Framsýn tekur heilshugar undir með ASÍ varðandi úrskurð kjararáðs og telur Salek samkomulagið glórulaust

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega nýlegum úrskurðum kjararáðs þar sem embættismönnum og forstöðumönnum ríkisstofnana eru úrskurðaðir tugprósenta launahækkanir í einu vetfangi. Niðurstaða kjararáðs gengur þvert á sameiginlega launastefnu sem samið var um á vinnumarkaði og lá til grundvallar vinnu aðila vinnumarkaðar um mótun nýs samningalíkans. Með þegjandi samþykki sínu gefa stjórnvöld launafólki langt nef og grafa undan viðræðum aðila vinnumarkaðarins um nýtt samningamódel sem byggir á stöðuleika og öruggri kaupmáttaraukningu.
Miðstjórn ASÍ áréttar að það kemur ekki til greina að tekjuhæstu hópar samfélagins fái sérstaka meðferð og deili ekki kjörum með almenningi í landinu – um slíkt verður engin sátt. Okkar félagsmenn munu ekki sætta sig við að skapa jarðveg fyrir stöðugleika og aukna verðmætasköpun með ábyrgum launahækkunum til þess að hátekjuhópar geti á einu bretti fengið hækkanir sem nema mánaðarlaunum margra félaga okkar.
Hér er á ferðinni versta birtingarmynd þess ranglætis sem við höfum alltof lengi búið við. Það er löngu tímabært að þeir sem telja sig vera yfirstétt þessa lands geri sér grein fyrir því að nú þurfa þeir eins og aðrir að taka afstöðu til þess hvort þeir vilja byggja hér upp samfélag þar sem jafnræði ríkir í launamálum. Til þess þurfum við hugarfarsbreytingu sem felst í norrænu fyrirmyndinni og tímabært að stjórnvöld horfist í augu við alvarlegar afleiðingar þessara úrskurða.

Deila á