Af hverju fjölmiðlabann?

Félagsmenn Framsýnar hafa verið að kalla eftir betri upplýsingum um gang kjaraviðræðna Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins en samningar hafa nú verið lausir frá síðustu áramótum. Um næstu mánaðamót losna svo kjarasamningar Starfsgreinasambandsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisjóðs. Innan Framsýnar falla yfir þrjú þúsund félagsmenn undir þessa þrjá kjarasamninga.

Rétt er að taka fram að ríkissáttasemjari setti fjölmiðlabann á samningsaðila og því hefur aðilum ekki verið heimilt að tjá sig um stöðuna í yfirstandandi kjaraviðræðum. Framsýn þykir leitt að geta ekki orðið við kröfum félagsmanna og upplýst þá enda félagið þekkt fyrir gott upplýsingaflæði til félagsmanna í gegnum heimasíðu félagsins auk þess sem fjölmiðlar sækjast eftir að fjalla um skoðanir Framsýnar til kjaramála og tengdra málefna.

Ekki er óalgengt að um 600 manns fari daglega inn á heimasíðuna til að fylgjast með starfsemi félagsins og framvindu mála í kjaraviðræðum samningsaðila. Reyndar er athyglisvert að ríkissáttasemjari telji ástæðu til þess að hefta tjáningarfrelsi samningsaðila þegar ekki sést til lands með undirskrift kjarasamnings. Ekki er óalgengt að sett sé fjölmiðlabann í lok kjaraviðræðna, það er þegar ljóst er að hlutirnir eru að ganga upp og vöfflubros færist yfir samningsaðila. Því miður er staðan ekki þannig í dag og því óeðlilegt að hefta málfrelsi samningsaðila sem eru talsmenn þúsunda félagsmanna sem eru með lausa kjarasamninga um þessar mundir eða eins og einn félagsmaður í Framsýn orðaði það við formann félagsins; Hvað er að þér maður, ert þú búinn að missa málið, af hverju ert þú hættur að tjá þig um baráttunna fyrir bættum kjörum okkur til handa? Því er til að svara, það er fjölmiðlabann.

Útivist í góðu vetrarveðri í Ljósavatnsskarðinu

Það hefur viðrað vel til útivistar norðanlands undanfarna daga. Þótt kuldaboli hafið bitið í kinn hefur sólin bætt það upp með sínu blíðasta brosi og baðað fannhvítt landið geislum sínum. Fegurðin í Ljósavatnsskarðinu svíkur heldur engan og það voru kuldalegir, en glaðbeittir ferðamenn sem nutu náttúrufegurðarinnar á ýmsan máta á slóðum Þorgeirs Ljósvetningagoða í blíðviðrinu um helgina. (Myndir. Ósk Helgadóttir)

Starfsgreinasamband Íslands tekur ákvörðun um áframhald kjaraviðræðna

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur samþykkt að halda viðræðum áfram við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning og verður viðræðum haldið áfram eftir helgi. Aðilar hafa fundað nánast daglega undanfarnar vikur, auk þess sem vinna starfshópa um einstök málefni hefur verið í fullum gangi. Viðræðurnar hafa gengið þokkalega en staðan er viðkvæm og margt er enn óleyst.

Þolinmæði Starfsgreinasambandsins í þessum kjaraviðræðum er ekki endalaus og það er ljóst að næsta vika getur ráðið úrslitum upp á framhaldið.

Reykjavík 8. mars 2019.

Trúnaðarmannanámsskeið 1. – 2. apríl

Dagana 1. og 2. apríl næstkomandi verður haldið trúnaðarmannanámsskeið á Húsavík. Eins og verið hefur er það Félagsmálaskóli Alþýðu sem sér um námsskeiðið og kennari er Sigurlaug Gröndal.

Ár er síðan síðasta námsskeið var haldið en á því var met þátttaka og tókst afar vel í alla staði.

Nú þegar hefur verið opnað fyrir skráningu. Við hvetjum alla trúnaðarmenn til að skrá sig en hægt er að gera það með því að smella hér.

Afsláttarkjör í boði á leiksýningu Leikfélags Húsavíkur

Um þessar mundir er Leikfélag Húsavíkur að hefja sýningar á leikritinu BARPAR. Um er að ræða áhugavert leikrit sem enginn ætti að missa af. Miðaverð er kr. 3000 en Framsýn/Þingiðn/STH hafa ákveðið að niðurgreiða leikhúsmiðana. Þannig fá félagsmenn þessara félaga miðann á kr. 2.000. Skilyrði fyrir því er að félagsmenn komi við á skrifstofu stéttarfélaganna og fái afsláttarmiða áður en þeir fara á leiksýninguna, að öðrum kosti gilda ekki afsláttarkjörin. Miðarnir gilda einungis fyrir félagsmenn.

 

Tímamót – kallaður inn á miðstjórnarfund

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands kom saman til reglulegs fundar í gær í höfuðstöðvum sambandsins í Reykjavík. Þau tímamót urðu að formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, tók þátt í sínum fyrsta miðstjórnarfundi. Það hefur ekki gerst áður að hann tæki þátt í störfum miðstjórnar og er sögulegt framhald af þeirri hallarbyltingu sem varð á þingi Alþýðusambandsins í haust þegar „órólega deildin“ náði fulltrúum inn í miðstjórn og verulegar breytingar urðu á fulltrúum í miðstjórn auk þess sem þrír nýir forsetar voru kjörnir. Aðalsteinn sem kjörin var í varamiðstjórn sambandsins í fyrsta skiptið í haust sat fundinn í forföllum Vilhjálms Birgissonar fyrsta varaforseta ASÍ sem óskaði sérstaklega eftir því að hann yrði kallaður inn sem varamaður fyrir hann.

Til hamingju Efling – réttlætið sigraði

Fé­lags­dóm­ur hef­ur sýknað ASÍ af kröf­um Sam­taka at­vinnu­lífs­ins um að boðun verk­falls Efling­ar hafi verið ólög­mæt. Félagsdómur staðfesti þetta í dag.

SA töldu at­kvæðagreiðslu Efl­ing­ar hafa verið and­stæða lög­um enda verði vinnu­stöðvun, sem ein­ung­is sé ætlað að ná til ákveðins hóps fé­lags­manna, ein­ung­is bor­in und­ir þá fé­lags­menn sem vinnu­stöðvun er ætlað að taka til.

Einnig er vísað til þess að at­kvæðagreiðsla Efl­ing­ar hafi ekki verið póst­at­kvæðagreiðsla í skiln­ingi laga enda var at­kvæða að mestu aflað með kjör­fund­um fyr­ir utan ein­staka vinnustaði.

 

Fullur stuðningur Framsýnar við kjarabaráttu Eflingar

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar samþykkti í morgun að senda frá sér ályktun til stuðnings fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum Eflingar stéttarfélags. Áfram Efling!!

„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir fullum stuðningi við fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir Eflingar-stéttarfélags þann 8. mars 2019. Kjaradeilurnar tengjast kjaradeilu félagsins við SA vegna endurnýjunar kjarasamnings starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi, sem rann út 31. desember 2018. Jafnframt kallar félagið eftir breiðri samstöðu verkafólks um land allt fyrir kröfunni um jöfnuð og mannsæmandi laun.“

Öskudagurinn í máli og myndum

Það er búið að vera mikið stuð hér á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag. Það er eining um það meðal starfsfólks að aldrei hafi jafn margir komið og sungið á Öskudaginn eins og nú í ár. Sérstaklega var eftirtektarvert hvað margir stórir hópar barna sungu í dag, sannkallaður kórsöngur. Sömuleiðis voru óvanalega margir foreldrar með í för þetta árið sem er ánægjuleg breyting.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir af prúðbúnu fólki sem söng á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag sem og öðrum skrautlegum gestum.

Á ferðinni í Mývatnssveit

Fulltrúi Framsýnar var á ferðinni um Mývatnssveit á dögunum. Heimsótti hann vinnustaði þar sem hann tók nokkrar myndir sem sjá má hér að neðan.

Í Vogafjósi fór fram kosning á nýjum trúnaðarmanni. Fyrir valinu varð Eva Humlová en hún hefur starfað í Vogafjósi um nokkurra ára skeið. Við óskum Evu til hamingju með nýja titilinn og bjóðum hana velkomna til starfa.

Annars var blíðskaparveður í Mývatnssveit eins og sjá má. Frostið ekki nema ein gráða sem þykir hlýindi á þessum árstíma þar efra.

Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir og Kristinn Björn Haraldsson en þau starfa hjá Jarðböðunum hf.
Hádegismatur eldaður í Jarðböðunum.
Farið yfir stöðuna!
Eva Humlová, nýr trúnaðarmaður Framsýnar í Vogafjósi ásamt Aðalsteini J. Halldórssyni frá Framsýn.
Starfsmannafundur í Vogafjósi

Framsýn ályktar – Matvælaöryggi og lýðheilsa fólks í hættu í boði stórkaupmanna

Miklar og heitar umræður urðu á stjórnarfundi Framsýnar sem lauk rétt í þessu vegna frumvarps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þess efnis að heimilaður verði innflutningur á hráu ófrosnu kjöti, ferskum eggjum og ógerilsneiddum mjólkurvörum. Framsýn telur augljóst að ráðherra sé að þóknast vilja stórkaupmanna með þessu dæmalausa frumvarpi. Í lok fundar var samþykkt að félagið sendi frá sér svohljóðandi ályktun um framkomið frumvarp sjávar- og landbúnaðarráðherra um að heimila innflutning á hráu ófrosnu kjöti og ferskum eggjum. Þess ber að geta að fjöldi fólks starfar beint eða óbeint við íslenskan landbúnað á Íslandi, ekki síst á landsbyggðinni.

„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir vonbrigðum með framkomið frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þess efnis að heimilaður verði innflutningur á hráu ófrosnu kjöti, ferskum eggjum og ógerilsneiddum mjólkurvörum. Sú hætta sem stafar af slíkum gjörningi ætti að vera öllum ljós, enda hafa okkar helstu sérfræðingar í smitsjúkdómum og sýklafræðum ítrekað varað við aukinni hættu á sýklalyfjaónæmi og bent á að það væri mesta ógn við lýðheilsu í heiminum í dag.

Þá vita allir sem vita vilja að íslenskur landbúnaður er mikilvægur til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og viðhalda byggð í landinu. Gæði íslensks landbúnaðar eru óumdeild, þau hafa sérstöðu, jafnvel í alþjóðlegu samhengi þar sem tekist hefur að verja búfjár­stofna landsins fyrir utanaðkomandi sjúk­dóm­um.

Verði frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að veruleika þýðir það fullkomna uppgjöf í baráttu okkar Íslendinga fyrir því að verja lýðheilsu þjóðarinnar og íslenskra búfjárstofna.

Framsýn stéttarfélag mótmælir því harðlega að stjórnvöld gangi jafn augljóslega erinda fjársterkra stórkaupmanna gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar og taki viðskiptahagsmuni fram yfir matvælaöryggi og lýðheilsu. Félagið skorar á sjávar- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að samið verði um breytingar á EES samningnum sem heimila íslensku þjóðinni að viðhalda sérkennum íslensks landbúnaðar og árétta þar með skyldur stjórnvalda að viðhalda matvælaöryggi þjóðarinnar. Hreinleikinn er aðalsmerki íslensks landbúnaðar og þannig viljum við hafa það um ókomna tíð.“

Ráðherra horfir algjörlega fram hjá því að helstu sérfræðingar í smitsjúkdómum og sýklafræðum hafa ítrekað varað við aukinni hættu á sýklalyfjaónæmi og bent á að það væri mesta ógn við lýðheilsu í heiminum í dag. Þess í stað hlustar hann á áróður stórkaupmanna sem er mikið áhyggjuefni.

Tekist á um kjaramál og önnur mál á yfirstandandi stjórnarfundi

Nú stendur yfir stjórnarfundur í Framsýn en hann hófst kl. 17:00. Fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins. Eðlilega er staðan í yfirstandandi kjaraviðræðum aðal mál fundarins. Önnur mál sem eru til umræðu eru; Málefni Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, innflutningur á fersku kjöti, könnun á viðhorfi fólks til starfsemi Framsýnar, hækkanir sveitarfélaga og orlofskostir sem bjóðast félagsmönnum í sumar. Reyndar eru þetta helstu mál fundarins en þau eru fleiri.

 

Sprenging í komum flutningaskipa

Ljóst er að verksmiðja PCC á Bakka hefur haft mjög jákvæð áhrif á atvinnulífið á svæðinu ekki síst þar sem ferðaþjónustan hefur verið að gefa aðeins eftir en vonandi nær hún sér sem fyrst aftur á strik. Það er ekki bara að um 140 manns starfi á Bakka heldur hafa skapast fjölmörg afleidd störf á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Þá má geta þess að sprenging hefur orðið í komum flutningaskipa til Húsavíkur. Árið 2013 komu 3 flutningaskip til Húsavíkur en árið 2018 komu 64 flutningaskip til hafnar á Húsavík. Samkvæmt upplýsingum frá Húsavíkurhöfn er reiknað með frekari aukningu á þessu ári eða um 80 flutningaskipum. Flestar komur flutningaskipa tengjast starfsemi PCC á Bakka.

Yfir sama tímabil hefur komum skemmtiferðaskipa einnig fjölgað. Árið 2013 komu 6 skemmtiferðaskip til Húsavíkur en árið 2018 komu 41 skemmtiferðaskip til Húsavíkur. Á árinu 2019 er reiknað með heldur færri skemmtiferðarskipum eða um 30 skipum. Á árinu 2020 er síðan spáð að skemmtiferðaskipum fari aftur fjölgandi en þegar hafa 33 skemmtiferðaskip boðað komu sína og það mun stærri skip en komið hafa til Húsavíkur áður. Í því sambandi má geta þess að von er á skipi sem er 231 metrar að lengd og um 45.000 brúttó tonn auk skipa sem eru heldur minni en samt stór. Ekki er ólíklegt að opnun Dettifossvegar með bundnu slitlagi eigi eftir að fjölga skipakomum til Húsavíkur enn frekar enda opnast þá einn fallegasti hringur landsins hvað náttúrufegurð varðar og þá skemmir ekki fyrir að fallegasta fólkið á Íslandi býr í Þingeyjarsýslum. Það verður því mikið að sjá fyrir erlenda ferðamenn sem hingað koma með skemmtiferðaskipum eða eftir öðrum leiðum þegar nýr og glæsilegur vegur opnast yfir öræfin milli Mývatnssveitar og Kelduhverfis.

Cargo Cruise Samtals
2013 3 6 9
2014 4 7 11
2015 27 14 41
2016 37 20 57
2017 72 33 105
2018 64 41 105
2019 80 30 110 Áætlun

Áhugaverðar upplýsingar. Alls komu 9 skip til Húsavíkur árið 2013. Á árinu 2019 eru áætlaðar 110 skipakomur til Húsavíkur.

Hér má sjá þróunina á skipakomum til Húsavíkur í súluriti.

Ekki er ólíklegt að skemmtiferðaskipum komi til með að fjölga enn frekar á næstu árum, ekki síst með tilkomu nýja Dettifossvegarins sem verður með bundnu slitlagi í stað gamla vegarins sem oft á tíðum hefur ekki verið ökufær venjulegum bílum.

Mörg dæmi eru um að skip hafi þurft að bíða eftir því að komast að bryggju á Húsavík vegna umferðar skipa um höfnina með vörur og ferðamenn.

Selfoss að losa og lesta á Húsavík. Meðan biðu tvö önnur skip eftir því að komast að bryggju.

Unnið hefur verið að því að klára Dettifossveginn með hléum undanfarin ár. Margir eru farnir að bíða eftir því að verkið klárist sem mun án efa hafa mjög góð áhrif á ferðþjónustuna í Þingeyjarsýslum og fjölga komum skemmtiferðaskipa til Húsavíkur.

Einn fallegasti foss í heimi, svo einfallt er það, Dettifoss.

Frábær samstaða hjá Eflingar fólki

Boðað verk­fall hrein­gern­ing­ar­fólks á hót­el­um 8. mars var samþykkt með 89% at­kvæða í at­kvæðagreiðslu Efl­ing­ar sem lauk í gærkvöldi.

Fram kem­ur í frétta­til­kynn­ingu að 862 hafi greitt at­kvæði og þar af hafi 769 samþykkt verk­fallið, 67 greitt at­kvæði gegn því og 26 ekki tekið af­stöðu. Á kjör­skrá voru 7.950 manns og var þátt­taka því rétt tæp 11%.

Enn frem­ur seg­ir að verk­falls­boðunin telj­ist þar með samþykkt og verði af­hent Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins og rík­is­sátta­semj­ara á morg­un, 1. mars.

Efl­ing hyggst á morg­un til­kynna um víðtæk­ari verk­fallsaðgerðir sem verða sam­stillt­ar með VR og ná lengra fram í tím­ann. (frétt þessi byggir á frétt mbl.is)

Samninganefnd SGS ályktar um hækkanir sveitarfélaga

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands skorar á sveitarfélög landsins að standa undir þeirri ábyrgð sem þau bera vegna kjarasamninga. SGS krefst þess að sveitarfélögin haldi aftur af kostnaðarhækkunum og hækkunum á margvíslegum þjónustugjöldum og velti ekki auknum kostnaði yfir á almennt launafólk. Sjálfvirkar hækkanir á fasteignagjöldum í fjölmörgum sveitarfélögum eru algerlega óásættanlegar og bitna harðast á þeim sem síst skyldi.

Það þurfa allir í samfélaginu að taka höndum saman um að bæta afkomu þeirra lægst launuðu í samfélginu og tyggja þeim raunverulegar kjarabætur.

Þannig samþykkt á samningafundi SGS 27. febrúar 2019.

Stjórn Framsýnar fundar – breyting á fundartíma

Stjórn Framsýnar kemur saman til fundar mánudaginn 4. mars kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Stjórn Framsýnar-ung er einnig boðið að sitja fundinn.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Aðalfundur félagsins
  4. Rekstraráætlun skrifstofu stéttarfélaganna árið 2019
  5. Staðan í kjaraviðræðum SGS og SA
  6. Staðan í kjaraviðræðum Framsýnar við PCC
  7. Málefni Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga
  8. Aðalfundur DVS innan Framsýnar
  9. Innflutningur á kjöti-hættur sem því fylgja
  10. Erindi frá Leikfélagi Húsavíkur
  11. Könnun á viðhorfi fólks til starfsemi Framsýnar
  12. Svar frá VIRK varðandi erindi Framsýnar
  13. Formannsskipti í ASÍ-UNG
  14. Orlofsmál
    1. Framboð sumarið 2019
    2. Leiguverð orlofshúsa/íbúða
    3. Lagfæringar á sumarhúsi í Dranghólaskógi
    4. Orlofshúsið á Illugastöðum/rekstur-aðalfundur
  15. Önnur mál

Ekkert um okkur án okkar!

Stjórn ASÍ-UNG hafnar alfarið órökstuddri aldursbundinni mismunun og ætlast til þess að byrjunarlaun miðist við 16 ára aldur.

Í núverandi kjarasamningum Sam­taka at­vinnu­lífs­ins við stéttarfélög verkafólks og verslunarmanna (innan ASÍ) er kveðið á um að starfs­menn undir 20 ára séu á lægri taxtalaunum en þeir sem eldri eru.

Stjórn ASÍ-UNG telur óheimilt að mismuna einstaklingum sem sinna sömu eða jafnverðmætum störfum vegna aldurs.

ASÍ-UNG krefst þess að Samtök atvinnulífsins færi byrjunarþrepið niður í 16 ár og gæti þannig jafnræðis á vinnumarkaði.

Rétt er að taka fram að Framsýn tekur heilshugar undir með ASÍ-UNG um að ekki eigi að mismuna einstaklingum eftir aldri varðandi taxtalaun á vinnumarkaði.

 

Páskaúthlutun orlofsíbúða 2019

Umsóknir um orlofsúthlutunum fyrir íbúðirnar um páskana hafa verið opnaðar.

Umsóknartímabilið er frá mánudeginum 15. apríl til og með sunnudagsins 23. april.

Umsóknir berist í tölvupósti til linda@framsyn.is. Einnig er hægt að skila umsóknum á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Umsókarfrestur er til mánudagsins 11. mars.

Ánægjulegt samstarf við PCC

PCC BakkiSilicon hf. og stéttarfélögin Þingiðn og Framsýn hafa tekið upp samstarf um að hluti af nýliðafræðslu starfsmanna fyrirtækisins verði að hlýða á fyrirlestur frá starfsmönnum stéttarfélaganna um vinnurétt og samskipti á vinnustöðum. Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að nýir starfsmenn geri sér grein fyrir sínum helstu réttindum og ábyrgð þeirra gagnvart fyrirtækinu. Fyrsti fyrirlesturinn var í morgun kl. 08:00 þegar Aðalsteinn J. Halldórsson starfsmaður stéttarfélaganna var mætur á svæðið og messaði yfir nýjum starfsmönnum sem eru um þessar mundir að hefja störf hjá PCC á Bakka.

Starfsmenn voru áhugasamir um fyrirlesturinn og spurðu mikið út í efni fundarins.

Aðalsteinn J. messaði yfir starfsmönnum PCC í morgun.