Velheppnaður vinnufundur Framsýnar á Raufarhöfn

Framsýn stóð fyrir vinnufundi á Raufarhöfn síðasta laugardag. Auk venjulegra fundarstarfa tóku fundarmenn þátt í Hrútadeginum, borðuðu á Hótel Norðurljósum auk þess að enda velheppnaðan vinnudag með skemmtun í Félagsheimilinu Hnitbjörgum þar sem Þórhallur Sigurðsson (Laddi fór á kostum). Gestir fundarins voru Silja Jóhannesdóttir starfsmaður Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og formenn Starfsmannafélags Húsavíkur og Þingiðnar, þau Helga Þuríður Árnadóttir og Jónas Kristjánsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Silja Jóhannesdóttir sagði frá verkefninu Raufarhöfn og framtíðin sem er eitt verkefna Brothætta byggða sem Byggðastofnun styrkir. Verkefnið fór af stað til fjögurra ára með ársviðbót en því líkur um áramótin.  Silja fór víða, frá fyrstu dögum m.a. tilurð þess og tilgang sem og samstarfi við íbúa sem, á íbúafundum sem haldnir voru í upphafi verkefnisins,  voru samþykkt 26 markmið til að vinna að. Tólf þeirra hafa náð sínu, ellefu eru enn í gangi og þrjú eru ekki hafin. Einnig sagði hún frá nokkrum verkefnum, þessum helstum; Rannsóknarstöðinni á Rifi, sem stóð m.a. að 50 manna ráðstefnu sumarið 2016. Markaðsstofa Norðurlands er að koma með áhrifavalda í samfélagsmiðlum á svæðið og hefur aukið komur sínar töluvert á síðustu tveimur árum miðað við áður. Blokkin  ( íbúðablokkin á Raufarhöfn) var seld á árinu og þegar er búið að gera upp 5 -6 íbúðir og nú á að klæða hana að utan. Hótel Norðurljós er  komið í hendur nýrra eigenda með góðum árangri.  Heimskautsgerðið er enn í vinnslu og kröftug stjórn þess heldur því í gangi og nú er verið að vinna að gerð bílastæðis og göngubrúar að svæðinu. Verkefnið fékk fjármagn til að útdeila styrkjum og m.a.  hafa þessi verkefni fengið styrk; Uppsetning sýningar í Stoð- og lýsishúsi. Skiltaverkefni , upplýsingaskilti um þorpið, og atriði eins og færa ruslagámana frá kirkjunni að síldarsvæðinu. Gönguleiðaappið wapp er að merkja gönguleiðir á svæðinu. Urðarbrunnur á Laugum er í samstarfi varðandi merkingu örnefna á svæðinu sem nýtist ferðaþjónustu og gestum svæðisins í náttúruskoðun.  Raufarhöfn sem valkostur í komu skemmtiferðaskipa og komu 2 skip hingað í sumar. Ásdís Thoroddsen týnir sveppalubba á sléttunni og hefur sett upp þurrkun og selur m.a. til veitingahúsa. Þá fögnuðu íbúar Raufarhafnar 50 ára afmæli félagsheimilisins Hnitbjargar í vikunni. Hún sagði einnig frá Öxarfjarðarverkefninu sem er sambærilegt, þar voru lögð fram 36 markmið, átta þeirra hefur verið náð, ellefu eru í vinnslu og hin ekki farin af stað. Enn eru tvö ár eftir af því verkefni. Áherslur framundan eru m.a. Dettifossvegur, ljósleiðari á árinu 2018 og hitaveita í Kelduhverfi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Formenn Starfsmannafélags Húsavíkur og Þingiðnar tóku þátt í vinnufundi Framsýnar á Raufarhöfn. Mjög gott samstarf hefur verið meðal félaganna um samstarf í gegnum tíðina, meðal annar reka þau saman skrifstofu á Húsavík.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir fundinn tóku fundarmenn þátt í hrútadeginum. Hér er Guðný Gríms sem situr í trúnaðarráði Framsýnar að skoða fallega hrúta með bændum á svæðinu.

Nýr framkvæmdastjóri Stapa

Jóhann Steinar Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs. Hann tekur við starfinu af Inga Björnssyni sem hefur látið af störfum fyrir sjóðinn.

Jóhann Steinar hefur víðtæka reynslu af innlendum fjármálamarkaði og þekkir vel til starfsemi Stapa því á árunum 2012-2016 starfaði hann við eignastýringu hjá sjóðnum.

Frá árinu 2016 hefur Jóhann Steinar verið framkvæmdastjóri ÍV sjóða hf. Á árunum 2008 til 2011 starfaði hann við fjárfestingar og viðskiptaþróun hjá Tryggingamiðstöðinni en þar áður í markaðsviðskiptum, áhættu- og fjárstýringu hjá Stoðum og Straumi fjárfestingabanka.

Jóhann Steinar er með MSc gráðu í viðskiptafræði frá Lunds Universitet og BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Einar Ingimundarson, lögfræðingur Stapa, mun gegna starfi framkvæmdastjóra þar til Jóhann Steinar kemur til starfa.

Tjaldstæðisstyrkir 2017

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum greiða niður tjaldstæðisstyrki fyrir félagsmenn eftir ákveðnum reglum. Mikilvægt er að félagsmenn sem stofnuðu til kostnaðar á árinu 2017 komi reikningunum til Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir næstu áramót ætli þeir sér að fá hlutfallslega endurgreiðslu frá félögunum vegna tjaldstæðisstyrkja.

 

Flugfélagið Ernir fjölgar ferðum til Húsavíkur- nú flogið á laugardögum

Flugfélagið Ernir hefur ákveðið að fjölga ferðum til Húsavíkur með því að hefja áætlunarflug á laugardögum í vetur. Markmiðið er að auka þjónustuna við flugfarþega og þá sem flytja vörur með flugfélaginu. Fram að þessu hefur Ernir flogið alla aðra daga vikunnar.  Byrjað verður að fljúga á laugardögum, laugardaginn 14. október og hafa ferðirnar nú þegar verið settar í sölu á ernir.is. Stéttarfélögin fagna þessari ákvörðun flugfélagsins sem hefur unnið vel með heimamönnum er varðar flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Þrátt fyrir að tvö áætlunarflug séu nánast daglega til Húsavíkur á vegum flugfélagsins hefur félagið brugðist vel við þessum aðstæðum og flogið allt að fimm sinnum til Húsavíkur á dag þar sem mikil eftirspurn hefur verið eftir flugi milli þessara áfangastaða.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flugfélagið Ernir hefur ákveðið að fjölga enn frekar flugferðum milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem eru góðar fréttir.

 

Tvisar verður hver maður barn

Hér má lesa áhugaverð grein eftir Örn Jóhannsson og hans reynslu af því að fá heilablóðfall. Skyldu lesning.

Það er einkennileg reynsla að fá heilablóðfall-allavegana finnst mér það. Ég hefi alla tíð verið með flokkunarkerfi í hausnum sem byggist uppá skúffum -ég flokka efni niður í skúffur og framan af notaði ég tölur til aðgreiningar, eða liti. Þetta ruglaðist allveg gjörsamlega við heilablóðfallið  og sumar skúffurnar eru týndar, ég er linnulaust að leita að týndu skúffunum og það kemur fyrir að ég rekst á efni úr þeim en sumar skúffur eru algjörlega týndar. Minnisskúffan-NÚ  sem er blá er erfið -stundum finn ég eitthvað úr henni og stundum ekki.

Gutti félagi minn kom með alveg rétta  skýringu á  þessu -við höfum 10 mínútna minni og við höfum 15 mínútna minni og svo höfum við kannski og kannski ekki minni. Þetta er alveg dýrðleg skilgreining sem við báðir notfærum okkur oftast til framdráttar. Í alvöru talað, þegar maður fær svona áfall er númer eitt að taka því með æðrusemi og númer eitt að gera grín að sjálfum sér-þetta er bara svona. Ég t.d. var óskaplega heppinn -ég hefi fengið mikið til baka og hef frá upphafi litið svo á að ég sé lánsamur með það sem ég er í dag -ég get gengið alveg bærilega-ég get ekið bíl-ég er hættur að ganga á dyrastafinn vinstramegin að mestu leyti-auðvitað kemur það fyrir, en þá hlæ ég bara og segi andskotinn. Af hverju vinstra megin, það finnst mér ekkert hlægilegt -þett skeði hægramegin í heilanum og ég sit uppi með skerta vinstri-hlið-ósanngjarnt -kannski -kannski ekki. Ég er jú rétthentur sem kallað var áður fyrr-það má kannski ekki í dag-ég kýs jú alltaf vinstra megin.

Að klæða sig í sokka og buxur-einföld athöfn -er ekki svo- en fyrir mig og marga aðra er það bara alls ekki einfalt, það þarf nefnilega ákveðin klókindi og útsjónarsemi, Líkaminn lætur nefnilega ekki alltaf að stjórn. Ég hefi nefnilega verið á námskeiði hjá sjálfum mér með brókina. Að láta brókina renna niður að tánum sveifla  fótunum og grípa hana með annarri hendi var ekkert mál þetta var stórmál hjá mér á einum af fyrstu æfingum vildi það mér til happs að ég datt í stólinn en ekki gólfið-en það er komið eftir harðar æfingar og hörku. Einu sinni Valsari alltaf Valsari.

-Að klæða sig í sokka er mjög erfitt ennþá hjá mér-ég kvíði því á hverjum degi að fara í þessa andsk. sokka-það er það erfiðasta sem ég geri enn þann dag í dag -ýmindið ykkur eftir 5 ár -þá er það erfiðasta sem ég geri að klæða mig í sokka. Þegar ég fer í sundlaugina á morgnana þá hef ég sokkana bara með mér og fer berfættur í skónum-það finnst mér ekki hlægilegt að jafn einföld athöfn þvælist fyrir manni og að klæða sig í sokka sé fyrirkvíðandi athöfn -gott fólk færði mér sokkaífærslu -það er nytsamur hlutur -já hlægið þið bara ífærsla til að klæða sig í sokka hahaha en það er bara svo-þetta er það eina sem mér finnst ekki hlægilegt, að klæða sig í buxur er einnig svolítið erfitt en ég hefi komið mér upp kerfi sem gengur oftast upp en þá þarf ég ákveðið umhverfi. Því umhverfi ætla ég ekki að lýsa en ég get haldið námskeið í því ef óskað verður eftir eða jafnvel gefið það út á DVD disk.

Ég ætla ekki að segja ykkur hvernig það var að fara í sturtu til að byrja með en það get ég þó sagt að það var ævintýri sem er ekki til frásagnar að svo stöddu, en asskoti var það nú gaman svona eftir á að hyggja

Af hverju ég er að skrifa þetta bull-jú vegna þess að ef það getur hjálpað einhverjum álíka eitthvað, þá er tilganginum náð. Þegar ég fór í endurhæfingu á Kristnesi ,sem er alveg dásamlegur staður, rakst ég á grein eftir Ingólf Margeirsson í blaðinu Heilaheill -sú grein hefir síðan verið min biblía. Það er nauðsynlegt að einhver sem hefir gengið í gegnum svona reynslu miðlaði sinni reynslusögu líkt og Ingólfur Margeirsson gerði á sínum tíma -það opnar skilning á mörgu. Ég er ekki að líkja saman veikindum mínum og Ingólfs Margeirssonar -ég erjú á lífi -hann ekki.

Því eins og  dyraþröskuldurinn í fatahreinsuninni sem Ingólfur kvartaði yfir,því hann komst ekki yfir hann svo hann  kvartaði við afgreiðslumanneskjuna og svarið var. „hann hefir verið þarna í 40 ár“

Örn Jóhannsson

 

Framsýn-ung áberandi á þingi AN

Framsýn átti magnaða fulltrúa á þingi Alþýðusambands Norðurlands sem haldið var á Illugastöðum í lok september. Af þrettán fulltrúum félagsins voru þessar þrjár glæsilegu stúlkur. Þetta eru þær Eva Sól, Laufey Ása og Sigurbjörg Arna. Þær voru duglegar að taka þátt í hópastarfi auk þess sem Eva Sól og Sigurbjörg Arna voru með erindi á þinginu. Framsýn leggur mikið upp úr því að virkja ungt fólk til starfa í félaginu, það er yngra en 35 ára. Áhugasömum  er bent á að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna. Hér má  sjá myndir frá þinginu af stöfum unga fólksins.

Alþýðusamband Norðurlands 70 ára – Hákon Hákonar með fróðlegt erindi um söguna

Á þingi AN var því fagnað að 70 ár eru liðin frá stofnun sambandsins. Hákon Hákonarson sem þekkir vel til tók saman söguna og gerði grein fyrir henni á þinginu á Illugastöðum. Hér má lesa erindi Hákons.

Alþýðusamband Norðurlands varð 70 ára fyrr á þessu ári. Það er við hæfi að fara nokkrum orðum um það sem gerst hefur á vettvangi þessa merka sambands á þessu tímabili. Engin leið er í þessu stutta erindi að fjalla ítarlega um málefnið, aðeins að nefna það helsta sem heimildir eru til um.

Stofnþing Alþýðusambands Norðurlands var haldið á Siglufirði dagana 17. til 19. maí 1947.

Til að öllu sem málið varðar sé til haga haldið er eðlilegt að minnast á að 26. apríl 1925 var stofnað samband verkalýðsfélaga á Norðurland sem hlaut nafnið Verkalýðssamband Norðurlands.  Á stofnfund þeirra samtaka mættu 11 fulltrúar frá fjórum verkalýðsfélögum á Akureyri og Siglufirði, átta félög víðsvegar á Norðurlandi bættust svo fljótlega við og síðan enn fleiri.  Með nokkrum sanni má segja að þetta samband hafi verið undanfari Alþýðusambands Norðurlands.

Í lögum Verkalýðssambands Norðurlands segir svo um meginhlutverk þess:

A Að koma á góðum samtökum í kaupgjaldsmálum meðal þeirra félaga sem í sambandinu eru, koma á samræmi á kauptaxta og efla samvinnu við að fylgja þeim fram.

B Að gangast fyrir stofnun nýrra verkalýðs- og jafnaðarmannafélaga.

C Að stuðla að því að koma í fulltrúastöður bæjar- og sveitarfélaga og ríkisins þeim mönnum einum saman, er fylgja jafnaðarstefnunni.

D Að fræða alþýðu manna um verkalýðshreyfinguna og jafnaðarstefnuna með fyrirlestrum, bóka- og blaðaútgáfu. Einkum skal sambandið vinna að útbreiðslu jafnaðarmannablaða, sem gefin eru út á Norðurlandi.

Alþýðusambandið og Alþýðuflokkurinn voru eitt og það sama á þessu tíma.

Í fundargerð stofnþingsins kennir margra þekktra  vandamála.  Vegna smæðar verkalýðsfélaganna var mönnum ljóst að vinnuveitendur komust upp með að virða ekki réttindi félagsmanna, sumstaðar höfðu ekki verið stofnuð verkalýðsfélög. Mikill fjöldi verkafólks streymdi til Siglufjarðar á sumrin til að vinna í síld og var gjarnan ráðið til vinnu án nokkurs tillits til þess hvað stóð í kjarasamningunum. Þá komu fram áhyggjur þingfulltrúa af innfluttu vinnuafli sem streymdi til ýmissa staða á Norðurlandi t.d. Siglufjarðar og Krossaness.

Á þessu stofnþingi var Erlingur Friðjónsson á Akureyri kosinn forseti sambandsins og sat hann til 1931, en þá tók við Einar Olgeirsson einnig frá Akureyri í eitt ár en þriðji og síðasti forseti sambandsins var Þóroddur Guðmundsson frá Siglufirði.

Sambandið starfaði af miklum krafti til að byrja með að hagsmunamálum félaga sinna allt fram til  1933 eða 1934, en  samtakamáttur Verkalýðssambands Norðurlands fór þá ört þverrandi vegna harðvítugra pólitískra átaka. Um miðjan fjórða áratuginn og raunar miklu lengur snerist starfsemi verkalýðsfélaganna að verulegu leyti um pólitísk átök milli krata og þeirra sem stóðu lengst til vinstri í hinu pólitíska litrófi íslenskra stjórnmála.

Þessi átök urðu því miður til þess að verkalýðsfélögin urðu alls ófær um að gegna hlutverkum sínum og gengu atvinnurekendur auðvitað á lagið og spiluðu á þetta upplausnarástand í samskiptum sínum við verkafólk. Þannig fór á tímabili á Akureyri og Siglufirði að bæði urðu til komma og kratafélög.  Ótrúlegt ástand.

Á Siglufirði stóð þetta þó ekki mjög lengi en á Akureyri í heilan áratug.

Þetta pólitíska fárviðri varð banabiti Verkalýðssambands Norðurlands og gufaði það hreinlega upp þegar svo var komið að ekki var samstaða um eitt eða neitt.

Eftir 1936  er þess lítið getið.

Síðan leið heil áratugur.  Á þeim tíma varð mönnum sífellt ljósara að við svo búið mætti ekki standa. Fólk yrði að nýta samtakamáttinn til að hafa áhrif á samfélagið og þar með lífskjör almennings á Norðurlandi. Ófært væri að forustumenn verkalýðsfélaganna eyddu öllum starfskröftum sínum í innbyrðis slagsmál.  Virða yrði mismunandi stjórnmálaskoðanir ef samstaða ætti að nást.  Samkomulag náðist m.a. um að hætta að tengja Alþýðusambandið við einn stjórnmálaflokk. Innan verkalýðssamtakanna skyldu allir vera jafn réttháir án tillits til stjórnmálaskoðana.

Þegar þessi niðurstaða var fengin var blásið til heljarmikillar ráðstefnu allra verkalýðsfélaga á Norðurlandi á Siglufirði þann 24. apríl 1946.

Mættir voru 31 fulltrúi frá 17 félögum. Ráðstefnan stóð í þrjá daga og tók til umfjöllunar fjöldann allan af málefnum sem snertu kjör alþýðufólks á Norðurlandi og gerði um þau ályktanir.

Má þar nefna að frá Sambandsmálanefnd ráðstefnunnar var samþykkt eftirfarandi tillaga:

Ráðstefna verkalýðsfélaga á Norðurlandi haldinn á Siglufirði dagana 24.-26. apríl 1946 telur ríka nauðsyn bera til að stofnað verði fjórðungssamband Alþýðusambands Íslands á Norðurlandi vegna eftirfarandi.

  1. Samræming kaups og kjara í fjórðungnum er orðin knýjandi nauðsyn og yrði auðveldari fyrir tilstuðlan slíks sambands.
  2. Fjórðungssamband myndi auka á kynningu og samstarf félaganna m.a. með því að hafa forustu um byggingu orlofs- eða félagsheimila í fjórðungnum, gangast fyrir kynningarferðum milli félaga, fræðslustarfsemi o.s.fv.

Ráðstefnan lýsir sig eindregið meðmælta því að sambandið verði stofnað á ofangreindum grundvelli.

Þetta var einróma samþykkt og eftirtaldir kosnir til að undirbúa stofnþingið.

Gunnar Jóhannsson og Gunnlaugur Hjálmarsson frá Siglufirði, Valdimar Pétursson frá Sauðárkróki, Kristinn Sigurðsson frá Ólafsfirði og Tryggvi Helgason frá Akureyri.

Framkvæmdanefndin vann síðan að samningu laga fyrir hið nýja samband ásamt öðrum atriðum sem nauðsynlegt var í tengslum við stofnun sambandsins og var boðað til stofnþings 17.-19. maí 1947 í Verkalýðshúsinu við Strandgötu á Akureyri.

Til stofnþingsins mættu 36 fulltrúar frá 17 félögum sem gerðust stofnendur Alþýðusambands Norðurlands. Auk þess var einn áheyrnarfulltrúi frá einu félagi.

Til stofnþingsins voru einnig mættir Hermann Guðmundsson forseti ASÍ, Jón Rafnsson framkvæmdastjóri  ASÍ og Guðmundur Vigfússon erindreki þess, einnig Sigurður Stefánsson frá Vestmannaeyjum sem átti sæti í stjórn Alþýðusambandsins.

Þingforsetar voru kjörnir Elísabet Eiríksdóttir Akureyri og Gunnar Jóhannsson frá Siglufirði þekkt baráttufólk  úr sögu verkalýðssamtaka á Norðurlandi.

Samþykkt var einróma að stofna sambandið og lög fyrir það samþykkt.

Á þinginu voru fjölmörg mál tekin til umræðu og ályktað um eftirfarandi málaflokka:

Um atvinnumál, um kaup og kjaramál, sjávarútvegsmál, menningar og fræðslumál, samræmingu síldarverksmiðjukjara, um birgðastöðvar. Þá var samþykkt tillaga þar sem varað var við því  að hafa síldarverksmiðjurnar til sýnis hvaða útlendingi sem hafa vildi og að lokum, lokun áfengisverslana á Akureyri og Siglufirði um sumartímann. Eftirtektarvert er hvað síldin kemur víða við í ályktunum verkalýðsfélaganna á þessum tíma.

Þá var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir starfsárið upp á kr. 10.334 .- Til samanburðar hljóðaði fyrsta áætlun Verkalýðssambands Norðurlands upp á kr. 500.-

En þeir merku atburðir höfðu gerst að Alþýðusamband Norðurlands var orðið staðreynd og því von um betri og bjartari tíma fyrir norðlenska alþýðu.  Óhætt er að fullyrða að miklar vonir voru bundnar við hið nýja  samband.

Fyrsti forseti Alþýðusambands Norðurlands var kjörinn Tryggvi Helgason, varaforseti var kjörin Elísabet Eiríksdóttir, ritari Stefán Snæbjörnsson öll frá Akureyri.  Meðstjórnendur Björn Arngrímsson frá Dalvík og Björn Jónsson frá Akureyri.  Auk þeirra voru kjörin í sambandsstjórn Gunnar Jóhannsson og Ásta Ólafsdóttir frá Siglufirði, Sigursveinn D. Kristinsson frá Ólafsfirði, Hallgrímur Stefánsson frá Glerárþorpi, Geir Ásmundsson frá Húsavík og Guðrún Guðvarðardóttir frá Akureyri.

Þegar hér er komið sögu verður stiklað á stóru í sögu sambandsins. Tryggvi Helgason hafði verið kosinn forseti þess og sat hann í tuttugu ár eða til ársins 1967. Við tók Björn Jónsson og sat hann til 1973 þá tók Jón Ásgeirsson við í eitt kjörtímabil, eða 2 ár, þá kom til Jón Karsson og sat hann einnig í eitt tímabil, Hákon Hákonarson í tvö kjörtímabil.  Á sautjánda þingi sambandsins 1981 settist loks kona í formannssætið, Þóra Hjaltadóttir, sem gegndi  formennsku í tíu ár eða til ársins 1991.  Þá tók Kári Arnór Kárason , við í tvö ár og síðan eftirtaldir Guðmundur Ómar Guðmundsson,  Valdimar Guðmannsson,  Matthildur Sigurjónsdóttir, Aðalsteinn Baldursson, Konráð Alfreðsson,  Ásgerður Pálsdóttir, Einar Hjartarson, Kristbjörg Sigurðardóttir, Heimir Kristinsson, Hjördís Gunnarsdóttir, Eiður Stefánsson og síðan Ósk Helgadóttir sem er núverandi formaður. Allir framantaldir formenn sem komu á eftir Þóru Hjaltadóttur gegndu formennsku í eitt kjörtímabil eða tvö ár.

Það er örugglega ekki á neinn hallað þótt sagt sé að Tryggvi Helgason og Gunnar Jóhannsson hafi verið þeir sem mest unnu í að koma sambandinu á fót.  Tryggvi var einnig sá sem  dró vagninn í daglegri starfsemi sambandsins.  Hann var óþreytandi að ferðast um sambandssvæðið, hitta félögin, meta ástandið á hverjum stað og leggja fram tillögur til úrbóta til að tryggja stöðuga vinnu fyrir félagsmennina.  Oft voru settar á stofn atvinnumálanefndir á vegum hins opinbera m.a. fyrir tilstuðlan Tryggva og félaga sem hann sat þá gjarna í.

Þá gekkst Alþýðusamband Norðurlands oft fyrir atvinnumálaráðstefnum á svæðinu. Alþýðusambandið hafði veruleg afskipti af kjaramálum til að byrja með næstu áratugina eða allt þar til starfsgreinasamböndin komu til sögunnar, þá dró verulega úr starfsemi sambandsins á vettvangi kjara og atvinnumála. Þá er rétt að minnast þess hér að Alþýðusamband Norðurlands beitti sér fyrir fjölmörgum öðrum framfaramálum félagsmanna á starfstíma Tryggva Helgasonar og félaga hans.

Sumarið 1948 gekkst sambandið fyrir glæsilegu og gríðarlega fjölmennu  vormóti verkafólks á Norðurlandi.  Samkoman var haldin í Vaglaskógi.  Þá má nefna sameiningu verkalýðsfélaga á starfssvæðinu.  En með bættum samgöngum var ekki þörf fyrir verkalýðsfélag á hverjum stað.  Þá rak sambandið um tíma hagdeild til að fylgjast með vinnurannsóknum og útreikningum á flóknum launakerfum sem komu til skjalanna í tengslum við margskonar ákvæðis- og bónus fyrirkomulag launa.  Fyrsti starfsmaðurinn á þessu sviði var Ívar Baldursson og síðar Þóra Hjaltadóttir formaður sambandsins.  Þá beitti sambandið sér fyrir sameiningu margra smærri lífeyrissjóða á svæðinu í einn stóran og sterkan lífeyrissjóð.

Árið 1966 kaupir Alþýðusambandið jörðina Illugastaði Í Fnjóskadal af Sigurði O. Björnssyni fyrir kr. 300.000.- Miklar vangaveltur höfðu verið innan sambandsins um að festa kaup á hentugu og vel staðsettu jarðnæði til að hefja uppbyggingu á orlofshúsasvæði fyrir félögin á Norðurlandi.

Alþýðusambandið og síðan rekstrarfélagið hafa staðið fyrir umfangmikilli skógrækt á Illugastöðum.  Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um fjölda plantna sem hafa verið gróðursettar en milli þrjú- og fjögurhundruð þúsund plöntur hafa verið gróðursettar á jörðinni frá upphafi.  Illugastaðir eru nú aðili að Norðurlandsskógum.

1967 er samið við Tréverk h.f. á Dalvík um að byggja sumarhús á Illugastöðum og eru sex fyrstu húsin byggð og afhent um haustið.  Fjögur hús eru svo afhent 15. 6. 1968. Húsunum fjölgar svo hægt og bítandi fram til 1970 en þá voru síðustu húsin í efra hverfinu afhent.

Fyrsti umsjónarmaður með orlofsbyggðinni var Rósber G. Snædal frá 1968 til 1970 en þá tók Björn Gunnarsson við starfi umsjónarmanns.  Árið 1974 tóku hjónin Hlíf Guðmundsdóttir og Jón Þ. Óskarsson við umsjón á Illugastöðum og gegna því starfi enn í dag.  Ég tel að ekki sé á neinn hallað þó það sé undirstrikað hér að þau hjón hafa sinnt starfi sínu af þvílíkum metnaði og samviskusemi að einstakt má teljast.  Mikið lán fyrir okkur sem hlut eigum að máli hér á Illugastöðum að hafa fengið að njóta starfskrafta þessara frábæru hjóna.

Árið 1972 er hafin bygging Kjarnahúss á svæðinu og lokið við íbúð húsvarðar 1973.  Ekki tókst að ljúka við framkvæmdir við salinn í Kjarnahúsinu fyrr en 1981.  Stafaði það fyrst og fremst af fjármagnsskorti og þar spilaði inn í vandamál vegna þess að bygging og rekstur orlofshúsanna svo og eignarhald var allt á hendi Alþýðusambands Norðurlands.  En mörg stéttarfélög sem áttu hús á Illugastöðum voru ekki aðilar að sambandinu og töldu því með nokkrum sanni að þau félög hefðu takmarkaða aðkomu að rekstri og öllum tilfallandi kostnaði. Töldu þau félög að skilja yrði á milli reksturs Alþýðusambands Norðurlands og byggingu og rekstri orlofssvæðisins.  Um þetta var þrefað nokkuð og lokum varð samkomulag árið 1980 um að stofna Orlofsbyggðina Illugastaði sem sæi alfarið um allar framkvæmdir þ.m.t. allar nýbyggingar  og rekstur orlofssvæðisins.  Hið nýja félag gerði síðan samning við Alþýðusamband Norðurlands um afnot af jarðnæðinu og yfirtöku á mannvirkjum.  Óhætt er að fullyrða að þetta var skynsamleg ákvörðun sem leiddi til velfarnaðar fyrir alla aðila.

Jón Helgason formaður Einingar stýrði rekstrarfélaginu til að byrja með en Hákon Hákonarson tók fljótlega við formennsku í félaginu og gegndi því til ársins 2015 en þá tók Björn Snæbjörnsson við formennsku í félaginu og gegnir því enn.

Árið 1977 voru hafnar framkvæmdir við byggingu nýs tólf húsa  áfanga í svokölluðu neðra hverfi.  Samið var við Trésmiðjuna Rein um byggingaframkvæmdir og voru þessi tólf hús afhent á árunum 1978 og 1979.

Árið 1988 var á höndum hins nýja rekstrarfélags að semja við Trésmiðjuna Rein um byggingu sundlagar og tilheyrandi mannvirkja þ.e. heitra potta, búningsaðstöðu gufubaðs og mannhelda girðingu umhverfis mannvirkin.  Framkvæmdin tókst í alla staði mjög vel og tók einungis sextíu daga frá því fyrsta skóflustungan var tekin og þar til stjórnarmenn stungu sér til sunds í hinni nýju og glæsilegu sundlaug.  Árið 1999 er byrjað að breyta húsunum að innan. Árið 2001 er byggð vélageymsla, mikið framfaramál. Árið 2002 koma fyrstu nýju húsin á svæðið við útskrift á gömlu húsunum. Fleiri komu síðar þ.m.t nýtt og stærra hús Sjómannafélags Eyjafjarðar árið árið 2015.

Árið 2014 hófust framkvæmdir við klæðningu gömlu húsanna með rauðu stáli ásamt öðrum nauðsynlegum endurbótum.

Árið 2006 er raunar það árið sem mestu umskiptin verða á svæðinu í langan tíma þ.e. þegar hitaveita er lögð frá Reykjum til Grenivíkur. Þá rættist áratuga draumur þeirra sem Fnjóskadalinn byggja þ.e. að geta nýtt heita vatnið til að auka lífsgæði fólksins í dalnum fagra.  Óætt er að fullyrða að enginn einn atburður hefur haft jafn mikil og góð áhrif á aðstöðuna á Illugastöðum og þar með á líðan  okkar góðu gesta.  Mikill og góður hiti var nú ávallt til staðar í húsunum.  Stórir góðir heitir pottar við öll hús. Stórir og skjólgóðir sólpallar við öll hús og síðast en ekki síst voru allar akbrautir og gangstígar malbikaðir sem jók verulega á allt hreinlæti á svæðinu utan húss sem innan. Nú er verið að leggja lokahönd á skipulag fyrir 30 ný orlofshús á Illugastöðum.

Ágætu félagar, aftur að AN.

Ég hef stiklað á nokkrum af merkilegustu atburðum í sjötíu ára sögu Alþýðusambands Norðurlands.  Margt fleira mætti eflaust nefna en einhvers staðar veðrur að setja lokapunktinn í málinu.  Þótt starfsemi Alþýðusambands Norðurlands hafi breyst mikið á þessum sjötíu árum þess þá lifir það enn góðu lífi.

Og höfum eitt hugfast.

Á vettvangi okkar launamanna verður ávallt þörf fyrir  að hittast og taka til umræðu brýn verkefni sem verkalýðshreyfingin glímir við á hverjum tíma og líka að hafa gaman saman.

Þess vegna verður þörf fyrir Alþýðusamband Norðurlands um ókomin ár.

Til hamingju með 70 árin öll Alþýðusamband Norðurlands.

 

Akureyri í september 2017

Hákon Hákonarson.

AN fundaði á Illugastöðum um helgina

Tæplega 90 fulltrúar, frá öllum stéttarfélögum á Norðurlandi sátu 35. þing Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal um helgina. Þingið tókst í alla staði mjög vel. Skipað var í fjóra vinnuhópa þar sem fjallað var um vinnumarkaðsmál, menntamál, jafnréttismál og velferðarmál. Fjórar ályktanir voru samþykktar samhljóða á þinginu og má lesa þær hér fyrir neðan.

Fjölmargir gestir mættu á þingið og voru með erindi. Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ, fjallaði um vinnumarkaðinn í fortíð, nútið og framtíð og um fækkun starfa og menntaþörf. Andri Már Helgason, frá Advania, fjallaði um raunheima tækninnar. Valgeir Magnússon, framkæmdastjóri SÍMEY, fjallaði um mikilvægi menntunar á vinnumarkaði. Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ, fjallaði um hlutverk og gildi kjarasamninga á breyttum vinnumarkaði. Tryggvi Hallgrímsson, frá Jafnréttisstofu, fjallaði um kvennastörf og karlastörf og velti fyrir sér spurningunni er jafnrétti til staðar á vinnumarkaði í dag. Fjórir ungir Þingeyskir og Eyfirskir þingfulltrúar ræddu um framtíðarsýn ungs fólks til stéttarfélaga. Að lokum flutti Hákon Hákonarson, fyrrum formaður FMA, stutta samantekt um sögu Alþýðusambands Norðurlands, en sambandið varð 70 ára fyrr á árinu.

Nýr formaður AN var kosinn Bóas Jónasson, frá Félagi málmiðnaðarmanna Akureyri. Með honum í stjórn eru Ósk Helgadóttir, frá Framsýn – stéttarfélagi, og Vigdís Þorgeirsdóttir frá Samstöðu. Varamenn í stjórn eru Anna Júlíusdóttir, frá Einingu-Iðju, Sigríður Jóhannesdóttir, frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar, og Bjarki Tryggvason, frá Öldunni – stéttarfélagi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Formaður AN, Ósk Helgadóttir flutti skýrslu stjórnar á þinginu.

Ályktun um jafnréttismál

35.þing Alþýðusambands Norðurlands lýsir áhyggjum yfir hægfara þróun í jafnréttismálum. Alþýðusamband Norðurlands telur brýna þörf á eftirfarandi aðgerðum:

  • Lögum um jafnlaunavottun í fyrirtækjum verði framfylgt
  • Störf verði metin til jafns óháð kyni
  • Markvisst átak verði sett af stað til að stuðla að hugarfarsbreytingu hjá báðum kynjum, m.a. með fræðslu og kynningarefni
  • Stórtækt átak verði gert í dagvistunarmálum

Ályktun um menntamál

  1. þing Alþýðusambands Norðurlands ályktar að allir skuli eiga jafnan rétt til náms. Menntun við hæfi allra skuli vera gjaldfrjáls. Aukið fjármagn verði sett í málaflokkinn. Þing AN telur:
  • Að koma þurfi í veg fyrir íþyngjandi kostnað við öflun menntunar t.d. vegna búsetu.
  • Að ákveðnir hópar glími við óviðunandi valkosti í samgöngum og fjarskiptum sem komi í veg fyrir öflun menntunar.
  • Að auka þurfi fjölbreytni í námsframboði í heimabyggð og leggja aukna áherslu á sköpun og rökhugsun.
  • Að tryggja þurfi að fólk geti snúið aftur til náms á fullorðinsárum.
  • Að efla þurfi símenntunarstöðvar og auka möguleika á fjarnámi.
  • Að greina þurfi menntunar- og færniþörf á vinnumarkaði til framtíðar og að menntun taki mið af því.

Ályktun um vinnumarkaðsmál

  • Að tryggja stöðugleika er grundvöllur fyrir auknum kaupmætti.
  • Að taka húsnæðiskostnað út úr neysluvísitölu.
  • Að sýna samstöðu allra samtaka launafólks í landinu.
  • Að endurskoða starfsreglur og lög sem gilda um kjararáð.

Ályktun um velferðarmál

  1. þing Alþýðusambands Norðurlands lýsir yfir þungum áhyggjum yfir stöðu velferðarmála í fjórðungnum. Aukin fátækt og vaxandi misskipting leiðir af sér slæmt samfélag sem brýtur í bága við grunngildi norræns velferðarsamfélags. Þingið krefst eftirfarandi aðgerða í baráttunni fyrir betri velferð og bættu samfélagi:
  • Góð heilbrigðisþjónusta á Norðurlandi fyrir alla óháð búsetu og efnahag.
  • Heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og öllum aðgengileg.
  • Bæta þarf verulega geðheilbrigðisþjónustu og stuðning við aðstandendur langveikra.
  • Sveitarfélög í fjórðungnum beiti sér fyrir því að greiða götu almennra leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, til að auka aðgang allra að mannsæmandi íbúðarhúsnæði. Húsnæði er mannréttindi ekki forréttindi!
  • Tekjutengingar í lífeyriskerfinu verði afnumdar.

Hér má sjá myndir frá þinginu sem var mjög annasamt.

 

Þingiðn boðar til félagsfundar

Þingiðn boðar til félagsfundar um skipulagsmál stéttarfélaga mánudaginn 9. október kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík. Tilefnið er ákvörðun Félags málmiðnarmanna á Akureyri að gera félagssvæði Þingiðnar að sínu. Gestur fundarins verður Hilmar Harðarson formaður Samiðnar.

Dagskrá:

  1. Skipulagsmál stéttarfélaga innan Samiðnar og félagssvæði Þingiðnar
  2. Önnur mál

Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti á fundinum.

 

Stjórn Þingiðnar

 

Vinnumarkaðsráð fundar á Húsavík

Vinnumarkaðsráð Norðurlands Eystra fundaði í fundarsal stéttarfélaganna í gær, þriðjudaginn 26. ágúst. Á fundinum flutti formaður Framsýnar erindi um stöðuna hér á Húsavík og nágrenni, hvað hefur gerst síðustu misseri og eins hvað líklegt er að sé framundan í atvinnu- og byggðamálum.

Töluvert er um að hinir ýmsu aðilar óski eftir erindi frá forsvarsmönnum stéttarfélaganna er varðar þessi mál enda mikið um að vera á svæðinu er tengist sérstaklega uppbyggingunni á Bakka.

Myndirnar voru teknar á fundinum.

Námsstyrkir í boði fyrir félagsmenn og fyrirtæki

Félagsmenn Framsýnar eiga aðild að öflugum fræðslusjóðum í gegnum félagið sem félagsmenn geta notað sæki þeir námskeið eða stundi nám á framhalds- eða háskólastigi. Jafnframt geta fyrirtæki sem greiða til Framsýnar einnig fengið góða styrki til námskeiðahalds á vinnustöðum. Þá er rétt að geta þess að félagsmenn Starfsmannafélags Húsavíkur og Þingiðnar hafa sömuleiðis gott aðgengi að niðurgreiðslum á námskeiðs- eða skólagjöldum. Frekari upplýsingar er hægt að fá á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

Alþýðusamband Norðurlands 70 ára

35. þing Alþýðusambandsins verður haldið að Illugastöðum í Fnjóskadal 29.-30. sept. næstkomandi en þing sambandsins eru haldin annað hvert ár.

Í ár eru liðin 70 ár síðan Alþýðusamband Norðurlands var stofnað í Verkalýðshúsinu á Akureyri. Þá sameinaðist norðlenskst alþýðufólk í kröfum sínum fyrir bættum kjörum, en það voru 18 verkalýðsfélög með samtals 4000 meðlimum, á svæðinu frá Langanesi að Ströndum  sem voru stofnendur sambandsins.

Í dag eru 11 félög innan vébanda Alþýðusambands Norðurlands og greiðandi félagar þeirra telja tæplega 14. 000 manns.

Árið 1947 kröfðust verkamenn viðunandi lífskjara og 70 árum síðar er það enn stærsta baráttumál verkalýðshreyfingarinnar. Þing Alþýðusambands Norðurlands í ár verður að mestu helgað þessum tímamótum. Fyrirlesarar koma úr ýmsum áttum, saga sambandsins rifjuð upp, staðan tekin í nútíðinni og reynt að skyggnast til framtíðar.

Án efa fróðlegt og skemmtilegt þing framundan hjá norðlenskum stéttarfélögunum.

Vilt þú gefa kost á þér til starfa fyrir Framsýn-UNG

Innan Framsýnar er starfandi Ungliðaráð Framsýnar sem skipað er til eins árs í senn. Skipunin skal fara fram á fundi stjórnar- og trúnaðarráðs félagsins í október á hverju ári.
Ungliðaráðið skal skipað fjórum félagsmönnum á aldrinum 16-35 ára. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum formanns, ritara og tveggja meðstjórnenda. Leitast skal við að kynjaskiptingin sé jöfn í ráðinu. Ungliðaráðið skal starfa á vettvangi Framsýnar undir heitinu FRAMSÝN-UNG. Ungliðaráðið skal starfa náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar- stéttarfélags.Þá skal ungliðaráðið vera tengiliður Framsýnar við starf ungliða á vettvangi ASÍ á hverjum tíma.

Þeir sem vilja taka þátt í þessu starfi og leggja sitt að mörkum til að bæta stöðu ungs fólks er vinsamlegast beðið um að hafa samband við formann Framsýnar, Aðalstein Árna Baldursson á netfangið kuti@framsyn.is

 

Stöðvarhúsið á Þeistareykjum

Fulltrúar stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum voru staddir á Þeistareykjum á dögunum. Eftirfarandi myndir eru innan úr stöðvarhúsi Þeistareykjavirkjunar en þar er mikið um að vera þessa dagana, enda stefnt á að ræsa fyrri vél virkjunarinnar um miðjan nóvember.

Nýbyggingar á Húsavík

Óvenju mikið er um nýbyggingar á Húsavík um þessar mundir. Uppgangur er á svæðinu og sést það greinilega á þessu, sérstaklega aukningu í byggingu á íbúðarhúsnæði. Þar vegur þyngst húsin sem byggð eru í Holtahverfi sem reist eru í tengslum við verksmiðju PCC á Bakka. Þess utan eru nokkrir einstaklingar að byggja sér íbúðarhúsnæði.

Rétt er einnig að minnast á byggingu Sjóbaðanna á Húsavíkurhöfða en þar eru framkvæmdir í fullum gangi og stefnt á opnun á næsta ári.

Hér að neðan eru myndir af framkvæmdum við nýbyggingar á Húsavík.

Sláturtíð Norðlenska komin vel af stað

Nú stendur yfir sláturtíð á landinu öllu, þar á meðal hjá Norðlenska á Húsavík.

Það í mörg horn að líta á þessum tíma eins og gefur að skilja. Finna þarf gistingu fyrir alla tímabundna starfsmenn sem er meira en að segja það nú þegar ferðaþjónustan er enn í fullum gangi þetta haustið, koma þarf öllu þessu fólki til landsins og fleira í þeim dúr. Starfsmenn á sláturtíð eru vel á annað hundrað og eru þeir af 16 þjóðernum. Slátrun hófst 31. ágúst og síðasti sláturdagur verður 27. október.

Það sem af er er meðalvigt hússins 16,7 kíló sem er í tæpu meðallagi. Þegar er búið að slátra það mörgum gripum að líkast til verður það niðurstaðan eftir haustið, það er vigt í tæpu meðallagi.

Á dögunum kom kínverskt sendinefnd í sláturhúsið til úttektar með það fyrir augum að hefja innflutning á íslensku lambakjöti til Kína. Að sögn Sigmundar Hreiðarssonar, vinnslustjóra hjá Norðlenska á Húsavík, gekk heimsóknin vel og var hin ánægjulegasta. Ekki var að merkja annað en að sendinefndinni hafi litist vel á og vonandi verður í framhaldinu haldið áfram með þá vinnu að selja kindakjöt til Kína.

Vandi sauðfjárvænda hefur verið mikið í umræðunni í haust. Á dögunum kom tillaga frá landbúnaðarráðherra þar sem bændum er boðið að hætta sauðfjárbúskap gegn því að fá ákveðnar ívilnanir í staðinn. Raunar er þetta tilboð í uppnámi nú eftir að ríkisstjórnin sprakk en engu að síður forvitnaðist blaðamaður framsyn.is hvort það sé merkjanlegt á sláturloforðum haustsins að bændur væru að taka þessu tilboði landbúnaðarráðherra? Sigmundur sagði að ekki væri útlit fyrir annað og eins og staðan er núna verði framleiðsla ársins 2018 svipuð og í ár og undanfarin ár hjá Norðlenska. 

Skortur á vinnuafli í Þingeyjarsýslum

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni,  fór í heimsókn í vikunni í ÚA sem rekur fiskþurrkun í Reykjadal sem áður bar nafnið Laugafiskur. Að venju var mikið að gera og starfsmenn gáfu sér varla tíma til að líta upp frá vinnunni. Í  máli þeirra kom fram að vöntun er á starfsfólki til starfa. Formaður Framsýnar átti gott spjall við starfsmenn og borðaði með þeim morgunverð.

Skrifað undir í dag

Rétt í þessu skrifuðu fulltrúar Framsýnar, stéttarfélags og Fjallalambs undir samning um kaup og kjör starfsmanna í sláturtíðinni á Kópaskeri í haust. Aðilar hafa gert með sér samning á hverju ári um kjör og aðbúnað starfsmanna. Það er til mikillar fyrirmyndar að Fjallalamb skuli leggja áherslu á að viðhalda samningnum og gefa starfsmönnum og þar með Framsýn möguleika á að koma með breytingar  á samningnum enda sé talin ástæða til þess á hverjum tíma.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Aðalsteinn Árni og Björn Víkingur handsöluðu samninginn í dag eftir viðræður/samræður síðustu daga.

Vilt þú vera fulltrúi Framsýnar á þingi AN?

  1. þing Alþýðusambands Norðurlands verður haldið að Illugastöðum í Fnjóskadal 29. og 30. september 2017. Framsýn á rétt á 30 fulltrúum á þingið. Félagið hefur ákveðið að biðla til áhugasamra félagsmanna sem vilja gefa kost á sér á þingið sem verður bæði fræðandi og skemmtilegt. Áhugasömum er bent á að hafa samband við formann félagsins, Aðalstein Árna Baldursson fyrir næsta mánudag. Netfangið er kuti@framsyn.is.

 

Dagskrá 35. þings Alþýðusambands Norðurlands

Föstudagur 29. september 2017

10:00     Setning þingsins

Skýrsla stjórnar

Skipun starfsnefnda þingsins

Helstu málefni þingsins verða vinnumarkaðsmál, menntamál, jafnréttismál og velferðarmál.

Skipun kjörbréfanefndar

 

10:30        Vinnumarkaðurinn – fortíð – nútíð – framtíð.                         

                    Fækkun starfa og menntunarþörf

                    Róbert Farestveit hagfræðingur hjá ASÍ

 11: 00 – 11.10 Kaffihlé

                    11:10        Raunheimar tækninnar –

                    Andri Már Helgason  frá Advania

 11:40       Mikilvægi menntunar  á vinnumarkaði

                 Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri hjá Símey      

 12:10       Hádegisverður (súpa og brauð)

 

12:40     Hlutverk og gildi kjarasamninga á breyttum vinnumarkaði.

                   Halldór Oddsson lögfræðingur hjá ASÍ

 13:10      Er verkalýðshreyfingin fyrir ungt fólk á vinnumarkaði? Raddir framtíðar.

                Hvað segja þeir sem landið munu erfa? Þingeyskir og Eyfirskir ungliðar                                                                                                                                                                                                                                  

 13:30 :13:40  Kaffihlé

 13:40   Kvennastörf – karlastörf. Er jafnrétti til staðar á vinnumarkaði í dag?

                  Tryggvi Hallgrímsson  frá Jafnréttisstofu

                14: 10    Önnur mál

14:20    AN 70 ár

                 Hákon Hákonarson flytur stutta samantekt um sögu AN.

 14:50 – 15:20  Kaffihlé

15:20    Skipting í vinnuhópa – Málefnahópar – Vinnumarkaðsmál – menntamál,                       

                 jafnréttismál og velferðarmál.  Eyrún Valsdóttir stjórnar vinnuhópum.

 17: 00   Hlé

            20:00      Kvöldverður og kvöldvaka, gaman saman

 Laugardagur 30. september 2017

 09:00 – 10:00  Morgunverður

 10:00      Afgreiðsla og ályktanir

Niðurstaða tillagna frá málefnanefndum og stjórn kynntar og lagðar fram til umsagnar og afgreiðslu.

Ályktanir þingsins.

10:45         Ársreikningar 2015 og 2016

Fjárhagsáætlun 2017-2018

11:10     Kosningar

 11:15     Önnur mál

 11:30     Þingslit

                 Hádegisverður

 Nefndir á þinginu:

Gert er ráð fyrir að fjórar nefndir starfi á þinginu og fjalli um vinnumarkaðsmál, velferðarmál, menntamál og jafnréttismál.

Á þinginu mun stjórn sambandsins flytja tillögu um fjárhagsáætlun fyrir árin 2017-2018 og næstu stjórn, varastjórn og skoðunarmenn reikninga.  Jafnframt mun stjórnin sjá um vinnslu og afgreiðslu kjörbréfa.

 

Fulltrúafjöldi á þingið:

Samkvæmt lögum Alþýðusambands Norðurlands hefur hvert aðildarfélag rétt á að senda 1 fulltrúa fyrir allt að 100 félagsmenn og síðan 1 fulltrúa fyrir hvert hundrað félagsmanna eða brot úr hundraði, ef það nemur hálfu hundraði eða meiru. Tala varafulltrúa fer eftir sömu reglum. Fulltrúatala miðast við tölu félagsmanna 1. janúar 2017.

Æskilegt er að aðildarfélög sendi upplýsingar um fulltrúa á þinginu (kjörbréf) á okkah@hotmail.com a.m.k. viku fyrir þing.

 

Allar nánari upplýsingar um þingið veita:

 

  • Ósk Helgadóttir    formaður AN                              okkah@hotmail.com      8626073

 

  • Jóhann Sigurðsson varaformaður AN                     johann@fma.is                8480881

 

Stjórn Alþýðusambands Norðurlands skipa :

Ósk Helgadóttir

Jóhann Sigurðsson

Jón Ægir Ingólfsson

Varastórn:

Anna Júlíusdóttir

Agnes Einarsdóttir

Vigdís Elva Þorgeirsdóttir

 

 

 

Vinnustaðafundur á Bakka

Fyrr í dag áttu fulltrúar stéttarfélaganna vinnustaðafund á Bakka. Það var fyrirtækið Constructus ehf. sem var heimsótt. Constructus hefur verið að störfum á Bakka síðan í vor og mun verða fram á vetur. Allir starfsmenn fyrirtækisins koma frá Litháen en fyrirtækið er þó íslenskt.
Þetta var hinn ágætasti fundur og var fulltrúum stéttarfélaganna tekið vel. Starfsmenn voru áhugasamir og spurðu út í sín réttindi. Meðfylgjandi myndir voru teknar á meðan á fundinum stóð.