Framsýn hefur undirbúning við mótun kröfugerðar- vill sjá harðari baráttu og Flóinn verði samferða öðrum aðildarfélögum SGS í kjarabaráttunni

Framsýn stéttarfélag samþykkti á fundi sínum í gær með stjórn, trúnaðarráði og samninganefnd félagsins að hefja formlegan undirbúning að mótun kröfugerðar vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Í því sambandi horfir félagið til tillagna Starfsgreinasambands Íslands varðandi undirbúninginn. Þar kemur fram að aðildarfélögin skili inn skýrslu til sambandsins um hvernig undirbúningi að kröfugerð verði háttað innan félaganna, það er í síðasta lagi fyrir 10. maí 2018.

Fundarmenn voru sammála um að gamla fundaformið væri ekki að skila tilætluðum árangri til að kalla fram skoðanir félagsmanna, þess í stað var ákveðið að ráðast í vinnustaðaheimsóknir um miðjan maí sem ætlað er að standa í nokkrar vikur enda nær félagssvæði Framsýnar yfir um 18% af landinu. Samhliða verði kallað eftir viðhorfum trúnaðarmanna á vinnustöðum sem eru í góðu sambandi við samstarfsmenn sína. Framsýn hefur byggt upp öflugt trúnaðarmannanet með frábæru fólki sem ætlað er töluvert hlutverk í mótun kröfugerðar félagsins. Þá verður einnig auglýst eftir kröfum félagsmanna með það að markmiði að þeir skili þeim á skrifstofu Framsýnar á Húsavík.

Þegar þessari vinnu lýkur verði boðað til félagsfundar þar sem afraksturinn eftir vinnustaðaheimsóknirnar og samtöl við trúnaðarmenn verða kynnt og tekin til afgreiðslu. Tímasetning þessa fundar eða funda liggja ekki fyrir endanlega en verða væntanlega haldnir í byrjun september.

Framsýn horfir til þess í ljósi stöðunnar, þar sem ekki náðist samstaða um að segja upp kjarasamningum í febrúar, að aðildarfélög Starfsgreinasambandsins standi við stóru orðinn. Sérstaklega þau félög sem lögðust gegn uppsögn samninga og tala nú fyrir öflugri kjarabaráttu í komandi kjaraviðræðum.

Í því sambandi hefur Framsýn lagt áherslu á að öll félög innan Starfsgreinasambandsins leggi fram sameiginlega kröfugerð, það er að stéttarfélög innan Flóabandalagsins sameinist öðrum félögum innan sambandsins.  Að mati Framsýnar samræmist það ekki hagsmunum félagsmanna aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands að samningaviðræðurnar fari fram í tveimur herbergjum í Karphúsinu. Sú tíð er vonandi liðin og engum til bóta með nýju fólki hjá Eflingu.

Gangi þetta ekki eftir mun Framsýn endurskoða sýna afstöðu og ákveða með framhaldið með þeim stéttarfélögum sem velja leið Framsýnar stéttarfélags, það er að leiðrétta kjör þeirra sem búa við kjör og réttindi sem ekki eru boðleg íslensku verkafólki. Komi til þess að sækja þurfi þessar kröfur með aðgerðum ber að gera það að fullri hörku að mati stjórnar, trúnaðarráðs og samninganefndar Framsýnar stéttarfélags sem samþykkti samhljóða þessa áætlun á fundi sínum á þriðjudaginn.

Deila á