Hangikjöt í hádeginu á Garðarsbraut 26

Síðastliðin föstudag, 1. desember gerðu starfsmenn á Garðarsbraut 26 sér dagamun í hádeginu í tilefni að því að stutt er til jóla. Boðið var upp á hangikjöt með jafning og öðru tilheyrandi meðlæti. Í eftirrétt var ís og ávextir upp á gamla mátann. Eftirfarandi myndir eru frá þessari stundu.

3,6% atvinnuleysi í október

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 201.100 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í október 2017, sem jafngildir 82% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 193.800 starfandi og 7.200 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 79% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 3,6%.

Samanburður mælinga fyrir október 2016 og 2017 sýna að atvinnuþátttaka fólks stendur í stað. Þó að starfandi fólki hafi fjölgað um 4.900 lækkaði hlutfall þeirra af mannfjölda um 0,8 prósentustig. Atvinnulausir eru um 2.000 fleiri en á sama tíma árið 2016 og hlutfall þeirra jókst um 0,9 prósentustig. Alls voru 44.300 utan vinnumarkaður og fjölgaði þeim um 1.700 manns frá því í október 2016 en þá voru þeir 42.600.

Lesa má nánar um framkvæmd og aðferð rannsóknarinnar á vef Hagstofunnar.

Arnór uppfærir vefinn

Arnór Aðalsteinn Ragnarsson hefur tekið að sér viðhald á vef stéttarfélaganna, Framsyn.is. Arnór sem hefur lokið prófi í vefþróun frá Tækniskólanum er nýlega fluttur til Húsavíkur með sína fjölskyldu og hefur hafið sjálfstæðan rekstur í vefhönnun, vefsíðugerð og aðra slíka þjónustu. Arnór kemur til með að þjónusta vefsíðuna eftir þörfum.

Þess má geta að aðrir sem kynnu að hafa áhuga á þjónustu Arnórs geta náð í hann í síma 8669685.

Hér að ofan má sjá Arnór vera búinn að koma sér fyrir á Garðarsbraut 26 ásamt Aðalsteini. J. Halldórssyni, starfsmanni stéttarfélaganna.

Framsýn skorar á ráðamenn að bæta stöðu sjúklinga

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar samþykkti í morgun að senda frá sér meðfylgjandi áskorun til ráðamanna þjóðarinnar sem þessa dagana vinna að því að koma saman stjórnarsáttmála fyrir verðandi ríkistjórn, verði hún að veruleika. Áskorunin varðar stöðu fólks á landsbyggðinni þar sem heilbrigðisþjónusta hefur verið skorin niður eða hún skert í skjóli hagræðingar.

Gríðarlegur kostnaður er því fylgjandi fyrir þá fjölmörgu aðila sem þurfa að sækja sér heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð. Á sama tíma og borið er við hagræðingu og sparnaði fyrir ríkið er kostnaðinum varpað beint í fangið á sjúklingum og veiku fólki sem þarf á þessari þjónustu að halda búandi fjarri Reykjavík.

Framsýn telur stöðu þessa fólks  óviðunandi með öllu og við hana verði ekki unað lengur.

Ríkistjórn sem vill kenna sig við velferð, getur ekki lokað augunum fyrir þessum mikla vanda fólks á landsbyggðinni.

 

Áskorun

Til nýkjörinna ráðamanna þjóðarinnar

Framsýn stéttarfélag skorar á nýkjörna ráðamenn þjóðarinnar að bregðast við þeim vanda sem fólk í hinum dreifðu byggðum landsins býr við vegna langvarandi niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu.

Það er lýðum ljóst að einn lykilþátturinn í því að tryggja búsetu um landið allt er góður aðgangur að heilbrigðisþjónustu.  Þrátt fyrir marg yfirlýstan vilja stjórnvalda um að tryggt verði að heilbrigðisstofnanir landsins haldi lögbundnum hlutverkum sínum og landsmenn njóti jafnra möguleika til heilbrigðisþjónustu er það ekki svo í reynd.

Mörg undanfarin ár hafa íbúar landsbyggðarinnar þurft að láta yfir sig ganga skerðingar á heilbrigðisþjónustu, þar sem hurðum er lokað á hverri sjúkrastofnuninni eftir annarri –  lokað í nafni hagræðingar, og fólki gert að sækja læknisþjónustu um langan veg, oftast til Reykjavíkur. Því fylgir gríðarlega mikill kostnaður, vinnutap og óöryggi, jafnvel fjarvistir frá fjölskyldu um lengri eða skemmri tíma.

Húsnæðisúrræði á vegum ríkisins fyrir þá sem þurfa að dvelja langdvölum fjarri heimili sínu eru af skornum skammti og niðurgreiðslur Tryggingastofnunar Ríkisins vegna ferðakostnaðar sjúklinga og aðstandenda þeirra duga skammt þegar um langvinn veikindi eða um bið barnshafandi kvenna eftir fæðingu er að ræða. Efnaminna fólk ræður einfaldlega ekki við þennan mikla viðbótarkostnað, enda á það ekki að flokkast undir lúxus þeirra efnameiri að geta leitað eftir heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Krafa Framsýnar sem byggir á heilbrigðri skynsemi, er að það komi skýrt fram í stjórnarsáttmála verðandi ríkisstjórnar að sérstaklega verði tekið á vanda þess  fólks sem þarf að sækja læknisþjónustu um langan veg með auknum framlögum er tengist ekki síst ferða- og dvalarkostnaði sjúklinga. Þá verði tekið á húsnæðisúrræðum fyrir þá aðila sem þurfa að dvelja frá heimili tímabundið vegna heilbrigðisþjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð.

 

Framsýn hvetur lífeyrissjóði til að halda sínu striki

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti nýlega að hvetja lífeyrissjóði á samningssviði ASÍ og Samtaka atvinnulífsins að draga tímabundið til baka valkvæði sjóðsfélaga um að ráðstafa auknu framlagi í tilgreinda séreign.

Stjórn Framsýnar er alfarið á móti því að stíga þetta skref til baka. Lífeyrissjóðirnir hafa þegar haldið auka ársfundi til að breyta samþykktum sjóðanna svo þeir geti tekið við auknum framlögum sjóðfélaga í viðkomandi lífeyrissjóði.  Þessi hringlandaháttur ASÍ er með ólíkindum og ekki til þess fallinn að auka tiltrú fólks á lífeyrissjóðakerfinu. Þess vegna hafnar stjórn Framsýnar tilmælum miðstjórnar Alþýðusambands Íslands og hvetur stjórnir lífeyrissjóða  til að fylgja eftir áður samþykktum breytingum á regluverki sjóðanna sem gerir þeim kleift að taka á móti tilgreindri séreign. Þá telur Framsýn mikilvægt að Alþingi afgreiði ný lög um lífeyrissjóði, lög sem voru í undirbúningi áður er ríkistjórnin féll frá.

Fleiri stéttarfélög og sambönd hafa einnig tekið málið fyrir og ályktað, þar á meðal Rafiðnarsamband Íslands. Í ályktun sambandsins kemur fram:

„Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands harmar þá ákvörðun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands að hvetja lífeyrissjóði sem starfa á samningssviði ASÍ og SA að draga tímabundið til baka valkvæði um greiðslur sjóðfélaga í tilgreinda séreign. Félagsmenn hafa samþykkt þann kjarasamning sem tilgreinda séreignin er byggð á og því verður valkvæðið að standa. 

Miðstjórn RSÍ áréttar að mikilvægt er að Alþingi breyti lögum um lífeyrissjóði þar sem félagsmönnum er gert heimilt að ráðstafa iðgjaldi í tilgreinda séreign eins og samið var um á sínum tíma. Þá er lykilatriði að lagabreyting verði í samræmi við ákvæði kjarasamningsins enda starfa lífeyrissjóðir í samræmi við kjarasamning ASÍ og SA.“

 

Jólafundur Framsýnar

Hinn árlegi jólafundur Framsýnar verður haldinn í fundarsal stéttarfélaganna föstudaginn 8. desember. Dagskrá fundarins hefst kl. 19:30. Þeim sem er boðið að taka þátt í síðasta fundi ársins, eru stjórn og trúnaðarráði félagsins, trúnaðarmönnum á vinnustöðum, stjórnum deilda, stjórn Framsýnar-ung og starfsmönnum Skrifstofu stéttarfélaganna. Eftir hefðbundin fundarstörf verður boðið upp á kvöldverð og skemmtiatriði sem undirbúningsnefnd fundarins sér um undir stjórn Svövu Árnadóttur. Skráning á fundinn er á Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir næstu mánaðamót.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hefð er fyrir því að stjórnendur Framsýnar geri sér glaðan dag eftir síðasta fund ársins.

 

 

Námskeið fyrir félagsmenn

Stéttarfélögin stóðu fyrir tveimur kvöldnámskeiðum í nóvember fyrir félagsmenn í góðu samráði við Þekkingarnet Þingeyinga og fræðslusjóði sem félagsmenn stéttarfélaganna eiga aðild að. Annars vegar var um að ræða námskeiðið; Trú á eigin getu. Leiðbeinandi á námskeiðinu var, Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur. Námskeiðið var ætlað þeim sem vilja styrkja sig enn frekar auk þess að hafa jákvæð áhrif á aðra. Eins og kunnugt er, er sjálfstraust undirstaða margra færniþátta, svo sem hvernig okkur vegnar í samskiptum við aðra. Hitt námskeiðið nefndist; Betri svefn – Grunnstoð heilsu. Á námskeiðinu var fjallað um mikilvægi svefns fyrir andlega og líkamlega heilsu með sérstökum áherslum á svefn meðal barna og unglinga. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Dr. Erla Björnsdóttir. Bæði námskeiðin gengu vel og voru þátttakendur ánægðir með setuna á námskeiðunum. Hafi félagsmenn stéttarfélaganna ábendingar um góð námskeið eru þeir beðnir um að setja sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jóhann Ingi Gunnarsson er einn okkar fremsti leiðbeinbandi. Hann var með fyrirlestur á námskeiði á vegum stéttarfélaganna og Þekkingarnets Þingeyinga í síðustu viku.

Gallup- Góð þekking á starfsemi Framsýnar

Gallup gerði könnun fyrir Framsýn í október og nóvember. Markmiðið var að kanna vitund almennings á Íslandi um Framsýn, stéttarfélag. Könnunin náði til 1413 einstaklinga af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.  Þátttökuhlutfallið var 59,8%.

Í mjög stuttu máli kom könnunin almennt mjög vel út fyrir félagið þar sem stór hluti þjóðarinnar er kunnugt um starfsemi félagsins, það er þekkir mjög vel til félagsins, frekar vel eða hefur heyrt talað um Framsýn.

Aldraðir vita mest um starfsemina og ungt fólk minnst. Svo dæmi tekið vissu 79% þeirra sem eru eldri en 65 ára um starfsemina meðan aðeins 12% ungs fólks innan við 24 ára aldur vissi af starfseminni.

Almennt þekkja þeir sem eru á vinnumarkaði og eru á aldrinum  45 ára upp í 64 ára aldur ágætlega til starfseminnar eða um 72% svarenda. Þegar neðar dregur í aldri þeirra sem eru á vinnumarkaði dregur aðeins úr vitneskju þeirra um starfsemi Framsýnar.

Þá vita karlar töluvert meira um starfsemina en konur. Félagsmenn sem vilja fræðast betur um könnunina er velkomið að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna þar sem könnunin liggur frammi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Upplýsingar um desemberuppbót

Félagsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum eiga rétt á að fá greidda desemberuppbót samkvæmt kjarasamningum. Upphæðin er mismunandi eftir samningum og við hvaða tímabil er miðað varðandi skilgreiningu á fullu starfi. Uppbótina skal greiða í einu lagi og ofan á hana reiknast ekki orlof.

Full desemberuppbót árið 2017 er kr. 86.000 hjá þeim sem vinna á almennum vinnumarkaði. Greiða skal uppbótina fyrir 15. desember ár hvert.

Full desemberuppbót árið 2017 er kr. 86.000 hjá þeim sem vinna hjá ríkisstofnunum.  Greiða skal uppbótina 1. desember ár hvert.

Full desemberuppbót árið 2017 hjá þeim sem vinna hjá sveitarfélögum er kr. 110.750. Greiða skal uppbótina 1. desember ár hvert.

Rétt er að taka fram að desemberuppbótin getur í ákveðnum tilvikum verið hærri en hér kemur fram. Það á við um þá starfsmenn Framsýnar og Starfsmannafélags Húsavíkur sem hafa langa starfsreynslu hjá sveitarfélögum. Í tilfelli Framsýnar nær ákvæðið til starfsmanna sem voru við störf hjá sveitarfélögum  fyrir 29. apríl 1997. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

 

Stjórnarfundar á morgun, þriðjudagur

Stjórn Framsýnar kemur saman til fundar á morgun, þriðjudaginn 14. nóvember kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Bókhaldskerfi stéttarfélaganna
  4. Gallup-könnun
  5. Jarðboranir-samningur
  6. Aðalfundir deilda
  7. Jólafundur félagsins
  8. Tilgreind séreign
  9. Þing og ráðstefnur
  10. Umsókn um styrk vegna ljósmyndasýningu
  11. Kjaraþing SGS
  12. Tilnefning í kjörnefnd/ 6.7.des
  13. Samtarf við ÞÞ um námskeiðahald
  14. Aðgerðaráætlun Framsýnar gagnvart eineldi og kynbundu ofbeldi
  15. Minnisblað SGS: Kynferðisleg áreitni
  16. Starfsmannamál
  17. Önnur mál
    a) Skipunarbréf formanns í Félagsmálaskóla alþýðu

 

Næsti fundur stjórnar verður svo útvíkaður, auk stjórnar verður trúnaðarráði, Framsýn-ung, trúnaðarmönnum félagsins á vinnustöðum og starfsmönnum stéttarfélaganna boðið að taka þátt í fundinum sem haldinn verður 8. desember í fundarsal stéttarfélaganna.

VM í kynnisferð á Húsavík

Fyrir helgina komu góðir gestir í heimsókn frá Félagi vélstjóra- og málmtæknimanna til að kynna sér uppbygginguna á Bakka og á Þeistareykjum.  Félagið er landsfélag með aðsetur í Reykjavík. Gestirnir sem komu í heimsókn voru Guðni Gunnarsson, Elzbieta Sajkowska og Benóný Harðarson. Eftir kynningu á framkvæmdunum hjá stéttarfélögunum var farið í heimsókn til forsvarsmanna PCC á Bakka sem tóku vel á móti fulltrúum VM og stéttarfélaganna á Húsavík. Þaðan var síðan haldið á Þeistareyki þar sem fulltrúi á vegum Landsvirkjunar opnaði sína arma og fræddi gestina um stöðvarhúsið og orkuöflun Landsvirkjunar á svæðinu. Meðfylgjandi þessari frétt eru myndir sem teknar voru úr ferð fulltrúa VM norður í Þingeyjarsýslu. Ástæða er til að þakka fullrúum PCC og Landsvirkjunar fyrir góðar móttökur.

Framsýnarmótið um helgina

Framsýnarmótið í skák 2017 verður haldið í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík um næstu helgi, það er 3.-5. nóvember.

Tefldar verða 7 umferðir alls. Fyrstu fjórar með atksákartímamörkum (25 mín á mann) en þrjár síðustu skákirnar með 90 mín + 30 sek/leik.

Mótið verður reiknað til Fide-skákstiga, Fide-atskákstiga og Íslenskra skákstiga.

Skákstjóri verður Ingibjörg Edda Birgisdóttir.

Yfirseta

Keppendum verður heimilt að taka bye (sjálfvalda yfirsetu) í tveimur umferðum og fá fyrir það hálfan vinning. Það verður þó hvorki heimilt í fyrstu umferð né þeirri síðustu.

Tilkynna verður skákstjóra um yfirsetu áður en parað er í viðkomandi umferð.

Þátttökugjald

2000 kr. en 1000 kr. fyrir 16 ára og yngri.

Dagskrá.

  • Föstudagur 3. nóvember kl 20:00 1. umferð
  • Föstudagur 3. nóvember kl 21:00 2. umferð
  • Föstudagur 3. nóvember kl 22:00 3. umferð
  • Föstudagur 3. nóvember kl 23:00 4. umferð
  • Laugardagur 4. nóvember kl 11:00 5. umferð
  • Laugardagur 4. nóvember kl 17:00 6. umferð
  • Sunnudagur 5. nóvember kl  11:00 7. umferð

Verðlaun.

Veittir verða eignarbikarar í verðlaun handa þremur efstu af félagsmönnum Hugins og einnig fyrir þrjá efstu utanfélagsmenn. Einnig verða sérstök verðlaun veitt fyrir þrjá efstu í flokki 16 ára og yngri.

Það er stéttarfélagið Framsýn í Þingeyjarsýslu sem gefur verðlaun á mótinu. Veitingar á mótsstað verða jafnframt í boði Framsýnar stéttarfélags.

Fyrirtækið Eflir almannatengsl, hefur ákveðið að veita sérstök verðlaun á Framsýnarmótinu 2017 fyrir mestu stigabætinguna.

Skráning.

Væntanlegir keppendur geta skráð sig til leiks á þar til gerðu skráningarformi sem er hér og einnig á skák.is Hægt verður að skrá sig til keppni fram til kl 19:30 á föstudag, eða 30 mín áður en mótið hefst. Hægt verður einnig að skrá sig í mótið á mótsstað til kl 19:55 föstudaginn 3. nóvember.

 

Við gerum enn betur við félagsmenn- lögfræðiþjónusta í boði

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa gert samkomulag við PACTA lögmenn um almenna þjónustu við félagsmenn sem þurfa á lögfræðiþjónustu að halda er varðar þeirra einkamál.

Samkomulag stéttarfélaganna við PACTA lögmenn byggir á því að félagsmenn geta leitað til þeirra með þjónustu. Ekki þarf að greiða fyrir fyrsta tímann sem er gjaldfrjáls. Komi til þess að lögmenn PACTA þurfi að vinna frekar í málum fyrir félagsmenn fá þeir 15% afslátt frá fullu gjaldi.

Til fróðleiks má geta þess að PACTA býður upp á alla almenna lögfræðiþjónustu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir. Um er að ræða persónulega þjónustu á fimmtán starfsstöðvum víðs vegar um land, m.a. að Garðarsbraut 26 á Húsavík, efri hæð. Þar starfar Hallgrímur Jónsson lögfræðingur. Síminn á skrifstofunni er 440-7900. Opnunartími skrifstofu er 8-16 alla virka daga.

Félagsmenn sem vilja nýta sér þessa þjónustu er bent á að hafa samband við Hallgrím Jónsson, hallgrimur@pacta.is eða við Ásgeir Örn Blöndal lögmann asgeirorn@pacta.is.

Heimasíða PACTA, lögmanna er pacta.is og símanúmerið er 4407900.

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum 

Þingiðn svarar fyrir sig

Veruleg óánægja er meðal félagsmanna Þingiðnar um ákvörðun Félags málmiðnarmanna á Akureyri að valta yfir félagssvæði Þingiðnar með því að stækka félagssæðið yfir félagssvæði Þingiðnar. Að sjálfsögðu eru þetta stór undarleg vinnubrögð svo ekki sé meira sagt. Þingiðn hefur nú ákveðið að gera breytingar á félagssvæðinu með að að markmiði að útvíka það í takt við önnur félög innan Samiðnar sem farið hafa þá leið og stækka sín félagssvæði, jafnvel yfir önnur félagssvæði stéttarfélaga innan Samiðnar. Félagið taldi því rétt að svara þessu með því að gera Ísland allt að félagssvæði Þingiðnar. Erindi þess efnis hefur verið komið til Alþýðusambands Íslands.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vegna yfirgangs annarra félaga innan Samiðnar hefur Þingiðn ákveðið að stækka félagssvæðið og gera Ísland allt að félagssvæði félagsins. Formaður og varaformaður Þingiðnar hafa fundað stíft með stjórn félagsins um skipulagsmál undanfarið. Niðurstaðan liggur fyrir, það er að gera breytingar á félagssvæðnu í takt við önnur iðnaðarmannafélög innan Samiðnar.

 

 


 

MINNINGAR

Ég geri mér oft á tíðum ekki grein fyrir því að ég er eldri en ég var áður og á það til að undrast það oft á tíðum.  Það var eins og skilningarvit mín vöknuðu við auglýsingu í sjónvarpinu vegna afmælis Olís áður B.P.  Þar voru menn að velta 200 lítra tunnum uppí stæðu til geymslu og notuðu til þess sliskju. Þá rann allt í einu upp fyrir mér að það eru nú ekki mörg ár síðan að sjómenn þurftu að höndla slíkar tunnur hér á Húsavík og koma þeim um borð í skip með handaflinu einu saman. Ekki sá ég þegar að Trausti Jónsson kendur við Voga tók einn um borð í skip slíka tunnu fullri af olíu en Trausti var tröllsterkur og hraustmenni mikið þegar hann var og hét. Þetta fékk ég staðfest hjá manni sem horfði á Trausta gera þetta og sagði „Trausti var heljarmenni“og sterkur sem naut.

Ég hefi kynnst nokkrum mönnum sem vissu ekki afl sitt og töldu krafta sína ekkert merkilega hluti. Sveinbjörn Magnússon múrari og félagi minn er einn af þeim -ég minnist þess að við vorum á leiðinni til Kópaskers að vetri til,þá voru gilin á Tjörnesinu oft erfiður farartálmi, í Hallbjarnarstaðagilinu festi ég bílinn,afturhjóladrifna Cortinu ,ég hefi aldrei verið góður bílstjóri í snjó, félagi minn habbði engin orð um það, heldur dreif hann sig út til að ýta bílnum upp og hann bókstaflega lyfti bílnum upp að aftan og ýtti honum upp úr festunni og kom svo inn og sagði „helvíti er bíllinn þungur“ þegar við komum austur á Kópasker byrjuðum við auðvitað að vinna við múrverkið en fljótlega sagði Sveinbjörn að það væri einhver lumbra í sér og hann treysti sér ekki til að vinna. Félagi minn habbði tekið svo hraustlega á við bílinn í gilinu að hann var þrotinn kröftum -ansi er ég hræddur um að þetta hafi ekki verið í eina skiptið sem hann tók svona á. Ég reyndar veit það að þetta var ekki eina skiptið,við unnum saman í 20 ár í múrverki og oftar en ekki beitti hann afli sínu þegar á þurfti að halda að hans áliti.

Félagi okkar beggja „Texarinn“ Hallgrímur Aðalsteinsson ,var einnig heljarmenni oftar en ekki var hann til í átökin og hló þá gjarnan við. Vetur einn við byggingu „Varðablokkarinnar“ vorum við að hífa upp steypu á rafmagnsspili sem var góður gripur og léttI mörg sporin.

Aðstæður voru þannig að híft var upp á svalir ,spilið var þannig fest að það var þar ti gerð  járnuppistaða sem það var fest á,þannig að það var stíft uppí svalargólfið ofan við. Texarinn stjórnaði hífingum og var þetta á þriðju hæð,þegar hann er að hífa upp fór járnuppistaðan að halla fram á við ,nú var illt í efni ,Texarinn að hífa upp fullt steypusílóið og allt draslið að steypast fram af svölunum,Texarinn hélt nú ekki,heldur þreif í uppístöðuna og ætlaði sko að sjá til þess að sílóið með steypunni skildi sko komast upp,fullt sílóið hlítur að hafa vegið ein 300 kg.  Texarinn sleppti ekki ,sílóið skyldi upp,fullt af steypu ,en þarna dugði ekki kraftarmennið ,spilið ásamt Texaranum steyptust fram af þriðju hæðinni 7-8 metra fall. Á einhvern óskiljanlegan hátt skildu leiðir í fallinu, spilið fór til suðurs ,en Texarinn til norðurs  og ekki bara það ,heldur fékk minn maður mjúka lendingu að sögn Mána og lenti í sandhrúgu sem Bjössi í Bröttuhlíð var nýbúinn að sturta þarna. Texarinn stóð upp tók útúr sér sígrettuna ,hló við og sagði „,Þessu trúir Beysi ekki „-verst að missa heilt síló af steypu. Síðan gekk minn maður að spilinu skellti því á bakið og gekk með það uppá þriðju hæð ,gékk þar frá því og sagði „Við getum haldið áfram að steypa félagi.“

Örn Byström Einarsstöðum

   Í tilefni dagsins

Ég er morgunhani. Finnst gott að taka daginn snemma og skella mér í sund áður en ég tekst á við vinnudaginn. Það er enn árla morguns þegar ég smeygi mér ofan í ylvolga laugina, næðisstundin er mín og ég hlakka til að teygja úr mér í  flauelsmjúku vatninu. Það ekkert sem truflar hugsanir mínar og þegar ég spyrni mér frá bakkanum set ég niður verkefni dagsins í huganum, brýt heilann um málefni líðandi stundar, eða bara um lífið og tilveruna.

Í dag er 24. október, daginn þann árið 1975 lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mik­il­vægi vinnu­fram­lags kvenna fyr­ir þjóðfé­lagið. Mér verður hugsað til baka, man eftir svart hvítum fréttamyndum sjónvarps frá þeim degi,  og man að hjarta 12 ára stelpu sló með skeleggum konum, sem þúsundum saman hópuðust á Austurvöll  og mótmæltu kúgun og óréttlæti.

Það var eitthvað sem kom því inn hjá mér strax í bernsku að þegar ég yrði fullorðin langaði mig umfram allt að verða sjálfstæð og hafa yfir mínu lifi að segja. Að vera þriðja í systkinaröð, á eftir tveimur kraftmiklum strákum hefur líkast til jafnað út hin mjúku (kvenlegu) gildi og gert það að ég mátti berjast fyrir mínum stað í tilverunni. Viðurkenni fúslega að eiga erfitt með að vera sett skör neðar en aðrir menn, er enda haldin þeirri bjargföstu trú að konur séu líka menn. Og mér hefur stundum verið legið á hálsi að ég sé kvenremba, hvað sem það nú þýðir.

Þar sem ég svamla áfram í lauginni velti ég því staðfastlega fyrir mér hvort að ég sé kannski haldin einhverri staðreyndastíflu. Ég hitti nefnilega einn ágætan vin minn hér dögunum, mann sem vissi að ég hefði verið í göngum og eftirleitum á Flateyjardal og hann spurði frétta. Ég reyndi að uppfræða manninn sem ég best vissi, sem var talsvert þar sem ég þóttist hafa lagt „drjúgan fót“ að því verki. Hann spurði hvort þeir hefðu fundið einhverjar kindur, hvort þeir hefðu náð þeim og hvort þeir teldu að eitthvað væri eftir. Ég fann að þessar spurningar pirruðu mína meintu kvenrembu, kannski af því að mér fannst þessi vinur minn gera frekar lítið úr mér. Því svaraði ég spurningum hans fremur háðslega: „Já, við náðuð kindunum, nei, við erum ekki búin að ná öllu, en sannaðu til, við náum þeim sem eftir eru – við strákarnir gerum það … á endanum“. „ Þú breytist ekkert“ segir hann, „alltaf sama andskotans kvenremban í þér“, svo strunsar karl leiðar sinnar og það verður lítið úr kveðjum.

Hugur minn dvelur áfram í fortíð og ég sé fyrir mér næðisstund konu sem ég þekkti eitt sinn og þótti afar vænt um. Sé hana fyrir mér sitja framan við olíukynnta Sóló eldavél snemma morguns, sé sárin á þrútnum fótunum, hún hreinsar þau varlega upp og vefur fætur sína með sárabindum. 10 meðgöngur og endalaust stikl við þjónustu og heimilisstörf  hafa tekið sinn toll, en það er enginn afsláttur gefinn. Í fjósinu bíður kýrin sem þarf að mjólka: Eftir litla stund klæðir hún sig í útifötin, seilist í mjaltafötuna og staulast fram í fjós, til að sinna sínum verkum. Á meðan sefur húsbóndinn vært.

Mynd af bláleitum fótunum situr fast í huga mér og veldur mér áframhaldandi pirringi, því mér fannst/finnst að þessi morgunverk hefðu alveg eins átt að vera verkið hans eins og hennar. Geri mér samt grein fyrir því að það voru aðrir tímar og veit einnig hve djúpstæðar rætur hlutverk kynja hafa mótast frá örófi alda í samfélagsgerð okkar. En mér finnst ég skulda henni ömmu minni það að skrefin mín verði fram á við, en ég vil einnig trúa því að ef þau hjónin væru að hefja búskap í dag þætti jafnsjálfsagt að hann sæi um þessi verk og hún. En ætli það sé þannig ?

Mér finnst erfitt að festa hendur á jafnréttisumræðunni, hún er flókin, en það er þessi niðurnjörvaða túlkun kynhlutverka sem er svo djúpstæð í menningu okkar og sögu sem mér finnst að við ættum öll að leiða hugann að og vera meðvituð um alla daga.

Meðan við höldum áfram að slá um okkur með setningum eins og : „Ég spyr bara eins og fávís kona“ til að undirstrika hugleysi og heimsku kvenna, eða „Hann tók þessu eins og sannur karlmaður“ til að hrósa fyrir dugnað og áræðni, þá miðar okkur lítið áfram, en með fræðslu og áframhaldandi baráttu færumst við mögulega nær jafnrétti. Ég gleðst í hvert sinn er ég heyri af konu sem ögrar staðalímyndum, gerist flugmaður, vélstjóri eða verkfræðingur, og að karli sem gerir slíkt hið sama og ræðst til hefðbundinna kvennastarfa.

Við krefjumst viðhorfsbreytinga, við krefjumst reglugerðabreytinga, við krefjumst jafnréttisstefna og það næst í gegn í orði, en það er kannski ekki endilega á borði. Og af einhverjum ástæðum er það að við Íslendingar, sem státum okkur af vel upplýstu nútímasamfélagi erum enn að bjóða konum landsins uppá lægri laun en körlum. Við erum enn föst í hefðbundnum kynjahlutverkum og meðan svo er náum við ekki fram jafnrétti.

Og það má enginn skilja mig þannig að ég sé að agnúast út í karlmenn, að þeir séu vísvitandi að kúga okkur konur. Málið er ekki svo einfalt, heldur höfum við, karlar og konur þróað samfélagið okkar í gegnum aldirnar og gert það að því  sem það er í dag. En við getum breytt því – ef við viljum.

Það er farið að birta og tími til kominn að fara að hafa sig til vinnu, verkin vinna sig víst ekki sjálf. Ég segi gott af sundinu þennan morguninn og held inn í daginn með þá von í brjósti að við munum öll taka þátt í að varða veginn áfram til jafnréttis, fyrir karla og konur framtíðar.

Til hamingju með daginn

Ósk Helgadóttir, varaformaður Framsýnar, stéttarfélags

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athyglisverðar yfirlýsingar hjá frambjóðendum

Einstaka stjórnmálaflokkar hafa gert mikið úr stöðu mála í þjóðfélaginu, það er að verðlag hafi farið niður á sama tíma og laun hafi hækkað. Þá hefur einnig verið komið inn á að atvinnuleysið hafi minkað á undanförnum árum, það er frá hruni. Allt er þetta rétt en er verið að segja alla söguna? Vita menn að atvinnuleysisbætur eru í sögulegu lágmarki á Íslandi eða um kr. 217.000  á mánuði m.v. fullar atvinnuleysisbætur. Vita menn að þáverandi ríkistjórn skar niður bótarétt fólks um 6 mánuði. Vita menn að laun hafa vissulega hækkað, ekki síst laun alþingismanna sem hafa hækkað um 68,4% frá árinu 2013 til ársins 2016. Á sama tíma hækkuðu laun launþega innan ASÍ um 25,4%. Innan raða aðildarfélaga ASÍ er meðal annars verkafólk á lágmarkslaunum. Af hverju segja menn ekki frá þessu líka þegar verið er að tala um hækkun launa og minnkandi atvinnuleysi á síðustu árum?

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Miklar umræður urðu á þingi Starfsgreinasambands Íslands í síðustu viku um ójöfnuð í þjóðfélaginu sem endurspeglast ekki síst í mismunandi launahækkunum til fólks á undanförnum árum og þá hafa atvinnuleysisbætur setið eftir auk þess sem bótarétturinn var skertur.