Miklar og góðar umræður urðu um skipulagsmál stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands á síðasta stjórnarfundi Framsýnar. Svo virðist sem laganefnd og miðstjórn ASÍ fylgi ekki eftir ákveðinni reglu þegar kemur að því að samþykkja félagssvæði stéttarfélaga. Sum félög eru orðin landsfélög, önnur landshlutafélög sbr. Félag Málmiðnarðmanna á Akureyri sem fékk samþykktar lagabreytingar sem fólu í sér að gera félagssvæðið stærra og það næði yfir félagssvæði annarra iðnaðarmannafélaga á Norðurlandi, þar á meðal félagssvæði Þingiðnar. Þingiðn brást við þessu með því að gera breytingar á sínum félagslögum, þannig að félagssvæðið yrði allt Ísland. Þess ber að geta að landsfélög iðnaðarmanna hafa verið að sækja inn á félagssvæði Þingiðnar sem og FMA sem stækkaði sitt félagssvæði yfir Þingiðn og getið er um hér að framan. Laganefnd og miðstjórn ASÍ ákváðu að hafna Þingiðn um að breyta lögum félagsins sem er ótrúlegt en satt. Þingiðn kallaði eftir fundargerðum vegna afgreiðslu miðstjórnar, annars vegar á lögum Félags málmiðnarmanna á Akureyri og hins vegar á lögum Þingiðnar. Það er athyglisvert að sjá að sömu miðstjórnarmenn standa að þessum ákvörðunum sem eru á skjön og standast því ekki jafnræðisreglur. Lögfræðingar á vegum Þingiðnar hafa skoðað þennan gjörning og gefið út að það sé borðliggjandi að það hafi verið brotið á Þingiðn. Ljóst er að veruleg gerjun er meðal stéttarfélaga að skoða sín mál, það er sameiningu við önnur félög og að stækka sín félagssvæði. Á fundi stjórnar Framsýnar í vikunni komu þessi mál til umræðu. Samþykkt var að leggjast í vinnu við að skoða hvort stjórnin leggi fram tillögu á næsta aðalfundi félagsins sem haldinn verður eftir nokkrar vikur, það er að félagið stækki félagssvæðið í takt við samþykkt Félags Málmiðnarmanna á Akureyri. Það ætti að vera auðsótt mál enda fordæmi fyrir því hjá laganefnd og miðstjórn ASÍ.