100 ára afmælishátíð Verkakvennafélagsins Vonar
Þennan dag, 28. apríl árið 1918 var Verkakvennafélagið Von stofnað á Húsavík og er því orðið 100 ára. Framsýn, stéttarfélag stóð af þessu tilefni fyrir glæsilegum afmælisfagnaði í dag í Menningarmiðstöð Þingeyinga klukkan 14:00.

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar opnaði hátíðina með stuttu ávarpi og stýrði síðan dagskránni eins og honum einum er lagið.
Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar, flutti magnað ávarp þar sem hún fór yfir aðdragandann að stofnun Vonar og rakti sögu félagsins. Björg Pétursdóttir var ein af stofnendum Vonar og það var því vel til fundið að í dag kom út bók með ljóðum eftir hana. Sérstakur gestur hátíðarinnar, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fékk afhent fyrsta eintakið og flutti hún stutt ávarp við það tækifæri.

Langa langa langömmubarn Bjargar, hún Klara Hrund Baldursdóttir steig í pontu og flutti ljóð eftir formóður sína af miklu listfengi. Afi Klöru, Birgir Þór Þórðarsson ávarpaði samkomuna fyrir hönd afkomenda Bjargar sem stóðu að útgáfu bókarinnar.
Kvennakór Húsavíkur undir stjórn Hólmfríðar Benediktssdóttur bauð upp á tónlistaratriði við undirleik Steinunnar Halldórsdóttur. Hjónakornin Lára Sóley Jóhannsdóttir og Hjalti Jónsson luku dagskránni með nokkrum hressandi lögum. Að dagskrá lokinni var opnuð ljósmyndasýning með myndum af konum við störf á tímum Verkakvennafélagsins Vonar. Og að sjálfsögðu var boðið upp á kaffi og með því.

Framsýn notaði tilefnið til að gefa nokkrar góðar gjafir eins og venja er í afmælum. Stéttarfélagið færði Kvennfélagasambandi S-Þingeyinga 150 eintök af ljóðabók Bjargar og afkomendum hennar fengur 100 eintök að gjöf. Þá gaf Framsýn, Menningarmiðstöð Þingeyinga hljóðkerfi að verðmæti 200 þúsund og nokkur eintök af bókinni fyrir bókasöfnin í sýslunni. Það var Sif Jóhannesdóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvarinnar sem veitti gjöfinni viðtöku.

Þá gafst gestum sem voru á á þriðja hundrað einng færi á því að eignast bók en fólk hafði fólk orð á því að vel hafi tekist til og þessum tímamótum hafi verið minnst á fallegan og viðeigandi hátt. /epe

Framsýn gefur umsögn um frumvarp
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda tímabundið starfsmenn til Íslands liggur fyrir Alþingi þessa dagana. Eins og gefur að skilja hefur þessi hópur verið mikið í kastljósinu hér á starfssvæðinu undanfarið vegna framkvæmda við stóriðju og orkuver.
Framsýn var beðið að senda umsögn um frumvarpið. Í henni er heilshugar tekið undir umsögn ASÍ sem áður hafði komið fram og sagt að framvarpið gangi of skammt þar sem lögin eigi einungis við um byggingastarfsemi en þyrftu að eiga við fleiri svið, til dæmis ferðaþjónustu, kjötvinnslu og akstur hópferðabifreiða.
Landinn fjallar um útgáfu á ljóðabók
Í sjónvarpsþættinum Landanum á RÚV næsta sunnudag verður fjallað um útgáfu Framsýnar á ljóðabók með ljóðum Bjargar Pétursdóttur. Formlegur útgáfudagur á bókinni er á morgun, laugardaginn 28. apríl 2018. Án efa verður innslagið frá Húsavík áhugavert og hér með er skorað á áhugasama að setjast fyrir framan sjónvarpið á sunnudaginn og fylgjast með einum vinsælasta sjónvarpsþætti landsins.
Afmælishátíð 28. apríl
Launahækkanir á árinu 2018
Starfsfólk á almennum vinnumarkaði:
Þann 1. maí hækka laun og launatengdir liðir um 3%.
Lágmarkslaun fyrir fullt starf, 18 ára og eldri eftir 6 mánaða starf skal vera 300.000 frá 1. maí 2018.
Starfsmenn fá 48.000 kr. í orlofsuppbót 1. júní, miðað við fullt starf.
Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækkar í 11,5% 1. júlí 2018.
Starfsmenn fá 89.000 kr. í desemberuppbót ekki síðar en 15. desember, miðað við fullt starf.
Starfsfólk sveitarfélaga:
Þann 1. júní hækka laun um 2%.
Lágmarkslaun fyrir fullt starf, 18 ára og eldri eftir 4 mánaða starf skal vera 300.000 frá 1. júní 2018.
Starfsmenn fá 48.000 kr. í orlofsuppbót 1. maí, miðað við fullt starf.
Starfsmenn fá 113.000 kr. í desemberuppbót þann 1. desember, miðað við fullt starf.
Starfsfólk ríkisins:
Þann 1. júní hækka laun um 3%.
Lágmarkslaun fyrir fullt starf, 18 ára og eldri eftir 4 mánaða starf skal vera 300.000 frá 1. júní 2018.
Starfsmenn fá 48.000 kr. í orlofsuppbót 1. júní, miðað við fullt starf.
Starfsmenn fá 89.000 kr. í desemberuppbót þann 1. desember, miðað við fullt starf.
Stóra barnavagnsmálið!
Mikið hefur gengið á í salarkynnum skrifstofunnar að undanförnu. Helst ber að nefna að pólitísk framboð hafa fengið hér inni til að stilla upp og samþykkja sína lista.
Eitthvað hefur gengið á þegar eitt framboðið samþykkti sinn lista þar sem barnavagn gleymdist hér á ganginum og hefur ekki verið sóttur enn!
Starfsfólk skrifstofunnar er ekki kunnugt um hver á barnavagninn og auglýsir hér með eftir eigandanum. Mynd af viðkomandi barnavagn er hér að ofan.
Tekið er fram að vagninn er barnlaus.
Veisla 1. maí 2018 -nú verður stuð í höllinni-
Að venju standa stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum fyrir veglegri hátíðardagskrá í íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí. Dagskráin hefst kl. 14:00 og verður fjölbreytt.
Dagskrá:
Ávarp:
Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar
Hátíðarræða:
Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar
Maístjarnan:
Söngvari: Reynir Gunnarsson
Undirleikari Steinunn Halldórsdóttir
Söngur:
Karlakórinn Hreimur
Stjórnandi Steinþór Þráinsson
Undirleikari Steinunn Halldórsdóttir
Grín:
Gísli Einarsson fjölmiðlamaður
Söngur og grín:
Sigga Beinteins, Guðrún Gunnars og Jógvan Hansen hafa undanfarin ár sungið sig inn í hjörtu landsmanna með skemmtilegri söngdagskrá sem þau kalla „Við eigum samleið“. Skemmst er frá því að segja að uppselt hefur verið á alla tónleika þeirra í Salnum í Kópavogi sl. 4 ár. Þau segja líka skemmtilegar sögur sem tengjast lögunum og gera óspart grín að hvort öðru.
Gestum verður boðið upp á hefðbundnar veitingar, meðan á hátíðinni stendur.
Þingeyingar og landsmenn allir, fjölmennum í höllina og drögum fána að hún á hátíðar- og baráttudegi verkafólks 1. maí 2018.
Framsýn stéttarfélag – Starfsmannafélag Húsavíkur – Þingiðn félag iðnaðarmanna
Hækkun atvinnuleysisbóta
Ríkisstjórnin hefur fallist á kröfur Alþýðusambands Íslands um hækkun atvinnuleysisbóta. Grunnbætur munu hækka 1. maí nk. úr 227.417 kr. í 270.000 kr. á mánuði sem eru 90% af dagvinnutekjutryggingu. Hámarksfjárhæð tekjutengdra bóta hækkar úr 358.516 kr. í 425.647 kr. Loks hækka greiðslur vegna barna yngri en 18 ára úr 9.096 á mánuði fyrir hvert barn í 10.800 eða sem nemur 4% af fullum grunnbótum.
Hættum að laga konur – Lögum samfélagið!
Fjölmennur fundur #metoo kvenna sem bandalög stéttarfélaga og Kvenréttindafélag Íslands stóðu fyrir nýverið komust að þeirri niðurstöðu að tafarlaust yrði að grípa til aðgerða og að stéttarfélög, atvinnurekendur og stjórnvöld þurfi að bregðast við. Nánar má lesa um málið á heimasíðu ASÍ.
Getum við lækkað vextina? Ari Teitsson og Helgi Héðinsson tjá sig um málið
Þung umræða um háa vexti hefur verið viðvarandi hérlendis alla þessa öld. Sú umræða hefur fengið aukið vægi nú þegar vaxtakostnaður heimila ógnar mögulegu Salek samkomulagi og gæti ásamt fleiru valdið erfiðleikum í þjóðfélaginu sem brýnt er að komast hjá.
Verðbólga, rekstrarárangur fjámálafyrirtækja og starfsumhverfi þeirra veldur mestu um vaxtastig.
Ekki verður hér fjallað um fyrri þættina tvo en bent á hnökra í starfsumhverfi sem valda viðskiptavinum fjármálafyrirtækja meiri vaxtakostnaði en þörf er á.
Fjármálafyrirtæki greiða 3,3 milljarða á ári í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Framtíðarstarfsemi sjóðsins mun byggja á sameiginlegum evrópureglum sem lögfestar verða hér innan tveggja ára. Samanburður við stöðu tryggingarsjóða evrópuríkja er því raunhæfur og leiðir í ljós að íslenski sjóðurinn er hlutfallslega fjórum sinnum stærri en meðaltal 30 evrópuríkja og iðgjaldið er ferfalt. Raunar þyrfti ekki að greiða í sjóðinn næstu ár og lækka mætti vexti á móti.
Kostnaður við upplýsingatækni fjármálafyrirtækja er hér mun hærri en í samanburðarlöndum. Þar veldur smæð eininga en einnig að samstarf um upplýsingatækni, sem augljóslega er hagkvæmt og raunar nauðsyn, er mjög torveldað af þröngum reglum Samkeppniseftirlits. Hér mætti spara milljarða með skynsamlegu samstarfi.
Eiginfjárkröfur íslenskra fjármálafyrirtækja byggja á evrópureglum, en eru hér útfærðar með öðrum og strangari hætti en í flestum Evrópuríkjum. Þannig þurfa íslensk fjármálafyrirtæki að eiga eigið fé sem nemur minnst 15% af efnahag meðan sænskum bönkum sem starfa undir sama regluverki duga 5%. Þessar háu eiginfjárkröfur valda verulegum kostnaði.
Rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins sem greiddur er af fjármálafyrirtækjum hefur meir en tvöfaldast á undanförnum 8 árum og nemur nú 1,5 milljörðum. Verra er þó að breyttar áherslur og verulega auknar kröfur um skýrslugerð og gagnaskil frá fjármálafyrirtækjum valda fyrirtækjunum ómældum kostnaði. Hér gildir enginn Salek samanburður um hógværð og jöfnuð milli landa.
Kostnaður við Umboðsmann skuldara nam á árinu 2017 um 700 milljónum, sá kostnaður er greiddur af fjármálafyrirtækjum þó viðfangsefni embættisins séu nú að meirihluta tengd vafasamri smálánastarfsemi sem á lítið skylt við bankarekstur og greiðir ekki áfallinn kostnað.
Sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki námu á árinu 2017 um 11,7 milljörðum. Þær álögur styrkja ríkissjóð, en hafa um leið óhjákvæmilega áhrif á vaxtastig.
Svo sem fram kemur hér að framan eru háir vextir hérlendis að hluta sjálfskaparvíti sem gæti átt þátt í erfiðleikum komandi mánaða. Ætla má að með sameiginlegu átaki mætti lækka vexti um eitt prósentustig (100 punkta) og fara þá íslenskir vextir að nálgast vexti í okkar samanburðarlöndum að teknu tilliti til verðbólgu. Breytingar í þá veru eru sannarlega mögulegar. Þær koma að hluta niður á ríkissjóði en eru þó að mestu spurning um skynsamleg vinnubrögð og að við sníðum okkur, ekki bara sum heldur öll, stakk eftir vexti.
Höfundar starfa í stjórn Sparisjóðs Suður-Þingeyinga
Framsýn hástökkvari SGS- félagsmönnum fjölgaði um 27,5%
Starfsgreinasamband Íslands tekur oft saman áhugaverðar upplýsingar um starfsemi aðildarfélaga sambandsins, þar á meðal Framsýnar. Nýverið gerði sambandið athugun á kynjahlutföllum í aðildarfélögunum. Í gegnum tíðina hefur kynjahlutfallið hjá Framsýn nánast verið 50/50 karlar, konur. Nú ber svo við að þessi athugun leiðir í ljós að körlum hafi fjölgað verulega umfram konur í Framsýn. Hlutfallið er komið í að vera 38% konur og 62% karlar. Að sjálfsögðu eru skýringar á þessu. Framkvæmdirnar á svæðinu við uppbygginguna á Bakka, Þeistareykjum, við hótelbyggingar og Vaðlaheiðargöng hafa kallað á aukna atvinnuþáttöku karla. Væntanlega mun þetta jafnast töluvert á næsta ári þegar uppbyggingin hvað varðar þessi verkefni klárast að fullu.
Annað sem er jafnframt áhugavert í samantektinni er að félagsmönnum Framsýnar fjölgaði um 27,5% milli ára sem er met innan Starfsgreinasambands Íslands. Dæmi eru um að félagsmönnum aðildarfélaganna hafi fækkað milli ára. Samtals eru um 57.000 félagsmenn innan sambandsins og fjölgaði um 11% milli ára. Þannig að eins og oft áður er Framsýn hástökkvari stéttarfélaga innan SGS.
Framsýn hefur undirbúning við mótun kröfugerðar- vill sjá harðari baráttu og Flóinn verði samferða öðrum aðildarfélögum SGS í kjarabaráttunni
Framsýn stéttarfélag samþykkti á fundi sínum í gær með stjórn, trúnaðarráði og samninganefnd félagsins að hefja formlegan undirbúning að mótun kröfugerðar vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Í því sambandi horfir félagið til tillagna Starfsgreinasambands Íslands varðandi undirbúninginn. Þar kemur fram að aðildarfélögin skili inn skýrslu til sambandsins um hvernig undirbúningi að kröfugerð verði háttað innan félaganna, það er í síðasta lagi fyrir 10. maí 2018.
Fundarmenn voru sammála um að gamla fundaformið væri ekki að skila tilætluðum árangri til að kalla fram skoðanir félagsmanna, þess í stað var ákveðið að ráðast í vinnustaðaheimsóknir um miðjan maí sem ætlað er að standa í nokkrar vikur enda nær félagssvæði Framsýnar yfir um 18% af landinu. Samhliða verði kallað eftir viðhorfum trúnaðarmanna á vinnustöðum sem eru í góðu sambandi við samstarfsmenn sína. Framsýn hefur byggt upp öflugt trúnaðarmannanet með frábæru fólki sem ætlað er töluvert hlutverk í mótun kröfugerðar félagsins. Þá verður einnig auglýst eftir kröfum félagsmanna með það að markmiði að þeir skili þeim á skrifstofu Framsýnar á Húsavík.
Þegar þessari vinnu lýkur verði boðað til félagsfundar þar sem afraksturinn eftir vinnustaðaheimsóknirnar og samtöl við trúnaðarmenn verða kynnt og tekin til afgreiðslu. Tímasetning þessa fundar eða funda liggja ekki fyrir endanlega en verða væntanlega haldnir í byrjun september.
Framsýn horfir til þess í ljósi stöðunnar, þar sem ekki náðist samstaða um að segja upp kjarasamningum í febrúar, að aðildarfélög Starfsgreinasambandsins standi við stóru orðinn. Sérstaklega þau félög sem lögðust gegn uppsögn samninga og tala nú fyrir öflugri kjarabaráttu í komandi kjaraviðræðum.
Í því sambandi hefur Framsýn lagt áherslu á að öll félög innan Starfsgreinasambandsins leggi fram sameiginlega kröfugerð, það er að stéttarfélög innan Flóabandalagsins sameinist öðrum félögum innan sambandsins. Að mati Framsýnar samræmist það ekki hagsmunum félagsmanna aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands að samningaviðræðurnar fari fram í tveimur herbergjum í Karphúsinu. Sú tíð er vonandi liðin og engum til bóta með nýju fólki hjá Eflingu.
Gangi þetta ekki eftir mun Framsýn endurskoða sýna afstöðu og ákveða með framhaldið með þeim stéttarfélögum sem velja leið Framsýnar stéttarfélags, það er að leiðrétta kjör þeirra sem búa við kjör og réttindi sem ekki eru boðleg íslensku verkafólki. Komi til þess að sækja þurfi þessar kröfur með aðgerðum ber að gera það að fullri hörku að mati stjórnar, trúnaðarráðs og samninganefndar Framsýnar stéttarfélags sem samþykkti samhljóða þessa áætlun á fundi sínum á þriðjudaginn.
Tillaga um félagsmenn í trúnaðarstöður
Kjörnefnd Þingiðnar gerir tillögur um eftirfarandi félagsmenn í trúnaðarstöður fyrir félagið starfsárin 2018 til 2020.
Aðalstjórn (jafnframt stjórn sjúkra-, orlofs- og vinnudeilusjóðs)
Jónas Kristjánsson Formaður Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Vigfús Leifsson Varaformaður Norðurvík ehf.
Kristinn Gunnlaugsson Ritari Trésmiðjan Rein ehf.
Þórður Aðalsteinsson Gjaldkeri Trésmiðjan Rein ehf.
Hólmgeir Rúnar Hreinsson Meðstjórnandi Trésmiðjan Rein ehf.
Varastjórn: Vinnustaður:
Gunnólfur Sveinsson Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Gunnar Sigurðsson Eimskip
Daníel Jónsson Curio ehf.
Atli Jespersen Sögin ehf.
Trúnaðarmannaráð:
Sigurjón Sigurðsson Norðurvík ehf
Kristján G. Þorsteinsson Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Andri Rúnarsson Fjallasýn ehf.
Kristinn Jóhann Lund Curio ehf.
Sigurður Helgi Ólafsson G.P.G-Fiskverkun ehf.
Bjarni Björgvinsson Norðurvík ehf.
Varatrúnaðarmannaráð:
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson Norðurpóll ehf.
Kristján Gíslason Norðlenska ehf.
Erlingur S. Bergvinsson Bifreiðaskoðun Íslands ehf.
Bjarni Gunnarsson Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Skoðunarmenn ársreikninga: Kjörstjórn:
Jón Friðrik Einarsson Andri Rúnarsson
Arnþór Haukur Birgisson Vigfús Þór Leifsson
Varamaður: Varamenn:
Steingrímur Hallur Lund Þorvaldur Ingi Björnsson
Kristján Gíslason
Kjörnefnd: 1. maí nefnd
Davíð Þórólfsson Jónas Kristjánsson
Gunnólfur Sveinsson
Kristján Gíslason
Löggiltur endurskoðandi:
PricewaterhouseCoopers ehf.
Hverjum fullgildum félaga er heimilt að koma með breytingartillögur um félagsmenn í einstakar trúnaðarstöður eða koma fram með nýja heildartillögu um skipan í trúnaðarstöður næsta starfsár. Breytingartillögu skal fylgja skrifleg heimild frá þeim, sem stungið er upp á og meðmæli a.m.k. 10% fullgildra félagsmanna. Nýjum heildartillögum þurfa að fylgja skrifleg meðmæli a.m.k. 20% félagsmanna.
Skila þarf inn nýjum tillögum til Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík fyrir kl. 16:00, mánudaginn 7. maí 2018. Þar er einnig hægt að fá nánari upplýsingar um fyrirkomulagið komi til þess að fleiri aðilar bjóði sig fram til starfa fyrir Þingiðn.
Húsavík 18. apríl 2018
Kjörstjórn Þingiðnar
Aðalfundur Þorrasala – húsfélagið í góðum gír
Aðalfundur húsfélags Þorrasala 1-3 var haldinn síðasta fimmtudag. Framsýn og Þingiðn eiga fjórar íbúðir í fjölbýlishúsinu. Fulltrúar frá félögunum voru til staðar á fundinum. Eins og lög gera ráð fyrir var farið yfir starfsemi húsfélagsins á síðasta starfsári og ársreikninga félagsins. Starfið og rekstur húsfélagsins var til mikillar fyrirmyndar á umliðnu starfsári. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, var endurkjörinn formaður húsfélagsins. Áhugi er innan Framsýnar og Þingiðnar að kaupa fleiri íbúðir í Þorrasölum enda mikil eftirspurn meðal félagsmanna eftir dvöl í íbúðunum.
Katrín Jakobsdóttir gestur á afmælishátíð
Í tilefni af 100 ára afmæli Verkakvennafélagsins Vonar 28. apríl 2018 stendur Framsýn fyrir afmælisfagnaði í Menningarmiðstöð Þingeyinga laugardaginn 28. apríl kl. 14:00. Sérstakur gestur fundarins verður Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Eftir að ávörp hafa verið flutt verður opnuð ljósmyndasýning af konum við störf á tímum verkakvennafélagsins. Þá verða tónlistaratriði í boði, Kvennakór Húsavíkur kemur fram undir stjórn Hólmfríðar Benediktsdóttur, við undirleik Steinunnar Halldórsdóttur. Þá verða Lára Sóley Jóhannsdóttir og Hjalti Jónsson á svæðinu og taka nokkur lög. Auk þess verður lesið upp úr ljóðabók með ljóðum eftir Björgu Pétursdóttur, sem kemur út þennan dag. Bókin er gefin út í samstarfi við afkomendur Bjargar, en hún var ein af frumkvöðlunum að stofnun Verkakvennafélagsins Vonar. Þeir sem hafa skráð sig fyrir bókinni fá hana afhenta á afmælishátíðinni og þeir aðrir sem mæta og vilja eignast þessa einstöku bók. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti meðan á dagskránni stendur.
Við viljum hvetja konur sem búa svo vel að eiga íslenska búninginn til að klæðast honum í tilefni dagsins og heiðra með því minningu forvígiskvenna þingeyskrar verkalýðsbaráttu.
Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fundar í dag
Stjórn og trúnaðarráð kemur saman til fundar síðar í dag. Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
- Fundargerð síðasta fundar
- Inntaka nýrra félaga
- Kjaramál
- Aðalfundur Sparisjóðs Suður- Þingeyinga
- Ársfundur Ljs. Stapa
- Þakviðgerðir
- Afmælishátíð Vonar
- Hátíðarhöldin 1. maí
- Orlofsvefur stéttarfélaganna
- Eftirlitsfulltrúi stéttarfélaganna
- Vinnufundur bílstjóra innan SGS
- Póllandsferð
- Önnur mál
Funduðu með forsætisráðherra
Formenn Framsýnar, Verkalýðsfélags Akraness og VR ásamt verðandi formanni Eflingar funduðu með forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur í Stjórnarráðinu fyrir helgina, það er eftir fund þessara aðila og fram kom í frétt á heimasíðu stéttarfélaganna á föstudagin. Á fundinum gafst fulltrúunum tækifæri á að skiptast á skoðunum við ráðherra varðandi helstu áherslur þessara aðila í komandi kjaraviðræðum við atvinnurekendur og aðkomu stjórnvalda að ýmsum málum sem liðkað gætu fyrir lausn mála.
Ragnar Þór, Aðalsteinn Árni, Sólveig Anna, Vilhjálmur og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra áttu ánægjulega stund saman í Stjórnarráðinu fyrir helgina.
Komu saman til fundar í Reykjavík
Aðalsteinn Árni, Sólveig Anna, Vilhjálmur og Ragnar Þór áttu góða og árangursríka stund saman í gær.
Formenn Framsýnar, Verkalýðsfélags Akraness og VR hittust á fundi í Reykjavík í gær ásamt verðandi formanni Eflingar. Tilgangur fundarins var að fara yfir nokkur atriði er varða samstarf þessara aðila, samstarf við stjórnvöld og væntanlegar kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins. Fundurinn var að sjálfsögðu vinsamlegur enda vilji þessara aðila að efla íslenska verkalýðshreyfingu frá því sem nú er.
ASÍ og SA gera með sér samkomulag um eftirlit með starfsmannaleigum
Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) undirrituðu í dag samkomulag um eftirlit með launum og starfskjörum starfsmanna starfsmannaleiga, ábyrgð notendafyrirtækja og sérstaka viðurkenningu starfsmannaleiga.
Jafnt starfsmannaleigur og notendafyrirtæki þurfa að vera meðvituð um skyldur sínar gagnvart starfsmönnum, þannig að tryggt sé að starfsmenn starfsmannaleiga njóti þeirra kjara og réttinda sem þeim ber.
Til að tryggja betur framangreind markmið og réttindi starfsmanna starfsmannaleiga eru samningsaðilar sammála um eftirfarandi aðgerðir:
a) Starfsmannaleigum gefist kostur á að undirgangast sérstakt launaeftirlit af hálfu stéttarfélaga og samráðsnefndar ASÍ og SA. Það felur í sér að þær leggi fram gögn svo að hægt sé að sannreyna að þær uppfylli skilyrði laga og kjarasamninga varðandi laun og önnur starfskjör starfsmanna sinna.
b) Samráðsnefnd ASÍ og SA veiti þeim starfsmannaleigum viðurkenningu sem undirgengist hafa sérstakt launaeftirlit og uppfylla skilyrði samkomulagsins að öðru leyti.
c) Lögfest verði ábyrgð notendafyrirtækja á vangoldnum launum starfsmanna starfsmannaleiga sbr. frumvarp félags- og jafnréttisráðherra sem dreift hefur verið á Alþingi, mál nr. 468.
Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa axlað sameiginlega ábyrgð á uppbyggingu vinnumarkaðarins og réttindum og skyldum sem þar gilda. Samtökin líta á það sem sameiginlegt verkefni samtakanna að treysta í sessi heilbrigðan vinnumarkað þar sem gætt er að umsömdum réttindum launafólks.
ASÍ og SA hafa látið sig málefni starfsmannaleiga varða. Kemur þá tvennt til, annars vegar að starfsmenn þeirra eru nærri undantekningarlaust erlendir og því ríkari þörf fyrir eftirliti með kjörum þeirra og hins vegar að starfsemi starfsmannaleiga felur í sér frávik frá meginreglu íslensks vinnumarkaðar um að starfsmenn séu ráðnir ótímabundið beint til vinnuveitanda.
Við gerð samkomulags þessa eru 30 starfsmannaleigur skráðar hjá Vinnumálastofnun. Markmið samkomulagsins er m.a. að tryggja réttindi starfsmanna þeirra og auka traust aðila vinnumarkaðarins og notendafyrirtækja til starfsemi þeirra. Samningsaðilar leggja áherslu á að notendafyrirtæki, þ.e. þau fyrirtæki sem eru með starfsmenn starfsmannaleiga í þjónustu sinni, sýni ábyrgð, taki ekki þátt í brotum gegn starfsmönnum starfsmannaleiga og skipti einungis við starfsmannaleigur sem þau bera traust til.
