Atvinnuleysi á félagssvæðinu

Þrátt fyrir að atvinnuástand hafi verið einkar gott að undanförnu í sögulegu samhengi þá er það yfirleitt ekki svo að ekki séu til skráningar á atvinnuleysisskrá.

Hér á starfssvæði Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur auk Verkalýðsfélags Þórshafnar voru 88 skráðir atvinnulausir í lok árs 2017. Þar af voru 34 í Langanesbyggð, 35 í Norðurþingi og tíu í Skútustaðahreppi. Þá hafði fjögað um 20 manns á skránni síðan í nóvember þegar 68 voru skráðir á þessu sama svæði.

Að meðaltali voru 63 einstaklingar á skrá á þessu svæði árið 2017. Það voru því greinilega fleiri á skrá um áramót en til gengur og gerist yfir árið. Til dæmis voru 41 á atvinnuleysisskrá í ágúst.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fundar á mánudaginn.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar ásamt ungliðum innan félagsins koma saman til fundar á mánudaginn. Að venju eru mörg mál á dagskrá fundarins. Um 30 félagsmenn sitja í stjórn, varastjórn, trúnaðarráði og Framsýn-ung. Þessi hópur á seturétt á fundinum.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Tillaga kjörnefndar lögð fram um stjórn, ráð og nefndir á vegum Framsýnar
  4. Framsýn-ung
  5. Endurskoðun kjarasamninga
  6. Lögfræðiþjónusta
  7. Ráðstefna: Samtal við #metoo konur – hvað getum við gert?
  8. Orlofsmál 2018/sumarferð-vikugjald
  9. Trúnaðarmannanámskeið
  10. Trúnaðarmaður hjá N1
  11. Lífeyrisskuldbindingar Framsýnar
  12. Erindi frá Leikfélagi Húsavíkur
  13. Kjarasamningur við PCC
  14. Hátíðarhöldin 1. maí/ræðumaður
  15. Lagfæringar á orlofsíbúðum/málningarvinna
  16. Aðalfundur Deildar- verslunar og skrifstofufólks
  17. Erindi frá Karlakórnum Hreimi
  18. Hækkun starfsmenntastyrkja
  19. Önnur mál

 

 

Falleg bygging rís

Ljósmyndari stéttarfélaganna átti leið um hafnarsvæðið á Húsavík rétt í þessu. Aðstæður til myndatöku voru með besta móti enda veður bjart og fallegt.

Gaman er að sjá nýja og glæsilega byggingu rísa á þeim grunni sem Flókahúsið stóð áður, en þar er Gentle giants að reisa sínar höfuðstöðvar. Eins og sjá má á myndinni að ofan er um gjörbreytingu á húsinu að ræða miðað við fyrra útlit. Verkið er komið vel á veg og verður spennandi að skoða húsið þegar það verður klárað.

Fjörugur aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks

Þriðjudaginn 6. febrúar kl. 20:00 var haldinn aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar. Fundurinn var að venju málefnalegur og skemmtilegur. Reyndar var ekki fullt hús en þeir sem komu nutu þess að taka þátt í góðum fundi.

Formaður deildar DVS, Jóna Matthíasdóttir flutti skýrslu stjórnar vegna síðasta starfsárs, góðar umræður spruttu upp í kjölfarið. Skýrslan er meðfylgjandi þessari frétt.   Stjórnin var endurkjörin enda skilað miklu og góðu starfi á liðnu starfsári. Hana skipa; Jóna Matthíasdóttir formaður, Jónína Hermannsdóttir og Dómhildur Antonsdóttir og í varastjórn Anna Brynjarsdóttir og Karl Hreiðarsson.

Auk venjulegra aðalfundarstarfa gerði Aðalsteinn Árni  stuttlega grein fyrir hækkun styrkja til félagsmanna til náms og tengdrar þátttöku.  Með nýjum reglum hækkar hámarksstyrkur í upphæð 130.000- á ári eða að hámarki 90% námskostnaðar. Ef réttur er ekki nýttur safnast hann á milli ára og getur mest orðið 390.000 krónur, það er þriggja ára réttur. Þá eiga félagsmenn einnig auka réttindi í Fræðslusjóði Framsýnar sem kemur félagsmönnum  sem eru í dýru námi sérstaklega vel.
Hann minnti á að upplýsingar um styrkina eru fáanlegar á skrifstofu félagsins auk þess má þær finna á vefsíðunni www.starfsmennt.is

Í fundarboði var þess getið að flutt yrðu erindi um  þróun verslunar og þjónustu í heimabyggð „ Hvernig get ég aðstoðað?“
Jóna Matthíasdóttir og Aðalsteinn Árni fluttu sitt hvort erindið um verslun og þjónustu á Húsavík og hvaða tækifæri geta legið með aukinni vefverslun.  Tækifærin geta verið til staðar hjá verslunum á svæðinu. Tilgangur erindanna var að kalla fram umræður og viðbrögð og vekja fólk til umhugsunar um hvað hægt er að gera og hvernig skal bregðast við breyttum verslunarháttum. Erindunum var vel tekið og urðu töluverðar umræður um stöðu verslunar og þjónustu í Þingeyjarsýslum.

Undir liðnum önnur mál urðu umræður um atvinnumál og kjarasamninga, eftirfarandi var bókað í fundargerð:

  1. Kjarasamningar – staða
    Í góðum fyrirspurnum og umræðum kom fram fyrirspurn vegna stöðu kjarasamninga og hvaða útlit væri um uppsögn samninga nú í febrúar þegar endurskoðun þeirra fer fram.  Almennt eru ASÍ aðilar að yfirfara stöðuna og áttu m.a. fund með fulltrúum ríkisstjórnarinnar fyrir stuttu. LÍV mun að öllum líkindum boða fljótlega til formannafundar til viðræðna.  Í máli fundarmanns kom einnig fram að meðallaun verkafólks, láglaunahópa, þurfi að vera sýnileg og vill fá þann samanburð inn í umræðuna.  Launamunur hefur aldrei verið meiri og launabilið, t.d. meðal félagsmanna Framsýnar er mjög breytt. Góð umræða var um lágmarkslaun og taxtalaun og hvernig aukagreiðslur eru oft á tíðum notaðar til að hífa upp heildarlaun en tímakaup og tímakaup yfirvinnu þá haldið niðri. Þegar kom að umræðu um þátttöku og áhuga á kjaramálum þá var bent á að félagsmenn okkar eru frekar dreifður hópur og oft eru fáir starfsmenn innan hvers fyrirtækis sem getur þýtt að umræða þeirra á milli sé minni.
  1. Atvinnuleysi á svæðinu
    Í svörum Aðalsteins Árna kom fram að um 40 manns eru á atvinnuleysisskrá á Húsavík og nærsveitum, fólk með fjölbreytta menntun og bakgrunn.

Það eru ekki margar stjórnir stéttarfélaga á Íslandi eins vel mannaðar og stjórn Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar. Hér er stjórnin í miklu stuði eftir að kjör þeirra lá fyrir á aðalfundi deildarinnar.

Hér má lesa skýrslu stjórnar sem formaður deildarinnar, Jóna Matthíasdóttir, flutti á fundinum:

Fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks býð ég ykkur velkomin til aðalfundar deildarinnar. Eins og þið þekkið eru innan raða Framsýnar stéttarfélags tvær sjálfstæðar deildir, sjómannadeild og Deild verslunar- og skrifstofufólks. Á síðasta starfsári var stjórn deildarinnar þannig skipuð; Jóna Matthíasdóttir formaður, Jónína Hermannsdóttir varaformaður, Dómhildur Antonsdóttir ritari og í varastjórn sátu Anna Brynjarsdóttir og Karl Hreiðarsson. Lítið fór um formleg fundarhöld hjá stjórn á síðasta ári heldur var tekið á málefnum í formi tölvupósta og símtala, hluti stjórnar tók þátt í jólafundi stjórnar og trúnaðarráði Framsýnar. Samkvæmt lögum félagsins er formaður deildarinnar einnig sjálfskipaður í stjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Formaður er starfandi ritari í stjórn Framsýnar og aðrir fulltrúar aðalstjórnar sitja einnig í stjórnum og ráðum innan Framsýnar.
Við viljum þakka starfsmönnum og formanni félagsins fyrir gott og árangursríkt samstarf auk veittrar þjónustu til stjórnar og félagsmanna. Eðli málsins samkvæmt leita félagsmenn beint til skrifstofu félagsins og formaður upplýstur um. Formaður deildarinnar tók þátt í  formannafund LÍV í lok janúar á sl. ár þar sem helsta umræðuefni voru kjarasamningar og starfsmenntunarmál auk húsnæðismála.
Dagana 13. – 14. . október var 30. þing LÍV haldið á Akureyri og var formaður einn 80 þingfulltrúa. Jóna var annar tveggja ritara þingsins auk þess að sitja í kjörnefnd LÍV og var endurkjörin til næstu tveggja ára. Þá var hún kosin annar varamaður í stjórn LÍV til nætu tveggja ára. Þingið bar keim af því að það var afmælisár, erindi voru flutt um húsnæðismál  og yfirlit og horfur í efnahagsmálum auk þess sem unnið var í nefnudm,  Einnig var farið í kynningar- og fræðsluferð til Siglufjarðar og Ársskógsstrandar. Til kosninga kom um formann LÍV en að lokinni kosningu hlaut Guðbrandur Einarsson meirihluta greiddra atkvæða og situr sem formaður til næstu tveggja ára. Einn þingfulltrúi var heiðraður og hlaut gullmerki LÍV fyrir farsælt og óeigingjarnt starf í þágu verkalýðshreyfingarinnar.

Félagatal
Á árinu 2017 greiddu 249 manns til félagsins, þar af eru konur í miklum meirihluta eða 170 á móti 79 karlmanni.  Félagsmönnum hefur fjölgað töluvert, eða um 38 manns, 20 konur og 18 karla.

Fjármál
Skrifstofa stéttarfélaganna er rekin sameiginlega af stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum, auk þess sem Verkalýðsfélag Þórshafnar er með þjónustusamning við hana. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á sl. ári. Innheimta og innkoma félags- og iðgjalda hefur aukist töluvert. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Með auknum fjölda starfsmanna á svæðinu hefur fjöldi félagsmanna og greiðenda aukist með auknum tekjum til félagsins en þýðir einnig aukna vinnu og kostnað fyrir félagið. Endurskoðaður ársreikningur félagsins verður lagður fram á aðalfundi þess sem haldinn verður með vorinu. Stjórn Framsýnar og starfsmenn kappkosta að gæta hagsmuna félagsins og þar með félagsmanna með því að standa vörð um fjármuni þess hér eftir sem hingað til.

Kjara og samningamál
Kjarasamningar voru samþykkir á árinu 2015 og við endurskoðun 2016 var samningur framlengdur út árið 2018 með viðbótum við þær hækkanir sem áður hafði verið samið um. Í febrúar 2017 kom endurskoðunarnefndin aftur saman og niðurstaða þá var að segja ekki upp samningi. Forsendur núverandi kjarasamnings eru til skoðunar nú í febrúar en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort samningi verði sagt upp eða ekki. Verði það gert, mun það gerast á næstum vikum en ef ekki gildir samningur út árið 2018. Fulltrúar sambandanna innan ASÍ hafa átt fundi með fulltrúum ríkisstjórnar þar sem almennt er verið að fara yfir stöðuna í þjóðfélaginu, lausa kjarasamninga framundan stöðuna almennt.

Orlofsmál
Líkt og fyrri ár hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna með sér gott samstarf í orlofsmálum sem eru sem fyrr mikilvægur þáttur í starfi félagsins. Boðið er upp á fjölmarga kosti; m.a. orlofshús, gistiávísanir á hótelum og farfuglaheimilum auk endurgreiðslu á gistikostnaði á tjaldsvæðum og vegna kaupa á útilegukortum. Helstu samstarfsaðilar eru Foss- og Edduhótelin, Hótel Keflavík, Hótel KEA, Hótel Norðurland,  Hótel Reykjavík Lights, Gistihús Keflavíkur  og Icelandair hótelin t.d. á Akureyri og Hotel Natura í Reykjavík. Félagsmenn hafa aðgang að íbúð á Spáni sem þeir geta bókað beint hjá eiganda. Allar upplýsingar eru veittar á skrifstofunni.
Jöfn og góð nýting er á íbúðum okkar á höfuðborgarsvæðinu og er það vel. Leitast er við að sem flestir félagsmenn sem sækja um orlofshús fái úthlutun en eins og þið vitið er ekkert punktakerfi við lýði hjá stéttarfélögunum okkar. Okkur til mikillar ánægju var enn og aftur skrifað undir áframhaldandi samning milli Skrifstofu Stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslu og flugfélagsins Ernis um kaup á flugmiðum fyrir félagsmenn Framsýnar og tengdra aðila. Um er að ræða eina bestu kjarabót sem okkur félagsmönnum stendur til boða. Nýr samningur er áætlaður að tryggja okkur verð á flugmiða aðra leið milli Húsavíkur og Reykjavíkur fyrir kr. 8.900 út árið 2018 og er það vel. Óhætt er að segja að með samningi þessu séu Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslu að styrkja við og stuðla að frekari flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll. Þjónusta Ernis er til fyrirmyndar, boðið er upp á áætlunarflug sjö daga vikunnar, alls 13 ferðir á viku og mikið um aukaflug á álagsdögum. Á síðasta ári má ætla að tæplega 4000 miðar hafi verið seldir en uppgjör síðasta árs liggur ekki fyrir hjá félaginu.

Fræðslu- og kynningarmál
Félagið er aðili að Starfsmenntunarsjóði verslunar og skrifstofufólks. Nokkur fækkun var milli ára á fjölda félagsmanna og lægri styrkupphæð heldur árinu áður. Á síðasta ári fengu 25 félagsmenn starfsmenntastyrki, alls að upphæð kr. 1.142.506.– Upphæð ársins 2016 var 1.553.355- krónur og bak við þá fjárhæð 35 félagsmenn. Í ársbyrjun 2016 tók í gildi nýjar reglur í Starfmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks sem hafði m.a. áhrif á aukin réttindi þeirra sem eru í lægri tekjuhóp. Við viljum minna félagsmenn á að kynna sér fjölmörg önnur réttindi sem eru einnig í boði og nýta það sem til staðar. Starfmenn skrifstofu félagsins liðsinna ykkur með þær upplýsingar og þær má einnig finna á vefsíðu og í kynningarbæklingi Framsýnar sem er uppfærður reglulega. Deild verslunar – og skrifstofufólks hefur ekki almennt staðið fyrir sérstökum fundum fyrir félagsmenn sína, heldur eru haldnir opnir almennir félagsfundir Framsýnar um margvísleg málefni, m.a. kjarasamninga sem og annað fræðsluefni.

Fréttabréf og heimasíðan www.framsyn.is
Stöðugt birtast fréttir á vefsíðu Framsýnar www.framsyn.is úr starfi Félagsins og aðila Skrifstofu stéttarfélagana auk þess sem fréttir um málefni líðandi stundar í samfélaginu slæðist stundum með. Á tveggja mánaða fresti er gefið út Fréttabréf stéttarfélaganna sem dreift er frítt til allra heimila á félagssvæðinu.  Fréttabréfið tekur á helstu málefnum úr starfi stéttarfélaganna. Þar koma m.a. fram upplýsingar til félagsmanna varðandi kjör og starfsemi stéttarfélaganna auk úrdráttur helstu frétta sem birtast á heimasíðunni. Fréttabréfinu er dreift frítt á öll heimili á félagssvæðinu og kemur út á tveggja mánaða fresti.

Málefni skrifstofunnar
Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári sem fyrr. Þar eru starfandi 5 starfsmenn í fullu starfi á skrifstofu og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Mikið álag er á skrifstofu félagsins í tengslum við uppbyggingu á orkufrekum iðnaði á svæðinu auk þess sem talsvert umfang er af sölu flugmiða til félagsmanna eins og má skilja. Tveggja ára samningur við  Aðalstein J. Halldórsson, sem gegnir starfi eftirlitsfulltrúa í iðnaði og ferðaþjónustu auk annarra starfa rennur út nú í mars mánuð og er framhald starfsins til skoðunar. Enn sem fyrr sinnir Ágúst Óskarsson þjónustu VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs í Þingeyjarsýslum, með jákvæðum árangri. Á síðasta ári tókum við í notkun glæsilega og endurbætta skrifstofuaðtöðu á efri hæð hússins. Þar voru sett upp átta ný skrifstofurými auk fundarsalar og starfsmannaaðstöðu. Þegar eru sjö rými í útleigu, leigutakar eru mjög ánægðir með þann aðbúnað og aðstöðu sem boðið er upp á og sambúð fjölbreyttra fyrirtækja gengur vel.

Lokaorð
Með þessari stuttu samantekt hef ég gert grein fyrir því helsta úr starfsemi deildarinnar frá síðasta aðalfundi. Starf deildarinnar sem slíkt, er ekki kraftmikið eða viðburðaríkt en við erum ómissandi í starfi félagsins.  Ég vil hvetja ykkur öll til þess að taka þátt í þeim viðburðum sem í boði eru, láta ykkur umræðu um kjaramál og velferð í starfi máli skipta og koma tillögum og hugmyndum um úrbætur eða fræðslu á framfæri.  Stjórn deildarinnar vill þakka öllum þeim félagsmönnum sem hafa gengt trúnaðarstörfum fyrir félagið, félagsmönnum okkar og starfsmönnum skrifstofu fyrir vel unnin störf og gott samstarf á árinu.

Trausti Aðalsteins var á fundinum og tók þátt í líflegum umræðum um málefni fundarins.

 

Nemendur Borgarhólsskóla í heimsókn

Nemendur 10. bekkjar Borgarhólsskóla komu í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag, 5. febrúar. Þeir fengu fræðslu um starf stéttarfélaganna og hlutverk. Hópurinn var í tvennu lagi. Myndirnar sem hér fylgja með eru af fyrri hópnum.

Mikil þörf hefur verið á vinnuafli hér á svæðinu undanfarin ár. Enda kom það í ljós að drjúgur hluti nemenda voru þegar komin á vinnumarkaðinn.

Eftirlitsferð í Mývatnssveit

Á dögunum var eftirlitsmaður stéttarfélaganna á ferðinni í Mývatnssveit. Meðal annars kom hann við í Hótel Reynihlíð þar sem framkvæmdir standa yfir við stækkun og breytingu hótelsins. Á fjórða tug starfsmanna að vinna við framkvæmdirnar sem munu ljúka í sumar. Flestir þeirra starfa hjá byggingaverktakanum Húsheild frá Hafnarfirði.

Eftir breytingu mun herbergjum hótelsins fjölga nokkuð og allt annað endurnýjað eins og kostur er. Þetta verður því ein alsherjar andlitslyfting fyrir hótelið.

Á myndinni er Aðalsteinn, starfsmaður stéttarfélaganna ásamt Einari verkstjóra og Ólafi framkvæmdarstjóra hjá Húsheild.

Liðtæki ljósmyndarinn

Á efri hæð Garðarsbrautar 26 voru nýlega hengdar upp stækkaðar myndir eftir Hafþór Hreiðarsson. Þær eru afar vel heppnaðar og taka sig vel út á veggjunum.

Í dag kom Hafþór sjálfur við til að taka verkið út og ekki er að sjá annað en að honum hafi líkað vel.

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar

Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar verður haldinn þriðjudagskvöldið 6. febrúar kl. 20:00. Fundurinn verður í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík.

Dagskrá:

  1. Venjulega aðalfundarstörf

Skýrsla stjórnar

Kosning stjórnar

Kosning formanns

  1. Starfsmenntamál- hækkun styrkja til félagsmanna
  2. Erindi og umræða um verslun og þjónustu „Hvernig get ég aðstoðað?“
  3. Önnur mál

Mikilvægt er að verslunar- og skrifstofufólk innan Framsýnar fjölmenni á fundinn og taki þátt í að móta starf deildarinnar.

Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar

 

 

Samiðn skorar á Alþingi að lögbinda ákvæði um keðjuábyrgð og kennitöluflakk

Á fundi sambandsstjórnar Samiðnar föstudaginn 12. janúar afhenti Hilmar Harðarson formaður Samiðnar, Ásmundi Einari Daðasyni ráðherra jafnréttis- og velferðarmála, áskorun fyrir hönd sambandsstjórnar þar sem Alþingi er hvatt til að lögbinda nú á vorþingi ákvæði um keðjuábyrgð og varnir gegn kennitöluflakki.

Jafnframt samþykkti sambandsstjórnin ályktanir um #MeToo og stöðu kjarasamninganna. Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum á aðild að Samiðn. Formðuar félagsins, Jónas Kristjánsson, tók þátt í fundinum fyrir hönd félagsins.

 

Breytingar á sköttum bestar fyrir hátekjuhópana

Um áramót hækkaði persónuafsláttur til samræmis við hækkun á verðlagi undanfarið ár en efri tekjumörk hækkuðu til samræmis við launavísitölu, eins og lög gera ráð fyrir. Alþýðusambandið hefur ítrekað vakið athygli á þessu ósamræmi í framkvæmd skattkerfisins, sem leiðir kerfisbundið til aukins tekjuójafnaðar. Þannig nam hækkun persónuafsláttur 1,9%, hann fór úr 52.907 kr. í 53.895 kr. Á sama tíma hækkuðu tekjumörk í efra skattþrepi um 7,1% og greiðist tekjuskattur í efra skattþrepi nú af tekjum yfir 893.713 krónur á mánuði í stað 834.707 kr. áður.

Þróun persónuafsláttar hefur meiri áhrif á skattbyrði eftir því sem tekjur eru lægri og myndar í raun skattleysismörk að óbreyttu skatthlutfalli, sem líta má á sem fyrsta þrep tekjuskattskerfisins.   Tekjumörk í efra skattþrepi hafa hins vegar einungis áhrif á skattbyrði tekjuhærri hópa. Þannig má segja að tekjumörkin í fyrsta þrepi (skattleysismörkin) hafi um áramót hækkað úr 143.224 krónum á mánuði í kr. 145.899 eða um 1,9% á sama tíma og tekjumörkin í efra þrepi hækkuðu úr 834.707 kr. í 893.713 kr. eða um 7,1%.

Ráðstöfunartekjur hátekjufólks aukast um 78.000 kr. en lág- og millitekjufólks um tæp 12.000
Þetta misræmi veldur því að ráðstöfunartekjur hátekjufólks aukast mun meira en þeirra tekjulægri. Þannig lækkaði sem dæmi staðgreiddur tekjuskattur og útsvar hjá einstaklingi með 350.000 krónur í mánaðarlaun um áramótin úr 71.211 krónum á mánuði í kr. 70.223 krónur og ráðstöfunartekjur þessa einstaklings jukust þannig um 988 krónur á mánuði eða 11.800 krónur á ári sem samsvarar 0,3% aukningu ráðstöfunartekna. Ef litið er á hag þeirra sem eru með tekjur yfir efri tekjumörkunum skattkerfisins, þ.e. yfir 893.713 kr.,lækkar staðgreiddur tekjuskattur og útsvar hins vegar mun meira hjá þeim eða um 6.476 krónur á mánuði. Ráðstöfunartekjur þeirra hækka því um ríflega 77.700 krónur á ári, sem samsvarar t.a.m. 0,9% aukningu ráðstöfunartekna hjá einstaklingi sem hefur 1.000.000 kr. mánaðarlaun.

Sjá nánar á heimasíðu Alþýðusambands Íslands

Flutningur frá Íslandi – hvað þarf að gera?

Hér á starfssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum og raunar á landinu öllu er mikill fjöldi erlends starfsfólks. Flestir eru að vinna við ferðaþjónustu eða við stóriðjuframkvæmdir. Þorri þessa fólks fer aftur frá Íslandi eftir mislanga dvöl á landinu en á þeim tíma hafa allir fengið íslenska kennitölu og flutt lögheimili sitt til Íslands tímabundið. Þegar kemur að því að yfirgefa landið er mikilvægt að standa rétt að málum til þess að lenda ekki í vandræðum síðar meir.
Rétt er að benda á þessa upptalningu Fjölmenningarseturs. Þessi listi er vel tæmandi yfir þau atriði sem þarf að huga að áður en erlent fólk kveður Fróna. Sumt af þessu á ekki við um alla eins og kemur fram á listanum.
Auðvitað er flókið fyrir erlent fólk að hafa sig í gegnum íslenskuna. Við hvetjum því atvinnurekendur til að hlaupa undir bagga með fólki og beina því í réttar áttir. Auðvitað er líka velkomið að koma við eða hafa samband við okkur á Skrifstofu stéttarfélaganna og fá leiðbeiningar.

Þeistareykir í dag

Fulltrúar stéttarfélaganna fóru í hefðbundna eftirlitsferð á Þeistareyki í dag. Mikið vetrarríki er þar efra núna eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og skyggni afleitt.  Raunar var það þannig að það menn töldu sig ágæta að hafa það af heim til Húsavíkur eftir hádegið.

Staðan tekin á sjóböðunum

Í vikunni kom nýr framkvæmdastjóri Sjóbaðanna á Húsavík í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna. Hann heitir Sigurjón Steinsson og tók við sjóbaðaverkefninu síðla árs 2017. Sigurjón kom við til að fara yfir sviðið er varðar kaup og kjör starfsmanna í svona starfsemi og að sjálfsögðu einnig til þess að kynna sig og starfsemina.

Sigurjón segir að ágætur gangur sé á framkvæmdum við sjóböðin og stefnt sé á opnun um miðjan júní í sumar. Óhætt er að segja að hér sé á ferðinni spennandi verkefni sem muni auka afþreyingarmöguleika á Húsavík fyrir ferðamenn sem og heimamenn.

Kosning hafin meðal starfsmanna Jarðborana

Starfsmenn og forsvarsmenn Jarðborana gengu frá vinnustaðasamningi í síðustu viku fyrir almenna starfsmenn sem starfa á borum fyrirtækisins á Íslandi og erlendis. Starfsmenn sem að stórum hluta eru í Framsýn leituðu til félagsins eftir aðstoð við að gera samninginn auk þess sem Jarðboranir voru í sambandi við Samtök atvinnulífsins með aðstoð. Samningurinn liggur nú fyrir og er kominn í atkvæðagreiðslu meðal starfsmanna. Kjörgögnin fóru í póst í gær. Um er að ræða póstatkvæðagreiðslu, starfsmenn geta annars vegar sett atkvæðaseðillinn í kjörkassa sem komið hefur verið fyrir á þeim borum sem eru í gangi á Íslandi eða hins vegar komið þeim á skrifstofu Framsýnar á Húsavík. Samtals eiga 45 starfsmenn rétt á að greiða atkvæði um samninginn.  Atkvæðagreiðslan stendur yfir til 12. febrúar. Kjörstjórn Framsýnar sér um atkvæðagreiðsluna og talningu atkvæða.

 

Volunteering.is

Síðastliðin vetur ákvað ASÍ að setja upp sérstaka vefsíðu fyrir fólk sem hefur í hyggju að koma til Íslands sem sjálfboðaliðar. Það hefur nú verið gert. Á síðunni kemur verkalýðshreyfingin sínum skoðunum á sjálfboðaliðastarfsemi á framfæri en eins og kunnugt er þá eru sjálfboðaliðar í efnahagslegri starfsemi bannaðir á Íslandi. Á síðunni er meðal annars bent á þá staðreynd sem og fólk er hvatt til að gera launakröfur í takt við það starf sem það hefur í hyggju að sinna.

En sjón er sögu ríkari. 

 

Iðnaðarmenn kjósa sér trúnaðarmenn á Bakka

Þingiðn og Rafiðnaðarsamband Íslands stóðu fyrir sameiginlegum fundi fyrir helgina með iðnaðarmönnum sem starfa hjá PCC á Bakka. Tilgangur fundarins var að fara yfir kjaramál, starfsemi iðnaðarmannafélaganna og kjósa trúnaðarmenn fyrir iðnaðarmenn. Fundurinn var málefnalegur og góður. Sigmar Tryggvason og Patryk Marcinkowski voru kjörnir trúnaðarmenn starfsmanna, Patryk fyrir félagsmenn Þingiðnar og Sigmar fyrir rafiðnaðarmenn.

Tæplega 20 iðnaðarmenn verða starfandi hjá PCC á Bakka.

Trúnaðarmaðurinn Patryk Marcinkowski er hér meðal annarra iðnaðarmanna sem komu á fundinn.

Ísleifur Tómasson  og Björn Eysteinsson komu fljúgandi frá Reykjavík til að taka þátt í fundinum en þeir eru starfsmenn Rafiðnaðarsambands Íslands.

Eru Þingeyingar loftlausir?

Formaður Framsýnar fór í hefðbundna eftirlitsferð í Vaðlaheiðargöng í vikunni. Umræður urðu um framkvæmdina við forsvarsmenn aðalverktakans á staðnum og nokkur önnur mál sem tengjast starfsmönnum. Um 100 manns hafa verið við störf við lokafrágang í göngunum og við vegagerð til og frá göngunum. Reiknað er með að göngin verði tekin í notkun á haustdögum sem verður mikilvæg samgöngubót fyrir vegfarendur sem leið eiga um Norðurland.
Í lok samtalsins urðu léttar og óábyrgar umræður um fréttir síðustu daga um að eyfirskt loft komi til með að streyma vegna staðhátta úr Eyjafirði í gegnum göngin yfir í Þingeyjarsýslu. Fulltrúi stéttarfélaganna taldi þetta ekki heillavænlega þróun. Þingeyingar hefðu aldrei verið taldir loftlausir enda stútfullir af heimsins besta lofti, nær væri að beina fersku og ómenguðu lofti úr Þingeyjarsýslu yfir í Eyjafjörð til að bæta heilsufar nágrannanna handan Vaðlaheiðar. Mikilvægt væri að koma upp blásurum í göngunum sem tryggðu Eyfirðingum heilnæmt loft úr austri. Þörfin væri mikil eins og vísan sem Flosi Ólafsson orti á sínum tíma staðfesti:
„Frá Akureyri er um það bil
ekki neins að sakna.
En þar er fagurt þangað til
þorpsbúarnir vakna.“

Framsýn fór í reglubundna eftirlitsferð í vikunni í Vaðlaheiðargöng.

Námskeið um lífeyrismál við starfslok hjá Brú lífeyrissjóði

Brú lífeyrissjóður heldur námskeið um lífeyrisréttindi við starfslok fyrir sjóðfélaga Brúar lífeyrissjóðs, Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar í húsakynnum sjóðsins, Sigtúni 42, Reykjavík, miðvikudaginn 17. janúar næstkomandi.
Á námskeiðinu verður farið almennt yfir helstu lífeyrisréttindi sjóðfélaga, hvar upplýsingar um réttindi er að finna og spurningum svarað sem brenna á sjóðfélögum um lífeyrismál.
Brú lífeyrissjóður rekur þrjár ólíkar deildir með mismunandi réttindakerfum og er námskeiðið því skipt upp eftir því. Takmarkaður fjöldi sæta eru í boði á hvert námskeið og nauðsynlegt að sjóðfélagar skrái þátttöku sína. Námskeið fyrir hverja deild tekur í kringum klukkustund.
Næsta námskeið verður haldið miðvikudaginn 17. janúar næstkomandi.
B deild – Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar – Lífeyrissjóður starfsmanna Kópavogsbæjar kl. 16.30
A deild kl. 17.30
V deild kl. 18.30
Næstu námskeið eftir þetta verða: 21. febrúar, 14. mars og 11. apríl.
Hægt er að skrá sig á námsskeiðið hér.