Á síðasta stjórnarfundi Framsýnar sem haldinn var síðasta þriðjudag, fór formaður Aðalsteinn Árni, nokkrum orðum um breytingarnar sem orðið hafa í verkalýðshreyfingunni með tilkomu nýrra formanna hjá VR og Eflingu. Ljóst væri að framundan væru áhugaverðir tímar með ungu og efnilegu fólki. Atvinnurekendur væru strax byrjaðir að skjálfa og þá væri einnig verulegur skjálfti hjá forystu ASÍ sem hefði ekki alltaf talað í takt við verkafólk í landinu. Þá liggur fyrir að formenn Framsýnar, Verkalýðsfélags Akraness, VR og Eflingar, það er verðandi formaður félagsins hafa myndað með sér bandalag til að berjast fyrir breytingum í íslenskum verkalýðsmálum og á lífeyrissjóðakerfinu. Aðalsteinn spurði stjórnarmenn hvort hann hefði umboð stjórnar til að halda þessari baráttu áfram. Í máli stjórnarmanna kom skýrt fram að formaður Framsýnar hefði fullt umboð frá stjórn félagsins til að taka þátt í þessu áhugaverða samstarfi með þessum þremur formönnum og öðrum þeim sem vildu koma að þessu mikilvæga verkefni. Það væri löngu tímabært að taka til innan hreyfingarinnar með því að leggja sérstaka áherslu á hækkun lægstu launa og aðkallandi breytingar á lífeyrissjóðakerfinu. Eftir góðar og málefnalegar umræður var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða sem tók mið af umræðunni á fundinum:
Ályktun um vorið í íslenskri verkalýðshreyfingu
„Framsýn, stéttarfélag fagnar nýjum straumum í íslenskri verkalýðsbaráttu. Með kjöri á nýrri forystu í stærstu stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands, er að verða til ný sýn á baráttu verkafólks. Þar er meðal annars talað fyrir löngu tímabærum breytingum á lífeyrissjóðakerfinu. Framsýn lýsir sig reiðubúið til að starfa með nýju fólki að málefnum verkafólks, enda hefur félagið lengi kallað eftir breytingum sem þessum innan verkalýðshreyfingarinnar. Sameining og gagnsæi lífeyrissjóða, reglur um hámarks stjórnarsetu innan þeirra, ásamt siðferði í fjárfestingum lífeyrissjóða eru atriði sem meðal annars hafa verið félaginu hugleikin. Það er til að mynda siðlaust að forstjóri olíufélags fái greiddar bónusgreiðslur og hagnist með því persónulega á að halda niðri launum annarra starfsmanna, það gerist í skjóli lífeyrissjóða sem eru í eigu viðkomandi starfsmanna. Sjóða sem eru kjölfestufjárfestar í íslensku atvinnulífi. Hvaða vitleysa er þetta eiginlega!
Það verður ekki síst verkefni nýrrar verkalýðshreyfingar að vinna á móti siðleysi af þessu tagi og skera upp lífeyrissjóðakerfið, þá með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.
Framsýn hefur ítrekað ályktað um stöðuna í kjaramálum og kallað eftir öflugri verkalýðsbaráttu. Félagið lagðist á árar með þeim stéttarfélögum innan ASÍ sem vildu að samningunum yrði sagt upp nú í febrúar enda allar forsendur kolfallnar.
Það er ekki hlutverk verkalýðsfélaga að gelta. Það er einnig tilgangslaust að glefsa með því að álykta um málefni verkafólks ef hugur fylgir ekki máli og menn slái undan þegar taka þarf stórar ákvarðanir eins og að segja upp kjarasamningum.
Samtök atvinnurekenda óttast breytingarnar sem framundan eru með nýju fólki í brúnni hjá öflugustu stéttarfélögum landsins. Það er vel, enda löngu tímabært að íslenska verkalýðshreyfingin hristi af sér doðann og bíti hraustlega frá sér. Látum þá skjálfa!“