Síðasta miðvikudag sprengdi Erna Björnsdóttir forseti sveitarstjórnar Norðurþings síðasta haftið í Húsavíkurhöfðagöngum. Göngin eru tæplega kílómetri að lengd og tengja saman hafnarsvæðið á Húsavík og iðnaðarsvæðið á Bakka. Sprengingar hófust 10. mars sl. en verktakafyrirtækið LNS Saga sér um jarðgangagerðina og framkvæmdir henni tengdar. Mikil vinna er enn eftir við vegagerð, vegskála og frágang ganganna en áætlað er að framkvæmdum verði lokið haustið 2017.
Fjölmenni var saman komið þegar síðasta sprengingin var framkvæmd í Húsavíkurhöfðagöngum eins og meðfylgjandi myndir bera með sér.