Eftir helgina lokast svokallaður gluggi en fram að þeim tíma geta knattspyrnulið á Íslandi fengið til sín leikmenn til að styrkja liðin fyrir átökin sem framundan eru í síðari hluta Íslandsmótsins þar sem keppt er um eftirsótta titla og um að komast upp um deildir. Eitt af þessum liðum er stórliðið Geisli úr Aðaldal sem spilar í fyrsta skiptið í 4. deildinni, það er í C-riðli ásamt 6 öðrum liðum sem flest koma af höfuðborgarsvæðinu fyrir utan Kormák/Hvöt. Heimavöllur félagsins er við Ýdali. Geisli hefur spilað afar vel í sumar en því miður hafa stigin látið á sér standa sem er mikið rannsóknarefni enda spilar liðið undir stjórn Guðmundar Jónssonar frá Fagraneskoti sem án efa er einn af okkar færustu þjálfurum auk þess að hafa mikla leikreynslu úr neðri deildunum þar sem Guðmundur spilaði um árabil við góðan orðstír. Meistarinn Jón Þormóðs frá Ökrum hefur verið honum til aðstoðar svona við og við.
Þegar fulltrúar Framsýnar, stéttarfélags litu við á æfingu hjá Geisla í gærkvöldi á Ýdölum voru nokkrir leikmenn til skoðunar áður en glugginn lokast á mánudaginn. Leikmennirnir koma frá Englandi, Írlandi og Íslandi. Í ljósi þess að Framsýn er einn af styrktaraðilum liðsins vildu forsvarsmenn stéttarfélagsins fræðast um hvort til stæði að styrkja liðið með nýjum leikmönnum fyrir komandi átök. Guðmundur varðist vel eins og hann er þekktur fyrir og sagðist ekki vilja tjá sig um það á þessari stundu. Geisli væri með öflugt lið og því þyrftu nýir leikmenn að vera verulega góðir til að komast í liðið umfram þá leikmenn sem fyrir væru. Vissulega vantaði liðinu markmann og einn af þeim leikmönnum sem væri til skoðunar væri reyndur markmaður frá Írlandi sem hefði staðið sig vel á æfingunni og varið nánast alla bolta sem rötuðu á markið. Fleira vildi Guðmundur ekki segja enda undirbúningur félagsins fyrir næstu leiki hafinn og því vildi hann fá frið frá utanaðkomandi aðilum.
Erlendu leikmennirnir voru ánægðir með æfinguna í gær og umgjörðina um liðið. Hér má sjá Tom, Goeff og Adam á Ýdalavelli í gær.
Íslensku leikmennirnir Þór og Jónas voru einnig á svæðinu í gær og tóku þátt í æfingunni.
Tom sem er írskur markmaður varði nánast alla bolta sem hittu markið, greinilega mjög öflugur markmaður þar á ferð.
Ég get líka varið sagði Grétar Guðmundsson um leið og hann skutlaði sér á næsta bolta.
Leikmenn Geisla skutu og skutu að markinu án þess að skora fram hjá markvörðum sem stóðu sig vel á æfingunni.
Mér líður eins og Ferguson sagði Guðmundur þjálfari Geisla enda ekki á hverjum degi sem erlendir leikmenn eru til skoðunar hjá félaginu. Hér er hann með ungum aðstoðarmanni, Sæþóri Orra Skarphéðinssyni sem dreymir um að verða þjálfari þegar hann verður stór.