fyrir skýrslu stjórnar:
Fundir Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar Þingiðnar hafa setið frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 27. maí 2015 eru eftirfarandi:
Stjórnarfundir 5
Fundir í sameiginlegri Orlofsnefnd stéttarfélaganna 1
Sameiginlegir fundir með Framsýn 2
Fundir í fulltrúaráði stéttarfélaganna 5
Fundir í 1. maí nefnd 1
Fundir skoðunarmanna reikninga 1
Fundir í stjórn sjúkrasjóðs 12
Félagsfundir 1
Samtals fundir 28
Formaður félagsins hefur verið virkur í starfi og sótt fundi á vegum félagsins s.s á vegum Lsj. Stapa, Alþýðusambands Íslands, Alþýðusambands Norðurlands og Samiðnar. Þá er samkomulag um að starfsmenn félagsins sjái um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar Þingiðnar. Góð tenging er milli formanns félagsins og forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna sem funda reglulega um starfsemina og rekstur félagsins. Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins: Jónas Kristjánsson, Vigfús Þór Leifsson, Hólmgeir Rúnar Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Kristinn Gunnlaugsson.
Félagatal Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2015 voru 88 talsins. Greiðandi einstaklingar voru 88 á árinu samkvæmt ársreikningum félagsins. Karlar voru 86 og konur 2. Greiðandi félagsmönnum hefur fjölgað verulega undanfarna mánuði þrátt fyrir að þeir hafi ekki skráð sig í félagið. Um er að ræða erlenda starfsmenn sem illa gengur að fá sín iðnréttindi metin á Íslandi. Vonandi fjölgar þeim sem greiða til félagsins á árinu 2016 vegna mikilla framkvæmda á „Stór Húsavíkursvæðinu.“
Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 7.536.463 sem er 17,4% lækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir úr sjúkrasjóði árið 2015 námu kr. 2.645.412, þar af úr sjúkrasjóði kr. 1.892.101. Um er að ræða hækkun milli ára. Á árinu 2015 fengu samtals 48 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 5.664.683 og eigið fé í árslok 2015 nam kr. 217.049.515 og hefur það aukist um 2,68% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 2.331.535. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Þó ber að geta þess að ekkert náðist úr þrottabúi Norðurvíkur ehf. upp í skuld fyrirtækisins við félagið og skoðast krafan því töpuð.
Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna hafa átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Framboðið sumarið 2016 verður með svipuðu sniði og undanfarin ár. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna stéttarfélaganna ásamt fjölskyldum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félaganna sem er aukning milli ára. Veruleg ásókn er í orlofshús á vegum félaganna en þess ber að geta að þau niðurgreiða verulega orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Þá fengu 12 félagsmenn tjaldsvæðisstyrki samtals að fjárhæð kr. 152.413. Stéttarfélögin stóðu fyrir tveggja daga ferð í Holuhraun síðastliðið haust. Ferðin gekk vel. Samningur stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum við Flugfélagið Erni er reglulega endurnýjaður enda afar mikilvægt að viðhalda þeim samningi, félagsmönnum til hagsbóta.
Þorrasalir 1-3
Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Það sama á við um þau orlofshús sem félagið hefur haft á leigu í samstarfi með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna.
Fræðslumál
Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn. Á síðasta ári fengu 5 félagsmenn styrki til náms/námskeiða samtals kr. 206.450. Félagsmenn Þingiðnar hafa ekki aðgengi að fræðslusjóðum eins og þekkt er hjá almennum stéttarfélögum eins og Framsýn, þess í stað þarf félagið að greiða fræðslustyrki úr félagssjóði félagsins. Fyrir þessum fundi liggur fyrir tillaga um að jafna að fullu réttindi félagsmanna til starfsmenntastyrkja á við félagsmenn Framsýnar sem hafa aðgengi að fræðslusjóðnum Landsmennt. Þingiðn hefur ekki sambærilegan aðgang að fræðslusjóði eins og fram hefur komið. Stjórn Þingiðnar telur að félagið eigi að skoða stofnun á starfsmennasjóði innan félagsins sem væri fjármagnaður með sérstöku framlagi frá félagsmönnum í gegnum félagsgjaldið. Sjóðnum væri ætlað að styrkja félagsmenn vegna náms eða námskeiða sem þeir sækja auk þess styðja félagsmenn til náms- og kynnisferða. Málið verður skoðað milli aðalfunda.
Málefni sjúkrasjóðs
Eins og fram kemur í ársreikningum félagins voru greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins samtals kr. 1.892.101 sem skiptast þannig:
Almennir sjúkrastyrkir kr. 681.819
Sjúkradagpeningar kr. 1.210.282 (þar af kr. 600.00 í fæðingarstyrki)
Vegna góðrar stöðu sjóðsins er vilji til þess innan stjórnar að hækka ákveðnar greiðslur úr sjóðnum til félagsmanna. Tillagan gengur út á að gera það í samráði við stjórn Framsýnar þannig að reglurnar verði sambærilegar eins og þær eru nú þegar. Geri aðalfundurinn ekki athugasemdir við það er mikilvægt að aðalfundurinn heimili stjórn félagsins að klára málið gagnvart félagsmönnum.
Kjaramál
Skrifað var undir nýjan kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar 29. maí 2015 með gildistíma til 31. desember 2018. Félagið stóð fyrir kynningarfundi um samninginn 8. júlí 2015 og var gestur fundarins Þorbjörn Guðmundsson starfsmaður Samiðnar. Kjarasamningurinn var samþykktur í sameiginlegri atkvæðagreiðslu innan aðildarfélaga Samiðnar. Ákveðið var að taka kjarasamninginn til endurskoðunar í janúar 2016 þar sem forsendur hans voru brostnar. Í kjölfarið var gengið frá nýjum kjarasamningi milli aðildarfélaga ASÍ og SA sem tók gildi 1. janúar 2016 í stað 1. maí 2016. Hækkun sem koma átti til 1. maí upp á 5,5% var hækkuð upp í 6,2% og flýtt til 1. janúar 2016.
Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum iðnaðarmönnum enda miklar framkvæmdir í gangi á svæðinu. Vissulega fylgja ógnanir slíkum framkvæmdum varðandi undirboð sérstaklega er varðar laun og starfsréttindi. Vegna þessa samþykktu stéttarfélögin sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna að ráða sérstakan starfsmann í verkefnið, það er í vinnustaðaeftirlit. Ráðin var Aðalsteinn J. Halldórsson og hefur hann þegar hafið störf. Samiðn, Rafiðnarsambandið og VM hafa samþykkt að koma að ráðningunni í 18 mánuði. Landssamböndin greiða hvert um sig kr. 15.000 á mánuði. Þá hafa Landsvirkjun og Landsnet samþykkt að vera einnig með í ráðningunni með framlagi, sömuleiðis í 18 mánuði. Landsvirkjun mun greiða mánaðarlega kr. 75.000. Landsnet hefur hins vegar ekki gefið endanlega upp hvað þeir ætla að greiða. Ekki er ólíklegt að framlög þessara aðila tekki um 50% af kostnaðinum við starfsmanninn. Stéttarfélögin hafa fengið mikið lof fyrir framgöngu sína í vinnustaðaeftirlitinu svo vitnað sé í nýlega Fréttamola ASÍ. Þar kemur fram:
„Þá má margt læra af framgöngu stéttarfélaganna á svæðinu sem hafa sýnt mikið frumkvæði og fylgt fast eftir að kjarasamningar og réttindi þeirra sem vinna við framkvæmdirnar, ekki síst útlendinganna, séu virt og náð árangri sem er öðrum til eftirbreytni.“
Til viðbótar má geta þess að fulltrúar stéttarfélaganna hafa verið beðnir um að fara með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hér Norðanlands í vinnustaðaeftirlit í Þingeyjarsýslum. Lögreglan var hér á ferðinni á dögunum. Farið var í vinnustaðaeftirlit á framkvæmdasvæðið á Bakka. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna ætla sér að halda uppi öflugu vinnustaðaeftirliti og munu í sumar veita eftirlitinu forystu með lögreglunni, Vinnueftirlitinu og Vinnumálastofnun. Þá mun Ríkisskattstjóri senda fulltrúa í eftirlitsferðirnar komi þeir því við vegna starfsmanna skorts.
Hátíðarhöldin 1. maí
Stéttarfélögin stóðu fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2016. Hátíðarhöldin tókust að venju frábærlega en um 700 gestir lögðu leið sína í höllina. Um er að ræða fjölmennustu samkomu sem haldin er í Þingeyjarsýslum á hverju ári sem er áhugavert og mikil viðurkenning á starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem leggja mikið upp úr þessum degi.
Starfsemi félagsins
Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra. Félagið kom að því ásamt öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna og útibúi Íslandsbanka á Húsavík að færa Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík hátíðar matarstell að gjöf fyrir jólahátíðina 2015. Félagið kom að því að styrkja kaup Félags eldri borgara á félagsaðstöðu á Húsavík. Hlutur félagsins var kr. 200.000,-. Félagið niðurgreiddi í vetur leikhúsmiða fyrir félagsmenn á leikritið Dýrin í Hálsaskógi í leikgerð Leikfélags Húsavíkur. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna sömdu við N1 um afsláttarkjör fyrir félagsmenn.
Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs
Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Í samvinnu Virk og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin skrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009.
Ferli starfsendurhæfingar hjá Virk – starfsendurhæfingarsjóði.
Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu á svæðinu.
Góð reynsla er af starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs á svæðinu s.l. ár. Stöðugleiki er í starfseminni og góð samvinna er við heilbrigðis- og félagsþjónustu, úrræðaaðila s.s. Sjúkraþjálfun Húsavíkur og fyrirtæki og stofnanir eru virk í samvinnu um málefni starfsmanna sinna sem glíma við heilsubrest. Mikið er lagt upp úr að þjónustan sé sýnileg og aðgengileg, hvort heldur til almennrar ráðgjafar fyrir félagsmenn, formlegrar samvinnu við einstaklinga í starfsendurhæfingu eða samstarf við úrræðaaðila og launagreiðendur.
Framfærslustaða einstaklinga við lok þjónustu hjá Virk – allt landið.
Flest fyrirtæki og stofnanir hafa verið í jákvæðum samskiptum við Virk um málefni starfsmanna sinna sem eru í samvinnu við Virk. Afar gleðilegt er að nokkur hafa átt frumkvæði að því að bjóða störf og samvinnu um ný tækifæri á vinnumarkaði. Allar nánari upplýsingar um starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er hægt að nálgast á heimasíðu sjóðsins www.virk.is og hjá ráðgjafa Virk í Þingeyjarsýslum, Ágústi Sigurð Óskarssyni í síma 464-6608 og netfangi virk@framsyn.is.
Málefni skrifstofunnar Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 6 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar og þrif. Til viðbótar eru fjórir starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu stéttarfélaganna. Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta til dæmis kjaramál. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla. Ekki eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar á rekstri skrifstofunnar. Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna. Þá er greinilegt að framkvæmdirnar sem hafnar eru á svæðinu s.s. á Þeystareykjum og Bakka kalla á aukna notkun á fundarsal stéttarfélaganna þar sem verktakar og aðrir þeir sem koma að framkvæmdunum hafa verið duglegir við að fá aðstöðuna fyrir fundi og námskeið sem tengjast framkvæmdunum
Húsnæði stéttarfélaganna
Stéttarfélögin hafa boðið út breytingar á efri hæðinni að Garðarsbraut 26. Eitt tilboð barst í breytingarnar upp á 33. milljónir. Kostnaðaráætlunin var upp á 27. milljónir. Ef um semst við verktakan H-3 verður ráðist í breytingarnar í sumar, það er ef aðilar ná saman um kostnaðaráætlunina.
Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.
b) Ársreikningar
Huld Aðalbjarnardóttir gerði grein fyrir ársreikningum félagsins auk þess að leggja fram tölfræðilegar upplýsingar úr bókhaldi félagsins sem eru meðfylgjandi skýrslu stjórnar.
Fram kom að félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 7.536.463 sem er 17,4% lækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir árið 2015 námu kr. 2.645.412, þar af úr sjúkrasjóði kr. 1.892.101. Um væri að ræða hækkun milli ára. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 5.664.683 og eigið fé í árslok 2015 nam kr. 217.049.515 og hefur það aukist um 2,68% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 2.331.535. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Huld sagði launagreiðendur almennt samviskusama við að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Þó bæri að geta þess að ekkert hefði náðist út úr þrottabúi Norðurvíkur ehf. upp í skuld fyrirtækisins við félagið og skoðaðist krafan því töpuð.
c) Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
Tillaga Kjörnefndar skoðast samþykkt þar sem ekki hafa borist aðrar tillögur um menn í trúnaðarstöður fyrir félagið fyrir næsta kjörtímabil.
d) Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Fundarstjóri gaf orðið frjálst um skýrslu stjórnar og reikninga. Nokkrar fyrirspurnir komu fram frá fundarmönnum sem formaður og starfsmenn félagsins svöruðu. Því næst var ársreikningurinn borinn upp og samþykktur samhljóða. Fundarstjóri lagði fram eftirfarandi: Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári. Tillagan var samþykkt samhljóða.
e) Lagabreytingar
Engar lagabreytingar liggja fyrir fundinum.
f) Ákvörðun árgjalda
Tillaga stjórnar um að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 0,7% af launum var samþykkt.
g) Laun stjórnar
Tillaga stjórnar um að laun stjórnar með óbreytt milli ára var samþykkt samhljóða. Það er þrír tímar á yfirvinnutaxta iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins.
h) Kosning löggilts endurskoðanda
Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið PWC sjá um endurskoðun á ársreikningum félagsins fyrir árið 2016 var samþykkt samhljóða.
2. Atvinnumál
Aðalsteinn Á. Baldursson fór yfir stöðu atvinnumála í sveitarfélaginu og þróun hennar og íbúafjölda svæðisins síðastliðinn tíu ár. Frásögnin byrjaði á tölulegum upplýsingum um íbúafækkun svæðisins sem sýnd var með myndrænum hætti. Þar mátti sjá að íbúum hefur enn verið að fækka síðustu misserin. Sömuleiðis sýndi Aðalsteinn fram á breytingu á starfasamsetningu atvinnulífsins en mikil breyting hefur orðið á henni.
Aðalsteinn fór ennfremur yfir stóriðjusögu svæðisins sem byrjaði með staðarvali Alcoa og vali á Bakkalóðinni sem svo breyttist í verksmiðju PCC á Bakka sem nú er í smíðum. Miklar áskoranir biðu stéttarfélaganna með þessum framkvæmdum og fór Aðalsteinn yfir eftirlitsstarfið síðan framkvæmdir hófust. Einnig var farið yfir stöðu ferðaþjónustunnar á svæðinu og þær áskoranir sem aukin vöxtur hennar hefur ollið. Nokkrar umræður urðu meðal fundargesta í kjölfarið á erindi Aðalsteins.
3. Önnur mál
a) Starfsmenntastyrkir til félagsmanna
Fundarstjóri gerði grein fyrir eftirfarandi tillögu: Tillaga er um að félagsmenn njóti sömu réttinda til endurgreiðsla frá félaginu vegna kostnaðar þeirra við nám eða námskeið og félagsmenn Framsýnar hafa í gegnum fræðslusjóðinn Landsmennt. Styrkir Þingiðnar koma úr félagssjóði, enda taki Iðan ekki þátt í kostnaði félagsmanna við nám eða námskeið sem þeir stunda. Tillagan var samþykkt samhljóða.
b) Samræming á reglugerð sjúkrasjóðs
Tillaga er um að stjórn Þingiðnar fái heimild til að samræma reglugerð Sjúkrasjóðs Þingiðnar við samþykktar breytingar á reglugerð Sjúkrasjóðs Framsýnar sem samþykktar verða á aðalfundi Framsýnar 8. júní 2016. Tillagan var samþykkt samhljóða.
c) Ályktun um stöðu Verkmenntaskólans
Umræður urðu um stöðu Verkmenntaskólans á Akureyri. Eftir umræður var eftirfarandi ályktun lögð fram og samþykkt samhljóða:
„Aðalfundur Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu verknáms í landinu. Fyrir liggur að ungt fólk velur frekar bóknám að loknum grunnskóla en verknám.
Meðal skólafólks er atvinnuleysi helst til staðar hjá fólki sem velur bóknám að loknu grunnskólanámi, engu að síður skráir verulegur meirihluti sig í þess háttar nám. Eðlilegt er að hlutfallið á milli þeirra sem velja bóknám og verknám sé jafnara þar sem gríðarleg vöntun er á fólki til starfa með slíka menntun. Þessari vöntun hefur verið mætt með innflutningi á iðnmenntuðu fólki. Lausnin felst ekki því, lausnin felst í því að setja aukin kraft í verknám á Íslandi. Fréttir berast af alvarlegum fjárhagsvandræðum Verkmenntaskólans á Akureyri. Staða skólans nú um stundir er sú að kennarar segja hann nánast gjaldþrota samkvæmt ályktun kennarafélags skólans frá 18. maí síðastliðnum. Skólinn er helsta verknámsstofnun landsbyggðarinnar og það er hrein aðför að verknámi á landsbyggðinni að staðan sé þessi. Þingiðn skorar á stjórnvöld að leysa fjárhagsvandræði skólans til framtíðar eins fljótt og auðið er.“
Fleira ekki gert – fundi slitið
Fundarstjóri: Aðalsteinn Á. Baldursson Fundarritari: Aðalsteinn J. Halldórsson
Á síðasta fundi stjórnar- og trúnaðarmannaráði Framsýnar var rædd óánægja með frestun Dettifossvegar. Eins og vitað er þá er vinna við veginn komin vel á veg og til stóð að klára veginn á allra næstu misserum. Nú hafa stjórnvöld hinsvegar ákveðið að fresta frekari framkvæmdum við Dettifossveg og ekkert er vitað hvenær til stendur að klára framkvæmdina en þó er ljóst að þessi frestun þýðir einhverra ára bið í viðbót. Þetta er áfall fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu og stendur í vegi fyrir frekari þróun hennar.
Skorað er á stjórnvöld að endurskoða þessa ákvörðun sína.
Í nýjustu útgáfu fréttamola ASÍ er jákvæð umfjöllun um starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslu og framgöngu þeirra í kjara- og réttindamálum. Sýnilegt er á skrifunum að frammistaða stéttarfélaganna þykir vasklegri en gengur og gerist og til eftirbreytni. Þetta er afar ánægjulegt viðurkenning á starfi félaganna og hvetjandi til að halda starfinu áfram af sama eða jafnvel meiri krafti.
Að auki má lesa um heimsókn miðstjórnar ASÍ til Húsavíkur sem greinileg ánægja er með.
Stéttarfélagið Framsýn stendur fyrir sínu árlega sumarkaffi á Raufarhöfn föstudaginn 3. júní í Kaffi Ljósfangi. Gleðin stendur yfir frá kl. 16:00 til 18:00.
Boðið verður upp á heimsins bestu tertur frá Kvenfélagi Raufarhafnar og þá verða forystumenn Framsýnar á staðnum og ræða við fólk og segja brandara ef með þarf.
Að sjálfsögðu eru allir landsmenn velkomnir í kaffið. Sjáumst hress á Raufarhöfn föstudaginn fyrir Sjómannadag.
Framsýn, stéttarfélag
Hefð er fyrir því að börn á Leikskólanum Grænuvöllum á Húsavík geri sér ferð á vorin á búgarðinn Grobbholt sem er á Skógargerðismelnum á Húsavík. Kindurnar í Grobbholti eru í eigu frístundabænda á Húsavík. Að sögn þeirra er alltaf afar ánægjulegt að fá börnin í heimsókn til að kynnast sauðburði og litlum lömbum sem eru að stíga sín fyrstu skref út í lífið. Hér má sjá nokkrar skemmtilegar myndir sem teknar voru í heimsókninni.
Aðalsteinn Á. Baldursson var í viðtali í útvarpsþættinum „Í bítið” á Bylgjunni 26. maí síðastliðinn. Hann fór yfir áhugaleysi Samtaka atvinnulífsins á vinnustaðaeftirliti, en vinnustaðaeftirlit er stundað af nokkrum öðrum aðilum án aðkomu SA.
Hlusta má á viðtalið með því að smella hér.
Ágúst Óskarsson, okkar innanbúðarmaður hér á skrifstofunni, fagnaði 50 ára afmæli sínu í gær. Í tilefni af því færði hann vinnufélögum sínum veitingar af miklum höfðingsskap. Óhætt er að segja að vel hafi verið tekið í veitingarnar, enda voru þær af gamla skólanum. Við á Skrifstofu sveitarfélaganna þökkum kærlega fyrir okkur. Á myndinni hér að ofan má sjá okkur starfsfólk skrifstofunnar færa Ágústi gjöf í tilefni dagsins. Á myndina vantar Lindu Baldursdóttur.
Vert er að nefna að Ágúst er annálaður áhugamaður um hlaup eins og sumir vita. Á dögunum birti Fréttablaðið viðtal við Ágúst um þetta áhugamál hans og hlaupahópinn Skokka sem er félagsskapur sem lifir góðu lífi á Húsavík nú um stundir.
Lesa má viðtalið hér.
Framsýn kannaði á dögunum hvort sveitarfélögin á starfssvæðinu byðu upp á vinnuskóla í sumar og ef svo, hvaða laun væru í boði.
Í ljós kom að Skútustaðahreppur mun bjóða upp á vinnuskóla fyrir börn fædd 2002. Þau munu fá greiddar 491 krónur á klukkustund. Þingeyjarsveit býður upp á vinnuskóla fyrir börn fædd 2001 og 2002. Börn fædd 2001 munu fá 747 krónur greiddar á klukkustund og börn fædd 2002 munu fá 637 krónur á klukkustund. Norðurþing mun bjóða upp á vinnuskóla fyrir börn fædd 2001 og 2002. Börn fædd 2001 munu fá 610 krónur á klukkustund og börn fædd 2002 fá 491 krónu á klukkustund.
Í grein Fréttablaðsins frá 20. maí kemur fram að mjög mismunandi er hversu mikið börn fá greitt fyrir vinnu í vinnuskólum. Snæfellsbær trónir á toppnum í launagreiðslum en þar fá börn fædd 2002 1.078 krónur á klukkustund og börn fædd 2001 1.243 krónur á klukkustund. Stykkishólmur og Grundarfjörður koma í sætunum þar fljótlega á eftir. Lægstu launin fyrir börn fædd 2002 greiðir Hafnarfjörður en þar fá börn á þessum aldri 416 krónur á klukkustund. Lægstu launin fyrir börn fædd 2001 greiðir Reykjavík en þar fá börn í þessum árgangi 464 krónur á klukkustund.